Samskipti fólks hafa breyst verulega í kjölfar fjölmiðlabyltingar og tækninýjunga nútímans. Greiðustu leiðirnar til samskipta liggja nú í gegnum símann og netið. Einfaldast, skilvirkast og fljótlegast er að senda viðkomandi sms-skilaboð eða tölvupóst. Á degi hverjum streyma þúsundir skilaboða um símalínurnar. Þau einkennast af sérstöku tungutaki, orðin eru stutt og skammstöfuð, oft á ensku eða myndletri sem hvaða fornegypti sem er gæti verið fullsæmdur af 😉. Unga fólkið notar þennan samskiptamáta mikið. Feiminn strákur þarf nú ekki lengur að roðna og tafsa fyrir framan stelpu sem hann langar að bjóða með sér í bíó, hann einfaldlega sendir henni riddaralegt sms og þau mæla sér mót vandkvæðalítið. Eða hann sendir henni tölvupóst, t.d. sæta glærusýningu með rósum og hjörtum, og þá er málið í höfn. Ef upp úr slitnar má hringja í einhvern spjallþáttinn í útvarpinu og biðja fyrir fallega kveðju til elskunnar með rómantísku lagi í von um endurfundi. Það er ekki eins erfitt og að biðja um það augliti til auglitis, rjóður og sveittur. Fjölmiðlatæknin tekur nú á sig hinar þungu byrðar mannlegra samskipta og gerir fólki auðveldara fyrir á stundum sem geta verið erfiðar eða neyðarlegar, eins og að kynnast hvert öðru, segja hug sinn allan eða biðjast fyrirgefningar.
Þrátt fyrir þetta eru margir einmana. Sumir leita inn á vefinn Einkamál.is. Þetta er gríðarlega fjölfarinn vefur sem fær þúsundir heimsókna í viku hverri. Þarna eru á þriðja þúsund karlar á skrá en konurnar eru nokkuð færri – allt þetta fólk er að leita að félaga, vini eða elskanda. Til að vera með í slagnum þarf aðeins að skrá sig inn undir dulnefni, gefa upplýsingar um útlit og aldur, hæð og þyngd, hárafar og helstu hæfileika og bíða svo átekta. Einnig er hægt að leita á vefnum að manneskju með ákveðna og eftirsóknarverða eiginleika, t.d. að dökkhærðri konu milli þrítugs og fertugs sem hefur áhuga á útivist og ferðalögum eða vel vöxnum karli í leit að rómantík. Þá er búið að þrengja hringinn og auka líkurnar á að mótaðilinn falli í kramið. Fyrr en varir rignir inn dulúðugum bréfum frá einmana fólki um allan bæ. Dulnefnin segja sína sögu; konur fá bréf frá Harðjaxli, BlueEyes, Colosseum, Senator og Rocky; karlarnir fá frá Vordegi, Diljá og Kisulóru. Í lýsingunum sem fólk setur fram á vefnum til að ganga í augun á hinu kyninu endurspeglast klisjulegar hugmyndir kynjanna um hvort annað. Konurnar segjast gjarnan vera ákveðnar og sjálfstæðar en langar að kynnast ljúfum manni sem hefur áhuga á matargerð og líkamsrækt. Karlarnir segjast vera heimakærir grillarar sem finnst gaman að fara út á lífið í góðra vina hópi en njóta þess ekki síður að kúra með elskunni við kertaljós. Í skjóli leyndarinnar er svo spjallað og daðrað en stundum afræður fólk að varpa af sér hulunni og hittast í eigin persónu. En þegar stigið er út úr sýndarveruleikanum reynist grillarinn góði oft vera giftur ístrubelgur og Kisulóran gamalt fress.
Það dapurlega er hve þessi samskipti eru yfirborðsleg. Engin netkynni koma í staðinn fyrir ást og vináttu sem þróast í gegnum líkamlega snertingu, lit og lykt, rödd og látbragð. Ekkert sms kemur í staðinn fyrir fyrirgefningarbeiðni og huggunarorð sem sögð eru í hita augnabliksins. En sorglegast af öllu er kannski það að einkamálin eru ekki lengur einkamál þegar skrifast er á við ókunnugt fólk og bréfin öll hýst á gígabætum veraldarvefsins.
Steinunn Inga Óttarsdóttir
Lesbók Morgunblaðsins, 18. maí 2002