
Fyrir utan húsið þar sem amerísku stúdentarnir hafa til umráða
Þegar ég stúderaði við Univerzita Karlova í Prag var ég í námskeiði um Kafka. Þar sat ég í tímum með amerískum nemendum og fór drjúgur tími í að ræða forsetaframboðið í heimalandi þeirra sem þá var framundan og sýndist sitt hverjum.
Margir nemendanna höfðu aldrei heyrt Kafka nefndan fyrr og urðu mishrifnir af verkum hans. Prófessorinn gaf einkunn eftir virkni í tímum og margoft réttu nemendur upp hönd og lögðu bara eitthvað til málanna til að ná sér í stig, alltaf með þessari sérkennilegu hrynjandi sem endar á svo lágum nótum að lokaorð setningarinnar deyja út. Þessi ameríski framburður ryður sér æ meir til rúms og þykir mér bæði erfitt að heyra og vont að skilja hann en það segir kannski meira um mig.
Kennsluhúsnæði Kananna var á besta stað í miðbænum í glæsilegu húsi með innréttingum frá 19. öld, sponserað af stórfyrirtækjum og milljónamæringum. Hugvísindadeildin þar sem Tékkar hírðust ásamt evrópskum stúdentum var hinsvegar í úthverfi, í forljótri byggingu frá níunda áratugnum. Síðast þegar ég vissi stóð til að deildin flytti í miðbæinn en það hefur reyndar staðið til sl. 20 ár.
Ég skrifaði m.a. ritgerð í Kafka-námskeiðinu um dýrslega aðstoðarmenn K í Höllinni og hafði gaman af.