Örstutt skáldsaga eftir Ian McEwan, gerist snemma á sjöunda áratugnum, s.s. fyrir kynlífsbyltinguna svonefndu. Ung og nýgift hjón eru að ljúka málsverði á hóteli og brúðkaupsnóttin er framundan. Bæði eru reynslulaus og fáfróð um kynlíf. Hverjum (hvaða kalli?) datt eiginlega í hug að hjón ættu að sofa saman fyrst á brúðkaupsnóttina og að konan ætti að vera hrein mey? Á þessum tíma er kynlíf tabú og unga parið er ótrúlega bælt og þvingað og hrætt við að tala um tilfinningar sínar. Misskilningur, ólíkar væntingar, misvísandi skilaboð o.fl. valda því að tilvera þeirra beggja umturnast þessa nótt. Sagan líður afar hægt, lýsingarnar eru afar nákvæmar, samtölin stirð og þrungin ótta og feimni, fortíð og nútíð spinnast saman og spennan í loftinu er áþreifanleg. Það er ótrúlega pirrandi hvað persónurnar eru þvingaðar og þrjóskar og eiga erfitt með samskiptin en í því er snilldin fólgin. Sorgarsaga sem nístir í merg og bein.
Já, það er alltaf hálf-óþægilegt að lesa bækurnar hans, þau verða svo áþreifanleg, glötuðu tækifærin sem koma aldrei aftur.