2020 Haust – Um aðlögun og æðruleysi og Michelle Obama

Kæri útskriftarnemar

Gott að sjá ykkur! Nú er brautskráning af Fjölbraut óvenjuleg að öllu leyti og smiðshöggið rekið  á þetta undarlega ár – út af svolitlu sem ég ætla ekki að nefna á nafn. Það verður ekki minnst á veiru, sóttvarnir og smit í minni ræðu hér í dag!!!

En þetta var afleitt ástand, sem bitnaði á mörgu um allan heim og raskaði skólastarfi, bylti náminu ykkar að hluta/eða í heild, heimavist var lokuð um tíma o og mötuneyti, skorður voru settar um félagslíf nemenda, —- og sennilega breyttust svefnvenjur hjá mörgum…

Hér í okkar skóla lögðust allir á eitt, nemendur voru heima að læra og kennarar margir heima að vinna eða voru í skólanum í tilgreindum hólfum. stundum skildi maður ekki neitt í þessu brölti en það skilaði árangri. við sluppum með skrekkinn hér í Fjölbraut og tilvik sem upp komu tókst að einangra og tjónka við.

En það var stundum erfitt að stunda nám í heimsfaraldrinum sem ég ætlaði ekki að nefna, en en þrátt fyrir mótbyr og margs konar erfiðleika tókst flestum að snúa vörn í sókn. Og hér eruð þið allavega, prúðbúin og stolt og tilbúin til brautskráningar. Til hamingju með það!

OG það kom líka gott út úr þessu öllu saman. Nám og kennsluhættir á Íslandi hafa breyst til frambúðar, nálgun á námsefnið er önnur, námsmat hefur verið hugsað upp á nýtt, – allt er í skapandi endurmati.

Róttækar breytingar á iðnnámi eru í farvatninu, gamla meistaraskipulagið og sveinsprófið sem hafa verið eins áratugum saman eru í endurskoðun. Allt mjög jákvætt og djarft og hugað að mínu mati, og ég trúi að þetta eigi eftir að þróast enn frekar  til hins betra.

            —

Það hefur reynt verulega á aðlögunarhæfni og æðruleysi hjá okkur öllum á árinu.

Aðlögunarhæfni er mikilvægur eiginleiki, einn af þeim hæfileikum sem varð, á sínum tíma til þess, að maðurinn sem eitt af dýrum merkurinnar þróaðist og náði tökum á verkfærum, tungumáli og tækni.

Aðlögunarhæfni kom sér vel í dimmum helli og frumskógum fortíðar , en hún er ekki síður mikilvægur eiginleiki, fyrir framtíðina því þá er lykilatriði að geta tekist á við breytingar.

Æðruleysi er ekki síður mikilvægur eiginleiki, orðið að æðrast þýðir að gefast upp, glúpna, láta hugfallast,  missa alla von. En Æðruleysi er aftur á móti það að sýna yfirvegun, hugrekki, búa yfir sálarþreki, að láta ekki setja sig út af laginu og  standa föstum fótum í mótlæti. Ég held að þó þið hefðuð ekki lært neitt annað en þetta tvennt á önninni, aðlögunarhæfni og æðruleysi, þá væruð þið bara vel sett!

Hugrekki er líka það sama og æðruleysi, Og ef 3 ykkar sem hér sitjið eru hugrakkari nú en fyrir ári síðan, frábær árangur!

Í fyrsta sinn í sögu skólans eru engir gestir viðstaddir brautskráningu, þeir eru samt þarna úti… viljiði veifa til þeirra?!

Hvað felur brautskráning í sér? Hún felur í sér að þið hafið uppfyllt þær kröfur sem skólakerfið setur, lært réttu hlutina í réttri röð og staðið nægileg skil á þekkingar- og færniþáttum eins og lög gera ráð fyrir. Skólakerfið er mannanna verk, hvorki fullkomnara eða merkilegra en við sem búum það til.  Kerfið getur ekki tekið til alls þess sem gott og vert er að læra og kunna þegar út í lífið er komið, og kerfið kemur ekki alltaf auga á hæfileika sem ekki náðu að njóta sín á námsárunum.

Kennarar Alberts Einstein sögðu td að hann væri undir meðallagi greindur, hvað kom á daginn? Þjálfari Michael Jordan sagði að hann væri ekki betri en aðrir í sinni íþrótt, Walt Disney þótti skorta ímyndunarafl þegar hann var í skóla. Og sagt var um Oprah Winfrey að hún hefði ekki rétta útlitið fyrir sjónvarp og ætti að finna sér annað að gera. Hvað er ég segja ykkur með þessu? Jú að þið sem hér sitjið og hafið nú lokið námi frá FVA, látið engan segja ykkur að þið séuð ekki nógu góð. Tíminn mun vinna með ykkur, leyndir hæfileikar munu blómstra, bara ef þið trúið því sjálf!

            —

Ég las um daginn ævisögu Michelle Obama sem heitir Becoming á frummálinu, Verðandi í íslenskri þýðinug. Það var lærdómsríkt, Michelle hefur svo heilbrigt viðhorf til svo margra hluta.  Bókin fjallar um uppvöxt hennar og mótunarár, sögu hennar og Baracks og um lífið í Hvíta húsinu þar sem þau bjuggu í átta ár. Hún var ekki af ríku fólki,  en gat menntað sig og vann sig síðan upp til æðstu metorða.

Sem 44. forsetafrú Bandaríkjanna vann hún og vinnur enn ötullega að samfélags- og góðgerðarmálum. Hún hefur svo staðfasta trú á að geta breytt einhverju, breytt sjálfri sér, breytt heiminum. Hún td keypti fyrsta listaverkið eftir svarta konu til að hafa í híbýlum forseta Bandaríkjanna, í tæplega 250 ára sögu þjóðarinnar. Hún valdi mynd, negldi nagla, hengdi myndina upp. Þetta er breyting, Það þarf ekki að vera flókið, þetta hafði mikil áhrif!

Henni fannst það næstum heilög skylda að flytja útskriftarræður eins og gert er í Ameríku með miklum stæl. Á hverju ári flutti hún nokkrar ræður, ekki við Princeton samt né Harvard. heldur valdi hún þá skóla sem venjulega gátu ekki fengið til sín þekkta ræðumenn, fátæka ríkisskóla þar sem nemendur höfðu lítil tækifæri til fjár og frama. Hún hamraði alltaf á gildi fjölbreytni (sem er eitt af gildum hér í Fjölbraut og verður sífellt mikilvægara í okkar stóra heimi) og að láta ekkert stoppa sig í að láta drauma sína rætast. Hún nýtti  alltaf tækifærin til að koma því til skila sem gæti skipt máli um stöðu okkar í heiminum. Hún nefndi td það sem lengi  hefur verið þagað um í Ameríku en kraumar undir er nú að verða sífellt meira í umræðunni, nefnilega mismunun kynþátta, ofbeldi og þrælkun í nafni meintra yfirburða hvíta mannsins. Langalangalangafi hennar var þræll. Maður að nafni Jim Robinson sem vann allt sitt líf kauplaust fyrir hvítan húsbónda á einhverri plantekrunni í Suður-Karólínu. Og standandi í púltinu fyrir framan nemendur á brautskráningardegi eins og við hér núna, , segir Michelle við nemendur sem eru að hugsa um framtíðina: að sjálf sé hún sönnun þess að það er mögulegt að láta drauma rætast, komast yfir hindranir og aldagamlan sársauka mismununar og ofbeldis (464-5).

Hún hefur svo aðdáunarverða trú á að hún geti breytt einhverju og gert heiminn að pínulítið betri stað, fyrir sig sjálfa og ekki síður fyrir einhvern annan. Við verðum öll að hafa þá trú. Annars er lífið bara, ja hvað? vinna, éta sofa, í búbblu og rútínu? Ég segi við ykkur, þið þurfið meira en það og ykkar tími mun koma.

Núna í ár er hluti af jólagjöf til starfsmanna skólans námsstyrkur til stúlkna í Malaví í gegnum UN Women, til stúlkna sem eru yngri en átján ára og hafa verið leystar úr þvinguðu hjónabandi. Þær fá námsgögn og skólabúning frá starfsfólki FVA. Lítið mál fyrir okkur að gefa, en þetta er gjöf sem getur breytt heiminum!

Ég ætla að gefa ykkur fimm heilræði.

  1. Reynið að láta gott af ykkur leiða, fyrir ykkur sjálf og fyrir aðra. Í ykkur býr ímyndunarafl og sköpunarkraftur sem kannski hefur legið í dvala, sem skólakerfið er kannski búið að bæla niður! Notið það til góðra verka.
  2. Það þarf ekki að hafa skoðun eða vit á öllu, en opnið á nýjar pælingar og látið hlutina njóta vafans frekar en að afneita þeim.
  3. Þið eruð alveg eins og þið eigið að vera, ef þið haldið eitthvað annað dregur það úr sjálfstrausti og lífsgleði og ýta ykkur út í að leita hamingjunnar á kolröngum stöðum.
  4. Komið fram við aðrar manneskjur af virðingu, Ekki dæma annað fólk, við vitum ekki hvað það er að ganga í gegnum.
  5. Látið engan segja ykkur hvort draumar ykkar geti ræst  eða hvaða nám eða starf eigi nú að stunda. Finnið það sjálf í hjartanu, ekki heilanum!

AÐ lokum:

þegar þið gengið héðan út með húfuna fínu á kollinum,

Verið æðrulaus, kæru útskriftarnemar, og nógu hugrökk til að hengja ykkar mynd á vegg,

og breyta þar með einhverju, sjálfum ykkur eða heiminum, þá mun allt fara vel.

Til hamingju með daginn!