Ár apans

Áramótaþáttarins Kryddsíldar á Stöð tvö er jafnan beðið með nokkurri óþreyju á heimilum landsmanna en þátturinn hefur fest sig í sessi sem árviss sjónvarpsviðburður á gamlársdag. Þar sitja helstu stjórnmálakarlmenn landsins jakkaklæddir, dreypa á mexíkóskum bjór og narta í alíslenska síld meðan þeir ræða landsmálin – í  bróðerni framan af en er líða tekur á þáttinn og ölið verða menn herskáir, tala hátt og grípa fram í hver fyrir öðrum. Meðal umræðuefna voru launakjör þingmanna og það var bæði óvænt og skemmtilegt að heyra Magnús Þór Hafsteinsson sem nýlega hóf þingmennsku fyrir frjálslynda lýsa því  að það hafi komið honum á óvart hve kaupið væri gott og hlunnindin sem fylgdu starfinu margvísleg. Málið var ekki rætt frekar og myndavélinni beint snarlega í aðra átt. Forsætisráðherrann kemur yfirleitt of seint í þáttinn en upptökur á áramótaávarpi hans í sjónvarpinu fara jafnan fram á gamlársdag. Kringum síðbúna komu hans skapast mikil eftirvænting enda byrjar fjörið ekki almennilega fyrr en þá. Þegar ráðherra loksins kom lék hann als á oddi enda þekktur fyrir spaugsemi þegar sá er gállinn á honum. En það fór ekki framhjá sjónvarpsáhorfendum að ráðherra móðgaðist  þegar hann var spurður út í bankamál sín, þ.e. aðild að stofnfélagi Spron og margumrædda úttekt á 400.000 krónum úr KB-banka. Hann svaraði með skætingi og ásakaði fjölmiðla fyrir að koma fram við sig eins og hann hefði keypt hlut í klámbúllu en ekki tekið þátt í stofnun sparisjóðs fyrir orð vinar síns forðum. Og margur hugsaði svo með sér að ef upphæðin sem ráðherra  tók út úr KB-banka í fússi er það sem honum hefur tekist að spara saman á síðastliðnum árum væri ekki nema von að nauðsynlegt hafi þótt að breyta eftirlaunalögunum. Það er ár apans.

Nýja árinu fylgja jafnan fögur fyrirheit. Líkamsræktarstöðvarnar róa á gjöful mið og auglýsa árskortin sem aldrei fyrr. Nú þykir enginn maður með mönnum nema hann æfi a.m.k. þrisvar í viku í einhverri virtri stöð, helst Laugum þar sem er séraðstaða fyrir þá sem hafa efni á dýrari þjónustu og sérstökum munaði. Í líkamsræktarstöðvum landsins þrammar fjöldi fólks á vélknúnum hlaupabrettum með heyrnartól í eyrum og sjónvarpsrásir fyrir augum, lyftir lóðum og hoppar á pöllum við dúndrandi tónlist –  í nafni hollustu og fegurðar. Fjölmiðlar styðja markaðsöflin í að blása út heilsuímyndina; greinar og viðtöl um heilsurækt og hreyfingu birtast daglega í blöðum og sjónvarpi og í auglýsingum sést bara ungt, grannt, stinnt og fallegt fólk. Á alheimsnetinu fyrirfinnast ótal vefir og slóðir um frumskóga mataræðis, megrunar og magaæfinga enda varla nokkur maður (les: kona) gjaldgengur í nútímasamfélagi nema útlitið sé í lagi samkvæmt Evrópustöðlum. Varla er minnst á hreyfingu eins og hressandi gönguferð, skokk um hverfið eða sundsprett í laugum borgarinnar enda skilar slíkt sport ekki krónu í veltu heilsumafíunnar. Nú er ár apans.

Svínasúpan er gamanþáttur á Stöð 2 sem hóf göngu sína á nýja árinu. Skemmtiatriðin ganga út á furður, afkárahátt og ýkjur, aulagang og neyðarlegar uppákom; pípulagningamaður nokkur finnur ekki álfinn sinn, lögreglan stöðvar bílstjóra með valdsmannslegum tilburðum til að spyrja hann hve lengi eigi að harðsjóða egg og sallarólegur verkamaður gengur nokkra kílómetra til að ná í tommustokk fyrir félaga sinn sem er svo með hann í vasanum þegar betur er að gáð, ha ha, ha. Nú er Haukurinn fráni hættur á Rás tvö og ógnar valdsmönnum ekki lengur með hárbeittri ádeilu og beisku gríni. Það mæðir því meira á Spaugstofunni að uppfylla hlutverk spéspegils samfélagsins þar sem atburðir eru skoðaðir í skoplegu ljósi, forystumenn þjóðarinnar spottaðir og bitur raunveruleikinn gerður bærilegur. Svínasúpan leitast ekki við veita stjórnvöldum og fjölmiðlum viðnám og aðhald eins og Haukurinn, Spaugstofan og Áramótaskaupið gera. Þar ráða fáránleikinn og lágkúran ríkjum. Ár apans er jú gengið í garð.

Steinunn Inga Óttarsdóttir, 4 .janúar 2004

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s