
Bílafælin fegurðardís
Þá er þessi blauti og kaldi vetur búinn, alla vega að nafninu til. Sumarið komið, jafnblautt og kalt, ef marka má sumardaginn fyrsta. En hvað er betra en íslenskt sumar, ferskt og svalandi?
Á sumardagskránni er aðallega þetta: útivist og ferðalög í húsbílnum góða og framkvæmdir á svölum hússins. Planið er að fara í a.m.k. tvær gönguferðir með Heiðari og Signe auk hefðbundinna útilega með systrum mínum og Sossu, og að ferðast um Vestfirði í fylgd Einars og Gyðu (og Bessa). Einnig ætlum við í styttri ferðir á húsbílnum og þá reynir á Arwen Dís Brynjarsdóttur að vera til friðs þar til komið er á áfangastað. Hún vælir enn í bílnum, þessi elska, sem er stóralvarlegt mál þar sem við getum ekki haft hana með okkur í 3-6 tíma keyrslu á dag ef hún er ýlfrandi allan tímann.
Heima við þarf hins vegar bæði þarf að laga svalagólf og vegg og setja upp handrið, fjárfrekar og flóknar framkvæmdir sem hafa lengi setið á hakanum. Annasamt og skemmtilegt sumar framundan.