Rúnturinn endalausi

Photo by: Brynjar Ágústsson Photography - (www.panorama.is)

Hve glöð er vor æska

Vetrarfagnaður Átthagafélags Þórshafnar, 2008

Kæru félagar, gott kvöld og gleðilega hátíð

Við eigum það öll sameiginlegt sem hér erum í sparifötunum í kvöld, að hafa einhverja tengingu við Þórshöfn city og deilum gömlum og nýjum minningum þaðan. Foreldrar mínir, Óttar og Lilla, voru ung og ástfangin á Þórshöfn á sjöunda áratug síðustu aldar. Og þegar ég var unglingstötur á Akureyri 1978 var ég send í betrun til Þórshafnar, til Unnar og Bóa þar sem var dásamlegt að vera. Þá hófst ferill minn í frystihúsinu þar sem ég þrælaði nokkur sumur. Eða þrælaði er kannski ekki rétta orðið, ég var svo óheyrilega löt að snyrta þorskflökin að það endaði með því að ég var sett í eftirlitið. Þar var ekkert hægt að gaufa, ég varð að vinna eins hratt og bónuskellingarnar sem drógu ekki af sér. Það sem þær voru snöggar, Anna Jenný, Júlla, Hrönn Massa og þessar hörkukellingar, þær börðu í borðið með hnífskaftinu ef Einar Sjóli var ekki nógu snöggur að færa þeim meiri fisk. Og Odda Matt, var alveg hneyksluð á okkur stelpunum sem nenntum helst ekkert að vinna. Í dagbókinni minni frá 1982 (sem keypt er í Jónsabúð og Haki er með auglýsingu á forsíðu) hef ég skrifað þann 13. júlí 1982: „Það er rosalega gaman í vinnunni, nema þegar Odda er að skammast. Ég labbaði yfir á bandið til Ingu Stjána í dag og við fórum eitthvað að kjafta. Elfa kom líka og var að segja einhverjar hvömmungasögur. Þá sagði Odda: „Sjá hvernig hún Steinunn liggur fram á lappir sínar alla daga“. – Oh Hún sér mig aldrei í friði…“

Það var mikið að gera í frystinu í þá daga og alltaf fjör í kaffi-og matartímum þar til verkstjórinn, Einar Víglunds, kom og kallaði á okkur: Inn stelpur! Ég man ma. eftir Valborgu, Ólöfu Sigga og Evu Stjána sem verkstjórum í sal, ægilega röggsamar og skipuð fyrir á báðar hendur. Það var unnið alla virka daga til sjö og á laugardögum og útborgað feitt, það fór nú mestmegnis í brens og balldress, plötur og spólur (en það var mikið tekið upp og spilað á rúntinum. Kristín Óla framleiddi spólur eftir pöntun). Í frystinu voru snillingar eins og Lelli sem orti vísur í takt við roðflettivélina, Hermann með salem-rettuna í munnvikinu, Jóna Dadda og Nanna Ara að pakka blokkinni, og Snorri Bergs sem lyfti saltpokum einsog þeir væru fis.

Við unglingarnir héngum í sjoppunni á kvöldin, með herðapúða og sítt að aftan, það var ekki búið að finna upp internetið eða skypið, mæspeisið eða msnið eða neitt, það var ekkert sjónvarp á fimmtudögum og því var ekkert annað að gera en að spila, reykja og rúnta. Á Þórshöfn var rúntað, endalaust, mjólkurstöðin og hraðfrystistöðin og ristahliðið, lullað með græjurnar í botni. Það var diskó og það var pönk, og er nú undarlegt að bæði tískan þá og þessi tónlist sem ómaði í kagganum hjá Fúsa Skúla, Þorsteini Dillu, Frikka Bubba, Aðalbirni og Ívari er nú safngripur á Þjóðminjasafninu.

Eftir að ég eltist varð félagslíf mitt á Þórshöfn siðmenntaðra, ekki bara ball með Start og Pass og Sumargleðinni allar helgar, heldur vaknaði áhugi á td leikfélaginu sem starfaðiá fullu, það voru söngæfingar í kirkjukórnum, það var æft blak í félagsheimilinu, bæjarblaðið Þorparinn kom út, saumaklúbbar störfuðu á fullu, ég var í klúbbi sem hét Ölklúbburinn Eitt spor og við hittumst yfir majónesi og marens í hverri viku og héldum veglegar árshátíðir með veislumat, skemmtiatriðum, frumsömdum textum m og leiknum sketsum. Og allir uppábúnir, – sem minnir mig á dagbókina – í janúar 1983 segir: „drífa hringdi. bað mig að kaupa fyrir sig dress fyrir þorrablótið, helst svart í extra small“.

Já, fókið var duglegt að hafa ofan fyrir sér í fásinninu, það voru haldin matarboð og mikið horft á vídeó á Þórshöfn (hægt aðleigja bæði spólur og tæki hjá Guðmundi Hólm og Boggu og Ævari (vhs eða beta)): Ég skrifa í dagbók 24. feb. 1986 „Ég var boðin í mat og vídeó til Soffíu. Bjór með matnum, kaffi og koníak eftir matinn og romm og kók með vídeóinu“.

Svo var eitt sem ég sakna mikið, það eru heimsóknirnar. Það var aldrei læst og alltaf gestir velkomnir, mikið farið á milli húsa, strax farið að hella uppá og setjast við eldhúsborð og spjalla, hvað er að frétta, hverjir eru á sjó og hverjar eru óléttar. Ég hef skrifað 13 ágúst 1987:

„þessar eru óléttar eða eiga barn á árinu: Hanna í Tunguseli, Stebba á Hallgilsstöðum, Ragna Hólmgeirs, Erla fóstra, Edda Egils, Rósa Danna, Solla Magga Seljan, Soffía, Hella, Rósbjörg, Ásta, Alla Danna og ég“.

Það var alltaf farið vandlega yfir öll svona mál. Þetta voru aldrei langar heimsóknir eða formlegar, meira svona að droppa inn, afslappað og þægilegt, engin fyrirhöfn. Hér í höfuðborginni kemur varla nokkur maður í svona heimsókn, allavega ekki til mín.

Það var talað um náungann mikið og gert grín, oftast alveg meinlaust, ég hef skrifað 20. febrúar 1986: „Ég var veðurteppt á Akureyri í tvo daga en á endanum fékk ég far með Sæma Einars, en hann var að kaupa bíl fyrir Einar Lár, Renault 1975. Einar hefur endurnýjað reglulega ökuleyfi sitt og núna keyrir hann eins og greifi útum allt og Hilla Guðmundar segist aldrei missa af því þegar hann keyrir kallana úr verksmiðjunni í Jórvík. Fyrsta daginn á nýja bílnum urðu þeir að henda sér út á ferð segir Hilla…“

Þegar ég er spurð hvaðan ég sé vefst mér tunga um tönn. Er ég frá Akureyri eða Þórshöfn, eða kannski bara úr Kópavoginum? Ég er allavega stolt af því að eiga rætur og tengingu við Þórshöfn á Langanesi, þann fallega stað! Þar eignaðist ég vini fyrir lífstíð, kynntist frændfólki minu sem allt eru snillingar og höfðingjar, þar fékk ég alls konar tækifæri sem ég er þakklát fyrir. Að hafa notið þess t.d. að vinna við undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar sumar eftir sumar er ómetanlegt, þetta fara unglingar nútímans á mis við nú eins og sést á þeim greyjunum. Það að borða nýbakaðar bollur hjá Hauki og Vilborgu, fá sér einn kaldan með Huldu gömlu, læra að búa til hrásalat hjá Dóru í KL-inu, moka skurð með hreppurunum), leysa krossgátur með Unni, rífast um skóla- og uppeldismál við Pálma Óla, steikja franskar í sjoppunni, klippa rolluhausa hjá Reyni í Flögu í sláturhúsinu, allt er þetta dýrmæt reynsla og þekking, minningar sem maður varðveitir í hjarta sínu til æviloka.

Víst eru erfiðir tímar en við skulum ekki væla endalaust yfir því. Við erum Langnesingar! Við erum svo heppin að hafa alist upp við sveitamennsku, kaupfélagsrekstur, útgerð, garg sjófugla og slorlykt, – í litlu samfélagi þar sem allir standa saman þegar á þarf að halda (þótt þess á milli sé hver höndin upp á móti annarri…!).

Og þessi skemmtun hér í kvöld, sautjánda Þórshafnarmótið sem haldið er með pompi og prakt er auðvitað alveg frábær samkoma . Hún sýnir samstöðu okkar , stoltið af upprunanum leynir sér ekki og ljómar úr hverju andliti. Megi Þórshöfn og nærsveitir vaxa og dafna og verða áfram uppgangspláss þar sem rúnturinn endar aldrei. Lengi lifi Langnesbyggð!