Gluggagægjur í Soho  

Í Morgunblaðinu birtist eftirfarandi smáfrétt um daginn:  „Gluggalist. Óvenjuleg listsýning er nú haldin í glugga Blink gallerísins í Soho í Lundúnum. Innan við gluggann hefur verið komið fyrir hjónarúmi í rauðbleiku umhverfi, á vegg er smokkasjálfsali og í rúminu liggja Max Whatley og Meg Zakreta. Þar munu þau dvelja í viku og borða, sofa og njóta ásta. Listaverkið, sem er eftir Liam Yaetes, er hluti af sýningu sem nefnist Engar hindranir. Á myndinni sjást skötuhjúin í rúmi sínu í sýningarglugganum.“

Þessi frétt er merkileg fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi er talað um að hér sé óvenjuleg listsýning á ferð. Sú er ekki raunin því hugmyndin að verkinu er ekki einu sinni frumleg. Listamenn hafa áður stillt sér upp í afmörkuðu rými / rúmi og nægir að nefna Lennonhjónin í því sambandi. Þau höfðu yfirlýstan og stjórnmálalegan tilgang með rúmlegu sinni forðum og var litið á gjörninginn sem framlag í þágu heimsfriðar og er enn í minnum haft. Annað sem vekur athygli í fréttinni er sviðsetningin, hið „rauðbleika umhverfi“ og smokkasjálfsalinn í herberginu. Ýmsar spurningar vakna: Af hverju er parið ekki í eldhúsinu, vinnunni, við barnauppeldi  eða félagsstörf? Er það vonin um að sjá parið í ástarleik sem dregur að sér sýningargesti? Er meiningin að svala gægjufýsninni? Er verið að veita aðgang að kynlífi undir merkjum fagurfræði og listar? Loks er það eftirtektarvert að parið er nafngreint kirfilega – ætli einhver þekki þau Max og Meg sem kúra í glugga í Soho? En aðalbrandarinn er sá að „verkið“ skuli vera hluti af sýningunni Engar hindranir um leið og sýningargripirnir lifa einhvers konar sýndarlífi, ósnertanlegir, á bak við gler.

Sýningin í Soho minnir á veruleikasjónvarp þar sem hægt er að fylgjast með daglegum athöfnum þekktra sem óþekktra einstaklinga. Allir vilja fylgjast með Ann Nicole Smith bursta í sér tennurnar og grípa í bók fyrir svefninn, allir vilja sjá hvernig venjulegum pörum reiðir af á Freistingaeyju þar sem bolabrögðum er beitt til að leysa upp ástarsambönd þátttakenda og farið með þá út á ystu nöf tilfinninganna. Í Soho er hægt að horfa á parið „live“ í einhvers konar sýndarveruleika. Sýningarglugginn er í engu frábrugðinn tölvuskjánum. Allt er svo raunverulegt að það rennur saman; sýnd og reynd; list og veruleiki. Í umræddri gluggalist felst  það sama og í list aldanna yfirleitt; að leggja fram einhverskonar endurspeglun á raunveruleikanum sem allir vita að er fals en gangast samt inn á vegna hinnar listrænu upplifunar. En það sem maður saknar í Soho er dulúðin, tvíræðnin, túlkunin og fegurðin í listinni.

Á meðan Bretarnir öðlast augnabliksfrægð fyrir tiltæki sitt í Blinkgalleríinu óttast Danir að þúsunda eiginhandarrita H.C. Andersen bíði þau örlög að verða að dufti, eins og segir í annarri smáfrétt í Fréttablaðinu. Skáldið góða notaði ódýrt blek sem étur upp pappírinn og handrit meistarans morkna æ meir á degi hverjum. Það er forgangsverkefni hjá danska ríkinu að bjarga handritunum og er  nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins að störfum til finna út hvernig forða megi orðum meistarans á 8000 blaðsíðum frá glötun. En þótt síðurnar sáldrist í vindinn lifir list H.C. Anderens í sjálfsmynd þjóðar og menningarsögunni allri um aldir meðan gínurnar í Soho er gleymdar um leið og gengið er hjá glugganum.

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 26 .september 2002

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s