Með jólapopp í eyrunum

Jólin eru enn og aftur á næsta leiti og hafa bæði kaupmenn og neytendur þegar sett sig í stellingar. Jólaskreytingar fylla alla búðarglugga, jólatilboð streyma ofan í póstkassana, jólahlaðborð er haldin um allan bæ, jólabækurnar eru komnar glóðvolgar úr prentsmiðjunni, jólasveinarnir farnir á kreik  – og jólalögin farin að óma á öldum ljósvakans. Löngum hafa verið skiptar skoðanir um hversu löngu fyrir fæðingarhátíð frelsarans sé tilhlýðilegt að hefja flutning jólagleðilaga í útvarpi. Útvarpsstöðin FM 96,7 auglýsir sig sem jólabarnið í ár og þar hafa jólalögin verið leikin allengi nú þegar. Bylgjan og Rás 2 eru hófsamari og leika aðeins nokkur lög á klukkustund. Það kemur síðan alltaf jafnmikið á óvart á hverju ári þegar vegfarendur eru spurðir hvað þeim finnst um jólastemninguna í útvarpinu að þá segja langflestir að vertíðin byrji alltof snemma og að þeir séu orðnir hundleiðir á jólalögunum þegar jólin loksins koma. Samt hamast útvarpsstöðvarnar við að leika jólapopplög, bæði innlend og erlend, til að hala inn meira af auglýsingum hverjum ætlað er að örva kaupgleði hlustenda sem verða æ óþreyjufyllri eftir afmælisveislunni. Og nú er meira að segja farið að selja jólapylsur með hangikjötsbragði svo ekki þarf að láta sig lengja eftir því á aðventunni.

En ekki eiga allir frelsarar afmæli á jólunum. Ríkissjónvarpið hefur greinilega gert góð kaup í evrópskum múhammeðstrúarpakka því það sýnir nú margskonar sjónvarpsefni, bæði leiknar myndir og heimildaþætti, um harðstjórn í ríkjum múslima. Síðastliðið sunnudagskvöld sýndi Sjónvarpið íransk/franska bíómynd sem bar heitið Sólmyrkvi í Kandahar. Myndin lýsti valdbeitingu og ógnarstjórn talíbana í Afganistan á áhrifaríkan hátt. Á dögunum var einnig sýnd heimildarmynd um sjö barna móður sem talíbanar tóku opinberlega af lífi á fótboltavelli eftir fáránleg réttarhöld. Og á þriðjudagskvöldið var þýsk heimildarmynd á skjánum, Klerkaveldið kvatt, sem fjallaði um „íslömsku byltinguna“ og valdatíma Ayatollah Khomeinis í Íran. Þar var m.a. fjallað um stöðu kvenna í múhammeðstrú og kúgun kvenna sögð forsenda og undirstaða ógnarstjórnarinnar. Í fjölmiðlum er dregin upp  nokkuð einhliða mynd af arabaheiminum, fornri menningarþjóð sem byggir á aldagömlum hefðum, og eimir nokkuð af vestrænum hroka gagnvart trúarbrögum sem við þekkjum og skiljum lítið. Vissulega hafa viðgengist glæpir og ofbeldi í nafni trúarbragða fyrr í mannkynssögunni og annars staðar á landakortinu. Í okkar augum eru allir ararbar eins segir Jóhanna Kristjónsdóttir sem hefur kynnt sér menningu araba, stundað nám í arabísku og ætlar að bjóða Íslendingum upp á kynnisferð til Jemen. Ímynd múslimans í vestrænum fjölmiðlum er hópur af lágvöxnum, illa tenntum, skeggjuðum mönnum með yfirgreiddan skalla eða vefjarhött – ef ekki barasta heilaþvegnir hryðjuverkamenn með tifandi tímasprengju innanklæða. Múslimum er oftast lýst sem  blóðþyrstum trantaralýð, karlrembum og helsta ógnvaldi vestrænnar heimsvaldastefnu nútímans. Sjaldnast er gerður nokkur greinarmunur á öfgasinnuðum bókstafstrúarmönnum og öðrum. En ef allir múslimar eru eins og Saddam Hussein, eru þá allir kristnir menn eins og Adolf Hitler?

Fjölmiðlarnir matreiða heimsmyndina ofan í okkur og hagræða sannleikanum eins og þeim sýnist, þeir búa til ímynd jólasveinsins og múslimans sem við gleypum umhugsunarlaust. Við sitjum bara stillt og prúð með jólapoppið í eyrunum, bægjum frá okkur landlausum stríðsflóttamönnum af kristnu umburðarlyndi og bíðum spennt eftir að langþráð jólin gangi í garð. „Ég hlakka svo til, ég hlakka alltaf svo til…“

Steinunn  Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 29. nóvember 2003

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s