Holt í hundrað ár

Predikun í Þórshafnarkirkju, 14. júlí 2013

Holt_i_thistilfirdi_um_1950_jpg_3_320

Holt í Þistilfirði, um 1950

Kæru ættingjar, frændur og frænkur og viðhengi öll, séra Brynhildur og aðrir kirkjugestir.

Nú um helgina hefur verið haldið glæsilegt ættarmót Holtunga í tilefni af því að liðin eru 100 ár frá því Ingiríður Árnadóttir og Kristján Þórarinsson, forfeður okkar, byggðu nýbýlið Holt í Holti í Þistilfirði og hófu þar búskap. Mikið er búið að vera gaman að vera með ykkur á ættarmóti og að fá að vera hér á Þórshöfn, þessu uppgangsplássi í meira en 150 ár þar sem mannlíf er gott og vel hefur verið tekið á móti okkur.

Í dag langar mig að beina orðum aðallega til ættingja minna og rekja nokkur minningabrot sem tengjast uppruna mínum og æsku hér á þessum slóðum og heimilisbragnum í Holti,  sem var mikið menningarheimili og naut bæði virðingar og velvildar meðal sveitunganna.

Það er ótrúlega dýrmætt að eiga góða fjölskyldu, og að vera af góðum ættum. Hverra manna ert þú, um það er spurt við margvísleg tilefni, kannski er það séríslenskt. Og við getum svarað með séríslensku stolti að við séum ættuð frá Holti í Þistilfirði. Þetta er lítil ætt, fámenn og góðmenn en þekkt m.a. fyrir framlag Þorsteins Þórarinssonar og seinna þeirra Holtsbræðra Þórarins og Árna Kristjánssona til kynbóta í sauðfjárrækt. Landsfrægir hrútarnir þeir Þistill og Hnöttur, Þokki og Prúður omfl. Fjárræktarfélagið Þistill var stofnað 1940. Árni í Holti var formaður félagsins í 40 ár og fékk félagið árið 1973 Ríkarð Jónsson til að gera verðlaunagrip til minningar um fjárræktarstarf Þorsteins, sem síðan veittur var þeim sem átti besta hrútinn í sveitinni. Ég man eftir þessum verðlaunagrip í Holti. Þó ég væri bara krakki þegar ég kom þangað fyrst skynjaði ég vel umhyggjuna, nærgætnina og alúðina sem einkenndi allt þar, bæði gagnvart dýrum og mönnum. Þá réðu þar ríkjum þrjú elstu systkini ömmu minnar, Arnbjörg, frumburður þeirra Ingiríðar og Kristjáns, alltaf kölluð Abba, næstelstur var Þórarinn eða Doddi og þriðji í röðinni var Árni. Abba var alltaf svo elskuleg með sín hnausþykku gleraugu á nefinu, og þeir bræður báðir svo barngóðir og innilegir, ég man skegghrjúfan vanga, hlýjan faðm, breitt bros og heitt hjarta. Alltaf var gott að koma í Holt og þar var alltaf sól undir suðurveggnum í minningunni.

Faðir minn er Óttar Einarsson, sonur Guðrúnar sem er sjötta barnið og elst núlifandi systkina, af 11 Holtssystkinum eru þrjár systur á lífi, heldur betur sprækar og unglegar, auk fóstursysturinnar Þórunnar sem er eldhress á besta aldri.

Pabbi minn lést í febrúar á þessu ári. Hann hafði alveg sérstakar taugar til Holts. Sem barn og unglingur dvaldi hann þar í alls 10 sumur og talaði oft um hversu ómetanleg reynsla og uppeldi það hafði verið honum og hér inni eru fleiri sumrungar sem ég veit að taka  undir þetta. Pabbi var alltaf að segja okkur dætrum sínum þremur Holtssögur. Ein þeirra er minningabrotið um  vinnumannabekkinn en það lýsir soldið vel stemningunni í Holti eins og hann upplifði hana, og ekki síður fyrirkomulagi innanstokks í íslenskum sveitum um miðja síðustu öld. Hann skráði þetta niður svohljóðandi:

Vinnumannabekkurinn var hafður framan við borðstofuborðið og var sæti vinnufólks og sumrunga. Annar bekkur með renndum fótum að mig minnir var við vesturvegg undir glugganum. Hann svona var meira húsgagn þótt hann væri mjórri en venjulegur legubekkur. Á honum var vattstungið ullarteppi og brekán yfir. Þar sátu þeir bræður, Þórarinn og Árni og fullorðið fólk úr ættinni. Þegar margt fólk var t.d. á sumrin, sat Þórarinn gjarnan við norðurendann á borðinu en amma og Þórunn eða einhver stelpa við suðurendann. Arnbjörg sat á kgofforti við suður-vesturhornið á borðinu, oftast með einhver börn á sínum vegum.

 Guðrún Kristjánsdóttir heldur að Kristján Þórarinsson faðir hennar hafi smíðað bekkinn og að hann hefi verið til í fyrsta húsinu sem byggt var í Holti 1913. Ég held að við verðum að hafa það fyrir satt þar til annað kemur í ljós. Bekkurinn var þannig skipaður að raðað var á hann eftir mannvirðingum. Lengst til hægri þegar  komið var inn í borðstofuna, á norðurendanum, sat Geiri sem var æðsti höfðinginn og mikilvægastur að mati okkar sumrunga og liðléttinga. Síðan var raðað eftir aldri og tign. Um 1955 er röðin þessi frá hægri til vinstri: Friðgeir Guðjónsson, Óttar Einarsson, Kristján Ingi Karlsson, Hörður Harðarson, Hörður Sigurðsson (líklega þó á kolli við endann á bekknum). Seinna komumst við að því að amma og Abba töldu krakkana sem sátu hjá þeim mikilvægustu persónurnar og féll manngildið eða öllu heldur umönnunarstuðullinn lækkaði þar til hann stóð í núlli hjá Geira sem var nánast eigin herra og sjálfstæður. Hann var undanþeginn háls- og  eyrnaþvotti, síðbrókarskyldu og ýmsu sem við hin urðum að axla. Þau ár sem ég sat við hlið Geira um og eftir fermingu var ég látinn nokkurn veginn afskiptalaus hvað varðaði þvott og nærföt. Það var toppurinn og þar með var ég kominn í fullorðinna manna tölu.

Já Geiri, vinnumaðurinn á bænum, skipaði sérstakan sess  hjá okkur krökkunum. Ég man að ég spurði hann einhvern tímann þegar ég var lítil hvað hann væri gamall og hann sagðist þá vera 19 ára. Ég trúði því í mörg ár og það var mikið grin gert að mér þegar ég hélt því alltaf óhikað fram að hann væri í mesta lagi um tvítugt. Enda var hann unglingur í sér alla tíð, nennti alveg að keyra út á Þórshöfn til að fara á böll og fíflast eitthvað með okkur.

En það sem einkenndi ekki síst heimilisbraginn að sögn föður míns var varkárni með orð og raddbeitingu, engin stóryrði eða blótsyrði og ekki var hávaðinn, Árni sagði t.d. einu sinni við pabba þegar þeir voru að spjalla . . . “Ég hef oft hugsað það en aldrei sagt það upphátt”. Það er svona dæmigert viðhorf, ekkert verið að bruðla með orðin eða brussast eitthvað.

Holtungar báru virðingu f samferðafólki sínu, sögðu ekkert ljótt um það en höfðu svo sannarlega húmor fyrir því, það var mikil glaðværð, glettni, eftirhermur á góðri stundu – og allt græskulaust og góðlátlegt að sögn pabba. Maður getur nú alveg ímyndað sér hvort ekki var oft fjör á bærnum, þrír kröftugir strákar og níu systur alls, hver annari fallegri, kátari og hláturmildari.

Alltaf var hreinlæti í hávegum haft á bænum, t.d. var alltaf handþvottur og fataskipti fyrir matinn, og mikil nákvæmni í umgengni sem einkenndist af tilitssemi við náungann. Hófsemi var á öllu höfð þótt nóg væri til, engin græðgi eða bruðl, og mikið var drukkið af soðnu vatni og sjaldan neitt sterkara haft um hönd. Pabbi minntist þess oft að í Holti hefði hann td lært að tala ekki við matarborðið nema á hann væri yrt – og að gera það sem maður væri beðinn um, hlýða – af því að maður vildi hjálpa til og gera gagn. Af því að það voru gerðar sanngjarnar kröfur, krökkunum var treyst fyrir verkefnum, leiðbeint hljóðlega og mildilega og hrósað fyrir vel unnin verk. Uppeldisaðferðir föður míns báru keim af þessu, aldrei öskur eða hamagangur, bara kurteisi, sanngirni, virðing, kærleikur og umhyggja.

Þá var mikil söngmenning á Holtsbænum, ættmóðirin Ingiríður söng og dansaði og Þórarinn lék á orgelið (sem nú er komið í Sauðaneshús) og allir sungu með. Tónlistararfurinn í ættinni hefur aldeilis blómgast og gert garðinn frægan eins og við öll vitum. Það er óvenju mikið af frábæru tónlistarfólki í ættinni, það verður bara að segjast og er gleðilegt, við öllum höfum notið góðs af því í gegnum tíðina.

Það var óskráð verkaskipting á heimilinu sagði pabbi: Þórarinn var útávið:  í hreppsnefnd, organisti, fulltrúi á búnaðarþing, formaður Ræktunarsambands NÞing, Kirkjukórasambandsins, í stjórn Búnaðarfélags Þistilfjarðar í 30 ár o.fl. Árni var með verkstjórn á búinu, snjallasti verkmaður sem ég hef kynnst, sagði pabbi, það sem einkenndi hann var kappsemi, lagni og útsjónarsemi og svo var hann fremstur í flokki í sauðfjárræktinni. Abba réði innanhúss, gerði landsfrægt slátur, dásamlegar kleinur og öll matseld var á hennar höndum, með aldagömlum aðferðum sem aldrei mátti breyta og alls ekki mátti stytta vinnuferlið á nokkurn hátt eða spara sér sporin, og allt var nýtt í botn, nægjusemin alveg óendanleg en ekki níska. Hún var nýjungagjörn þegar hún vildi, þegar ég var að vinna hér á Þórshöfn í Kaupfélaginu unglingsskjáta, var hún alltaf fyrst til að kaupa framandi ávexti sem enginn þorði að prófa, man td vel eftir að hún keypti fullt af kiwi sem þá var nú ekki algengt, og hafði með berjum og rjóma við góðan orðstír.

Svo var það langamma í Holti, Ingiríður, sjálf drottningin, í síðpilsi og með tvær örmjóar fléttur. Hennar minntist pabbi með mikilli hlýju. Það sem einkenndi hana var stjórnsemi, vinnugleði, lífsgleði og léttleiki. Hún var lítil og grönn, snör í snúningum, ótrúlega kvikk og hress. Þegar ég var að byrja að vinna hér á Þórshöfn á sumrin í fyrstihúsinu, ca 15 ára, sögðu kunnugir  að ég minnti stundum á hana í hreyfingum og tilsvörum og það þótti mér gaman að heyra. Kannski voru það Lennon-gleraugun sem ég var þá með sem gerðu þetta að verkum en hún var með svoleiðis,  löngu á undan Lennon.

Verkaskiptingin var skýr á bænum og það var kynjaskiptingin líka. Strákar fengu að vera í Holti en stelpurnar síður. Amk 2 kvartanir hafa komið fram um helgina útaf þessu óréttlæti. Piltar  voru á vélunum en stúlkur í inniverkum.  Þura systir mín var sumrungur í mörg ár, hún var í uppvaski með Vilborgu Guðmundar og Hillu og svo var vakað á næturvöktum í sauðburðinum. Þetta voru góðir tímar sem minnst er með velvild og kátínu, stundum þurfti Árni að koma um miðja nótt til að hasta á liðið en ekki minnkaði hláturinn við það.

Það var alltaf Sumargleði í Holti, en það voru heimsóknir brottfluttra systkina: Vilborgar og Hauks, Guðrúnar ömmu minnar og afa, Höllu og Harðar, Herborgar og Þóris, Ásmundar og Ásdísar, Guðbjargar og Eiríks og Fríðu og Óla. Síðar bættust börn og tengdabörn systkinanna í hópinn og oft var gestkvæmt í Holti. Öllum vel tekið, alltaf góðar veitingar, sagðar sögur – sungið og leikið. Afkomendur þessa góða fólks hafa haldið sambandi eins og gengur og þeir allra hörðustu hafa lagt á sig að koma hingað um langan veg til að hittast núna um helgina, kynnast og gleðjast saman, minnast þeirra sem eru gengnir, rifja upp skemmtilegar sögur og þjappa sér saman um það sem við eigum öll sameiginlegt, hin góðu norðurþingeysku gen og arfleifðina úr Holti. Það er algjörlega ómetanlegt.

Þau gömlu og góðu gildi sem voru í hávegum höfð í Holti og hjá fyrri kynslóðum eru gildi sem eru á undanhaldi nú á dögum. Gildi eins og nýtni, nægjusemi, hógværð og lítillæti eru víkjandi þættir nú til dags þar sem lenskan er að gína yfir öllu, ota sínum tota, eignast veraldlega hluti og sökkva sér í endalausa afþreyingu. Í Holti vildi enginn taka besta bitann, stærstu sneiðina eða vera á besta hestinum. Þar var hugsað um aðra fyrst, eigin hagsmunir settir í annað sæti. Þetta getum við sem nú sperrumst í lífsgæðakapphlaupinu tekið okkur til fyrirmyndar og eftirbreytni og þannig heiðrað forfeður okkar og minningu þeirra.

Merkur rithöfundur sagði að einu trén sem yxu almennilega á Íslandi væru ættartré. Það er nokkuð til í því. Við erum stoltir Holtungar og hlúum að okkar litla ættartré, við ræktum og drögum fram bestu einkenni og helstu gildi ættarinnar – alveg eins og gert var í sauðfjárræktinni forðum. Þetta eru eiginleikar sem þarf að rækta, við fengum þá í vöggugjöf og það er okkar hlutverk að bera þá áfram til okkar niðja. Það er mikilvægt að eiga þessa góðu minningar og skemmta sér við þær og ekki síst, halda þeim á lofti, koma þeim áfram og miðla þeim.

Pabbi minn á síðasta orðið í tölu minni á þessum sumardegi hér í Þórshafnarkirkju um leið og ég fyrir hönd nefndarinnar þakka öllum þeim sem komu á ættarmótið og þeim sem lögðu gjörva hönd  plóg við undirbúning og framkvæmd alla – af fullkominni óeigingirni og með glöðu geði.

Ég segi ættarmóti Holtunga 2013, á hundrað ára afmæli búskapar í Holti í Þistilfirði, formlega slitið með þessari vísu:

Af upprunanum erum stolt,

enginn honum neitar

og eitt er víst að heim í Holt

hugurinn tíðum leitar.

(ÓE)

 

Gangið öll á guðs vegum!

 

 

Sjá einnig hér sögur úr Holti.