Allt frá því sjónvarpsþátturinn Innlit-útlit hóf göngu sína á SkjáEinum hefur hann notið gríðarlegra vinsælda. Í þættinum eru þeir heimsóttir sem hafa tekið til hendi heima hjá sér eða eru þekktir fyrir fágaðan smekk, eða bara þekktir í samfélaginu, og teknir tali um hús sín og híbýli. Marga fýsir að vita hvernig er innanstokks hjá Röggu Gísla, Sigmundi Erni og Eddu Björgvins (og Kolfinnu Jóns Baldvins en hún kom skemmtilega á óvart í þættinum nýlega; algerlega laus við íburð og snobb og ætlar að skilja húsgögnin eftir í Brussel þegar og ef hún flytur til Íslands). Allir þrá að sjá gegnheilar eldhúsinnréttingar annarra og glænýjar gaseldavélar, bjartar stofur prýddar sérpöntuðum og samstæðum húsgögnum, málverkum og olíubornu parketi, og smekkleg baðherbergi sem sérfræðingar hafa endurhannað og sniðið að þörfum nútímamannsins. Meðaljónar og þotulið er lagt að jöfnu þegar kemur að húsnæði í tísku og innanstokksmunum til sýnis; ung hjón í sinni fyrstu íbúð, með innbúið meira og minna á raðgreiðslum, auðkýfingar, arkitektar og gamlir sérvitringar sem sankað hafa að sér fágætum munum og mublum. Innan um þetta allt valsar Vala Matt með sína sérkennilegu en vandlega fyrirfram undirbúnu viðtalstækni; hún setur fram fullyrðingar sem viðmælandinn samsinnir. Síðan lýsir hún því sem fyrir augu ber og áhorfandinn sér væntanlega sjálfur; „og svo ertu með hérna með stóran skáp undir stiganum…“; líkt og þátturinn sé sendur út á sjónvarpsrás fyrir blinda. Fyrir nokkru var tekin upp sú nýlunda að hafa aðstoðarmenn í þættinum sem komast lítið að fyrir Völu en taka ávallt undir með henni að þetta sé nú allt svo sniðugt og skemmtilegt.
Íslendingar eiga greinilega afar falleg heimili og leggja mikið upp úr vandaðri hönnun og glæsileika. Oftast eru þeir sóttir heim sem hallast að nútímalegri naumhyggju í vistarverum sínum; stórar og tómlegar stofur, hálfnaktir veggir, berir gluggar og einmanaleg húsgögn á miðju gólfi bera fáguðum og listrænum smekk fagurt vitni. En það er eins og að koma inn í „húsgagnaverslun dauðans“, inn á „dáin heimili“ eða í geimmynd með gólfkulda eins og pörupiltarnir í Tvíhöfða sögðu um Innlit-útlit í útvarpsþætti sínum fyrir u.þ.b. ári síðan. Eru allir búnir að henda húsgögnunum frá námsárunum eða upphafi búskaparbaslins? Hvar er allt draslið? Hvar eru dagblöðin og auglýsingapésarnir sem hrúgast upp, sjampóglösin, óhreinu diskarnir, fatahaugarnir, bækurnar, dúkurinn frá ömmu, Ikea-stólarnir, dótið barnanna? Skiljanlega vill fólk ekki sýna í sjónvarpi frammi fyrir alþjóð að heimilið sé ekki fullkomið. Þess vegna má ekki gleymast að það sem fram fer í Innliti-útliti er ekki raunverulegt heldur ritskoðað og hlutum er hagrætt svo þeir komi sem best út í mynd. Við hin, sem erum bara áhorfendur og höfum ekki enn verið heimsótt af Völu, Komma og Frikka, þurfum því ekki að burðast með minnimáttarkennd í blokkaríbúðunum okkar þar sem öllu ægir saman. Eða getur verið að alls staðar annars staðar en heima hjá mér sé allt fullkomið, vandað og smekklegt? Er virkilega skál með sítrónum og afskorin blóm fyrir þúsundir króna í vasa á hverju heimili árið um kring?
Sjónvarpsþátturinn Innlit-útlit hefur svo sannarlega fengið á baukinn í grínþáttum annarra sjónvarpsstöðva, t.d . í Spaugstofunni. En ef rýnt er í það sem þátturinn boðar og stendur fyrir er ekkert grín á ferð. Innlit-útlit er barn vorra tíma og þess samfélags sem við lifum í, afsprengi ríkjandi efnishyggju og fjölmiðlafárs, auðsöfnunar á fárra hendur, misskiptingar valds og velmegunar. Velgengni og virðing í samfélaginu er mæld í fasteignum og húsgögnum, innréttingum og gólfefnum. Yfirborð og umbúðir eru það sem gildir og enginn skeytir því sem undir býr. Heiti þáttarins segir allt; innlitið sýnir aðeins útlitið, útlitið er orðið að innihaldi.
Steinunn Inga Óttarsdóttir
Lesbók Morgunblaðsins, 18. janúar 2003