Saddam átti syni tvo

 

Styrjöldin í Írak er ekki bara blóðbað heldur einnig áróðursstríð. Í Bandaríkjunum gengur maður undir manns hönd að réttlæta innrásina í Írak og fréttir sem sendar eru út af atburðum þar í landi þjóna þeim tilgangi ljóst og leynt. Nýjasta uppákoman er fréttin um drápið á sonum Saddams en hermenn Bandaríkjamanna ruddust inn í hús þar sem þeir voru í felum. Þeir féllu báðir í átökunum og fjöldi fólks að auki.  Á ljósmyndum sem teknar voru skömmu eftir dauða bræðranna og birtst hafa í heimspressunni eru andlit þeirra bólgin og blóðug,  hulin þykku skeggi að mestu og nær óþekkjanleg. Höfuð mannanna virðast hvíla á bláu plasti og axlir þeirra eru naktar. Efasemdarraddir heyrðust og sumir töldu að myndirnar væru falsaðar og synir Saddams einhvers staðar sprelllifandi að gera grín að öllu saman. Sjónvarpsáhorfendum brá síðan í brún þegar boðið var upp á óvænta sjokkmeðferð í fréttatíma beggja íslensku stöðvanna: glænýjar og raunverulegar kvikmyndir af búkum sona Saddams. Varað var við myndunum sem voru í meira lagi ógeðfelldar og hafa vakið bæði óhug og reiði. Í fréttunum voru þeir bræður sýndir í lifanda lífi, glaðbeittir í samkvæmislífinu og á góðri stund með föður sínum. Þá voru lík þeirra sýnd í nærmynd af fáheyrðu miskunnarleysi. Mikið hefur verið lagt upp úr því að sannfæra umheiminn um að pörupiltarnir séu örugglega dauðir og ef marka má myndirnar hafa þeir svo sannarlega verið skotnir í tætlur.

 

Svala verður forvitni, hefndarþorsta og réttlætiskennd almennings og í þeim tilgangi var sett upp skrípaleikrit sem rataði síðan á sjónvarpsrásir heimsins: leiktjöldin lítið brúnleitt tjald og á skilti sem hrófað var upp fyrir framan stóð „Mortuery“. Inni í tjaldinu hvíldu synir Saddams á líkfjölunum, vaxkennd andlitin vandlega snyrt og rökuð. Ekkert nema lendaklæði huldi nekt þeirra, krufingarskurðurinn var rimpaður saman og náði frá brjósti niður að nafla og skotsárin auðsjáanleg á skrokkunum. Fréttamenn gengu inn í einfaldri röð til að skoða líkin og sannfærast um að hið illa hefði verið kveðið niður í bili. Myndavélunum var beint að andlitunum, áverkunum og brotnum fæti annars þeirra í afkáralegri stellingu. Hróðugir lýsa Bandaríkjamenn því yfir að hringurinn þrengist um Saddam og ef til vill eigum við von á að fá að sjá myndir af limlestum búk hans á skjánum þegar fram í sækir. Írakar eru sumir hverjir ævareiðir og líta bæði á drápin og meðferðina á líkunum sem hryðjuverk…

 

Það er margt umhugsunarvert varðandi fréttirnar um örlög sona Saddams. Sú spurning vaknar hvort reynt hafi verið að gefa þeim bræðrum kost að á að gefast upp en tvímælalaust hefði átt draga þá fyrir rétt svo þeir þyrftu að svara til saka og taka út sína refsingu samkvæmt lögum. Svo virðist sem lögmál villta vestursins hafi ráðið algjörlega í þessu máli: skjóta fyrst og spyrja svo. Ekki það að synir Saddams eigi sér nokkrar málsbætur fyrir glæpi sem þeir hafa framið en felst nokkur friðþæging í ofbeldisfullu drápi þeirra? Annað sem athygli vekur er hvernig staðið er að fréttaflutningi hingað til lands af atburðum í Írak. Hafa íslenskir fréttamenn ekki aðstöðu, menntun,  þekkingu  eða vilja til að vinna úr öðrum fréttaskýringum en þeim bresku og bandarísku? Sjónarhorn majóra og marskálka ríkir ávallt í fréttum hérlendis þegar rætt er um tap, sigra og mannfall í stríði þessu. Loks ættum við að íhuga hvort við kærum okkur yfirleitt nokkuð um að taka þátt í trylltri sigurvímu veiðimannsins sem hælist um og lætur mynda sig sigurreifur með föllnu veiðidýri eftir langan eltingarleik.

STEINUNN INGA ÓTTARSDÓTTIR

Lesbók Morgunblaðins, 2. ágúst 2003

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s