Stef dauðans  

Dauðinn er daglegur gestur í fjölmiðlum. Í Ríkisútvarpinu, Rás eitt, eru lesnar dánar- og jarðarfarartilkynningar þrisvar á dag. Í hvert sinn er dauðastefið leikið, fyrirboði þess sem bíður hlustenda næst á dagskránni og seinna í lífinu. Stefið er stutt og merkilega yfirlætislaust og hefur nýlega verið endurútsett (hljómsveitin SigurRós gerði það ódauðlegt í bíómyndinni Englum alheimsins). Lestur tilkynninganna er hægur og vandað til hans, greinilegt er að tillit er tekið til syrgjenda og aðgát höfð í nærveru sálar. Rödd þularins er full hluttekningar og þagnir á réttum stöðum. Fyrir syrgjendur boðar lesturinn  kaldan raunveruleikann sem erfitt er að horfast í augu við, lát ástvinar er opinber og óumflýjanleg staðreynd. Lestur dánarfregna og jarðarfarartilkynninga er séríslenskt fyrirbrigði og vafalaust tilkomið af smæð þjóðarinnar, allir þekkja alla og samhryggjast hver öðrum á erfiðum stundum.

Í íslenskum ljósvakamiðlum er sagt frá því með tilhlýðilegri virðingu og látbragði þegar merkur maður deyr. Sama gildir ef slys ber að höndum, nöfn hinna látnu eru ekki birt fyrr en tryggt hefur verið að náðst hafi í aðstandendur. Yfirleitt einkennir fagmannleg nærgætni og samúð fréttaflutning af þessu tagi. Myndum af slysstað og öllum viðbúnaði er að jafnaði  í hóf stillt hér á landi og æsifréttir líðast ekki, hvorki í sjónvarpi, útvarpi eða dagblöðum. En eftir því sem fjarlægðin er meiri við dauðann eykst nærsýni íslenskra áhorfenda. Það snertir þá meira að óviðkomandi maður deyr í bílslysi í Kömbunum en að hópur Indverja brenni inni. Við tökum ekki í mál að brak bílsins sé sýnt í fréttunum en horfum þess í stað lítt snortin á eldtungurnar umlykja Indverjana. Mannskæð slys í útlöndum kalla alltaf á frétt um það hvort einhverjir Íslendingar hafi verið þar á meðal og þakka menn auðvitað sínum sæla þegar svo er ekki. Setningar eins og „tugir fórust“ eða „hundruð manna er saknað“ hafa lítil áhrif þegar fréttin á við atburði erlendis enda nánast daglegt brauð. En þegar atburðirnir snúa að okkur sjálfum sýnum við þá meðlíðun sem í okkur býr og nægir að nefna samhug í verki eftir náttúruhamfarirnar á Súðavík og Flateyri.

Mannfallið í Bandaríkjunum á dögunum er bæði óraunverulegt og fjarstæðukennt en nú erum við sem bergnumin enda harmleikurinn steinsnar frá túngarðinum. Í fréttatímum þarlendra sjónvarpsstöðva er veitt leiftursýn inn í sorg fólks og ráðleysi þegar tekið er átakanlegt viðtal við syrgjanda, birt myndskeið af grátandi fólki við minningarathöfn, margendurtekin skilaboð af símsvara frá örvinglaðri manneskju nokkrum sekúndum áður en hún fórst og birt mynd af heimilisföður sem hringdi fjórum sinnum úr einni af farþegaþotunum sem notaðar voru í hryðjuverkunum. Þetta eru amerískar fréttir fyrir ameríska þjóð en við Íslendingar eigum ekki að venjast svona nálgun og venjumst henni vonandi aldrei. Við erum meira fyrir að byrgja sorgina inni og harka af okkur. Aðstandendum látinna ástvina og öðrum fjölmiðlaneytendum á Íslandi er oftast sýnd tillitssemi – ef til vill er tillitssemin sveipuð þögn, viðkvæmni og feimni um of og hún römmuð inn af hinu eintóna útvarpsstefi dauðans – en borin er djúp virðing fyrir sorginni og hún er ekki fréttamatur í sjálfri sér. Við veitum sorginni útrás í öðru séríslensku fyrirbrigði: minningagreinunum.

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 19. september 2001

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s