2020 Vor – Um saltkorn, hugrekki og hugmyndakerfi

Ávarp skólameistara við brautskráningu í FVA, vorið 2020

Ágætu útskriftarnemar

Þetta hafðist þá allt saman hjá ykkur, þótt kennslan á þessari önn væri öðruvísi en vanalega vegna sóttvarna, þótt kennararnir ykkar sýndu allskonar nýja takta, þótt engin væri dimissionin eða utanlandsferðin og ekkert lokaball – ennþá.

Ykkar verður alltaf minnst sem hópsins sem fór í gegnum kófið – á náttbuxunum – uppi í rúmi á Teams – hópsins sem upplifði mikla óvissu en aðlagaðist breyttum aðstæðum á ótrúlega skömmum tíma, hópsins sem lenti í andstreymi en tókst að gera gott úr hlutunum og ná markmiðum sínum. Vel gert!

Þetta er reynsla sem mun nýtast ykkur í framtíðinni – klárlega. Því lífið er nefnilega svona, það gerist meðan maður er önnum kafinn við að plana eitthvað allt annað.

Nú er smá sögustund, því ég hef svo lítið hitt ykkur á önninni út af ástandinu en þarf að segja ykkur svo margt, meðal annars um hugrekki, hugmyndakerfi og frelsi:

Einu sinni var Indland bresk nýlenda. Bretar settu árið 1882 lög um að Indverjar mættu ekki lengur ná sér í salt á ströndina til að setja í grautinn sinn né vinna það og selja eins og þeir höfðu gert öldum saman. Indverjum var þannig þröngvað til að kaupa saltið af Bretum á uppsprengdu verði.

Salt er ekki bara bragðbætandi, það inniheldur mikilvæg steinefni og er nauðsynjavara í heitu landi til að halda vökvabúskap líkamans í réttu standi. En svona var staðan um árabil, einokun á salti úr Indlandshafi skilaði skrilljónum í breska ríkiskassann. ALlir vöndust þessu, hundóánægðir en hlýddu þó.

Svo þurfti bara einn mann sem þorði að óhlýðnast,

það var Mahatma Gandhi sem árið 1930 sendi breska landstjóranum bréf þar sem hann tilkynnti að þessi lög yrðu brotin eftir 10 daga. Síðan lagði hann upp í hina frægu Saltgöngu, 400 km leið til sjávar, 78 hræður fóru af stað með honum og svo bættust sífellt fleiri við þar til hópurinn, sem taldi orðið þúsundir, birtist á ströndinni eftir 23 daga göngu.

Gandhi gekk hægum skrefum niður að sjónum og tók upp lófafylli af salti sem lá í flæðarmálinu. Óréttlætinu var þar með mótmælt, bresku lögin voru brotin, friðsamlega og án ofbeldis

(friðsamlega og án ofbeldis heitir á indversku: Satí-gra-ha, munið það, er það ekki gott að læra indverskt orð á útskriftardaginn sinn?) Svo lengir lærir sem lifir!

Nú, Gandhi og þúsundir Indverjar voru fangelsaðir  fyrir að brjóta lögin. En það hafði ekkert að segja, hugmyndin um að rísa gegn kúgaranum var fædd og það var engin leið til baka. Indland losnaði síðan undan stjórn Breta og varð sjálfstætt ríki. Af hverju er ég að segja þessa sögu? Jú, til að draga fram að hugrekki til að rísa gegn ríkjandi hugmyndakerfi breytir mannkynssögunni. Það er það sem mig langar að leggja áherslu á við ykkur í dag.

Hugmyndakerfi getur orðið svo útbreitt, almennt og viðurkennt að við tökum ekki eftir því hversu rangt eða óréttlátt það er. TD þann 8. janúar 1455 sendi páfinn, Nikulás fimmti, út formlega og undirritaða tilskipun um að Portúgölum sem þá voru mikil siglingaþjóð, væri heimilt að fanga og kúga alla heiðingja og óvini kristinnar trúar,-  ræna eigum þeirra og hneppa þá í þrældóm. Og brátt sáu margir sér leik á borði út á þetta plagg – að kaupa og selja þræla. Í aldaraðir litu menn síðan svo á að þrælahald væri bara eðlilegt og sjálfsagt, enda skilaði þetta ókeypis vinnuafl – með blessun páfa –  gríðarlegum hagnaði, t.d á búgörðum og bómullarekrum Ameríku.

Fjórum öldum síðar reis einn maður gegn þessu kerfi þótt hann ætti þar engra hagsmuna að gæta heldur hafði einungis þessa hugsjón. Lincoln Bandaríkjaforseti lýsti formlega yfir andúð á þrælahaldi, afnam það síðan með lögum 1862 til að stöðva þetta rugl. Einn maður! Kúgun svartra hélt samt áfram.

En í lok árs 1955 sat kona að nafni Rosa Parks í rútu og neitaði að eftirláta hvítum karli hafa sætið sitt. Hún reis gegn því ríkjandi hugmyndakerfi að svartir ættu að víkja fyrir hvítum og sitja aftast í rútunni. Ein kona.

Þar með upphófst barátta gegn þessari ömurlegu aðskilnaðarstefnu sem ekki sér fyrir endann á og nýlegt dæmi úr fréttum vikunnar sýnir okkur, þegar hvítur lögreglumaður beitti svartan ofbeldi við handtöku sem leiddi til bana.

Af hverju segi ég þessa sögur af Lincoln og Rósu Parks? Jú til að sýna ykkur að það þarf bara eina hugrakka manneskju til að ögra ríkjandi hugmyndakerfi og breyta þar með mannkynssögunni.

Nú ætlast ég kannski ekki til að hvert og eitt ykkar breyti gangi veraldarinnar en ég óska þess að þið séuð hugrökk og að ykkur unga fólkinu fylgi breytingar.

Að þið hafið kjark og þor til að efast, gagnrýna og spyrja spurninga þegar þið komið út í lífið.

Hugmyndakerfin liggja svo víða og standa föstum fótum, með breska heimsveldið eða páfann í Róm á bak við sig, en þegar á reynir þarf ekki mikið til að þau hrynji.

Bara saltkorn og smá réttlætiskennd.

Hugmyndum og skoðunum er endalaust haldið að ykkur alls staðar að. Fjölmiðlarnir sitja td um ykkur til að gera ykkur þrælum, neysluglöðum nútíma þrælum.

Ég bið ykkur, Rýnið þessar hugmyndir og rústið þeim!

Það þarf reyndar ekki að hafa skoðun eða vit á öllu, en opnið á nýjar pælingar og látið hlutina njóta vafans frekar en að gleypa hrátt eða vísa þeim umsvifalaust á bug.

Notið almenna skynsemi, kommon sens! Við hlýðum Víði af því að það er almenn skynsemi, en ekki í blindni eða af því bara.

Ég er ss að tala um viðteknar venjur, tilbúnar skoðanir, tuggur úr fjölmiðlum, hugmyndir um hvernig lífið á að vera, hvaða nám á að stunda, í hvaða röð á að gera hlutina, hvað er fallegt, hvað er hollt og nytsamlegt.

Jafnvel skaðlegar hugmyndir sem draga úr sjálfstrausti og lífsgleði en ýta okkur út í að leita hamingjunnar á kolröngum stöðum

Eitt hugmyndakerfi sem stendur föstum fótum er skólinn eða menntakerfið,

það er mannanna verk, ævafornt hugmyndakerfi sem er meira að segja frekar staðnað.  Ég vona sannarlega að allt þetta sem ég er að tala um nú, séuð þið löngu búin að tileinka ykkur og læra á ykkar löngu skólagöngu eða munið læra í því námi sem þið veljið að stunda. En það er ekki öruggt, því miður…

Möguleikarnir endalausir og það eru breytingar við sjóndeildarhring. Bara á síðustu vikum á þessari önn hafa nám og kennsluhættir á Íslandi breyst á örskotsstundu, nálgun á námsefnið er önnur, námsmat hefur verið hugsað upp á nýtt, – allt er í skapandi endurmati.

Spurt er spurninga, nýjar leiðir farnar, Allt mjög jákvætt og djarft / hugað, og ég trúi að þetta eigi eftir að þróast núna enn frekar  til hins betra.

Kennarar, starfsfólk og nemendur í FVA hafa svo sannarlega sýnt hvers þeir eru megnugir á ögurstundu. Ég er stolt af því og ég er mjög stolt af ykkur! ég hlakka til næstu ára hér á Skaganum því það er margt sem bíður, nýjar lausnir, ný verkefni, nýjar kynslóðir að útskrifast.

AÐ lokum:

þegar þið gengið héðan út með húfuna fínu á kollinum;

Verið nú nógu hugrökk, kæru útskriftarnemar,  til að mynda ykkur eigin skoðanir.

Treystið ykkar eigin innsæi og fylgið hjartanu, þá mun allt fara vel.

Því við viljum öll vera frjáls –  til að leita sannleikans, taka okkar eigin ákvarðanir og mynda okkur eigin skoðun; verum ekki þrælar heldur þroskumst á okkar eigin forsendum,

því – annars – verður engin – þróun hér á jörð.

Til hamingju með daginn!