Myndin af Michael  

downloadSvo áberandi hefur poppgoðið Michael Jackson verið í fjölmiðlum undanfarna daga að það er ef til vill að bera í bakkafullan læk að fjasa meir um það. En heimsbyggðin öll stendur nú á öndinni yfir honum og ballið byrjaði þegar hann veifaði barnungum syni sínum út um glugga á hóteli í Berlín til að sýna hann trylltum aðdáendum. Michael hefur haldið sig til hlés um nokkurt skeið, veitir sjaldan viðtöl og forðast fjölmiðla eins og heitan eldinn. Martin nokkur Bashir, Breti sem er þekktur fyrir að hafa forðum  tekið opinskátt viðtal við Díönu prinessu, tókst hið ómögulega og hefur nú gert heimildarmynd um Michael. Fyrir stuttu var hún sýnd í sjónvarpi (endursýnd í dag kl. 11.35) og milljónir manna horfðu stórum augum á lemstrað andlit söngvarans og fengu að skyggnast inn í skaddaða sál hans.

Martin Bashir hitti Michael nokkrum sinnum á heimili hans í Kaliforníu og fylgdist síðan með ferðum hans til Las Vegas og Berlínar. Í myndinni svarar Michael nærgöngulum spurningum Bashirs framan af í hreinskilni sem jaðrar við einfeldni og upplýsir um erfiða æsku sína og brotna sjálfsmynd. Hann er samsettur af undarlegum andstæðum, hvorki svartur né hvítur, karlmaður né kona, barn né fullorðinn. Hann á sér griðastað í tilbúinni veröld í Hvergilandi sem er í senn einkaheimili hans, safn og risavaxinn skemmtigarður, umkringdur lífvörðum og þjónustufólki; og þaðan verst hann ágengni fjölmiðla en blaðamenn og ljósmyndarar ofsækja hann, fylgja honum hvert fótmál og leggja allar gerðir hans út á versta veg eftir því sem hann sjálfur segir.

Í myndinni er fyrst dregin upp mynd af Michael sem barnalegum, viðkvæmum og einmana manni sem klifrar í trjám og eyðir síðkvöldum í tölvuleiki. Bashir fylgir honum eftir í verslunarmiðstöð þar sem hann er eins og krakki í leikfangabúð, kaupir allt sem hann langar í og eyðir stjarnfræðilegum fjárhæðum án þess að depla auga enda fáránlega ríkur. Bashir talar fyrst við Michael af einlægni og samúð meðan hann vinnur traust hans en gengur svo nær honum og spyr hann út í ástamál hans, fegrunaraðgerðir og barneignir af miskunnarleysi. Þá fer Michael undan í flæmingi og afneitun, verður órólegur og tvísaga. Bashir býsnast yfir Michael í föðurhlutverkinu og nánum samskiptum hans við börn og rifjar upp gamlar ásakanir um að hann sé barnaníðingur. Í lok myndarinnar er Michael í algjöru uppnámi og fálmar plástruðum fingrum ýmist í átt að kvalara sínum eða upp að lífvana ásjónu sinni. Daginn eftir frumsýninguna lýsti hann því yfir að Bashir hafi svikið sig.

Michael Jackson er fórnarlamb frægðarinnar sem hann þó lifir yrir og þrífst á. Frægð hans og ótrúleg auðævi gera það að verkum að hann getur ekki treyst nokkurri manneskju eða bundist öðru fólki tilfinningaböndum – nema börnum sem þekkja ekki flærð og undirferli. Myndinni um Michael er ætlað seðja hungur aðdáenda í krassandi smáatriði um einkalíf hans og áherslan er lögð á sérviskuna í skapgerð hans, útliti og umhverfi en varla er minnst einu orði á snilligáfu hans og framlag til tónlistarinnar. Mynd Bashirs er ekki um listamann heldur skrýmsli. Í framhaldi af þessu mætti velta fyrir sér hver ábyrgð fjölmiðla sé á því furðuverki sem Michael er. Er útlit hans, óeðli og firring ef til vill afleiðing þess hvernig ímynd hans var sköpuð og að honum var grimmdarlega fórnað á altari markaðsaflanna? Það er ekki fjölmiðla að dæma hvort Michael Jackson sé geðveikur eða níðist á börnum. Framsetning Martins Bashirs á myndinni af Michael er fordómafull æsifjölmiðlun og það er í rauninni enginn munur á honum og paparazziljósmyndurunum sem hundeltu Díönu í dauðann.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 15. febrúar 2003

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s