ntov@ruv.is

Fyrir daga gervihnattasjónvarps á hverjum bæ hófst hinn framsækni þáttur Nýjasta tækni og vísindi á ískrandi stefi og mynd af flókinni stjörnuþoku. Myndavélinni var síðan beint að Örnólfi Thorlacius, sem pírði augun og kynnti áhugaverðar vísindauppgötvanir um heim allan með sinni sérstöku rödd. Áhugamenn (lesist: nördar) á öllum aldri límdust við skjáinn og fylgdust andaktugir með nýjustu fréttum sem ýmist komu úr innstu leynum mannslíkamans eða utan úr geimnum og  horfðu opinmynntir á skeggjaða vísinda- og uppfinningamenn fást við smitandi veirur, örsmáar frumur og stökkbreyttar mýs.

Fyrir mörgum árum tók Sigurður H. Richter við þáttarstjórninni og mætir einu sinni í viku með hlýlegt bros á vör, í köflóttum jakka með doppótt bindi, til að kynna fyrir áhorfendum stuttar myndir um furður veraldar. Oftast eru myndirnar á frönsku (frá e=m6) og eru sýndar með íslensku tali, texta og staðfærslu. Bygging þáttarins hefur alltaf verið eins: spurningu er varpað fram eða áhugi vakinn á annan hátt, síðan er áhorfandinn dreginn inn í sameiginlega þekkingarleit með þáttarstjórnanda og vísindamönnum. Rannsóknir á einhverju fyrirbæri eða aðsteðjandi vanda eru settar á svið, áhorfendur fá t.d. að skyggnast yfir öxlina á François sem grúfir sig yfir smásjána eða hlusta á viðtal við heimsfrægan prófessor á einkaskrifstofu hans. Vísindamennirnir, sem unnið hafa að tilteknu verkefni undanfarna áratugi eða jafnvel alla ævi, skeggræða svo niðurstöður sínar og gera tilraunir sínar glaðir í bragði. Leitin að svarinu vekur ekki minni ánægju en niðurstaðan sjálf.

Margt fróðlegt kemur upp úr kafinu í þættinum Nýjasta tækni og vísindi. Um daginn var t.d. hægt að fá að vita að mannsfótur vegur sjö kíló, að yfirgripsmiklar rannsóknir á steingerðum skordýrum í rafi standa yfir og að draumar eru aðeins myndbrot eða einskonar myndagátur úr raunveruleikanum en alls engin táknræn framtíðarspá. Síðastliðið mánudagskvöld var t.d. þáttur um þjarka (vélmenni) sem líkir eftir hreyfingum gibbon-apa (getur sveiflað sér á milli greina en það getur víst komið sér mjög vel í framtíðinni) og stutt mynd um andlitsförðun Egypta til forna.

Nú bjóða sjónvarpsrásir eins og National Geographic og Discovery Channel upp á þætti um nýjustu tækni og vísindi allan sólarhringinn. Ríkissjónvarpið er íhaldssöm stofnun í eðli sínu; þátturinn hefur haldið göngu sinni áfram lítt breyttur hvað sem öllum breytingum á sjónvarpsnotkun og tölum úr áhorfskönnunum líður. Það eina sem breyst hefur er að nú er þátturinn í boði Skýrr og í lokin má sjá póstfangið ntov@ruv.is. Stöðugleikinn gerir þennan þátt einstaklega heimilislegan og notalegan (og nostalgískan). Sigurður H. Richter er fastapunktur í tilverunni, kurteislegt ávarp hans til áhorfenda og vinaleg kveðjan eru gamlir kunningjar. Í þættinum er skemmtileg þversögn á ferð: í örri hringiðu framfara nýjustu tækni og vísinda, þar sem öllu fleygir fram og allt er breytingum háð, er þessi þáttur eins og klappaður í stein. Traustur, tryggur og öruggur. Hann virkar þótt póstfangið virki reyndar ekki. „Og þá er ekki fleira í þættinum að þessu sinni. Veriði sæl.“

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 13. nóvember 2001

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s