Í gærkvöldi fórum við Sossa á leikritið Munaðarlaus eftir Dennys Kelly (breskt leikritaskáld) sem sýnt er í salnum í Norræna húsinu. Þetta er hörkuleikrit, keyrt áfram án hlés í einn og hálfan tíma. Þrjár persónur takast á í þröngu rými, tengsl þeirra og stórar siðferðislegar spurningar koma fram í samtölum á milli þeirra: uppgjör, ásakanir, slitróttar setningar, misvísandi skilaboð, beiskja, höfnun; slettur, frammígrip, æsingur, hver talar ofaní annan, misskilja eða leiða talið að öðru. Hér er meðvirkni, öryggisfíkn, samviska, réttlæti, rasismi, stéttaskipting, fjölskyldubönd, ofbeldi og ást. Helena og Danni búa saman og eiga fimm ára gamlan son Þau búa í fallegri íbúð í „fokking skítahverfi“ í stórborg, þau hafa góða vinnu og lifa sínu fjölskyldulífi innan um ofbeldi götunnar. Bróðir Helenu, Ívar, er í vondum málum og birtist eitt kvöldið á stofugólfinu hjá þeim, alblóðugur. Þau systkinin urðu ung munaðarlaus og hefur Helena haldið hlífiskildi yfir bróður sínum alla ævi. Eftir því sem líður á leikritið sést betur og betur hvaða mann persónurnar hafa að geyma og það er ekki fagurt. Verkið er þýtt á hispurlaust talmál sem svínvirkar, fokk og sorrí í öðru hverju orði auka á trúverðugleikann. Þrír ungir leikarar fara með hlutverkin og eru allir upprennandi snillingar. Vignir Rafn Valþórsson þýðir og leikstýrir (gamall MK-ingur). Magnað leikrit, hrátt og átakanlegt, sem allir ættu að sjá, örfáar sýningar, sjá HÉR.
Ps. hlusta á Lostafulla listræningjann á rúv í dag kl. 14.30.
Ath kostar bara 2000 kall inn.