Át-, grát- og upp-köst

 

Á mánudagskvöldið, á sama augnabliki og listakokkurinn smámælti, Jamie Oliver, sneri aftur á Stöð tvö með sína snilldarlegu takta, hófst frönsk heimildarmynd í Ríkissjónvarpinu. Myndin bar þann kléna titil Á valdi lystarstols og var þar fylgst með ungri stúlku í Marseilles sem þjáist af lystarstoli og lotugræðgi. Myndin var mjög áhrifarík, stúlkunni Chloé er umhugað um að heimsbyggðin öll fái innsýn í hvernig það er að vera haldin þessum hræðilega sjúkdómi og hleypti því tökuvélunum að sínu einkalífi í því skyni að draga upp sem átakanlegasta og sannasta mynd. Áhorfendur fylgdust m.a. með Chloé í græðgislegu átkasti sem breyttist í grátkast og loks í uppköst. Sjálfsmynd Chloé er stórlega brengluð, henni finnst hún vera feit þótt beinin standi út í strengda húðina og angist hennar felst ekki síst í því að finnast hún ástlaus og alein í baráttunni „við þennan ógeðslega mat.“ Fram kom í myndinni að fjöldi fólks er haldinn þessum hræðilega sjúkdómi og franska heilbrigðiskerfið er greinilega ekkert úrræðabetra en það íslenska; læknishjálp, sjúkrarúm og fagleg aðhlynning fyrir þessa sjúklinga eru af skornum skammti. Myndinni lauk á því að hin alltof mjóa Kló sat kappklædd á strönd, áhorfandi að áhyggjulausu lífi fólks í sandi og sól, og beið þess að eitt af átta plássum losnaði á sjúkrastofnun fyrir anorexíur. Annars beið hennar ekkert nema dauðinn.

 

Kvöldið eftir voru umræður um lystarstol í Kastljósi. Þrjár myndarkonur voru í viðtali, tvær höfðu persónulega reynslu af sjúkdómnum en ein var geðlæknir. Þar kom ýmislegt upp úr kafinu. Varpað var fram þeirri fullyrðingu að metnaðarfullum, duglegum og samviskusömum stúlkum væri hættara en öðrum að verða lystarstoli að bráð. Þykir vafalaust einhverjum sem þarna sé veruleg göfgun á afar ógeðfelldum sjúkdómi og minnir á gömlu goðsögnina um að ofurgreindum einstaklingum hætti frekar til geðveiki en öðrum. Þá kom í ljós að karlmenn geta einnig þjáðst af anorexíu. Enginn piltur var reyndar til viðræðu um það mál en talað var við skelegga stúlku, aðstandanda ungs manns með lystarstol á háu stigi. Í viðtalinu kom fram að sjúkdómurinn er ekki aðeins erfiður að því leyti að fólk tærist upp heldur hefur hann líka í för með sér sjálfsmyndarkreppu, persónuleikabreytingar og ranghugmyndir.

 

Það er bæði þarft og gott framtak hjá fjölmiðlum að taka á svo erfiðu og viðkvæmu efni sem lystarstol og lotugræðgi eru, ekki síst vegna þess að oft er þeim legið á hálsi fyrir að hafa búið til ímynd hinnar tággrönnu fyrirsætu og ýta þar með undir anorexíutilhneigingar unglingsstúlkna. Fyrir ekki alllöngu birtist grein í einu glanstímaritanna um líf og dauða íslenskrar stúlku sem varð lystarstoli að bráð og á dögunum fjallaði Sirrý um átröskun í þætti sínum Fólki á Skjá einum. Fleira mætti gera til að halda umræðunni vakandi en alltof lengi hafa lystarstol og lotugræðgi verið sveipuð þagnarhulu enda þótt bæði ófínir og blygðunarfullir sjúkdómar. En fjölmiðlaumræða er oftast yfirborðskennd, einhliða og í æsifréttastíl; enda aðallega ætlað að auka áhorf og selja auglýsingar og fljótlega mun áhuginn beinast að einhverju öðru, arðbærara og söluvænna. Það getum við hugleitt þegar við horfum á nýja myndbandið með Robbie Williams, Sexed up, þar sem anorexíuútlit leikkonunnar er svo kyrfilega undirstrikað að jafnvel Chloé hlypi fram að gubba. Og á meðan flokka og telja litlu börnin okkar kaloríurnar sínar og líma inn í Orkubók Latabæjar – anorexíusjúklingar framtíðarinnar?

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 1. nóvemeber 2003

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s