
Gyrðir Elíasson. Ljósm. discogs.com
Í smásagnasafninu Steintré eftir Gyrði Elíasson eru 24 smásögur. Þær fjalla um börn og fullorðna, um einsemd og aðskilnað, drauma og svefn, um bækur og samband fólks við þær. Innan um litla drengi og skrýtna stjörnuskoðara eru bókaþýðendur, bókasafnarar, bókbindarar og rithöfundar. Bækur eins og ævisaga Houdinis og Saga hugsunar minnar eftir Brynjúlf frá Minna-Núpi, Hið undarlega mál Jekylls og Hyde og myndabók um Harley Davidson mótorhjól koma við sögu, bækur eru geymdar í ísskáp og ofnskúffu en í smásögunni „Heimurinn er einn“ blasir tortíming bóka við. Skáldið Benedikt Gröndal blaðar í bókum sínum fullur kvíða (68) en fuglamálarinn frá Boston ákveður skyndilega að hætta að skrifa bækur og fara heim til konu sinnar (75) og það er eins og það verði honum til bjargar enda eru bækur óvættir sem voka yfir manni:
Hann lokaði augunum og reyndi að hugsa ekki neitt. En í huga hans svifu bækur einsog skuggalegir fuglar, blökuðu svörtum spjöldum. Hvítar síður ýfðust líkt og bringufiður (20).
Persónur sagnanna eru yfirleitt nafnlausar nema bóksalinn Guðbjörn í „Berjasaftinni“, rithöfundurinn John Sears í „Sumarbókinni“ og frænkurnar Hilda og Katrín í „Bílhræinu“ en það er eina sagan þar sem kvenrödd heyrist. Konur í verkum Gyrðis hafa ekki verið sérlega áberandi og jafnan fámálar og dularfullar. Í „Flugleiðinni til Halmstad“ sem er lúmskt fyndin saga og „Vatnaskilum“ hafa konurnar fengið nóg og yfirgefa karl sinn án frekari skýringa. Þeir halda sínu striki hvor á sinn hátt, hjá öðrum þeirra renna efi og doði saman við eftirsjá og sjálfsásökun, hinn finnur bæði fyrir ró og létti – en ekki lengur til lofthræðslunnar sem hafði áður hrjáð hann. Eiginkona ameríska rithöfundarins í „Sumarbókinni“ segist ætla að koma í heimsókn til hans á Íslandi en kemur svo ekki, á símsvaranum segir dóttir hans að þær mæðgur séu farnar til Vermont. Þegar hann loksins heyrir í konunni er hún flóttaleg í röddinni. Eftir fimmtán ára hjónaband hafa þau fjarlægst hvort annað, valið hvort sína leið. Í sögulok snýr rithöfundurinn heim þar sem hans bíður uppgjör við konuna og þá „vissi hann varla af hverju hann hafði verið hérna svona lengi, alla þessa vegalengd að heiman“ (128). Kannski er Gyrðir að gefa í skyn að rithöfundar þurfi að velja milli fjölskyldulífs og ritstarfa eða hugleiða hvort fórna eigi hjónabandi fyrir það að geta skrifað. Eða sýnir tímabundinn aðskilnaðurinn svo augljóslega að hjónabandið var úr sér gengið? Konurnar eru þöglar, skyldi það vera vegna þess að þær þora ekki að horfast í augu við karlana og ljúga því að þeim? Sambandið einkennist af vana og þreytu þar sem báðir aðilar bæla tilfinningar sínar. Í „Teljósum“ eru maðurinn og konan löngu hætt að tala saman og hvorugt lætur þrár sínar eða vonbrigði í ljós. „Að heyra blýant detta“ segir frá hjónum á ferðalagi en á milli þeirra er einhver fjarlægð sem orsakast af skilningsleysi og höfnun. Óútskýrður, kæfður grátur heyrist í báðum þessum sögum. Aftur á móti ríkir nánd og samruni hjá gömlu hjónunum í „Draumagleraugunum“:
„Honum varð ljóst að hann var kominn inn í draum konu sinnar, sem enn lá á stofusófanum. Þá sá hann í fyrsta sinn að enginn er fjarlægur öðrum í raun og veru, ekki einu sinni hjón sem hafa búið lengi saman. Allir draumar tengjast á jöðrum, einsog bútasaumsteppi. Hann tók um sængurvershornið í svefninum og fægði gleraugun áður en hann hélt áfram, að þessum miklu jarðeplagörðum, lengra inn í drauminn hennar sem hann hafði þekkt í svo mörg ár“ (116).
Sagan er bæði ljóðræn og falleg og sameinar tvö algeng minni í verkum Gyrðis, drauma og gleraugu. Draumar koma mikið við sögu í Steintré, s.s. í „Eilífsdal“, „Keðjuverkun“, „Að heyra blýant detta“, „Skrifherberginu“, „Flugleiðinni til Halmstad“, „Berjasaftinni“, „Flyglakaupmanninum“ og „Vetrarhóteli“. Í draumunum eru fólgnir fyrirboðar um feigð og endalok – eða upphaf að einhverju nýju. Fyrirboðar eru líka algengir í höfundarverki Gyrðis og dæmi má taka úr „Berjasaftinni“. Þar segir frá tveimur bóksölum sem gista í ókunnu húsi og annar þeirra, Guðbjörn, deyr um nóttina. Strax í upphafi sögu minnir Guðbjörn á útfararstjóra þar sem hann opnar hliðið og yfir rúminu hans hangir málverk af frelsaranum sem á er skrifað „Komið til mín“ (96). Feigð svífur yfir vötnum í „Homo pastoralis“, aðalpersónan er eldri maður, gistir í fölbláu húsi, nýkominn af spítala og höktir um á hækjum. Hann á stutt eftir því þegar hann fær skyndilega áhuga á að kaupa sér hús hleypur svartur hundur í veg fyrir hann (112). Reyndar er hann ekki alveg viss um hvort hann er lífs eða liðinn en það er annað minni í verkum Gyrðis.
Draugar og forynjur reka víða fram sinn ljóta haus, t.d. í „Berjasaftinni“ en þar birtist óhugnanlegur gamall og lotinn maður með skaröxi, augnalaus og þögull (99) og í „Bílhræinu“ situr einhver ófreskja, snörlandi og urrandi, föst í rytjum af bílbelti. Í „Vetrarhóteli“ segir frá einmana pilti sem finnur fyrir annarlegri nærveru, „full einsemdar og feigðar og alröng hér í þessu herbergi, hjá mér í þessu myrkri“ (83-4). Rithöfundur í Hveragerði rumskar við torkennileg hljóð í „Keðjuverkun“, skruðningar og dynkir frá votum stígvélum berast af loftinu sem er farið að leka enda hafði hann dreymt að hann væri inni í köfunarkúlu. Og hundar koma við sögu, heljarstór Bernharðshundur birtist bæði í draumi og vöku í „Skrifherberginu“, grimmur Séfer og Dóberman rífa niður notalega stemningu sem var að myndast milli hjóna í gönguferð (77) („Týnda Grimmsævintýrið“) og m.a.s. sjálfur Baskervillehundurinn eða annað dýr með kolsvartan feld og furðulega kryppu skýtur upp kolli í draumi Flyglakaupmannsins (101).
Sögurnar í Steintré gerast jafnan úti á landi, t.d. í Hveragerði og á Siglufirði. Húsin standa ein, efst í brekku, undir fjallshlíð, eru innan við bæinn eða utarlega í byggðinni, bakhús eða eyðibýli á heimsenda, oft ætluð aðeins til skemmri dvalar. Í „Heimurinn er einn“ hefur eitthvað dularfullt gerst, húsin hafa verið eyðilögð, hálfhrunin og auð, á sum vantar þak og rúður eru brotnar, hurðir farnar af hjörum og gluggatóftir skuggalegar í rökkrinu (sbr. 49-50). Í gistihúsum og hótelum ber jafnan eitthvað undarlegt við og líf gestanna tekur breytingum. Gróðurhús koma fyrir í nokkrum sögum, þar renna saman gler og dulúð, þau eru raflýst mannvirki utan um framandi plöntur í birtu og yl, fyrir utan er kuldinn og myrkrið. Þau eru „einkennilega upphafin og ójarðnesk og minna á glerhýsin miklu á þokuhjúpaðri reikistjörnu í sólkerfinu L-5“ (109). Gler, heilt og brotið, er áberandi í myndmáli Gyrðis og hefur margs konar bókmenntalega skírskotun.
Fjórar sögur tengjast bernsku eða segja frá börnum en Gyrðir hefur í verkum sínum kafað dýpra en aðrir í heim bernskunnar á sinn sérstæða, fágaða og margræða hátt. Áður hefur „Bílhræið“ verið nefnt en þar fær auðugt ímyndunarafl byr undir báða vængi, eða hvað? Geta tvær telpur heyrt og séð sömu sýn, sömu óhugnanlegu ófreskjuna? „Píanóið“ er áhrifamikil saga sem minnir á skáldskap Kafka. Í henni birtast togstreita milli föður og sonar, skilningsleysi móður og þögul uppreisn sonar. „Trésmíðaverkstæðið“ er örstutt, falleg og ljóðræn saga um dauða litlu systur, brostnar vonir og „himnastiga úr orðum“. Sagan hefur yfir sér mildan, kristilegan blæ; m.a. vegna Biblíunafnanna og krossins sem mislangar spýtur mynda. Í „Fuglaveiðum“ fer drengur sínu fram þrátt fyrir þreytuleg mótmæli móður sinnar en faðirinn er hvergi sjáanlegur. Iðja hans, að drepa fugla, virðist blandin bæði dráps- og fróðleiksfýsn en hann safnar fuglunum til að senda til fuglafræðings síðar. Þegar hann gengur frá fuglinum á sinn stað er senan eins og beint úr hryllingsmynd:
„Drengurinn staldraði andartak við þarna í skuggsælu búrinu og leit yfir hillurnar, andaði að sér lykt sem var blanda af óteljandi gerðum matvæla og kryddjurta. Síðan opnaði hann gömlu og risastóru Westinghouse frystikistuna.
Ofan í henni var fjöldi flækingsfugla, sem allir voru vafðir inn í Morgunblaðið einsog bókfinkan. Það glitti í hélaða hausa og gogga í daufri skímu sem kviknaði í kistunni þegar hún var opnuð. Peran var alveg að gefa sig, ljósið flökti og dofnaði stundum alveg. En stopull bjarminn nægði til að lesa löngu gleymdar fyrirsagnir blaðsins, sumar nokkurra ára gamlar.
Drengurinn hagræddi volgum innpökkuðum fuglinum ofan á þessum hlaða af helfrosnum systkinum hans sem lágu í kistunni. Svo lokaði hann kistunni hægt, einsog þegar útfararstjóri lokar líkkistu í hinsta sinn“ (42).
Ljósið úr frystikistunni er eins og ljósið úr ísskápnum í „Berjasaftinni“, sem blikkaði látlaust og óreglulega, líkast því að verið væri að morsa mikilvæg skilaboð (95) sem enginn skilur. Ljós og myrkur takast alltaf á í verkum Gyrðis, líf og dauði, draumur og veruleiki, svo klisjulega sem það hljómar en hjá Gyrði eru þetta aldrei klisjur. Stíll hans er einstakur, hreinn og tær, undarlegt sambland talmáls og ritmáls og einkennist af endurtekningum, hliðstæðum og margvíslegum merkingartengslum. Franski fræðimaðurinn Roland Barthes segir í Skrifað við núllpunkt: „Þaulsætnar leifar komnar frá öllum fyrri skrifum og sjálfri fortíð minnar eigin skriftar hylja núverandi rödd orða minna. Sérhver skrifuð lína er eins og efnasamband sem er fyrst gagnsætt, saklaust og hlutlaust, en með tímanum birtist smám saman innifalin fortíð, launskrift sem verður sífellt kristallaðri.“ Hér er eins og verið sé að lýsa verkum Gyrðis. Í nýrri bókum hans hefur táknheimurinn þó breyst lítillega, furðunum fækkað þótt vissulega séu þær enn á ferli, og persónurnar eru orðnar manni nákomnari. Hinn dæmigerða uppstressaða og firrta nútímamann, dofinn af efnishyggju, framapoti og fjölmiðlaneyslu, er hvergi að finna í verkum hans. Söguhetjur Gyrðis eru fólk á jaðri samfélagsins, einfarar og næmir sérvitringar sem glíma við merkingu, sjálf og tilgang lífsins.
Kímni Gyrðis, margræð, ljóðræn og fíngerð, svíkur engan í Steintré, t.d. „Í skrifherberginu“ þar sem kona bókbindarans tiplar flóttaleg milli herbergja:
„Ég sá að kjóllinn hennar var rósóttur með úrelti sniði, en mér sýndust rósirnar helst vera svartar á litinn, eða kannski voru þetta morgunfrúr. Kannski var konan sjálf morgunfrú, sem var að reyna að fóta sig í tilveru síðdegishúmsins“ (59).
Titlar skáldverka Gyrðis eru lýsandi fyrir stíl hans og þversagnakennt myndmál sem hann nær listrænum hæðum í, t.d. Vatnsfólkið, Svefnhjólið, Hugarfjallið, Tvífundnaland og Steintré en titlarnir fela í sér andstæður og fegurð. Gyrði má hiklaust skipa á bekk með bestu smásagnahöfundum heims og nægir að nefna Franz Kafka og Haruki Murakami sem báðir eru höfundar sérstæðra texta sem sífellt opnast á nýjan hátt og dýpka við hvern lestur. Í Steintré bregst Gyrði ekki bogalistin. Ástin er kulnuð og konurnar flúnar, atvik úr bernsku hafa djúpstæð áhrif fram á fullorðinsár, dulúð og ógn lúra undir, bækur eru hættulegar. Eitthvað á sér stað sem verður til þess að líf sögupersónanna breytist (eða ekki), að þeim læðist einhver óhugur, þær fyllast magnleysi eða efinn sækir á þær. Einsemdin er yfirþyrmandi og niðurstaðan kaldhæðin:
Ég heyri aldrei í konunni minni. Nú er það þannig þegar ég hringi í númerið hjá frænkunni að ókunn og ömurleg rödd segir eitthvað á sænsku, sem ég held að þýði einfaldlega: „þetta númer er ótengt.“ Ég ætla að halda jólin hjá mömmu, vestur í Stykkishólmi. Hún er margbúin að bjóða mér það. Annars verð ég víst alltaf einn (65).
TMM, 4. hefti 2006