DeNiro og Þjófaborg

Kuldi og vosbúð

Kuldi og vosbúð

Miklar annir eru nú við viðhald og viðgerðir á íbúð á neðri hæð hússins sem verður til leigu frá 1. júní. Ég hef þó gefið mér tíma til að lesa nokkrar línur á kvöldin áður en ég dett út af með sementsrykið í hárinu. DeNiro og ég eftir Rawi Hage gerist í Beirút á stríðstímum (það var oft sagt um  herbergið hans Óttars meðan ég var að reyna að ala hann upp í guðsótta og góðum siðum að það líktist nákvæmlega þeim stað á þeim tíma) og fjallar um þá hlið stríðsins sem snýr að hinum almenna borgara. Ég horfi núorðið sárasjaldan á sjónvarpsfréttir og er einhvern veginn dofin fyrir hörmungum, mannfalli og sprengingum. Þarna er dauðinn sífellt yfirvofandi, frumskógarlögmálin ráða, spilling, eiturlyf og manndráp viðtekin venja. Oft er vatnslaust og rafmagnslaust, skóla- og heilbrigðiskerfi í lamasessi og fólkið firrt og vondauft. Grimmdarleg saga, sums staðar spretta fram ljóðrænir kaflar eins og skrattinn úr sauðarleggnum og sagan endar í algjörri geðveiki. Þjófaborg eftir David Benioff er á svipum slóðum, umsátursástand ríkir í Leníngrad í seinni heimstyrjöldinni og óbreyttir borgarar svelta eða drepast úr kulda. Afi sögumanns, sem var á staðnum, segir söguna í nafni gyðingadrengsins Lev sem lendir í illræmdu fangelsi en getur bjargað lífi sínu með að útvega 12 egg í brúðkaupsveislu dóttur ofursta nokkurs. En egg liggja ekki á lausu frekar en annað matarkyns í borginni þar sem dúfur, hundar, rottur og jafnvel menn enda í pottinum og haldið er partí ef einhver á hálfan lauk. Með Lev í þessari hættuför er Kolja, frábær karakter, liðhlaupi og gamansamur raupari, og saman lenda þeir í ótrúlegustu ævintýrum, glíma við mannætur, skæruliða og þýska hermenn. Snilldarsenur og tilvaldar í bíómynd, maður finnur hungrið og kuldann algjörlega á eigin skinni og svo er húmorinn frábær, ég elska allt sem er eitthvað svona rússneskt!

Grimmdarleg saga

Grimmdarleg saga

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s