Örlög Harrisons, bros Brads

 

Dauði Georges Harrisons hefur mikið verið í fréttum undanfarið. Bítillinn þögli eins og hann var kallaður er nú endanlega þagnaður. Svipuð samkennd myndaðist meðal fólks og álíka sorg sveif yfir vötnum eins og  þegar Díana prinsessa dó. Erfið veikindi Harrisons hafa verið fréttamatur alllengi, síðustu samverustundinni með eftirlifandi félögum hans úr Bítlunum var lýst í fjölmiðlum og ekkert dregið undan. Útlit hans var hörmulegt enda maðurinn heltekinn af krabbameini og hann grét. Harrison hefur jafnan verið illa við fylgifiska frægðarinnar; fjölmiðlafárið og bítlaæðið var honum mjög á móti skapi (segir í fjölmiðlunum). Líf Bítlanna hefur mótast af því að blaðasnápar og ljósmyndarar hafa elt þá á röndum og gert þeim erfitt fyrir bæði í einkalífi og opinberum umsvifum áratugum saman. En það er ekki bara gula pressan sem situr um fræga fólkið, auglýsendur þurfa líka sinn skerf. Dauði Harrisons er skyndilega orðinn víti til varnaðar; táknrænn fyrir dauðdaga þeirra milljóna manna sem verða tóbaksreykingum að bráð í heiminum. Á bls. 17 í Sunnudagsmogganum síðasta birtist heilsíðuauglýsing frá reyklaus.is þar sem stillt er upp dánarorsökum bítlanna tveggja sem nú hafa safnast til feðra sinna: byssukúlu og sígarettu. Í þessu samhengi má velta fyrir sér þeirri spurningu hvort tilgangur hinna vamm- / reyklausu sé alltaf svo göfugur að hann helgi meðalið. Það er einnig umhugsunarvert að dauðastríð og ótímabært andlát Harrisons er ekki síður vatn á myllu fjölmiðla en líf hans var.

 

Við hvert stjörnuhrap fæðist ný stjarna. Því var slegið upp í dagblöðum landsins sl. föstudag að Hollywood-leikararnir Brad Pitt, Julia Roberts, Matt Damon, Andy Garcia og George Clooney hefðu stoppað í hálftíma í Leifsstöð. Stjörnurnar spígsporuðu þar, stráðu um sig sjarmanum og heilluðu bæði starfsfólk og viðskiptavini. Brad Pitt lét svo lítið að leyfa myndatökur af sér með ungri, íslenskri blómarós. Reyndar er hann svolítið þreytulegur og bólginn um augun á myndinni en samt „miklu sætari í raun og veru heldur en í bíómyndunum.“ Konan í hópnum, Julia Roberts, bannaði myndatökur algjörlega, sagðist aðspurð vera of þreytuleg enda eru aðrar kröfur væntanlega gerðar til útlits hennar en karlanna. Fréttin um stjörnufansinn birtist strax daginn eftir viðburðinn á baksíðu Morgunblaðsins – meðan forsíðan sýndi mynd af yfirfullum fangelsum í Afganistan. Þar húkti fjöldi manna á hækjum sér, kreppti hendurnar um rimlana og dökk augu horfðu hálfundrandi, óttaslegin og vondauf í áttina að ljósmyndaranum.

 

Hvað kemur okkur líf og dauði fræga fólksins við? Af hverju erum við svo uppnumin yfir fráfalli Harrisons og heimsókn Pitts og förunauta hans? Oft hefur skýringin verið talin sú að okkur hinum líði betur í dagsins önn við að vita að þotuliðið sé líka þreytt og sorgmætt; eigi við erfiðleika að etja rétt eins og við hin; að dauðinn sæki engu síður heim þá frægu og ríku. Það er hinsvegar ansi lúð skýring sem öldum saman hefur verið notuð sem kúgunartæki, ópíum fólksins. Er svarsins að leita í gamla útkjálkasyndróminu sem hefur hrjáð okkur Íslendinga svo lengi? Eða erum við orðin svona þreytt á stríðsfréttum, hungursneyð, morðum og sprengingum? Eru fornar fyrirmyndir eins Jesús og önnur átrúnaðargoð haldlitlar í nútímanum og er gleðina því að finna í brosi Brads og fullvissuna að sjá í sorglegum örlögum Harrisons? Gengdarlaus frægðardýrkunin er dæmigerð fyrir trúleysi og sundurgerð póstmódernismans sem ríkt hefur á síðustu áratugum. Í firrtri veröld gleypum við fréttirnar af Hollywood-stjörnunum en erum skeytingarlaus um (reyklaust) líf og algerlega ótáknrænan dauða meðbræðra okkar fyrir byssukúlum í eyðimörkum Afganistans.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 15. desember 2001

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s