Allt er í allra besta lagi

„Fjölmiðlar eru spegill samfélagsins“. Leynist einhver sannleikur í þessari lúnu klisju? Víst er að fjölmiðlar eiga stóran þátt í þeirri glansmynd sem sköpuð hefur verið af íslensku þjóðinni í árdaga og við tökum henni sem heilögum sannleik. Við rekum jafnvel þessa mynd frekjulega upp að nefinu á öðrum þjóðum. Við Íslendingar erum glaðir, gáfaðir og ríkir. Bílarnir okkar eru nýir, híbýlin glæsileg, fötin smekkleg og líkaminn hraustur. Við erum sterkastir, fallegastir, hamingjusamastir, mesta bókmenntaþjóðin og bestir í íþróttum. Landið okkar er fagurt og frítt – og hreint. Endurspeglast veruleikinn í fjölmiðlunum eða búa þeir hann til? Þessi spurning hefur verið áleitin á síðustu áratugum og svarið er ekki einhlítt.

 

Í hverju felst rómuð hamingja Íslendinga? Að kaupa nauðsynjavörur hæsta verði með bros á vör? Að njóta lágra innvaxta en greiða himinháa skuldavexti með glöðu geði? Vinna baki brotnu og fá jólabónus? Bíða þolinmóðir eftir dagvist fyrir börn og gamalmenni meðan unga fólkið sér um að halda þjóðfélaginu gangandi? Vita að á ævikvöldinu fáum við, ef guð lofar, inni á elliheimili og getum æft okkur í ensku eða lært tælensku? Við lifum á tímum sýndarmennsku, öfga og tvöfalds siðgæðis. Ef  marka má sjónvarpsþætti eins og Innlit-útlit og Sjálfstætt fólk (poppuð útgáfa af Maður er nefndur) lifir goðsögnin um hamingjusömu eyþjóðina. En öfgarnir eru gríðarlegir; hvaða mótsagnakenndu samfélagssýn veitir viðtal við Lilju Pálma og heimildamynd um Lalla Johns? Eða opnuviðtal DV við þjálfara íslenska handboltalandsliðsins sem skyndilega er orðin þjóðhetja? Á sama tíma og öll þjóðin, frá rónum til ríkisbubba, mænir á landsleikina í beinni útsendingu er HSÍ enn að greiða niður skuldirnar frá þátttöku í síðustu heimsmeistarakeppni. Íslendingar eru þar á ofan reyklausir í orði kveðnu. Verðir laga og siðgæðis hafa bannað reykingar á almannafæri og opinberum stöðum. Hvar eiga þá vondir að vera? Hinsta glóðin deyr í sígarettustubbunum sem fólk fleygir út úr dýru og fínu bílunum sínum á regnvota götuna, þar safnast þeir í skítuga hauga og berast svo burt með vindum.

 

Kannski felst hamingjan í því að sjá ekkert illt, heyra ekkert illt. Ef útsendarar hins vonda koma hingað til lands í leðurjökkum með nauðrakaðan haus, vísum við þeim óðara til föðurhúsanna. Við skulum vona að hinir mótorhjólatöffararnir elti þá þangað. Allir eru áfram hressir og segja allt gott. Harmleikurinn í New York er þegar orðinn fjarlæg saga en ekki samtími og hver man lengur út af hverju Ísraelar og Palestínumenn eru að berjast? Og „hver vill heyra um vandamálin sem ekki er hægt að leysa, sorg sem engan endi tekur?“ eins og segir í Vitleysingunum eftir Ólaf Hauk Símonarson. Það er bæði þægilegt og fyrirhafnarlítið að fá heimsmyndina skraddarasaumaða í fyrirsagnastíl fjölmiðla. Æsifréttir, velgengniviðtöl, frægðarsólir og sorgarsögur dynja á okkur úr öllum áttum. En spegilmynd fjölmiðlanna er auðvitað tvívíð eins og aðrar spegilmyndir og getur því aldrei verið annað en sýndarveruleiki. Þriðja víddin heldur áfram að vera mótsagnakennd og ókunn ef andlegur doði og hugarleti meina okkur að leita veruleikans sjálf. Á meðan getum við tekið undir með meistara Altúngu í Birtíngi eftir Voltaire (þýðing Laxness): „þeir sem segja að alt sé í lagi eru hálfvitar; maður á að segja að alt sé í allrabesta lagi“.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 6. febrúar 2002

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s