HANDRIT að 45 mín útvarpsþætti, Á sumarvegi, júlí 2009
Lesari í þættinum var Guðbjörn Sigurmundsson
(Bílhljóð og flaut, lækkar niður)
Kæru hlustendur
Við sem þeysumst á sumarvegi á nýjum kagga með myntkörfu-hjólhýsi í eftirdragi mættum leiða hugann að því hversu stutt er síðan að torvelt var að ferðast um landið. Og að mikið lögðu ferðalangar fyrri alda á sig til að skoða markverða staði á Íslandi.
Fámenni, dreifð byggð og lítil verkkunnátta héldust í hendur við að halda samgöngum innanlands á fremur frumstæðu stigi furðu lengi. Það var aðallega að messur og aðrir sjaldgæfir mannfagnaðir, eins og alþingisreið, ferðir pilta til skólasetra, ferðir vinnufólks í vist og sjómanna í verstöðvar og flakk umrenninga leiddi til ferðalaga.
Þegar farið var á milli, hvort heldur sem var að ræða lengri eða skemmri ferðir, var farið gangandi eða ríðandi á hestum, eða vatnaleið á bátum. Má gera ráð fyrir að fæstir Íslendingar hafa þekkt hjólið af eigin raun fyrr en á 19. öld. Fram að því roguðust menn með það sem til þurfti, tylltu farangri á hesta eða drógu á eftir sér. Betur megandi menn fóru oft ríðandi um héruð og urðu snemma á öldum til reiðgötur um sveitir og yfir óbyggðir á svipuðum slóðum og margir akvegir liggja í dag. Á nokkrum vatnsmiklum ám voru ferjur eða kláfar yfir þær en brýr voru afar sjaldgæfar.
Það er ekki fyrr en 1875 sem í fyrsta skipti er kveðið á í lögum um veitingu almannafjár til vega. Árið 1932 var lokið við bílfæran veg fyrir Hvalfjörð og varð þá fyrst akfært alla leið milli Reykjavíkur og Akureyrar. Árið 1975 var nýr vegur opnaður milli Ögurs og Álftafjarðar. Þar með var fyrst kominn akfær vegur milli Reykjavíkur og Ísafjarðar um Ísafjarðardjúp.[1] Alla nítjándu öldina og framan af þeirri 20. má með sanni segja að öll ferðalög hafi verið torveld og ekki heiglum hent að komast á milli landshluta.
(Tónlist feidar inn og út: Chris Rea: Road to Hell, lækkar eftir 2 eða 3 mín.)http://www.youtube.com/watch?v=1EBw_da7BZk)
Ísland hefur verið þekkt og frægt sem ferðamannaland frá miðri nítjándu öld amk. Þá komu hingað ungir og ævintýragjarnir aðalsmenn og náttúrufræðingar í skoðunar- og skemmtiferðir, aðallega til að upplifa óvenjulegt mannlíf og hrikalegt landslag, og klífa íslenska fjallstinda. Ferðum sínum lýstu sumir hverjir í bók og gáfu út. Tveir enskir sjentilmenn komu t.a.m. hingað til lands um miðja nítjándu öld, þeir John Barrow og Charles William Shepherd.
John Barrow var fæddur 1808 (ath?), hlaut bestu menntun og ferðaðist víða um Evrópu, hann kom til Íslands sumarið 1862 og ritaði ferðasögu sína. Þetta er hin mesta hrakningasaga. Veður var slæmt, bálhvasst og ískalt. Hann hugðist klífa Heklu en varð frá að hverfa því nestið var þrotið, ekki komst hann í Krýsuvík og hafrót hindraði landgöngu á Arnarstapa og þar með var hann sviptur þeirri ánægju að ganga á Snæfellsjökul.
John Barrow var sagður hógvær og vinsæll maður, hann hafði mikinn áhuga á jarðfræði, siglingum og landkönnun og varði allri starfsævi sinni í breska flotamálaráðuneytinu (ath). Til eru þrjú portrett af honum sem geymd eru í National Gallery, þetta er gerðarlegur maður, með dökkt óstýrilátt hár, þykka barta og einbeittan augnsvip[2]. Hann lést ókvæntur og barnlaus níræður að aldri, og lét m.a. eftir sig dagbók sem varðveitt er í Oxfordbókasafni, hún er full af úrklippum og minnisgreinum sem gaman væri að blaða í. Haraldur Sigurðsson, fyrrverandi bókavörður, þýddi Íslandsheimsókn John Barrow á ylhýra íslensku. Hann segir m.a. í formála sínum að í bókinni gæti strauma bæði upplýsingar og rómantíkur, þar birtist bæði áhugi upplýsingarmannsins á náttúrunni og eldvirkni landsins og hrifnæmi rómantíkersins á fornum menningararfi þjóðarinnar.[3]
Lítið er vitað um Charles William Shepherd sem einnig kom hingað til lands á nítjándu öld og skráði ferðasögu sína. Hvorki veit ég fæðingar- eða dánardag eða örlög hans yfirleitt og enga mynd hef ég fundið af honum. Af ferðasögu hans má ráða að hann er ævintýramaður, glaðlyndur og góðlyndur með hárfína kímnigáfu. Veður var vont á ferðalögum hans líkt og hjá Barrow, rigning, stormur og slydda, og stundum svo slæmt að ekki var hægt að kveikja eld í tjaldstaðnum. Ferðasögur þessara tveggja heiðursmanna eru skemmtilegar aflestrar og lýsa ýmsu fróðlegu um ferðamennsku, siði og ástand þjóðarinnar fyrir rúmum 150 árum.
(Vindgnauð, lækkar ofan í lesturinn)
Ferðamaður sem nálgast ströndina við Reykjavík, og hefur ekki kynnt sér með bóklestri hvers vænta megi, umfram að það að hér sé höfuðstaður Íslands, getur varla virt fyrir sér það sem sést af bænum frá höfninni – sem er þó skárri hlutinn – án þess að verða fyrir megnum vonbrigðum. (29)…..Ég get vart hugsað mér ömurlegri stað en Reykjavík hlýtur að vera vetrarmánuðina fimm þegar jörðin er kafin í snjó og næturnar langar og kaldar og oftast stormasamar, þegar svefn íbúanna er rofinn af drunum hafsins við háa og grýtta strönd og af gnauði norðanvindanna á hlélausum húsum (Ísl.heimsókn:41).
Svo kemst John Barow að orði um Reykjavík síðsumars 1834, en hann lýsir bænum þannig að hann samanstandi af nokkrum slitróttum húsaröðum, einr grýttri götu (ekki með neinum smásteinum heldur hnullungum), lágreistum torfbæjum, sumir með garðholu þar sem matjurtir, eins og hvítkálshaus á stærði við krónupening, berjast fyrir lífi sínu, örfáum steinhúsum, engin tré eru í bænum en þar er almenningsbókasafn með nálægt 6000 bindum og almenningur les mikið. Svipaðar lýsingar má finna hjá Shepherd en fyrstu kynni hans af landi og höfuðstað, þann 27. maí 1862, eru á þessa leið:
Fyrsta landsýnin var ekki sérlega hressandi. Veður var þungbúið og dimmt í lofti, við og við reyndu veikir sólargeislar að brjótast í gegnum skýjaþykknið, slyddu og hríðarkólgu… Í landi sáum við, að á nokkrum stöðum voru fáeinir menn að bisa við báta sína… Annars virtist sem enginn hætti sér út fyrir húsdyr, nema í brýnustu nauðsyn, svo engu var líkara en bærinn væri auður og yfirgefinn (Ísl.ferð: 8).
Shephard kom fyrst til Íslands 1861, heillaðist þá af landinu, einkum náttúru og fuglalífi og gekk m.a. á tind Öræfajökuls. Árið eftir kom hann með búnað og menn til að fara í leiðangur um Vestfirði, og Norðurland og ætlaði svo á Vatnajökul. Hann var alltof snemma á ferðinni. Vorið var kalt, næstum ógerlegt að kaupa hesta en þeir höfðu gengið úti allan veturinn og voru horaðir og slæptir og bithagar hvergi nærri komnir almennilega undan vetri. Vegir, ef vegi skyldi kalla, voru á kafi í snjó eða ófærir vegna aurbleytu. Nauðsynlegt var að hafa innfæddan fylgdarmann í þessu hættulega og frumstæða landi. En fylgdarmann var ekki viðlit að fá á þessum árstíma, hver karlmaður sem vettlingi gat valdið var á sjó. Shepherd og félögum tókst þó að smala saman sæmilegum hestum og lögðu af stað og brátt slóst Ólafur Steingrímsson, sem hafði verið fylgdarmaður Shepherds árið áður, með í för.
Ólafur var heljarmenni og stjórnaði leiðangrinum af snarræði og hyggjuviti. Það var ekki einfalt mál að ferðast um Ísland á þessum tíma þegar allra veðra er von og það var nóg að gera hjá leiðangursstjóranum.
Ólafur var maður lítill vexti og ágætur fylgdarmaður. En einn var sá galli hans, að hann naut þess að bjóða hvaða illiviðri sem var birginn og virtist aldrei glaðari en þegar hann var holdvotur. … Við urðum að hlýða. Það þýddi ekkert að rökræða veður við mann, sem stóð þarna berhöfðaður og snöggklæddur í tjalddyrunum, og þótt klukkan væri ekki nema sex að morgni, hafði hann þegar verið svo lengi úti að hann var orðinn gegnvotur. Það var næsta erfitt verk að búa farangurinn upp á hestana þennan morgun. Allir hlutir voru rennblautir og fyrirferðarmiklir. Enginn hlutur virtist rúmast á sínum stað. Það var illmögulegt að brjóta saman tjöldin. Ofan á allt annað bættist svo það að þegar hestarnir höfðu verið reknir heim að tjaldstaðnum … kom að þeim fælni í einni stormhrinunni svo að þeir þutu í allar áttir, og á eftir þeim fór allt lauslegt, sem við tjöldin var. Ólafur tók hressilega í nefið og fór síðan … að elta hestana (Ísl.ferð:29-30).
(Hnegg og hófadynur! Lækkar)
Ólafur reyndist Sherpherd vel í ferðinni, hann samdi um gistingu, útvegaði vistir og þráttaði um verð, hafði stjórn á hestum og mönnum og bjargaði jafnvel úr lífsháska. Ef honum leist ekki á blikuna, sagði hann alltaf „ekki gott“ og leiðangursmenn lærðu fljótt að best var taka mark á þeim orðum. Þess má til gamans geta að Ólafur þessi er forfaðir Einars Kristjánssonar, hins fræga óperusöngvara. En víkjum nú aftur að John Barrow sem tókst eftir nokkra mæðu að útvega sér einhverja fylgdarmenn og hesta og þá gat ferðin loks hafist. En hans fylgdarmenn voru ekki jafn ötulir og Ólafur Steingrímsson. Gefum John Barrow orðið:
Íslendingar eru ekki framtakssamir og leiðsögumenn okkar brugðu lítt frá þjóðareinkennum í því efni, skorti á þreki og einbeittum vilja. Klukkustundum saman voru þeir að búa upp á baggahestana þó að farangurinn væri hvorki fyrirferðarmikill né þungur. … Hjá leiðsögumönnunum fór langur tími í að jafna baggana og ráðslaga um á hverjum skyldi vera þyngst og hverjum léttast. Enn lengur voru þeir að skipta hvað eftir annað um bagga á hestunum eftir að ég hélt þó að niðurstaða væri fengin. Loksins þegar þessu var lokið stigum við á bak og héldum leiðar okkar (53).
(EmilianaTorrini: Sunny Road, feida inn og út, 3.12 mín. http://www.youtube.com/watch?v=MyuL1z2tejs)
Steindór Steindórsson frá Hlöðum, mikill unnandi og velgjörðamaður ísl. ferðabóka, þýddi ferðasögu Shepherds þegar hann lá heima í fótbroti veturinn 1969. Víða eru innskot þýðanda, t.d. „hér virðist höfundur hafa ruglast í ríminu“ og „varla hafa þetta verið lómar“. Steindór nafngreinir bændur á bæjum og kaupmenn á verslunarstöðum en ekki er þess getið hver er húsfreyja í Vigur en Shepherd og félagar leigðu sér bát og fóru út í eyna, hittu þar húsfreyju sem veitti þeim góðan beina og sagði þeim ýmislegt um æðarvarp og dúntekju. Sennilega er þessi kona Anna Ebenesardóttir, sem kölluð var maddama Anna.[4]
Í báðum ferðasögunum er gestrisni Íslendinga rómuð og talað um að þeir gefi rausnarlega af því litla sem þeir eiga og allstaðar er í það minnsta boðið kaffi og rúgbrauð. Blóðmör, harðfiskur, skyr og hákarl er það sem ferðalöngum er boðið uppá viðast hvar, við misjafnar undirtektir. Ekki þótti Shepherd íslenskur matur góður, aðallega vegna þess að kryddið vantaði. Hér segir frá matarveislu sem honum var boðið í á Hofsósi:
…settumst við að furðulegum miðdegisverði, en það var steiktur fýll, teista og álka, allt sjófuglar með fisk- og lýsisbragði. Nokkuð af óbragðinu hafði náðst burtu með því að þvo fuglana úr köldu vatni. Þá hvarf bragðið að mestu og þegar þeir höfðu verið kryddaðir með Cayennupipar máttu þeir kallast bragðgóðir. Ég vil í fullri alvöru ráðleggja öllum þeim sem ferðast til landa þar sem þeir þekkja ekki til mataræðis, að taka með sér glas af þessu ágæta kryddi. Það er unnt að borða fýl með góðri lyst, ef hann hefur verið kryddaður með því. Og um leið verður hinum ágætu húsfreyjum forðað frá því að fá taugaáfall af að sjá gretturnar, sem hinir ljúffengu réttir, kæstur hákarl og úldið kjöt, annars knýja fram á andliti gestsins. (91)
Barrow segir frá veislu sem hann sat hjá herra Knudtzon, dönskum kaupmanni, og var hin glæsilegasta. Þar var meðal fágætra rétta flattar og þurrkaðar gæsir og endur, margar tegundir víns og enginn skortur á kampavíni (106). En ekki var hann sérlega hrifinn af íslenska smjörinu, það var ekkert svo vont á bragðið og engin ólykt af því en það hafði oft verið þannig handfjatlað að það var hárugt sem nægði til að ekki var sérlega geðslegt að leggja sér það til munns (75).
Vestfirðir voru og eru afar vinsæll ferðamannastaður á Íslandi. Shepherd komst til Vestfjarða og tók sú ferð langan tíma. Hestarnir voru þrekaðir og landið erfitt yfirferðar. Shepherd var mikill fjallagarpur og kleif fyrstur manna Drangajökul[5] svo vitað sé, ásamt félögum sínum. Það má segja að það hafi verið hápunktur ferðarinnar enda héldu þeir félagar upp á það með þvi að fara í hrein föt og hita sér skjaldbökusúpu úr dós. Shepherd þótti miklu búsældarlegra um að litast á Vestfjörðum en annars staðar á Íslandi, og talar ma mikið menningarheimili í Guðlaugsvík (sunnarlega á Ströndum) og sömuleiðis í Kollafjarðarnesi. Kirkjuból, Víðidalsá og öll býlin meðfram Steingrímsfirði eru með meiri myndarbrag en annars staðar á Íslandi, segir Shepherd (54). Á Ísafirði, en þangað komst hann á bát frá bænum Hamri, kynnist hann framleiðslu á einni helstu útflutningsvöru þjóðarinnar:
Ég hef getið þess áður að yfir kaupstaðnum lá frámunalegur óþefur, sem hvarvetna fyllti nasirnar. Við tókum eftir því, að fýlan óx eða minnkaði eftir því hvort við nálguðumst eða fjarlægðumst svartan húskofa norðarlega í kaupstaðnum. Þegar við skoðuðum húsið nánar komumst við að raun um, að óþefurinn kom af hálfúldinni hákarlslifur, sem verið var að bræða þar í stórum eirpottum. Í pottunum var ógeðslegur grænleitur grautur, hræðilegur að sjá. Ekki var unnt að hafast þar við nema fáeinar sekúndur í einu. Engu að síður voru þarna að verki nokkrir sóðalegir menn, sem hrærðu í grautnum með löngum stöngum og virtust njóta reykjarins af honum. Síðar fréttum við að fjöldi smáskipa stundaði hákarlaveiðar á sumrin, og lifrin og eitthvað meira af innyflum hákarlsins væri flutt í land, til þess að bræða úr því lýsið (81).
Bæði John Barrow og Shepherd lýsa híbýlum Íslendinga og finnst þau vægast sagt ömurleg. Húsgögn eru fábrotin og léleg, gluggar fáir og litlir, alls staðar er drasl og skran, myrkur, reykjarmökkur og fýla. Helst vilja ferðalangarnir sofa í tjöldum sínum en stundum hrakti illviðri þá til að beiðast gistingar innandyra og var þá jafnan vísað til kirkju. En ekki tók þá betra við, John Barrow segir frá:
Kirkjan var bágborin, lítil, skítug og full af drasli. Hún var tuttugu og fimm fet og tíu þumlungar að lengd, þar af var forkirkjan sextán fet. Breiddin var tíu fet og sjö þumlungar. Í henni var jafnvel ennþá meira af drasli en í Þingvallakirkju. Borð höfðu verið lögð ofan á bitana, sem aðeins voru í fimm feta og níu þumlunga hæð. Þar var hrúgað saman hvers konar skrani eins og í skemmu, alls konar búsáhöld, fatnaður, ull og matvara. Niðri í sjálfri forkirkjunni var svo heljarmikil kista og mikið af sængurfatnaði. Þegar við þetta bættust reiðver okkar og annar farangur var ekki mikið rúm eftir í þessu litla bænahúsi. Varla er unnt að hugsa sér lítilfjörlegra musteri að ásýnd og allri gerð (102).
Shepherd gisti líka í kirkjum, hann lenti meira að segja í því þegar hann gisti í kirkjunni á Felli við Kollafjörð, að líkkistu, sem innihélt nýdáinn mann, var skotið inn í kirkjuna um nóttina meðan þeir sváfu.
En hvað voru menn að iðja svona almennt á þessum tímum? Shepherd undrast að Íslendingar stunda enga leiki eða spil en samræður virðast besta skemmtun þeirra. Ólafur fylgdarmaður hans var alltaf í hrókasamræðum við heimamenn hverja stund sem hann þurfti ekki að snúast fyrir leiðangursmenn (40). Barrow hugsar um hvernig geti staðið á því að Íslendingar séu óþreytandi að eyða tómstundum sínum í alls konar rannsóknir, bóklestur og bókmenntir, og að geislar þeirra andlegu snilldar brjótist í gegnum dimm ský andstreymisins og napra þoku fátæktarinnar, eins og hann orðar það (120).
Barrow verður í ferðasögu sinni tíðrætt einangrun landsins og efnahagslegt ástand þjóðarinnar sem er ansi bágborið: „Fátæktin er hið almenna ástand með Íslendinga“ segir hann (118). Í framhaldi furðar hann sig þvi á heimþrá Íslendinganna,
…séu þeir staddir erlendis eru þeir síandvarpandi og kveinandi og aldrei hamingjusamari en þegar þeir sjá einhverja von um að komast heim aftur. Þess eru jafnvel dæmi að Íslendingar er setið hafa í ágætum stöðum í Kaupmannahöfn hafa kastað þeim frá sér til þess að komast heim til frænda og vina á Íslandi. Svo fast toga heimahagarnir þetta vesalings fólk til sín, og á það jafnt við um presta og bændur… (119).
Hekla og Geysir voru alvinsælustu ferðamannastaðirnir, enda Hekla löngum talin fordyri helvítis og Geysir mikið náttúruundur. Shepherd og Barrow koma að Geysi og lýsa því báðir hvernig ferðamenn báru torf og grjót að hvernum til að fá hann til að gjósa. Er nema von hann sé hættur að láta á sér kræla eftir svo illa meðferð í gegnum aldirnar. Shepherd kom líka til Mývatns og höfuðstaðar hins bjarta norðurs, Akureyrar, og varð afar glaður að sjá þar loksins einhvern trjágróður eftir að hafa ferðast um grýttar auðnir og sanda:
Akureyri er næst stærsti kaupstaður landsins með 600 íbúum. Samt var hvergi unnt að fá kvöldmat kl. 11. … Samt er rétt að geta þess að Akureyri er líflegasti og viðfelldnasti bærinn á Íslandi, og þar er mest athafnasemi. … Sérhver ferðamaður hlýtur að dást að trjánum á Akureyri. Þau eru að vísu aðeins tvö talsins, en það eru regluleg tré með gildum stofni og greinum og um 25 fet á hæð. Þetta eru reyniviðir og standa sinn við hvort hús norðarlega í bænum.”
(Tónlist: Hjálmar: Leiðin okkar allra, feida inn og út. http://www.youtube.com/watch?v=9tLmcSIMDKo)
Ferðir ungra enskra aðalsmanna til framandi landa voru algengar á nítjándu öld og voru hluti af eða smiðshöggið á menntun þeirra. Ísland var sérlega heillandi, frumstætt og framandi, vagga norrænnar tungu og bókmenntaarfs. Hinn frægi hönnuður og listamaður, William Morris t.d. var heillaður af Íslandi, þýddi nokkrar Íslendingasögur yfir á ensku, kom tvisvar til Íslands, ritaði ekki ferðasögu en hélt dagbók. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur styðst mjög við þætti úr ævi Morris en ekki síður við ferðasögur Shepherds og Barrows í skáldsögu sinni, Íslandsförinni, um enskan aðalsmann sem fer til Íslands á seinni hluta nítjándu aldar, aðallega í leit að sjálfum sér og uppruna sínum og á flótta frá fortíð sinni. En hér heyrum við lýsingu á því þegar sögupersóna hans kynnist Íslendingum í fyrsta sinn (GAT les):
Þeir voru afar litlir vexti, grettir í framan og af þeim lagði nokkuð megnan þef. Allan tímann þögðu þeir og góndu á okkur, svo að mér þótti nóg um. Við buðum þeim uppá svolítið koníak og kex sem þeir þáðu með þökkum. Nokkuð glaðnaði yfir þeim við góðgerðirnar og þeir tóku að tala sín á milli um okkur. Ekki gáfu þeir sig þó sérstaklega að okkur heldur settust allir saman að tafli með skipverjum (GAT:76).
Fyrstu kynnum af Reykjavík er sömuleiðis lýst, með augum ferðalangs sem er vanur torgum og turnspírum Lundúnaborgar, lystigörðum og húsalengjum og hellulögðum strætum.
Þetta er ekki borg og ekki heldur þorp. Þetta er samt ekki sveit. Í rauninni er þetta einungis tilviljunarkennt samsafn af húsum. Regnið umlykur mann. Daunninn fyllir vit manns. Aurinn þekur sjónsvið manns. Enginn er er á ferli nema afkáralegt fólk á borð við hryggðarmyndina sem ég mætti eldsnemma í morgun kjagandi í ólýsanlegum tötrum með vatn í trogum og á hæla hans glefsaði argandi krakkaskríll (GAT:79-80).
Margt úr ferðasögunum tveimur endurómar í bók Guðmundar Andra. t.d. bæði lýsingar á ferðalögum og híbýlum. Allir eru þessir þrír aðalsmenn að sækja í frið frá siðmenningunni, njóta víðáttunnar og frelsisins og þeir eru tilbúnir til að leggja á sig gríðarlegt erfiði. Þetta er engin lúxusreisa. Þeir hossast á hestbaki klukkustundum saman, sofa í blautum tjöldum og eta vondan mat, berjast áfram í stormi og slyddu, yfir ár og vegleysur.
Aðalsmaður Guðmundar Andra hyggst sjá það markverðasta af landi og þjóð, klífa Heklu og sjá Geysi. Ekki fór hann alla leið á Heklu, hvorki sá hann Geysi gjósa né kom hann á Þingvelli. Leiðsögumaður hans um Ísland er Jón Hólm sem er einshverskonar samsuða úr Ólafi Steingrímssyni og Einari Benediktssyni skáldi, hann er ofurmenni og eldhugi, og elur í brjósti stórkostlegar hugmyndir um framtíð Íslands. Í Íslandsförinni birtast helstu erkitýpur Íslendinga fyrri alda úr sögu og bókmenntum. Annars vegar er það víkingurinn, athafnaskáldið sem vill berjast fyrir því að einangrun landsins verði rofin með gufuskipum og eimreiðum og að í kjölfarið komi velmegun og blómleg viðskipti og hinsvegar er það sama týpan og sjá má í Íslandsklukkunni og víðar – lúsugur og drykkfelldur Íslendingur, illa tenntur og tötrum klæddur, þjakaður af doða og sinnuleysi, svangur og kúgaður.
Leiðir ferðabóka Barrows og Shepherds og Íslandsfarar Guðmundar Andra liggja saman. Þar verða vegamót sannleika og skáldskapar, veruleika og ímyndunar. Hugmyndir okkar um fortíðina er mótaðar af bókmenntalegum og sagnfræðilegum tengingum. Úr bókmenntum 18. og nítjándu aldar er m.a. komin goðsögnin um Sögueyjuna, sagnaþjóðina, tunguna og ótrúlegan bókmenntaarfinn. Margir ferðamenn fyrri alda urðu því fyrir nokkrum vonbrigðum með að hitta ekki skáld og hetju á hverjum bæ, heldur kúgaða þjóð í nauðum.
(En þegar að er gáð er ástand þjóðarinnar barasta orðið eins og á dögum ferðabókanna tveggja. Nú híma kvótalausir sjómenn í sjávarplássum, í sveitum hokra bændur og lifa á niðurgreiðslum, í bæjum og borgum er fólk í fjötrum fáránlegs húsnæðiskerfis og fasteignaverðs og getur ekki um frjálst höfuð strokið, þrúgað af sköttum og svimandi verðlagi á nauðsynjavörum. Landið er ennþá fagurt og frítt en það er illa um það gengið, bæði ferðamenn og innfæddir fleygja rusli og sígarettustubbum hvar sem þeir standa, aka utanvega, menga og spilla.)
Ferðasöguritarar almennt halda sjálfum sér að mestu til hlés, þeir lýsa því sem fyrir augu ber af eins miklu hlutleysi og hægt er. Áhugi Barrows á jarðfræði og Shepherds á fuglum leynir sér ekki í bókum þeirra, en það glittir varla í persónu þeirra sjálfra í ferðasögunum, sjálfsmynd þeirra eða sálartetur. Þá undrar samt almenn fátækt, eymd og framtaksleysi þjóðar, þar sem læsi er útbreitt og annar hver maður mælir á latínu. Í Íslandsförinni er túlkun í gangi , boðskapur og ádeila sem ekki er að finna í ferðasögunum. Persóna Guðmundar Andra sem fetar í fótspor þeirra beggja er ein sálarflækja, viðkvæmur ungur maður sem glímir við skuggalega fortíð, móðurmissi og söknuð. Hann er einmana og örvinglaður. Myndin sem hann dregur upp af íslensku þjóðinni er dökk og drungaleg:
Það er búið að taka allt af Íslendingum, sagði Hólm loks alvörugefinn og hljóðlátur eftir að hafa velt vöngum yfir orðum mínum: Hafið var tekið af þeim þegar þeir gátu ekki lengur smíðað skip sín, timbur var þorrið í landinu og siglingar strjáluðust. Gullöld Íslendinga byggðist á siglingum. Himinn var tekinn af þeim þegar eldfjöllin tóku að spúa gjalli og vikri svo sólin sjálf sortnaði og dimm eiturslæða lagðist yfir landið og jarðargróðinn sem þú talar um drap skepnurnar. Þá flosnaði upp fólkið sem lifði af þessum skepnum, það fór á vergang og dó úr hungri. Þannig er búið að taka jörðina af þessari þjóð. (GAT:66-7)
Jón Hólm, eldhugi og útrásarvíkingur, á lokaorðin í þessum þætti. Vonandi endurtekur sagan sig ekki. Ég óska ykkur, kæru hlustendur, góðrar heilsu og langlífis.
Tónlist: Sprengjuhöllin: Keyrum yfir Ísland, 5,16 mínútur http://www.youtube.com/watch?v=_H-pXoMcGyA&feature=PlayList&p=AD782E1C4BA84E4F&index=15
Ófullkomin heimildaskrá (í vinnslu)
[1] http://www.vegur.is/annall-1976-2000.html
[2] http://www.npg.org.uk/collections/search/largerimage.php?LinkID=mp00280&role=sit&rNo=0
[3] Haraldur Sig. 1993:13
[4] sbr Sigurður Bjarnason 1988, Ábúendur í Vigur í gegnum tíðina
[5] sbr Sumarliði Ísleifsson 1996:167-8