Kæru útskriftarnemar, kennarar og starfsfólk skólans, gestir í sal og aðrir áheyrendur
Ég heyrði í útvarpinu á leiðinni hingað um daginn merkan haffræðing segja: þegar þú horfir út á hafið, er það aldrei sami sjórinn sem þú sérð tvo daga í röð. Það þótti mér skemmtileg pæling, þetta minnir okkur á að hver dagur færir okkur eitthvað nýtt og gott – ef við bara viljum veita því athygli og gefa því merkingu. Það sem við hugsum um fær nefnilega pláss og hefur áhrif í lífi okkar.
Uþb helming námstímans ykkar, kæru útskriftarnemendur, höfum við verið í þessu blessaða kófi eða hvað við viljum kalla þessa pest sem geisað hefur. Ekki fyrsta plága í sögu mannkyns og ekki sú síðasta. Fyrir 100 árum dóu 18 manns á Akranesi úr Spænsku veikinni svonefndu. Á síðasta skólaári gátu iðnnemarnir okkar tekið áhættuna og verið í húsi við námið, bóknámsnemar voru heima á náttbuxunum, í teams-kennslu, sjaldan í mynd eða með kveikt á hljóðnema. Við vorum síhrædd við að smita eða smitast, kannski eruð þið orðin fælin og smeyk við að blanda ykkur í hóp, snerta fólk, taka til máls, láta ljós ykkar skína. Kannski unið þið ykkur núna best a bak við grímuna þar sem þið fallið inn í fjöldann?
Þið höfðuð öll hægt um ykkur í þessum nýju og undarlegu aðstæðum. Svo kom að því að við máttum loksins mæta öll í skólann, með andlitsgrímu og stíf fjarlægðarmörk og sprittbrúsann á lofti. Gengum öll í prúðri röð á göngunum og síðan skaust hver til síns heima að loknum skóladegi. Ekkert félagslíf, ekkert fjör. Ég bið ykkur að gleyma þessu öllu sem fyrst! En muna hins vegar að svona höft og bönn eru mannanna verk og mega ekki verða sjálfsögð eða viðvarandi, það grefur undan frelsi okkar og lýðræði.
Það er merkilegt að sjá, að þegar eitthvað sem gengið er að sem vísu er tekið í burtu, td frelsið til að fara í skólann sinn, í ræktina, í búð eða leikhús, heimsækja ömmu – eitthvað sem þykir svo sjálfsagt er ekki lengur – þá allt í einu sjáum við blasa við, eins og í sögunni um nýju fötin keisarans; hvernig kerfin okkar virka eða virka ekki, innviðirnir, eins og heilbrigðis- og menntakerfið, allt verður berstrípað og afhjúpað, og lífið okkar sem við héldum að yrði alltaf öruggt og eins og við vildum hafa það, breyttist svo snögglega.
Ég er ekki í vafa um að þessi reynsla setur mark sitt á okkur. En hvaða merkingu ætlum við að gefa þessari reynslu? Að þetta hafi allt verið ömurlegt og glatað? Aumingja við að hafa lent í hremmingum? Við getum valið: smíðað okkar eigin vorkunnar-fangelsi úr þessu, eða sagt, eins og Nelson Mandela daginn sem hann var látinn laus eftir 27 ár í fangelsi fyrir að berjast gegn aðskilnaðarstefnu kynþátta í S-Afríku: Þegar ég gekk út í áttina að frelsinu sem beið mín, vissi ég að ef ég myndi ekki skilja biturðina og hatrið eftir í fangelsinu, yrði ég áfram fangi.
Þannig getum við horft á alla okkar reynslu.
Heimurinn var settur á pásu um stund í kófinu. Það var ekki endilega sem verst. Við tókum eftir ýmsu sem við komum ekki auga á áður. Síkin urðu hrein og tær í Feneyjum og himinninn heiður og blár í Kína. Við tókum eftir því að það gat verið ágætt að vera heima og ferðast um hið fagra Ísland. Kannski kom okkur á óvart að einveran og þögnin gátu verið góð. Við erum mörg orðin svo vön asa, streitu og aðkeyptri afþreyingu að við þurfum virkilega að setja okkur í stellingar til að vera sjálfum okkur nóg. Þannig afhjúpaði kófið okkur sjálf og hvar við erum stödd í tilverunni.
Ætlum við núna að hugsa okkur um tvisvar áður en við höldum fund, ræsum bílinn, pöntum drasl af netinu, stígum upp í flugvél? Það er byrjað að pressa á okkur að keyra allt í gang. Ætlum við að láta ýta okkur aftur upp á hamsturshjólið í rútínuna sem mengar jörðina og eitrar hugarfarið? Það er í okkar hendi.
Við getum gefið kófinu þá merkingu í huga okkar að við tæklum mótlæti með æðruleysi, kunnum að meta það sem við höfum og fáum að njóta meðan hægt er. Það gerðu Daði og Gagnamagnið á dögunum, kófið kom í veg fyrir að þau stigju á svið í Júróvisjón sem þau höfðu unnið að svo lengi – það bugaði þau ekki heldur styrkti þau, saman gerðu þau gott úr þessu á hótelinu fjarri glysi og glaumi en – í gleði og kærleika, einn fyrir alla, allir fyrir einn, og þessi líka fíni árangur náðist!
Að veita einhverju athygli þýðir að við gefum því pláss í huga okkar. Áhyggjur og neikvæðar hugsanir magnast fljótt ef við gefum þeim pláss. En 99% af öllum áhyggjum eru þarflausar, það er vísindalega sannað! Það sem við hugsum um, fyllir hausinn á okkur eins og þegar blásið er í blöðru. Reynum því að hugsa um það sem við viljum – ekki um það sem við viljum ekki. Að hafa stjórn á eigin hugsunum er það sem við þurfum að læra til að geta staðið á eigin fótum, til að geta valið okkur framtíð. Ég vona að þið hafið lært það nú þegar, eða að þið ákveðið núna í dag að læra það sem fyrst. Því hugurinn vill stjórna, það er hann sem segir okkur að við séum ekki nógu góð, eigum ekki nógu flott dót, ekki nógu þetta og hitt, hann býr til drama úr öllu, miklar allt fyrir sér, dregur úr kjarkinum, talar niður hugmyndir og drauma. Við þurfum að ná stjórn á huganum, þannig verðum við frjáls, þannig getum beislað skapandi orku í eigin þágu og látið síðan hjartað og innsæið sem við öll búum yfir ráða för.
Hugurinn er eins og vöðvi, hann þarf æfingu og styrkist við notkun. Ef við náum stjórn á huganum og getum þjálfað hann þannig að við njótum frelsis og sköpunar, menntunar – og umhyggju í víðum skilningi. Andstæðan við það er að láta hugann reika á sjálfstýringu í blindri hlýðni eða meðvitundarleysi með þá súru tilfinningu að finnast við alltaf vera að missa af einhverju.
Þegar þið haldið nú út í lífið og hlustið ekki lengur á raddir sem vilja ráðskast með ykkur, þegar þið ákveðið að fylgja eigin rödd og innsæi og virkja sköpunarkraftinn ykkar, þá losnar úr læðingi gríðarlegur máttur sem býr innra með ykkur. Máttur sem hægt er að virkja til góðs, til að horfa á sjóinn skipta litum, rífa sig upp úr erfiðum aðstæðum eins og kófi, stökkva af hringekju tilætlunar annarra og brjóta niður fangelsismúrana.
Kæru útskriftarnemendur. Það er komið sumar eftir langan vetur, frábær tími til að vera til! Aldrei hafa verið jafn margir möguleikar og tækifæri til að ná markmiðum sínum.
Framtíðin bíður hugsandi ungs fólks með ríkt innsæi og innri mátt.
Gangi ykkur allt í haginn og til hamingju með daginn!