Rykfallnar dagbækur eru ómetanleg heimild okkar nútímamanna um þjóðlíf forðum tíð. Heimaalinn almúgi jafnt sem sigldir prestar og embættismenn hafa haldið dagbók öldum saman, lýst árferði og aflabrögðum og sagt frá helstu tíðindum í héraði. Sagnfræðingar 21. aldarinnar sem aðhyllast einsögulegar rannsóknir hafa gruflað í gömlum dagbókum í leit að sögunni bak við sjálfsmynd ritaranna. Ekki var til siðs að tileinka dagbókinni hugleiðingar um sjálfan sig, eigin tilfinningar og vandamál fyrr en á nýliðinni öld. Nú hefur dagbókaritun tekið nýja og óvænta stefnu. Dagbækur hinar nýju kallast „blogg“ og eru iðkaðar á veraldarvefnum, víðfeðmasta fjölmiðli heims.
„Blogg“ er stytting á enska orðinu „WebLog“ og er rafræn dagbók sem allir geta haft aðgang að. Hver sem er getur stofnað eigin „bloggsíðu“ og þarf ekki mikla tölvukunnáttu til. En ef bloggsíðurnar eiga að lifa og þjóna tilgangi sínum verður „bloggarinn“ að hripa dagbókarfærslur sínar jafnóðum. Á síðurnar eru skráðar ýmsar hugdettur; m.a. um veður og tíðindi í héraði eins og áður tíðkaðist; en meira ber á léttúð, skensi og slúðri, farið er í orðaleiki og sagðar hvunndagslegar fréttir af fjölskyldumeðlimum, búðarferðum eða skemmtanalífi. Bloggarinn er sítengdur og getur brugðist skjótt við færslum frá öðrum bloggurum um menn og málefni.
Á einni bloggsíðunni segir hátíðlega: „Markmið bloggsins er ekki að fara með gamanmál og grín, heldur að ýta undir iðkun guðs orðs og góðra siða, taka aðkallandi málefni líðandi stundar til alvarlegrar og skarpskyggnrar umfjöllunar, og veita valdhöfum heimsins nauðsynlegt aðhald“ (Blogg Kattarins). Þessum fyrirmælum er sjaldnast fylgt eftir. En safaríkastar eru þær síður þar sem rætt er um pólitík, þjóðmál og heimsmál. Afkastamestu þjóðmálabloggararnir skrifa langa pistla um þau málefni sem heitast brenna á þeim hverju sinni, s.s Kárahnjúka og Keikó, aðrir bloggarar og áhugamenn lesa þá og svara síðan fullum hálsi. Greinileg skil má sjá á pistlum hægri- og vinstrisinnaðra sem er óneitanlega hressandi miðað við endalausa flatneskju, miðjumoð og afstöðuleysi dagblaðanna. Oft eru harðar ritdeilur háðar á blogginu þar sem ekkert er heilagt og fúkyrðin ekki spöruð. Kæruleysislegt yfirbragð og mikil yfirlýsingagleði einkennir orðasennurnar enda má maður segja hvað sem er í sinni eigin dagbók og þarf ekki að standa neinum reikningsskil. En er ekki afstaðan sem tekin er bara marklaust hjal? Hvað er eintal sálarinnar að gera á netinu?
Eru bloggarar nördar, þröngur hópur einmana og athyglissjúks fólks með netþráhyggju? Kaldhæðnislegur húmor felst í kjörorði síðunnar Blogg dauðans: „Betra en að hitta fólk“. Öfugt við hlédræga dagbókaritara fortíðarinnar sem skrifuðu fyrir sjálfa sig troða bloggarar sér upp á aðra netverja og beita öllum brögðum til að ná athygli. Mikael Torfason segir á heimasíðu sinni að bloggið sé krepputíska; til marks um að fólk hafni raunveruleikanum og dýrki ofurraunveruleika fjölmiðlanna – að orð í dagbók verði ekki marktæk í firrtum huga okkar nema í fjölmiðli. Dagbók á netinu er ætluð lesendum, fjölmiðill einstaklingsins, eins konar athyglissjúkur sýndarveruleiki. Þegar einkaleg dagbókarskrif urðu almenn á síðustu öld þjónuðu þau að vissu leyti hlutverki trúnaðarvinar, dagbókinni var trúað fyrir innstu hugrenningum og leyndarmálum. Fólk heldur þeim áfram fyrir sig en bullar á blogginu.
Steinunn Inga Óttarsdóttir
Lesbók Morgunblaðsins, 14. ágúst 2002