Alvara lífsins

 

Fjölmiðlum hér á landi er vandi á höndum þegar glæpir og afbrot eru til umræðu, m.a. vegna margskonar viðkvæmra tengsla fólks í fámenninu. Nafnbirting er yfirleitt fyrsta vandamál sem taka þarf afstöðu til. Fyrir nokkrum árum var mikil umræða um hvort barnaníðingar ættu að vera nafngreindir í fjölmiðlum en þar tókust m.a. á ólík sjónarmið foreldra og fórnarlamba og laga um persónuvernd. Oftast hefur reglan verið sú að grunaðir eru ekki nafngreindir fyrr en líða tekur á málsrannsókn eða sekt sönnuð. Sú regla virðist nú á undanhaldi eins og berlega sést á nýlegri umfjöllun um dularfullar greiðslur aðalgjaldkera Landssímans til einkafyrirtækja í eigu hans, vina hans og vandamanna. Ástæðan virðist vera sú að það sem er fréttnæmt við málið er persóna hinna meintu afbrotamanna – ekki afbrotið sjálft.

 

Æsifréttin um ungu athafnamennina, vini og ættingja gjaldkerans, sem reyndust vera í bullandi vanskilum og botnlausu gjaldþroti og hafa bæði svikið út og dregið að sér fé,  birtist strax í öllum fjölmiðlum. Bæði Fréttablaðið og Stöð tvö hafa nafngreint forsprakkana. Umræðan um málið í heild hefur síðan þróast hratt og afar furðulega. Skrýtnast er að svo virðist sem það séu ekki eigendur = viðskiptavinir Landssímans sem eru fórnarlömb glæpsins, heldur glæpamennirnir sjálfir. Athyglin beinist aðallega að tveimur ungum mönnum sem eru þekktir frumkvöðlar í þjóðlífinu og birtast reglulega á síðum Séð og heyrt; þess gjalda þeir nú bæði og njóta. Samskipti annars þeirra við bróður sinn (aðalgjaldkerann) hafa verið skil- og sálgreind í fjölmiðlum í leit að skýringum á fjárglæfrunum, talað er um afbrot þeirra félaga þriggja sem persónulegan harmleik, „misskilning en ekki ásetning“.  Páll Kr. Pálsson, fyrrverandi stjórnarformaður Japis, segir t.d. í Fréttablaðinu 31. maí sl.: „Þeir voru aldrei miklir nákvæmnismenn. En við sáum aldrei ástæðu til að efast um heilindi þeirra og það kom manni svakalega á óvart að þeir skyldu lenda í þessum málum nú.“ Eini maðurinn sem hefur rakið hrakfallasögu Landssímans út frá sjónarhorni þeirra sem borga brúsann, er Guðmundur Andri Thorsson, en hann velti því fyrir sér í Fréttablaðinu hvernig risafyrirtæki í almenningseign geti ekki haft á hreinu hvort 150 milljónir væru á sveimi í bókhaldinu eða ekki.

 

Í Bakþönkum Eiríks Jónssonar í Fréttablaðinu er skýringa á athæfi ungu mannanna leitað í nútímasamfélagsgerð. „Cocoa Puffs kynslóðin“ telur að það sé hámark lífsgæðanna að verða milljónamæringur fyrir þrítugt, helst án þess að læra nokkuð eða vinna neitt, segir Eiríkur. Svona er íslenski draumurinn en hann getur snúist upp í martröð fyrr en varir. Þessi kynslóð þarf að berast mikið á, er djúpt sokkin í efnishyggju, lifir á skyndibitum og skyndigróða, notar gervineglur, gervibrúnku og eyðír platpeningum. Skilaboð auglýsinga og fjölmiðla eru að allir séu að gera það gott en skuldadagarnir eru í blárri móðu fjarlægðarinnar. Í þættinum Fólki með Sirrý á Skjá einum var á dögunum spjallað við nokkra kaupfíkla; ungt fólk sem skuldaði milljónir en átti ekki neitt og hélt að því leyfðist það sem höfðingjarnir hefðust að. En er samfélaginu um að kenna hvernig komið er? Hver er ábyrgð einstaklingsins? Gilda önnur siðalögmál fyrir eina kynslóð en aðra? Fjölmiðlar stýra samúð og andúð fólks með margvíslegum hætti og verða að fara varlega með vald sitt. Það er varhugavert að reyna að vekja samúð með afbrotamönnum á grundvelli frægðarorðs, tíðaranda eða samfélagsgerðar. En það er líka ámælisvert að þekktir einstaklingar njóti ekki sömu réttinda til nafnleyndar eins og aðrir sakborningar. Og ef heil kynslóð í landinu lifir í blekkingarheimi er svo sannarlega tímabært að hún horfist í augu við „alvöru lífsins“.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 7. júní 2003

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s