„Samferðamenn gubbuðu flestir geysilega“

 

Um Ferðarollu Magnúsar Stephensen

Verkefni í greinaskrifum í Hagnýtri menningarmiðlun við HÍ, haustið 2015

Ferðalög til útlanda voru ekki alltaf auðveld eða þægileg fyrr á öldum. Í byrjun nítjándu aldar fór Magnús Stephensen (1762–1833), einn ríkasti og voldugasti embættismaður á Íslandi, sjóleiðina frá Reykjavík til Kaupmannahafnar og lýsti ferðalagi sínu í dagbók sem hann kallaði Ferðarollu. Þar segir m.a. frá hastarlegri sjóveiki, veislumat hjá danska kónginum, frægu portrettmálverki og sárum líkamsraunum.

Magnús Stephensen var margsigldur og fjölmenntaður, bráðgáfaður, stórhuga og kappsamur embættismaður sem hafði um tíma mikil völd og áhrif hér á landi. Hann var samt ekki sérlega vinsæll enda vildi hann jafnan öllu ráða einn. Hann ferðaðist nokkrum sinnum milli Íslands og Kaupmannahafnar í opin­berum erindagjörðum og skrifaði jafnan hjá sér helstu viðburði. Ferðadagbók Magnúsar sem hér er fjallað um hefst 7. september 1825 þegar stigið er á skipsfjöl og lýkur 23. maí 1826 þegar hann leggur af stað heim til Íslands og er þá búinn að fá alveg nóg af ferðalögum.

Magnús var lögfróðastur Íslendinga um sína daga og bar íslenska löggjöf og réttarfar mjög fyrir brjósti. Tilgangur hans með Kaupmannahafnarförinni var að vinna að útgáfu nýrrar lögbókar með skýringum hans sjálfs. Áður hafði hann fengið vilyrði hjá dönskum stjórnvöldum fyrir fjárstyrk til verksins. Hann var því von­góður og vann ötullega við bókina frá morgni til kvölds mánuðum saman þrátt fyrir margvíslegar annir og mótlæti.

Gubbuðu flestir geysilega

Í Ferðarollu lýsir Magnús aðstæðum í skipinu sem var í eigu Bjarna riddara Sívertsen, kaupmanns í Hafnarfirði. Ekki var þægindunum fyrir að fara á leiðinni. Veðrið var vont, kojurnar voru blautar og kaldar og fæðið lélegt. Fljótlega fór sjóveiki að herja á farþegana. Magnús skrifar:
„Þann 8. og 9. september fann ég lítið eitt til sjósóttar og gubbaði einu sinni hvern þann dag, alls frísklega, síðan aldrei. Samferðamenn gubbuðu flestir geysi­lega, einkum stiftamtmaður Hoppe og bústýra hans sífellt.“

Honum verður tíðrætt um matinn um borð sem hann á erfitt með að tyggja og margt bendir til þess að Magnús hafi ekki verið sérlega vel tenntur. Hann segist ekki geta unnið á grófu skonroki, seigu saltkjöti og hörðum fiski sem eru meðal þeirra rétta sem eru í boði um borð ásamt fúlu vatni, vondu smjöri, ertum, seigu fleski og vatnsgrjónagraut. Eitt vínglas drakk hann samt á hverjum degi sér til hressingar og heilsubótar. Eftir mikla hrakninga um saltan sjó segir Magnús að þessi ferð hans hafi verið sú örðug­asta og ógeðfelldasta hingað til. Hún varð líka síðasta utanför hans

Kátt í höllinni

Meirihluti Ferðarollunnar fjallar um dvölina í Kaupmannahöfn. Samkvæmislífið var ólíkt fjörugra þar en á Fróni, Magnús sat endalausar veislur með fyrirfólki í Höfn enda heimsborgari í hugsun og hegðun og kunni vel að meta góðan mat, gott vín og vitrænar samræður. Hann fór t.d. í boð til Friðriks Danakonungs og Kristjáns prins í konungshöllina þar sem hann tók vel eftir öllu og skrifar hjá sér athugasemdir um t.d. ljósakrónur, málverk, borðbúnað og þjóna­fjölda. Ávallt kom hann akandi til veislu í leiguvagni, uppábúinn í „úníformi“ með korða og hatt. Hér er enginn bóndadurgur eða lúpulegur skriffinnur á ferð:

„Skrýddist síðan dýrðlegar en nokkru sinni fyrr í uniform nýju með mjallhvít undirklæði, silkisokka hvíta, hrafnsvarta, spegilglansandi skó, gylltar skó- og knéspennur, nýjan gylltan korða með nýrri gull port d´epée í við hliðina og gullkrampa hattinn. Keyrði svo með þénara aftan á sem ætíð upp að kóngshöll kl. 61/2 eftirmiðdag.“

Magnús stundaði menningarlífið í Höfn með mikilli ánægju. Auk þess að vera viðstaddur fermingu Kristjáns prins var hann í matarboðum hjá prófessorum, sótti messur, sat á bókasöfnum og lét m.a. mála af sér portrett það sem hann síðan er kunnur af. Þar er hann uppábúinn, sposkur á svip með vinalegar broshrukkur í kringum augun og varirnar aðeins aðskildar í glettnislegu brosi. Þetta er 19. aldar portrett þar sem sparihliðin er sýnd; maðurinn sem hann vildi vera.

Sælkeri og menningarviti

Magnús hafði mikla ástríðu fyrir mat og lýsir vandlega krásum sem bornar eru fyrir hann í veislum:

„Trakterað var á fortapaðri skildpöddu, steiktum villidýrahryggi með fernslags syltetöji og dýrðlegri kondítorsköku í pýramíðformi…“ (95).

Hann gaf út fyrstu matreiðslubókina á Íslandi, „Einfaldt Matreiðslu Vasa Qver, fyrir heldri manna Húsfreyjur“ árið 1800. Marta María Stephensen er skráð höfundur þess en það hefur jafnan verið eignað Magnúsi, ekki veit ég af hverju. Hann var líka menningarlega sinnaður og fór m.a. í leikhús og óperu. Ástríða hans fyrir fallegum hlutum sýnir óvænta hlið á hinum samviskusama embættismanni. Hann splæsti á sig t.d. skyrtum og vasaklútum, nærbuxum, grænum skinnhönskum og plástri, vínglösum, sápu og reglustiku auk þess sem hann keypti stásshúsgögn og stofuklukku. Hann hafi nóg fé handa á milli og eyddi hátt á fjórða hundrað ríkisbankadölum meðan á dvöl hans stóð fyrir utan húsaleigu og fæði sem var 50 dalir á mánuði. Varlega má ætla að ferðalagið hafi kostað hann um eina milljón nútímakróna.

Höfuðþyngsli og hægðateppa

Á einkalegum vettvangi eins og ferðadagbók er, komast ýmsar raunir á blað sem annars fengju hvergi að sjást. Áhyggjur Magnúsar af því hvernig útgáfu lögbókarinnar muni reiða af auk langvarandi svefnleysis og vinnuálags brjótast fram í líkamlegri vanlíðan. Hann hafði „höfuðþyngsli og seyðing um allan kropp“ var oft kvefaður og leið illa. Auk þess þjáðist hann af hægðateppu og frost­bólgu á höndunum. Er ekki að efa að þvílíkum fyrirmanni sem Magnús var hafi þótt fyrir því að hendur hans voru útsteyptar í kaunum og hrúðri enda setti hann upp hanska þegar menn sáu til hans. Það fór í taugarnar á honum að hann gat hvorki sinnt sínum aðkallandi verkefnum né farið út á meðal fólks út af þessu. Hann segist vera mjög „óþolinmóður orðinn af þessari kröm. Hennar vegna nú lengi arresteraður inni, frá bægt útferð og fundi stór­menna, á hverju mér þó nú mjög ríður, þar svo áliðið er orðið“. Í lok mars er hann mjög stressaður en verður að fresta heimför því hann er boðinn í fermingu danska prinsins og getur ekki afboðað sig í svo fínt partí. Loks kemst hann af stað og segir í bréfi sem hann ritar þegar heim er komið 10. ágúst 1826 að ferðin hafi verið slysalaus þrátt fyrir storma og kulda en hann sé „Alstaðar sáraumur.“

Erindisleysa?

Ekki eru allar ferðir til fjár. Hin erfiða sjóferð með tilheyrandi fjárútgjöldum, hvimleiðum sjúkdómum og langvarandi streitu skilaði ekki þeim árangri sem vænst var. Svo fór að lögbók Magnúsar var aldrei gefin út og olli það honum sárum vonbrigðum. En þótt ferðin hafi verið erindisleysa var hún ekki til einskis því ferðadagbókin veitir skemmtilega innsýn í daglegt líf, hugsunarhátt, andlegar og og líkamlegar raunir heldri manns á Íslandi í byrjun nítjándu aldar.

Eftir þetta fór að halla verulega undan fæti hjá Magnúsi. Íslendingar kunnu honum litlar þakk­­ir fyrir ævistarf hans í menningar- og atvinnumálum, hann var hataður og m.a.s. uppnefndur enda birtist hann yfirleitt askvaðandi í opinberri stjórnsýslu; frekur, stirður og kuldalegur. En í Ferðarollunni birtist önnur hlið. Þar er sælkerinn, menningarvitinn og mjúki maðurinn Magnús Stephensen – maðurinn á portrettinu.

 

steinunningaott_almgr