Hringferð blóðsins

Ég sótti fyrri hluta málþings hjá Félagi um átjándu aldar fræði í dag en félagið er að hefja sitt 17. starfsár. Finnst líka mjög langt síðan ég sat stofnfund félagsins og tók sæti í stjórninni sællar minningar. Þema þingsins að þessu sinni var læknavísindi og heilbrigðismál, miklu meira spennandi en það kannski hljómar. M.a. fjallaði Örn Hrafnkelsson um Jón Magnússon (1662-1738), bróður Árna handritasafnara, sem skrifaði m.a. íslenska málfræði og lækningabókina Praxis Medica úr hálærðum bókum samantekin. Jón var mikill lærdómsmaður en féll í hórdóm nokkrum sinnum og var dæmdur til dauða en náðaður. Rithönd hans er jöfn og fögur og hann skrifaði margt fyrir Árna bróður. Bók hans var aldrei prentuð en gekk manna á milli í afskriftum. Hún byggir á svokölluðum raunlækningum, þe. ekki á alþýðutrú um fullt tungl, kattargall og hár úr höfði hengds manns. Þar segir m.a. svo skemmtilega:  „Hringferð blóðsins er óaflátanleg…“ og þar eru gefin ráð við þungum andardrætti kvenna (smyrja kremi á hnakkann á þeim). Bragi Þ. Ólafsson sagði frá bókinni Yfirsetukvennaskólinn sem út kom 1749 og fjallar um fæðingar, með frábærum lýsingum og skýringarmyndum. Þar fjalla menntaðir miðaldra karlar í yfirstétt um fæðingarreynslu kvenna. Ólöf Garðarsdóttir sagði m.a. frá fyrstu ljósmóðurinni, Margarítu Magnússen, sem hafði mikil áhrif á að konur gæfu nýfæddum börnum sínum brjóst. Það dró verulega úr ungbarnadauða sem var mun meiri hér en á hinum Norðurlöndunum. Kannski ekki furða þegar ráðlagt var í handbókum og af landlækni að gefa nýburum mysu fyrstu 2 vikurnar. Á þinginu sagði Örn Hrafnkelsson frá stafrænu handritasafni á netinu sem verið er að vinna að og verður spennandi að fylgjast með því.

Ein athugasemd

  1. Gott að erindin eru eitthvað að glæðast hjá félaginu, undanfarið hefur þetta verið voðalega óspennó eitthvað…Ferð þú ekki bara að troða upp?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s