Þar sem hjartað slær  

Óvæntur glaðningur barst inn um bréfalúgur landsmanna á dögunum. Þar var á ferð auglýsingablað sem gefið var út af Rekstrarfélagi Kringlunnar í tilefni 15 ára afmælis verslunarmiðstöðvar allrar þjóðarinnar. Blaðið bar glæsilegri hönnun og vandaðri ljósmyndun gott vitni og greinilegt að þar voru fagmenn að verki.  Smellin stafrófsauglýsing á miðopnunni er gott dæmi en hún sýndi á smekklegan og hugvitsamlegan hátt að í Kringlunni fæst allt frá a-ö. Hvort einhver nennti að kynna sér allan þann fróðleik sem í blaðinu var um t.d. viðhorfakannanir, fjármögnunarleiðir, starfsfólk, útlit og stækkun húsnæðisins er óvíst en myndirnar eru sannkallað augnayndi. Glæsilegar umbúðir – en utan um ekki neitt…

Markaðssetning aðstandenda Kringlunnar er einstaklega vel heppnuð. Þeim sem í upphafi stóð stuggur af peningaeyðslu og fækkun grænna svæða í höfuðborginni sem óhjákvæmilega fylgdu byggingarframkvæmdunum á sínum tíma hefur snúist hugur á undanförnum árum og nú þykir 80% landsmanna hreinlega vænt um Kringluna. Í fjölmiðlum og á flettiskiltum er Kringlan kynnt sem margbreytileg og lifandi; fjölskylduvæn og menningarleg „félagsmiðstöð“. Í nýjustu auglýsingaherferðinni, sem er snilldarlega uppbyggð, er höfðað til allra aldurshópa. Þar má t.d. sjá myndarlegan mann sem þarf ekki lengur á minnismiðum að halda því hann getur rekið öll erindi á einum stað,  eldri konu með bros á vör, glaða unglinga sem ólga af kyntöfrum og ljóshært barn sem segir blátt áfram að Kringlan sé skemmtilegri. Yfir öllu saman hvílir einhvers konar sveitalegur heimsborgarabragur. Duldu skilaboðin hljóma á þá leið að maður þarf ekki að fara til útlanda til að upplifa heiminn; vörur, þjónusta og neytendur Kringlunnar eru í túnjaðrinum – og allt sem þarf.

Kringlan skipar sérstakan sess í hjörtum þjóðarinnar. Hún er sönnun þess að við erum engir eftirbátar annarra. Íslendingar eru komnir út úr saggafullum torfbæjunum og stíga beint út á marmaragólfið. Mahóníveggir, döðlupálmar og glerþök undirstrika enn frekar hversu velmegandi, nýrík og hamingjusöm þjóðin er. Kringlan er veröld í veröldinni,  þar er líf og fjör alla daga vikunnar og undrunarefni að á kvöldin er þar ekkert um að vera – aðeins nýbúar að skúra. Eftir langa og stranga vinnuviku fer fjölskyldan saman í Kringluna og eyðir þar sunnudeginum við tryllt innkaup  og skyndibita í frauðbökkum. Svo árangursríkar eru auglýsingarnar að Kringlukastið, jólaverslunin og páskaþemað eru fyrir löngu orðin jafn sjálfsagður hluti af heimilislífi fólks og ættingjaheimsóknir og ísbíltúrar fyrrum.

Aðalsmerki Kringlunnar hefur ávallt verið gæði og glæsileiki og sú er ímynd hennar í fjölmiðlum. Segja má að helsti keppinauturinn, Smáralindin, komist ekki með tærnar þar sem Kringlan hefur hælana. Í Kringlunni eru dýru merkjavörurnar: Boss, Sand, Diesel og Karen Millen en í Smáralindinni hokra Dressman og Zara. Laugavegurinn er í andarslitrunum, það eina sem heyrist þaðan er nöldur vegna þrengsla, bílastæðaskorts og stöðumælasekta. Í eina tíð sóttu smáborgararnir og landsbyggðarfólkið Kringluna en menningarvitarnir fóru á Laugaveginn. Nú þyrpumst við öll í Kringluna – þar sem þjóðarhjartað slær.

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 29. ágúst 2002

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s