Í góðri trú

 

Við Íslendingar trúum á framhaldslíf eins og hryðjuverkamennirnir sem flugu óhikað á tvíburaturnana í New York í góðri trú um að þeirra biði ríkuleg umbun á öðru og betra tilverustigi. Trú okkar á líf fyrir handan á eflaust rætur að rekja til heiðinna hugmynda um villt Valhallarlíf eftir frækilega frammistöðu á vígvellinum og kenninga kristninnar um eilífa himnaríkissælu; auk þeirrar staðföstu vissu að við séum svo einstök að það sé óhugsandi að lífi okkar ljúki við líkamsdauðann.

 

Hvergi kemur trúin á framhaldslíf skýrar fram en í minningargreinum Morgunblaðsins. Þær eiga sér langa sögu og ríka hefð. Fyrst skrifuðu aðeins merkir menn  greinar um aðra merka menn þar sem tíunduð voru helstu störf í þágu samfélagsins og framlag þeirra þakkað.  Fyrr en varði voru minningargreinar einnig skrifaðar um Pétur og Pál, „ómerkilegur“ æviferill rakinn; hárnákvæmt skipulagið í bílskúrnum hjá frænda sem bar viðbrugðinni trúmennsku hans fagurt vitni tíundað, pönnukökurnar góðu sem amma bakaði í stórum stöflum lofsamaðar; og undirskriftin bara Jón og Gunna. Fyrir um áratug var sú hefð ríkjandi að nánustu ástvinir skrifuðu ekki minningargreinar og að hinn látni væri ekki ávarpaður. Þetta hefur hvorttveggja breyst, fjölmörg dæmi eru um að eftirlifandi maki skrifi um sáran söknuð og jafnvel innstu einkamál og beini orðum sínum til hins látna. Tilgangur minningargreinanna er ekki lengur sá að minnast þjóðþekktra einstaklinga sem sköruðu fram úr og reisa þeim viðeigandi bautastein, heldur sá að hugga aðstandendur og senda hinstu kveðju – bæði til hins framliðna og þeirra sem hann mun hitta fyrir hinumegin.

 

Mennirnir elska, missa, gráta og sakna, sagði skáldið góða Jóhann Sigurjónsson. Í góðri trú leita sumir á náðir miðla. Á Bylgjunni starfar einn slíkur og hann tekur á móti símtölum hvaðanæva af landinu og annar varla eftirspurn. Það skrýtna er að yfirleitt vitrast miðli þessum vinalegar ömmur eða menn með einhver tengsl við sveit eða sjávarsíðu (það fer eftir undirtektum og viðbrögðum þess sem hringir) og skilaboðin eru oftast þau að þeim gengnu líði vel, fylgist með lífi og starfi eftirlifenda og hvetji þá til dáða. Oft hittir miðillinn ótrúlega vel á, stundum geigar getspekin verulega en aldrei nær hann sambandi við neinn í neðra. Eftir situr hlustandinn jafnlitlu nær og áður um lífið eftir dauðann.

 

Þrátt fyrir trúna um eilíft líf haga flestir jarðlífinu eins og það sé hagstætt tilboð sem stendur aðeins núna. Við íhugum fæst hvernig staðan er í bókhaldinu á himnum, hugsum mest um efnið en minnst um andann og hirðum hvorki um boðorðin né förum að dæmi Jesú um kyrtlaeign eða vangaframboð. Við mengum jörðina, sóum og spillum, og veltumst í leti og sjálfsánægju. Samt lítum við svo á að okkar bíði líf eftir dauðann; fallegri og betri tilvera; alveg burtséð frá hegðun okkar í jarðlífinu. Við leitum í góðri trú að staðfestingu á framhaldslífi en kannski er sú leit aðeins flótti frá óþægilegum grun. Getum við í alvöru ímyndað okkur að hinumegin sitji heilagir við sama borð og hryðjuverkamenn, hlusti á útvarpið og lesi minningargreinar?

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 22. október 2001

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s