Ég var að lesa tvær bækur sem báðar eru um tvíbura. Önnur heitir einfaldlega Tvíburarnir og kom út 2007. Hún er eftir Tessu de Loo (f. 1946), hollenskan rithöfund búsettan á Spáni. Þar segir frá tvíburasystrum, Önnu og Lottu, sem skiljast að þegar þær eru 6 ára, önnur verður eftir í Hollandi en hin flytur til Þýskalands. Heimstyrjöldin síðari brýst út og báðar ganga þær í gegnum miklar hörmungar. Þær hittast svo aftur á heilsuhæli á gamals aldri og þá er óumflýjanlegt að gera fortíðina upp. Fín saga, var kvikmynduð 2003. Hin bókin er frá níunda áratug síðustu aldar Á Svörtuhæð eftir Bruce Chatwin, efnilegan enskan rithöfund sem skrifaði bæði skáldsögur og ferðasögur, en lést tæplega fimmtugur úr eyðni 1989. Bók hans fjallar um tvíburabræðurna Lewis og Benjamin sem búa á afskekktum sveitabæ í Wales og foreldra þeirra. Þetta er ljúfsár saga, um átthaga, nostalgíu, glötuð tækifæri, bræðrabönd og kærleika. Svo var þáttur í útvarpinu í dag þar sem verið var að fjalla um snilldartónlist blindu bræðranna úr Vestmannaeyjum, þeirra Gísla og Arnþórs. Smellpassaði í þemað.