Skemmtiþátturinn Á tali hjá Hemma Gunn, sem sýndur var í Ríkissjónvarpinu fyrir alllöngu, er flestum landsmönnum enn í fersku minni, reyndar í nokkuð nostalgískum ljóma. Þátturinn gekk ótrúlega vel og lengi og naut mikilla vinsælda. Það var fyrst og fremst meðfæddur sjarmi Hemma, einlægni hans og samlíðun með öðru fólki, sem hélt áhorfendunum föngnum og öfluðu honum fjölda aðdáenda. Hemmi mætti sjálfur í spjallþáttinn Laugardagskvöld með Gísla Marteini um daginn, yfirlætislaus og blátt áfram eins og vani hans er. Lífshlaup Hermanns er afar forvitnilegt og alveg örugglega efni í heilan spjallþátt, ef ekki tvo. En lögmál afþreyingarinnar í fjölmiðlabransanum leyfa hvorki naflaskoðun né nákvæmni; hraði, fjölbreytni og fjör verða að ríkja. Spjallþáttur Steinunnar Ólínu, Milli himins og jarðar, var líka þessu marki brenndur meðan þáttur Jóns Ársæls á Stöð tvö, Sjálfstætt fólk, er gott dæmi um þátt þar sem viðmælanda er gefinn tími. Elsti núlifandi spjallþáttur íslenska sjónvarpsins, Maður er nefndur (sem reyndar er meira útvarpsefni en sjónvarps-), hefur verið gagnrýndur fyrir hægagang og leiðindi, m.a. vegna þess að tökuvélinni er eingöngu beint ýmist að spyrli eða viðmælanda. Áhorfandinn þolir ekki tilbreytingarleysið (roskna og seinmælta viðmælendur) og hamast á fjarstýringunni – ef hann er þá ekki löngu sofnaður í sófanum.
Það var gaman að sjá þáttastjórnendurna tvo; meistarann og lærisveininn; Hermann og Gísla skrafa saman; ekki síst vegna þess hve ólíkir þeir eru: Hemmi er spakur og gamalreyndur eftir hrakninga í lífsins ólgusjó; Gísli ungur og síkátur, holdgervingur fjölmiðlakynslóðarinnar með beintengingu við tökuliðið í eyranu. Báðir eru þeir hláturmildir, ágætlega máli farnir og fundvísir á viðkunnanlega viðmælendur. Þáttur Gísla er af svipuðum toga og Á tali hjá Hemma; stjórnandinn fær til sín gesti sem eru áberandi í þjóðlífinu hverju sinni og tónlistar- og skemmtiatriði brjóta samtölin upp. Þættirnir eru báðir teknir upp í stúdíói; Hemmi hafði alltaf áhorfendur í sal að amerískum sið, en Gísli er einn. Hemmi hafði oftast einn aðalviðmælanda í hverjum þætti en Gísli hefur alltaf þrjá. Samtölin hjá Gísla eru því oft ansi yfirborðskennd og það sem verra er; hann býr ekki yfir þeim dýrmæta eiginleika að hlusta.
Þátturinn Laugardagskvöld með Gísla Marteini líður fyrir það að gestirnir koma til að sýna sig en fá ekki að segja neitt merkilegt. Hann gæti alveg eins heitið „Séð og heyrt í sjónvarpinu“ og óvíst hvort þotuliðið er sólgnara í að koma fram eða áhorfendur æstari í að berja það augum. Eftir að þáttastjórnandinn hefur lofað útlit og hæfileika gestanna hefst almennt hjal sem stendur oftast stutt yfir. Tónlist tekur við, síðan kemur næsti gestur og sami leikurinn endurtekur sig. Þáttur Sigríðar Arnardóttur, Fólk á Skjá einum, á margt sameiginlegt með Laugardagskvöldi en þar ráða dramatík og auglýsingamennska ríkjum í bland við gleðilæti. Öðru máli gegnir um þáttinn Út og suður sem lauk göngu sinni fyrir stuttu og er einskonar spjallþáttur. Viðmælandinn er oftast einhver sem áhorfendur þekkja lítið eða ekki og er jafnvel utan af landi! Þar er ekkert „sett“ heldur fara tökur fram úti undir berum himni eða á heimavelli viðmælendanna og það sem gerir gæfumuninn; viðmælandinn er í brennidepli – ekki spyrillinn.
Steinunn Inga Óttarsdóttir
Lesbók Morgunblaðsins, 4. september 2003