Dauðinn endursýndur

 

Heimsbyggðin hefur fylgst grannt með fréttum af skyndilegu fráfalli kamerúnska knattspyrnumannsins Marc-Viviens Foe. Þúsundir manna í áhorfendastúkunum urðu vitni að hinum voveiflega atburði þegar Foe hné skyndilega niður í hörkuspennandi landsleik Kamerúns og Kólumbíu (sýnt á risaskjá á leikvanginum) og milljónir manna horfðu á það í nærmynd í beinni útsendingu heima í stofu. Enginn áttaði sig á alvöru málsins í fyrstu. En kvikmyndatökuvélarnar súmmuðu strax á hinn fallna þar sem hann lá á vellinum, það hvítmataði í augu hans þegar lífið fjaraði út. Dauða hans var sjónvarpað um heim allan, og síðan var hann sýndur aftur; hægt, hægt. Aðstoðarmenn komu hlaupandi, lögðu hann á börur og báru á brott. Blaðaljósmyndarar náðu myndum af honum á (lík)börunum og ein þeirra var á baksíðu DV næsta dag undir fyrirsögninni „Harmleikur“. Á myndinni, sem þekur rúma hálfsíðu, liggur líflaus líkami Foes, í Puma-bol, augun eru hálfopin enda ekki búið að veita honum nábjargirnar og máttlaus handleggur hans dregst eftir gervigrasinu.

 

Vitaskuld er Foe félögum sínum og fjölskyldu harmdauði. En er rétt að tala um  „Harmleik“ í þessu samhengi? Fyrirsögnin er skemmtilega tvíræð hvort sem það var nú ætlunin eður ei; leikur snerist upp í harm. En er það harmleikur þegar maður einn fær hjartaáfall út í hinum stóra heimi? Hvað eigum við þá að kalla það þegar tugir farast í snjóflóði? Fjölmiðlarnir japla á tungumálinu, sjúga úr því safa og lit og spýta því út úr sér, gráu og bragðlausu, eins og gamalli tyggjóslummu. Kannski felst harmleikurinn í því að við skulum hafa horft með nokkru fálæti á andlát Foes í óumbeðnu raunveruleikasjónvarpi. Hvenær fara fjölmiðlar yfir strikið í æsifréttaflutningi? Hvenær segjum við hingað og ekki lengra? Þarf að sýna dauðateygjurnar í sjónvarpinu til að við trúum því sem í rauninni gerðist? Horfum við e.t.v. á með sömu óttablöndnu forvitninni og múgurinn sem forðum mætti á opinberar aftökur?

 

Dauðinn býr yfir dularfullu seiðmagni; á degi hverjum deyr fréttnæmur fjöldi manna í stríðsátökum um heim allan, morð eru framin, slys ber að höndum og náttúruhamfarir dynja yfir; og allt er þetta fréttamatur. En dauðinn er fjarlægur nema í fjölmiðlum, nútímasamfélag er dauð-hreinsað; allt sem viðkemur dauðanum sjálfum er tabú, falið og dulbúið, lokað af  á stofnunum. Hvers á Foe þá að gjalda? Hví litu tökuvélarnar ekki af honum í dauðanum? Er engin virðing borin fyrir manni ef gott skúbb er annars vegar?

 

Dauði Foes er fjölmiðladauði. Fyrir mér var Foe ekki til fyrr en hann dó. Fjölmiðlarnir velta sér upp úr atburðinum eins og svín í keldu og neytendurnir svelgja hann í sig af undarlegri fíkn. Birst hafa greinar um líðan félaga hans i liðinu, þar segir að þeir hafi tárast og minnst hans með mínútu þögn. Kevin Keegan er niðurbrotinn, forseti alþjóðaknattspyrnusambandsins einnig. Fyrsta markið í næsta leik liðsins var Foe til heiðurs. Og málinu er ekki lokið. Þegar þetta er ritað vitum við ekki dánarorsökina alveg fyrir víst og útförin á eftir að fara fram með tilheyrandi fjölmiðlafári. Og við sem aldrei höfum séð fólk deyja í alvöru sjáum það að minnsta kosti í sjónvarpinu – í alvöru – aftur og aftur.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 4. júlí 2003

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s