24. október 2021
Kæru gestir, góðir kollegar og makar og virðulega stjórn SMÍ
Til hamingju með afmælið!
Ég hef tekið að mér að tala hér í kvöld sem nýr skólameistari, mér sýnist svona þegar ég horfi yfir hópinn hérna að kanski sé aðeins farið að fenna yfir það hjá mörgum ykkar hvenrig það var ….
Mikið er nú gott að vera hér öll saman í kvöld í sparifötunum og gefa sér tíma til að líta upp úr tölvupóstunum, microsoftleyfunum, heilsueflingunni, hitaveitunni, heimavistinni, vinnuskýrslunum, Orranum, próftöflunni, forvörnunum, ferilbókinni, reikningunum, stofnanasamningunum, starfsbrautunum, nefndunum og teymunum og grímunum og að ógleymdum Grænu skrefunum sem hverju mannsbarni er ætlað að stíga.
Þegar ég hreppti hið eftirsótta embætti skólameistara FVA í janúar 2020 átti ég mér draum, eins og annar frægur úr mannkynssögunni. Draum um að innleiða lýðræðislega náms- kennslu- og stjórnunarhætti í mínum skóla.
Allir skyldu fá að hafa rödd og allir skyldu vera jafnir. Og Ég ætlaði að vera jöfnust allra, ekki að vera skólameistarinn sem sæti inni á skrifstofu og sendir tölvupósta í allar áttir.
Sem fyllir út excel skjöl og hakar við gátlista.
Sem er í kurteisisheimsóknum, viðtölum, fundum, sem heldur langar ræður -nei –
heldur ætlaði ég að vera skólameistarinn sem væri svo sýnilegur og tekur virkan þátt í öllu sem viðkemur skólastarfinu, er leiðtogi, á vettvangi með faglega sýn og ráð undir hverju rifi… sem veit allt sem gerist í skólanum og getur hallað sér aftur í stólnum íbygginn og yfirveguð, með þrútið peningaveskið, búin að greiða hvers manns götu og get samt alltaf hætt í vinnunni kl 3 og jafnvel fyrr á föstudögum…
Segja má að veruleikinn hafi rekist harkalega á draumsýnina, og það strax eftir fyrstu 10 vikurnar í starfi.
Kófið skall á og þá var það bara krísustjórnun á hverjum degi eins og allir muna, – og nýi skólameistarinn á Skaga sat einmitt eins og límdur við skjáinn á Teams fundum með talandi hausum og þvældist um tóma ganga og mannlausar kennslustofur og vissi ekki sitt rjúkandi ráð…
Svo tóku við erilsamir og langir vinnudagar. Endalaust verið að bregðast við áreitum, smit tölum, reglugerðum, fyrir utan að upp komu rakaskemmdir eins og algengt er í skólahúsnæði á Íslandi og allt hitt sem gera þarf í fjölbreyttum skóla með 70 starfsmenn og 500 nemendur. Þegar þarna er komið sögu hafði ég verið í þrjá mánuði í embætti.
Undir kvöld settist ég upp í Yarisinn með nokkur skjöl undir hendinni til að ljúka við heima og braust til baka í bæinn, í gegnum rigningarhryðjurnar og snjóskaflana, ísinguna og storminn,
alltaf minnst 20-30 m á sekúndu á Kjalarnesinu – það er aldrei logn þar og ekki á Akranesi heldur, hvað sem Skagamenn segja!
En aftur að draumsýninni og veruleikanum.Lýðræðið er tímafrekt, hægvirkt og ekki alltaf sanngjarnt. Stundum var bara fljótlegra að ráða ein og það verður kona að gera þegar þannig stendur á. Það eru td 70 skoðanir á því hvenær fundargatið á að vera í stundatöflunni, hvernig prófataflan eigi að líta út og hvað eigi að vera í matinn á jólahlaðborðinu (sem samt er alltaf eins sama hvaða tískubylgjur dynja yfir ár eftir ár).
Mál geta tekið undarlega stefnu og snúist í höndunum á manni, smá mál geta orðið að stórmáli í starfsmannahópnum. Hversu flókin getur td skráning í hádegismat orðið? Tók nokkrar vikur að leysa það með trúnaðarmönnunum…
En stórmál er líka hægt að leysa svo auðveldlega, í valvikunni hjá okkur var kynning á áföngum niðri á palli þar sem þarf að fara niður nokkrar tröppur og þarna hefur kynningin alltaf verið frá ómuna tíð og engum hefur dottið í hug að þar verði nokkurn tímann breyting á. En nú erum við með nemendur í hjólastól í fyrsta skipti sem ekki kemst þarna niður og ég var sest við að skrifa bréfið til Ríkiseigna með vísun í lög og reglugerðir um aðgengi, að fá ramp og lyftu og rafmagnshurðaopnara og allt þegar aðstoðarskólameistari sagði sisvona – við færum valið upp á efri pallinn, þá eru engar tröppur… Skítaredding vissulega en einföldu ráðin eru oft bara best – í bili allavega og gott að geta þegið þau. Þó maður sé meistari þarf maður ekki að vita allt.
Starfsmannamálin, já kennararnir. Þeir búa við önnur kjör og annan veruleika en við. En þetta er frábær hópur! Td fékk ég tölvupóst frá einum á föstudaginn:
Lífið er helvítis fokking fokk
svo flestir vitinu týna
Viðbótar vonandi fæ ég flokk
fyrir meistaragráðuna mína.
Ekkert skírteini fylgdi þessum tölvupósti og óskaði ég eftir því. Ekki stóð á svari:
Kannski er þetta algjört sjokk
opnaðu bréfið og sjáðu
skilið á ég nú aukaflokk
út af meistaragráðu!
Margt kom mér á óvart í starfinu. Td heimavistin! hverjum datt í hug að safna saman 50 unglingum á einn stað allan sólarhringinn með öllum þeim hormónum og hörmungum sem því fylgja?
Og hitt sem kom á óvart er reksturinn. Rosalega er dýrt að reka skóla! 8000 fermetra, þið vitið hvað kostar að kynda þetta, ræsta og lýsa upp!
Og fyrir hvað er ég eilíflega að borga, td Kjaran, Menntamálastofnun, Origo, er ekki löngu búið að mjólka þessa spena?
Inna, er það eðlilegt hvað hún kostar á mánuði?
Og ég er í ríkisskóla sem á ríkishúsnæðið sem þarf til að reka ríkisskóla fyrir þegna ríkisins skv lögum ríkins og svo er ég rukkuð svo um hellings húsaleigu. Stórfurðulegt batterí!
Og svo eru það launin… ég ætla ekki að tala um laun kennaranna – heldur mín eigin. Laun allra í stofnuninni hafa hækkað meira en mín sl 2 ár, kennarar fá stundum meira útborgað en skólameistarinn. Hvað er málið með það?!
Tíminn hefur liðið hratt í nýja starfinu, tæp tvö ár hef ég tollað í þessu, kófið eru nú klárað að mestu og skólastarfið nálgaðist það að verða eðlilegt sl haust. En nú reyndar fann ég gjörla að það er miklu meira vesen að hafa nemendur og kennara í húsi…!
Eða nei, það er auðvitað frábært og forréttindi að fá að vera með þessu unga fólki og vinna að því að fræða það og mennta. Svo er bara gaman að keyra upp á Skaga, ég er allt í einu svo nátengd náttúrunni: á vorin eru lömbin úti að leik, á sumrin eru heyannir og ilmur af nýslegnu grasi berst inn um bílgluggann, gæsir hópa sig að haustlagi og fljúga í odda yfir Akranesveginn ég sé skipin sigla með fisk og farm og um daginn var ég á heimleið og sá sólarlagið í baksýnisspeglinum og fullt tungl framundan á sama tíma!
En andvökunæturnar eru margar. Skólameistari byltir sér í bælinu og planar og fær hugmyndir og hugsar sífellt um vinnuna …. Hrekkur upp í myrkrinu við vekjaraklukkuna, sleppir morgunmatnum og stígur yarisinn í botn upp á Skaga – viðtöl, samtöl tölvupóstar, fundir og allskonar og samt næst varla að klára neitt af því sem ætlað var yfir daginn. En það er samt gaman!
Nýi lýðræðislegi skólameistarinn verður að stokka upp planið ef ekki á illa að fara. Betri vinnutími punkturis!!! ég verð jú að haldast nú í starfi amk þessi fimm ár sem ég var ráðin til og ætla ekki að enda inn við sundin blá: Nýtt plan: Ég vinn í bænum einn dag í viku og ég svara ekki tölvupóstum á miðvikudögum!!! Og anda djúpt. Ég er ekki frá því að þetta sé að virka og gef ykkur hér með þetta þjóðráð…
Að lokum, draumurinn um þægilega embættið og himinháu launin hefur rekist harkalega á raunveruleikann.
Þið sem hér sitjið eruð auðvitað margreynd og öllu vön og löngu búin að yfirstíga þetta allt saman – og því skal haldið til haga að þið hafið verið einstaklega hjálpsöm við okkur sem erum ný í bransanum, takk fyrir það.
En þrátt fyrir allt og sem betur fer lifir áfram von mín um lýðræðislegt skólastarf, von um að hægt sé að koma nemendum til manns, þroska þá/þau, efla víðsýni og umburðarlyndi, kenna þeim sjálfstæð vinnubrögð, sköpun og ígrundun, og helstu undiratriði sem þarf til að vera nýtur þegn.
Og lifir áfram von um að við í FVA stökkvum upp í SFR könnuninni og rústum Stofnun ársins…
Og það er mergurinn málsins: að gefast ekki upp, halda áfram með blóði svita og tárum að framfylgja hugsjónum sínum, hvíla sig bara seinna
Því þetta er skemmtilegasta starf í heimi og það er satt hið fornkveðna sem minnir okkur á hver tilgangur okkar er og til hvers við erum að brasa þetta yfirleitt:
Mennt er máttur, það er málið,
að eilífu AMEN.