Uppreisn og útlegð

Um viðtökur skáldverka og bókmenntalega stöðu Oddnýjar Guðmundsdóttur frá Hóli á Langanesi

Oddný Guðmundsdóttir, 1983. Ljósm. Leifur Rögnvaldsson

Grein birt í Andvara, 2020

Í byrjun janúar 1985 situr öldruð skáldkona við ritstörf í risíbúð sinni í sjávarþorpi á Melrakkasléttu. Á tréborði alsettu málningarslettum stendur fornfáleg ritvél, bókahillur úr eplakössum skipta vistarverunni í svefnrými og eldunaraðstöðu og nokkrir pappakassar hafa staflast upp, fullir af bréfum, blaðaúrklippum og óseldum bókum skáldkonunnar. Hún á að baki fjörutíu ára rithöfundarferil og er enn að. Fyrir rúmum mánuði fór hún á pósthúsið á Raufarhöfn með böggul til Háskólabókasafnsins í Reykjavík sem innihélt nýjustu bók hennar. Hún dregur fasthamrað blað úr ritvélinni, teygir úr sér og réttir úr bakinu. Hana langar í heitt kaffi og spjall og veit hvar hún getur fengið hvort tveggja. Hjá Líneyju skólastjóra, vinkonu sinni sem býr hinum megin í þorpinu. Hún dregur fram gönguskóna, á þeim hefur hún þrammað um allt Ísland. Þeir eru stórir og slitnir, hún þyrfti að láta sóla þá. Hún snarar sér í gömlu úlpuna sína, vefur gráleitu sjali marga hringi um mittið og setur á sig hnausþykka húfu og tvíbandsvettlinga sem hún prjónaði sjálf. Í dyrunum horfir hún eldsnöggt yfir fábrotna íbúðina. Hvít vetrarsólin skín á saltstorkna gluggaboru, vandlega umbúið rúmið og reiðhjólið sem hallast upp að vegg. Hún hefur farið flesta fjallvegi landsins á þessu hjóli sem hún kallar Skjónu. Það besta sem hún veit er að hjóla, hitta fólkið í landinu og njóta náttúrufegurðar fjarri öllum skarkala. Og hún hjólar enn á sumrin þótt ekki sé hún unglamb lengur. Fer sínar eigin leiðir, frjáls og sjálfstæð kona. Þegar út er komið er veður stillt, það er andkalt og hún herðir gönguna. Frost og klaki yfir öllu. Líka gangstéttarómyndinni sem er glerhál. Hún heyrir í bíl um leið og hún heyrir hundgána, henni er illa við bíla og enn verr við hunda sem koma askvaðandi með trylltu gelti eins og til standi að láta til sín taka en sjaldnast fylgir nokkur alvara og æsingurinn fjarar síðan út. Sjálf er hún hreinskilin og beinskeytt baráttukona, enginn þarf að velkjast í vafa um hvað henni finnst um menn og málefni og hún hvikar hvergi í hugsjónum sínum. Hundurinn nálgast gjammandi, hún stígur í fáti út á götuna en bíllinn er nær en hún hélt. Bílstjórinn snarhemlar, bíllinn skrikar og rennur stjórnlaust í hálkunni og rekst harkalega á mjóan og brothættan líkama skáldkonunnar sem kastast til við höggið. Hún liggur meðvitundarlaus og helsærð á götunni. Nokkrum klukkustundum síðar andast hún á heilsugæslustöðinni í plássinu. Líney hélt í hönd hennar. Skáldkonan skelegga, Oddný frá Hóli á Langanesi, er öll.

– – –

Oddný G. Guðmundsdóttir (1908-1985) skrifaði fimm skáldsögur á árunum 1943-1983 og samdi auk þess leikrit og smásögur, orti kvæði, skrifaði ferðasögur og fékkst við þýðingar. Landskunn var hún fyrir pistla í fjölmiðlum um móðurmál og menningu. En furðu lítið fer þó fyrir henni í íslenskri bókmenntasögu. Vitað er að Silja Aðalsteinsdóttir fjallaði um verk skáldkonunnar á bókmenntakynningu í Reykjavík 6. maí 1979 þegar Oddný var rúmlega sjötug.[1] Dagný Kristjánsdóttir varð svo fyrst til að fjalla um Oddnýju sem verðugan höfund sem ekki hafi notið sannmælis, áratug eftir andlát hennar.

Skáldverk Oddnýjar féllu undir skilgreiningu á kerlingabókum sem svo voru nefndar á sjöunda áratug síðustu aldar af menntuðum körlum sem stjórnuðu bókmenntaumræðunni. En voru verk hennar síðri en annarra skálda? Fengu þau harða dóma? Hvernig var bókum Oddnýjar tekið á 40 ára ferli hennar sem rithöfundar og eru skýringar á því að hún er óverðskuldað öllum gleymd?

Kerlingabækur

Í frægri grein Helgu Kress „Um bækur og „kellingabækur““ frá 1978 er rakin saga þöggunar íslenskra kvenrithöfunda. Á sjötta og sjöunda áratugnum??? var ríkjandi sú skoðun í menningarumræðu á Íslandi að þær bókmenntir sem ekki byltu forminu væru íhaldssamar og gamaldags og ættu ekkert erindi við nýja kynslóð. Fjölmiðlar endurspegluðu þetta viðhorf margvíslega, með dómhörku, skensi eða útilokun rithöfunda sem þóttu úreltir. Skáldverk íslenskra alþýðukvenna lágu vel við höggi. Ályktað var sem svo í stuttri blaðagrein að framtíð íslenskra bókmennta væri í höndum 8-10 vart sendibréfsfærra kerlinga.[2] Í grein Helgu Kress eru tekin söguleg dæmi um fyrirlitningu í garð bókmennta eftir konur og þeirri spurningu m.a. velt upp hversu marga kerlingabókanafngiftin hefði mögulega fælt frá ritstörfum.[3] Það er  pæling úr grein eftir Oddnýju sem birtist í Þjóðviljanum 1972 og endurspeglar bitra reynslu: „Margur hefur samið doktorsritgerð um ómerkilegra efni en það, hvaða áhrif ritdómar hafi haft á skáld okkar.“[4]

Oddný frá Hóli er dæmigerð kerling sem skrifaði bækur í samfélagi þar sem gildismat karla var ráðandi á bókmenntasviðinu og verk kvenna hunsuð og hædd. Oddný fór ekki varhluta af neikvæðri umfjöllun „matsmanna“ eins og hún nefndi bókmenntagagnrýnendur, en hún var líka sjálf beittur bókmennta- og samfélagsrýnir sem lét til sín taka í fjölmiðlum. Hún fékk að heyra að eitthvað vantaði upp á skáldverk hennar, til dæmis æfingu og þá „hörku“ sem þyrfti til að vera alvörurithöfundur. Bækur hennar voru sagðar staðfesta íhaldssama sjálfsmynd liðins tíma og persónurnar skorti sálfræðilega dýpt. Einnig var hún sökuð um mannfyrirlitningu og hálfkæring[5] og bent á að snúa sér að öðrum verkefnum.

„Ég tel mig ekki með rithöfundum“

Vilborg Dagbjartsdóttir tók viðtal við Oddnýju í kvennatímaritinu Melkorku 1958. Oddný var mesta ólíkindatól eins og svör hennar bera vott um. Í viðtalinu segir Oddný að útgefendur hafi ekki álit á sér og hún telji sig ekki með rithöfundum. Þó hefur hún þegar hér er komið sögu sent frá sér fjórar skáldsögur.

„Ég tel mig nú eiginlega ekki rithöfund. Ég er stundum að setja saman sögur í tómstundum mínum. Mér þykir það gaman. En ekki tel ég, að mér beri neinn gáfumannastyrkur frá ríkinu fyrir þá iðju. Nei, ég tel mig ekki með rithöfundum … Útgefendur hafa ekki álit á mér. En eins og ég segi, er ég fyrst og fremst farkennari. Og svo hef ég gaman af heyvinnu. Við vorum að þurrka allan septembermánuð á Langanesi í haust. Annars var ég í síld á Raufarhöfn, meðan síld var. Ég hef reynt ýmsa vinnu, en kann bezt við heyskapinn. Stundum hjóla ég norður á Langanes. Ég hef hjólað nær alla akvegi landsins.“[6]

Athygli vekur að útgefendur hafi ekki álit á Oddnýju. Þó hafði hún ýmislegt fram yfir kynsystur sínar og kvenrithöfunda samtíma síns sem hefði átt að stuðla að frama hennar í bókmenntaheiminum. Hún var meira menntuð en tíðkaðist um konur á þessum árum og býsna veraldarvön. Hún hafði ferðast um Evrópu og m.a.s. komið til Sovétríkjanna. Hún var einhleyp og starfaði sem farkennari og rithöfundur meðan kynsystur hennar giftust og urðu húsmæður. En hvorki nýstárlegt bókmenntaform né frumlegt efni heillaði hana og allt höfundarverkið var litað af sósíalískum skoðunum hennar.

Liðtækur höfundur á öðrum sviðum“

Fyrsta skáldsaga Oddnýjar, Svo skal böl bæta, kom út 1943 þegar skáldkonan var 35 ára. Þemu sögunnar eru kynslóðabil, misrétti og hnignun bændasamfélagsins. Hún skrifaði síðan framhald hennar tæpum þrjátíu árum síðar og voru þá báðar gefnar út undir nafninu Síðasta baðstofan (1979). Bókin fékk misjafna dóma, líka í seinni útgáfu. Í tímaritinu Samtíðinni 1943 birtist ritdómur þar sem Oddnýju er hrósað fyrir að sigla framhjá blindskerjum sem byrjendur steyta gjarnan á. Ýmsir vankantar eru þó tíndir til, s.s. að efnið sé ekki sérlega nýstárlegt, stíllinn mætti vera litríkari og djarfari, byggingu sé ábótavant og persónulýsingar óskýrar.[7]

Í 3. hefti Helgafells 1944 fjallar Magnús Ásgeirsson, skáld og þýðandi og einn helsti menningarforkólfur samtímans, um bók Oddnýjar. Hann finnur henni flest til foráttu og bendir skáldkonunni ungu á að snúa sér að öðrum verkefnum:

„Hér eru engin gönuskeið, frásögnin raunsæ og greindarleg, en jafnframt yfir henni eitthvert litleysi eða grámóska. Ungum höfundum hættir oft til þess að vera of samhuga söguhetjum sínum, en hér virðir skáldkonan þær fyrir sér úr nokkrum fjarska, af svo eindregnu hlutleysi, að lesandanum finnst einatt þetta fólk koma sér of lítið við til þess að láta sig örlög þess miklu skipta. Það er fulllítið um frásagnargleði í bókinni, til þess að lesandinn verði var þeirrar skáldhrifningar og hlutdeildar, sem jafnvel gáfaðir höfundar mega ekki án vera. Mér finnst ekki fullséð af þessari bók, hvort hér er efnilegt sagnaskáld á ferðinni eða ekki, en ég þykist viss um, að Oddný Guðmundsdóttir gæti orðið mjög liðtækur höfundur á öðrum sviðum, þar sem næg verkefni og engu óvirðulegri en miðlungsskáldskapur bíða gáfaðra og ritfærra manna og kvenna.“[8]

Andrés Kristjánsson, blaðamaður á Tímanum, skrifaði jákvæðan ritdóm þegar bókin kom út fyllri að gerð 1979: „Auðvitað er ekkert nýjabrum á sögunni, enda gerist hún í síðustu baðstofunni og er trú því fólki og lífi, sem þar lifði og dó, og raunar líka einnig unga fólkinu, sem er að kveðja hana.“ [9]

Jóhanna Kristjónsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifaði örstutt um seinni útgáfuna undir fyrirsögninni „Slitrótt sveitalífslýsing“. Þar segir hún frásagnarháttinn sérkennilegan, efnistökin yfirborðskennd og að bókin sé skrítin og „kúldursleg“.[10] Gunnar M. Magnúss er á öndverðum meiði þegar hann skrifar um verk Oddnýjar í Þjóðviljann og segir engan íslenskan höfund hafa áður skrifað skáldverk um fimm kynslóðir.

„Ég vil benda þeim fulltrúum þjóðarinnar, sem velja verk til kynningar i Norðurlandaráði, að lesa þessa skáldsögu með íhugun, skáldsögu sem er í raun og veru þverskurður af lífi íslensku þjóðarinnar á þessari öld.“[11]

Skiptar skoðanir voru um sögu Oddnýjar og munur greinilegur eftir flokksblöðum. Gísli, bróðir Oddnýjar, var um skeið ritstjóri Tímans og sjálf var hún innanbúðar hjá Alþýðubandalaginu. Þar sem Oddný átti innhlaup fengu bækur hennar sæmilega dóma. En hún var alla tíð ósnortin af bókmenntatísku. Þegar Síðasta baðstofan kom út 1979 voru t.d. Ása Sólveig, Auður Haralds og Norma E. Samúelsdóttir að senda frá sér nýraunsæjar skáldsögur um kvenfrelsi og jafnrétti sem slógu í gegn. Bók Oddnýjar fjallaði um hnignun bændasamfélagsins, gamlan vanda sem lýst er með gömlum aðferðum, og hlaut að falla í skuggann. Á áttunda áratugnum birtust greinar eftir Oddnýju í Tímanum þar sem hún lýsti andspyrnu við t.d. sjónvarpsgláp, brennivínsþamb, neysluhyggju, enskuslettur og stofnanamál.[12] Hún skrifaði einnig um bókmenntir og nýjar kennslubækur.[13] Orð hennar féllu oftast í grýttan jarðveg, málstaðurinn einkenndist af afturhaldi og forneskju sem ekki hjálpaði til á skáldkonuferlinum.

„Allsstaðar vantar eitthvað“

Þegar bókaútgáfan Helgafell kynnti nýjan bókaflokk með verkum eftir unga íslenska höfunda árið 1947 var skáldsagan Veltiár eftir Oddnýju þar á meðal og var hún eina konan í skáldahópnum.[14] Bókin fékk allmikla umfjöllun. Sagan gerist í uppgangsplássi á stríðsárunum. Ívar kaupsýslumaður svipast um eftir konuefni og verður ástfanginn af Þrúðu, nýju búðarstúlkunni en hún er ófrísk eftir dökkeygan Breta. Oddný var herstöðvarandstæðingur og setti sig sjaldan úr færi að deila á stríðsrekstur en hún fordæmdi aldrei konur sem voru í „ástandinu“ eins og sumir rithöfundar þessa tíma. Dagný Kristjánsdóttir segir um bókina: „Veltiár er fámál saga, undirtextar miklir, stíllinn stuttaralegur, jafnvel þurrlegur, fátt gerist og dular, lokaðar persónurnar verða miðlungi skýrar. Styrkur bókarinnar felst í andrúmslofti hennar, lýsingu á tilgangsleysi, leiða og tilvistarlegri „ógleði“ Ívars og Þrúðu sem hafa misst tengsl við gamla tímann og geta ekki gengist upp í þeim nýja.“[15] Guðmundur G. Hagalín kom ekki auga á þessa hlið skáldsögunnar þegar hann skrifaði um Veltiár í tímaritið Jörð 1947:

„Þessi saga Oddnýjar er annars ekki óskemmtileg, lipurt skrifuð, þó að stíllinn sé ekki sérlega mótaður af persónuleik höfundarins, og einstaka persónum er vel lýst. Aftur á móti eru þær eyður í rás viðburðanna, sem ekki verður til ætlazt að lesandinn fylli … Og ennfremur: Sögunni er lokið, áður en við höfum séð, hver áhrif þetta hefur á framtíð þeirra persóna, sem höfundurinn leggur mesta rækt við, þeirra Þrúðu og Ólafs bílstjóra.“[16]

Guðmundur Daníelsson ritaði langan dóm um Veltiár og þykir andúð Oddnýjar á kaptíalisma yfirgengileg auk þess sem hún sé vond við persónur sínar:

„Mér finnst, að Oddný Guðmundsdóttir hafi ekki komizt nógu vel frá þessari sögu, því auk framangreindra galla er eins og enginn nái þar nokkurri höfn. Það er eins og persónurnar dagi allar uppi í bókarlok, eða kannske öllu heldur að sögunni sé ekki lokið. Ekki má þó skilja þetta sem svo, að eg telji bókina með öllu misheppnaða. Aðalpersónurnar eru að mörgu leyti skýrt mótaðar og sálfræðilega sannar, og hvarvetna má sjá þess merki í bókinni, að skáldkonan leitast við að fara sínar eigin götur, en forðast eftiröpun, og penni hennar er lipur og mál hennar gott. En hvers vegna öll þessi mannfyrirlitning og hálfkæringur? — “[17]

Halldór Kristjánsson ritar hinsvegar lofsamlega í Tímann: „Oddný Guðmundsdóttir hefir sýnt það, að hún getur skrifað áferðargóðar sögur með sönnum þjóðlífsmyndum og glöggum mannlýsingum. Sögur sínar skrifar hún af ríkri samúð með alþýðufólki, réttlætisþrá og heilbrigðri tilfinningu.“[18]

Kristmann Guðmundsson er ekki eins ánægður í Morgunblaðinu, 9. október 1947:

„„Veltiár“ eftir Oddnýju Guðmundsdóttur er lagleg saga sem gerist í litlu þorpi. Hún er fremur rislág, en hvergi leiðinleg og sumum persónunum dável lýst. Aðalpersónan, Þrúða, er best, enda mest til hennar vandað. Þó finnst manni, að lestri loknum, að hún sje helstil þokukend. — Yfirleitt eru víða í þessari bók lýsingar og samtöl, sem eru hjerumbil góð, en allsstaðar vantar eitthvað og stundum það sem máli skiptir! Það er leiðinlegt, því mjer þykir líklegt að Oddný Guðmundsdóttir gæti skrifað verulega vel, ef hún vildi beita sjálfa sig þeirri hörku, sem til þess þarf! Hún hefur frásagnargáfu, á til fyndni, dómgreind og heilbrygða skynsemi. Þess vegna er illt að verða að sætta sig við hálfgóðar bækur frá hennar hendi. – En hvað sem því líður, þá er þessi saga vel þess virði, að hún sje lesin.“[19]

Í gagnrýni Kristmanns er slegið úr og í og ýjað að því að hún beiti sjálfa sig ekki þeirri „hörku“ sem þarf til að verða alvöru rithöfundur. Þeirri hörku bjuggu kannski bara karlar yfir?

„Létt lesin bók, laus við tilþrif“

Þriðja skáldsaga Oddnýjar á sex árum heitirTveir júnídagar (1949). Þetta er heildstæð saga, knöpp og dul og eitt best heppnaða skáldverk Oddnýjar. Hlaut hún ágæta dóma en ekki þá athygli sem henni ber.

Í stuttri grein sem heitir „Bækur“ í tímaritinu Lögbergi segir:

Tveir júnídagar, eftir Oddnýju Guðmundsdóttur, er skáldsaga, er gerir grein fyrir hversdagsleik hversdagslífsins rétt eins og það er í bænum, þar sem hringrás viðburðanna snýst um allt og ekki neitt. Mitt í amstrinu rifjast upp tilvera fyrri daga í sælli sveit, þar sem ungar stúlkur voru ráðskonur hjá vegavinnumönnum. Þar er vermireitur á landi minninganna, en eiginlega er tilveran í bænum úfinn þokudagur með súld og ömurleik í tilveru persónanna, þrátt fyrir nóg efni. Létt lesin bók, laus við tilþrif. Bókin er 118 síður að lesmáli.“[20]

Ekki kemur fram hvaða „tilþrif“ sagan er blessunarlega laus við. Sigríður Einars, skáldkona frá Munaðarnesi, skrifaði um Tvo júnídaga í Þjóðviljann 16. júní 1949. Er það fyrsti ritdómur eftir konu um verk Oddnýjar:

„…þessi saga Oddnýjar er þess verð að hún sé lesin og lesin vel, hennar gildi vex við nánari kynningu og því skemmtilegri er hún er lengur er lesið, er þrátt fyrir sitt rólega yfirlætisleysi nokkuð „spennandi“. Það gerast engir rosaviðburðir þessa tvo júnídaga, en það leggur frá þeim ferskan sumarilm úr dalnum með tjaldbúðum hins vinnandi fólks.“[21]

Í Vísi, 25. október sama ár segir ónafngreindur gagnrýnandi að sagan sé „bezta bók Oddnýar til þessa“.[22] Halldór Kristjánsson, blaðamaður á Tímanum, talar líka hlýlega um bókina og mælir með henni við unglinga.[23]

Laufey, aðalpersóna sögunnar, hefur gifst til fjár en við það glatað draumum sínum og steinrunnið í hlutverki borgarlegrar eiginkonu. Hún lifir innantómu borgarlífi og áttar sig á að bernskuheimur sveitarinnar er á hverfanda hveli. Í sögunni fjallar Oddný um stöðu kvenna sem ganga ekki menntaveginn, tapa sjálfstæði sínu og eiga engra kosta völ. Staða Laufeyjar er sýnd í íronísku ljósi, öryggi hjónabandsins er tekið fram yfir frelsið og er sagan því ágætt innlegg í kvenfrelsisumræðu síns tíma.

Höfundur sóar verkefnunum“

Fjórða skáldsaga Oddnýjar, Á því herrans ári…, kom út 1954. Þar segir frá hópi fólks sem í hrakningum neyðist til að gista á hlöðulofti eina óveðursnótt. Óljós spenna er aldrei færð í orð, persónur eru málpípur ólíkrar hugmyndafræði, t.d. sósíalisma og kvenfrelsis, og segja má að sagan sé margradda. Gunnar M. Magnúss skrifar lofsamlega um bókina í Þjóðviljann 22. desember 1955:

„Frjósemi þessarar sögu er mikil. Við lestur hennar verður manni oft hugsað til þess, hversu höfundur sóar verkefnunum af ótakmörkuðu örlæti. Inn í söguna er ofinn aragrúi smásagna sem hver og ein hefði getað birzt sem sjálfstæð heild, ef unnin hefði verið þannig. Að vísu krydda þessar smásögur frásögnina í skáldsögunni, en sá höfundur sem hefur athyglisgáfu og frásagnarhæfileika á borð við Oddnýju þarf ekki að athuguðu máli að beita slíkum vinnubrögðum… En með skáldsögu þessari hefur Oddný (…) brugðið upp ýmsum eftirtektarverðum myndum frá síðustu árum. Hún beitir skopi í gagnrýninni og hæfir oft vel. Ekki veit ég hvort Oddný hefur nokkurntíma sótt um rithöfundarlaun, en það er vanvirða, að úthlutunarnefnd rithöfundalauna skuli ekki enn hafa veitt þessari skáldkonu viðurkenningu.“[24]

Af skáldverkum Oddnýjar er Á því herrans ári… nútímalegust í efnistökum. Sjálf var hún alltaf ósnortin af öllum tilhneigingum til formbyltingar í skáldskap. Ekki birtust fleiri ritdómar um bókina og gleymdist hún fljótt.

Tekur herskátt upp kvenfrelsisumræðu

Skáldsagan Skuld (1967) er skrifuð á árunum 1953-55 en fékkst ekki útgefin fyrr en 12 árum síðar.[25] Skuld er annars vegar um vinnustúlkuna Unu sem lætur glepjast af óðalsbóndasyni sem svíkur hana og hins vegar um aldraða Unu sem veltir fyrir sér hvort það hafi verið þess virði að ala á hatri í hans garð öll þessi ár. Um Unu segir Dagný Kristjánsdóttir tæpum þrjátíu árum eftir að bókin kom út:

„Í þessari kynngimögnuðu mannlýsingu felast djúpsæjar og alvarlegar athuganir Oddnýjar Guðmundsdóttur á hugtökum eins og sósíalisma, kvenleika, móðurhlutverki og siðrænum gildum.“[26]

Skuld hefur sérstöðu í bókmenntasögunni sem ekki hefur verið haldið á lofti. Hún er „ … eina skáldsagan á þessu tímabili sem tekur herskátt upp kvenfrelsisumræðu, því að Una vill ekki aðeins rétta hlut kvenna heldur krefst hún meiri valda fyrir hönd þeirra.“[27]

Gunnar M. Magnúss rithöfundur skrifar lofsamlega um Skuld í Þjóðviljann 13. desember 1967[28] og segir bókina mesta og besta verk skáldkonunnar. Björn Haraldsson ritar sömuleiðis hlýlega í Tímann 21. nóvember 1968:

„Oddný Guðmundsdóttir er sérstæður rithöfundur, sem ekki fer troðnar slóðir. Hún er hög á íslenzkt mál og stíllinn aðlaðandi. Samtöl á hún létt með að skrifa. Sögur hennar eru leifturmyndir, sem lesandinn verður að tengja saman og vinna úr. Hún forðast að fullsegja söguna, en höfðar til ímyndunar og umþenkingar lesenda. Tel ég þetta til kosta innan réttra takmarka. Oddný er ádeiluskáld og hefur boðskap að flytja. Sagan Skuld er stærsta verk hennar enn sem komið er. Því miður verður hún að óþörfu allreifarakennd í lokin og frágangur mætti vera betri (prentvillur o.fl.). Er þetta í mótsetningu við fyrri bækur þessa höfundar. Þrátt fyrir þetta tel ég sögu þessa bókmenntalegan feng og með því betra, er út kemur af þessu tagi nú.“[29]

Jakob Jónasson, sem sömuleiðis var rithöfundur, skrifar um bókina í Morgunblaðið og segir m.a. um Unu:

„Í hinu nýja umhverfi snýr hún sér fljótlega að hugðarefnum sínum, sem þykja nokkuð nýstárleg þar í Brimnesjum, það er, að beita sér fyrir því, að rétta hlut hinna veiku og smáu, sem þjakaðir eru af rangsnúnum aldaranda og alls konar hindurvitnatrú, flæma Bakkus frá dyrum fátæklinganna og fá fólkið til að uppgötva sjálft sig. Með öðrum orðum, leiða fáfróðan, kúgaðan lýðinn út úr miðaldamyrkrinu fram í Ijós nýs dags. Þessu starfi miðar hægt, en þokast þó í rétta átt.“[30]

Jakob taldi m.a.s. að bókin yrði nokkurs virði þegar fram liðu stundir. Ekki rættist sú spá. Oddný var alltaf á skjön við kröfur tímans. Sama ár og Skuld kom út, línuleg saga lífsbaráttu í bændasamfélagi, sendi Guðbergur Bergsson frá sér Ástirsamlyndra hjóna, byltingarkennda bók að formi og efni og hlaut silfurhestinn fyrir, bókmenntaverðlaun gagnrýnenda. Ári síðar lágu leiðir Oddnýjar og Guðmundar Hagalíns saman af tilviljun. Samfundum þeirra lýsti hún í bréfi til Gísla bróður síns:

„Raufarhöfn, 13. okt 68

Þetta var slysalaust ferðalag. Veðrið yndislegt, þegar ég lagði af stað. Hagalín gamli var með bílnum, tók mig tali og hrósaði bókarófétinu mínu. Segist líða önn fyrir „silfurmerarsögur“ Guðbergs og bókmenntastefnu verðlaunanefnda.“[31]

Silfurhesturinn birtist í menningarumræðunni 1967 og tölti þar til ársins 1974. Engin kona hlaut viðurkenninguna. Oddný hlaut heldur aldrei formlega viðurkenningu fyrir ritstörf enda þóttu bókmenntir kvenna ómerkilegt afþreyingarefni eins og áður segir, ekki síst ef sveitakona skrifaði um þann veruleika sem hún þekkti best. Nú líða 15 ár þar til næsta bók Oddnýjar kemur út. En hún er ekki aðgerðarlaus, hún skrifar pistla í Tímann um íslenska tungu og fær birtar greinar um bókmenntir og samfélagsmál.

„Láttu nú ekki karlskömmina þína lemja þig“

Þegar Oddný var 74ra ára gömul sendi hún frá sér barnabók, Haustnætur í Berjadal (1982) sem er bréfaskáldsaga. Bærinn Berjadalur stendur í Utanveltusveit, eins konar veröld sem var. Heimasætan er kotroskin þrettán ára stelpa sem skrifast á við frænku sína. Boðskapurinn er sannarlega femínískur.

„Ætli konurnar hafi ekki ort þjóðvísurnar, þessar, sem enginn veit, eftir hvern eru? Þær eru allar svo sorglegar. Líka danskvæðin. Konurnar hafa víst oft verið sorgbitnar í gamla daga. Þá voru karlarnir ennþá verri við þær, en þeir eru núna. Samt sagði læknir, sem talaði í Útvarpið, að sumir drykkjusvolar lemji konurnar sínar, svo þær koma með glóðarauga út í mjólkurbúðina. Láttu nú ekki karlskömmina þína lemja þig, ef hann kemur heim. Lemdu hann þá að minnsta kosti aftur.“[32]

Erlingur Davíðsson, ritstjóri Dags á Akureyri, skrifaði eina ritdóminn sem birtist um bókina og taldi að hún væri „eflaust ný aðferð höfundar í þeirri viðleitni að kenna mönnum að bera virðingu fyrir íslensku máli og vitrænni, heiðarlegri hugsun“[33] en á þessum árum var Oddný orðin landskunn fyrir pistla í fjölmiðlum sem m.a. fjölluðu um móðurmálið.

Erlingur sagði bókina skemmtileg unglingabók og að menn ættu að kaupa hana sem allra fyrst. Ekki hlýddu margir þessu ráði, allmörg eintök eru enn til af bókinni í kassa með eigum skáldkonunnar.[34] Halldór Kristjánsson skrifaði sömuleiðis hlýlega um bókina í Tímann og segir m.a.:

„Þeir sem hafa lesið blaðagreinar Oddnýjar vita líka að hún hefur bent á misstigin spor í tísku síðustu tíma og hefur þá komið við ýmislegt sem snertir málfar, kennslumál og uppeldi. Og víst er Oddný sjálfri sér lík í þessari sögu.“[35]

Oddný gaf Haustnætur í Berjadal út á eigin kostnað. Ekki er ólíklegt að henni hafi verið hafnað af útgefendum enda bygging, þema og framvinda sögunnar ólík þeim unglingabókum sem út komu á þessum tíma og voru mest um stráka.

„Svo undarlega mildir og fagrir“

„Á síðari árum hefur Oddný Guðmundsdóttir öðru hverju minnt á sig, auk bóka sinna, með óvenjulega skeleggum málvöndunargreinum í Tímanum. Þar tekur hún marga þá áhrifamenn, sem á penna halda, á kné sér og hirtir þá fyrir vankunnáttu og sóðaskap í meðferð móðurmálsins, svo undan svíður.“[36] Svo skrifar Erlingur Davíðsson um hina skeleggu skáldkonu sem ritaði fasta pistla um hnignun tungunnar í Tímann á árunum 1980-1983, undir heitinu Orðaleppar. Einnig skrifaði hún greinar þar sem hún sendi gagnrýnendum tóninn eða „matsmönnum“ eins og hún nefnir þá, enda hafði hún fengið sig fullsadda af trakteringum þeirra í gegnum árin. Seinna safnaði hún pistlunum saman í þekktustu bók sína, Orðaleppar og ljótar syrpur (1983) sem hún gaf út sjálf.

Þegar hér er komið sögu hafa verk Oddnýjar að mestu mætt áhuga- og skilningsleysi gagnrýnenda enda fór hún gegn straumum tímans. Í einum pistlanna í Orðaleppum rifjar hún upp nokkra ritdóma sem eru „svo undarlega mildir og fagrir, að stingur í stúf við allt af strangara taginu,“ en þeir eru allir um skáldverk eftir karla.[37] Í pistli sem ber heitið „Matsmenn gegn „góðu fólki““ segir hún gagnrýnendur vera „kalda karla“, uppveðraða af ímyndaðri hugprýði og alls staðar nálæga með misheppnaða fyndni sína.[38] Í pistli sem heitir „Skáld og matsmenn“ segir hún:

„Ég er að lesa gamlan Andvara. Þar eru ritdómar girnilegir til fróðleiks… Matsmaðurinn segir hér greinilega fyrir verkum. Þið eigið, drengir mínir, að skrifa um brjóst og mjaðmir… Annars fáið þið tevatnið sykurlaust hjá mér. Þó að matsmenn meti mikils völsadýrkun og hristirassabókmenntir svokallaðar, ættu þeir að viðurkenna að fleira er gjaldgengur skáldskapur.“[39]

Fleiri dæmi tiltekur Oddný um bókmenntaumræðuna og líst ekki á blikuna. Í lok pistils frá 1974, „Kaldir karlar, raunsæi og skopiðja“ segir hún hyggilegast fyrir unga rithöfunda að skella skollaeyrunum við afskiptasemi ritdómara og tískusnápa en fylgja hjartanu.[40] Lokaorðin í Orðaleppum sýna afstöðu hennar vel:

„Ástæðan til þess, að ungir rithöfundar eru svo leiðinlega líkir hver öðrum gæti verið sú, að þeir séu smeykir við að fara sínar eigin leiðir. Þeir ættu þó að hugsa um framtíð sína. Það er ekki hægt að hneyksla sömu kerlingarnar ár eftir ár með sömu orðaleppunum um líkama mannskepnunnar… Sumar bækur sigla undir því flaggi, að þær séu ádeila. „Ádeilur“ eru einkar vinsælar, þegar deilt er á ekki neitt… Raunveruleg ádeila þarf engra auglýsinga við. Hún hittir í mark, svo að undan svíður, og mörgum þykir þá ekki gaman. Ádeiluskáld hafa hingað til ekki þekkzt á vinsældum. – – –  Mér þótti gaman að skapmiklum krökkum. Stundum les ég nýjar bækur í þeirri von að rekast þar á reiða, unga menn, sem fara sínar eigin leiðir en sníkja sér ekki matsmannahylli með ærslum og ógerðarnarti í allt það, sem þjóðinni hefur hingað til verið sárt um.“[41]

Ekki átti Oddný marga samherja í ævilangri herferð fyrir bættu málfari og betri bókmenntum. Ein barðist hún með þeim vopnum sem hún þekki og kunni að beita, uns hún stóð alein uppi og hafði tapað orrustunni.

„Karlmaðurinn er þar að fjalla um háttvirtan sjálfan sig“

Síðasta bók Oddnýjar, Íslenzk aulafyndni, er 17 vélritaðar blaðsíður sem innihalda ritdóm rökstuddan með dæmum um Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál sem Svart á hvítu gaf út árið 1982. Oddný sýnir mikla dirfsku þegar hún sem gömul skáldkona, útlæg úr bókmenntaumræðunni, gerist sjálf „matsmaður“ og gagnrýnir bók eftir unga fræðimenn sem hampað var á menningarsviðinu. Það sem m.a. fer fyrir brjóstið á Oddnýju er orðræða feðraveldisins, sá orðafjöldi sem safnað er saman í Slangurorðabókina til smánar konum:

„Algengt er í þeim orðaforða, sem konum er helgaður í bókinni, að sama heiti er látið tákna konuna sjálfa og sköp hennar. Nú mætti ætla, að sá brennandi áhugi, sem orðasmiðir sýna í sambandi við kynfæri, snerti karla jafnt sem konur. En orðið karlmaður er ekki leyst af hólmi með grófyrðum í tugatali. Og þá sjaldan skapnaður karlmanna er nefndur á dulmáli, er það með gamansömum orðum og ekki niðrandi. Karlmaðurinn er þar að fjalla um háttvirtan sjálfan sig, en ekki þá vesælu lágstétt allra alda, sem kvenþjóð nefnist.“[42]

Umfjöllun Oddnýjar er snörp og á gagnrýnum og femínískum nótum. Hún segir m.a. að meinleysislegast af þeim 70 orðum sem höfð eru um konur í slangurorðabókinni sé orðið „lambakjöt“ en það minni á hugrenningar hungraðs manns sem hlakkar til að rífa í sig ljúffengt æti. En lambakjötið er „auðvitað ekki til sjálfs sín vegna. Það er handa þeim, sem étur.“[43] Engir ritdómar féllu um bók þessa.

Uppreisn og útlegð

Á þjóðhátíðardaginn 1972 skrifaði Oddný langa grein í Þjóðviljann um bókmenntagagnrýni á Íslandi og rís gegn valdhöfum menningarsviðsins og leikreglum þeirra.[44] Hún segir þar blákalt að ritdómarar geri virðingarmun á bókum sem ekki falla að ríkjandi tískustraumum eða viðurkenndri og stofnanabundinni hámenningu, og hefur hún nokkuð til síns máls eins og hér hefur verið rakið.

Skáldverkum Oddnýjar var misvel tekið, eins og fleiri kerlingabókmenntum. Hvöt hennar að ritstörfunum var að gera heiminn að betri stað. Félagsleg mannúð gegnsýrir höfundarverk hennar, þar er misrétti mótmælt og samúð sýnd lítilmagnanum. Í pistlum hennar um málfar og bókmenntir ríkja að auki reiði og kaldhæðni sem eiga rætur að rekja til reynslu hennar af kynjaðri mismunun á rithöfundarferlinum. Oddný bjó þó að sínu pólitíska baklandi og bræðraböndum og sætti líklega ekki verri meðferð hjá gagnrýnendum en aðrar alþýðuskáldkonur á þessum tímum.

Oddný var einlægur sósíalisti, jafnréttissinni og herstöðvaandstæðingur og speglast þær hugsjónir í verkum hennar. Henni rann til rifja hvernig menningarlegir valdhafar ýmist þögðu um bækur kvenna eða hnjóðuðu í þær og reis gegn því af fullri hörku. Hún gagnrýndi bókmenntagagnrýnendur, menntastofnanir og bókmenntaelítuna; valdhafa á sviði þar sem allir voru menntaðir karlar. Ætla má að nöpur pistlaskrif hennar hafi haft þau áhrif að hún einangraðist frá þeim sem hún vildi helst ná til, varð holdgervingur afturhalds og forneskju og varð útlæg úr bókmenntasögunni. Konur sem gagnrýna feðraveldið eru jú hættulegar og þeim leynt og ljóst ýtt til hliðar. Það var hægur leikur að líta á hjal gamallar sveitakonu, réttindalauss barnakennara og rithöfundar sem skrifaði sögur um bændasamfélagið sem ómerkilegt nöldur. En Oddný hvikaði hvergi frá stefnu sinni:

„Það heyrist stundum núorðið, að baráttubókmenntir kreppuáranna séu úreltar. Verkalýðssögur tilheyra fortíðinni, segja þeir, sem ráða vilja fyrir bókmenntunum. Að vísu glottir hungurvofan ekki við dyrnar hér á Norðurlöndum. En vinnandi fólki veitir ekki af að hafa augun hjá sér í dulbúinni ásælni velferðarþjóðfélagsins. Kaldrifjaður maurapúki skammtar ekki matinn úr hnefa með eigin höndum nú á dögum. Hann bregður sér í allra kvikinda líki. Hann er í ærandi öskurtónlistinni, glysvarningnum, skemmtiiðnaðinum, kynórabókmenntunum, stríðsleikföngunum, lævísri stéttaskiptingu launafólks og mörgu öðru, sem frómur maður varar sig ekki á.“[45]

Oddný frá Hóli hafði heitar hugsjónir um betra mannlíf og jafnrétti sem hún vildi stuðla að með skáldverkum sínum og pistlaskrifum. Hún hélt ávallt á lofti gömlum gildum en hæddist almennt að öllu bramboltinu í veröldinni. Oddný var merk skáldkona sem skrifaði eins og hjarta hennar bauð, sinnti í engu tískustraumum eða virðingarröð, var trú sínum málstað og sýndi fádæma hugrekki gagnvart bókmenntaelítu sem leit af stalli sínum niður á skáldverk kvenna.


[1] „Kynning á verkum Oddnýjar Guðmundsdóttur“. Fréttatilkynning, Tíminn, 4. maí 1979:B11.

[2] Sigurður A. Magnússon. „Rabb.“ Lesbók Morgunblaðsins, 22. nóvember, 1964:5.

[3] Helga Kress. „Bækur og „kellingabækur,““ Tímarit Máls og menningar, 39. árg. 4. tbl. 1978:386.

[4] Oddný Guðmundsdóttir. „Lærðir og leikir,“ Þjóðviljinn, 17. júní 1972:11.

[5] Guðmundur Daníelsson. „Þríhyrningurinn gamli,“ Vísir, 14. ágúst 1947:2.

[6] Vilborg Dagbjartsdóttir. „Viðtal við sveitakonu,“ Melkorka, 3. hefti (1958):83.

[7] „Bókarfregn,“ Samtíðin, 6. tbl. (1943):25.

[8] Magnús Ásgeirsson. „Önnur sagnaskáld ársins,“ Helgafell, 3. árg. (1944):132.

[9] Andrés Kristjánsson. „Alltaf hugsa ég nú um kindur,“ Vísir, 21. desember 1979:16.

[10] Jóhanna Kristjónsdóttir. „Slitrótt sveitalífslýsing,“ Morgunblaðið, 30. janúar, 1980:10.

[11] Gunnar M. Magnúss. „Þverskurður af þjóðfélaginu,“ Þjóðviljinn, 26. janúar 1980:5.

[12] Sjá td. Oddný Guðmundsdóttir. „Horft á sjónvarp,“ Tíminn, 29. desember 1974:12.

[13] Sjá t.d. Oddný Guðmundsdóttir. „Lestu bókina,“ Tíminn, 6. október 1977:8.

[14] „Nýir pennar.“ Auglýsing frá Helgafelli í Vísi, 13. janúar 1947:5.

[15] Dagný Kristjánsdóttir. „Árin eftir seinna stríð,“ í Íslensk bókmenntasaga IV, 2006:457.

[16] Guðmundur G. Hagalín. „Bókabálkur,“ Jörð, 8. árg. 2. tbl. (1947):104.

[17] Guðmundur Daníelsson. „Þríhyrningurinn gamli,“ Vísir, 14. ágúst 1947:2.

[18] Halldór Kristjánsson. „Ritdómur,“ Vísir, 22. apríl, 1947:3.

[19] Kristmann Guðmundsson. „Nýir pennar,“ Morgunblaðið, 9. október, 1947:5.

[20] „Bækur“. Lögberg, 29. desember 1949:8.

[21] Sigríður Einars. „Tveir júnídagar. Ný skáldsaga eftir Oddnýju Guðmundsdóttur,“ Þjóðviljinn, 16. júní, 1949:3.

[22] „Bækur haustsins.“ Vísir, 25. október, 1949:5.

[23] Halldór Kristjánsson. „Tvær skáldsögur,“ Tíminn, 30. júní, 1949:4.

[24] Gunnar M. Magnúss. „Bókmenntir. Á því herrans ári,“ Þjóðviljinn, 22. desember 1955:5.

[25] Gunnar Einarsson. „Skemmtilegast að gefa út barna- og unglingabækur,“ Morgunblaðið, 17. desember 1967:6.

[26] Dagný Kristjánsdóttir. Kona verður til. Um skáldsögur Ragnheiðar Jónsdóttur fyrir fullorðna. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1996:403.

[27] Dagný Kristjánsdóttir. Kona verður til. 1996:404.

[28] Gunnar M. Magnúss. „Bókmenntir. Á því herrans ári,“ Þjóðviljinn, 22. desember 1955:6.

[29] Björn Haraldsson. „Bækur og bókmenntir. Skuld,“ Tíminn, 21. nóvember 1968:6.

[30] Jakob Jónasson. „Skuld – Ný skáldsaga,“ Morgunblaðið, 17. desember, 1967:21.

[31] Bréfasafn Gísla Guðmundssonar, Héraðsskjalasafn Þingeyinga á Húsavík.

[32] Oddný Guðmundsdóttir. Haustnætur í Berjadal. Höfundur gaf út: 1982:42.

[33] Erlingur Davíðsson. „Haustnætur í Berjadal“ (ritdómur), Dagur, 24. september 1982:5.

[34] Sigrún Jónasdóttir, viðtal 18. janúar 2019.

[35] Halldór Kristjánsson. „Í stormum sinna tíða“, Tíminn, 5. nóvember 1982:9.

[36] Erlingur Davíðsson. „Haustnætur í Berjadal“ (ritdómur), Dagur, 24. september 1982:5.og herstöðvarandstæðingar a allraæði sem lnnilsegir hangi“ hheyvinnu

[37] Oddný Guðmundsdóttir. Orðaleppar og aðrar ljótar syrpur. Höfundur gaf út. 1983:105.

[38] Oddný Guðmundsdóttir, Orðaleppar og aðrar ljótar syrpur. 1982:114.

[39] Oddný Guðmundsdóttir. Orðaleppar og aðrar ljótar syrpur. 1982:101-2.

[40] Oddný Guðmundsdóttir. Orðaleppar og aðrar ljótar syrpur. 1982:54.

[41] Oddný Guðmundsdóttir, Orðaleppar og aðrar ljótar syrpur. 1982:140.

[42] Oddný Guðmundsdóttir. Íslenzk aulafyndni. Höfundur gaf út. 1983:2.

[43] Oddný Guðmundsdóttir, Íslenzk aulafyndni. 1983:3.

[44] Oddný Guðmundsdóttir. „Lærðir og leikir,“ Þjóðviljinn, 17. júní 1972:11.

[45] Oddný Guðmundsdóttir.  „Skáld matvinnunganna,“ Tíminn, 6. janúar 1980:6.