Skólakerfið

Ýmislegt um menntamál á Íslandi

Virkja nemendur til dáða

Mér er hugleikið að virkja nemendur framhaldsskóla til dáða, bæði í kennslustundum og til lýðræðislegrar þátttöku í skólastarfi til framtíðar. Ég rakst í morgun á rannsókn um þetta efni og niðurstöðurnar eru skýrar:

„Ef kennari sækist eftir virkri þátttöku nemenda er mikilvægt að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir til að ná til sem
flestra nemenda. Rannsóknir hafa sýnt að nemendamiðaðar aðferðir hafa jákvæðari áhrif á virkni nemenda í námi heldur en kennarastýrðar aðferðir. Höfundur telur í þessu sambandi að virkniathafnirnar að vinna verkefni og spyrja kennara spurninga, sem voru algengustu athafnir nemenda í kennslustundunum, sýni ekki nægilega fjölbreytta virkni
nemenda. En ég tel að jákvætt viðmót kennara, sem kom fram í 87% virknistundanna, og hinir athafnaflokkarnir þrír, hlýlegt viðmót, skýr fyrirmæli og hvetjandi kennari, hafi góð áhrif á virkni nemenda í kennslustundum.“

Þetta kemur fram í meistararitgerð Heiðrúnar Hafliðadóttur (f. 1991) frá 2019 sem má finna hér. Á vorönn hef ég tekið starfsmannasamtöl í FVA en það er í fyrsta skipti sem ég geri slíkt á ævinni. Það er afar fróðlegt og gagnlegt og skemmtilegt. Ég hef skrifað hjá mér á sérhannað eyðublað punkta meðan á spjalli stendur og setti inn dálk sem heitir Ákvarðanir teknar sem hefur minnt mig á að fylgja því eftir sem fram kemur og ákveðið er í samtalinu. Sem nýr skólameistari hafði ég alltaf hugsað mér að vera sem mest á ferðinni í skólanum, innan um nemendur og kennara. Því miður er ég að mestu föst við skrifborð og hef ekkert getað litið inn í kennslustofur eins og mig dreymir um, og kófið gerði alveg út um þann draum. Ég hugsaði með mér á dögunum að starfsmannasamtöl væru góð og gild – annað hvert ár, en á móti vildi ég fara í kennslustofur og sjá kennara að störfum og boða mitt fagnaðarerindi um lýðræði og virka þátttöku. Við lestur ritgerðar Heiðrúnar fann ég einmitt fínasta eyðublað sem ég get notað í þessum tilgangi næsta skólaár svo nú er mér ekkert að vanbúnaði.

Góður dagur.

Skóli framtíðarinnar er opinn og bjartur og nemendur sjálfstæðir og lausnamiðaðir

Bjartsýni í banninu

Fólk-verður-að-hafa-farveg-fyrir-faglegan-metnað-sinn_1_Steinunn-Inga-ÓttarsdóttirMikilvægt að halda utanum nemendur

Í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi þurftu bæði kennarar og nemendur að vera fljótir að aðlagast nýjum aðstæðum þegar samkomubann tók gildi og tekið var fyrir skólasókn nemenda í sjálft skólahúsið. Skólinn býður aðeins upp á staðnám og því ekki jafn vel undir það búinn að færa sig alveg yfir í fjarnám og skólar sem þegar voru með slíkt. Að sögn Steinunnar Ingu Óttarsdóttur skólameistara voru flestir fljótir að læra á breytt fyrirkomulag og gengur námið mjög vel. „Það lögðu allir töluvert á sig til að læra á ný forrit og nýjar aðferðir til að kenna og það hefur tekist mjög vel. Við höfum alveg náð að halda úti bóknámi en þurfum að finna nýjar leiðir fyrir verknámið. Náms- og starfsráðgjafar hafa svo sannarlega lagt hart að sér líka. Við höfum verið að reyna að kýla á þetta bóklega fyrst svo það verði meiri tími fyrir þetta verklega þegar samkomubanni lýkur,“ segir Steinunn síðastliðinn mánudag í samtali við Skessuhorn.

Halda nemendum við efnið

Kennslustundir fara nú fram í gegnum forrit eins og Teams þar sem nemendur mæta og kennari merkir við þá. Svo fer hefðbundin kennsla þar fram eins og hægt er. „Við reynum eins og við getum að fara eftir stundaskrám og þannig halda nemendum við efnið. Það er mikilvægt að halda utanum nemendur á þessari stundu og styðja líka kennara við þessar nýju kringumstæður,“ segir Steinunn. Aðspurð segir hún kennarana hafa verið misvel undirbúna fyrir breytt fyrirkomulag. „Sumir kennarar þurftu að læra frá grunni á þessa tækni til að geta kennt úr fjarlægð. En þetta er ágætis tækifæri til að fara út fyrir vanann og við höfum öll lært ótrúlega margt nýtt þó vissulega hafi þetta líka verið mikið álag,“ segir Steinunn. Hún segist vona innilega að nemendur stundið námið sitt eins vel og mögulegt er og takist að halda þetta út.

Skipta upp starfsmannahópnum

Stjórnendur og aðrir lykilstarfsmenn skólans hafa skipt sér upp í tvö lið og skiptast á að vinna heima og í skólanum. „Við viljum reyna að minnka hættuna eins og hægt er á að allir lykilstarfsmenn veikist í einu,“ útskýrir Steinunn og bætir við að kennararnir haldi sig einnig að mestu heima. „Kennarar sem vilja nota búnaðinn í skólanum til fjarkennslu geta gert það en mega þá aðeins fara inn í kennslustofuna og svo beint út aftur. Þeir mega ekki fara upp á kennarastofu eða í önnur rými skólans. Við erum með mjög strangan viðbúnað til að reyna eftir bestu getu að halda starfsliðinu frísku.“ Nýja fyrirkomulagið verður í gildi í það minnsta fram yfir páska og verður staðan þá endurmetin og framhaldið ákveðið. Þá hefur verið settur upp dagbókahnappur á heimasíðu skólans þar sem staðan er uppfærð daglega. „Við skólameistarar fundum reglulega með ráðherra og fáum nýjustu upplýsingar, okkur er haldið vel upplýstum sem er mjög gott. En þegar samkomubanni lýkur verðum við bara að taka stöðuna varðandi námsmat, brautskráningu og hvernig við klárum önnina,“ segir Steinunn að lokum, bjartsýn á að allt fari vel.

 

Mikilvægt að halda utanum nemendur

Viðtal við meistarann…

Fólk-verður-að-hafa-farveg-fyrir-faglegan-metnað-sinn_1_Steinunn-Inga-ÓttarsdóttirRætt við nýjan skólameistara FVA í Skessuhorni

Steinunn Inga Óttarsdóttir er nýr skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hún var skipuð í embætti snemma desembermánaðar og hóf störf 2. janúar síðastliðinn. Skólastarf hefur henni lengi verið hugleikið og kannski má segja að skólastjórnun sé henni í blóð borin. Faðir hennar var kennari og skólastjóri, móðir hennar og systir einnig. Skessuhorn hitti Steinunni að máli á skrifstofu skólameistara síðastliðinn fimmtudag og fékk að kynnast henni örlítið.

Sjá viðtal við Steinunni Ingu í Skessuhorni sem kom út í morgun, 16. janúar…

Skólastofa framtíðarinnar

Það er eiginlega alveg sama hvort maður slær inn retro classroom eða modern classroom í google, gamla uppröðunin með kennaraborði og töflu eða tjaldi á vegg kemur alltaf upp. En svo rakst ég á þessa auglýsingu: https://www.sysfurniture.com/index.php/2017/12/15/step-inside-modern-classroom-2/

Er þetta ekki framtíðin?

Loewenstein-Tangent-benches-2

 

 

Virkni, ábyrgð, áhugi og lýðræði í framhaldsskóla

 

screen-0

Í námskeiðinu Skólaþróunarverkefni KEN213F, við menntavísindasvið HÍ á vormisseri 2014, var öflugur hópur nemenda sem fjallaði um innleiðingu lýðræðislegra kennsluhátta í Menntaskólann í Kópavogi.

Lýðræði er einn af grunnþáttum menntunar skv. aðalnámskrá framhaldsskóla (2011) og er ætlað að auka virkni nemenda í námi með lýðræðislegum kennsluháttum. Skólaþróunarverkefni hópsins góða snýst um að innleiða lýðræði inn í allt skólastarf, kennsluefni, kennsluhætti og námsmat.

Markmiðin eru:

  • að nemendur taki virkari þátt í námi sínu
  • að kennarar nýti sér fjölbreytta kennsluhætti og námsmat og þrói lýðræðisleg vinnubrögð innan skólastofunnar
  • auka möguleika nemenda til að hafa áhrif á inntak og aðferðir náms og kennslu

Lesa má skýrsluna hér: Lýðræðislegir kennsluhættir

Höfundar:

Ásta Kristín Ingólfsdóttir, Haraldur Gunnarsson, Jón Björgvin Hilmarsson, Malla Rós Valgerðardóttir, Melkorka Edda Sigurgrímsdóttir, Steinunn Inga Óttarsdóttir og Sævar Þorleifsson

 

 

Undarleg börn lesa línurit

„Börn eru ekki vasaútgáfa af fullorðnu fólki. Þau hugsa ekki kerfisbundið. Það sem okkur þykir merkilegt, skiptir engu í þeirra augum. Þau verða að sjá atburði í myndum, og þeir verða að vekja hjá þeim tilfinningar. Einhver taldi nauðsynlegt fyrir börn að læra að búa til línurit. Það hljóta að vera undarleg börn, sem eru sólgin í að læra fróðleik af línuritum.“

Oddný Guðmundsdóttir

frá Hóli á Langanesi

Orðaleppar og aðrar ljótar syrpur 1983

Sumarkveðja

Ég hef kennt íslensku í 50% starfi í vetur samhliða endurmenntun í upplýsingatækni í skólastarfi. Nemendur mínir halda nú á vit nýrra ævintýra og sumir senda kennaranum sínum sumarkveðju:

Takk sömuleiðis fyrir önnina. Mjög ánægður með aðferðinar þínar! Fólk má fá hrós ef það á það skilið. Setur kröfur og ert sanngjörn. Mér fannst bara gaman í íslensku á þessari önn 🙂

Gullkorn

Ég sakna stundum míns fyrra starfs sem kennari en það líður hjá þegar ég hugsa til ritgerðasmíða nemenda. Ég rakst um daginn á nokkur gullkorn úr ritgerðum fyrrum nemenda minna:

…meðan faðir hennar liggur rænulaus í gröfinni

Höfundur talar í þriðju persónu eins og myndavél

Þá festist hann milli steins og sleggju

Danir sviku Íslendinga með mauróttu mjöli

Svo fór hann á eigin fótum í skóla á Bessastöðum

Þegar Salka Valka og Sigurlína komu til Óseyrar voru allar eigur þeirra í einum plastpoka

„Úttekt“ á framhaldsskólum

Ég er búin að skoða svokallaða „úttekt“ á framhaldsskólum sem tímaritið Frjáls verslun hefur búið til eða látið búa til og auglýsir grimmt þessa dagana. Hún er óttalegt bull frá byrjun til enda og gefur bæði einhæfa, villandi og takmarkaða sýn á íslenska framhaldsskóla. Segir það eitthvað stórkostlegt um skóla og skólastarf að hafa unnið þýskuþraut, söngkeppni, Morfís eða Gettu betur? Eða hvað margir umsækjendur eru um hvert pláss? Það væri beinlínis óeðlilegt ef MR sem er efstur skv. stigagjöf í „úttektinni“ kæmi ekki „best“ út, m.v. hvað mörg prik eru gefin fyrir að vinna í keppni, fyrir utan að í þeim skóla eru frekar fáir nemendur teknir inn, valdir eftir einkunnum, inn á tvær stúdentsbrautir? Hvaða tíðindi eru það að bestu bóknámsnemendurnir standi sig best? Ekki viljum við að allir framhaldsskólar séu eins og MR, með fullri virðingu fyrir honum? Breyturnar í „úttektinni“ gefa einfaldar, flatar og fyrirfram ákveðnar niðurstöður. Ég vona að fólk kynni sér þetta vel, kokgleypi ekki vitleysuna eða tyggi hana upp úr Frjálri verslun.