Klúrar kýr

 

Hljómsveitin The Prodigy, sem eitt sinn heiðraði íslenska aðdáendur með nærveru sinni, er fræg fyrir að fara sínar eigin leiðir í tónlist og myndbandsgerð. Langeygir aðdáendur sveitarinnar glöddust um daginn þegar hún gaf loksins út nýtt lag eftir langa þögn. Lagið heitir „Baby´s got a Temper“ og myndbandið er afar óvenjulegt og ögrandi eins og Prodigy er von og vísa.

 

Í myndbandinu koma hljómsveitarmeðlimir akandi, klæddir borgaralegum fötum, sköllóttir og kallalegir. Þeir koma að stóru plani, fara inn í hrörlegt hús og setjast fyrir framan spegla í búningsherbergi. Annars staðar í húsinu er fjós og þar sitja ljóshærðar, föngulegar og berbrjósta stúlkur á mjaltastólum og mjólka þrýstin júgur kúnna í litlar flöskur. Feit, illgjörn kona gengur um með staf og lemur stúlkurnar áfram ef henni finnst þær slá slöku við mjaltirnar. Konan safnar flöskunum saman í trog sem hún fer með í sölulúgu, lýðurinn grípur flöskurnar og svolgrar mjólkina. Hljómsveitarmeðlimir umbreytast fyrir framan speglana, skipta um föt, setja upp hárkollur og mála sig í kringum augun. Þeir storma fram á sviðið og upphefja söng og hljóðfæraslátt, rytjulegir rafpönkarar af guðs náð. Nokkrar kúnna slíta sig lausar af básunum, flykkjast í áhorfendastæðin og æða trylltar fram og aftur. Stúlkurnar halda áfram að mjólka bleika spenana í nærmynd undir dynjandi tónlistinni, mjólkin spýtist út fyrir flöskurnar, upp í munninn á þeim og á ber brjóstin. Fólkið verður æ æstari í mjólkina, stúlkurnar hafa varla undan og hvítar, krampakenndar mjólkurgusurnar standa í sífellu fram út þrútnum spenunum. Brátt er mjólkin á þrotum og lagið á enda, hljómsveitin afklæðist gervinu, strunsar framhjá óðum lýðnum og ekur á brott. Eftir standa nokkrir þambarar á ruslaralegu planinu og strjúka af sér mjólkurskeggið.

 

Það sem helst hefur vakið umtal í myndbandinu eru kynferðislegar tilvísanir sem varla fara á milli mála. Eitt myndbanda Prodigy þótti á sínum tíma svo gróft að bannað var að sýna það á bresku sjónvarps- og tónlistarrásinni MTV. Hér á landi er nýja myndbandið „Baby´s got a Temper“ sýnt í PoppTíví frá morgni til kvölds, á barnatíma jafnt sem fréttatíma, auðvitað ásamt fleiri „klúrum“  tónlistarmyndböndum. Skyldi koma að því einn góðan veðurdag að tónlistarmyndbönd verði flokkuð eftir innihaldi, líkt og í MTV, svo viðkvæmar sálir og börn geti forðast ofbeldisfull og klámfengin myndbönd? Það er löngu orðið tímabært.

 

En er myndband Prodigy bara enn ein birtingarmynd hins frjálsa kláms á fjölmiðlaöld? Á Radíó X var á dögunum skemmtileg umræða um áðurgreint myndband og túlkun þess. Umbreyting hljómsveitarmeðlima táknar eilíft streð listamannanna við að uppfylla útlits- og ímyndarkröfur markaðarins. Kýrnar eru tónlistin sem mjólkuð er endalaust til að anna græðgislegri eftirspurn. Með mjaltastúlkunum brjóstgóðu er verið að hæðast að hamslausri nektar- og líkamsdýrkuninni í tónlistargeiranum. Þegar öll kurl koma til grafar gerir myndband Prodigy botnlaust grín öllum klisjunum, listamönnunum, aðdáendunum / áhorfendunum og tónlistariðnaðinum í heild. Því er sjaldnast svo farið að tónlistarmyndbönd séu svo djúp og vitsmunaleg og gleðiefni þegar það gerist. Það þarf Undrabarnið til.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 11. október 2002

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s