„Daginn eftir fór ég á puttanum austur á Þórshöfn. Ég fékk far með frönsku pari sem var á hringferð um landið. Þau töluðu sáralitla ensku og ég enn minni frönsku svo það var frekar lítið um samræður á leiðinni. Þau settu mig úr við Gistiheimilið Lyngholt en þar átti ég pantaða gistingu. Herberginu fylgdi aðgangur að eldhúsi svo ég gat hitað kaffi og eldað sjálfur ofan i mig. Þetta var í fyrsta skipti sem ég kom til Þórshafnar svo ég ákvað að fara í göngutúr um plássið og skoða mig dálítið um. Skammt frá höfninni uppgötvaði ég gamla sundlaug sem var að grotna niður. Laugin var hálffullaf brotnum hörpudiski og hafði greinilega ekki verið notuð lengi, litlir steinsteyptir búningsklefar voru enn uppistandandi og allt krökkt af flugum og minningum á sveimi (42).“
Skuggamyndir úr ferðalagi eftir Óskar Árna Óskarsson er afar hugljúf og falleg bók, bara alltof stutt. Vonandi verður eitthvað gert fyrir gömlu sundlaugina á Þórshöfn. Hún var byggð 1940 fyrir framlög fólksins í þorpinu og mektarmenn gáfu lóðina.
Alltaf jafn fyndið þegar fólk slær um sig með „plássið“.