„Þetta er ei annað en eins manns sjóferðaskrif“

World-Map-the-001

Um tvær ferðasögur frá átjándu öld

Ferðalag úr heimahögum til ókunnra staða er ávallt merkilegur viðburður í lífi hvers manns.  Ekki síst fyrr á öldum þegar sárafáir lögðu á sig erfitt ferðalag til útlanda.  Þegar ferðalangar snúa aftur úr langreisum eru gjarnan sagðar sögur af svaðilförum og stundum ganga slíkar ferðasögur í munnmælum milli kynslóða.  Eftir því sem aldir liðu varð æ algengara að menn hripuðu niður ferðasögu sína.  Það er eins og löngun til þess að festa sjálf­an sig á blað hafi orðið sífellt áleitnari í tímans rás, eins og einhver vitund um sjálf, sögu og samtíma væri að koma til skjalanna.  Víst er að ef íslenski bóndinn Árni Magnússon frá Geitastekk hefði ekki skrifað ferðasögu sína seint á átjándu öld væri hann fallinn í gleymsk­unnar dá fyrir langalöngu.  Vísbendingar um þessa „vitund“ í textum ferðalanga frá fyrri öld­um vöktu upphaflega áhuga minn á ferðasögum.  Raunveruleiki ferðasagnanna er ekki síður spennandi.  Hann felst m.a.  í sannsögulegum lýsingum á köldum og hráblautum vistar­verum á löngum sjóferðum, skyrbjúg, sjóveiki og dauðabeyg þeirra sem unnu hættu­leg störf um borð.  Þessi raunveruleiki hafði ekki átt erindi inn í bókmenntir fyrr en með ferða­sög­unum og kallaði á ný efnistök og nýjan orðaforða.  Nýir höfundar komu til sögu og marg­ar ferðasögur eru skemmtileg dæmi um alþýðlega frásagnarlist.  Áhugi minn hefur fyrst og fremst beinst að þeim skrifum úr fórum ferðalanga þar sem samtímaleg reynsla og sjálf eiga sér birtingarhátt – þar sem sjálfsmynd manna er að brjótast fram.  Í ferðasögum vegmóðra Íslendinga frá fyrri öldum kemur sitthvað fram um raunveruleika og vaknandi sjálfsvitund eins og sjá má í frásögnum þeirra Árna Magnússonar frá Geitastekk og Eiríks Björnssonar, víðförla.  Ferðasögur þeirra eru í rauninni einstakar í sinni röð.  Menningarsögu- og bókmenntalegt gildi þeirra er verulegt og þær varpa skýru ljósi á hugarheim, tilfinningar og viðhorf íslenskra almúgamanna á átjándu öld.

Á undanförnum áratugum hafa ferðasögur notið aukinnar athygli sem bókmenntagrein.[1]  hefur þetta breyst eftir því sem áhugi manna hefur aukist á öðrum hliðum bókmenntasögunnar en þeirri sem snýr beinlínis að hámenn­ingunni.  Sagnfræðingum og bókmenntafræðingum hefur orðið æ betur ljóst að upp­lýs­ingar um það sem fólk gerði sér til afþreyingar og skemmtunar fyrr á tímum geta gefið jafn­góðar vísbendingar um mannkynssöguna og vísindauppgötvanir eða forn skjöl og dóm­ar.  Tómas Sæmundsson, Fjölnismaðurinn frægi, segir í Ferðabók sinni frá 4. áratug 19. aldar um varðveislu fornmuna: „ … allt hvað for­feð­ur vorir hafa um fjallað byrjar að vera oss heilagt.  Því skyldum vér dirfast að eyðileggja hvað tíðin hefur gengið í berhögg við? Það segir oss allt saman frá einhvörju háttalagi eður aðferð forfeðra vorra betur en nokkur ræða er fær um“.[2] En heimildir fortíðarinnar um fólk fyrr á öldum gefa yfirleitt óljósa mynd af einstaklingnum sjálfum.  Sjaldnast er hægt að segja fullkomna sögu ef eingöngu á að styðjast við þá orðræðu sem varðveist hefur í fornum skjölum, pappírum og handritum.  Textasafn fortíðarinnar er misjafnt að gæðum og einkennist af eyðum sem er hægt að fylla að nokkru leyti með kenningum, túlkun og ímyndunarafli.  Það gerir manni kleift að „lesa“ meira um fólk en ella úr dag­bók­um, bréfum eða öðrum textum sem menn skilja eftir sig.  Hið óþekkta er tengt við hið þekkta til að brúa bilið milli fortíðar og nútíðar.  Þetta er í raun­inni sama að­ferð og notuð er við að endurgera höfuðkúpur mannapa eftir milljón ára gömlum brotum eða draga upp grunnmynd af híbýlum forfeðranna út frá moldugum fornleifum.  Aðferðin er hér heimfærð upp á bókmenntirnar með því að beina athygli að sjálfsmynd, hugarheimi og heims­sýn þeirra sem skrifuðu ferðasögur.

 Ferðasögur: ekki-bókmenntir?

Ferðasögum hefur löngum verið skipað á bekk með óskáldlegum textum og umfjöllun um þær ætluð landfræðingum og sagnfræðingum.  Í hefðbundinni bókmenntasögu eru ferðabækur jaðarbókmenntir og þeirra getið að litlu eða engu. Þetta á þó ekki við um ferðasögur fornaldar sem litið var á sem hámenningarlega sagnfræði. Efni og form ferðasagna hefur verið álitið sama eðlis og svokallaðra óæðri bókmennta (low genres): flæðandi og hverfull samtími, nútíðin – lífið án upphafs og endis, „hið lága“.[3] Margir höfundar ferða­sagna eru hikandi í afstöðu sinni til sköpunarverks síns og finna sárt til þess að í listrænum skilningi er ferðasagnaritun talin óæðri öðrum bókmenntagreinum. Ferðasagnaritun er ekki heldur fræðileg, hún telst ekki vísindi. Í rauninni er hvorki um að ræða list né vísindi. Það telst alltaf grunsamlegt ef eitthvað er annað hvort list eða vísindi; að vera hvorugt er beinlínis skammarlegt.[4] Minnimáttarkennd höfunda ferðasagna birtist oft í auðmjúkri afsökunarbeiðni til Guðs í formála eða lokakafla ferðabóka frá liðnum öld­um.[5]

Ferðasögur hafa ekki verið taldar til fagurbókmennta og oftast leiðlangur tími frá því ferðasaga var skrifuð og þar til hún kemst á prent. Ferðasaga Árna Magnússonar frá Geitastekk var ekki prentuð fyrr en tvöhundruð árum eftir að hann lagði frá sér pennann og reisubók Eiríks var first prentuð árið 2000. Þetta á ef til vill rætur að rekja til sérstæðs máls og stíls á ferðasögum.  Til eru fjálglegar ferða­sögur í lærðum stíl og með löngum latínutilvitnunum.  En margar ferðasögur eru einfaldar, stirðlegar og jafnvel einhæfar á köflum.  Liðfellingar eru algengar, orðaforði takmarkaður og frumstæður og setningafræðin laus í reipunum, enda höfundarnir ekki alltaf orðhagir og skáldmæltir.  Margir ferðasagnahöfundar voru lítt menntaðir auk þess sem algengt var að sagan væri upphaflega skrifuð fyrir skúffuna.  Þetta tengist einnig því að sögumaður lýsir raunverulegum atburðum sem hann hefur orðið vitni að eða tekið þátt í, oft sérstæðum atvikum sem erfitt er að lýsa.  Skrifin þjóna stundum þeim tilgangi að verja þann sem skrifar eða veita honum fullvissu um samhengi eða tilgang í lífinu.  Eða eins og einn góður maður sagði: „There is a difference between writing for your life and writing for your living“.[6] Oft ber mikið á erlendum máláhrifum í ferðasögum en ferðalangar lærðu gjarnan hrafl í tungumáli viðkomandi lands á ferðum sínum og slettu því óspart.  Þetta má glögglega sjá í íslenskum ferðabókum, t.d.  Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara þar sem greina má áhrif frá ensku, dönsku og þýsku.  Ferðasögur Árna frá Geitastekk og Eiríks Björnssonar víð­förla, sem hér verða til nánari umfjöllunar, eru dönskuskotnar enda voru þeir báðir búsettir í Kaupmannahöfn um áratuga skeið.  En þessir „annmarkar“ sem hér hafa verið tíndir til eru reyndar heillandi.  Það er ekki fallegt mál eða listrænn stíll sem lokkar lesendur að ferðasögum.  Það eru fyrirbæri eins og stefnumót ólíkra menningarheima í huga ferðalangsins, sjálfskilningur höfundarins sem birtist vel á ferðalagi um torkennilega veröld og innsýn í löngu liðinn tíma.

Séra Jón Prímus í Kristnihaldi Halldórs Laxness taldi að ekki væri hægt að fanga veruleik­ann í net orðanna: „Saga er einlægt eitthvað allt annað en það sem hefur gerst…“.[7] Ferðalangar fjarlægrar fortíð­ar eiga í mesta basli með að leiða þeim sem heima sitja reynslu sína fyrir sjónir.  Upplifun þeirra er ein­stakl­ings­bundin, óvenjuleg og svo glæný að gömul hugtök ná tæpast yfir hana.  Í ferðasögum takast veruleiki og tungumál á – spennan milli orða og hluta verður nánast óbærileg.  Ferðamaður sem er einn í ókunnu landi kallar yfir sig sjálfskapaða einsemd sem krefst nýrrar sýnar á hlutina, nýs tungumáls.  Þegar furður ber fyrir augun þjóna átthagarnir hlut­verki mið­stöðvar mælinga og samanburðar, nálgunar og gilda.  Áherslan er á það sem er framandi, borið saman við það sem er kunnugt.  Ferðasögur einkennast af spennu milli hlutlægni og huglægni, hins persónulega og þess ópersónulega, hugarflugs og staðreynda, fróðleiks og skemmtunar, veruleika og tungumáls.  Ferðasögum hefur jafnan fylgt krafa um sannleik jafnvel þótt menn hafi kannski gert sér grein fyrir því að þær gætu úrelst næsta hratt þar sem lönd og lýðir breytast með degi hverjum, sbr.  ummæli Tómasar Sæmundssonar um reisubækur: „ … þær hljóta alltaf að vera einhvörrar tíðar fóstur, og geta svo framarliga sem tíð­inni gengur áfram, ekki haldið lengur gildi eður verið áreiðanligar.“[8] Ssannleikur ferðasagna er afstæður eins og annar sannleikur, mörkin milli veruleika og ímyndunar eru oft óljós.  Ferðasögur standa frammi fyrir sömu togstreitu milli raunveruleika og skáldskapar og skáldsögur og eiga margt sameiginlegt með þeim.  Virðing manna fyrir ferðasögum og áhugi á þeim hefur aukist hin síðari ár og farið er að líta á þær sem athyglisverða bókmenntagrein.  Aukinn áhugi helst vafalítið í hendur við vangaveltur bókmenntafræðinga um uppruna og rætur skáldsögunnar en auðvelt er að sýna fram á mikilvægi ferðasagna í þróun hennar.[9] En víst er að sterkustu tengsl ferðabókmennta við skáldsögur felast í ferðamynstri rómönsunnar, formóður skáldsögunnar.

 Frændsemi við rómönsur

Langflestar ferðasögur snúast um ferðina sjálfa eingöngu.  Þær hefjast á brottför að heiman, síðan er greint frá atburðum ferðarinnar og því markverðasta sem fyrir augu ber og loks er heimför og heimkomu lýst.  Ferð út í heim felur gjarnan í sér einskonar leit þar sem ferða­langurinn yfirgefur átthaga sína, aflar sér einhvers eða bætir úr tilteknum skorti og snýr heim aftur með afrakstur erfiðis síns.  Þetta þríþætta ferða- og leitarmynstur tengist byggingu róm­önsunnar náið enda hafa fræðimenn verið óþreytandi að benda á skyldleika þessara bók­menntagreina.  Skyldleikinn verður næsta augljós ef litið er til einfaldrar skilgreiningar Kathryn Hume á þremur hefðbundnum stigum dæmigerðrar rómönsu: 1) Brott­för hetjunnar sem stígur yfir þröskuld heimkynna sinna, knúin áfram af ólgandi ævin­týraþrá, 2) kynning eða „vígsla“ sem er miðja sögunnar og inniheldur manndómsraunir, 3) heimkoma þar sem hetjan snýr aftur með afrakstur erfiðis síns.  Annar fræðimaður, Norman Friedman, hefur líka greint þrjú mynstur eða stig í rómönsu sem einnig falla að formgerð ferðasögunnar:  1) Stig fæðingar eða sköpunar (bernska, átthagar) þar sem hetjan verður til og vinnur fyrstu afrek, 2) stig dauða og vígslu/kynningar (ferð, leit, hnignun, keppni, út­legð, raunir) og 3) stig endurfæðingar (endurkoma, upprisa, árangur og frægð).[10] Þessi stig eiga öll vel við byggingu dæmigerðra, íslenskra ferðasagna, t.d.  reisubækur Jóns Indíafara og Eiríks víðförla og Stokkhólmsrellu Hannesar Finnssonar biskups.[11]  Jón fer utan í leit að betra hlutskipti, Eiríkur fer af löngun í ævintýri og Hannes fer í þekk­ingarleit (1. stig).  Allir lenda þeir í ýmsum raunum (vígsla, 2. stig) á ferðum sínum og snúa heim aftur heilir á húfi.  Jón er reynslunni ríkari og verður frægur af að miðla henni til landa sinna, Eiríkur hefur fullnægt ævintýraþránni og hefur eirð í sínum beinum til æviloka og Hannes hefur svalað fróðleiksfýsn sinni í bili (3. stig).

Ferðasögur og rómönsur eiga fleira sameiginlegt en leitina.  Mörg minni rómansa og ferða­sagna eru lík.  Flótti frá grimm­um húsbændum eða undan fangelsisdómi, sem er algengt minni í rómönsum, er t.d.  oft ástæða brottfarar í ferðasögum.  Hið ólíka er að raunveru­leikinn, sem er vettvangur ferðasagna, á lítið skylt við heim rómansanna.  Persónur ferða­sagna fyrri alda eru raunverulegt fólk sem hefur fæðst, lifað og dáið fyrir löngu en persónur rómönsunnar spretta upp úr langri skáldskaparhefð.  Höfundur ferðasögunnar var þátttakandi í atburðarás sögunnar, höfundur rómönsu spinnur atburðina upp.  Landslag ferðasögu á sér sjálfstæða tilvist, umhverfi rómönsu er óland eða staðleysa.  Auk þess lýkur leitarmynstri rómönsunnar jafnan á því að hetjan ber sigur úr býtum.  Þannig geta ferðasögur einnig endað, t.d.  Leiðarvísir pílagrímsins Nikulásar Bergssonar frá 12. öld en hann fór víða, lauk erindi sínu og komst heim heilu og höldnu.  En tveir aðrir kostir eru fyrir hendi.  Annar er sá að leitin verði árangurslaus, eða menn eiga ekki afturkvæmt.  Hér mætti nefna Ferðarollu Magnúsar Stephensen sem dæmi (prentuð 1962) en hann hafði ekki erindi sem erfiði við Jónsbókarútgáfu sína í Kaupmannahöfn.  Hinn kosturinn er sá að leitin taki aldrei enda líkt og í ferðasögu Árna frá Geitastekk.  Árni sigldi út um höfin blá í leit að einhverju sem hann vissi ekki sjálfur hvað var og var enn leitandi á stund skrifanna.

 Veruleiki, sjálf  og samtími

Þótt líta megi á sumar ferðasögur sem brot af spegilmynd einstaklings eru þær ekki sjálfs­ævisögur í eðli sínu.  Sjaldnast er um samfellda lýsingu á ævi og þroskaferli viðkomandi að ræða heldur eru ferðir, samferðamenn og áfangastaðir í brennidepli.  Persónuleiki sögu­mannsins virðist oftast nær hulinn sjónum lesenda en lýsing atvika, landslags og staðhátta er sett á oddinn.  Almennan lesanda ferðasagna á átjándu öld fýsti lítt að gægjast í sálarkirnur höfundarins.  Hann vildi fræðast á skemmtilegan hátt um spennandi viðburði og heiminn í kringum þá, hafa í senn gagn og gaman af ferða­sögunni.[12] Magnús Stephensen kunni að tvinna saman „gagn og gam­an“og nýta í þágu málstaðar síns.  Hann lét prenta tvær þýddar ferðasögur í bókinni Utvaldar Smá-Søgur, Almenníngi til Fróðleiks og Skemtunar sem var gefin út á ár­unum 1822–23.  Tilgangur Magnúsar var að bjóða mönnum í senn skynsamlega dægra­dvöl og góðar bókmenntir sem upplýstu menn og kenndu þeim „að þeckja og vegsama For­sjónar­innar dásamlegu stjórn og ráðstafanir um allann vorn Jarðarhnøtt“ eins og segir í for­mál­anum.  Seinna tók Tómas Sæmundsson í sama streng en hann vildi láta birta í Fjölni „útdrátt úr ferðasögum eður þvílíku, sem orðið gat al­menn­ingi undir eins til fróðleiks og skemmtunar…“.[13] En þrátt fyrir yfirlýst og göfug markmið þá er sjálfsævisöguleg landsýn ferðalangsins oftast ríkjandi í íslenskum ferðasögum frá síðari öldum.

Hefðbundin ferðasaga stefnir jafnan fram á við, frá brottför til heimkomu.  Vanalega er bæði staldrað við og hlaupið yfir í frásögninni auk þess sem útúrdúrar eru algengir.  Ósjaldan eru það einmitt slíkir krákustígar sem gefa sögunni gildi, krydda hana og gera hana persónulegri.  Þótt menn standi í skugganum af frásögn sinni er oftast auðvelt að koma auga á þann sem segir frá með því að koma auga á  „persónulega muni“ í textanum, aukaatriði sem stinga í augu.  Auðvitað kemur mismikið fram um höfundinn sjálf­an í ferðasögum eins og í öðrum textum.  En í vali höfundarins á því hverju hann segir frá eða kýs að þegja yfir og í því hvernig hann segir frá eða þegir má greina útlínur persónuleika og einstaklingsvitundar, smekks og tilfinninga sem varpa ljósi á manninn sjálfan.  Þannig má kynnast ferðalangnum betur, þekkja hann og skilja og öðlast innsýn í samtíma hans um leið.

Hugtakið „samtími“ er einmitt afar mikilvægt þegar litið er til ferðasagna hér á landi á sautjándu og átjándu öld.  Ferðasögurnar færðu lesendum sínum eða áheyrendum samtím­ann á silfurfati, nokkuð sem þeir þekktu ekki áður úr bókmenntum.  Þær buðu upp á nýjan bókmenntalegan tjáningarmöguleika þar sem raunsæi og hvunndagur voru á borð borin.  Hversdagleg viðfangsefni eins og dagleg störf áttu nú erindi á blað, líkamsraunir eins og hungur, þorsti og skyrbjúgur komu við sögu og stundum tæptu menn á tilvistarvanda sínum, einmanakennd eða ótta.  Einhverskonar sjálfsvitund var að verða til, óljós vissa um sérstöðu og siðferðilega valkosti.  Völundur Óskarsson hefur orðað þetta svo: „Ferðin, eins og lífið sjálft, er öðrum þræði leit manns að uppruna sínum.  Hún á upptök sín í hvikulum hugmyndum hans um sjálfan sig og hlutskipti sitt, en er jafnframt knúin áfram af óeirð og óslökkvandi forvitni um það sem er framandlegt.  Því fara gjarnan saman ferðalög á framandi slóðir og sterk sjálfsvitund.“[14] Sumar ferðasögur einkennast af upptalningu staðreynda eða eru tilvísun til eldri rita um sama efni þar sem sótt er til hefðbundinna forma eins og helgi- og píslarsagna eða játninga og þjóðsagna.  Aðalsöguhetjan er þá annaðhvort ofurmannleg hetja eða píslarvottur. Aðrar einkennast af því viðhorfi að venju­legur maður og samtíð hans eigi erindi á blað.  Einna greini­legast verður þetta einkenni í íslenskum ferðasögum á tímum upplýsingarinnar hér á landi þegar manneskjan verður til sem viðfangsefni bókmenntanna.

 „Eins manns sjóferðaskrif“.   Um ferðasögu Eiríks víðförla

Frá átjándu öld eru varðveittar nokkrar frumsamdar íslenskar ferðasögur sem greina frá utan­ferðum einstaklinga.  Hér verða kannaðar tvær sögur af þessu tagi:  Journal eður víðferlissaga Eiríks Björnssonar, skrifuð 1768, fyrst pr.  2000 og Ferðasaga Árna Magnússonar frá Geitastekk samin um 1795 (fyrst pr.  1945).  Þessar ferðasögur eru báðar prentaðar í heild í nýrri sýnisbók um bókmenntir átjándu  aldar sem út kom hjá Máli og menningu fyrir stuttu og ber heitið Upplýsingaröldin, úrval úr bókmenntum 18.  aldar.  Það er því tímabært að fjalla nánar um þessar sögur, efni þeirra og bókmenntalega þýðingu.

Eiríkur Björnsson fæddist 1.  nóvember 1733 á Hjaltabakka í Húnavatns­sýslu.  Hann var skáldmæltur en hið eina sem lifir af skáldskap hans er þýðing hans – eða stæling – á „Gubben Noach“ eftir Bellman.[15] Árið 1756 fór hann til Kaupmannahafnar með skipi Øelandts kaupmanns.  Þar stundaði hann iðnnám og þurfti að líða „sult og kulda nógan“[16].  Eirík og meistarann greindi á um hvað námstíminn skyldi vera langur og Eiríkur venti því kvæði sínu í kross, hætti hanskagerðarnámi og hóf að læra járnsmíði.  Þar lenti Eiríkur einnig í útistöðum sem enduðu með málaferlum og sigri hans.  Eiríkur fór enn í læri til nýs meistara og lynti ágætlega við hann.  Á námstímanum gerð­ist atvik sem snart hann djúpt.  Hann var eitt sinn fenginn til að opna læstar dyr en „einn feitur officeri“ hugði að þjónn sinn væri dauður fyrir innan.  Meðan Eiríkur var að bisa við þetta skaut þjónninn af byssu úr herberginu og fór ein kúlan í gegnum treyju Eiríks.  Tveir unglingar særðust og ein kona lést í skothríðinni.  Þjónninn var leiddur fyrir rétt og dæmdur til dauða en hann átti þó að fermast fyrst: „var hann svo dæmdur til að missa sitt höfuð hvert og skeði eftir tvö ár þá hann hafði verið til konformation, því hann var eigi eldri en 17  ára…“ (438-39).  Eiríkur segir að menn hafi talið sennilegt að þjónninn hafi ætlað að skjóta húsbónda sinn en getur ekki um ástæður þess.  Hann bætir við:

„Þá hann var nú í ráðstofunni examíneraður máttum við tveir sem vorum vitni í þessari sök fylgja með honum þar til hvar konan lá er hann hafði skotið.  Hafði þá skotið gengið gegnum hennar handlegg svo hann var aldeilis ógræðandi og doktorinn mátti neyðast til að skera hann af um öxlina.  Lá þá þessi handleggur á borðinu og konan í sænginni.  Hafði eg þá víst orsök að prísa Herrans gæsku sem verndaði mitt líf og limu frá þessari fordjörfun“.[17]

Hér togast á í Eiríki samúð með þjóninum unga, sem mun taka út grimmilega refsingu, og konunni, sem lést eftir hálfs mánaðar harmkvæli.  Hann hristir þetta af sér með því að minna sjálfan sig á hversu heppinn hann var að Guð sem öllu ræður skyldi ekki ætla honum þennan aldurtila.  Í Kínaferð Eiríks síðar segir frá öðru minna afbroti og þungum viðurlögum en þá var drengur hýddur í þrjá daga fyrir að hnupla peningum og lést hann af sárum sínum (444).

Eiríkur munstraði sig á kaupskipið Dronning Juliane Marie þann 4.  mars 1763 og lagði af stað til Kína.  Árni frá Geitastekk hafði farið með sama skipi til Kína þremur árum fyrr en ekki verður séð af reisubókinni að Eiríki hafi verið kunnugt um það.  Eiríki líkaði vel um borð, starfsandinn var góður og bænahald og messur reglulegar.  Í Kína stundaði Eiríkur smíðaiðn sína í bambuskofa.  Eiríkur víkur um hríð úr sæti aðalpersónu frásagnarinnar fyrir lýsingum á trúarbrögðum Kínverja, lagaboðum og hörðum refsingum, postulínsgerð og stöðu kvenna.  Í janúar 1764 lagði skipið af stað til Kaupmannahafnar hlaðið tei, postulíni, kryddi og silki.  Heimferðin gekk mjög vel eins og Eiríkur lýsir: „… og lifðum svo fornægðir að eg hefi ei um mína daga betur lifað, því vér höfðum gott veður og auðsveipan vind, mátulegan varma, dægilega forfrískning hvern dag við vort borð, nóg vatn í skipinu, þann besta byr, listuga musigve um daginn svo hér vantaði ekkert sem nokkur sjómaður kunni óska sér“ (451).

Eiríkur dvaldi stutt í landi og í nóvember sama ár og hann kom úr Kínaferðinni fékk hann annað tækifæri til að svala útþrá sinni.  Honum bauðst pláss á skipinu Greifynja Moltke og sigldi til Bengal.  Þessi ferð tókst ekki eins vel.  Áhöfnin var hrjáð af vatns- og matarskorti og telur Eiríkur mótlætið stafa af lélegum móral um borð: „Höfðum svo síðan sífellda mótvinda.  Var og ei heldur annars von því þar var soddan ósamþykki á því skipi að sá eini var ferðugur að myrða þann annan og sá sem best kunni láta og leika sem annar djöfull hann stóð sig best“ (455).  Loks komust þeir til Bengal og Eiríkur setti upp smiðju sína sem fyrr.  Hann lýsir allnákvæmlega trúar­brögðum Bengalbúa sem voru skurðgoðadýrkendur.  Trúarbragðafræðslan er eins og spurningakeppni, Eiríkur spyr en bengalskur gullsmiður svarar.  Þá segir Eiríkur frá því í löngu máli hvernig Bengalir hentu líkum í vatn eitt í stað þess að jarða þau.  Einn þjóðflokkur­inn brenndi lík og eftirlifandi ekkju með og þykir Eiríki það að vonum grimmdarlegt:

„Nú er það í þeirra lögum að þar má engin ekkja vera heldur skal þá mannsins lík er brennt konan lifandi með hönum brennast, hverja exekution eg varla gat séð.  Hún, konan, var með basti við sinn dauða mann fastbundin og síðan báðum kastað út á eitt stórt bál hvar þau uppbrunnu og þetta skeði um miðdagsskeið“.[18]

Nokkrir félagar hans reyndu að fá líf einnar ekkjunnar keypt „því þeim þætti gaman að sjá hvað fegin hún yrði þá hún slyppi frá því að brennast“ (458) en hún vildi ekki þiggja boðið þar sem ætt hennar hefði lifað við skömm upp frá því.  Árið 1767 sneri Greifynja Moltke aftur til Danmerkur en á heimleiðinni veiktust margir og dóu úr skyrbjúg.  Var Eiríkur sjálfur hætt kominn en Herrann skenkti honum aftur líf og heilsu (sbr.  463). Trú Eiríks á guðlega forsjón kemur enn betur í ljós í frásögninni af heimferðinni.  Hann segir frá því að einn matrósinn varð argur yfir vatnsskömmtuninni og sór þess eið að skipið kæmist aldrei til Kaupmannahafnar.  Þá svaraði Eiríkur og talar í beinni ræðu í frásögn sinni, svo minnisstætt er honum þetta atvik: „Þú tekur víst feil.  Vort skip sendir vor Herra lukkulega heim til Kaupenhafnar, en eg tvíla að þú komir sjálfur þar.  Þá trú hefi eg“ (462).  Hrakspá Eiríks rættist, matrósinn féll úr mastrinu, slóst utan í borðstokkinn og lét þar líf sitt.  Loks komst skipið heim eftir rúmlega tveggja ára ferða­lag.

Árið 1768 fór Eiríkur til Íslands að hitta föður sinn en sneri strax aftur þar eð faðir hans var þá nýdáinn.  Um þær mundir sem hann kom aftur úr Íslandsreisunni seg­ist hann vera orðinn þreyttur á ferðalögum og „hét því í mínum þönkum, að sækja hvíld og rólegheit á landi“ (466).  Leit hans að ævintýrum var lokið.  Hann kvæntist danskri konu árið 1769 og var grafari í Kaup­mannahöfn til dauðadags 1791.  Benedikt Jónsson Gröndal segir í óprentuðu handriti að Eiríkur hafi dáið í fátækt seint á hans tíð í Kaupmannahöfn og ánafnað Lærdómslista­félaginu eigur sínar en ekki er vitað hverjar þær voru.  Þykir Gröndal lítið til gjafarinnar koma og enn minna til ferðasögu Eiríks „hvörja eg þó ei hefi séð og mun öllum að skaðlitlu fyrir laungu síðan vera undir lok liðin“.[19]

„Blandt úlfa og löver“.  Ferðasaga Árna frá Geitastekk

Árni Magnússon frá Geitastekk er einn víðförlasti Íslendingur síns tíma.  Hann er talinn fæddur árið 1726 og var því jafnaldri Eggerts Ólafssonar.  Árni hélt til Kaupmannahafnar árið 1753 en ekki virðist borgin hafa heillað hann að ráði því hann fór fljótlega þaðan til Grænlands í vinnu.  Þar líkaði honum vel og fannst Grænland um margt betra en Ísland.[20] Eftir þriggja ára dvöl sneri hann aftur til Danmerkur og á árunum 1757–59 var hann á skipum sem sigldu til Pétursborgar, Köningsberg og Bordeaux.  Síðan fór hann til Kína og hófst undirbúningur ferðarinnar haustið 1759 en skipið lét í haf snemma árs 1760.  Ferðin var erfið framan af og menn voru sveltir og barðir eða eins og Árni segir: „Við vorum allir orðnir í gegnum frosnir, votir og svangir, því ei varð matur kokkaður sökum illviðra, og fengum lítið að sofa, en högg í mengd á votan, frosinn og svangan kropp“ (293).  Margir létust á leiðinni og sjálfur veiktist Árni en hresstist brátt og þakkaði guði fyrir að sleppa lif­andi.  Árni lýsir Kína eins og jarðneskri paradís „með óteljanlegum ávöxtum og hrísgrjónum er voru hvít sem mjólk og sæt sem hunang“ (306) og feitum og þrifalegum búpeningi.  Þar er hægt að tína ávexti af trjánum árið um kring og hefur Dalabóndanum aldeilis þótt það búbót. Á heimleið frá Kína var einn matrósinn myrtur.  Var sá glæpur hroðalegur en refsing hins seka þó enn hroðalegri: „Þar eftir urðu bæði bökin saman lögð á þeim dauða og lifandi og bundin saman með blýlóð bundin við fæturnar og í sjávardjúp sökktir“ (308).  Hafa má orð morðingjans til marks um það hve ferðin var erfið, en hann „sagðist nú fá það sem lengi hefði eftir þreyð, að láta sér í sjóinn kasta“ (308).

Þegar Árni kom úr Kínaferðinni árið 1761 snerist allt honum í óhag.  Hann varð að þræla í skipasmíða­stöð danska flotans og lenti í fangelsi fyrir að hafa skrifað upp á vafasama pappíra (321).  Þegar hann losnaði úr prísundinni gekk hann í her Katrínar miklu og sigldi suður til Tyrklands á rússnesku herskipi árið 1770.  Hernaðurinn fólst að mestu í ránum, íkveikjum, drápum og nauðgunum:

„Einn dag var gott veður.   Skyldum vér nú  fá eitthvað lífs upphold.  Komum vér upp á ey nokkra, er Tyrkjar í bjuggu.  Þegar þeir sáu oss, hlupu þeir allir út í skóginn utan tvær konur voru heima.  Sú eina var ólétt, en önnur ei.  Henni lágu þeir [Rússar] hjá.  En þá óléttu uppskáru þeir og tóku fóstrið út af hennar lífi – og það gegnum stungið.  Hrærðust bæði lærin og handleggirnir á því, er þeim þótti gaman upp á að sjá“.[21]

Fyrir þennan skepnuskap fengu Rússarnir makleg málagjöld að tilstuðlan Árna og félaga.  Árni virðist hafa haft ríka réttlætiskennd.  Hann vílar ekki fyrir sér að láta til sín heyra um það sem honum þykir gagnrýnivert.  Danskir prestar og kaupmenn á Grænlandi fá orð í eyra og sjálfur Danakonungur einnig.  Árni segir blákalt að með eldinum í Kaupmannahöfn 1728 hafi guð verið að refsa konungi fyrir óstjórn og spillingu.[22]

Árni reynir jafnan að staðfæra og lýsa ókunnuglegum fyrirbærum þannig að menn geti séð þau fyrir sér og ímyndað sér lögun þeirra eða stærð.  Í eftirfarandi lýsingu gengur hann út frá því að viðtakandi geti dregið skynsamlega ályktun um útlit og bragð framandi ávaxtar sem lýst er með samanburði við kunnugleg fyrirbæri eins og ull og egg:

„Kukkuser vaxa á vissum trjám.  Þeirra skalli eður skurmur er harðari en eik og ullu vaxinn.  Inn í skurminum er vatn sætt sem hunang, og þegar það er út drukkið er til baka hvítur kjarni sem úr eggi væri, sætur sem sykur.  Þegar nú skallinn er út tæmdur tekur hann frá hálfum potti til þriggja pela.  Þennan skalla selja þeir í Norðurhálfu heimsins, sem verður besleginn með silfurböndum, handraði og loki og hafður fyrir ölkrúsir á stórum stöðum“.[23]

Þegar Árni lýsir íbúum Portopray notar hann sama viðmið og Jón Indíafari í Reisubók sinni er hann líkti hári Kaffa við lambsull.  Árni segir: „Þeir voru svartir sem sót með svart hár, líkast þeim svörtu unglambaskinnum hjá oss er voru krulluð með lítið hár“ (296).  Árni lenti í svipuðum hremmingum um borð og Jón Indíafari því hann slasaðist illa.  Þegar heilsan bilaði varð hann að búa við þröngan kost í Danmörku.  Er hann hafði náð sér fór hann til Ís­lands og dvaldi einn vetur en líkaði illa og sneri aftur árið 1775.  Næstu 17 ár stundaði hann barnakennslu á Jótlandi, einkum hjá fátæku fólki.  Þá flæktist hann um Noreg og Svíþjóð í tvö ár en kom til Íslands árið 1797.  Hann dvaldist hér á landi um fjögurra ára skeið og skrifaði þá ferðasögu sína.  Árni sigldi aftur til Danmerkur 1801 og síðan hefur ekkert til hans spurst.

 Af íslenskum Gúllíver og Ódysseifi

 Sögur Eiríks og Árna eru um margt svipaðar þótt ómælisdjúp skilji þær að.  Þeir fara báðir til Kína á sama skipi og með sama skipstjóra  (Holm kapteini) og það er í þeim ferðum sem mestu líkindin eru í efnistökum.  Báðir lýsa hitanum á leiðinni, Eiríkur á þennan hátt: „Þá maður er undir sólunni svo er enginn skuggi af neinu því sem stendur rétt upp.  Um miðdaginn er hún rétt beint yfir, svo þá maðr setur einn gaffal í eitt borð þá er skugginn beint niður á millum oddanna.  Hiti er þar svo sterkur að enginn er í standi að þola að ganga berfættur á dekkinu“ (442).  Að auki getur Eiríkur þess að skipið hafi þurft að kæla með sjó á tveggja tíma fresti svo að bikið rynni ekki allt niður (443).  Árni hefur sömu sögu að segja: „Nú er orðið svo heitt af sólunni að það má slá sjóvatn upp á þilfarið hvert annað glas.  Annars bræðist bæði bik og tjara af skipinu.  Berfættur kann hann ei að ganga á þilfarinu því þá brennur hans iljaskinn af hitanum sem sólin gefur af sér á þilfarsplönkunum …“ (295).[24] Þeim ber saman um mikinn þorsta sem kvaldi þá á leiðinni og þeir segja báðir frá leik einum sem siðvenja var að fara í þegar siglt var yfir Miðjarðarhafsbaug.  Báðir segja þeir Kínverja þjófótta og báðir segja frá grimmi­legum refsingum við afbrotum.  Báðir segja frá minnisstæðu atviki sem tengist hita og vatns­skorti um borð, Eiríkur frá formælingum eins skipsfélaga síns sem síðar fékk makleg mála­gjöld, Árni frá því að hjartað greri við síðu eins félaga hans vegna hita og þorsta (sbr.  294).  Báðir sjá fræga staði úr Biblíunni, Árni sér akurinn þar sem Kain dó (sbr.  325) en Eiríkur Borðfjall „á hverju nokkrir vilja segja að vor herra hafi mettað þau 5000 manns“ (454).[25] Árni segir á hinn bóginn frá illu atlæti, hungri, bölvi, brennivíni og bar­smíðum um borð sem Eiríkur minnist ekki á.  Árni fjallar ávallt um kvenfólk og segir frá skiptum sínum við það, en Eiríkur kemst sjaldan í návígi við konur.  Hinir „persónulegu munir“ sem Árni skilur eftir sig í textanum eru einkalegir og mannlegir en Eiríkur er fátalaðri um sjálfan sig.

Jafnan var talið að ferðasöguritarar skrifuðu til þess eins að uppfræða þá sem heima sátu en skrifuðu ekki sjálfum sér eða öðrum til ánægju.  En ástæður ferðasagnaritunar eru jafn­margar og ferðasögurnar.  Í formála reisubókar sinnar rekur Eiríkur þríþætta ástæðu þess að hann skrifar ferðasögu sína: 1) að þakka guði, 2) að segja vinum sínum frá svo að þeir geti þakkað guði líka og 3) að fræða vini sína um framandi þjóðir (434).  Hann vill ekki að hún sé lesin sem gamansaga heldur að einhver lærdómur verði dreginn af henni (435).  Tilefni þess að Eiríkur hugsar sér til hreyfings er að hann þarf að fara til náms í handverki sínu.  Þar kemst hann að því hvað veröldin er stór, forvitni hans vaknar og rekur hann lengra út í heim.  Segja má að Eiríkur sé dæmi um það sem kallast „the curious traveler“.[26] Hann er for­vitinn, eirðarlaus og þyrstir í ferðalög.  Hann notar hvert tækifæri sem býðst til að komast á vit hins óþekkta.  Hann er ákveðinn í því að leggja út í heiminn og leita hamingjunnar, það er draumur hans þegar í æsku líkt og Gúllí­vers.  Öðru máli gegnir um Árna og ástæður hans fyrir brottför af Íslandi.  Hann er hinn íslenski Ódysseifur, „dæmdur til að hrekjast“ en engin Penelópa bíður hans.

Það sem m.a.  skapar sögu Árna sérstöðu er leyndin sem hvílir yfir ástæðu hans fyrir því að yfirgefa ættjörðina en þar er eyða í sög­unni.  Árni segir: „Eg hafði og nokkuð að bera í samvisku minni, þegar eg hugsaði til Íslands og hvör orsök var til reisu minnar“ (262).  Björn K.  Þórólfsson nefnir þetta í formála sínum að ferðasögu Árna:

„Ekki er ljóst, hvað valdið hefur brottför hans af landinu.  Hér gekk ógurlegt hallæri, sem eflaust hefur flæmt marga úr landi, en svo mun ekki hafa verið um Árna.  Sjálfur gefur hann í skyn, að hann hafi flúið land vegna viðkvæmnimáls nokkurs eða samvizkusakar, er hann vildi engum segja og auðvitað enn síður færa í letur“.[27]

Vera má að Árni hafi flúið land vegna kvennamála eða ástarsorgar en vitað er að hann átti barn utan hjónabands sem lést aðeins hálfs mánaðar gamalt og hann talar mikið um sorg sem hann deyfir með víni (341).  Árni hefur verið þó nokkuð upp á kvenhöndina og hann segir blátt áfram að erfitt sé að lifa eftir sjötta og sjöunda borðorðinu, þ.e.  hvorki að drýgja hór né stela (262).  Hann talar oft um þjófa og e.t.v.  liggur bitur reynsla að baki þessum orðum hans: „Þeir stóru þjófar ganga frí en þá smáu taka þeir“ (260).  Það verður þó að telja ósennilegt að Árni hafi gerst brotlegur við landslög og sé á flótta undan armi laganna.  Hann hafði „pass“ í lagi, fékk far á skipi sem Skúli fógeti hafði umsjón með og loks hætti hann sér hingað til lands aftur síðar.  En kannske hefur hann átt í einhverjum útistöðum við yfirvöld því þegar hann sneri aftur eftir rúmlega tveggja áratuga fjarveru þá segir hann að sýslu­maðurinn Magnús Ketilsson (1732–1803) hafi verið sér í öllu mótfallinn (337) og áður hefur hann getið þess sérstaklega þegar Magnús varð sýslumaður í Dalasýslu árið 1754 (261).[28] Þá má vera að Árni hafi einungis viljað leita sér fjár og frama eins og bróðir hans sem þá var kominn til Danmerkur og hafði skrifað eftir honum (258).  En Árni er í raun­inni bundinn í báða skó og átti fyrir börnum og búi að sjá þegar hann tekur upp á því að fara til útlanda.  Það er ekki ólgandi ævintýraþrá sem fær hann til að slíta öll bönd við fjölskyldu og ættjörð heldur reka sorg og sektar­kennd hann áfram.  Þó er ekki að sjá að hann iðrist þess að hafa farið.  En á gamals aldri snýr Árni aftur heim til Íslands (Penelópu?) og þá finnur hann hjá sér þörf fyrir að tengjast fólki sínu á einhvern hátt.  Hann skrifar þá ferðasögu sína á árunum 1799–1801 „fyrir ætt­fólk sitt í Dala­sýslu“.[29]

 Ferðasögur Eiríks og Árna eru báðar huglægar og persónulegar frásagnir.  En höfundar beggja reyna að skrifa hlutlægan og fræðandi texta.  Þetta kemur vel fram í um­fjöllun þeirra félaga um frumbyggja eða „heiðingja“.  Eiríkur rembist við að lýsa trúarbrögðum þeirra á hlutlausan hátt án kristlegrar vandlætingar og tekst það yfirleitt ágætlega.  Honum er þó nóg boðið þegar hann sér sjakala narta í lík gamallar konu sem samkvæmt þarlendri siðvenju var varpað í vatn þegar hún safnaðist til feðra sinna.  Þá ber huglægnin hlutleysið ofurliði og furður veraldar eru skýrðar út frá kristilegu sjónarhorni:

„Þetta platz var fullt með dauðra manna bein sem jackhálsarnir höfðu borið og dregið upp frá ströndunni og etið upp.  Er það og víst að þá þeir finna soddan einn Bengaler upprekinn að þar er gleði á ferðum millum þeirra svo þá er sá hinn besti sem mest hljóðar.  Bíður það þá eigi lengi nær svo margir eru samansafnaðir að þeir kroppa beinin svo hreint af í tvo eður þrjá tíma að enginn skal hafa orsök að segja að þeir fari illa að mat sínum.Nú höfðu þeir fundið eina gamla konu sem var rekin upp og lá á eyri einni við fjörumál.  Höndina höfðu þeir þá fengið, höfuðið og þann eina handlegg af henni og nokkuð af þeirri einu síðu.Þá nú vér sáum þetta höfðum vér orsök að undrast yfir Drotttins órannsakanlegu ráði og velgerningum móti oss sem þó erum mörgum heiðingjum verri.  Erum þó betur upplýstir en þeir og vitum vors Herra vilja en gjörum hann eigi.  Er hans gæska þó svo stór og ómetandi að vorum dauðu beinum gefur hann hvíld nær heiðingjanna eður Tyrkjanna eru af villudýrum dregin aftur og fram um mörkina“.[30]

Eiríkur þakkar sínum sæla fyrir að vera laus við þessar trakteringar.  Hann telur heiðingjana fávísa og því séu þeir löglega afsakaðir að gjöra ekki vilja guðs.  Kristnir menn hafa hins vegar enga slíka afsökun þar eð þeir eru upplýstir og vita vilja guðs en gjöra hann ekki.  Afstaða Árna er allt önnur.  Hann telur að heiðingjar verði fyrst spilltir þegar búið er að kristna þá (265).  Árni setur sig ekki á háan hest gagnvart Grænlendingum en hefur samúð með þeim og þyk­ir Danir reynast þeim illa.  Hann telur bæði kost og löst á frumbyggjum Grænlands og segir að þeir séu glaðsinna og nýtnir, hreinlátir og duglegir og leiknir við veiðar en sumar stúlk­urnar séu heimskar, stundum éti þeir af sér lýsnar og sleiki börn sín í framan (273).  Hann skammast sín ekki fyrir að vilja lifa frillulífi með grænlenskum konum.  Það er þó varasamt því þær geta ekki þagað yfir því „af heimsku og málæði“ (273) en ef upp kemst lenda menn annaðhvort í fangelsi eða hjónabandi.  Árni er á hinn bóginn lítt hrifinn af Ind­verjum og Kínverjum sem hann segir þjófótta enda reyndi hann það á eigin skinni.  Blákaldur veruleikinn stendur Árna miklu nær en kristilegar útleggingar á lífinu.  Annað sem sýnir vel hvernig persónuleg túlkun tekur völdin af hlutlægri skoðun fyrirbæranna er afstaða Eiríks og Árna til Tyrkja, en Tyrkjahatur var mönnum í blóð borið síðan 1627.  Þegar Eiríkur sér Tyrki í fyrsta sinn lýsir hann þeim svo:

„Í þessum svifum komu þar framhjá tveir menn sem höfðu andlit líkast hundstrýni þótt önnur þeirra sköpun væri mikið lík manneskjum.  Spurði eg hvað fyrir einir þessir væru? Var mér sagt þeir væru kallaðir Hundatyrkjar og byggi í Tartarien bak við Kína og væru mannætur.   Virtist mér þeir bera nafn með rentu þar þeir eru hálf svartir að lit og loðnir yfir allt þá þeir eru nær skoðaðir og hafa þar til illmannlega ásýnd“.[31]

Orðið „Hund-Tyrki“ holdgerist hér fyrir augum Eiríks, slíkt er hatrið og fyrirlitningin.  Árni ber aftur á móti engan kala til Tyrkja þótt hann fari í hernað gegn þeim á vegum Katrínar miklu.  Viðbjóður hans á misþyrmingum hinna tyrknesku kvenna sem áður er getið um leynir sér ekki né heldur aðdáunin á tyrkneskum feðgum sem féllu í sjóorrustu eftir frækilega framgöngu:

„Faðirinn var svo stór og sterkur sem risi.  Hans handleggir voru svo þykkvir sem fullkomins manns lær og eftir því var heili kroppurinn.  Hann hafði tvö sverð, eitt í hverri hendi og slóst með báðum.  En einn Greker er var af þeim Albaneser sem eru hið grimmasta fólk, hann kom á bak þessu tyrkneska, stóra manni og lagði hann milli herðanna og kom oddurinn út fyrir neðan bringspalirnar.  Og þegar sá stóri, gamli maður fékk sitt banasár, kastaði hann báðum sverðunum upp í loftið svo það söng í þeim og féll á hrygginn, meðan blóðið út rann af kroppnum.  Þannig deyði hann með hreysti og hugprýði.  Sonurinn var fram á skipinu.  Og þegar sonurinn sá að faðirinn var nú dauður, varð hann sorgfullur og varði sig ekkert, heldur gekk viljugur til síns dauða, og Rússar hjuggu hans höfuð af en færðu hann fyrst úr klæð­unum“.[32]

Hjá Árna fá þessir fræknu feðgar lofsamleg eftirmæli.  Hann dæmir Tyrki eftir því hvernig þeir reynast en er ekki fullur hleypidóma eins og Eiríkur.

Ferðasögurnar tvær eru afar ólíkar að byggingu.  Eiríkur heldur sig við hefðbundið ferða­söguform, líf hans rennur eftir beinum vegi og engir krákustígar eru leyfðir.[33] Lífsbraut Árna er mun hlykkjóttari, þar liggur leiðin inn í skuggalegar hliðargötur.  Sem dæmi um það mætti nefna ævintýri Árna hjá „hóruvertinnu“ (sbr.  311), yfirlýsingar um hárleysi grænlenskra kvenna „á þeim leynilega stað“ (273), innskot ýmiss konar og „historíur“ þar sem Árni læt­ur móðan mása og dregur ekkert undan.  Að þessu leyti gefur saga Árna mun raunsannari mynd af lífsins götu en reisubók Eiríks.

Saga Eiríks er skrifuð á árunum 1768–74 og nær yfir allt líf hans.  Frásögnin er þaulskipulögð frá hendi Eiríks þegar hún er sett á blað.  Í formála er sagt frá ætt og uppruna, giftingu og barn­eignum og þar er einnig vikið að tilgangi skrifanna.  Þá hefst hin eiginlega ferðasaga með Danmerkurferð, frásögn af námi þar og ýmsu sem á daga hans dreif og síðan koma ferðalög­in þrjú í réttri tímaröð.  Sagan endar svo á því að Eiríkur sest í helgan stein, reynslunni ríkari og saddur ferðalaga.  Saga Árna hefst hins vegar fyrirvaralaust á siglingu hans frá Íslandi til Danmerkur og frásögn af vinnu á Grænlandi.  Því næst segir frá siglingum hans og hinni frægu Kínaferð, þrældómi í danskri skipasmíðastöð og hernaði gegn Tyrkjum, stuttri Ís­landsför, kennslustarfi hans á Jótlandi og flakki um Noreg og Svíþjóð.  Í lokin fellur saga Árna niður jafnfyrirvaralaust og hún hófst.  Hann er þá kominn til Íslands, þó ekki alla leið heim í Dali.  Hann virðist lítið hafa lært á ferðum sínum og eirðarleysið er hið sama og áður. Þeir Eiríkur og Árni eru báðir leitandi á ferðum sínum.  Eiríkur leitar fjár og frama og svalar ferðaþrá sinni og forvitni um leið en Árni leitar að hamingju og reynir að afla sér þekkingar á sjálfum sér og umheiminum.  Útþrá og ævintýramennska einkenna leit Eiríks en óþreyja og eirðarleysi setja svip sinn á leit Árna.

Augljóst er að Eiríkur hefur skrifað hjá sér eða jafnvel haldið dagbók meðan á ferðunum stóð og stuðst við þau minnisblöð þegar ferðasagan var rituð.  Hann hefur nákvæmar dagsetningar á reiðum höndum, tínir alltaf til hversu mörgum fallbyssuskotum er hleypt af, hversu margar vatnstunnur voru til og fjölda daga sem fara í rek og bið.  Eiríkur er ungur þegar hann skráir sögu sína og atburðir standa honum því enn lifandi fyrir hugskotssjónum.  Árni skrifar ferðasögu sína að mestu leyti eftir stopulu minni, sbr.  orð hans hér og hvar í sögunni: „mig minnir“, „Þar eru vel fleiri en eg hefi gleymt þeim“ (266) og sagan endar á setningunni „Nafn hans man eg ei“ (360).  Árni er hniginn á efri ár þegar hann skrifar sögu sína.  Dagsetningar, vegalengdir og lýsingar á veðurfari eru þó nákvæmari en svo að það geti einungis verið eftir minni, s.s.  í fyrstu ferðinni frá Íslandi.  Í Kínaferðinni var Árni látinn halda skipsdagbók sem e.t.v.  hefur orðið til þess að þessi atriði festust honum í minni.

Stíll þeirra Eiríks og Árna er yfirleitt einfaldur og látlaus.  Eiríkur slettir bæði dönsku og latínu allvíða en lætur oftlega skýringar fylgja með.  Hjá honum bregður fyrir einu og einu stíl­bragði, t.d.  þessari líkingu: „Var þar þá sá mesti kuldi og frost með snjó svo bæði kaðlar og segl stóðu sem járn“ (452).  Í frásögninni er fátt um samtöl, sviðsett orðaskipti ferðalangs og innfæddra manna (Indverja og Kínverja) geta tæplega talist eðlilegar samræður.  Í tungumáli Eiríks er guð sú merkingarmiðja sem miðað er við, kristilegar útleggingar á lífinu eru allsráðandi.  Árni beitir stílbrögðum álíka og Eiríkur.  Hann notar mikið beina ræðu og hefur gaman af að skjóta óþarfa upplýsingum eða útúrdúrum inn í sögu sína.  Stíll hans er persónulegur og miðja tungumáls hans er líkaminn, svangur, straffaður, sjúkur, „sundur parteraður“ (293) og lostafullur.

Viðhorf þeirra Eiríks og Árna til trúarinnar er ólíkt og birtist það allvel í sögum þeirra.  Eiríkur trúir á forsjónina sem framhald sköpunarverksins og saga hans er römmuð inn af trúarlegri orðræðu.  Í formála fær Eiríkur ekki nógsamlega þakkað guði fyrir vernd og föðurlega umhyggju.  Hann er þess fullviss að líf og dauði sé algerlega í hendi guðs, sbr.: „Hefur Guð gefið okkur tvö börn sem nú eru bæði komin í himneska sælu“ (434).  Í veikind­um sínum vonar hann að guð leysi hann frá mæðu þessa heims og þegar honum batnar segir hann: „ … Herrann skenkti mér aftur líf og heilsu.  Lofað sé hans nafn eilíflega!“ (463).  Þá sést trú Eiríks á forsjónina vel þegar spá hans um að matrósinn afundni kæmist ekki til Kaup­mannahafnar rætist með hörmulegum hætti.  Lokaorð reisubókarinnar eru lofgjörð til Drott­ins: „Vil eg svo að lyktum enda minn lítinn journal og segja: Lofað veri Herrans nafn, þess sem gjörði himin og jörð“ (466).  Í „Ályktunar aðkvæði sjálfs sögumannsins í ljóðum um yfirdrif ævi sinnar“ sem koma á eftir sögulokum kemur trúarafstaða Eiríks skýrt fram.  Hann hugsar sér að sorg og angur sé sent frá Drottni til mannanna sem strita fyrir „blóð hans sonar“ (sbr.  vísu nr.  III, 467).  Lífið er ein þrautaganga og á einskis manns valdi að breyta því.

Árni virðist trúa á vinsamlegan og persónulegan guð.  Hann hefur eitthvað á samviskunni en hann þarf ekki að standa neinum skil á því nema honum: „Eg sló sorgina burt með drykk, þó aldrei eg kunni það gjöra fyrir einum hlut, guð vissi hann“ (263).  Svo virðist sem hann hafi lent í trúarkreppu á Grænlandi og orðið fyrir aðkasti (263) og hann gagnrýnir presta og trúboð harðlega.  Embættismenn kirkjunnar eru að hans mati full­trúar græðgi og spillingar (sjá t.d.  265).  En hann hefur trú á alltumlykjandi ást og visku almættisins: „Guð veit bezt alla hluti“ (262) segir hann og ennfremur: „Eg þakkaði mín­um Guði, að eg slapp … .  Eg var einmana og forsvarslaus, en Guð vissi, hvað eg hafði í þönkum, þegar upp fór með þessum skálkum.  En Guði séu þakkir, sem hjálpaði mér, svo eg komst slysalaust til Kaupinhafnar“ (305).  Árni gerir sér grein fyrir að valdi almættisins eru takmörk sett.  Á einum stað þakkar hann bróður sínum lífgjöf  en ekki guði og hann gerir sér engar gyllivonir um forsjón guðs í elli, sjúkdómum og dauða eins og ráða má af eftirfar­andi orðum: „En þessi var pósturinn að eg var ei viss um hvar vera skyldi þegar yrði gamall.  … – en ef Guð sendi mér sjúkdóm, til hvers skylda eg þá flýja? Enginn hefði sér tekið af mér“ (352).  Árni nefndi þetta áhyggjuefni sitt við bændurna á Jótlandi en hafði lítið upp úr krafsinu: „Þeir sögðu mér eg tryði illa Guði að hann vildi mig ei forsorga“ (352).  En eins og svo oft áður tekur Árni reynsluna fram yfir kenninguna, hann hefur séð hvernig farið er með fólk sem ekki á í nein hús að venda.

 Að skilja eftir sig spor

Í ferðasögum þeirra Árna og Eiríks er maðurinn sjálfur söguefni í raunverulegri nútíð sem er kortlögð vegna þess að hún er talin eiga erindi við samtímann.  Sá sem hefur fyrir því að segja frá sjálfum sér veit að nútíðin er frábrugðin fortíðinni og hún verður ekki endurtekin í fram­tíðinni.  Hann verður meðvitaðri um mismun fremur en líkindi, veit af hverfulleika heimsins og óvissu og telur vissara að festa mynd sína í sessi svo að hún glatist ekki heldur öðlist eilíft líf.  Í þessu tilliti er stór munur á ferðasögunum tveimur þótt báðar séu þær sjálfsævisögu­legar að nokkru leyti.  Eiríkur kynnir sjálfan sig og fortíð sína í formála reisubókar sinnar.  Hann lítur svo á að hann sjálfur og fortíð hans skeri sig úr og séu markverð en það er tilefni skrif­anna.  Sjálfsvera hans tekur á sig mynd og skilur eftir sig spor í samtímanum.  Hann gerir grein fyrir sérstöðu sinni á þessa leið: „Bið eg þá þess að gæta að þetta er ei annað en eins manns sjóferðaskrif, sem ei kann með fullri vissu um fleira að vitna en það sem fyrir hann sjálfan hefur borið“ (434 nm.).

En Eiríkur er á varðbergi við skrift­irnar.  Hann skrifar ekki um eigin bresti, mistök eða ístöðuleysi.  Persónan Eiríkur sem birtist í reisubókinni er ekki endilega maðurinn eins og hann var heldur sá sem hann langar til að vera.  Eiríkur er umlukinn helgisagnahefð fortíðarinnar, guð er það sem allt snýst um.  Sögu hans mætti skilgreina sem „apology“ eða varnarræðu þar sem lífið og lögmál samfélags og siðferðis eru samhljóma; sagan birtir þann heil­leika sjálfsins sem Eiríkur trúir á.  Árni skrifar hinsvegar til þess að raða saman brota­kenndu lífi sínu, fá heildarmynd af fortíð sinni og finna samhengi í sögu sinni.  Hann leitar friðar og sátta við sjálfan sig og umheiminn.  Árni er raunsær og reynir ekki að fegra fortíðina, helgisagnahefðin og píslarvættið eru víðs fjarri.  Hann er einmana, hrædd­ur, forvitinn, kvensamur, drykkfelldur og með óhreint mjöl í pokahorni.  Saga hans er í ætt við játningar (confessions) þar sem sjálfstúlkunin er sönn, raunveruleg og tilvistarleg.  Helstu andstæður í sögum þeirra Eiríks og Árna má sjá á eftirfarandi hátt:

Reisubók Eiríks                                   Ferðasaga Árna

  •               markviss stefna – skipulag –            tilviljun – óreiða
  •               bein leið (horizontal)                             krákustígar (vertical)
  •               helgisagnahefð                                      raunsæi
  •               varnarræða (apology)                            játningar (confessions)
  •               kristilegt sjónarhorn                              reynsla
  •               guð                                                        líkami
  •               samræmi                                                sundurleitni

Um sjálfsævisögur hefur verið sagt að þær staðfesti ákveðin þrep í lífi einstaklingsins, tengi þau og skýri beint eða óbeint og skapi ákveðið samræmi í sambandi sjálfsins og umheimsins – eða kannski öllu heldur ákveðið ósamræmi.[34] Í sögu sinni reynir Árni að fá heildarsamhengi í líf sitt en útkoman er ósamræmi og sundurleitni.  Í sögu Eiríks er samræmið milli umheims­ins og sjálfsins fólgið í hinu kristilega sjónarhorni og trúnni á guðlega forsjón.  Hjá honum ríkir fullkomið samræmi milli atburða sögunnar og trúarlegrar úrvinnslu.

Árni frá Geitastekk var eng­inn venjulegur maður, víðförlastur Íslendinga allt fram á þessa öld og fyrstur þeirra til Kína.  Ferðasaga Árna er huglæg, sjálfhverf og einkaleg.  Hún er í ætt við endurminningar en á þessu tímaskeiði tók áhugi á persónusögu að láta á sér kræla eins og sjá má af fjölmörgum ævi­þáttum sem varðveist hafa í handritum frá sautjándu og átjándu öld og um líkt leyti blómstraði sjálfsævisagnaritun á meginlandi Evrópu.  Árni segir sögu sína undanbragðalítið og er ekki að berja í brestina.  Saga hans hefst á ferðalagi frá Íslandi 1753 og fellur síðan nið­ur fyrirvaralaust þegar hann kemur til landsins í þeim tilgangi að setjast í helgan stein en vitað er að hann sneri aftur til Danmerkur þar sem talið er að hann hafi borið beinin.  Frásögn Árna er víða talmálskennd og tætingsleg og í bókarlok er ekki að sjá að stormana í sál hans hafi lægt á langri ævi.  Hann er íslenskur Ódysseifur, á eilífu ferðalagi þar sem hver þolraun­in rekur aðra.

Eiríkur kom til Kína aðeins þremur árum á eftir Árna.  Ferðasaga Eiríks er skipulega byggð frá upphafi til enda.  Guðleg forsjón svífur þar yfir vötnum og er uppspretta merkingar í huga hans.  Ævintýraþrá og forvitni um framandi lönd eins og Indland og Kína rekur hann af stað í upphafi.  Eiríki svipar að því leyti til Gúllívers sem hafði ferðaástríðuna í blóðinu frá unga aldri og kom til hvers furðulandsins á fætur öðru.  Það er sérkennilegt að þrátt fyrir margvísleg kynni af siðmenntuðum heimsborgum og sól­ríkum pálmaströndum sneru utan­landsfarar íslenskra ferðasagna flestir aftur til íslenskra þokustranda og báru þar beinin.  En það gerðu hvorki Árni frá Geitastekk né Eiríkur víðförli.  Hinstu spor þeirra tveggja hurfu inn í danska dalalæðu.

SKÍRNIR, vor 2001

 

Heimildaskrá

Adams, Percy G.  1983.  Travel Literature and the Evolution of the Novel.

Lexington, The University Press of Kentucky.

Árni Magnússon frá Geitastekk 2000.  Ferðasaga.Upplýsingaröldin.  Úrval úr

bókmenntum 18. aldar, bls.  255-360.  Víkingur Kristjánsson og Þorfinnur Skúlason tóku saman.  Reykjavík, Mál og menning.

Bakhtin, M.  M.  1981.  The Dialogic Imagination.Austin, University of Texas Press.

Batten,Charles L.  1978.  Pleasurable Instruction.  Form and Convention in Eighteenth-

Century Travel Literature.  Berkeley, University of California Press.

Björn Karel Þórólfsson 1945.  Formáli.  Ferðasaga Árna Magnússonar frá Geitastekk

1753-1797, samin af honum sjálfum, bls.  5-16.  Reykjavík, Bókaútgáfan Heimdallur.

Bréf Tómasar Sæmundssonar.  Gefin út á hundrað ára afmæli hans 7. júní 1907.  Jón

Helgason bjó til prentunar.  Reykjavík, Sigurður Kristjánsson.

Edwards, Philip 1988.  Last Voyages.  Cavendish, Hudson, Ralegh.  The Original

Narratives.  Oxford, Clarendon Press.

Eiríkur Björnsson 2000.  Journal eður víðferlissaga Eiríks Björnssonar.  Upplýsingaröldin.

Úrval úr bókmenntum 18.aldar, bls.  433-467.  Víkingur Kristjánsson og Þorfinnur

Skúlason tóku saman.  Reykjavík, Mál og menning.

Friedman, Norman 1975.  Form and Meaning in Fiction.  Athens, University of Georgia

Press.

Halldór Laxness 1968.  Kristnihald undir jökli.  Reykjavík, Helgafell.

Hume, Kathryn 1984.  Fantasy and Mimesis.  Responses to Reality in Western Literature.

NewYork, Methuen.

Kundera, Milan 1993.  Vegir í þoku.  Friðrik Rafnsson þýddi úr frönsku.  Bjartur og frú

Emilía, nr.  10, bls.  102-127.

Lára Magnúsardóttir 1993. Heimsmynd almúgafólks á 18. öld. Óprentuð ritgerð til B.A.

prófs í sagnfræði. Í vörslu Háskólabókasafns.

Lbs.  668 4º

Lbs.  1754 4º

Magnús Stephensen 1822-23.  Utvaldar Smá-Søgur, Almenníngi til Fróðleiks og

Skemtunar.  Viðey, höfundur gaf út.

Mulvey, Christopher 1983.  Preface.  Anglo-American Landscapes.  A Study in

Nineteenth-Century Anglo-American Travel Literature.  Cambridge, Cambridge

University Press.

Pascal, Roy 1960.  Design and Truth in Autobiography.  Massachusettes, Cambridge

University Press.

Sigurður Þórarinsson 1983. Bellmania.  Árni Sigurjónsson annaðist útgáfuna.  Reykjavík,

Ísafoldarprentsmiðja.

Sverrir Tómasson 1988.  Formálar íslenskra sagnaritara á miðöldum.  Rannsókn

bókmenntahefðar.  Reykjavík, Stofnun Árna Magnússonar.

Tómas Sæmundsson 1947.  Ferðabók Tómasar Sæmundssonar.  Jakob Benediktsson bjó

undir prentun.  Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag.

Völundur Óskarsson 1992.  Inngangur.  Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara, samin af

honum sjálfum (1661), bls. xii-xxxi.  Reykjavík, Mál og menning.

Þorsteinn Þorsteinsson 1935.  Magnús Ketilsson sýslumaður.  Reykjavík,

Fjelagsprentsmiðjan.

[1] Með hugtakinu „ferðasaga“ (e. travel literature, da. rejseskildring, þý. Reisebeschreibungen, fr. récit de voyages) er átt við „sanna“ frásögn manns af ferðalagi sínu. Ferðasögur í fornbókmenntum (t.d. Íslendingasögum og –þáttum) falla ekki undir þessa skilgreiningu.

[2] Tómas Sæmundsson 1947:57.

[3] Sjá nánar um þetta: Bakhtin 1981:20.

[4] Sbr. Mulvey 1983:22.

[5] Afsakanir af þessu tagi eru oft formúlukenndar og erfitt að meta hvort hugur fylgi máli.  Þær eru algengar í formálum miðaldatexta og eiga rót að rekja til mælskufræði.  Retórískar handbækur mæltu svo fyrir að ræðumaður skyldi í upphafi ræðu sinnar afsaka mál sitt og vinna áheyrandann á sitt band með lítillæti og hæversku.  Sbr.  Sverri Tómas­son 1988:151.

[6] Edwards 1988:7–8.

[7] Halldór Laxness 1968:198.

[8] Tómas Sæmundsson 1947:5 nm.

[9] Það er efni í heila bók.  Sjá t.d.  Adams 1983.

[10] Sbr.  Hume 1984 og Friedman 1975.

[11] Ferðasaga Eiríks og reisubók Hannesar eru prentaðar í heild í nýrri sýnisbók frá átjándu öld sem Mál og menning gaf út nýverið, sjá heimildaskrá.

[12] Sbr.  Batten 1978:24–25.  Hann segir: „But the travel account directed at the general reader, the one in search of something more than assistance in preparing his own travels, always aimed at blending pleasure with in­struction in order to achieve an artistically pleasing experience“ (leturbr.  mín).  Adams (1983:109) drepur einnig á þessa kröfu lesenda: „the need to mix dulce with utile“ (hugtökin utile-dulci eru ættuð frá Hórasi).  Upplýsingarmenn hneigðust til að flétta saman fróðleik og skemmtun til að koma boðskap sínum á framfæri og í ferðasögum fer þetta tvennt ágætlega saman.

[13] Bréf Tómasar Sæmundssonar 1907:151.  Eiríkur Björnsson segir í formála reisubókar sinnar að menn geti lesið hana „sér til nokkurrar nytsamligrar íhugunar og eftirþanka svo vel sem skemmtunar og gagnsamlegs fróðleiks“ (Eiríkur Björnsson 2000:433).

[14] Völundur Óskarsson 1992:xxvi.

[15] Carl M.  Bellman (1740–1795) orti m.a.  gamansöm ljóð um persónur og atburði í Gamla testamentinu.  Talið er víst að Eiríkur Björnsson víðförli sé höfundur þýðingarinnar á 2.  og 3.  erindi 35.  söngs Fredmans um Gamla Nóa.  Þýðingin birtist á prenti í Kaupmannahöfn árið 1787 undir heitinu: „Gamansamr Quedlingr um vorn gamla forfödr Nóa“.  Sigurður Þórarinsson segir Eirík „vissulega hafa fangað nokkuð af þokka kvæð­isins og hefur hann enst erindunum tveim til langlífis, sem vel er.“ Sjá Sigurð Þórarinsson 1983:16.  Kvæð­ið var það fyrsta af ljóðum Bellmans sem snúið var á íslensku.

[16] Eiríkur Björnsson 2000:436.

[17] Eiríkur Björnsson 2000:438-39.

[18] Eiríkur Björnsson 2000:458.

[19] Lbs.  1754 4°, bls.  5.

[20] Árni Magnússon frá Geitastekk 2000:275.

[21] Árni Magnússon frá Geitastekk 2000:334.

[22] Árni Magnússon frá Geitastekk 2000:261. Sjá einnig Láru Magnúsardóttur 1993:21-23.

[23] Árni Magnússon frá Geitastekk  2000:297.

[24] Í ferðasögu Friðriks nokkurs Bollings sem er að finna í handritinu Lbs.  668 4º er skini sólarinnar lýst á svipaðan hátt og hjá Eiríki og Árna: „um middeigið settum vier eirn knÿf á þilfarið riett á Oddinn, so skaptið stod Riett upp og villdum svo reÿna hvört hann giæfi nockurn skúgga af sier enn þ gátum vier ecki sied, …“ (bls.  13).

[25] „Borðfjall“ hefur verið vinsæll ferðamannastaður.  Í áðurnefndri ferðasögu Bollings segir svo um þetta fjall: „Taffel Bergið er moti ovedrattu þakið med skÿum það er skiemtilegt ad skoda þá klart vedur er á kvöldinn og þegar kvölld stjarnann kiemr upp þa er mitt á þessu bergi eÿns og þar standi liós a bordi hvar af þ hefr sitt nafn þvi hún skeÿn þar mikid fagurt“ (Lbs.  668 4º, bls.  16–17).

[26] Sbr.  Adams 1983:68.

[27] Björn Karel Þórólfsson 1945:7.

[28] Í heimildum hef ég ekki rekist á neitt sem bendlar Magnús Ketilsson við Árna.  Magnús nefnir t.d.  ekki í dagbókum sínum – sem hann hélt óslitið í 23 ár og varðveittar eru í Lbs.  573 4º – að Árni frá Geitastekk hafi komið til landsins 1799–1801.  Ætla mætti að það hefði Magnús kannski gert ef þeir Árni hefðu eldað grátt silfur saman frá fornu fari.  Magnús þótti „eftirlits- og refsingasamur um afbrot öll.  Mun hafa þótt kenna breytingar er hann tók við sýslunni, því að fyrirrennari hans, Sigurður Íslandströll, þótti vægur sem yfirvald, bæði í innheimtu og eins við afbrotamenn“ (Þorsteinn Þorsteinsson 1935:145).  Þorsteinn segir ennfremur að Magnús hafi verið „talinn góður dómari og röggsamt yfirvald, en sneiddi hjá óþarfa málum og sætti önnur, þegar slíkt horfði best við“ (1935:146–47).  Um viðskipti þeirra Magnúsar og Árna ritar Þorsteinn: „Eftir því sem Árni Magnússon frá Geitastekk segir í æfisögu sinni, prentaðri í Kaupmannahöfn 1918, þótti honum Magnús sjer erfiður viðskiptis í skiftamálum hans, en vel má vera, að það hafi ekki síður verið Árna sjálfum að kenna, sem þá var orðinn óreglumaður og vissi varla hvað hann vildi“ (1935:147 neðanmáls).  Þorsteinn getur ekki heimilda sinna fyrir þessu.

[29] Björn Karel Þórólfsson 1945:14.

[30] Eiríkur Björnsson 2000:460-61.

[31] Eiríkur Björnsson 2000:449.

[32] Árni Magnússon frá Geitastekk 2000:333-34.

[33] Bókmenntafræðingurinn Todorov kallar slíka frásögn „horizontal plotting“.  Krókótt lífssaga Árna væri þá það sem kallast „vertical plotting“.  Sjá Adams 1983:183.

[34] Sbr.  Pascal 1960:9.

#Árni Magnússon frá Geitastekk #Eiríkur Björnsson #Eiríkur víðförli #ferðasögur #íslenskar ferðasögur #sjóferðasögur #sjálfsævisögur #sjálfsbókmenntir #Árni frá Geitastekk

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s