Skilaboð að handan

Með raflýsingu sveitanna upp úr miðri síðustu öld var flestum draugum úthýst og stökkt á brott. Sumum tókst að dyljast í skúmaskotum og hrella landsmenn áfram  með dularfullum hljóðum um miðjar nætur, skrölti og hringli, og mæla fleygar setningar í myrkrinu sem urðu efni í sögur og ljóð. Aðrir eru endanlega komnir yfir móðuna  miklu og eina jarðsamband þeirra er í gegnum Lífsaugað, fyrrverandi útvarpsþátt en núverandi sjónvarpsefni á Stöð tvö.

Lífsaugað hóf göngu sína í sjónvarpi sl. miðvikudag. Hafði þáttarins verið beðið með nokkurri óþreyju enda búið að byggja upp mikla auglýsingaspennu fyrir frumsýningarkvöldið. Þetta var ekki bein útsending eins og ég hafði vænst, heldur mjög mikið unninn og klipptur þáttur sem samanstóð af skyggnilýsingu og viðtölum að henni lokinni ásamt auglýsingum. Í upphafi birtist miðillinn, hinn frægi Þórhallur Guðmundsson, og lýsti uppbyggingu þáttarins. Sagðist hann vona að áhorfendur hefðu gaman af tiltækinu enda þátturinn kynntur og efnisflokkaður sem skemmtun hjá Stöð 2. Tilgangur þáttarins var sá, að sögn miðilsins, að sanna að líf sé eftir þetta líf. Hófst nú sýningin; miðillinn stóð á upphækkuðum palli, átthyrndum og blálýstum. Áhorfendur sátu hringinn í kringum hann og á bak við þá voru bláleitir veggir með dularfullum ljósbrigðum. Skyggnilýsingin hófst  og fljótlega komst miðillinn í samband við ömmu og afa sem voru bæði farin á hinar eilífu veiðilendur. Gömlu hjónin höfðu nokkrar áhyggjur af einum gesti í salnum, myndarlegri konu á besta aldri, og vildu að ráðagerðum varðandi sumarbústað í Borgarfirði yrði frestað um hríð. Einnig vildu þau að konan reyndi að hugsa aðeins minna um aðra og meira um sjálfa sig. Þá kom Nonni í gegn, miðillinn flutti þau skilaboð að hann væri sáttur og liði vel. Þriðji og síðasti gesturinn að handan var Anna, lágvaxin, gömul kona með fallegt hár. Skilaboð hennar voru þau að eitthvað ætti eftir að ganga vel, viðkomandi ætti að hlusta á rödd hjartans, slaka á, gæta að mataræðinu og ekki narta milli mála heldur fara frekar út að ganga. Gestir í sal tóku þessum jarðbundnu og hverdagslegu skilaboðum fagnandi og í viðtölunum á eftir voru orð miðilsins túlkuð betur og tengd við raunverulega atburði og jafnvel ljósmyndir. Ekki náðu fleiri sambandi umrætt kvöld og hafa eflaust margir farið vonsviknir heim úr sjónvarpssal.

Í samtíma þar sem efnishyggja og trúleysi eru ráðandi grípur fólk oft ýmis hálmstrá. Vísindin afgreiða dauðann sem endanlegan en trúarbrögðin reyna að sefa óttann við dauðann með von um framhaldslíf og endurfæðingu, og raddir að handan sanna þann góða boðskap. Á útvarpsstöðinni Bylgjunni hljómaði djúp, hlý og dularfull rödd Þórhalls eins og véfrétt og honum tókst að vefja viðmælendum um fingur sér. Í sjónvarpinu er hann langt frá því að vera aðlaðandi, hvað þá sannfærandi. Þáttagerðin sjálf bætti ekki úr skák enda hálfgerð hrákasmíð; grafíkin, settið, klippingarnar, kynningarstefið, lógóið, tónlistin; allt var þetta ótrúlega púkalegt. Í lokin sátu Þórhallur og Guðrún Möller á átthyrndu og upplýstu gólfinu með bláa skjámynd í baksýn og ræddu hvað þessi fyrsti þáttur hefði verið magnaður og salurinn frábær. Þórhallur endaði þáttinn á fleygum orðum myrkfælnasta Íslendingsins frá því Grettir glímdi við drauginn Glám: Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Mér er  hins vegar alveg stórlega til efs að þarna hafi nokkrar ­„sálir“ verið viðstaddar og sennilega hefur verið hlegið að þessu brölti okkar í handanheimum.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 3. október 2003

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s