Sjálfsmynd í súluriti  

 

Nýlega kom fram í helstu dagblöðum landsins að unga kynslóðin á Íslandi sé verulega frábrugðin fyrri kynslóðum. Hugsanagangur hennar er sjálfhverfari og efnislegri, sjálfstæðari og alþjóðlegri. Gömlu gildin um heiðarleika, tryggð, vinnusemi og umhyggju fyrir þeim sem minna mega sín eru á undanhaldi hjá unga fólkinu og boðum og bönnum er hagrætt eftir því hvað hentar hverju sinni. Litið er á jarðlífið sem einstakt tækifæri til að hafa það sem best með sem minnstri fyrirhöfn, efnast fljótt og ferðast mikið. Og unga kynslóðin er ekki aðeins öðruvísi þenkjandi en forfeðurnir, hún er einnig frábrugðin þeim líkamlega. Í ljós hefur komið að þeir sem erfa munu landið hafa stærri og sterkari þumalfingur en eldri kynslóðir en það mun stafa af frækilegri farsímanotkun og tölvuleikjum.

 

Kynlíf unga fólksins hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarið. Á fjölmiðlabraut í framhaldsskóla einum á Reykjavíkursvæðinu var kynhegðun skólasystkinanna könnuð. Svo virðist sem fólk fari mun fyrr að sofa hjá en áður tíðkaðist. Flestir stunda kynlíf oft í viku með ýmsum rekkjunautum og munnmök, endaþarmssamfarir, kynlíf á opinberum stöðum og hópreiðar þykja sjálfsagðir hlutir. Athyglisvert er að stór hluti stúlknanna segist fá fullnægingu við samfarir og hefur íslenskum piltum og skólabræðrum greinilega farið mikið fram! En hvað er satt og logið í könnun sem þessari og hvaða tilgangi þjónar hún? Eru þetta niðurstöður sem vert er að draga lærdóm af um samfélagsþróun og menningarástand?

 

Ávallt skal hafa hugfast að kannanir geta verið skoðanamyndandi. Kunnugt er úr kosningabaráttu stjórnmálanna að óákveðni meirihlutinn flykkist gjarnan um það framboð sem betur hefur samkvæmt skoðanakönnunum. Að birta niðurstöður kynlífskönnunar í fjölbrautaskóla sem fréttir og staðreyndir getur verið varhugavert þar sem það getur gefið ungu fólki skakka mynd af sjálfu sér og umhverfi sínu. Hópþrýstingur er gríðarlega mikill og mikilvægur á þessum mótunarárum og erfitt fyrir einstaklinga að skera sig verulega úr. Það er ekki víst að allir unglingar finni sjálfa sig í þessum tölum og finni jafnvel fyrir höfnun og sjálfsfyrirlitningu yfir öllu því sem þeir eru að missa af. Niðurstöður könnunarinnar er hægt að túlka á ýmsa vegu. Ef öll bekkjarsystkinin iðka endaþarmssamfarir eins og að drekka vatn, hví skyldi ég þá ekki gera það líka? Ef ég hika, vil bíða átekta og spara fyrstu kynlífsreynsluna þangað til rétta stundin kemur hlýt ég að vera algjör nörd eða afbrigðilegur. Einnig mætti túlka niðurstöðurnar sem svo að menn stundi nú kynlíf eins og tugþraut, í kappi við tímann og reyna að sigra í sem flestum greinum. Þá sest óhugur að okkur sem eldri erum, hvar er ást og gagnkvæm virðing í þessum tölum? Er hægt að setja ástina upp í súlurit?

 

Enginn mælir því bót að leyna niðurstöðum skoðanakannana eða banna birtingu þeirra. En það er ekki sama hvernig upplýsingarnar eru matreiddar og þar kemur gríðarlegt vald fjölmiðlanna til skjalanna. Er tilgangur fjölmiðils sem gerir sér mat úr niðurstöðum kynlífskönnunar meðal framhaldsskólanema að hneyksla almenning? Eiga niðurstöðurnar að hvetja unglinga til sjálfstæðis og hispursleysis? Eiga þær að vekja til umhugsunar? Þrýsta á foreldra að upplýsa börn sín um kynlíf? Vekja athygli á því hvernig heimur versnandi fer eða hversu frelsið er frábært? Hver verður að túlka það fyrir sig en ljóðlínur þjóðskáldsins, Einars Benediktssonar, eru enn í fullu gildi þrátt fyrir breytt samfélag, aukið upplýsingastreymi og ægivald fjölmiðla: „Aðgát skal höfð í nærveru sálar.“

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 13. apríl 2002

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s