Skólakerfið

Ýmislegt um menntamál á Íslandi

Undarleg börn lesa línurit

„Börn eru ekki vasaútgáfa af fullorðnu fólki. Þau hugsa ekki kerfisbundið. Það sem okkur þykir merkilegt, skiptir engu í þeirra augum. Þau verða að sjá atburði í myndum, og þeir verða að vekja hjá þeim tilfinningar. Einhver taldi nauðsynlegt fyrir börn að læra að búa til línurit. Það hljóta að vera undarleg börn, sem eru sólgin í að læra fróðleik af línuritum.“

Oddný Guðmundsdóttir

frá Hóli á Langanesi

Orðaleppar og aðrar ljótar syrpur 1983

Sumarkveðja

Ég hef kennt íslensku í 50% starfi í vetur samhliða endurmenntun í upplýsingatækni í skólastarfi. Nemendur mínir halda nú á vit nýrra ævintýra og sumir senda kennaranum sínum sumarkveðju:

Takk sömuleiðis fyrir önnina. Mjög ánægður með aðferðinar þínar! Fólk má fá hrós ef það á það skilið. Setur kröfur og ert sanngjörn. Mér fannst bara gaman í íslensku á þessari önn 🙂

Gullkorn

Ég sakna stundum míns fyrra starfs sem kennari en það líður hjá þegar ég hugsa til ritgerðasmíða nemenda. Ég rakst um daginn á nokkur gullkorn úr ritgerðum fyrrum nemenda minna:

…meðan faðir hennar liggur rænulaus í gröfinni

Höfundur talar í þriðju persónu eins og myndavél

Þá festist hann milli steins og sleggju

Danir sviku Íslendinga með mauróttu mjöli

Svo fór hann á eigin fótum í skóla á Bessastöðum

Þegar Salka Valka og Sigurlína komu til Óseyrar voru allar eigur þeirra í einum plastpoka

„Úttekt“ á framhaldsskólum

Ég er búin að skoða svokallaða „úttekt“ á framhaldsskólum sem tímaritið Frjáls verslun hefur búið til eða látið búa til og auglýsir grimmt þessa dagana. Hún er óttalegt bull frá byrjun til enda og gefur bæði einhæfa, villandi og takmarkaða sýn á íslenska framhaldsskóla. Segir það eitthvað stórkostlegt um skóla og skólastarf að hafa unnið þýskuþraut, söngkeppni, Morfís eða Gettu betur? Eða hvað margir umsækjendur eru um hvert pláss? Það væri beinlínis óeðlilegt ef MR sem er efstur skv. stigagjöf í „úttektinni“ kæmi ekki „best“ út, m.v. hvað mörg prik eru gefin fyrir að vinna í keppni, fyrir utan að í þeim skóla eru frekar fáir nemendur teknir inn, valdir eftir einkunnum, inn á tvær stúdentsbrautir? Hvaða tíðindi eru það að bestu bóknámsnemendurnir standi sig best? Ekki viljum við að allir framhaldsskólar séu eins og MR, með fullri virðingu fyrir honum? Breyturnar í „úttektinni“ gefa einfaldar, flatar og fyrirfram ákveðnar niðurstöður. Ég vona að fólk kynni sér þetta vel, kokgleypi ekki vitleysuna eða tyggi hana upp úr Frjálri verslun.

Tíu bestu

Í morgun voru „tíu bestu framhaldsskólarnir“ listaðir upp í Fréttablaðinu eftir því hversu vel þeir standa sig í Morfís, Gettu betur, eðlisfræðikeppni, frammistöðu í íþróttum og menntun kennaranna. Í sjónvarpinu í kvöld var spjallað við fólk á elliheimili. Í ljós kom að margir þjást af þunglyndi og að aðbúnaður er mjög misjafn.  Mér þætti gaman að sjá lista yfir 10 bestu elliheimilin á landinu í blaðinu á morgun.

Hótel Hekla

Yndislegt sveitahótel

Ég var á námskeiði í síðustu viku um menntun til sjálfbærni (sjá td. hér), bæði fróðlegt og skemmtilegt. Námskeiðið var haldið á Hótel Heklu á Skeiðunum, frábæru sveitahóteli sem ég verð að mæla með. Þar er allt í þægilegum kántrístíl, starfsfólkið elskulegt og skemmtilegt og maturinn alveg frábær. Ég er enn að hugsa um rauðsprettuna og mangóísinn góða með rósapiparnum, þvílík veisla. Þarna var mikið pælt í framtíðarmöguleikum Íslands og heimsins alls í hátækniheimi neyslu- og gróðahyggju, virkjunum, mengun, velferð og lýðræði; djúpar pælingar í gangi og hlutverk þátttakenda er að huga að þessu hugtaki, sjálfbærni, (sem er síður en svo einfalt mál) í námskrárgerð fyrir framhaldsskóla framtíðarinnar.

Niðurskurður

Í Menntaskólanum í Kópavogi á að skera niður í rekstri um 65 milljónir króna skv. fjárlögum. Það þýðir að það þarf að segja upp 10 kennurum og hafna um 100 umsóknum nemenda. Hvað fara þessir kennarar að gera? Þeir fara flestir á atvinnuleysisbætur. Hvað gerir þetta unga fólk sem hvergi fær skólavist? Það er viðbúið að það fari flest á atvinnuleysisbætur, hangir svo í tölvunni og yfir sjónvarpinu, leiðist út í afbrot og fíkniefni, þunglyndi og örvæntingu. Er öruggt að þetta sé einhver sparnaður þegar horft er til lengri tíma? Það eru nógir peningar til, er etv hægt að hagræða og nota peningana skynsamlegar í stað þess að skera niður?

Niðurskurður

Langflottastur

Menntaskólinn í Kópavogi

Í Menntaskólanum í Kópavogi eru einstaklega góðir kennarar með mikinn metnað og trausta þekkingu á sínu fagi. Löngum hefur raungreinakennslan verið eitt af flaggskipunum, kennararnir reyndir og vinsælir, aðstaðan til fyrirmyndar og nemendur fá 2 verklega tíma aukalega í hverri viku til að gera tilraunir í eðlis- og efnafræði, líffræði og náttúruvísindum. Nemendum MK hefur vegnað mjög vel í raunvísindum á háskólastigi. En nú er komið að því að spara enn og aftur í MK, okkur er uppálagt að skera niður um 23 milljónir á þessu ári. Þar sem búið er að halda skólanum í helgreipum árum saman er ekki af miklu að taka en viðbúið er að þessir verklegu tímar verði meðal þess sem verður látið fjúka. Það er veruleg eftirsjá að þeim en það er sárt þegar maður veit að sama upphæð verður sett í að borga einhverjum embættismönnum blóðug biðlaun eða starfslokagreiðslur þegar þeir eru látnir fara vegna vanrækslu sinnar, græðgi og sérgæsku.