Árið 1996 skrifaði ég ritgerð til M.A.-prófs í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands sem varðveitt er á Landsbókasafni, þjóðarbókhlöðu en er því miður ekki hægt að fá að geyma í Skemmunni. Hér má lesa brot úr aðfararorðum ritgerðarinnar, neðst er hlekkur á ritgerðina fyrir áhugasama lesendur.
„Þetta er ei annað en eins manns sjóferðaskrif“
Annáll íslenskra reisubóka
frá öndverðu til 1835
„Ferðalag úr heimahögum til ókunnra staða er ávallt merkilegur viðburður í lífi hvers manns. Þegar ferðalangur sneri aftur úr langreisum sagði hann sögur af svaðilförum sínum. Stundum gengu ferðasögur í munnmælum milli kynslóða. Eftir því sem aldir liðu varð æ algengara að menn hripuðu niður ferðasögu sína. Það er eins og einhverskonar löngun til þess að festa sjálfan sig á blað hafi orðið sífellt áleitnari í tímans rás, eins og einhver vitund um sjálf, sögu og samtíma væri að koma til skjalanna. Víst er að ef íslenski bóndinn Árni Magnússon frá Geitastekk hefði ekki skrifað ferðasögu sína seint á átjándu öld væri hann fallinn í gleymskunnar dá fyrir langalöngu. Vísbendingar um þessa „vitund“ í textum ferðalanga frá fyrri öldum vöktu upphaflega áhuga minn á ferðasögum. Raunveruleiki ferðasagnanna finnst mér ekki síður spennandi. Hann felst m.a. í sannsögulegum lýsingum á köldum og hráblautum vistarverum á löngum sjóferðum, skyrbjúg, sjóveiki og dauðabeyg þeirra sem unnu hættuleg störf um borð. Þessi raunveruleiki hafði ekki átt erindi inn í bókmenntir fyrr en með ferðasögunum og kallaði á ný efnistök og nýjan orðaforða. Nýir höfundar komu til sögu og margar ferðasögur eru dæmi um alþýðlega frásagnarlist. Ferðasögur sækja kraft sinn m.a. í nálægðina við raunveruleika og hlutkennda nútíð þar sem reynsla einstaklings verður til sem söguefni í rúmi og tíma. Rússneski bókmenntafræðingurinn Bakhtin notaði hugtakið „krónótópa“ um það þegar rými texta verður hlutkennt og áþreifanlegt, fyllt af raunverulegum eða efnislegum tíma. Hugtakið lýsir eðli ferðasagna mjög vel því þar má sjá manninn skoða og skilgreina sjálfan sig í veruleika eigin samtíma. Innan „krónotópu vegarins“ er það ekki aðeins markmið ferðar, upphaf hennar eða endalok sem skipta mestu máli heldur upplifun ferðalangsins á leið sinni, sýn hans á sjálfan sig og umheiminn. Persónuleg tjáning og sköpun eigin sjálfs í texta er viðfangsefni sjálfsævisögunnar en í ferðasögum má greina augljós áhrif hennar. Mörkin milli þessara bókmenntagreina eru oft býsna óskýr. Mjög er mismunandi hversu sjálfhverfur texti ferðasagna er en segja má að á meðan höfundarnir skoða sig um í heiminum taki landslag sjálfsins á sig mynd. Ferðalangarnir fara yfir landamæri í tvennum skilningi, landfræðilegum og persónulegum. Lýsingar á ytra umhverfi veita innsýn í persónuleikann, rannsóknir á umhverfi og samtíma varpa ljósi á sjálfan höfundinn. Þannig geta ferðasögur verið brot af sjálfsævisögu um leið og þær eru einskonar aldarspegill, ágæt heimild um hugsunarhátt manna fyrr á tímum.“
„Hvar sem maðurinn fer skilur hann eftir sig slóð af orðum. Sérstæð lífsreynsla ferðalangs á ókunnum stigum er ávallt í frásögur færandi og þeir sem ekki hleypa heimdraganum drekka orð hans í sig. Sú orðaslóð sem umbreytir atburðarás ferðalags í ævintýr og staðreyndum í sögu heyrir til því sviði bókmennta sem kennt er við ferðasögur. Þær hafa frá aldaöðli tekið á sig margskonar myndir og verið afar sundurleitar að allri gerð. Samfelld saga ferðabókmennta hérlendis frá öndverðu til vorra daga hefur ekki verið rituð ennþá en upphaf ferðasagnaritunar má tímasetja á seinni hluta tólftu aldar með stuttri leiðarlýsingu Nikulásar ábóta og glataðri ferðabók Gizurar Hallssonar lögsögumanns. Engar íslenskar ferðasögur hafa varðveist heilar frá fimmtándu og sextándu öld en til eru glefsur úr reisubók Björns Jórsalafara og snubbóttar minnisgreinar Gizurar biskups Einarssonar. Á sautjándu öld voru ritaðar fjórar ferðasögur sem varðveist hafa en vitað er um a.m.k. fimm texta til viðbótar sem nú eru glataðir. Ritun fræðilegra ferðabóka hófst í kjölfar upplýsingarinnar á átjándu öld og þá voru líka skrifaðar nokkrar merkar ferðasögur sem greina frá utanferðum einstaklinga. Á nítjándu öld hafði skriðunni verið hrundið af stað, hróður ferðasagna jókst jafnt og þétt og um aldamótin síðustu var fjöldi þeirra orðinn gríðarlegur.“
Smelltu hér til að lesa ritgerðina.
Velkomið er að vísa til ritgerðarinnar með viðeigandi heimildaskráningu:
Steinunn Inga Óttarsdóttir. 1996. „„Þetta er ei annað en eins manns sjóferðaskrif“. Annáll íslenskra reisubóka frá öndverðu til 1835.“ Óbirt lokaritgerð til MA prófs í íslenskum bókmenntum við HÍ.
#ferðasögur #íslenskar ferðasögur #sjálfsbókmenntir #ævisögur