„Þetta er ei annað en eins manns sjóferðaskrif“ Um íslenskar ferðasögur frá upphafi til 1835

Eftir Steinunnni Ingu Óttarsdóttur (1996)

…Til að vernda sig gegn sírenunum tróð Ódysseifur vaxi í eyrun og lét njörva sig við mastrið. Eitthvað þessu líkt hefðu allir ferðamenn auðvitað ætíð getað gert, nema þeir sem sírenurnar heilluðu úr mikilli fjarlægð, en það var kunnugt um allan heim að þetta gat engan veg­inn hjálpað. Söngur sírenanna smaug í gegnum hvað sem var og ástríða hinna táldregnu var meira en nógu öflug til að sundra hlekkj­um og mastri. En Ódysseifur leiddi ekki hugann að þessu þótt hann hafi ef til vill heyrt um það. Hann treysti algerlega á handfylli af vaxi og keðjuhönk, og í saklausri ánægju með þennan búnað hélt hann til móts við sírenurnar…

                                                                                        Franz Kafka

Efnisyfirlit

„Vegir í þoku“                                                                                                       

1.      Vegvísar og persónuleg landsýn                                                                         

2.      Leitin, tengsl við rómönsu                                                                                       

3.      „Slides“-mynd höfundarins                                                                                  

4.      Frá Heródótusi til Dampiers og félaga                                                               

5.      Syndaselir. Fyrstu íslensku ferðasögurnar                                                      

              Farablóm Gizurar Hallssonar                                                                            

              Rómferillinn Nikulás Bergsson                                                                        

              Reisubókarkorn Björns Jórsalafara                                                                  

6.      Af skessilegum þjóðum. Landafræðirit og þýddar ferðasögur                           

7.      Tvær ferðasögur um Ísland 1664 og 1709                                                             

8.      Mikilvægur músarindill. Ferðabækur um Ísland á átjándu öld                            

              Ferðabók Eggerts og Bjarna                                                                              

              Ferðabók Ólafs Olaviusar                                                                                    

              Ferðabók Sveins Pálssonar                                                                                

9.      Ferðasögur utanlands frá sextándu og sautjándu öld                                          

              Séra Ólafur Egilsson, íslenskur Job                                                                   

              Týndir sauðir. Halldór Jónsson og Einar Loptsson                                         

              Hálft epli. Um Jón Ólafsson Indíafara                                                                 

              Ofstopamaðurinn Ásgeir Sigurðsson                                                                  

10.    Þrjár ferðasögur frá átjándu öld                                                                              

              „Eins manns sjóferðaskrif“ Reisubók Eiríks Björnssonar víðförla                     

              „Blandt úlfa og löver“ Ferðasaga Árna Magnússonar frá Geitastek               

              Af íslenskum Gúllíver og Ódysseifi                                                                     

              Jarðarber með rjóma. Stokkhólmsrella Hannesar Finnsonar                            

11.    Þrjár ferðasögur frá fyrsta fjórðungi nítjándu aldar                                                 

              Magnús Stephensen í nærmynd                                                                          

              Sigurður Breiðfjörð, beykirinn beiski                                                                 

              Föðurlandsvinurinn sr. Tómas Sæmundsson                                                  

Á vegamótum                                                                                                                 

Heimildir                                                                                                                        

Háskóli Íslands, október 1996

Ritgerð til M.A.-prófs í íslenskum bókmenntum 05.42.58–916

Leiðbeinandi Matthías Viðar Sæmundsson

Ferðasögur, ferðabækur, reisubók, sjálfsævisaga, eistaklingsvitund, aldarspegill, skilgreining á ferðasögu og ferðabók, Bakthín, Barthes, Derrida, Foucault

„Vegir í þoku“

Hvar sem maðurinn fer skilur hann eftir sig slóð af orðum. Sérstæð lífsreynsla ferðalangs á ókunnum stigum er ávallt í frásögur færandi og þeir sem ekki hleypa heimdraganum drekka orð hans í sig. Sú orðaslóð sem umbreytir atburðarás ferðalags í ævintýr og staðreyndum í sögu heyrir til því sviði bókmennta sem kennt er við ferðasögur. Þær hafa frá aldaöðli tekið á sig margskonar myndir og verið afar sundurleitar að allri gerð. Samfelld saga ferðabók­mennta hérlendis frá öndverðu til vorra daga hefur ekki verið rituð ennþá en upphaf ferða­sagnaritunar má tímasetja á seinni hluta tólftu aldar með stuttri leiðarlýsingu Nikulásar ábóta og glataðri ferðabók Gizurar Hallssonar lögsögumanns. Engar íslenskar ferðasögur hafa varðveist heilar frá fimmtándu og sextándu öld en til eru glefsur úr reisubók Björns Jórsala­fara og snubbóttar minnisgreinar Gizurar biskups Einarssonar. Á sautjándu öld voru ritaðar fjórar ferðasögur sem varðveist hafa en vitað er um a.m.k. fimm texta til viðbótar sem nú eru glataðir. Ritun fræðilegra ferðabóka hófst í kjölfar upplýsingarinnar á átjándu öld og þá voru líka skrifaðar nokkrar merkar ferðasögur sem greina frá utanferðum einstaklinga. Á nítjándu öld hafði skriðunni verið hrundið af stað, hróður ferðasagna jókst jafnt og þétt og um alda­mótin síðustu var fjöldi þeirra orðinn gríðarlegur. Á eftirfarandi töflu má sjá yfirlit yfir íslenskar ferðasögur á því tímabili sem hér er til umfjöllunar (—> 1835).

     

Alls eru þetta um tuttugu ferðasögur og -bækur af ýmsu tagi frá þessu tímabili. Margvísleg atriði má skoða til að skýra form og eðli ferðasagna, s.s. ástæður fyrir brottför höfundar og skrifum hans, hlutlægni og huglægni, heimsmynd, frásagnarhátt og lýsingartækni, mál og stíl og leitarminni. Verður vikið að þessu hér á eftir auk þess sem kastljósinu er beint að hin­um sérlega heillandi „ævifleygum“ eða persónulegum munum í textanum og ýmiskonar útúr­dúr­um sem geta varpað nokkru ljósi á tilfinningar þeirra sem skrifa, hugarheim þeirra og við­horf. Tékkneski rithöfundurinn Milan Kundera hefur haldið því fram að mannkynið fet­aði lífsins veg eins og í þoku.[1] Hver kynslóð mjakast sína leið og sér aðeins stuttan spöl fram á veginn. Þegar nútímamaður lítur um öxl til að grennslast eftir fólki sem var uppi fyrir mörg­um öldum hefur hann svo góða yfirsýn að hætt er við að hann sjái enga þoku á vegi þess. Þær „reisandi persónur“ fyrri alda sem hér hefur verið safnað saman voru hvorki blindar né fálmandi í myrkri. En þær sáu vitaskuld ekki inn í framtíðina sem nú er orðin okkar heldur voru umluktar þokuhulu samtíma síns. Það má ekki gleymast þegar fengist er við orðræðu forfeðranna á gulnuðum og skrjáfandi blöðum. Að öðrum kosti getum við aldrei sett okkur í spor fyrirrennaranna – ekki endurgert í huga okkar eitt augnablik af lífi þeirra eða dauða.

Ferðalag úr heimahögum til ókunnra staða er ávallt merkilegur viðburður í lífi hvers manns. Þegar ferðalangur sneri aftur úr langreisum sagði hann sögur af svaðilförum sínum. Stund­um gengu ferðasögur í munnmælum milli kynslóða. Eftir því sem aldir liðu varð æ algengara að menn hripuðu niður ferðasögu sína. Það er eins og einhverskonar löngun til þess að festa sjálf­an sig á blað hafi orðið sífellt áleitnari í tímans rás, eins og einhver vitund um sjálf, sögu og samtíma væri að koma til skjalanna. Víst er að ef íslenski bóndinn Árni Magnússon frá Geitastekk hefði ekki skrifað ferðasögu sína seint á átjándu öld væri hann fallinn í gleymsk­unnar dá fyrir langalöngu. Vísbendingar um þessa „vitund“ í textum ferðalanga frá fyrri öld­um vöktu upphaflega áhuga minn á ferðasögum. Raunveruleiki ferðasagnanna finnst mér ekki síður spennandi. Hann felst m.a. í sannsögulegum lýsingum á köldum og hráblautum vistar­verum á löngum sjóferðum, skyrbjúg, sjóveiki og dauðabeyg þeirra sem unnu hættu­leg störf um borð. Þessi raunveruleiki hafði ekki átt erindi inn í bókmenntir fyrr en með ferða­sög­unum og kallaði á ný efnistök og nýjan orðaforða. Nýir höfundar komu til sögu og marg­ar ferðasögur eru dæmi um alþýðlega frásagnarlist. Ferðasögur sækja kraft sinn m.a. í nálægðina við raun­veruleika og hlutkennda nútíð þar sem reynsla einstaklings verður til sem sögu­efni í rúmi og tíma. Rússneski bókmenntafræðingurinn Bakhtin notaði hugtakið „krónó­tópa“ um það þegar rými texta verður hlutkennt og áþreifanlegt, fyllt af raunveruleg­um eða efnislegum tíma. Hugtakið lýsir eðli ferðasagna mjög vel því þar má sjá manninn skoða og skilgreina sjálfan sig í veruleika eigin samtíma. Innan „krónotópu vegarins“ er það ekki aðeins markmið ferð­ar, upphaf hennar eða endalok sem skipta mestu máli heldur upp­lifun ferðalangsins á leið sinni, sýn hans á sjálfan sig og umheiminn. Persónuleg tjáning og sköpun eigin sjálfs í texta er viðfangsefni sjálfsævisögunnar en í ferðasögum má greina aug­ljós áhrif hennar. Mörkin milli þessara bókmenntagreina eru oft býsna óskýr. Mjög er mis­munandi hversu sjálfhverfur texti ferðasagna er en segja má að á meðan höfundarnir skoða sig um í heiminum taki lands­lag sjálfsins á sig mynd. Ferðalangarnir fara yfir landamæri í tvennum skilningi, landfræði­legum og persónulegum. Lýsingar á ytra umhverfi veita innsýn í persónuleikann, rannsóknir á umhverfi og samtíma varpa ljósi á sjálfan höfundinn. Þannig geta ferðasögur verið brot af sjálfsævisögu um leið og þær eru einskonar aldarspegill, ágæt heimild um hugsunarhátt manna fyrr á tímum.

Ferðasögur hafa ekki notið mikillar virðingar sem bókmenntir á umliðnum öldum og fræði­menn hafa sinnt þeim lítið. Á síðastliðnum áratug hefur þetta breyst eftir því sem áhugi manna hefur aukist á öðrum hliðum bókmenntasögunnar en þeirri sem snýr beinlínis að hámenn­ingunni. Sagnfræðingum og bókmenntafræðingum hefur orðið æ betur ljóst að upp­lýs­ingar um það sem fólk gerði sér til afþreyingar og skemmtunar fyrr á tímum geta gefið jafn­góðar vísbendingar um mannkynssöguna og vísindauppgötvanir eða forn skjöl og dóm­ar. Tómas Sæmundsson segir í Ferðabók sinni um varðveislu fornmuna: „[…] allt hvað for­feð­ur vorir hafa um fjallað byrjar að vera oss heilagt. Því skyldum vér dirfast að eyðileggja hvað tíðin hefur gengið í berhögg við? Það segir oss allt saman frá einhvörju háttalagi eður aðferð forfeðra vorra betur en nokkur ræða er fær um“.[2] Öll þekking á lífi og starfi forfeðr­anna er mikils virði. En heimildir fortíðarinnar um fólk fyrr á öldum gefa yfirleitt óljósa mynd af einstaklingnum sjálfum. Sjaldnast er hægt að segja fullkomna sögu ef eingöngu á að styðjast við þá orðræðu sem varðveist hefur í fornum skjölum, pappírum og handritum. Textasafn fortíðarinnar er misjafnt að gæðum en það er samt það eina sem er handbært. Það einkennist af götum, fleygum og eyðum sem er hægt að fylla að nokkru leyti með túlkun og ímyndunarafli sem gerir manni kleift að „lesa“ meira um fólk en ella út úr portrettum eða ljósmyndum, dag­bók­um, bréfum eða öðrum textum sem menn skilja eftir sig. Hið óþekkta er tengt við hið þekkta til að brúa bilið milli fortíðar og nútíðar. Þetta er í raun­inni sama að­ferð og notuð er við að endurgera höfuðkúpur apamanna eftir milljón ára gömlum brotum eða draga upp grunnmynd af híbýlum forfeðranna út frá moldugum fornleifum. Aðferðin er hér heimfærð upp á bókmenntirnar með því að beina athygli að sjálfsmynd, hugarheimi og heims­sýn þeirra sem skrifuðu ferðasögur.

1. Vegvísar og persónuleg landssýn

Ferðafrásagnir, -bækur, -sögur eða -lýsingar[3] eiga að baki aldalanga þróun og rætur þeirra liggja djúpt í menningarjarðveginum. Innan ferðabókmennta má finna fjölbreyttar og ólíkar tegundir eins og leiðarbækur, ferðakvæði og -ljóð, ævisögur og endurminningar, bréfasöfn, dagbækur, landlýsingar og fræðibækur. Fjöldi ferðabóka í heiminum skiptir þúsundum og ótal ferðalangar hafa skrifað ferðasögu, haldið dagbók eða hripað niður minnisverð atriði úr ferðum sínum og annarra. Óþrjótandi vinsældir ferðasagna meðal fjölda lesenda í gegnum aldirnar eiga sér margvíslegar skýringar og tengjast náið eðlislægri ævintýraþrá mannsins, fróðleiksþorsta, eirðarleysi og óseðjandi löngun í nýjungar. Í ferðasögum er umhverfið ýmist gert kunnuglegt eða framandi, menn geta skoðað sig um heima og heiman með nýjum augum, augum annarra. Ferðasögur bjóða lesendum sínum inn í heillandi heima sem annars væru utan seilingar og það að lesa góða ferðabók kemst kannski einna næst því að ferðast sjálfur. Afmörkun ferðasagna, flokkun þeirra og skilgreining er nú orðin svo flókin að fræðimenn reyta hár sitt og skegg í örvæntingu. Til að bæta gráu ofan á svart er ferðin sjálf grundvallarminni eða -tákn í bókmenntum og daglegu lífi.[4] Það gerir skilgreininguna enn vandasamari. Þó held ég að allir geti fallist á að ferðasaga sé samtímafrásögn í lausu máli sem greini frá sögulegu eða raunverulegu ferðalagi höfundar.

Í Evrópu eru ferðasögur gjarnan skilgreindar eftir efni. Fyrst er að nefna svokallaðar leiðar­bækur (guide books) sem eru hlutlægar leiðarlýsingar með myndum eða kortum, þá frásagn­ir af ferðalögum á landi (t.d. gangandi, á hestbaki, í vagni) og loks frásagnir af sjóferðum en sá flokkur er langstærstur og vinsælastur. Þessi flokkun hentar ekki fyrir íslenskar ferða­sögur þar sem þær eru af öðru tagi. Stundum eru evrópskar ferðasögur flokkaðar út frá forminu á eftirfarandi hátt: 1) ferðabréf sem voru mikið skrifuð og gefin út til loka sautjándu aldar, 2) dagbækur eða skipsbækur (journal) sem enn þann dag í dag eru vinsælasta og al­gengasta form ferðasagna, 3) frásagnir í fyrstu eða þriðju persónu með innskotum og útúr­dúrum (endurminningar); 4) annað form, s.s. hlutar af sjálfsævisögu eða ævisögu og ljóð.[5] Svo bætast við ýmsar formlegar tískusveiflur í þessum bókmenntum eins og öðrum sem ekki verða tíundaðar hér. Ég hallast að því að flokka eftir framsetningarhætti eða sjónarhorni og gera greinarmun á ferðabókum og -sögum í þessu sambandi. Fyrri flokkinn fylla ferða­bækur sem byggjast fyrst og fremst á hlutlægum athugunum þar sem sagt er frá náttúru við­komandi landa, menningu og þjóðháttum. Höfundur slíkrar hlutlægrar ferðabókar greinir þá frá því sem fyrir augu og eyru ber og reynir að gera það án þess að túlka á persónulegan hátt. Textinn er þá nánast eins og orðuð ljósmynd af náttúru og mannlífi en persónulegri upplifun höfundar er haldið í lágmarki. Íslensk dæmi um þetta eru ferðabækur Ólafs Olav­iusar, Eggerts og Bjarna og Sveins Pálssonar sem ég kynni nánar síðar. Í hinum flokknum eru ferðasögur þar sem áhersla er lögð á huglæg áhrif sem höfundurinn verður fyrir á ferð­um sínum, túlkun hans og reynslu en minni rækt er lögð við hlutlægar lýsingar. Tómas Sæmundsson segir að þær eigi „að bera með sér þær tilfinnanir, sem hlutirnir á hvörjum stað gjöra á þess sálu sem sér“.[6] Í hefðbundinni ferðasögu er í byrjun rætt um tildrög ferðar og ástæður fyrir brottför og skrif­um. Síðan er það sem höfundinum þótti markverðast úr ferð­inni rakið með persónulegum hætti í tímaröð og endað á farsælli heimkomu með lofgjörð til Guðs. Hér má nefna reisubók Eiríks Björnssonar víðförla frá seinni hluta átjándu aldar sem rakið dæmi. Ferðabók Árna Magnússonar frá Geitastekk frá svipuðum tíma er einnig gott dæmi um huglæga ferðasögu en Árni fylgir þó ekki þessari hefðbundnu forskrift því hann er óvana­lega huglægur og sjálf­hverfur miðað við samtímarithöfunda.

Breski fræðimaðurinn Charles L. Batten (1978), sem hefur sérhæft sig í ferðasögum átjándu aldar, skiptir ferðasögum í tvennt á svipaðan hátt og að framan greinir en notar önnur hugtök og gerir ekki greinarmun á ferðabók og -sögu. Í fyrsta lagi eru ferðabækur sem innihalda athuganir ferðalangsins og alfræðilegar lýsingar (observations). Pílagrímahandbók Nikulásar ábóta er dæmi um íslenska ferðabók af þessum toga. Í öðru lagi eru ferðasögur sem innhalda það sem kalla mætti „hófsamar og frumlegar“ vangaveltur ferðalangs (reflections) sem tengj­ast ýmsum sviðum eins og heimspeki, fagurfræði, siðfræði eða stjórnmálum. Séra Tómas Sæmundsson gengur lengst íslenskra ferðasagnaritara í þessa átt. Fyrri frásagnargerðin (observations) fæst við staðreyndir en sú síðari (reflections) fæst við tákngildi staðreynd­anna, þ.e. það sem þær þýða eða merkja.[7] Hollenski rithöfundurinn og ferðalangurinn Ces Nootebom sagði á bókmenntaþingi í Norræna húsinu 15. september 1995 að grundvallar­munur væri á ferðasögum eftir því hvort þær væru epískar eða lýrískar. Í epískri ferðasögu veit lesandinn hvert stefnir og hvenær sagan er öll en í lýrískri ferðasögu er áfangastaðurinn óákveðinn. Þessi skipting í hlutlægt og huglægt, athuganir og vangaveltur, epískt og lýrískt hentar íslenskum ferðasögum að mörgu leyti ágætlega og því verður stuðst við hana hér. Afstöðu þessara hugtaka innbyrðis má skýra frekar á mynd:

hlutlægni —>Ferðabækur <—> Ferðasögur <— huglægni
 (observations)       (reflections) 
 epík – textahefð 
 lýrík – nýsköpun 

Í raun og veru er einföld skipting eins og þessi sjaldnast alveg skýr. Hlutlægar ferðabækur geta miðlað almennum fróðleik á persónulegan hátt og í huglægri ferðasögu getur farið ótrú­lega lítið fyrir persónulegri reynslu höfundar. Athuganir og vangaveltur, epískt og lýrískt geta hæglega runnið saman í einum og sama texta. Þessi hugtök eru aðeins til viðmiðunar, einskonar vegvísar í þokunni sem hjálpa hinum villuráfandi að ná áttum.

Ferðasögur hafa verið gagnrýndar fyrir að vera ekki fagurbókmenntir. Sú gagnrýni á ef til vill rætur að rekja til máls og stíls sem njóta sérstöðu í ferðasögum. Til eru fjálglegar ferða­sögur í lærðum stíl og með löngum latínutilvitnunum. En margar ferðasögur eru einfaldar, stirðlegar og jafnvel einhæfar á köflum. Liðfellingar eru algengar, orðaforði takmarkaður og frumstæður og setningafræðin laus í reipunum, enda höfundarnir ekki alltaf orðhagir og skáldmæltir. Margir ferðasagnahöfundar voru lítt menntaðir á bókmenntalegu sviði auk þess sem algengt var að sagan væri upphaflega skrifuð fyrir skúffuna og aldrei ætlað að fara í prentun. Þetta tengist einnig því að sögumaður hefur upplifað atburðina sjálfur. Hann er persóna í sögunni en ekki höfundur hennar í þeim skilningi að hann hafi skáldað hana. Sagan hefur því völdin en ekki höfundurinn. Skrifin eru einskonar framlenging eða framhald af þátttöku í raunverulegum atburðum og þjóna jafnvel þeim tilgangi að verja þann sem skrifar eða veita honum fullvissu um samhengi eða tilgang í lífinu. Eða eins og einn góður maður sagði: „There is a difference between writing for your life and writing for your living“.[8] Fjölbreytni í stílgerðum ferðasagna er nokkur enda höfundarnir af ólíku bergi brotnir. Þeir skrifa fyrir mismunandi áheyrendahópa, hafa ferðast um ólík lönd eða land­svæði og orðið fyrir ólíkum áhrifum. Oft ber mikið á erlendum máláhrifum í ferðasögum en ferðalangar lærðu gjarnan hrafl í tungumáli viðkomandi lands á ferðum sínum og slettu því óspart. Þetta má glögglega sjá í íslenskum ferðabókum, t.d. reisubók Jóns Indíafara þar sem greina má áhrif frá ensku, dönsku og þýsku. Ferðasögur Árna frá Geitastekk og Eiríks víð­förla eru mjög dönskuskotnar enda voru þeir báðir búsettir í Kaupmannahöfn um áratuga skeið. En þessir „annmarkar“ – sem mér finnast reyndar heillandi – eru ekki mikilvægir. Það er ekki endilega fallegt mál eða listrænn stíll sem lokkar lesendur að ferðasögum. Það eru fyrirbæri eins og stefnumót ólíkra menningarheima í huga ferðalangsins, sjálfsskilningur höfundarins sem birtist vel á ferðalagi um torkennilega veröld, hann sjálfur sem maður sem einu sinni var til og sú innsýn sem hann veitir í tíma sem er löngu liðinn.

Hinn breski Batten nefnir í riti sínu nokkrar óskráðar „reglur“ sem höfundar ferðabókmennta á Englandi urðu að hafa að leiðarljósi allt til loka 18. aldar til þess að brjóta ekki í bága við hina aldalöngu hefð bókmenntagreinarinnar. Reglur þessar kveða t.d. á um að ekki megi tala um sjálfan sig í ferðabókmenntum heldur eigi sögumaður (í 1. persónu þó) að vera baksviðs og miðla sýn sinni til lesenda vafningalaust. Framsetning efnis á að vera skýr og skipuleg í einföldum stíl og lýsa á því sem er nýstárlegt. Efnið á að höfða til hins almenna lesanda og vera bæði skemmtilegt og fræðandi. Síðast en ekki síst átti ferðasagan að vera sönn.[9] Ég lít svo á að þessar reglur geti gilt t.d. um ferðabækur og landlýsingar þar sem reynt er að gæta ýtrustu hlutlægni eftir því sem það er hægt. Um huglægar ferðasögur gegnir öðru máli, a.m.k. hvað varðar stöðu höfundarins í verkinu. Sjálfsævisöguleg rit eins og endurminn­ingar og dagbækur innihalda oft ferðalýsingar af einhverju tagi og ekki er hægt að ætlast til að þar sé höfundurinn annarsstaðar en í miðju frásagnarinnar. Íslendingar hófu að rita sjálfs­ævisöguleg verk á fyrri hluta sautjándu aldar og framan af var nær eingöngu um ferðasögur að ræða. Menn sem höfðu farið utan og kynnst öðrum þjóðum skrifuðu um reynslu sína út frá eigin sjónarhóli, ýmist í anda hefðarinnar eða á nýjan hátt. Hvora aðferðina sem menn nota er sjálfsævisöguleg landsýn ferðalangsins oftast ríkjandi í íslenskum ferðasögum. Völ­undur Óskarsson hefur orðað þetta svo fallega: „Ferðin, eins og lífið sjálft, er öðrum þræði leit manns að uppruna sínum. Hún á upptök sín í hvikulum hugmyndum hans um sjálfan sig og hlutskipti sitt, en er jafnframt knúin áfram af óeirð og óslökkvandi forvitni um það sem er framandlegt. Því fara gjarnan saman ferðalög á framandi slóðir og sterk sjálfsvitund“.[10] En þótt líta megi á huglægar ferðasögur sem brot af spegilmynd einstaklings eru þær ekki sjálfs­ævisögur í eðli sínu. Sjaldnast er um samfellda lýsingu á ævi og þroskaferli viðkomandi að ræða heldur eru ferðir, samferðamenn og áfangastaðir í brennidepli. Persónuleiki sögu­mannsins virðist oftast nær hulinn sjónum lesenda meira eða minna en lýsing persóna, atvika, landslags og staðhátta er sett á oddinn. Almenna lesendur ferðasagna á átjándu öld fýsti lítt að gægjast í sálarkirnur höfundarins. Þeir vildu fræðast á skemmtilegan hátt um spennandi viðburði og heiminn í kringum þá, hafa í senn gagn og gaman af ferða­sögunni (utile-dulci[11]). Upplýsingarforkólfurinn Magnús Stephensen kunni að setja „gagn og gam­an“ saman í pakka og nýta í þágu málstaðar síns. Hann lét prenta tvær þýddar ferðasögur í bókinni Utvaldar Smá-Søgur, Almenníngi til Fróðleiks og Skemtunarr sem var gefin út á ár­unum 1822–3. Tilgangur rits Magnúsar var að bjóða mönnum í senn skynsamlega dægra­dvöl og góðar bókmenntir sem upplýstu menn og kenndu þeim „að þeckja og vegsama For­sjónar­innar dásamlegu stjórn og ráðstafanir um allann vorn Jarðarhnøtt“ eins og segir í for­mál­anum. Seinna tók Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson í þennan sama streng en hann vildi láta birta í tímariti þeirra félaga „útdrátt úr ferðasögum eður þvílíku, sem orðið gat al­menn­ingi undir eins til fróðleiks og skemmtunar…“.[12]

Ferðasögur einkennast af spennu milli hlutlægni og huglægni, hins persónulega og þess ópersónulega, hugarflugs og staðreynda, fróðleiks og skemmtunar, veruleika og tungumáls. Á miðöldum og langt fram á átjándu öld voru menntamenn einskonar fjölfræðingar sem voru vel að sér á flestum sviðum vísinda. En eftir því sem vísindunum fleygði fram og þörfin fyrir sérhæfingu varð meiri þróaðist ferðasagnaritun frá náttúru- , landa- og þjóðháttafræðum til eigin upplifunar á atburðum ferðarinnar. Á seinni hluta miðalda í Evrópu töldu menn að skrúðlaus, flýtislegur, jafnvel stirðbusalegur stíll ferðasögu benti til þess að sagan væri sönn. Smátt og smátt urðu allskonar tilþrif í frásagnarhætti ferðasagna algengari, innskot og útúrdúrar komu til sögu og jafnvel tók að brydda á skáldlegum tilhneigingum eins og t.d. sviðsetningu samtala. Þegar hlutlægni varð að láta í minni pokann fyrir huglægri frásögn, sem kannski var sögð með listrænum hætti, gátu lesendur ekki lengur treyst því í blindni að sagan væri sönn og uppbyggileg. Ferðasögum hefur jafnan fylgt krafa um sannleik jafnvel þótt menn hafi kannski gert sér grein fyrir því að þær gætu úrelst næsta hratt þar sem lönd og lýðir breytast með degi hverjum, sbr. ummæli Tómasar Sæmundssonar um þessi efni: „[…] reisubækur, þær hljóta alltaf að vera einhvörrar tíðar fóstur, og geta svo framarliga sem tíð­inni gengur áfram, ekki haldið lengur gildi eður verið áreiðanligar. Hvað innihaldið áhrærir, geta þær trauðliga verið vélarit“.[13] Í uppbyggilegum ferðasögum er greint frá raunverulegum ferðum sem byggðu á sannleikanum. En sannleikur ferðasagna er afstæður eins og annar sannleikur, mörkin milli veruleika og ímyndunar eru oft óljós. Ferðasögur standa frammi fyrir sömu togstreitu milli raunveruleika og skáldskapar eins og skáldsögur. Skyldleiki þess­ara bókmenntagreina verður alveg skýr á þessum tímamótum því höfundur sem fellir brot úr lífi sínu í form ferðasögu getur leitað á náðir sömu orðræðu og höfundur sem fellir heim sinn í form skáldsögunnar.

Séra Jón Prímus í Kristnihaldi Halldórs Laxness taldi að ekki væri hægt að fanga veruleik­ann í net orðanna: „Saga er einlægt eitthvað allt annað en það sem hefur gerst…“ sagði hann.[14] Í ferðasögum takast veruleiki og tungumál á – spennan milli orða og hluta verður nánast óbærileg. Ferðamaður sem er einn i ókunnu landi kallar yfir sig sjálfskapaða einsemd sem krefst nýrrar sýnar á hlutina, nýs tungumáls. Áherslan er á það sem er framandi, borið saman við það sem er kunnugt. Þegar furður ber fyrir augun þjóna átthagarnir hlut­verki mið­stöðvar mælinga og samanburðar, nálgunar og gilda. Ferðalangar fjarlægrar fortíð­ar eiga í mesta basli með að leiða þeim sem heima sitja reynslu sína fyrir sjónir þar sem hún er ein­stakl­ings­bundin, óvenjuleg og svo glæný að gömul hugtök ná tæpast yfir hana.

Hefðbundin ferðasaga stefnir jafnan fram á við frá byrjunarreit til endastöðvar. Vanalega er bæði staldrað við og hlaupið yfir í frásögninni auk þess sem útúrdúrar koma gjarnan fyrir. Ósjaldan eru það einmitt slíkir krákustígar sem gefa sögunni gildi, krydda hana og gera hana persónulegri. Oft glittir meira í persónu höfunda í ferðasögum en þeir sjálfir kannski ætluð­ust til. Þótt menn haldi sér til hlés í frásögn sinni er oftast auðvelt að koma auga á þann sem segir frá með því að leita uppi „persónulega muni“ í textanum, einskonar undarleg aukaatriði sem skera í augun (sjá nánar hér á eftir). Auðvitað kemur mismikið fram um höfundinn sjálf­an í ferðasögum eins og í öðrum textum. En í vali höfundarins á því hverju hann segir frá eða kýs að þegja yfir og í því hvernig hann segir frá eða þegir má greina útlínur persónuleika og einstaklingsvitundar, smekks og tilfinninga sem varpa ljósi á manneskjuna sjálfa. Þannig má kynnast ferðalangnum betur, þekkja hann og skilja og öðlast innsýn inn í samtíma hans um leið. Hugtakið „samtími“ er einmitt afar mikilvægt þegar litið er til ferðasagna hér á landi á sautjándu og átjándu öld. Ferðasögurnar færðu lesendum sínum eða áheyrendum samtím­ann á silfurfati, nokkuð sem þeir þekktu ekki áður úr bókmenntum. Þær buðu upp á nýjan bókmenntalegan tjáningarmöguleika þar sem raunsæi og hvunndagur, samtíðni og forvitni voru á borð borin. Hversdagleg viðfangsefni eins og dagleg störf áttu nú erindi á blað, líkamsraunir eins og hungur, þorsti og skyrbjúgur komu við sögu og stundum tæptu menn á tilvistarvanda sínum, einmanakennd eða ótta. Einhverskonar sjálfsvitund var að verða til, einhver óljós vissa um sérstöðu og siðferðilega valkosti. Sumar ferðasögur einkennast af upptalningu staðreynda eða eru aðeins endurtekning. Þær geta verið ópersónuleg (eða persónuleg) tilvísun til eldri rita um sama efni þar sem sótt er til hefðbundinna forma eins og helgi- og píslarsagna eða játninga og þjóðsagna. Aðrar einkennast af því viðhorfi að venju­leg, raunveruleg manneskja sé sögulegur einstaklingur og að samtíð hans skeri sig úr. Einna greini­legast verður þetta einkenni í íslenskum ferðasögum á tímum upplýsingarinnar hér á landi þegar manneskjan verður til sem viðfangsefni bókmenntanna.

2. Leitin, tengsl við rómönsu

Ferðasögum hefur löngum verið skipað á bekk með óskáldlegum textum og umfjöllun um þær verið ætluð landfræðingum og sagnfræðingum. Hefðbundin bókmenntasaga hefur litið á ferðabækur sem jaðarbókmenntir og getið þeirra að litlu eða engu. Efni og form ferðasagna hefur verið álitið sama eðlis og svokallaðra óæðri bókmennta (low genres): flæðandi og hverfull samtími, „hið lága“, nútíðin – lífið án upphafs og endis.[15] Margir höfundar ferða­sagna hafa sjálfir verið hikandi í afstöðu sinni til sköpunarverks síns:

Travel writers feared that travel writing was socially inferior to other occupations. […] Travel writers feared that travel writing was artistically inferior to other genres. It was not given serious consideration by literary critics. Travel writers feared that travel writing was academic­ally inferior to other sciences. It was not clearly an art or a science. It could be either, which was suspicious; it was frequently neither, which was shameful.[16]

Þessi afstaða höfunda ferðasagna sem jaðrar við minnimáttarkennd birtist oft í auðmjúkum afsökunarbeiðnum og andvörpum til Guðs í formála eða lokakafla ferðabóka frá liðnum öld­um. Titill þessarar ritgerðar sem er úr formála Eiríks víðförla að reisubók sinni er einmitt í þessum anda.[17] En virðing manna fyrir ferðasögum og áhugi á þeim hefur aukist nú hin síðari ár og farið er að líta á þær sem athyglisverða bókmenntagrein. Hinn aukni áhugi helst vafalítið í hendur við vangaveltur bókmenntafræðinga um uppruna og rætur skáldsögunnar en auðvelt er að sýna fram á mikilvægi ferðasagna í þróun hennar. Um það hafa verið skrif­aðar lærðar bækur en víst er að sterkustu tengsl ferðabókmennta við skáldsögur felast í ferðamynstri rómönsunnar, formóður skáldsögunnar.

Langflestar ferðasögur snúast um ferðina sjálfa eingöngu. Þær hefjast á brottför að heiman, síðan er greint frá atburðum ferðarinnar og því markverðasta sem fyrir augu ber og loks er heimför og heimkomu lýst. Ferð út í heim felur gjarnan í sér einskonar leit þar sem ferða­langurinn yfirgefur átthaga sína, aflar sér einhvers eða bætir úr tilteknum skorti og snýr heim aftur með afrakstur erfiðis síns. Þetta þríþætta ferða- og leitarmynstur tengist byggingu róm­önsunnar náið enda hafa fræðimenn verið óþreytandi að benda á skyldleika þessara bók­menntagreina. Frændsemin verður næsta augljós ef litið er til einfaldrar skilgreiningar fræði­mannsins kunna Kathryn Hume á þremur hefðbundnum stigum dæmigerðrar rómönsu. 1) Brott­för hetjunnar sem stígur yfir þröskuld heimkynna sinna, knúin áfram af ólgandi ævin­týraþrá, 2) kynning eða „vígsla“ sem er miðja sögunnar og inniheldur manndómsraunir, 3) heimkoma þar sem hetjan snýr heim með árangur erfiðis síns. Annar fræðimaður, Norman Friedman, hefur líka greint þrjú mynstur eða stig í rómönsu sem einnig falla að formgerð ferðasögunnar. 1) Stig fæðingar eða sköpunar (bernska, átthagar) þar sem hetjan verður til og vinnur fyrstu afrek, 2) stig dauða og vígslu/kynningar (ferð, leit, hnignun, keppni, út­legð, raunir) og 3) stig endurfæðingar (endurkoma, upprisa, árangur og frægð).[18] Þessi stig eiga öll vel við byggingu dæmigerðra, íslenskra ferðasagna, t.d. reisubækur Jóns Ólafssonar Indíafara og Eiríks Björnssonar víðförla og Stokkhólmsrellu Hannesar Finnssonar. Jón fer utan m.a. í leit að betra hlutskipti, Eiríkur fer af löngun í ævintýri og Hannes fer í þekk­ingarleit (stig 1). Allir lenda þeir í ýmsum raunum (sem líta má á sem vígslu, þ.e. stig 2) á ferðum sínum og snúa heim aftur heilir á húfi. Jón er reynslunni ríkari og verður frægur af að miðla henni til landa sinna, Eiríkur hefur fullnægt ævintýraþránni og hefur eirð í sínum beinum til æviloka og Hannes hefur svalað fróðleiksfýsn sinni í bili (stig 3).

Leitin er grundvallarminni í rómönsum og hún er einnig afar mikilvæg fyrir byggingu ferða­sögunnar, enda markmið hennar. En það er svo misjafnt sem mennirnir leita að eins og skáldið sagði. Fræðimenn hafa greint a.m.k. sjö gerðir leitar sem algengt er að finna í bæði rómönsum og ferðasögum (og janfvel skáldsögum) og eru þessar í aðalatriðum: 1) Trúarleg leit, t.d. að grali eða öðrum heilögum hlut. Ferðasögur pílagríma snúast um þessa leit. 2) „Hernaðarleg“ leit eða barátta við mannlega eða náttúrulega óvini, gegn öðrum mönnum eða eigin sjálfi. Hér er Don Kikóti og barátta hans fyrir hugsjónum sínum frægasta dæmið. Aðrir berjast við djöfla, óveður eða hvíta hvali. Einnig mætti nefna Ódysseif og glímu hans við ký­klópa og sírenur. Í ferðasögum er á hliðstæðan hátt sagt frá stríði, landvinning­um, sjóorrust­um og baráttu við hungurvofur, skyrbjúg, storma og stórsjó. 3) Leit að Atlant­is eða einskon­ar félagslegri útópíu. Í rómönsu er t.d. leitað að æskubrunni, í ferðasögum ráða menn sig á skip í von um fé og frama eða leita að landinu gullna, Eldóradó. 4) Leit róm­önsuhetju að ókunnum löndum líkist mjög raunverulegri landkönnun en landafundir höfðu mikil áhrif á ritun ferðasagna. Nægir að nefna ferðabækur Kólumbusar og kapteins James Cook í því sam­hengi. 5) Leit að auðæfum, raunverulegum eða allegórískum, er víða að finna í bók­menntunum. Rómönsuhetjan drepur drekann og eignast gullið en höfundur ferðasagna segir frá nýlendunum þar sem smjör drýpur af hverju strái. 6) Leit að manni, ættingja eða ástvini er mun algengari í skáldskap (skáldsögu og rómönsu) en í ferðasögum. 7) Leit að þekk­ingu, vísdómi eða hamingju er algengt minni í rómönsum. Í ferðasögum birtist þessi leit t.d. þegar söguhetjan er í „Grand-Tour“ en það heiti er notað um langferð þá sem siðvenja var meðal ungra manna í Evrópu fyrr á öldum að fara í þegar þeir höfðu lokið námi. Þegar leitar­mynstrið felst í leitinni eilífu að þekkingu og reynslu er hetja ferðasögunnar orðin það sem kallast „Bildungsheld“.[19]

Samkvæmt framansögðu leitar hetja ferðasögunnar oft þess sama og rómönsuhetjan. Báðar fara að heiman til einskonar leitar, lenda í ýmsum erfiðleikum en snúa aftur með fund sinn. Ferðasögur og rómönsur eiga fleira sameiginlegt en leitina. Mörg mótíf rómönsu og ferða­sagna eru svipuð. Löngun rómönsuhetjunnar til að freista gæfunnar úti í heimi tekur í ferða­sögu á sig mynd ferðar til hins óþekkta, þess sem er framandi og heillandi. Flótti frá grimm­um húsbændum eða undan fangelsisdómi sem er algengt mótíf í rómönsum er oft sem ástæða brottfarar í ferðasögum. Rómansan sækir því margt til ferðasögunnar, aðalpersóna hennar er eins og skilgetið afkvæmi hins sanna erkitýpuferðalangs. Hið ólíka er að raunveru­leikinn sem er vettvangur ferðasagna á ekkert skylt við heim rómönsunnar. Persónur ferða­sagna fyrri alda eru raunverulegt fólk sem hefur fæðst, lifað og dáið fyrir löngu en persónur rómönsunnar spretta upp úr langri skáldskaparhefð. Höfundur ferðasögunnar var þátttakandi í atburðarás sögunnar, höfundur rómönsu spinnur atburðina upp. Landslag ferðasögu á sér sjálfstæða tilvist, umhverfi rómönsu er óland eða staðleysa. Auk þess endar leitarmynstur rómönsunnar jafnan á því að hetjan hefur borið sigur úr býtum. Þannig geta ferðasögur einnig endað, t.d. ferðasaga pílagrímsins Nikulásar Bergssonar sem fór víða og komst heim heilu og höldnu. Nikulás er sigurvegari líkt og rómönsuhetjan; herra tveggja heima, þess sem hann yfirgaf og þess sem hann fór um á ferðum sínum. En tveir aðrir kostir eru fyrir hendi. Annar er sá að leitin verði árangurslaus, t.d. ef menn finna ekki það sem þeir leituðu að eða eiga ekki afturkvæmt. Hér mætti nefna Ferðarollu Magnúsar Stephensen sem dæmi en hann hafði ekki erindi sem erfiði við Jónsbókarútgáfu sína í Kaupmannahöfn. Hinn kosturinn er sá að leitin taki aldrei enda líkt og í ferðasögu Árna frá Geitastekk. Árni sigldi út um höfin blá í leit að einhverju sem hann vissi ekki sjálfur hvað var og var enn leitandi á stund skrifanna.

3. „Slides“-mynd höfundarins

Ferðasögur segja í rauninni mest um þá sem skrifa þær því líta má á þær sem órækan vitnis­burð um sýn höfundarins á veröldina og sjálfan sig. Skyldleiki ferðasagna við sjálfsævi­sögur og endurminningar er því mikill þar sem þessar bókmenntagreinar sækja í sama sjóð, ævi höfundarins. Ferðasagan er að vísu skyldari endurminningum en í báðum tilvikum er áhersla lögð á að fræða og skemmta lesendum með því að segja frá atburðum sem höfundur hefur sjálfur tekið þátt í eða orðið vitni að. Atburðir eru þá raktir eins og þeir gerðust í raun og veru og oftast í réttri röð. Sjaldan er merkingar þeirra eða innra samhengis leitað og túlk­un er aukaatriði. Í endurminningum eru umhverfi og samtíð í öndvegi en einstaklingurinn sjálfur krýpur við fótskör og lætur fara lítið fyrir sér. Í sjálfsævisögunni er einstaklingurinn hinsvegar í miðju frásagnarinnar. Mat, endursköpun, endurupplifun og túlkun eru í fyrir­rúmi. Þar er gruflað í orsök og afleiðingu, þýðingu og samræmi fortíðar við nútíð og fram­tíð. Ferðasagan verður til í þessari deiglu atburðasögu og sjálfsskilnings og það er vitaskuld misjafnt eftir höfundunum hversu sjálfsævisöguleg ferðasagan er. Það er hægur vandi að benda á ýmislegt sem er sameiginlegt í íslenskum ferðasögum, sjálfsævisögum og endur­minningum. Til dæmis er kastljósinu beint að tímabili í lífi einnar aðalpersónu, dæmisagan (ýmist til eftirbreytni eða sem víti til varnaðar) er gjarnan innbyggð í formgerðina og atburðir eru raktir í réttri tímaröð. Sögumaður hefur tögl og hagldir (velur og hafnar) og greina má til­hneigingu til vissrar bælingar þar sem ekki er allt sagt. Ákveðin röðun sögumanns fer fram í efnisskipaninni og útúrdúrar frá meginefninu koma gjarnan fyrir. Sögumaður ferðasögu, sjálfsævisögu og endurminninga er í senn sögupersóna og lifandi maður, eins raunverulegur og maður sjálfur. Það er ekki síst það sem gerir þessar bókmenntagreinar áhugaverðar. Verkið verður tengiliður við liðna tíð því textinn vís­ar á veruleika þess sem samdi hann og bregður upp mynd hans. Í því felst einskonar „frið­sæl endurkoma höfundarins“ eins og Barthes orðar það. Raunveruleikinn er lykilatriði í ferðasögum og hann vísar beint á dauð­ann, þ.e. líkamlegan dauða höfundar sögunnar því þegar höfundurinn „lifnar“ í hugskotinu verður manni æ betur ljóst að hann er dauðlegur maður. Höfundurinn snýr aftur en hann er vitaskuld ekki sá sem hinar ýmsu stofnanir hafa borið kennsl á eða skilgreint í gegnum tíðina (sagan, bókmenntirnar, heimspekin, orðræða kirkjunnar), hann er ekki einu sinni ævisögu­leg hetja. Höfundurinn sem stígur fram og kemur inn í líf okkar er ekki heildstæður, hann er aðeins „samsafn seiðmagns“ og fíngerðra smáatriða, uppspretta skáldlegrar ímyndunar, skær ljósglæta, slitrótt söngl en í honum les maður engu að síður dauðann með meiri vissu en í hinu sögulega í örlögum hans. „Hann er ekki (borgarleg, siðferðileg) persóna, hann er líkami“.[20]

Texti sem sprettur af lífinu, dauðanum og raunveruleikanum vekur hjá mér svipaðar kenndir og vöknuðu hjá Roland Barthes þegar hann skoðaði ljósmynd af yngsta bróður Napóleons keisara. Barthes áttaði sig allt í einu á því að hann var að horfa á augu sem höfðu horft á keisarann. Þessi hugdetta varð til þess að Barthes fór að velta því fyrir sér hvað ljósmyndun væri „í sjálfu sér“ og hvaða þættir greindu ljósmyndina frá öðrum myndum.[21] Segja má að ferðasagan gegni hlutverki myndaalbúmsins eða slides-myndanna úr ferðalaginu. Hannes Finnsson bendir með digrum, hringskreyttum fingri og segir: „þarna er ég við fornskjala­safnið í Stokkhólmi“ og Eiríkur víðförli úrskýrir að á þessari mynd sé fjallið þar sem Jesús mettaði fimm þúsund manns. Myndunum er brugðið upp sem snöggvast og þær sýna eitt­hvað sem raunverulega gerðist eða var til. Kannski aðeins í þetta eina sinn en myndirnar verða eilífar og aðgengilegar svo fremi þær lifni í huga okkar sem „lesum“ þær. Barthes notaði tvö latnesk hugtök til að lýsa þeim ólíku tilfinningar sem hann upplifði þegar hann skoðaði ljósmyndir (26–28). Annað þeirra kallar hann studium. Það hugtak tengist þekk­ingarsviði okkar og menningu og birtist í þekktum oft vanabundnum táknum eða merkjum þess lyklaða (coded) táknforða sem safnast í sarpinn á lífsleiðinni. Hitt hugtakið nefnist punctum. Það brýtur táknforðann upp og truflar hann. Punctum skírskotar til sársauka, er eins og sár, stungufar eða lítið gat og lýsir þeim þætti ljósmyndarinnar sem stingur í augu (eða stúf). Punctum vekur upp tilfinningarnar og vísar til einskonar „infra-þekkingar“ (30) eða safns smáatriða sem hver og einn raðar saman og túlkar að vild. Í texta eins og ævisögu, endurminningum og ferðasögum er hægt að greina þátt sem er sambærilegur við punctum ljósmyndarinnar. Þennan þátt kýs Barthes að kalla „biographemes“ (30) eða „ævifleyga“.[22] Hér er átt við hvassan fleyg út úr textaheild sem gengur inn í vitund lesanda og smýgur inn í kviku hans. Smáatriði sem truflar lesturinn og fangar skynjunina augnablik. Barthes benir á í bókinni Sade, Fourier, Loyola að texti sé ekki bara þurr efniviður til greiningar eða saman­burðar heldur sé hann líka uppspretta eða viðfangsefni ánægju, „the text is an object of pleasure“ (7). Ánægju textans getur maður notið ríkulega þegar texti bókar endurfæðist í lífi manns, þegar einskonar samruni eða samvist (coexistance) bóklegs texta og daglegs lífs verður. Textinn verður uppspretta túlkunar, ánægju og gleði og maður getur fangað brot af óljósri „útgeislun textans“ eða áru hans, einhverju sem grípur athyglina við lesturinn: „it is a matter of bringing into our daily life the fragments of the unitelligible (“formulae“) that emanate from a text we admire…“ (7). Margar íslenskar ferðasögur geyma slík brot eða ævi­fleyga. Í ferðasögu er maðurinn staddur í framandi umhverfi fjarri heimahögum, hann er einangraður, óöruggur og berskjaldaður. Óafvitandi reka menn fleyg í eigin frásögn, lítil­fjörlegt atvik úr lífi sögulegs einstaklings ljómar upp í huga lesandans.

4. Frá Heródótusi til Dampiers og félaga

Ferðasögur eru gömul bókmenntagrein sem iðkuð var víða um heim þegar í fornöld. Þær hafa frá örófi alda tekið á sig margskonar form og verið sundurleitar að gerð svo erfitt er að flokka þær eða rekja sögu þeirra nákvæmlega. Ein elsta frásögn um ferðalag sem vitað er um í heiminum er lýsing sæfarans Hannó frá Karþagó á ferð sinni meðfram vesturströnd Afríku á árunum um 490 f. Kr. í þeim erindagjörðum að stofna nýlendur. Er hann hafði lokið ætlunarverki sínu hélt hann aðeins lengra áfram til að forvitnast um áður ókunn landsvæði. Fram til þessa höfðu flestar langferðir verið farnar í markvissum og hagnýtum tilgangi, t.d. til að efla verslun eða herja. En óró leitandans virðist hafa gripið Hannó, ævintýraþrá hans og þekkingarþorsti höfðu vaknað. En þótt frásögnin um leiðangur Hannós hafi verið skráð á bronstöflu í Karþagó var ekki um bókmenntir að ræða. Það beið Grikkjans Heródótusar að verða frumkvöðull í þeim efnum. Heródótus er talinn fæddur um 484 fyrir Krist og hefur jafnan verið kallaður „faðir sagnfræðinnar“ vegna bóka sinna um Persastríðin. Honum hefur líka verið eignað faðerni evrópskra ferðasagna sem bókmenntagreinar.[23] Í sagnariti Heródót­usar eru m.a. frásagnir af ferðum hans um Litlu-Asíu og víðar. Rit hans sem varðveist hafa í ótal uppskriftum geyma fjölda litauðugra frásagna um lönd þau sem hann heimsótti á hinum mörgu og löngu ferðalögum sínum. Heródótus var vandlátur á heimildir sínar og vildi aðeins hafa það í ritum sínum sem sannara reyndist. Þessi sannleikskrafa hefur bergmálað síðan í skrifum ferðasagnahöfunda. Ferðasögur Heródótusar eru samansettar af mörgu efni, s.s. lýsingum á borgum og byggingum, venjum og siðum, staðbundnum þjóðsögnum og bæjar­slúðri. Þær eru því mun safameiri en flestir hinna þurru leiðarvísa og landalýsinga samtíma hans. Svokallaðir leiðarvísar (itinerarium,) eru angi af meiði ferðasagna og eiga sér sögu sem nær allt aftur til þriðju aldar f. Kr. Í slíkum bókum er lítið um bókmenntaleg tilþrif og ber ferðasagnafræðingum ekki saman um hvort leiðarvísar séu bókmenntir eða ekki. Í leiðar­vísum er lýst leiðum um tiltekið land eða lönd og oft fylgja kort eða uppdrættir af vegum, fljótum og borgum. Efnið er oftast þurr fróðleikur þar sem fjarlægðir eru tíundaðar og áhugaverðir ferðamannastaðir taldir upp. Grikklandslýsing eftir Pausianus frá síðari hluta 2. aldar f. Kr. er ein af örfáum varðveittum leiðarlýsingum fornaldar. Það rit er byggt á öðrum samtímaleiðarvísum, ferðalagi Pausianusar sjálfs til Miðjarðarhafslanda þar sem hann m.a. sigldi upp Níl og kom til Dauðahafsins og sögum annarra ferðalanga.

Samlandi þeirra Ástríks og Steinríks, Gallinn Rutilius Numatianus, skráði ferðasögu í ljóða­formi á 5. öld e. Kr. sem bar heitið De Reditu suo. Brot úr henni hafa varðveist og lýsa ferð hans frá Róm til Gallíu.Í langan aldur er síðan eins og ferðasagnaritun hafi legið í dvala og ekki rumskað fyrr en með krossferðunum.[24] Á síðmiðöldum skráðu Feneyingar ferðasögur, m.a. Marco Polo sem fór til Kína árið 1271. Hann kom heim aftur rúmum tveimur áratugum seinna og hafði þá komist til vegs og virðingar meðal Kínverja. Ferðasaga Marco Polos er ekki frá fyrstu hendi heldur er hún höfð eftir samfanga hans í Genúu, munknum Rusticiano (eða Rusticello) frá Písa. Ferðasaga Marco Polos var lesin af mikilli áfergju og fáar ferða­sögur hafa náð jafnmikilli útbreiðslu um heiminn. Hún hefur m.a. verið þýdd, stytt og endursögð margsinnis á íslensku. Landafundirnir miklu stuðluðu mjög að aukinni ritun ferðasagna. Verslunarferðir siglingaþjóða í kjölfar landafundanna juku kynni Evrópumanna af fjarlægum löndum og þjóðum og þá fýsti að vita meira um veröldina. Það er eins og skyndilega hafi runnið upp fyrir mönnum að þeir voru ekki einir í heiminum og að í rauninni vissu þeir sáralítið um hann. Auðvitað voru það tiltölulega fáir sem lögðu land undir fót og sáu með eigin augum eitthvað af undrum annarra heimsálfa. Allur þorri manna varð að sitja heima og láta sér nægja frásagnir ferðalanganna. Á þessum tíma hafði prentlistin gert bókina að markaðsvöru og meðal þess sem helst var sóst eftir voru einmitt ferðasögur ýmiskonar og landalýsingar.[25] Sögur af landafundum urðu almennt mjög vinsælar og að sama skapi er mikið til af þeim. Einn frægasti landkönnuðurinn er Ítalinn Kristófer Kólumbus (1451–1506) sem hóf leit að Asíu fyrir rúmum fimm öldum en rambaði þess í stað á Ameríku. Með Ameríkufundinum kom fram fyrsti vísirinn að þeirri heimsmynd sem þekkt er nú á dögum. Kólumbus hélt leiðarbækur á ferðum sínum en upphaflegt handrit þeirra er glatað. Allmörg afrit voru tekin af bókunum en texti þeirra hefur brenglast mjög í meðförum afritaranna. Við útgáf­ur á leiðarbókum eða ferðasögu Kólumbusar er oftast stuðst við endursögn munksins Bartólómeusar Las Casas (1474–1566) á einu afritanna og sjálfur segist hann vitna sums­staðar orðrétt eftir Kólumbusi.[26] Annar landkönnuður, hinn vaski Vasco de Gama (1469–1524) sem fann sjóleiðina til Indía og Austurlanda og lagði þar með grundvöll að veldi Portúgala sem siglingaþjóðar, skrifaði ferðasögu sína ekki sjálfur heldur þeir sem síðar rit­uðu ævisögu hans. Sama gildir um Ferdinand Magellan (uppi 1491–1534) sem fyrstur manna sigldi umhverfis jörðina. Ferðasaga hans er byggð á dagbók sem feneyskur aðals­maður, Antonio Pigafetta, hélt um borð í Vittoriu sem var hið eina af skipum Magellans sem náði heim til Spánar eftir þriggja ára langa útivist. Ferðasaga Magellans hefur verið þýdd á fjölda tungumála og á henni hafa menn byggt ævisögu hans sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1974.

Sextánda öldin var öld siglinga um heimshöfin, öldin þegar maðurinn sigraði víðáttu heim­ins. Hið tröllaukna Kyrrahaf var kannað og strandir ókunnra eyja og landa risu úr sæ fyrir forvitnum og undrandi augum manna. Slíkri reynslu var ekki hægt að lúra á, hana varð að útbreiða meðal lýðsins. Menn höfðu þá fengið sig fullsadda af krossferðasögum og leiðar­vísum. Frásagnir af hinum ókunnu löndum voru nýstárlegar og spennandi. Þær bæði svöl­uðu forvitni manna og vöktu ævintýraþrá þeirra og stuðluðu að blómlegum vexti bókmennta­greinarinnar.[27] Ferðasögur sextándu aldarinnar eru sögur um ótrúlegt þrek og dirfsku, um fyrstu kynni tveggja heima. Það er afar erfitt fyrir nútímamenn að setja sig inn í þær að­stæður sem þeirra tíma sæfarar bjuggu við. Menn voru undir stöðugu álagi allan sólar­hringinn, unnu erfiðisverk sem jafnvel voru lífshættuleg, s.s. að klifra upp í reiða og koma seinfærum seglskipum yfir úthöf eða sandrif. Ofan á allt saman þjáðust menn af ýmsum sjúkdómum eins og skyrbjúg vegna ónógs og einhæfs fæðis. Árni frá Geitastekk lýsir skyr­bjúg í ferðasögu sinni frá átjándu öld. Hann hélt að sjúkdómurinn væri smitandi en þekkti lækninguna við honum: „Margir verða þar sjúkir af skyrbjúg, sem loftin með sér færa. Skyr­bjúgur gjörir bólgu í holdið, tennur lausar í höfðinu, sinar í kroppnum saman dragast, aflar lúsa. Þeir deyja með matinn í munni sér. Skarfagras er lækning á móti öllu því.“[28] Auk þess að lifa við harðræði um borð, matarskort og vatnsleysi, áttu sæfararnir á hættu að vera drepnir af fjandsamlegum frumbyggjum sem voru ekki hrifnir af boðflennum. Í fjölmennum áhöfnum skipanna voru menn sem höfðu mismunandi ástæður fyrir því að leggja á sig erfið­ar langferðir um heimsins höf. Sumir fóru af forvitni eða ævintýraþrá, aðrir í von um frægð eða skjótfenginn gróða og enn aðrir voru á flótta undan lögum og reglu. Algengt var á löngum sjóferðum að mönnum kæmi illa saman, slagsmál brutust iðulega út og morð voru framin. Ástæður þessa gátu verið margvíslegar eins og kemur fram í dagbókarfærslu úr hollenskri ferðasögu frá síðari hluta sautjándu aldar:

…hvörn dag varð sundurlyndi milli einhvörra soldatanna og það skeði helst af þeirri orðsök að þar var samankomið svo margslags fólk sem bæði var danskt og engelskt, franskt og ítalískt, hollenskt og fleiri þjóðir; pólskir, þýskir, spanskir og norskir. Einnig orðsakaðist það sundur­lyndi af því margir lögðu sig í drykkjuskap því hvör kostaði kapps á að kaupa sem mest vín og annan sterkan drykk, þar bátar lágu í kringum skipið fullir með fólk sem seldu vín skipsfólkinu og því gengu þeir skjaldan úr drykkjuskap. Einnig af því að sú þjóð sem á skipinu var hafði ei sömu trú og religíon.[29]

Einnig er sagt frá uppþotum, áflogum og mannvígum í íslenskum ferðasögum, t.d. í reisu­bók Jóns Indíafara, Eiríka víðförla og ferðasögu Árna frá Geitastekk. En um allt þetta vissu þeir sem heima sátu ekki neitt. Áhugi þeirra beindist einkum að landafræði, sögu, dýralífi, gróðri og framandi siðvenjum hinna ókunnu þjóða handan við sjóndeildarhringinn.[30] Ein vinsælasta ferðabók sem skrifuð hefur verið sló reyndar á aðra strengi. Það er frásögn Spán­verjans Ludovico de Varthema sem kom fyrst út árið 1510 og hefur síðan þá verið þýdd á fjölda tungumála og margsinnis gefin út. De Varthema var „picaro“ eða skálkur, tæki­færis­sinni og kvennamaður mikill sem naut þess að segja frá ævintýrum sínum. Sir Francis Drake (uppi 1540–1596) eða „Kaptein Drak“ eins og Jón Indíafari nefnir hann, vann sér það m.a. til frægðar að sigla umhverfis jörðina. Til eru frásagnir skipsfélaga Drakes, sem reynd­ar voru honum óvinveittir, um hnattsiglinguna og stuttaraleg hlutlaus skýrsla eins sjálfboða­liða í ferðinni. Á þessum heimildum byggir frændi Drakes og alnafni ferðasögu hans sem var gefin út 1628. Þar er víða skáldað í eyður og mikið gert úr hetjulund gamla sægarpsins. Annar aðalborinn ferðagarpur, Sir Walter Ralegh (f. um 1554, hálshöggvinn 1618) hélt ýtar­legar dagbækur og skrifaði í fangelsi lýsingu á leiðangri sínum til Gíneu. Hann hafði ekki lokið henni þegar hann var tekinn af lífi sakaður um landráð. Saga hans af þessari hinstu ferð er varnarrit (apology) og tilgangur hennar var að sanna fyrir óvinum Raleghs að för hans til nýja heimsins í von um gull og græna skóga hafi ekki verið til einskis. Riti hans var strax afar vel tekið og hefur það einna mest áhrif haft af Eldóradóleitarsögum.[31] En sú ferða­bók sem oftast var þýdd og útgefin á sautjándu öld[32] er eftir Þjóðverjann Adam Ole­arius (1603–1671). Hún er byggð á dagbókum sem hann hélt er hann ferðaðist til Rússlands og Persíu og kom út árið 1656 í sjö bindum.

Sextánda og sautjánda öldin voru tímabil stórkostlegrar útþenslu í sögu Evrópuþjóða. Eng­lend­ingar, Hollendingar, Portúgalar og Frakkar voru í æsilegum kappróðri um siglinga­leiðir og nýlendustofnanir, völd og peninga. Á síðari hluta sautjándu aldar fjölluðu flestar ferða­bækur um langreisur til fjarlægra landa, bæði suðlægra og á norðurslóðum. Þá var blóma­skeið hinnar exótísku ferðasögu. Fjöldamörg skip sigldu til Afríku og Indíalanda og komu heim hlaðin gulli, kryddi, tei, postulíni og dýrindis vefnaði. Sögur af slíkum ferðum voru gefnar út í tugatali og birtust einnig í stórum ferðasagnasöfnum manna eins og Richards Hakluyt og Samuels Purcha[33] á Englandi og í hinu umfangsmikla ritsafni Þjóðverjans De Bry, Grands et Petits Voyages sem kom út á árunum 1590–1632. Útgáfu Hollendinga ber hæst á sautjándu öld en þá voru þeir í fararbroddi í siglingum til Austur-Indía. Ferðadagbæk­ur voru fyrirferðarmestar og þar var fléttað saman hagnýtum upplýsingum og fræðandi frá­sögnum af því sem fyrir augu ferðalangsins bar á leiðinni. Á löngum sjóferðum þótti nauð­synlegt að hafa að minnsta kosti einn vel ritfæran mann um borð, bæði til aðstoðar við að halda skipsdagbækur og til að halda til haga ýmsu sem við bar á hinni löngu ferð.[34] Árið 1666 gaf Breska Vísindafélagið út leiðbeiningar til sjómanna í langsiglingum (Directions for Seamen bound for far Voyages) þar sem þeir eru m.a. sérstaklega hvattir til þess að skrá ná­kvæmlega hjá sér það markverðasta sem fyrir augu bar, s.s. lýsingar á framandi þjóðum og siðum þeirra.[35] Þeir sem hlýddu þessu boði hafa því átt í fórum sínum upplýsingar sem hægt var að byggja heildstæða ferðasögu á ef vilji var fyrir hendi. Margir skrifuðu reyndar aðeins þurrar upptalningar á trjám og jurtum eða fugla- og dýralífi á fjarlægum slóðum. Vafalítið hefur þessi hvatning þó átt sinn þátt í því að enskar ferðasögur urðu svo margar og fjöl­skrúðugar sem raun ber vitni.

Á sautjándu og átjándu öld náðu vinsældir ferðasagna hámarki. Fræðsluhugmyndir upplýs-ingarstefnunnar áttu þar stóran hlut að máli. Víða í Evrópu var nýrra strauma upplýsing­arinnar tekið að gæta. Menn fundu aukna þörf fyrir þekkingu á umheiminum og ferðasögur fullnægðu þeirri þörf mjög vel. Því má segja að ferðasögur séu mest einkennandi og áber­andi bókmenntaform þessa tímabils.[36] Upplýsingarskeið er talið hefjast í Evrópu á öndverðri átjándu öld en telst varla fullmótað fyrr en um miðja öldina. Verulegar breytingar urðu á hug­myndaheimi manna með upplýsingunni. Veraldarhyggja kom til sögu, skynsemistrú varð áberandi og menntun og mannúð voru í augum upplýsingarmanna grundvallaratriði. Vísind­in voru hafin til vegs og virðingar og jafnvel talin hafa svör við spurningum sem kirkjan gat ekki svarað. Vísindamenn ferðuðust um heiminn þveran og endilangan til að rann­saka dýr og plöntur og gera allskonar mælingar. Oftar en ekki birtu þeir niðurstöður sínar í ferðabók­um sem urðu mjög vinsælar.[37] Í lok átjándu aldar voru Bretar mesta verslunarþjóðin og helstu nýlenduherrarnir í Austurlöndum. Frá aldaöðli hafði afar mikið verið skrifað, gefið út og lesið af ferðasögum á Englandi[38] en ferðasagnaæðið náði þar hámarki á átjándu öld. Orsökina má m.a. rekja til þess að um þetta leyti voru dagbókar- og bréfaskrif þar í landi að öðlast aukið vægi sem bæði sjálfstæðar heimildir og bókmenntir og margar ferðasögur voru ritaðar í bréfaformi. Frá fornu fari höfðu bréf verið skrifuð á latínu en á sautjándu öld hófst þróun bréfritunar á þjóðtungum sem veitti öllum læsum og skrifandi tækifæri til að stunda bréfaskriftir. Efni einkabréfa gat spannað allt svið mannlegrar tilveru og segja má að á þeim vettvangi hafi einstaklingurinn getað uppgötvað sjálfan sig með því að lesa og skrifa um eigin upplifanir. Dagbækur voru einnig tjáningarmöguleiki sem flestum var opinn og að­gengilegur. Texti úr einkaheimi dagbóka og bréfa lýtur ekki lögmálum opinberrar rit- eða prenthefðar, formið er frjálsara og formlegar stílkröfur minni.[39] Sjálfsvitund einstaklingsins tók þannig að vaxa og dafna í einkalegri orðræðu bréfa og dagbóka – sem voru lengi helsta form ferðasagna – um leið og veröldin fékk á sig nútímalegri mynd á heims­kortinu. Ýmsar breytingar sem rekja má til upplýsingarinnar stuðluðu einnig að uppgangi ferðasagna á Eng­landi á átjándu öld. Vísindum og tækni fleygði ört fram, iðnbylting var í uppsiglingu og íbúatölur í London og París var komnar yfir hálfa milljón. Borgara- eða millistéttin var í sókn og bar með sér nýja strauma, dagblöðum og tímaritum óx fiskur um hrygg og bókaút­gáfa var afar blómleg. Með þessari nýju menningu kvöddu nýir ferðasagnaritarar sér hljóðs. Það voru menn eins og Joseph Addison (1672–1719), ritstjóri tímaritsins Spectator og Daniel Defoe (1660–1731), fyrsti skáldsagnahöfundur Breta en þeir skrifuðu báðir fyrir borgaralega lesendur. Texti dagbóka, bréfa, dagblaða og tímarita hafði mikil áhrif á efni, stíl og bókmenntir aldarinnar. Svigrúm hafði skapast fyrir hinn skrifandi almúgamann sem gat nú skrifað bók um eigin reynslu án þess að vera endilega handgenginn mennta- og skáld­gyðjunum. Þetta svigrúm hentaði ferðasögum vel og slíkar sögur voru nú skrifaðar af meiri elju en nokkru sinn fyrr.

Þá er að nefna fjórmenninga sem tengjast evrópskum ferðabókmenntum átjándu aldar náið. Fyrst skal frægan telja Englendinginn William Dampier (1672–1715), landkönnuð og ævin­týramann. Hann skrifaði fjölda ferðasagna sem komu út í mörgum útgáfum og ýmsum heild­arsöfnum sem voru víða lesin á þessum tíma. Þekktasta og frægasta ferðasaga hans er New Voyage round the World (1697). Bækur Dampiers urðu svo vinsælar að segja má að hann sé ábyrgur fyrir sprengingunni sem varð í ferðabókmenntum snemma á öldinni. Dampier var einkennileg blanda af sjóræningja og vísindamanni. Stíll hans var tær og einfaldur og margir aðrir ferðasagnahöfundar og jafnvel skáldsagnahöfundar síðar meir tóku hann sér til fyrir­myndar.[40] Samtímamaður Dampiers, hinn ítalski Giovanni Francisco Gemelli Careri, skrif­aði Giro del Mondo eða „Reisa kringum jörðina“ sem margir nútímalesendur telja bestu ferðasögu sinnar tegundar vegna þess hve persónuleg hún er. Þá er að nefna Woodes Rogers (1678/9–1732) en það er í ferðasögu hans, A Cruising Voyage (1712), sem segir frá björgun Alexanders Selkirks á Juan Fernandezeyju, þess sem síðar varð fyrirmynd Róbin­sons Krúsó. Rogers var sjóræningi eins og Dampier – sem var raunar um borð hjá Rogers þegar Selkirk var bjargað – og í ferðabók sinni gefur hann glögga mynd af daglegu lífi sjó­manna um borð, s.s. slæmum aðbúnaði, þrengslum, rifrildi og slagsmálum.[41] Íslenska hlið­stæðu í raunsæislegri afhjúpun sjómannslífs er að  finna í ferðasögu Árna frá Geitastekk. Louis Antoine de Bougainville (1729–1811) rekur lestina í þessum hópi frægra ferðasagna­höfunda átjándu aldarinnar. Lýsingar hans á Tahítíeyju og íbúum hennar voru ljóðrænar og áttu sinn þátt í að skapa goðsögnina um rómantíska paradís Suðurhafseyjanna og hinar göf­ugu villiþjóðir sem bjuggu þar í sælu sakleysi. Ferðasaga de Bougainvilles kom út árið 1772 og þótti hvalreki á fjörur áhugamanna um ferðir og landkönnun.

Þegar hér er komið sögu voru skip og siglingatæki orðin mun tæknilegri og þróaðri en áður. Búið var að kanna flesta kima veraldarinnar, sigla í kringum hnöttinn margsinnis, komast til Ameríku og Indlands og að auki voru menn farnir að kortleggja heiminn. Þegar umheimur­inn þótti orðinn kunnur tóku ferðasagnaritarar að líta sér nær. Fyrrnefndur Daniel Defoe var mjög vel heima í ferðabókmenntum almennt. Hann skrifaði ferðabók um föðurland sitt, A Tour Through the Whole Island of Great Britain sem var fyrst prentuð 1724–6. Ferðabók Defoes varð strax mjög vinsæl, og telja þeir sem til þekkja að það stafi aðallega af því hvað hún er skemmtileg blanda hins huglæga og hlutlæga. Í ferðabók Defoes bregður fyrir bæði fortíðarljóma og framtíðarsýn. Hún er byggð á ýmsum goðsögum og þjóðsögum jafnt sem staðreyndum og sameinar á skemmtilegan hátt ferðabók og ferðasögu. Samlandi Defoes og starfsbróðir, Henry Fielding (1707–1754), höfundur hinnar frægu skáldsögu Tom Jones, skrifaði sögu hinstu ferðar sinnar til Lissabon. Ferðabók Tobiasar Smolletts (1721–1771) Travels Through France and Italy var endurútgefin sjö sinnum á tólf árum. Vinsældir ferða­bókar Smollets stöfuðu ekki síst af því að hún var mjög huglæg, vel skrifuð og afar lituð af persónu og skapgerð höfundar sem var fátækur, veikur og sorgmæddur á ferðum sínum. En eftir endurútgáfurnar sjö lá ferðabókin í þagnargildi í 200 ár og það er fyrst á síðustu ára­tugum að menn hafa farið að gefa henni gaum að nýju. Ástæðan fyrir þessari löngu þögn var útkoma bókar Laurence Sternes (1713–1768) A Sentimental Journey Through France and Italy. Bókin kom út árið 1768, sama ár og Eiríkur víðförli hripaði lokaorð reisubókar sinnar í herbergiskytru sinni í Kaupmannahöfn. Ferðasaga Sternes er eiginlega skáldsaga þótt hún sé byggð á raunverulegum ferðum hans og greina megi líkindi með höfundi og aðalpersónu sögunnar. Bókin var andsvar við ferðabók Smollets sem Sterne sagði að væri „nothing but the account of his miserable feelings“.[42] Hún hafði mikil áhrif á gerð „sentimental“ (persónulegra) ferða­sagna á Englandi og víðar.

Þegar ferðasaga, sjálfsævisaga og skáldsaga rugla saman reytum er orðið afar erfitt að greina á milli sannleika eða staðreynda og listrænnar blekkingar. Tengslin milli skáldskapar og ferðasagnaritunar eru vissulega sterk, höfundar skáldsagna hafa leitað fanga hjá ferðasagna­höfundum og öfugt. Nægir að nefna bók Jonathans Swift Gulliver´s Travels sem sígilt dæmi um þetta. Um þessi efni hefur Percy G. Adams skrifað bókina Travel Literature and the Evolution of the Novel (1983) sem oft er vitnað til hér á þessum blöðum. Æ fleiri skáld og rithöfundar í Evrópu spreyttu sig á ferðasagnagerð og mörk skáldskapar og sannfræði urðu enn óljósari. Ferðabók Johans Wolfgangs von Goethe (1749–1832) Italienische Reise er t.d. talin meðal merkustu ferðasagna. Hún er sjálfævisöguleg bréfa- og dagbókarferðasaga og segir frá ferðum Goethes til Ítalíu á árunum 1786–88. Danski rithöfundurinn H.C. Andersen (1805–1875) skrifaði nokkrar ferðasögur. Þær eru skáldlegar lýsingar landa þeirra er hann heimsótti en hann var víðförlastur allra danskra skálda á sinni tíð. Á nítjándu öld skrifuðu m.a. Mark Twain, Charles Dickens, Robert L. Stevenson og Henry James ferðabækur. Að lokum er vert að geta framlags nokkurra kvenna til ferðabókmennta fyrr á öldum en það virðist sorglega sjaldgæft að konur legðu slíkt fyrir sig. Frú Mary Wortley Montagu (1689–1762) var eiginkona sendiherra Englendinga í Tyrklandi. Bréfasafn frúarinnar (1763) hefur verið gefið út en það inniheldur frásagnir af ýmsu sem fyrir augu hennar bar í Tyrklandi og víðar. Sarah Kemble Knight (1666–1727) skrifaði stutta en líflega dagbókarferðasögu á ferð um land sitt Ameríku, ýmist á hestbaki, fótgangandi eða á báti. Á nítjándu öld ferðaðist Ida Pfeiffer (1792/7–1858) um víða veröld en hún var meðal víðförlustu ferðalanga á nítjándu öld. Hún fór tvisvar umhverfis hnöttinn og kom m.a. til Íslands 1845, fyrsta erlenda konan sem hingað ferðaðist ein síns liðs og ritaði ferðasögu þar um.[43] Um ferðir sínar skrifaði hún fimm bækur sem allar hafa verið prentaðar. Mér er ekki kunnugt um að nokkur íslensk kona hafi skrifað ferðasögu á því tímabili sem hér er greint frá.

Hér hefur verið aðeins verið rakið það helsta úr þeirri tegund evrópskra ferðasagna sem telj­ast huglægar en byggjast ekki eingöngu á hlutlægum athugunum og fróðleik um náttúru, menningu og þjóðhætti tiltekins lands. Þessir ferðalangar, frá forvitna Hannó, Dampier og félögum til skálda og rithöfunda átjándu og nítjándu aldar, segja ýmist frá raunverulegum atburðum sem þeir tóku sjálfir þátt í fljótlega eftir að þeir gerðust eða sögðu einhverjum frá sem skrifaði niður eftir þeim. Þessar sögur færðu þeim sem heima sátu þekkingu um víðáttu veraldarinnar, ónumin lönd og óþekktar þjóðir. Lesendur gátu tekið þessum ferðasögum sem góðum og gildum fróðleik um óhrekjanlegar staðreyndir og þóttust eiga kröfu á því að heyra sannleikann. En lygin lá í leyni og glotti við tönn. Hún hafði reyndar skemmt sér lengi því menn höfðu t.d. ávallt trúað því að „uppdiktuð“ ensk ferðasaga eftir óþekktan Sir John de Mandeville frá því um miðja fjórtándu öld væri dagsönn. Það var á átjándu öld sem skáld og rithöfundar komu í stað ævintýramanna og landkönnuða í ferðasagnabransanum. Þá tóku líka „falskar“ eða „skáldaðar“ ferðasögur (imaginery voyages)[44] að streyma inn á markað­inn, ásamt skáldlegum eða listrænum ferðasögum þar sem huglægnin var í öndvegi. Einatt hefur það þótt fróðlegt og skemmtilegt að spyrja tíðindi um langan veg og heyra um siði framandi þjóða. Þá þótti ekki verra ef krítað var nógu liðugt eða hreinlega skáldað til gera frásögnina verulega krassandi. Slíkur skáldskapur var ýmist heimfærður upp á lönd og þjóð­ir í útjaðri heimskringlunnar eða þá að þokukennt ævintýraland var hreinlega búið til. En það er önnur saga. Nú verður látið staðar numið í umfjöllun um helstu ferðasagnaritara útlenda og sjónum beint heim til Íslands.

5. Í fótspor syndasela. Fyrstu ferðasögur Íslendinga

Íslenskar ferðasögur eru mun fleiri og fjölbreyttari en ætla mætti við fyrstu kynni. Segja má að fræjum ferðasagna sé sáð í íslenskum fornbókmenntum á söguöld, frjóangar gægjast fram á sautjándu og átjándu öld en á þeirri nítjándu og í byrjun tuttugustu aldar standa ferða­sögur í mestum blóma. Saga þeirra til 1835 spannar því tæp sjöhundruð ár og á því tímabili eru samin um 20 rit, bæði ferðabækur og -sögur. Auk þess lásu menn og skrifuðu upp fjölda þýddra ferðasagna. Íslendingar hafa frá öndverðu verið víðförlir þrátt fyrir að eyjan þeirra í norðri lægi afskekkt og skipastóllinn hafi ekki verið upp á marga fiska eftir daga þjóðveldisins. Margir landnámsmenn voru skipaeigendur og alvanir siglingum, bæði kaup­ferðum og hernaði. Leifur Eiríksson er sennilega einn frægasti landnámsmaðurinn en talið er að hann hafi komið til Ameríku (Vínlands) um 1000, tæpum fimm öldum á undan sjálfum Kólumbusi. Reglubundnar siglingar um úthöf voru mikið menningarafrek á sínum tíma. Áður höfðu menn fetað sig með fjörðum og ströndum og ekki hætt sér út á hið opna haf. En norrænir víkingar létu sér fátt fyrir brjósti brenna. Þeir sigldu þvert yfir hafið frá Noregi til Íslands og höfðu ekki landsýn í vikutíma ef allt gekk að óskum. Ýmsar glöggar og greinar­góðar lýsingar eru til á sjóferðum norrænna manna frá þessum tíma og eru þær varðveittar í heimildum af ýmsu tagi, s.s. fornsögum, annálum og öðrum miðaldahandritum. Sem dæmi má nefna sjóferðasögu Óttars hins háleygska sem fór á skipi sínu norður með Noregi inn á Hvítahafið og til Bjarmalands á árunum 870–80 og söguna af Hrafna-Flóka sem sigldi „eyja­leiðina“ svokölluðu til Íslands um 874 sem frægt er orðið.[45] Íslendingar voru fram eftir öld­um með annan fótinn í Noregi. Sterk hefð var fyrir utanferðum betri bænda sona hér á landi ef marka má fornbókmenntirnar og líklegt má telja að utanfararminni Íslendingasagna, -þátta og fornaldarsagna hafi haft áhrif á og stuðlað að ritun ferðasagna hér á landi. Utanfarir þessar voru manndómsvígsla (Bildungsreise) eða „menningarskóli“ þar sem efnilegustu (og efnuðustu) ungmenni þjóðarinnar sigldu til Noregs að hitta konung sinn og forframast við hirð hans. Þar öfluðu menn sér jafnt menntunar og virðingar. Utanferðir þessar færðu líka þeim sem heima sátu fróðleik um hætti annarra þjóða því ferðalangarnir miðluðu reynslu sinni og þekkingu til þeirra. Slíkar menningar- og menntunarreisur voru lengi við lýði og lifðu framhaldslífi í svokölluðum „Grand-Tour“ þegar sjentilmenn seinni alda fóru til útlanda í sömu erindagjörðum. Það gerðu t.d. Íslendingarnir Ásgeir Sigurðsson á sautjándu öld og Tómas Sæmundsson snemma á þeirri nítjándu.

Víða er drepið á utanlandsferðir af ýmsum toga í íslenskum fornbókmenntum, bæði forn­sögum og samtímaritum. Þar eru m.a. tilgreindar víkinga- og herferðir, sendiferðir, brott­nám, útlegð, verslunar- og landnámsferðir.[46] Í Íslendingasögum eru ferðir eitt algengasta minnið en oftast eru þær afgreiddar stuttlega enda hlutverk þeirra yfirleitt eingöngu að flytja persónur milli sögusviða. Í biskupasögum eru utanferðir allvíða nefndar því biskupsefni þurftu jafnan að fara utan til að taka vígslu. Segir þar einnig fátt af ferðinni sjálfri og algengt að hún sé afgreidd í líkum anda og eftirfarandi klausa úr Þorláks sögu helga er til vitnis um: „…ok vildi þá kanna siðu annarra góðra manna. Ok fór hann af Íslandi, ok er eigi sagt af hans ferðum unz hann kom til París …“.[47] Í Árna sögu byskups er aðeins ýtarlegri lýsing: „Í þessi ferð þoldi Árni byskup mikla neyð í vistafangi ok fekk mikinn skyrbjúg í munninn, svá at hann hafði jaxla færi heim en heiman“![48] En þótt þessar ferðir séu títt nefndar til sögu og stundum sé sagt frá þeim allýtarlega, eins og t.d. Jórvíkurferð Egils Skalla-Grímssonar og hættulegri sjóferð Guðmundar biskupsefnis Arasonar, er ekki hægt að segja að um eigin­legar ferðasögur sé að ræða í þeim skilningi sem hér er lagður í það hugtak. Þær hafa ekki ferðina sjálfa að markmiði eða meginefni, eru ekki frá fyrstu hendi og eru sumar mestmegnis skáldskapur. Þær falla því utan þeirrar skilgrein­ingar ferðasagna sem hér er miðað við. Um ferðalög Íslendinga forðum daga hafa sagnir því aðeins varðveist að ferðalangurinn hafi verið kunnur maður, förin hafi tengst einhverjum sögulegum atburðum eða þá að menn hafi skrifað ferðasögu sína. Fyrsti Íslendingur sem sagður er hafa skrifað ferðasögu eða ferða­bók er Gizurr Hallsson sem uppi var á tólftu öld.

5.1 Farablóm Gizurar Hallssonar

Gizurr Hallsson lögsögumaður (u.þ.b. 1120–1206) var einn þeirra Íslendinga sem fór utan nokkrum sinnum og dvaldist alllengi erlendis. Hann kom m.a. til „Róms ok Bár“ (Bari á Ítalíu) á árunum 1144–1152.[49] Ekki er að efa að honum hefur þótt mikið til um dýrðina í heimsborginni Róm þar sem strætin iðuðu af fjölskrúðugu mannlífi og glæsileg mannvirki teygðu turna sína til himins. Hann hefur á ferðum sínum kynnst hámenningu erlendra þjóða, siðum þeirra og trúariðkunum og lært ýmsa kurteisi af þeim. Um Gizur Hallsson segir í Sturl­ungu: „Oft fór hann af landi brott ok var betr metinn í Róma en nökkur íslenzkr maðr fyrr honum af mennt sinni ok framkvæmd. Honum varð víða kunnigt um suðrlönd, ok þar af gerði hann bók þá, er heitir Flos peregrinationis“.[50] Um efni bókar Gizurar er ekkert hægt að fullyrða því hún hefur hvergi varðveist. En ætla má að í „ferðablómstri“ eða „farablómi“ hans hafi ferðasagan og upplifanir erlendis verið raktar að einhverju leyti. Rit hans gæti hafa verið skylt svokölluðum leiðarvísum (sjá hér á eftir) og hefur ef til vill verið á latínu en það þarf ekki að vera þótt titillinn bendi til þess. Úr þessu fæst aldrei skorið því bókin er tínd og tröllum gefin fyrir löngu. Örlög hennar urðu hin sömu og margra annarra bóka frá þessum tíma þegar landsmenn báru lítið skynbragð á fjársjóð þann sem fólginn var í handritum forn­aldar.

5.2 Rómferillinn Nikulás Bergsson

Meinlætamaðurinn Nikulás Bergsson verður að teljast víðförlasti maður á Íslandi á tólftu öld en hann fór pílagrímsferð suður til Rómar og Jerúsalem. Nikulás var fyrsti ábóti á Munka-Þverá í Eyjafirði. Hann hefur verið skáldmæltur því til eru brot úr Jóns drápu postula eftir hann og Kristsdrápa hefur verið eignuð honum. Þá er vitað að hann lést árið 1159. Annálar herma að hann hafi komið til Íslands úr ferð sinni árið 1154. Eftir heimkomuna skráði hann elsta íslenska ritið sem telja má til ferðabókmennta, Leiðarvísi og borgaskipan. Leiðarvísar (itinerarier) voru víða kunnir í Evrópu í klassískri fornöld og líklegt er að slíkar bækur hafi borist hingað til lands skömmu eftir að suðurgöngur fóru að tíðkast og krossferðir hófust.[51] Leiðarvísar hafa að líkindum upprunalega verið einskonar ferðadagbækur pílagríma en þjóna síðar hlutverki handbóka með ýmsum hagnýtum upplýsingum. Sennilegt þykir að Nikulás hafi sjálfur stuðst við leiðarvísi annars pílagríms á leið sinni og samið sinn í anda hans fyrir norræna suðurgöngumenn.[52] Í leiðarvísum voru vegalengdir tíundaðar, ýmist í dagleiðum eða mílum, kirkjur og bænahús voru nefnd ásamt öðrum stöðum sem pílagrímum var hollt að heimsækja og fyrirgreiðsla eða gistimöguleikar í klaustrum og gistihúsum raktir. Einnig var algengt að vara menn við ýmsum hættum á leiðinni. Taldir voru upp þeir staðir sem geymdu helga dóma eins og hárlokka dýrlinganna, fataslitrur eða beinaleifar þeirra og flísar úr jötunni í Betlehem eða úr krossinum sem Jesús dó á. Þessa staði leituðu pílagrímarnir uppi og fengu áþreifanleg sannindamerki trúar sinnar og aflausn synda sinna. Þannig sóttu þeir sér styrk til að halda áfram píslargöngunni. Á miðöldum var Jerúsalem talin helgust allra borga því þar var Kristur krossfestur, dáinn og grafinn. Næst að heilagleika gekk Róma­borg, andlátsstaður postulanna Péturs og Páls. Þangað þrömmuðu pílagrímarnir og sumir fóru líka til Santiago de Compostella á Spáni en þar hvílir Jakob postuli eða jafnvel alla leið til Miklagarðs (Konstantínópel, nú Ankara). Pílagrímsferðirnar voru farnar til þess að öðlast syndaaflausn rómversk-kaþólsku kirkjunnar og voru taldar vera góður undirbúningur fyrir annað líf. Ferð svo langt suður í lönd var bæði kostnaðarsöm, hættuleg og tímafrek og því var talið vænlegt til sáluhjálpar að hafa lokið svo erfiðu verkefni. Á krossferðatímunum var mjög algengt að lýst væri leiðum til helgra staða og til eru ógrynni af slíkum leiðarlýsingum í Evrópu.[53] En eftir að kristnir menn misstu Jerúsalem í hendur múslima árið 1187 urðu píla­grímsferðirnar mun áhættusamari og leiðin ógreiðari, þótt þær héldu áfram enn í alllangan tíma. Um miðja sextándu öld voru leiðarvísar orðnir verulega útbreiddir í kjölfar þess að ferðalög urðu auðveldari, almennari og vinsælli en verið hafði. Hinir fornu leiðarvísar eru forfeður þeirra ferðahandbóka (travel-guides) sem fæstir ferðalangar vilja vera án nú á dögum.

Leiðarvísi Nikulásar ábóta er að finna í skinnbókinni AM.194.8° og þar eru ýmsir miðalda­textar um vísindaleg efni. Handritið er nákvæmlega tímasett árið 1387. Leiðarvísirinn er felldur inn í forna heimslýsingu og frásagnarbrot um Róm og Jórsali úr alfræðiritum. Leiðar­vísir Nikulásar er sú eina af fornum, norrænum „farabókum“ sem varðveist hefur í heilu lagi. Til eru brot af leiðarlýsingu í einni uppskrift Hauksbókar, Wegur til Róms,  og er þar lýst annarri leið en Nikulás fór. Í sama handriti og Leiðarvísir er stutt leiðarlýsing, m.a. á leiðinni til Jerúsalem, sem heitir Leiðir.[54] Nikulás lýsir í riti sínu leið þeirri suður til Ítalíu og Landsins helga sem „Rómferlar“ fetuðu frá borg til borgar. Hann fór um Noreg, Danmörku, Þýskaland og Ítalíu, með viðkomu í Róm. Þaðan liggur leiðin á skips­fjöl á slóðir Heródót­usar í Litlu-Asíu, um Kýpur til Sýrlands og loks til hinnar helgu borgar að legstað Jesúsar. Að meðaltali gekk Nikulás um 33 kílómetra á dag og einn daginn þrammaði hann um 80 kílómetra.[55] Í riti sínu segir hann frá því helsta sem fyrir augu ber og telur upp borgir, kirkjur og legstaði heilagra manna. Hlutlægt sjónarhorn og þurrar upptalningar eru að mestu ráðandi í Leiðarvísi Nikulásar og lítið segir af manninum sjálfum. Þó eru örfáar athugasemd­ir sem skerpa örlítið óljósa mynd hans í huganum, einkum þegar hann fléttar sögu staðarins saman við leiðarlýsinguna. Þá vísar hann í bókmenntir samtíma síns eða leggur dóm á inn­fædda, „þar er Gnitaheiður er Sigurður vó að Fáfni“ (55), í Siena „eru konur vænstar“ (57) og í Salerno „eru læknar bestir“ (59). Hvað munkur og ábóti á við með fullyrðingum um vænar konur er óvíst, kannski að þær hafi verið sérlega fallegar eða góðar. En ein merkasta athugasemd Nikulásar ábóta er sú sem lýsir stjörnufræðiþekkingu hans. Hann virðist hafa getað fundið út landfræðilega breidd og pólhæð með sæmilegri nákvæmni: „Út við Jórdan, ef maður liggur opinn á sléttum velli og setur kné sitt upp og hnefa á ofan og reisir þumal­fingur af hnefanum upp, þá er leiðarstjarna þar yfir að sjá jafnhá en eigi hærra“ (60). Þessi tilvitnun er sennilega sú frægasta úr Leiðarvísi og hefur þetta uppátæki haldið nafni Nikulásar á lofti á sviði íslenskra raunvísinda. Það er til marks um „útsjónarsemi og hug­kvæmni ásamt glöggum skilningi og áhuga á því sem fyrir augu ber. Bendir allt til þess að þetta hafi verið dæmigert um Íslendinga á þessum tíma…“.[56] Sennilega er það satt sem segir í stuðlum við lok frásagnarinnar að Nikulás ábóti hafi verið „vitur og víðfrægur, minnigur og margfróðr, ráðvís og réttorðr“ (61). Nýlega fetuðu nokkrir Íslendingar í fótspor hans[57] og komust að því að orðum Nikulásar mátti treysta fullkomlega og að Leiðarvísir væri í fullu gildi ennþá sem vegahandbók.

5.3 Reisubókarkorn Björns Jórsalafara

Enn einn víðförull Íslendingur er Björn Einarsson sem kallaður var Jórsalafari (uppi 1350–1415). Björn var frægur höfðingi og ágætismaður og víða getið í annálum. Hann fór í píla­gríms­ferðir til Rómar og Jerúsalem á árunum 1379–1410. Árið 1405 gerði Björn erfðaskrá sína í Hvalfirði og þar kemur fram að hann þykist skyldugur að ganga til „sanctum Jacob­um“ eða grafar Jakobs postula.[58] Á henni hvíldi mikil helgi og þangað fóru margir píla­grímar. Kona Björns, Solveig Þorsteinsdóttir, var jafnan með honum á ferðum hans. Ferðar þeirra hjóna er getið í Nýja annál sem er samtímaheimild:

Þetta ár fór Björn bóndi Einarsson af landi í burt og hans hústrú Solveig; fóru þau fyrst til Róms, og þaðan aptur til Fenedí; stigu þar á skip og sigldu svo út yfir hafið til Jórsala[lands] til vors herra grafar, og þaðan aptur í Fenedí; [síðan] skildu þau þar; fór hustrúin aptur til Noregs, en bóndinn fór vestur í Compostellam til sanctum Jacobum; lá hann þar sjúkur hálfan [mán]uð; þaðan fór hann inn um endilangt Frank[aríki, svo inn] í Flandur, þaðan inn í England í Cantarabyr[gi, síðan] aptur til Noregs.[59]

Víst er að Björn Jórsalafari hefur ritað ferðasögu en hún er nú glötuð. Hún er samt ekki horfin alveg sporlaust eins og bók Gizurar Hallssonar. Jón lærði (1574–1659) getur ferða­bókarinnar í ritgerð sinni um ættir sem samin var um 1640 á svohljóðandi hátt: „Hans reisu­bók var með hönd höfð í ungdæmi mínu“.[60] Jón segir ennfremur í Tíðsfordrífi: „… og hvörsu marga framparta af sauðaslátri hann fékk í gjaftolla var einninn greint í þessu reisu­bókarkorni. Ég var þá barn er minn faðir hafði hana og man því næsta lítið þar af.“[61] Ferill ferðabókar Björns hefur verið rakinn sem hér segir:

Ferðabók Bjarnar var til um 1584–1590 norður í Ófeigsfirði á Ströndum. Jón Guðmundsson lærði getur þess í riti því («Tíðsfordríf»), er hann samdi fyrir Brynjólf biskup Sveinsson (1644), að faðir sinn hafi haft bókina, en Jón þá verið ungur og segist lítið muna úr bókinni. Ferða­bókin var til á dögam [sic] Arngríms lærða (dó 1648), því að hann segir það beint, að hún sé enn til, í Íslandssögu sinni («Specimen Islandiæ historicum et magna ex parte chorograph­icum»), og Björn á Skarðsá (dó 1655) hefir haft bókina millum handa og tekið úr henni margt í Grænlandsannál sinn. Á dögum Árna Magnússonar er bókin ekki til, og Finnur biskup kveður skýrt á (um 1770), að bókin sé alls eigi til lengur, og harmar það mjög, að svo skuli vera.[62]

Glefsur úr reisubók Björns hafa varðveist í ófullkominni endursögn Jóns á því sem hann mundi úr henni eftir þessi stuttu kynni, einkum í Grænlandsannál[63] (bls. 44–6). Endur­sögnin hefst á þessum orðum: „Þetta fátt eitt með styzta ágripi er skrifað úr reisubók Bjarnar bónda Einarssonar, er bæði var kenndur Vatnsfjarðar-Björn og stundum Jórsalafari“ (44). Þar segir og frá því að Björn hafi á ferðum sínum útvegað sér „margar historíur heilagra með helgum dómum, er hann með sér út flutti og heim færði í Vatnsfjörð“ (44) og að í Jerúsalem hafi þjónustufólk þeirra hjóna allt verið skorið á háls eina nóttina (45). Fram kemur að Björn hafi átt vinsamleg samskipti við tröll á Grænlandi :

En síðast svo dugði, að hann hjálpaði tveimur tröllum, ungum systkinum úr flæðiskeri, þau er honum svóru trúnaðareiða, og skorti hann eigi afla þaðan af, því þau dugðu til alls veiðiskapar, hvað hann hafa vildi, eður þurfti. Það þókti skessunni sér mest veitt, þá er húsfrúin Ólöf [Solveig] lofaði henni að handpa og leika sér að sveinbarni því er húsfrúin hafði þá nýalið. Hún vildi og hafa fald eftir húsfrúnni, en skautaði sér með hvalagörnum. Þau drápu sig sjálf og fleygðu sér í sjó, af björgum, eftir skipinu, er þau fengu ekki að sigla með bóndanum Birni, sínum elsku húsbónda, til Íslands.[64]

Arngrímur lærði segir einnig lítillega af Grænlandshrakningum Björns í Íslandssögu sinni eins og áður segir. Hann kallar reisubók hans „Itinerarium“[65] sem þarf þó ekki endilega að þýða að hún hafi verið í ætt við „itinerarium“ Nikulásar ábóta, Leiðarvísi og borgaskipan. Um það er auðvitað ekkert hægt að fullyrða eins og Ólafur Halldórsson handritafræðingur bendir á varðandi efni reisubókar Björns Jórsalafara og endursögn Jóns lærða: „Augljóst er, að ekkert af efni reisubókar sem er varðveitt í sautjándu aldar ritum er skrifað eftir henni sjálfri; það er allt komið úr munnlegum heimildum eða skrifað eftir minni Jóns lærða, sem hafði einhverja nasasjón af efni bókarinnar þegar hann var barn. Af þessu leiðir, að engar traustar ályktanir verða dregnar af brotum þeim sem hér hafa verið rædd og rætur eiga til reisubókar, um það hverskonar rit hún hafi verið“.[66] Finnur Jónsson biskup skrifaði ævi­ágrip Bjarnar í Kirkjusögu sinni, „og segist gera það fyrir þá sök, að eigi skuli minning hans niður falla, þessa manns hins frægasta, er sé á þeim tíma hinn eini sagnaritari, er hann kunni að nefna, og svo hafi verið guðrækinn maður, að hann fyrir guðræknis sakir hafi þrisvar farið til Rómaborgar.“[67]

6. Af skessilegum þjóðum. Landafræði og heimsmynd

Nú á dögum hefur sjónvarpið sennilega víðtækust áhrif á heimsmynd fólks. En hvaða hug­myndir skyldu menn á lærdóms- og upplýsingaröld hafa haft um það hvernig heimurinn liti út? Hvaðan komu þær hugmyndir? Um það er erfitt að segja en ætla má að sú heimsmynd sem íslenska kirkjan viðurkenndi og boðaði hafi haft einna mest áhrif á það hvaða augum menn litu sjálfa sig og umheiminn fyrr á tímum. Þá hafa bókmenntirnar vafalítið haft mikið að segja, ekki síst landafræðirit, ferðasögur og ferðabækur. Einn helsti brautryðjandi á sviði almennrar landafræði hér á landi var Guðbrandur Þorláksson biskup (1541–1627) en hann er fyrsti Íslendingurinn sem vitað er til að hafi kynnt sér erlend landfræðirit að nokkru ráði.[68] Hér á landi höfðu menn ritað nokkrar fræðilegar bækur um náttúru og landafræði Íslands, t.d. biskuparnir Oddur Einarsson (1559–1630) sem var lærisveinn danska stjarn­fræðingsins Tycho Brahes, Gísli sonur Odds (1593–1638) og Þórður Þorláksson (1637–1697).[69] Íslandslýsingar þessara þriggja fræðimanna eru vitaskuld ekki ferðasögur heldur vísindarit þar sem þess er freistað að samhæfa persónulega staðþekkingu vísindalegum niðurstöðum samtímans. Allir skrifuðu biskuparnir á latínu sem lærdómsmenn einir skildu svo þessi vísindi fóru að mestu fyrir ofan garð og neðan hjá almenningi í landinu. Jón lærði Guðmundsson (1574–1659) skrifaði hinsvegar á móðurmáli sínu ritgerð sem ber heitið Stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur en það er tilraun til að rita náttúrusögu Ís­lands. Hugmyndir Jóns lærða byggjast aðallega á innlendri miðaldahefð ásamt vísindalegum athugunum hans sjálfs og annarra góðra manna. Í ritum hans má greinilega sjá heimsmynd dæmigerðs endurreisnarmanns eins og franski heimspekingurinn Michel Foucault (1926–1984) skilgreindi hana.[70] Náttúran er fyrir Jóni lærða uppspretta alls, iðandi af lífi. Álfar og vættir bjuggu í hverjum steini og tröllin í fjöllunum. Náttúran var flókið kerfi tákna sem þurfti að ráða til að öðlast skilning á heiminum og hver jurt og steinvala bjó yfir dularmagni sem hægt var að nýta sér til heilsubótar eða heilla. Jón lærði er barn síns tíma og í ritum hans eru trúarlegt orsakalögmál og samsvörunarlögmál líkinga og tákna allsráðandi í heimssýninni líkt og hjá öðrum endurreisnarmönnum. Það er ekki fyrr en með rannsóknum þeirra Eggerts og Bjarna um miðja átjándu öld að vísindalegt orsakalögmál með kerfisbundnu skipulagi aðgreindra fyrirbæra er lagt til grundvallar við skynjun og lýsingu heimsins. Við þau tímamót hafa menn miðað upphaf upplýsingarinnar á Íslandi.[71]

Telja má næsta víst að innlend sagnahefð hafi haft áhrif á og stuðlað að ferðasagnaritun hér á landi. Utanfarir eru algengt minni t.d. í Íslendingasögum og -þáttum, konungasögum, bisk­upasögum og fornaldarsögum. Einnig má ætla að ferðasagnaritun í Evrópu hafi haft sín áhrif. Íslendingar höfðu reyndar slæma reynslu af ferðabókum útlendinga um Ísland. Á sextándu öld kom á prent í Evrópu mikill fjöldi landlýsinga og rita um landafræði og var í mörgum þeirra talsvert gert af því að lýsa fjarlægum löndum. Í slíkum prentuðum bókum er Íslands getið og sagðar af því ýmsar furðusögur. Þótti þessi eyja elds og ísa afar dularfullt fyrirbæri og eyjarskeggjar ruddalegir villimenn. Arngrími Jónssyni lærða (1568–1648) rann þetta til rifja og samdi á latínu varnarrit gegn skrifum útlendinga um Ísland. Hann ritaði t.d. Ana­ome Blefkeniana sem er svarrit við vinsælli ferðasögu í ljóðum sem kom fyrst út í Hollandi 1607 eftir óþekktan höfund sem kallaði sig Dithmar Blefken. Bók Blefkens er sögð vera „einn hinn mesti lygaþvættingur, sem nokkurn tíma hefir birzt um Ísland og Íslend­inga“.[72] Furðusögur fá byr undir báða vængi og því er t.d. haldið þar fram að Hekla sé kvalastaður fordæmdra sálna en sú hugmynd lifði lengi bæði meðal Íslendinga og aðkomu­manna.

Í almennri landafræði er fátt frumsamið til í handritum frá þessum tíma en þeim mun meira af ýmsu þýddu efni.[73] Landafræðirit fyrri alda gegndu því hlutverki að vera einskonar gluggi til umheimsins á tímum þegar örfáir hleyptu heimdraganum og kynntust framandi löndum af eigin raun. Þeir sem heima sátu urðu að gera sér að góðu slíkar upplýsingar nema þeir kæm­ust yfir „raunsannar“ ferðalýsingar annarra. Kannski hafa hugmyndir manna um þjóðir í hinum fjarlægu Indíalöndum verið á borð við þessar sem eru í landfræðilegum kafla ferða­sagnasafns í handriti frá því um 1850:

Í utanverðri austurálfu heimsins eru margar skessilegar þjóðir. Sumar svo ljótlegar, að hvorki hafa nef né nasir, andlit allt sé jafnt og slétt. Á sumum skjagar fram svo langt neðri vörin að þeir hylja með henni alla sína ásjónu þá þeir sofa í sólarhita. Sumir hafa hrossafætur allt upp til hnjána, sumir svo síð eyru að þeir hylja með þeim allan sinn líkama. En þeir sem hafa hrossa­fæturnar sýnast bæði að vera kallkyns og kvennkyns. Sumir eru svo munnlitlir að þeir hafa þar lítið gat, sem aðrir hafa munn og sjúga svo að sér sína fæðu með fjöðurstöfum. Sumir hafa litla eða eingva tungu og teiknar hvör öðrum með bendingum. Enn þó að þetta þyki undar­legt og ótrúlegt þá er það þó til sanninda, því það er ei á móti náttúrinni sem guðs vilji er.[74]

Ætla má að í huga margra þeirra sem ekki ferðuðust sjálfir hafi mynd fjarlægra þjóða verið allfjarri raunveruleikanum. Menn öfluðu sér þekkingar á fjarlægum löndum og heimsálfum úr ýmsum þýddum landafræðiritum á borð við þessi sem hér voru nefnd og úr ágripskennd­um handbókum ýmiskonar í misgóðum uppskriftum. Ferðasögur, þýddar og frumsamdar, hafa líka átt stóran þátt í þeirri mynd af veröldinni sem menn drógu upp í huga sér. „Sannar“ ferðasögur hafa kannski hrakið margar af tröllasögunum og leiðrétt heimsmyndina nokkuð ef höfundurinn var sannsögull en skáldaðar ferðasögur hafa hugsanlega skekkt myndina og alið á misskilningi og fordómum. Einnig gátu menn viðað að sér nokkrum fróðleik um sköp­ulag heimsins í fornbókmenntunum, t.d. í rómönsum en þar blandast saman þekking á raun­verulegri landaskipan og loftkenndar hugmyndir um fjarlæg furðulönd.[75] Ýmiskonar flökkusagnir, goðsagnir, þjóðsögur – og það sem nútímamenn myndu kannski kalla mis­skilning og hleypidóma – gengu svo ljósum logum í skilningi og túlkun manna á veröldinni. Heims­mynd manna hlýtur því að hafa verið býsna bjöguð, brothætt og götótt langt fram á nítjándu öld.

Þýddar ferðasögur bæði sannar og skáldaðar voru mikið lesnar hér á landi og gengu manna á milli í handritum. Á Landsbókasafni eru fjölmargar íslenskaðar ferðasögur til, flestar óprent­aðar og bíða þess að verða rannsakaðar. Hér yrði of langt mál að telja þær allar upp (nokkrar eru nefndar í Viðauka).[76] Vert er þó að geta bókar nokkurrar sem ætla má að hafi lagt drjúg­an skerf til hug­mynda Íslendinga um sjálfa sig og umheiminn. Í safni Jóns Sigurðssonar í handritadeild Lands­bókasafns er stórt handrit frá því um 1800, JS.29.fol. ættað úr Stein­grímsfirði. Í þessu handriti sem ber heitið „Nockrar Reisusögur með Fleiru Fróðlegu til Dægrastyttingar“ er safnað saman bæði frumsömdum og þýddum ferðasögum. Þar er reisu­bækur Jóns Indíafara og séra Ólafs Egilssonar að finna auk ferðasögu Ásgeirs Sigurðssonar snikkara. Þá eru þar þrjár þýddar ferðasögur. Séra Einar Ólafsson á Stað (1677–1721) þýddi ferðasögu Friðriks nokkurs Bollings (pr. í Kh. 1678) og er hún í þessu handriti. Hefur sú saga eflaust hefur verið lesin af mörgum því hún er til í sjö afskriftum frá ýmsum tímum. Bolling þessi sigldi frá Amsterdam til eyjarinnar Jövu í Indónesíu snemma á sautjándu öld. Ferðasagan er í dagbókarstíl, einskonar blanda af athugunum höfundarins sjálfs og fornum kynjasögum um fólk og fyrirbæri. Í handritinu er einnig ferðasaga þýsks kaupmannssonar Ernst Cristoph Barche­witz að nafni. Saga hans ber nafnið „Reisa Authoris ur Dúringen til Hollands, og þadan allt til Eyarinnar Java“ og er löng og mikil (223 bls.). Loks er þýðing á ferðasögu danska landkönnuðarins Jens Munk (1579–1628) „Siglinga þáttur Jens Munke­sonar í nærstum 17. mán­uðe Anno 1619 og 1620 etc“ (bls. 285–300).[77] Í sögunni segir m.a. frá því þegar skip Munks sat fast í ís í mynni Hudsonflóa. Menn hans börðust við hungur og kulda og reyndu að bjarga sér með því að leggja sér ísbjarnarkjöt í edikslegi til munns. Þrátt fyrir það hrundi áhöfnin niður úr skyrbjúg og af 48 leiðangursmönnum sneru aðeins tveir aftur auk Munks. Í lok þessarar hrakningasögu er skemmtileg vísa í handritinu, sennilega eftir skrifarann:

Jens um Reisu – mædda Múnch / meire ey hef Eg línu

Heyrðe hann tíðum hlúnk og dúnk / hiellt þó Lífe sínu.[78]

„Nockrar Reisusögur…“ er einskonar úrval ævintýralegra og lærdómsríkra ferðasagna eftir bæði innlenda og erlenda höfunda. Af m.a. þeim upplýsingum sem þar er að finna um fjar­læg lönd og þjóðir hafa menn dregið upp útlínur heimskortsins í huga sér. Sennilega hefur þessi bók verið lesin spjaldanna á milli og jafnvel lánuð milli bæja og í aðrar sveitir. Fleiri slíkar bækur eru til og víða má finna bæði frumsamdar og þýddar ferðasögur í bókum innan um annað efni. Af fjölda þeirra ferðasagna sem til eru í handritum langt fram á nítjándu öld má draga þá ályktun að ferðasögur hafi verið bæði vinsæl og áhrifamikil bókmenntagrein og að þær hafi skipað veglegan sess hér á landi, bæði sem afþreyingarefni og fróðleiksnáma.

7. Tvær ferðasögur um Ísland (1664, 1709)

Hugmyndir Íslendinga um eigið land voru lengi harla þokukenndar. Áhuga á náttúru lands­ins verður fyrst vart í ritum eftir siðaskipti. Þar má bæði sjá raunsannar lýsingar á náttúru­fyrirbærum og hjátrú eða hindurvitni. Þekking manna á náttúru- og landafræði samanstóð af einskonar blöndu áþreifanlegs sannleika, viðtekinna trúarhugmynda og fornrar þjóðtrúar. Menn trúðu því t.d. statt og stöðugt að á öræfum landsins byggju tröll og forynjur og að sæ­skrýmsli svömluðu í hafinu. Einstaka maður þorði að hætta sér inn í óbyggðir og þótti það mikil dirfska. Árið 1664 fór séra Helgi Grímsson á Húsafelli (1622–1691) ásamt mági sínum og kollega Birni Stefánssyni í Grímsnesi í hættulegan leiðangur til að leita uppi Þóris­dal. Helgi hafði átt þennan draum frá því hann var unglingur en ávallt verið talinn af þessu fyrirtæki enda var þessi dalur álitinn einn skuggalegasti staður á Íslandi að Heklu frátaldri. Þórisdals er víða getið í fornum sögum og er hann ávallt sveipaður ógnþrunginni dulúð:

Hafa sumir haldið, að dal þennan byggja mundu óvætti ein um langan aldur eftir Þóris dauða, fjölkynngi full og forneskju, og hafa því Áradal kallað, og það nafn hefur honum helzt verið almennt [gefið] í daglegu máli, bæði nú á dögum og fyrir mörgum árum (sem áður skrifaðar hendingar votta), og mundu þær álögur á vera með fjölkynngiskrafti og formælum þeirra dalbúa þar, að sá dalur mundi aldrei fundinn verða…[79]

Svo merkilegur var leiðangur prestanna hugdjörfu að ástæða þótti til að festa frásögn af honum á blað.[80] Helgi skráði ferðasöguna þetta sama sumar og hefur hún vafalítið verið mikið lesin því hún er til í allmörgum uppskriftum.[81] Eggert og Bjarni vitna til hennar í ferðabók sinni og segja hana ritaða af mikilli mærð (I:52). Frásögn Helga er epísk og mjög í anda þjóðsagna og fornsagna. Sem dæmi verður válegur fyrirboði á vegi þeirra, undarlega þögull hrafn sem var „mjög starsýnn til þeirra“ (347). En eftir erfiða ferð komust þeir til Þór­isdals ásamt fylgdarmanni sínum og er landkostum lýst í ferðasögunni. Þar sátu þeir í helli þeim sem Þórir þurs bjó í ásamt dætrum sínum (354), snæddu nesti sitt og dreyptu á brenni­víni. Þessi ferð íslenskra ofurhuga úr heimabyggð sinni inn á öræfi er í raun mikið þrekvirki sem líkja má við landafundina miklu. Furðusögur um dalinn ókunna æsa forvitni þeirra í byrjun, þeir láta hjátrú, bábiljur og fortölur sem vind um eyrun þjóta, kanna óttalausir ókunna stigu og nema þar land því í áfangastað reisa þeir vörðu og rista fangamörk sín á hellisvegg. Leit þeirra ber árangur, nýrrar þekkingar er aflað og við heimkomuna eru þeir hróðugir sigurveg­arar öræfanna.

Í óskrásettum böggli í handritadeild Landsbókasafns, B.225.[8˚], hefur varðveist stutt ferðasaga í eiginhandarriti[82] frá 1709 sem segir frá ferð Jóns nokkurs Eyjólfssonar í Ási í Melasveit og tveggja félaga hans á hest­baki úr Borgarfirði vestur að Ísafjarðardjúpi. Jón er talinn fæddur um 1676 og mun hafa verið í betri bænda röð. Ferðalag Jóns er ekki stórtíð­indi eins og ferð séra Helga til Þóris­dals. Hvergi í ferðasögu Jóns er getið beinnar ástæðu fyrir skrifum þessum en í upphafi er þetta ávarp: „Til gamans sýnd yður, hl.[hjartanlegi] vin“. Svo virðist sem Jón hafi annaðhvort skráð ferðasögu sína sérstaklega fyrir þennan vin, eða að hann hafi skrifað hana fyrir sjálfan sig á sínum tíma og sent vini sínum hana seinna til gamans. En hvernig sem það nú var verður að teljast nokkuð undarlegt að ungur bóndi í byrjun átjándu aldar skuli setjast niður og skrifa sextán blaðsíður um tíðindalaust ferðalag sitt í næstu sveitir. Það skyldi þó aldrei vera af einhverskonar löngun til að aðgreina sig frá fjöldanum, forða sjálfum sér frá því að falla í gleymsku? Ferðasagan hefst 28. ágúst í Þing­nesi í Borgarfirði og henn lýkur 21. september á sama stað. Farið er eftir gömlum troðn­ing­um og lélegum fjallvegum, yfir loðin engi, blautar mýrar og vatnsmiklar ár. Getið er sögu­frægra staða á leiðinni – hvar Jón Arason og synir hans voru handteknir, hvar Kjartan Ólafs­son var veginn og hvar þjófur einn var drepinn – sem sýnir að Jón hefur verið mennt­aður maður, kunnugur fornsögunum, þjóðsögum ýmsum og sögu þjóðarinnar. Vín er tölu­vert haft um hönd í ferðinni eins og algengt var á langferðum innanlands á þessum tímum, sbr. „var drukkið vel, og þar hjá áðum vér ölvaðir“ (229), „þar áðum vér og drukkum vín“ (231), „Þar var drukkið með ákafa, því varð ei áð…“ (233) og „…var þar drukkið ákaft í Vogum“ (235).[83] Í ferðasögu Jóns er raunveru­leik­inn næstum áþreifanlegur, t.d. kemur fram að prestlaust og sönglaust er sumstaðar vegna bólusóttarinnar sem geisaði á árunum 1707–9 (228, 231) og eru eyðibýli allmörg af hennar völdum. Í áfangastaðnum í Vatnsfirði þar sem Björn Jórsalafari bjó þremur öldum fyrr er brúðkaupsveisla haldin. Dvaldi Jón þar í 12 daga „og voru þar sífelldar góðar veitingar öls og matar alla þá daga með minnisstæðri alúðarsemi“ (238). Lýsing Jóns á híbýlum í Vatns­firði og á kirkjunni er greinargóð en þarna var reisulegt höfðingjasetur. Lokaorð ferðasögunnar eru hefðbundin lofgjörð til Guðs: „Guð veri prísaður, sá oss veitir liðsemd h(eilagra) engla á mörgum ókunnum hættuveg, já, amen“ (239).

Ferðasögur sr. Helga og Jóns í Ási eru ritaðar með tæpu hálfrar aldar millibili og eru býsna ólíkar. Saga Helga er rituð af merkilegu tilefni en saga Jóns af sáralitlu. Helgi skrifar yfirleitt um sig og förunaut sinn í þriðju persónu og kallar sjálfan sig „Helga prest“ („eg“ kemur tvisvar fyrir, „vér“ einu sinni). Hann er fjarlægur, með millilið milli sjálfs sín og lesanda. Áhrif bókmenntahefðarinnar eru greinileg í stíl hans sbr. ýmis orðatiltæki í anda fornsagna: „Björn hét maður, son Stefáns prests […] Björn var mikill maður og sterkur, ungur og ókvæntur, áræðismaður mikill og hugaður vel“ (345). Frásögn Helga er skipuleg, hún hefst á umfjöllun um gamlar heimildir, þá er sagt frá tildrögum og undirbúningi ferðarinnar og loks er sagt frá ferðinni sjálfri og farsælli heimkomu. Hjá Jóni í Ási kveður við annan tón. Hann er nálægari lesandanum m.a. vegna fyrstu persónu frásagnar sinnar og hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Saga hans hefst um leið og ferðin og hana þrýtur þegar hann „þóttist heim kominn“. Hefðin hvílir ekki eins þungt á honum, frásögn hans er heldur óskipuleg. Hann veður úr einu í annað, stekkur á milli fortíðar og samtíðar, sögu og bók­mennta. Dæmi um þetta má sjá þegar hann segir frá áningu skammt frá Sauðafelli. Jón getur þess að þar hafi Jón Arason verið handtekinn forðum, hann segir hver þá var prestur og hver sé prestur „nú“ og að Barði nokkur (í Króka-Refssögu) hafi verið drepinn skammt frá tjald­staðnum. Svo sviptir hann sér í samtímann þegar hann tekur fram að túnin þar séu enn óslegin (228). Í rauninni má líta á fálmkennd skrif Jóns í Ási sem hliðstæðu við texta Árna Magnússonar frá Geitastekk hvað sjálfstæða og persónulega ritun varðar, andstætt séra Helga sem skrifar í anda ríkjandi textahefðar.

8. Mikilvægur músarindill. Ferðabækur um Ísland

Átjánda öldin er jafnan talin vera eitt erfiðasta tímabil í sögu þjóðarinnar. Hún einkennist af náttúruhamförum og hallærum, mannlegri eymd, niðurlægingu og dauða. Menn voru orðnir langþreyttir á einokun og einveldi, marghrjáðir af fátækt og skorti, farsóttum og endalausri baráttu við óblíð náttúruöfl. Viðnámsþróttur þjóðarinnar og vonir um bættan hag voru í lág­marki. Dönsk stjórnvöld litu loksins til með þessum þegnum sínum í norðri sem þá voru á heljarþröm. Um miðja átjándu öld var áhugi vísindamanna á hagnýtri náttúrufræði að vakna og almennur framfarahugur í ráðamönnum í Danmörku. Það er um svipað leyti sem hafist er handa um stofnun „Innréttinganna“ sem var innlent átak til eflingar atvinnuvegunum. Þá var og rannsóknarferðum Eggerts og Bjarna hrundið af stað. Vísindaáhugann, starfsgleðina og bjartsýnina sem einkenndi framtak manna á þessum árum má rekja til upplýsingarinnar sem breiddist út eins og eldur í sinu. Með upplýsingunni sem talin er hafa borist hingað til lands frá Danmörku um 1750 og eflingu náttúruvísinda og landafræði í kjölfarið hófst ritun ferða­bóka hér á landi. Um þessar mundir var mönnum að verða ljós sú staðreynd að þekking á lögmálum náttúrunnar var lykillinn að auðæfum landanna og undirstaðan í þróun atvinnu­veganna. Hið Konunglega danska Vísindafélag, sem stofnað var 1742, varð brátt umsvifa­mikið enda margir af fremstu ráðamönnum Dana í forystuliði þess. Eitt helsta viðfangsefni félagsins var að rannsaka náttúrufar þeirra landa sem lutu stjórn Danakonungs. Meðal þess fyrsta sem félagið lét til sín taka hér á landi var að senda hingað spurningalista til amt­mannsins þar sem hann var beðinn að fá hæfa menn í hverju héraði til að semja eftir þeim sýslulýsingar. Voru dræmar heimtur á listunum en forráðamenn félagsins sáu þó hversu brýn þörf var á viðunandi lýsingu landsins, náttúrufari þess og helstu atvinnuvegum. Félag­ið sendi hingað lærdóms- og vísindamanninn Niels Horrebow (1712–1760) en hann þurfti að hverfa úr sviðsljósinu í Danmörku um hríð vegna sjóðþurrðar, til að ferðast um og rann­saka veðráttu landsins og fleira er varðaði náttúru þess. Horrebow steig á land árið 1749 og tók strax til starfa þrátt fyrir lélegan aðbúnað og tækjakost til rannsókna. Lítið varð úr fyrir­ætluðum ferðalögum hans um landsbyggðina, m.a. vegna fjárskorts. Skýrslur þær sem hann sendi frá sér næsta ár þóttu svo vel gerðar að ákveðið var að bæta kjör hans og starfsaðstöðu og framlengja dvöl hans um þrjú ár. Árið 1751 var hann skyndilega kallaður heim til Danmerkur, sennilega bæði vegna þess að fjarvera hans eða útlegð var orðin nógu löng til að bæta fyrir sjóðþurrðina og vegna þess að Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson, efnilegir nem­endur við Háskólann, þóttu betur hæfir til þessara starfa. Eftir heimkomuna setti Horrebow saman bók um Ísland byggða á rannsóknum sínum á landi og þjóð sem heitir Tilforladelige Efterretninger om Island (Frásagnir um Ísland) og kom út á dönsku árið 1752. Síðar var bókin þýdd og gefin út á þýsku, ensku, frönsku og hollensku (á íslensku 1966) og þótti mikið merkisrit. Þrátt fyrir skamman tíma hans til rannsókna og lítið ráðrúm til ferðalaga er Íslandslýsing Horrebows býsna greinargott fræðirit. Bókin var byggð upp sem andmæli gegn bók Johanns Andersons, borgarstjóra í Hamborg, um Ísland sem út kom tveimur árum áður. Þar fengu landsmenn hraklega dóma og þykir sú bók vera „…einhver hin vitlausasta og illorðasta, sem nokkurn tíma hefur verið skrifuð um Ísland“ eða svo segir Þorvaldur Thoroddsen í Landfræðissögu sinni.[84] Anderson þessi byggði níð-Íslandslýsingu sína að mestu leyti á meinyrtum frásögnum danskra einokunarkaupmanna sem sannanlega gafst hvorki tími né tækifæri til að kynna sér hagi landsins og ásigkomulag.[85] Horrebow svarar lastyrðum hans fullum hálsi og skrifar bók sína með hlýhug til Íslendinga. Hann hafði kynnst þeim lítillega af eigin raun og í bók sinni reynir hann að sýna högum þeirra skilning og hefur trú á möguleika til framfara. Bók hans var samin til þess „að leiða lesendur á réttan veg og hrekja hinar harðorðu og röngu ásakanir, sem á landið eru bornar“ segir Horrebow í formála.[86] Honum hefur verið vel ljóst að hann var að vinna verk sem hentaði innfæddum betur. Hann bendir á að réttast væri að innlendir menn semdu Íslandslýsingu, „því það er engan veginn létt verk fyrir útlending að semja rétta lýsingu af svo stóru landi, sem þar að auki er auðugt af mörgum náttúruundrum“.[87] Vísindafélagið danska réðst nú í að senda tvo íslenska námsmenn til landsins í stórfelldan, vísindalegan rannsóknarleiðangur þar sem safna skyldi víðtækum upplýsingum um land og þjóð í því augnamiði að koma á umbótum sem kynnu að bæta hag landsmanna. Það voru fóstbræðurnir fræknu, Eggert og Bjarni, sem tóku það verkefni að sér.

8.1 Ferðabók Eggerts og Bjarna

Eggert Ólafsson (1726–1768) og Bjarni Pálsson (1719–1779) eru frumkvöðlar fræðilegrar ferðabókaritunar um Ísland. Þegar afráðið var að þeir yrðu sendir hingað á vegum Vísinda­félagsins danska urðu tímamót í sögu íslenskra náttúrurannsókna og þekkingar á landinu. Þeir félagar fóru til Íslands í skipulagða rannsóknarferð sumarið 1752. Þeir ferðuðust um landið í sex sumur, eða um ellefu mánuði alls, og héldu dagbækur um ferðir sínar. Á veturna dvöldust þeir í Viðey og skráðu niðurstöður rannsókna sinna sem beindust aðallega að nátt­úrufari landsins og lifnaðarháttum landsmanna. Þeir komu til Kaupmannahafnar haustið 1757 og unnu að því að koma skipulagi á niðurstöður rannsóknanna samhliða námi í háskól­anum. Bjarni lauk námi í læknisfræði og var skipaður landlæknir 1760. Þar með var lokið hlut hans í þessu verkefni og Eggert ritaði því ferðabókina að mestu einn. Handritinu skilaði hann fullbúnu til Vísindafélagsins 1766 og þar lá það uns Jón Eiríksson konferenzráð og Gerhard Schöning voru fengnir til að ganga frá úgáfu þess að Eggerti látnum. Ferðabók Eggerts og Bjarna kom fyrst út í glæsilegri útgáfu á dönsku í Sórey árið 1772. Hún var rúm­lega 1000 blaðsíður í tveimur bindum í fjórblöðungsbroti og hét því virðulega og langa nafni: Vice-Lavmand Eggert Olafssens og Land-Physici Biarne Povelsens Reise igiennem Island, foranstaltet af Videnskabernes Selskap i Kiöbenhavn, og beskreven af forbemeldte Eggert Olafssen, med dertil hörende 51 Kobberstökker og et nyt forfærdigt Kort over Island. Bókin öðlaðist þó nokkra útbreiðslu. Á árunum 1774–5 kom hún út á þýsku, frönsk útgáfa leit dagsins ljós árið 1802 í fimm bindum og stytt ensk útgáfa birtist árið 1805.[88] Ferðabókin kom ekki út á íslensku fyrr en árið 1943 í þýðingu Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum, eins helsta velgjörðamanns ferðabóka hér á landi. Ferðabók Eggerts og Bjarna er braut­yðjendaverk og varð áreiðanlegt heimildarit flestra sem um landið vildu fræðast. Eigin­legar ferðalýsingar ferðabókarinnar eru þó nokkrar en skipa auðvitað annað sæti næst á eftir náttúruvísindunum. Ýtarlegastar verða ferðalýsingarnar í rannsóknarleiðöngrum til merkra staða eins og Hornstranda, Mývatns, Kötlu, Geysis, upp á Snæfellsjökul og Heklu. Ekki var heiglum hent að fara til tveggja síðasttöldu staðanna en þangað fóru hinir fífldjörfu fóstbræður þrátt fyrir viðvaranir um hugsanlegar limlestingar eða dauða. Menn trúðu því að í Snæfellsjökli byggju verur sem vörnuðu forvitnum ferðamönnum uppgöngu[89] og að uppi á Heklu flögruðu undarlegir, svartir fuglar sem réðust með járnkjafti og klóm á alla sem dirfð­ust að ganga á fjallið (sbr. II, 157). Í anda sannra upplýsingarmanna létu þeir Eggert og Bjarni slík hindurvitni sem vind um eyrun þjóta. Þeir stóðu á miðnætti á Heklutindi í skjannabirtu og nutu útsýnisins.

Ferðabókin hefst í Kjósarsýslu og heldur svo áfram umhverfis landið til vesturs og norðurs. Greint er frá sérkennum og náttúrufyrirbrigðum hvers héraðs fyrir sig eftir efnum og ástæð­um og lýst er rækilega t.d. náttúru, jarðvegi og gróðri, loftslagi, steinum, dýralífi og mann­lífi. Í lýsingum á lifnaðarháttum fólks er m.a. vikið að skaphöfn – sem ræðst af heilsufari og líkamsvexti – mataræði, húsakosti, vinnu og tómstundum. Ferðabókinni var ætlað að spanna afar vítt og sundurleitt þekkingarsvið, allt frá bergtegundum til andlegs og líkamlegs atgervis landsmanna. Hún er alfræðirit, eða þekkingarsafn, þar sem skipulagi og flokkun er komið yfir hvaðeina í anda kerfisbindingar að hætti upplýsingarinnar. Allt var skoðað í ljósi mis­munar og sérkenna og venslum, formi og hlutföllum fyrirbæranna lýst út frá skynjun þeirra Eggerts og Bjarna, á tungumáli sem talið var áreiðanlegt og féll að því sem lýsa átti. Fullyrða má að Ferðabókin sé eitthvert gagnmerkasta rit um land og þjóð sem ritað hefur verið og þar var í fyrsta sinn fjallað um alla þætti náttúrunnar á undirstöðum sem samtíðin vissi traust­astar.[90] Náttúruvísindi voru um þessar mundir mjög í deiglunni. Skoðanir fræðimanna um eðli og uppruna lífsins voru skiptar og mörg atriði óljós. Athuganir og niðurstöður Eggerts og Bjarna eru mjög í anda rannsókna og kenninga sænska náttúrufræðingsins Carls von Linné (1707–1778). Linné hannaði flokkunarkerfi fyrir grös og jurtir þar sem einkenni sýni­legra fyrirbæra, mismunur og sérkenni, voru dregin saman og þeim lýst. Aðferð Eggerts og Bjarna er áþekk. Markmið þeirra er að skipuleggja þekkinguna á landinu og festa hana á blað þar sem hún verður sýnileg.

Sú tilhneiging upplýsingarmanna að vísa á bug öllu sem var yfirnáttúrulegt og leita jarðn­eskra skýringa á furðulegum fyrirbærum birtist allvel í Ferðabókinni. Með skynsamlegum og hávísindalegum rökum og með því að taka ávallt reynslu fram yfir kenningar um hlutina er tilvist skrýmslisins í Lagarfljóti hrakin (sbr. II:114), hið dularfulla fyrirbæri blóðsjór útskýrt (sbr. II:143–4) og leyndardómsfullri hulu svipt af djöflahreiðrinu Heklu (sbr. II:157–161). En þótt rannsóknir allar og helstu niðurstöður séu vísindalegar og allskonar hindurvitni skýrð með skynsamlegum rökum fer ekki hjá því að einnig sé getið ýmissa óskýranlegra fyrirbæra sem jafnvel mátti ekki minnast á. Í bókinni kemur fram sú skoðun að slíka hluti sé auðveldast að afgreiða sem lygi, hjátrú og ímyndun, en þó verði að viður­kennast að innan um séu atburðir og fyrirbrigði sem heimspeki höfundanna og lærdómur eigi erfitt með að rekja og skýra (sbr. II,137). Hinir margfróðu og háskólagengnu skynsem­istrúarmenn sveiflast milli lærðrar vísinda- og rökhyggju og þeirrar þjóðtrúar eða náttúrudul­hyggju sem þeir höfðu alist upp við. Það er stundum erfitt að taka endanlega afstöðu og kemur það hvað skýrast fram í frægri umfjöllun um „hverafugla“ sem menn töldu sig hafa séð á tilteknum hverum á Suðurlandi:

Langfæstir Íslendingar trúa því, að hér sé um raunverulega fugla að ræða. Sumir halda, að þetta sé einungis ímyndun eða missýning, fram komin af myndum þeim, sem stundum koma fram í hvera­gufunni yfir vatninu. Aðrir hinsvegar halda, að það séu draugar, en fáeinir og það helzt gamlir menn halda, að fuglarnir séu sálir framliðinna, sem fengið hafi þessa mynd á sig. Er sú trú víst ævagömul. Við viljum ekki blanda okkur inn í þær deilur. En við treystumst ekki til að bera brigður á almenna sögn, sem staðfest er með frásögn af því, sem fjöldi trúverðugra manna hefir séð, og segja að þetta sé ekki neitt.[91]

Miklu púðri er síðan eytt í að reyna að fella fugla þessa inn í hefðbundna flokkunarfræði náttúruvísindanna en árangurinn er ósannfærandi. Vísindin standa ráðþrota andspænis þjóð­sögunni og gátan um hverafuglana er jafn óráðin eftir sem áður. Efalítið hefur vísindahugsun þeirra félaga margoft beðið skipbrot þegar hún steytti á skerjum alþýðutrúar og ævafornrar þekkingar. Óíkt þægilegra hefur lífið verið fyrir samtímamann þeirra Eggerts og Bjarna, Snorra Björnsson á Húsafelli (1710–1803), sem í handriti sínu um náttúrufræði (byggðu á riti Jóns lærða) spyrðir saman fyrirbæri náttúrunnar og tákngildi þeirra og trúir því að ekki sé allt sem sýnist: „[Músa] Rindillinn er ekki bara fugl sem flaksast um, hann er táknrænn fyrir þann kraft og hug sem þarf til að lifa af í hörðu landi: Fugl af smæsta tittlingakyni landsins reynir þótt hann sé óttasleginn að halda himninum uppi með öðrum fæti“.[92]

Í ferðabók Eggerts og Bjarna mætast tveir heimar sem kljúfa hugsun mannanna í herðar niður. Annarsvegar hugsunarkerfi endurreisnarinnar sem sjá má hjá bæði Jóni lærða og Snorra á Húsafelli og í hugmyndum þeirra félaga sjálfra, t.d. um þjóðtrú og yfirnáttúruleg fyrirbrigði og hinsvegar klassíkin þar sem hlutlæg lýsing hluta og fyrirbæra var forsenda og markmið þekkingarinnar og réði skynjuninni á veruleikanum eins og sést á kerfisbundinni flokkun og lýsingu fyrirbæranna allt frá steinvölum og skordýrum til merkisatriða um mann­fólkið í Ferðabókinni. Þeir Eggert og Bjarni standa því á mótum forneskju og framtíðar – og vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga.

8.2 Ferðabók Ólafs Olaviusar

Jón Eiríksson (1728–1787) var annar þeirra sem annaðist útgáfu ferðabókar Eggerts og Bjarna. Jón má með sanni kalla höfuðsmið íslenskrar upplýsingar á seinni hluta átjándu aldar og fyrir atbeina hans gerðu dönsk stjórnvöld ítrekaðar tilraunir til að bæta hag landsins. Í bók hans og Páls Vídalín Deo, Regi, Patriæ (pr. 1985) kemur vel fram að Jóni þykir mjög skorta á að hagir landsmanna og helstu atvinnuvegir séu kannaðir á kerfisbundinn hátt. Eggert og Bjarni tóku lítt á þessu efni, þótt þeir drepi á það hér og þar enda var Ferðabók þeirra fyrst og fremst vísindalegs eðlis en ekki hagfræðilegs. Ungum íslenskum stúdent, Ólafi Ólafssyni (1741–1788) sem kallaði sig Olavius, var því falið af Landsnefndinni svo­kölluðu[93] að fara til Íslands og ferðast þar um í þeim erindagjörðum að safna nytsömum fróðleik sem varðaði helstu atvinnugreinar landsmanna og náttúruauðlindir landsins og nýt­ingarmöguleika þeirra. Olavius ferðaðist um landið á árunum 1775–7 og hélt dagbækur um ferðir sínar. Hann fór um Vestfirði, Norðurland og Austfirði og birti niðurstöður rannsókna sinna í bók sem kom út á dönsku árið 1780, Oeconimsk Reyse igiennem de nord­vestlige, nordlige, og nordostlige kanter af Island[94] og var prýdd myndum eftir Sæmund Hólm. Jón Eiríksson annaðist einnig útgáfu þessarar ferðabókar og skrifaði langan formála að henni þar sem hann rakti sögu viðleitninnar til framfara á Íslandi. Í forspjalli sínu lýsir Jón því yfir að hann yrði „svo hamingjusamur“ ef ritið yrði leiðbeining fyrir Íslendinga til viðreisnar föður­landinu. Tilgangur ferðabókar Olaviusar var því a.m.k. tvíþættur, að lýsa vanda þess­arar fátæku þjóðar og að leggja fram tillögur til úrbóta. Um efni bókar sinnar segir Olavius að hann hafi leitast við að „gefa skýrslu“ um þau atriði sem honum var falið að rannsaka (sbr. 138). Þar segir því minnst af ferðalögunum sjálfum, þeirra er aðeins getið í stuttaralegu ágripi (sbr. 139–143). Mestur hluti bókarinnar samanstendur af tiltölulega nákvæmum, raunsæjum og kerfisbundnum lýsingum á sjósókn og landbúnaði. Þessum höfuðatvinnu­vegum þjóðarinnar er lýst, orsakir og afleiðingar vandamála greindar og oftlega bent á leiðir til úrbóta, stundum í umvöndunartón. Inn á milli er sumstaðar skotið stuttum frásögnum sem tengjast mönnum og stöðum og þjóðsögur fá jafnvel að fljóta með. Og fyrir kemur að maðurinn Olavius tekur orðið af vísindamanninum, eins og hér sést í miðri lýsingu á Reykja­vík í Strandasýslu. Hér tekur Olavius í sama streng og Eggert og Bjarni hvað skemmtanir varðar en þeim kemur öllum saman um að saklausar skemmtanir séu hollar fyrir líkama og sál:

En fyrir hafsjóum skýla Akranes og Hverakleifar öðrum megin en hinum megin Strákatangi, þar sem talið er, að írskir og íslenzkir unglingar hafi fyrrum iðkað kappsund og fleiri íþróttir, sem nú eru týndar fyrir löngu, svo sem skíðahlaup, dans, hljóðfærasláttur og knattleikur. Í seinni tíð hefur klerkastéttin talið það skyldu sína, í stað þess að vinna að því, að hófs væri gætt, að afnema með öllu hinar svonefndu gleðir, sem í raun og veru voru saklausar og jafnvel nyt­samar skemmtanir, þar sem leikir þessir, þótt óbrotnir væru, veittu alþýðu manna nauð­synlega hreyfingu og glaðværa tilbreytingu frá hinu þreytandi og hversdagslega erfiði, á sjó og landi, nokkrum sinnum á ári hverju. Ætli það sé tilgangur trúarbragðanna að þrælbinda mann­inn ævilangt í sorg og sút og banna honum alla glaðværa dægrastyttingu? Skyldi ekki orsak­anna til margra sjúkdóma á Íslandi í báðum kynjum og einkum í konum vera að leita í hreyf­ing­arleysi og skorti á samkvæmum og þeirri upplyftingu hugans, sem þeim fylgir? En svo ég snúi mér aftur að Reykjavík, þá er þess að geta til viðbótar, að dýpið í miðju víkurmynninu milli skerja þeirra, sem þar liggja á báða bóga, er 16 faðmar, en botn er þar grýttur.[95]

Ferðabók Olaviusar er ekki eins þurr aflestrar og halda mætti af hlutlægu skýrsluyfirbragði hennar. Hún er ágæt heimild um aldarfarið og „…óbrotgjarn minnisvarði um athugulan, fjöl­menntaðan mann, sem vann verk sitt af skilningi, alúð og samvizkusemi.“[96] Ætla má að hrakleg ummæli Magnúsar Stephensen um Ólaf í sjálfsævisögu sinni séu ekki alveg sann­gjörn en segi meira um langrækni, metnað og einþykkju Magnúsar en skapgerð og hæfileika Ólafs. En Ólafur naut almennt lítilla vinsælda. Hann ritaði t.d. nokkrar greinar um búskapar­hætti í rit Lærdómslistafélagsins við lítinn orðstír. Hann þótti hinn mesti bókabéus og í eftir­farandi vísu eru honum ekki vandaðar kveðjurnar:

Ólafur ostur og Ólafur smér,

Ólafur huppur og síða,

Ólafur lýgur, Ólafur sver,

Ólafur stelur víða.[97]

8.3 Ferðabók Sveins Pálssonar

Sveinn Pálsson (1762–1840) var varkár og vandvirkur vísindamaður, fremsti náttúru­fræðingur landsins á sinni tíð og hafði gott orð á sér sem læknir. Meðal þekktra ritverka hans má nefna Jöklaritið, Eldritið, ævisögu Bjarna Pálssonar landlæknis (tengdaföður Sveins) og eigin ævisögu, auk Ferðabókarinnar. Sveinn stundaði læknisfræðinám við Kaupmannahafn­arháskóla en svo fór að hann sneri sér að náttúrufræði og lauk prófi í þeirri grein 1791, fyrstur manna í Danmörku. Að því búnu fékk hann styrk frá hinu nýstofnaða Naturhistor­iske Selskabet til rannsóknarferða í fjögur ár. Kaus hann sjálfur að fara til Íslands í von um að geta aflað sér þar fjár til að ljúka læknisnáminu síðar. Sveinn ferðaðist um landið á árun­um 1791–94 og stundaði rannsóknir sem vörðuðu öll þrjú ríki náttúrunnar. Hann hafði skýr fyrirmæli um verkefnið sem var gríðarlega umfangsmikið og vandasamt. Sjá má af Ferða­bók­inni að hann hefur ekki legið á liði sínu. Hann fór í langar og erfiðar ferðir í kulda og bleytu og var oft hætt kominn vegna illviðra og oft þurfti hann að fara yfir óbrúuð stórfljót þar sem vatnsflaumurinn náði honum í herðar og farangur hans renn­blotnaði. Sveinn bætti mjög við fræði Eggerts og Bjarna sem þá voru farin að úreldast og áttaði sig betur á eðli skriðjökla en nokkur vísindamaður hafði áður gert. Til rannsókna sinna hafði hann nauman fjárstyrk og enga aðstöðu til að fylgja þeim eftir. Niðurstöður sínar skráði hann með ör­smárri og skipulegri rithönd í ferðadagbók sína og er handrit hans rúmar sjöhundruð síður í þremur þéttskrifuðum bindum í arkarbroti (IB.1–3.fol.). Þetta handrit, sem eitt sinn var í eigu Jónasar Hallgrímssonar starfsbróður hans, var ekki þýtt eða gefið út fyrr en tæpum 150 árum eftir að það var skrifað. Það segir ekkert um innihald ritsins en öllu meira um stöðu Sveins í þjóðlífsstraumum samtíma hans.

Ferðabók Sveins Pálssonar[98] má líkja við suðupott. Þar krauma saman dagbókarfærslur og rannsóknarskýrslur, landafræði og náttúrufræði, sjúkdómslýsingar og önnur læknisfræðileg minnisatriði, þjóðsögur sem t.d. tengjast örefnum, og ferðalýsingar þar sem segir af fjall­göngum, vísindalegum rannsóknarferðum milli landshluta og stuttum grasaferðum í næsta nágrenni. Svo er kryddað með veðurlýsingum og fréttum af aflabrögðum. Minnst segir af ferðalangnum sjálfum þótt óljóst móti fyrir honum. Í ferðabókinni kemur vel fram að Sveinn hafði afar næmt auga fyrir því sem fagurt er í íslenskri náttúru. Hann var ekki bara með nefið niðri við jörð að skoða plöntustilka, telja fræhylki og greina steingervinga. Ægifegurð foss­anna heillar hann (sjá I:323) og tign Geysis og Strokks eru honum næg umbun fyrir langa bið eftir gosi þeirra. Kötlu kallar hann „hennar hátign“ (sjá I:315) og fögur er landsýnin snemma morguns eftir langa fjarvist frá föðurlandinu:

Enginn ókunnugur trúir því, hversu dýrlega öll náttúran blasti við okkur. Láglendið var sveipað lognþoku, sem lagði svo frá hinum döggvotu fjallahlíðum, að sólin, sem var nýkomin upp, náði að varpa á þær geislum sínum og strá þær perlum, sem endurspegluðust skýrt og ljóslifandi frá spegilsléttum sjónum.[99]

Útsýnið af fjallatindum sem hann kleif segir hann vera ólýsanlegt og óviðjafnanlegt. Sveinn var mikill fjallgöngumaður en á hans tíð voru slíkar göngur fátíðar, bæði hér á landi og erlendis. Hann kleif t.d. Heklu (og drakk skál hennar í frönsku brennivíni), Öræfatind, Skjaldbreið (fyrstur Íslendinga) og Eyjafjallajökul. Hann hafði jafnan með sér oddhamar á ferðum sínum og með honum klappaði hann fangamark sitt og ártalið 1793 á stein á Eyja­fjallajökli (P = Povelsen, sbr. I:243). Einnig hjó hann P í klett á Skarðsheiði og í stein efst í vörðu sem hann hlóð í Kvískerjafjöllum.[100] Sveinn klappaði líka fangamark sitt og fylgd­armanns síns ásamt ártalinu 1792 í tind við fjallstopp Skjaldbreiðar. Þessi óafmáanlegu spor í íslensku landslagi sem Sveinn Pálsson skildi eftir sig hafa ef til vill bætt honum upp hversu lítið fór fyrir honum í þjóðlífinu. Því þótt Sveinn væri einn lærðasti maður sinnar samtíðar, landskunnur sem „læknirinn í Vík“ og í kunningsskap við helstu virðingar- og lærdóms­menn landsins þá kvað ekki mikið að honum í samfélaginu. Sennilega hefur þar komið til annríki við dagleg læknisstörf, peningabasl, eðlislæg hlédrægni og síðast en ekki síst beiskja vegna eigin örlaga sem urðu önnur en hann hefði kosið. Í sjálfsævisögu Sveins kemur sú biturð skýrt fram og í Ferðabókinni fer hún ekki leynt í viðskiptum hans við Magnús Steph­ensen konferenzráð. Þá gliðnar hlutlægnigríma náttúrufræðingsins lítið eitt og andlit reiðs, fátæks og misskilins manns kemur í ljós. Svo virðist sem Magnús hafi vegna bréfs frá Naturhistoriske Selskabet neitað að afhenda Sveini ferðastyrk sem hann átti að fá og þarfn­aðist sárlega. Sveinn er skiljanlega reiður yfir þessu sem hann áleit vera valdníðslu Magn­úsar. Hann segir frá þessu í Ferðabókinni og beitir íroníu í frásögninni til að breiða yfir sár­indin. Hann segist t.d. hafa „átt því láni að fagna“ að vera neitað um greiðsluna, honum hafi „hlotnast sú óvænta ánægja“ að vera baknagaður og loks að þetta allt sé „uppörvandi“ fyrir sig (346). Sveinn segir að lokum að heldur hefði hann kosið að svelta í hel sem stúdent á götum Kaupmannahafnar en veslast upp sem náttúrufræðingur á Íslandi (sbr. I:347). Þótt Sveinn hafi eflaust fundið sárt til vanmáttar síns við þennan atburð á skrifstofu setts land­fógeta M. Stephensens í Viðey, má segja að hann hafi náð sér aðeins niðri á Magnúsi síðar á vettvangi þar sem Sveinn naut yfirburða. Í Eldritinu gagnrýnir Sveinn ritgerðir þriggja manna um Skaftárelda 1783–4, þeirra Sæmundar Hólm (pr. 1784), Magnúsar Stephensen (pr. 1785) og Jóns Steingrímssonar (rituð 1788, þá ópr.). Sveinn segir þar að ekkert nema „sannleikslöngun“ komi honum til að fjalla um þessi ritverk – enda var hann sjálfur ákaflega nákvæmur vísindamaður og fór aldrei með fleipur – og að persónulegrar beiskju megi aldrei verða vart milli fræðimanna af einni og sömu þjóð. Dagbók Jóns eldklerks telur Sveinn áreiðanlegustu heimildina en rit Sæmundar gagnrýnir hann harðlega fyrir „digurmæli“ og „meinlegar villur“ og kallar kort Sæmundar af stærð hraunsins „skrifborðskjaftæði“ (sjá II,575). Bók Magnúsar fær svipaða útreið á mörgum blaðsíðum en stóryrðin eru þó færri og gagnrýnin lymskulegri (sjá t.d. niðurlag 19. gr. II,584). Þrátt fyrir yfirlýsingar Sveins um hlutlægni milli starfsbræðra gætir nokkurrar beiskju í garð Magnúsar í umfjölluninni.[101] Bók hans var prentuð í Kaupmannahöfn og var hin glæsilegasta: „184 bls. í 8 blaða broti hinu meira með einum uppdrætti og eirstungnum myndum. Þetta er yfirleitt snoturt rit, og má vitanlega ætla, að það sé stórum áreiðanlegra, þar sem höfundurinn átti þess kost að skoða hinar eldþjökuðu sveitir í hart nær heilt sumar og það ekki á sinn, heldur kóngsins kostnað“ ( II,575), skrifar Sveinn. Hann bendir svo á ýmsar rangfærslur og misskilning í rannsókn­um Magnúsar, m.a. það að Magnús staðsetti upptök eldanna ranglega og fór frjálslega með kennileiti. Sveinn sendir honum tóninn:

En því er nú svo varið, að sannleikurinn haggast ekki, þótt eitthvað skorti á viðhöfn í stíl eða prentun, en þar sem heiðarlegur náttúruskoðari leitar sannleikans fyrst og helzt, getur hann lesið sér til eins mikils ábata bók á einföldu máli, prentaða með slitnu letri á prentpappír í Horrebowsprenti, og aðra á viðhafnarmáli, prentaða með nýju letri á skrifpappír í hirðprent­smiðjunni, ef báðar eru jafnáreiðanlegar.[102]

Augljóst er að Sveini finnst misskipt mannanna láni í þessum efnum en merkisrit hans sjálfs um jökla og eldfjöll voru ekki prentuð um hans daga þótt rétt væru og nákvæm. Sveinn reynir heldur ekki að dylja réttláta reiði náttúrufræðingsins yfir meðferð skóganna á Fljóts­dalshéraði (sbr. I:376–7) og vísindaleg hlutlægni hans er lögð til hliðar þegar vikið er að verslun danskra kaupmanna á Íslandi. Í sýslulýsingum hans fá Sunnlendingar orð í eyra fyrir að vera sljóir og latir meðan sveitungum hans, Norðlendingum, er hampað. Persónuleg áhugamál Sveins skjóta stundum upp kolli í ferðabókinni. Fram kemur í stuttum útúrdúrum að Sveinn var áhugamaður um íslenskan þjóðbúning (sbr. I:27–8) og þjóðlega brúðkaups­siði að hætti Eggerts Ólafssonar (sbr. I:102), leikhús þótti honum besta skemmtun sem hugsast gat og hann vildi efla og bæta póstsamgöngur innan lands og utan.

Í Ferðabókinni sést vel skörp athyglisgáfa Sveins í lýsingum á landslagi, náttúrufari, dýralífi og gróðurfari. Lýsing hans á hnýsuhræi er mjög skýr og ber öll merki vísindalegrar upp­lýsingar sem miðast við að vera fróðleg og aðgengileg öllum. Hann lýsir hvalnum bæði útvortis og innvortis og notar til þess sjón (litur, lögun), bragð (af kjötinu) og snertingu (hart, þurrt). Stærð líkamshluta og innyfla, lengd og þyngd er skráð samviskusamlega og til öryggis teiknaði Sveinn mynd af dýrinu öllu og afstöðumynd innyflanna og lét fylgja lýsing­unni. Lýsingin er nokkuð nákvæm þótt einföld sé. Ætla mætti að sá sem ekki hefur séð slíka skepnu geti vel gert sér sköpulag hennar í hugarlund af lýsingunni þar sem líkt er við þekkt fyrirbæri og kunnuglega lögun. Tennurnar eru t.d. sagðar meitillaga, nasirnar sem örsmáir deplar, bolurinn keilulaga, bægslin sverðlaga, kjötið er líkt sjófuglakjöti á bragðið, miltað tæpast stærra en valhnot o.s.frv. (sjá I:61–3). Á öðrum stað þegar Heklugöngu er lýst segir Sveinn að steinkökur (hraunkúlur) séu líkar rúgbrauði í laginu og: „Ef við þær er komið, springa þær sitt á hvað og flagna í lög líkt og augasteinninn í soðnum þorskhaus“ (I:246). Af vinnubrögðum Sveins við lýsingar og rannsóknir má ráða að hann hafi verið raunsær og orðvar maður. Hann segist hafa hugsað sér að semja ritgerð um heita vatnið (Vatnsritið!) en treysti sér ekki til þess þar sem hann hafði ekki nógu áreiðanlegar rannsóknir að byggja á (sbr. I:663). Vísindalegar rannsóknaraðferðir hans byggjast á því að safna saman reynslu sem hann síðan leiðir kenningar sínar af. Oft varpar hann fram spurningum sem tilgátum og bíður með að svara þeim þar til áreiðanleg svör liggja fyrir. Hann leitar ávallt jarðbundinna skýringa á furðulegum fyrirbærum eins og sjá má af frásögn hans af huldumannakaleiknum á Breiðabólstað. Kaleikurinn var með svörtum bletti til auðkennis og drykkju menn af honum læknuðust þeir af hugsýki segir sagan. En vísindamaður upplýsingarinnar gengst ekki inn á forsendur þjóðsögunnar: „Ég sá þennan kaleik og get ekki álitið annað en svarti bletturinn hafi komið, þegar fóturinn var kveiktur við bikarinn, og má vera, að við það hafi verið notað eitthvert efni, í staðinn fyrir bórax, sem gekk greiðlegar í samband við silfrið. Annars má skafa blettinn af með hníf“ (I:231). Sömu meðhöndlun fær þjóðsaga sem Sveinn heyrði í Hornafirði um útilegumenn á fjalli. Sveinn gekk á einn þeirra manna sem þóttist hafa hitt útilegumenn þar og varð sá að meðganga að sagan væri uppspuni. Og niðurstaða Sveins um hvort fjallið væri til er því rökrétt: „Úr því að annar þáttur sögunnar er lygi, getur hinn hæglega verið það líka“ (I,359). Jón Eyþórsson, einn þýðenda ferðabókar Sveins, segir að Sveinn hafi „hatað hjátrú“.[103] Það viðhorf get ég ekki fundið í Ferðabókinni. Sveinn trúir ekki neinu sem hann getur ekki sjálfur sannprófað en afstaða hans til hjátrúar er langt frá því að vera eins ofstækisfull og hjá Eggerti og Bjarna heldur er hún miklu frekar mild og raun­sæisleg. Sveinn taldi að hjátrú væri útbreidd hér á landi og að helmingur landsmanna væri hjátrúarfullur en hinn helmingurinn „hleypidómalaus“ (sbr. I:43). Hann leitar skýringa á uppsprettu hjátrúar fólks en fordæmir hana ekki. Á einum stað tengir hann saman hjátrú og hugmyndaflug (sjá I:55) og seinna skýrir hann t.d. hvers vegna alþýða manna tengi sjúk­dóma við fjandann og illa anda: „enda vita þeir ekki um hinar réttu orsakir sjúkdómanna“ (I:94) og segir að sumir kalli sæluhús „draugabæli“ vegna þess að margir hafi dáið í þeim (I:106). Úr skrifum Sveins má lesa einföld skilaboð, fólk vantar upplýsingu. Hann bendir á að sandburður jökuláa geti valdið furðuverkum í vatninu „sem ókunnugir geta hæglega tekið fyrir lifandi vatnaskrýmsl“ (II,451) og sjálfum varð honum ekki um sel þegar hann sá gríð­armikla bylgju rísa úr kafi rétt ofan við vaðið sem hann var að fara yfir. Svo skýrir hann vandlega hvernig straumharðar árnar rífa malarrifin upp og hrifsa þau með sér. Hann er þó stundum á báðum áttum um hvað í náttúrunni megi tengja saman og hvað ekki: „Það er áreiðanlegt, að það veit á hvassviðri, þegar mikil ólæti eru í hrossagauknum á kvöldin og framan af nóttu“ (I:58) skrifar Sveinn eins og ekkert sé. Eins á hann erfitt með að koma sam­an vísindalegri heimsmynd og náttúrunni sem birtingarhætti sköpunarverksins en fleiri upp­lýsingarmenn stóðu frammi fyrir þessum vanda, s.s. þeir Eggert og Bjarni. Saga myndunar hafs og landa var mönnum óljós og Sveinn hallast að þeirri tilgátu að Ísland hafi myndast við náttúruhamfarir stuttu eftir að Guð bjó til þurrlendi og sjó eins eins og segir í fyrstu Móse­bók. Sveinn ritar: „Hvort mun náttúran eigi í þessu sem öllu öðru hafa ákveðin, órjúfanleg takmörk, sem hún hefur öðlazt fyrir ævalöngu, ef til vill skömmu eftir að almættið skildi þurrlendið frá votlendinu?“ (II:429). Þrátt fyrir gríðarlega náttúrufræðiþekkingu sína telur Sveinn að allt sé meira eða minna runnið undan rifjum herra sköpunarverksins. Þessa hug­mynd má rekja til guðfræðistefnu á meðal upplýsingarmanna, píetisma, en samkvæmt henni setti Guð veröldinni forðum lögmál sem allt laut og þaðan í frá bar manninum að sjá um að allt gengi sinn vanagang. Almættið trónir ennþá efst í skipulagspíramída heimsins í huga Sveins. Vísindin og maðurinn eru undirsátar þess og hafa það hlutverk að skýra heiminn og túlka hann út frá Guði og kennisetningum kirkjunnar. Sveinn álítur líkt og aðrir vísindamenn þessa tíma að náttúran sé gerð af Guði fyrir manninn og að rannsóknir á t.d. myndunarsögu jarðar og fræðaiðkanir ýmsar nái aðeins til þess veruleika sem skynsemin getur kannað. Þegar henni sleppir tekur opinberunin við, hið óútskýranlega er á umráðasvæði Guðs.

Hinar hlutlægu ferðabækur Eggerts og Bjarna, Olaviusar og Sveins Pálssonar litast skiljan­lega af þeim tíma sem þær eru skrifaðar á. Þær þjóna allar markmiðum upplýsingarinnar og framsetning þeirra einkennist mjög af hugsunarkerfi klassíkurinnar. Hlutir eru nefndir, skil­greindir og flokkaðir og þeim er lýst í þeim tilgangi að búa til skipulega heimsmynd og öðl­ast þekkingu á heiminum. En um leið kemur skýrt fram hvernig hinir andstæðu pólar hugs­unarkerfanna togast á, t.d. í því að hverafuglar svífa yfir vötnum. Hugarfar manna breytist ekki á einni nóttu. Jafnvel eldheitir og upplýstir skynsemistrúarmenn eru tvístígandi í afstöðu sinni til hjátrúar og ráðþrota gagnvart furðum náttúrunnar.

9. Ferðasögur utanlands á sextándu og sautjándu öld

Í bókmenntum lærdómsaldar  hér á landi má greina örlítinn vísi að vaknandi sjálfs- eða ein­staklingsvitund manna. Þær vitna um venjubundna úrvinnslu rótgróinnar hefðar, t.d. jókst áhugi á fornmenntum mjög á öldinni eins og sjá má af fjölda uppskrifta á fornsögum frá þessum tíma. Bókmenntir aldarinnar einkenndust líka af nýsköpun en um þetta leyti kom sjálfsævisagnaritun til skjalanna. Það er eins og menn hafi fundið hjá sér sífellt vaxandi hvöt til að hripa niður markverða atburði úr lífi sínu, ekki síst þegar farið er utan í fyrsta sinn. Á sautjándu öld voru ritaðar þrjár heilar og vel varðveittar ferðasögur hér á landi. Allar falla þær undir þann flokk ferðasagna sem kallast huglægar ferðasögur, þ. e. endurminningar ferðalangs með persónulegu ívafi. Höfundar þeirra eru séra Ólafur Egilsson sem herleiddur var til Tyrklands, Ásgeir Sigurðsson snikkari og Jón Ólafsson Indíafari. Vitað er um a.m.k. tvö önnur rit eða texta sem spruttu af Tyrkjaráninu. Það eru rit Halldórs Jónssonar úr Grindavík og Einars Loptssonar úr Vestmannaeyjum sem nú eru glötuð. Ætla má að um einskonar ferðasögur, -bréf eða endurminningar hafi verið að ræða ef marka má slitrur úr þessum textum sem varðveist hafa í endursögn Björns á Skarðsá og vikið verður að hér á eftir. Vitað er um tvær aðrar ferðasögur sem einnig hafa glatast illu heilli.[104] Sagt er að ferðasaga eða ferðadagbók um ferð frá Hamborg til Íslands á síðari hluta sextándu aldar hafi verið í fórum niðja Eggerts lögmanns Hannessonar. Eggert lögmaður er talinn fæddur árið 1518 eða litlu síðar og dáinn um 1583. Hann fór til Þýskalands og Noregs haustið 1538 og rak erindi Ögmundar biskups Pálssonar. Í Hamborg hittust þeir Eggert og Gizur Einarsson (1512–1548), tilvonandi eftirmaður Ögmundar, og í vígsluför Gizurar (1542–3) var Eggert með­al föru­nauta hans.[105] Má vera að í annarri hvorri ferðinni hafi Eggert skrifað ferðasög­una eða jafnvel í öðrum reisum sínum en hann var frá barnsaldri með annan fótinn í Þýska­landi og átti þar miklar eignir. Hann fluttist alfarinn til Hamborgar árið 1580 „og er það haft eftir venzlafólki hans, að hann hafi andazt þar af afleiðingum drykkju“.[106] Ennfremur var einu sinni til ferðadagbók eftir þá bræður Gísla biskup og Sigurð prest (1595–1675) Odds­syni sem sigldu til Danmerkur í byrjun sautjándu aldar. Báðar þessar bækur komust í hendur Árna Magnússonar handritasafnara en brunnu upp til agna í Kaupmannahöfn 1728. Furðu­fuglinn Oddur Sigurðsson lögmaður (1681–1741) átti báðar þessar bækur um 1725 og fyrir bænastað Árna sendi hann honum þær ásamt mörgum fleiri stuttu fyrir brunann. Í bréfi til dánarbús Árna dags. 30. janúar 1730 telur Oddur upp fjölda bóka sem hann hafði sent Árna og nefnir þar ferðasögurnar tvær með eftirfarandi hætti:

Een reise iournal fra Hamborg og til Island (menes at vere den berømte mands Eggerts Hannes­ens ipsius manu) …

Biskops Hr. Gisle Ottesens samt hans broders provsten Hr. Sivert Ottensens reise iournal fra Island her til Danmarck circa Annum 1711 eller 1713 (sål. for »1611 eller 1613«.[107]

Auk þessara tveggja ferðasagna sem Oddur lánaði Árna, nefnir hann í bréfinu handrit sem af orðum hans að dæma gæti hafa innihaldið einhverskonar ferðafrásögn Gizurar Einarssonar biskups (1512–1548): „Hannem og udi det sommer [1725] laant eet manuscript in 4to paa nogle arck, som var relation om den første Lutherske biskops paa Skaalholt Hr. Gisser Ein­arsens ordination, samt hans reise fra Island til Hamborg, og siden til Kiøbenhaun…“.[108] Vel má vera að Gizurr biskupsefni hafi forðum ritað samfellda ferðasögu en sennilegra er þó að Oddur eigi hér við minnisgreinar Gizurar úr ferð hans til Kaupmannahafnar og Hamborg­ar sem varðveist hafa í bréfabók biskups.[109] Oddur lögmaður var sjálfur víðförull maður og segir hann af ferðum sínum í ágripi af ævisögu sinni. Átján ára gamall sigldi hann fyrst utan og á sjö árum fór hann jafnoft til Danmerkur og Þýskalands vegna margvíslegra málaferla sem hann var flæktur í.[110] Við lestur á áðurnefndu bréfi Odds og upptalningu hans á þeim dýrmætu bókum sem hann léði Árna forðum, verður óyfirstíganleg örvilnun handritasafnar­ans yfir missinum enn betur skiljanleg. Engin furða að lífslöngun hans slokknaði um leið og síð­ustu glæður eldsins kulnuðu í rjúkandi rústum Kaupmannahafnar.

9.1 Séra Ólafur Egilsson, íslenskur Job

Sautjánda öldin var tímabil mikilla samfélagslegra breytinga hér á landi. Veldi konungs og kirkju jókst til mikilla muna og siðbreytingin, sem var lögtekin 1541, hafði gagnger áhrif á hugsun fólks. Tengslin milli Guðs og náttúrunnar urðu önnur en áður. Guð rétttrúnaðarins var eins og hafinn yfir hið auma jarðlíf mannsins og sat þungbrýndur á himnum í dómara­sæti þaðan sem hann útdeildi refsingum og umbunum. Saurug manneskjan mátti skríða í duftinu undir syndaoki sínu og sekt og þola ómældar þjáningar þessa heims mótþróalaust til þess að verða launað ríkulega eftir dauðann. „Manninum var hrundið inn í afstæði og glund­roða, þar sem lífið var lítið annað en tilgangslaust brölt um stund og síðan dauðinn, og mennskan var saurug, innlyksa í skítugu holdi undir oki hins illa“.[111] Djöfla-, galdra- og kraftaverkatrú var útbreidd meðal almennings en samtímis var bókstafstrú Biblíunnar merk­ingarmiðjan því þung áhersla var lögð á Biblíuna sem farveg fyrir boðskap Guðs til mann­anna. Aldarfarið einkenndist mjög af andstæðum sem mótuðu frásagnar- og hugmyndaheim manna, efldu einstaklingshyggju og bjuggu í haginn fyrir sjálfsævisögur. Reisubók séra Ólafs Egilssonar er almennt talin fyrst í röð íslenskra sjálfsævisagna og hún er jafnframt elsta varðveitta ferðasagan. Séra Ólafur Egilsson (1564–1639) prestur í Vestmannaeyjum var meðal þeirra sem voru herteknir af „Tyrkjum“[112] árið 1627. Í reisubók sinni sem hann færði í letur stuttu eftir heimkomuna lýsir hann Tyrkjaráninu, herleiðingunni til Alsír og ferðinni heim aftur ári síðar en hann var sendur til Danakonungs að afla lausnargjalds fyrir fólk sitt. Dönsk þýðing af reisubók Ólafs var prentuð í Kaupmannahöfn árið 1741 og endurprentuð um aldamótin 1800 en kom ekki út á íslensku fyrr en 1852. „Bæði frá þýðingu þessari og útgáfu var lélega geingið“ ritar Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður[113] og má vera að útgefend­urnir hafi vitað upp á sig skömmina því þeir leyndust á bak við dulnefni. Reisubókin var svo gefin út í tveimur gerðum með ýtarlegum handritasamanburði Jóns í heimildasafninu Tyrkja­ránið á Íslandi 1627 á árunum 1906–9. Í útgáfu Sverris Kristjánssonar frá 1969 er sagan prentuð eftir því sem Jón kallaði B-gerð sögunnar og á að vera líkust frumtextanum sem er löngu glataður.

Tyrkjaránið var uppspretta hryllings, haturs og ofsahræðslu meðal íslensku þjóðarinnar í langan tíma. Um þennan hörmulega atburð spunnu menn öldum saman sögur og ljóð þar sem ofbeldi og Tyrkjahatur magnaðist stig af stigi og ránið varð mögnuð hrollvekja sem hver kynslóðin af annarri drakk í sig.[114] Kristnir lærdómsmenn hafa frá öndverðu borið Tyrkjum illa söguna og fordæmt trúarbrögð þeirra. Á miðöldum litu kristnar þjóðir á múhameðstrú sem villutrú og heiðingdóm og á tímum lútherska rétttrúnaðarins jókst trúarhatrið enn og litið var á múslima sem erkióvini kristninnar.[115] Eftir innrásina í Vestmannaeyjar vakti Tyrkinn hrollkennda ógn og heift í huga Íslendinga. Menn litu á hann sem holdtekju alls þess grimm­asta og djöfullegasta í mannlegu eðli, hann var ófreskja á mörkum mannlegrar og dýrslegrar tilveru sbr. viðurnefni hans, „hund-Tyrki“. Þessum sendiboða Satans var formælt við mess­ur hér á landi og særingar þuldar gegn honum um langt skeið. Andstyggileg ímynd Tyrkja sem blóðþyrstra ræningja og villimanna lifði langt fram á nítjándu öld, m.a. í ferðasögum og fræðiritum. Í Almennri Landaskipunarfræði, þýddu fræðiriti frá fyrstu áratugum nítjándu aldar, er þjóðum heimsins lýst út frá andlegu og líkamlegu atgervi. Þar eru Tyrkir taldir standa á milli villimennsku og siðmenningar. Þeir eru sagðir drambsamir, harðfengir, ráðrík­ir, vellystingasamir, latir og grimmir. Reyndar er sagt að Tyrkir búi í senn yfir góðum kost­um og verstu löstum. Að auki segir um þá:

Tyrkir neyta að sønnu sparsamliga matar og drykkiar, en eru þó í ýmsum greinum óhófsamir. Størf eru þeim ógeðfeld; en at vera með mak og éta ópíum, unz þeir því nær liggia í dvala, þykir þeim hverri jarðneskri fullsælu yndislegra. Nockurs konar hátíðabragur er samfara giørðum þeirra og atvikum, þeir mæla seint og herða á orðunum, gánga sem þeim séu skref mörkuð, og hlæa sialdan. Þeir eru hiátrúarfullir og skinhelgir og andtigna alla þá, er ei bera túrban á høfði né fylgia Kóransins fyrirsøgn [ekkert grm.] flestum þióðum eru þeir fáfróðari og hafa allt þat, hvørsu nytsamt sem er, at vettugi, sem frá hinum vantrúuðu er komit; en þó þeir elski siálfa sig, sína hagi og hætti, eru þeir ei at síðr manna fúsastir til uppreistar og flokkadráttar.[116]

Séra Ólafur er einn af örfáum Íslendingum sem lýsa Tyrkjum af hlutleysi, ýkjulaust og án ofstækis og seinna fylgja Ásgeir Sigurðsson, Árni frá Geitastekk og Tómas Sæmundsson dæmi hans.[117] Reisubók séra Ólafs er talin traustust og nákvæmust íslenska heimilda um Tyrkjaránið enda að mestu laus við þann þjóðsagnablæ sem einkennir margar aðrar frásagnir af því. Séra Ólafur lýsir  mjög vel daglegu lífi og störfum fólksins í „Barbaríinu“, fyrstur norrænna manna. Hann segir fólkið vera hæglynt og ekki svo mjög illilegt (sbr. 63)[118] en hann kallar ræningjana öllum illum nöfnum (vargar, illmenni, „þeir örgu skálkar“, níðingar, illvirkjar, „þeir óguðlegu“ o.s.frv.). Í fangavistinni fékk séra Ólafur nóg að borða af góðum mat en það fengu frjálsir Íslendingar varla á þessum tíma. Kvölds og morgna fékk hann nýbakað brauð og góðan grjónagraut og af eplum og vínberjum mátti hann borða eins og hann gat í sig látið. Gnótt matarins var slík að hestar fengu dagsgamalt brauð og afgangnum af grautnum var „annaðhvort steypt [..] ofan fyrir múrinn eður – með lof að segja – ofan í privatið…“ (71). Hann segir og frá frjósemi landsins og einstakri veðurblíðu. Kannski hefur hann séð fyrir sér landa sína berjast í norðangarranum við að ná nokkrum stráum af túnbleðl­inum í hlöðu áður en veturinn gengi í garð.

Séra Ólafur var glöggur maður, minnisgóður og sannorður þrátt fyrir „rænuleysi“ (sbr. 73) sem hrjáði hann meðan á raunum hans stóð. Veruleiki hins íslenska bónda stendur honum afar nærri og til hans verður hann oft að grípa þegar hann segir frá furðum hinnar aldagömlu menningar múslima. Ágætt dæmi um þetta er þegar kameldýr ber fyrir augu hans. Hann reynir að lýsa þessu kynjadýri með því að tengja það við hest og naut. Skemmtilegt er að sjá að hann segir að „söðull“ kamledýranna sé áfastur:

Item sá eg þar v kameldýr í þeim stað, hver að eru geysistór og sterk, svo eg gat sem naumast náð upp á þau, þá þau eru með sínum söðlum, sem eg meina jafnan muni á þeim sitja. Og það er mín meining, að hvert eitt muni bera við 4 eða 5 hesta. Þau dýr eru öll bleik að lit eða bleik­álótt, og í suman máta vaxin sem naut til læranna og afturbeinanna, með klaufum sem naut, en ekki eru þær nema hár og ekki neðan undir, með svo kringdum hrygg sem hálfur pípubotn, með geysilöngum hálsi, ekki stórum eyrum, nær því sem hestur, en mjög ljótan haus, þó svo sem nautsgrönum, …[119]

Séra Ólafur hefur áhuga á fötum. Víða þar sem hann kemur tekur hann eftir klæðaburði fólks og lýsir honum vandlega. Sjálfur var séra Ólafur í sömu fötunum samfleytt í sextán vikur (sbr. 93) og var fataleysið ein af ástæðum þess að hann gat ekki farið til Parísar þegar hon­um bauðst það: „…því mér lá við að skammast mín meðal mannanna af eymdunum, sem þá [fataleppana] höfðu á fallið, sem við loddu og loða við enn í dag“ (94). Á leiðinni til Hol­lands bograði Ólafur við að þvo nær­skyrtu sína um borð í skipinu og hengja til þerris en um nóttina slitnaði hún niður „svo eg þá ekki hafði eftir á mínum kropp, nema skyrtu gamla og lífstykki gamalt, í hverju eg var með fyrstu fangaður. Og strax þar eftir missti eg af mér hatt­inn í veðri“ (98). Góðir menn gauk­uðu að honum peysu, kjól, skyrtum, hosum og skóm og gömlum hatti. Þegar hann kom til Kaupmannahafnar voru saumuð á hann föt hjá klæðskera svo hann þurfti ekki að skammast sín lengur.

Á miðöldum var heyrnin álitin mikilvægasta skynfæri mannsins. Veldi kirkjunnar byggðist á því að menn heyrðu orð Guðs – að heyra var að trúa („auditum verbi Dei, id est fidem“ sagði Lúther). Á tímum endurreisnarinnar tóku menn að reiða sig æ meira á sjónina sem öruggt skynjunartæki.[120] Þá skapaðist hætta á togstreitu milli hinnar nýju skynjunar þar sem augað var allsráðandi og hinnar fornu trúar sem grundvallaðist á eyranu. Í reisubókinni stendur séra Ólafur frammi fyrir þessum vanda og leysir hann með því að lýsa því sem hann sér með aðferðum heyrnarinnar, þ.e. hann býr reynslu sína í búning kristinnar hefðar. Orðræða hans er hliðstæð orðræðu Jobsbókar en í Biblíunni segir frá því að Satan reyndi að egna hinn guð­hrædda Job til að formæla Guði.[121] Ógæfan helltist yfir Job, kvikfénaður hans drapst og synir hans fórust, hann fékk illkynjuð kaun og sat í öskunni. Ógæfan helltist einnig yfir Ólaf, kona hans og börn voru í vargaklóm, sjálfur var hann hrakinn og niðurlægður. Guð gaf þá Job og séra Ólaf á vald ranglátra og varpaði þeim í hendur óguðlegra. Báðir fara þeir – með orðum Jobs – „í land myrkurs og niðdimmu, land svartamyrkurs sem um hánótt, land niðdimmu og skipuleysis, þar sem birtan sjálf er sem svartnætti.“[122] Í raunasögu séra Ólafs er gengið út frá sama viðmiði og í angurljóði Jobs; „Sjá, sæll er sá maður, er Guð hirtir.“[123] Þetta er rétttrúnaðurinn í hnotskurn, maðurinn er fæddur til mæðu og hver raun er í senn prófsteinn á andlegt þrek viðkomandi og vottur um velþóknun Guðs á honum sem aðeins er sýnd á himnum. Í 14. kafla reisubókar séra Ólafs er vísa sem birtir þessa trúarsannfæringu hans. Honum verður vísan á munni þegar hann verður að skilja konu sína og barnakindur eftir í Barbaríinu: „Að missa bæði börn og víf / bera til mann grætir, / en afturkoman í eilíft líf / allan skilnað bætir.“ Séra Ólafur var af fyrstu kynslóð íslenskra presta sem ólust upp í lútherskum sið. Hann var um tvítugt þegar Guðbrandsbiblía kom fyrst út og hann hefur til­vitnanir í hana á hraðbergi sér til halds og traust á refilstigum. Lokastef flestra kafla reisu­bókarinnar „vér erum drottins“ er sótt í fornkristna trúarhugmynd úr Gamla testamentinu um óbugandi trúnaðartraust lítilmótlegra manna til Guðs almáttugs. Séra Ólafur skrifar sam­kvæmt þeirri textahefð sem hann þekkti best. Hann býr líf sitt í form píslarsögu og reyndar er eins og öll orðræða manna um Tyrkjaránið hneigist í þá átt, til dæmis frásögnin af morði sr. Jóns Þorsteinssonar. Séra Ólafur fellir sjálfan sig og einstaka reynslu sína að bóklegri þekk­­ingu sinni. Veraldleg reynsla er löguð að helgri fyrirmynd (imitatio) þar sem hefð og sjálfs­­skilningur takast á. „Saga hans lýsir ánauð, missi og hrakningum, ferð inn í ókennileg­an heim, en um leið er hún andleg viðureign, leiðangur hið innra; höfundur reynir að sam­ræma trú sína og reynslu, raða einstökum atburðum í samhengi og gæða þá tilgangi. Það gerir hann með því að laga upplifun sína að guðfræðilegri fyrirmynd; hún á að staðfesta eilíft gildi píslarsögunnar – að líf hvers manns, hverrar þjóðar, sé píslarganga og krossfestingar­upprisa“.[124] Séra Ólafur leit á Tyrkjaránið sem refsingu fyrir óguðlegt líferni, forþénað straff yfir syndum spilltum eymdarlýð. Trúarleg tilgangshyggja skrifanna gæðir líf hans merkingu, skapar jafnvægi og sátt við Guð og menn.

9.2 Týndir sauðir. Halldór Jónsson og Einar Loptsson

Í Litlum annál um Tyrkjans herhlaup á Íslandi Anno 1627 sem skrifaður er á átjándu öld er getið helstu rita um Tyrkjaránið sem þá voru til. Þar segir: „Um Tyrkja níðingsverk í þessu herhlaupi má framar lesa skrif Kláusar Eyjólfssonar, skólamanna að austan, reisubók síra Ólafs Egilssonar og skrif Einars Loptssonar, hertekins í Vestmannaeyjum, og Haldórs Jóns­sonar úr Grindavík.“[125] Tveir síðasttöldu textarnir eru því miður ekki lengur til. Þessa texta hafði Björn Jónsson á Skarðsá undir höndum þegar hann ritaði Tyrkjaránssögu sína 1643 og bjargaði þeim þannig frá algjörri glötun.[126] Fyrsti hluti frásagnar Björns sem segir frá innrás Tyrkja í Grindavík byggir á riti Halldórs sem var sjónarvottur. Björn ritar svofellt um efni rits Halldórs:

Um hans [Halldórs] ánauðar aðbúnað og harðþjakan má lesa í skrifi Haldórs, hvernig þær mægður, Íma og Æsa, hennar dóttir, veittu honum mart munnslag og pústra með höndum og trjám, einnig fótatramp, hrækjandi í hans andlit með bölvunarorðum, en Beiram og hans kvinna Fatyma, sem var og dóttir Ímu, og María hans móðir, voru honum nærhæfis meinlaus; svo bauð Beiram þeim, að Haldór væri angurslaus látinn. Þær stálust að því samt hinar vondu mæðgur, lögðu honum háðungar til bæði í orðum og gerðum. Sömuleiðis má lesa þar um Guðrúnu, hans systur, hennar þarveru, og hvernig þau voru þaðan keypt af hollenzkum manni, komu svo til Kaupinhafnar, þáðu þar miklar velgerðir og gjafir, fluttust svo hingað til Íslands á kaupmannafari ári síðar 1628.[127]

Í ritinu hefur einnig staðið að Halldór og fleiri hafi ekki viljað flýja Tyrkina, „því þeir meintu, að ekki mundu mannrán gerast, þótt fjárstuldir mættu verða.“[128] Hann hefur og sagt frá litlum atburði sem gerðist meðan á sjóferðinni til Tyrklands stóð. Þessi atburður hlýtur að hafa verið honum afar minnisstæður fyrst hann rataði á blað og ástæðan ef til vill sú að hann var sem örlítill ljósdepill innan um öll myrkraverkin eða að þarna sýndu mannræningjarnir góðvild og snarræði sem hann átti ekki von á. Frásögnin er ævifleygur og færir lesandann nær þessum manni sem hefur misst allt og liðið miklar þjáningar en heldur þrátt fyrir allt dauðahaldi í trúna á hið góða í heiminum. Frásögnin hljóðar svo (í endursögn Björns): „Einn blíðan veðurdag var það, að þeir voru lausir Íslendingar, Haldór, og Jón, hans systurson. Sat Jón á kaðli fram undir gallioni, en einn hollenzkur bátsmaður gaf þann kaðal lausan, svo Jón datt útbyrðis ofan í sjó. Síðan heyrðist kall hans á skipið, og var hann óskaddaður upp dreginn fyrir sérlega guðs hjálp, – þannig bevarar drottinn sína, sem á hann vona.“[129] Ferðasaga Halldórs varð eldinum í Kaupinhafn að bráð og ekki er vitað um nein afrit hennar.

Um afdrif rits Einars Loptssonar frá Vestmannaeyjum er ekkert vitað en bergmál þess er sömuleiðis að finna í Tyrkjaránssögu Björns á Skarðsá.[130] Saga Einars hefur verið allítarleg og fróðleg og Björn nefnir hana sem heimild í sömu andrá og reisubók sr. Ólafs: „Hver sem vill heyra af þessum Tyrkjum, um þeirra fatnað, hegðan, athafnir, siði, trúarbrögð, kirkju­gaungu, dómahátt, kvonbænir, brullaupshátt og annað fleira, hann má skoða bæklinga síra Ólafs og Einars“ (295). Og skemmtileg hefur saga Einars áreiðanlega verið ef marka má efni hennar í endursögn Björns. Hann hefur m.a. sagt frá því þegar hann var prettaður til að sækja vatn í brunn sem kristnum mönnum var forboðið að nota. Fyrir það lenti hann í fang­elsi. Tyrkir reyndu þar að fá Einar til að ganga af trú sinni, eða „turnerast“ en hann neitaði því þrisvar. Þá skáru þeir framan af nefi hans og eyrum og: „Eptir það gert tóku þeir óguð­legu skálkar það upp, sem af skáru, drógu það upp á band og smeygðu yfir höfuð honum og létu svo dingla á herðum og hálsi, svo það skyldi honum til háðungar verða“ (280). Hann hefur einnig sagt frá kynferðisglæpum gagnvart börnum og refsingum við þeim. Brunn­vaktari sá sem náði Einari áður reyndi að „þrúga“ dreng einum „viljandi drýgja með honum skömm, sem Tyrkjanna er vani til“ (sbr. 282). Maður þessi var tekinn og beinbrotinn og dó með harmkvælum eftir tvo daga. Og annar þrúgaði einum pilti og „skammaði hann sem einn sódómíti“. Bein hans voru brotin og: „…einnig tekin ein staung og sett í hans bakhlut, svo upp reistur sat á henni í fjögur dægur; dó svo á því fimta“ (282). Ekki þekki ég önnur dæmi um frásagnir á íslensku af þessari pyndingaraðferð. Loks segir af því hvernig Einar keypti sig lausan með því að brenna vín og prjóna húfur og safna þannig fyrir lausnargjaldinu sem var 120 dalir. Einar Loptsson var meðal þeirra 27 Íslendinga sem Kristján fjórði Dana­konungur leysti úr Barbaríinu seint og um síðir. Hann kom heim sumarið 1637 og hefur trúlega ritað ferðasögu sína fljótlega eftir heimkomuna.

9.3 Hálft epli. Um Jón Ólafsson Indíafara

Ekki stoðar að eyða meira púðri á bækur sem eru löngu glataðar heldur snúa sér að þeim sem eru fyrir hendi. Næst í tímaröð íslenskra ferðasagna er ævisaga eða reisubók Jóns Ólafs­sonar Indíafara sem var samin 1661. Hún var þó ekki prentuð fyrr en tæpum 250 árum seinna eða á árunum 1908–9 í Kaupmannahöfn. Annaðist Sigfús Blöndal þá útgáfu. Guð­brandur Jónsson gaf reisubók Jóns út árið 1946 eftir elsta handriti sögunnar. Útgáfa Sigfúsar er talin áreiðanlegri og þegar reisubókin var gefin út í þriðja sinn árið 1992 af Völ­undi Óskarssyni var stuðst við þá útgáfu. Alls eru til um 16 heilleg handrit af reisubókinni víðs vegar að af landinu auk sex útdrátta og einnar þýðingar á dönsku. Sýnir þetta vel hversu vinsæl bókin hefur verið en Jón varð þjóðsagnapersóna í lifanda lífi og víðfrægur af ferðum sínum um heimshöfin. Í Ferðabók Eggerts og Bjarna segir um Jón og Reisubók hans: „Hann hefir skrifað bók um ævi sína og ferðalög. Hann var maður óskólagenginn og stíll hans því með hinu nýja sniði og frásögn einföld að þess tíma hætti, en allt um það ber rit hans allt vitni um hreinskilni hans, athygli og auðmjúkt hugarfar.“[131] Eins og þeir félagar segja réttilega var reisubókin mikil bókmenntanýjung á sínum tíma, hún er „með hinu nýja sniði“. En hér vekja meiri athygli orðin „einföld“ og „auðmjúkt“. Það eru menntamenn sem lýsa rit­smíð almúgamanns.[132] Erfitt er að átta sig á hvað fyrra orðið þýðir í þessu samhengi, nema átt sé við alþýðlegan frásagnarstíl, en hið seinna mun gilda um upphrópanir ýmsar og ávörp til Guðs sem er að finna hér og þar í Reisubókinni og segja má að vitni um kristilegt hugarfar Jóns. Bókin hefst á auðmjúku ávarpi til lesenda, en slíkt var venja í bókmenntum þessara tíma.[133] Ritið er sagt „fánýtt og auðvirðilegt verk“ og höfundurinn skýtur sér undan ábyrgð með því að segja að hann hafi orðið að láta undan þrábeiðni ótilgreindra frómra manna um að rita ævisögu sína. Mikið þor hefur þurft til að dirfast að auglýsa eða opinbera fáviskulega atburði úr ævi tilkomulítils alþýðumanns, eins og Jón orðar það. Yfirlýst markmið skrifanna er að útbreiða einstaka náð og dásemdarverk Guðs á auðmjúkum þjóni hans, m.ö.o. tilgang­urinn er látinn helga meðalið. Um leið á sagan að vera víti til varnaðar því sjálfumgleði og hroki Jóns við yfirmenn sína kemur honum í koll. Áðurnefnd auðmýkt er meiri í orði en á borði eins og vikið verður að hér á eftir.

Jón Ólafsson (1593–1679) virðist hafa verið haldinn útþrá frá blautu barnsbeini. Vera má að hann hafi óskað sér betra hlutskiptis en þess sem beið hans í átthögunum á Vestfjörðum, endalausts strits í harðindum og heyleysi. Og ef til vill hefur eplið sem hann neytti aðeins til hálfs og segir frá í fyrsta kapítula reisubókarinnar vakið með honum löngun til að sjá þau sólríku, frjósömu og framandi lönd þar sem slíkir ávextir uxu á greinum trjánna. Svo mikið er víst að það var „sjálfs hans vild“ (sbr. 37)[134] sem réði því að hann lagðist í ferðalög. Jón fór ungur að heiman, komst á skip til Englands og svo til Danmerkur. Þar gekk hann í þjón­ustu Kristjáns konungs IV. og gerðist byssuskytta í danska sjóhernum um 6 ára skeið. Árið 1622 var hann sendur á verslunarskipi til Indlands í langa, erfiða og hættulega ferð. Sjóferð­in tók hátt á þriðja ár og úr henni sneri Jón aftur allslaus og örkumla. En hann var sigldur, lífsreyndur og saltstorkinn sæfari með „veislu í farangrinum“. Aðeins 33ja ára bjó hann yfir lífsreynslu sem landar hans létu sig varla dreyma um að eignast. Þessa lífsreynslu mótaði hann í einstæða, skemmtilega og lifandi frásögn.

Reisubókin skiptist í þrjá hluta. Í þeim fyrsta skipar sjálfsævisaga Jóns öndvegi[135] en þar er m.a. sagt frá stuttum ferðum sem hann fór sem byssuskytta til Noregs, Rússlands og Fær­eyja. Í öðrum hlutanum er ferðasagan til Indía þar sem Jón er dæmigerður vestrænn ferða­maður, hugfanginn af framandi landi og þjóð. Svonefndan „þriðja part ævisögunnar“ skrifar Ólafur, sonur Jóns, en þar segir frá lífi Jóns eftir heimkomuna 1626 til dauðadags. Í reisu­bókinni má greina þróun eða þroskaferil Jóns. Farið er frá sakleysi um reynslu til sáttar í takt við þá ævisögulegu línu sem sagan fylgir, frá fæðingu um líf og til dauða. Mynd Jóns sem birtist í fyrsta hlutanum er mynd saklausa sveitadrengsins í borgarsollinum, einskonar skálkasaga þar sem hann er fórnarlamb. Honum kemur flest á óvart og á sér einskis ills von og er því auðveldlega prettaður og svikinn. Kliður stórborgarinnar lætur undarlega í eyrum hans: „Þar mátti heyra trómet, bumbur, pípur og hljóðfæri alls konar upp á spilað, og aðrar þess konar raddir, hana, manna, fénaðar, klukknanna, á hverjar spilaðir voru sálmar á fjögur hljóð á kvöldin eftir vaktklukkurnar“ (19). Í öðrum hluta bókarinnar er langreisa Jóns til Indía og vetursetan þar í fyrirrúmi. Þar vinnur Jón mikið frægðarverk en það var að drepa einskonar indverskan Fáfni, gleraugnaslöngu með „grimmt viðmót“ (sbr. 247) sem ógnaði lífi fjölda manns. Hlaut hann af því „stórar virðingar manna á milli og gott yfirlæti“ (sbr. 249). Jón er orðinn lífsreyndari þegar hér er komið sögu, hann er kominn í hetjudressið. Skipstjórinn leitar ráða hjá honum, menn spyrja hann erfiðra spurninga (sbr. 267) og hann drýgir ótrúlegar hetjudáðir sem auka sífellt á frægð hans og vinsældir manna á meðal. En í lok annars hluta sígur á ógæfuhliðina fyrir Jóni. Þar segir frá slysi því sem Jón lenti í um borð í „Perlunni“ og hlaut af varanlegan skaða og örkuml. Fallbyssa ein sprakk í loft upp og þeytti Jóni útbyrðis, limlestum, beinbrotnum og brenndum. Engar bætur fékk hann og varð m.a.s. að skilja allar eigur sínar eftir í skipinu og taka sér far með öðru skipi til Kaupmanna­hafnar. Hann gat ekki beðið eftir að góss hans kæmi að landi heldur fól kunningja sínum að annast það en sá síðan aldrei af því hvorki tangur né tetur. Hann sigldi til Íslands og kom heim í Skutulsfjörð en þar hófst ferð hans ellefu árum fyrr. Þrátt fyrir margvíslegt and­streymi virðist í bókarlok sem tíminn hafi grætt flest þau sár sem Jón hlaut á vegferð sinni um lífið og þegar hann lítur um öxl í ellinni er hann sáttur við sinn hlut.[136] Að minnsta kosti er enga beiskju eða biturð að finna í því yfirliti eða uppgjöri við lífið sem reisubókin óneit­anlega er.

Reisubók Jóns Indíafara er viðamikið rit, rúmlega 300 blaðsíður í Völundarútgáfu hinni nýju. Þó spannar hún aðeins tíu ár úr lífi höfundar. Það verður að teljast ótrúlegt þrekvirki hjá Jóni að skrifa sögu sína alla og virðist hann hvorki hafa skort tíma né starfsþrek, skrif­færi eða pappír. Atburðir ævi hans standa honum ljóslifandi fyrir hugskotssjónum og saga hans einkennist af næmri athyglisgáfu og ótrúlegri frásagnargleði. Hann er ekki að spara orðin eða stytta mál sitt heldur rekur hann sögu sína eftir krókóttri slóð um ótal útúrdúra. Víst er að tveir ólíkir heimar mættust þar sem Jón bograði aldurhniginn við skriftir í torfkofa á norðurhjara og lýsti ævintýralegum siglingum og fjörugu mannlífi í framandi löndum. Jón stóð föstum fótum í norrænni sagnahefð og hefur greinilega verið vel þjálfaður í frásagn­arlist. Hann samdi einnig riddarasögu upp úr dönsku miðaldakvæði, þýddi Grænlandskrón­iku úr dönsku og orti bæði sálma og veraldleg kvæði. Í reisubók hans eru fjölmargar sögur af margskonar toga, einskonar sögur í sögunni. Innan um fróðlegar lýsingar á löndum og þjóðum eru bæði slarksögur af honum sjálfum og æsilegar morðsögur sem eiga rætur sínar í samtímaslúðri. Margar frásagnir fjalla um grimm örlög samferðamanna hans. Hann segir t.d. frá efnilegum ungum mannni sem varð það á að hafa samræði við geit (sbr. 244–5) en með honum virðist Jón hafa nokkra samúð. Hann segir líka harmsögu eins skipverja sem þoldi ekki álagið í ferðinni, missti vitið, framdi morð og var hengdur (sbr. 273–94). Jón hefur orsakaskýringar á reiðum höndum, fyrra atvikinu olli galdrakerling en hinu síðara Satan sjálfur. Honum virðist kappsmál að segja frá því sem viðkemur mannlegu eðli, brest­um þess og breyskleika sem óneitanlega varpar nokkrum hetjuljóma á hann sjálfan um leið. Í Reisubókinni má augljóslega greina áhrif frá efnistökum og stíl forn- og helgisagna, þjóð­sagna og ævintýra. Sagan af spekingnum sem þekkti framtíð Jóns hefur t.d. á sér þjóð­sagnablæ og vitnar um forlagatrú hans (sbr. 149) en forspá kemur víða fyrir í sögunni. Sem dæmi um áhrif rótgróinnar frásagnarlistar á stíl Jóns mætti nefna lýsingarnar á aðgerð sem Jón gekkst undir eftir slys um borð í Perlunni. Frásögnin hefur slípast til í áranna rás og fengið sumstaðar á sig svip mannlegrar þrautagöngu í anda rétttrúnaðarins, einskonar helgi­sögublæ. Jón neitar t.d. að láta halda sér föstum við hina kvalafullu aðgerð. Hann afber hinar líkamlegar kvalir með ótrúlegri þolinmæði – því Guð er hans deyfilyf:

Ei þóttist bartskerinn hafa vitað nokkurn mann mér þolinmóðari, hvað Guð sjálfur alleina verkaði af sinni náð, þar sem hann varð með knípitöng að sundurbrjóta fingurnar, þar sem til­hlýddi, og með járnum liðina út að taka og plokka það brennda skinn, með lítt beittum járnum í sundur sagla og inn í hendina milli sérhvers fingurs og liðar með margslags járnum að leita […] [137]

Jón stígur hér fram sem helgisagnahetja, æðrulaus og kristilegur píslarvottur, m.a.s. bein hans eru ótrúlega hvít „sem í eldi hefði legið“ (sbr. 270). Jesúgerving Jóns verður síðan augljós í sjúkralegunni þegar hann þarf að liggja með útrétta arma eins og krossfestur í marg­ar vikur. Annars kemur Jón víðast fram sem sigursæll gerandi í dýrðarljóma en ekki sem raunamæddur þolandi. Form sögunnar er reyndar meira í anda hetjusögu en helgisögu því mest áhersla er lögð á að lýsa dáðum sögumanns og hvernig hann bjargast úr hverjum hásk­anum á fætur öðrum. Sjálfumgleði Jóns birtist m.a. í því að málstaður hans er ávallt góður og hann nýtur almannahylli. Auðmýkt hans og lítillæti eru því mestmegnis á yfirborðinu.

Sennilegt má teljast að sagan hafi smátt og smátt orðið til í huga Jóns við síendurtekna sagnaskemmtun á þeim þrjátíu og fjórum árum sem liðu þar til hann skráði sögu sína. Vegna fjarlægðarinnar við atburðina hafa þeir stundum brenglast í meðförunum og því er dálítið um missagnir, rugling í ártölum og atburðaröð. Í skýringum Völundarútgáfu er gerð grein fyrir því skýrt og skorinort. Að auki eru allmiklar ýkjur víða komnar til sögunnar. Ýkjurnar koma t.d. vel í ljós í frásögn Jóns af líkamlegum áverkum eftir slysið. Þar segir hann að yfir 300 tréflísar hafi staðið í höndum hans (sbr. 270), blóð pípt út úr meir en hundrað stöðum á lík­amanum (sbr. 269), blóð og heili flotið út um bæði eyrun á honum (sbr. 270) og honum ekki komið blundur á brá í ellefu vikur á eftir (sbr. 272). Af þessum lýsingum að dæma hefði Jón tæplega átt að lifa slysið af. Þá hlýtur Jón að ýkja verulega þegar hann segir frá því hversu fljótt og vel hann lærði tungumál þeirra þjóða sem hann hafði samneyti við því ella væri hann viðundur!

Reisubók Jóns er breið, epísk saga, fjölbreytileg, útleitin og nákvæm. Stíll sögunnar er margleitur, ýmist alþýðlegur eða lærður, knappur eða orðmargur, einfaldur eða skrúðmikill. Málfarið er einnig breytilegt og helgast af þeim veruleika sem Jón lýsir hverju sinni. Orðfær­ið er t.d. svo til laust við slettur framan af meðan Ísland er sögusviðið en verður gegnsýrt af enskum áhrifum um leið og sögumaður stígur á skipsfjöl með Englendingum.[138] Jón leggur sérstaka rækt við að lýsa fyrirbærum, hlutum og atburðum sem ókunn voru hér á landi. Hann dregur upp skýrar myndir af staðháttum, siðum manna og venjum af eins mikilli hlut­lægni og unnt er. Þannig leggur Jón sig í framkróka við að gefa lesendum sínum innsýn í framandi veruleika og menningu annarra þjóða. Stultur voru t.a.m. óþekkt fyrirbæri hér á landi á sautjándu öld og lýsir Jón þeim þannig að mörlandinn geti séð þær fyrir sér: „Sumir gengu á tréfótum, svo þeir jafnháir húsburstum urðu“ (63). Oft verða lýsingarnar afar ná­kvæmar, nánast eins og í skýrslu:

Svo fór það fyrir borð í einum byl, stórmastrið með nýju segli, stórstöng og bramstöng með tveimur nýjum seglum, ráð og reiða, og flaggstöng er þar uppi stóð á stórtoppi með flagg og forgylltum knappi. Þetta allt varð með beittum öxum burt að höggvast svo trén ei moluðu skipsborðið. Af þessum 22 mönnum drukknuðu sjö menn, af hverjum fimm voru brúðgum­ar.[139]

Lýsingar Jóns á dýra-, fugla- og mannlífi í framandi löndum eru sömuleiðis nákvæmar og jafnan eru líkindi sótt til reynsluheims íslenskrar alþýðu. Hári hinna þeldökku Kaffa líkir hann t.d. við ull unglamba (sbr. 192). Lýsingar á lífinu um borð í langreisunum eru raun­sæjar og lítt fegraðar. Jón lýsir daglegum störfum, afbrotum og hörðu straffi, hann telur upp mat og drykk, tíundar hvað sérhver hlaut að hafa með sér í langferð (sbr. 176–7) og jafn­framt lýsir hann þröngum og ömurlegum vistarverum sjómannanna þar sem rottur og kakka­lakkar skriðu um í rúmunum (sbr. 282). Þessar lýsingar gefa raunsæja mynd af sjómanns­lífinu og gera manni kleift að skilja betur það hugrekki og ofurmannlega þrek sem þeirra tíma sægarpar hlutu að búa yfir.

Reisubók Jóns er afar merkileg fyrir margra hluta sakir eins og ráða má af framansögðu. Sagnfræðilegt gildi hennar er töluvert, m.a. eru lýsingar hans á daglegu lífi hermanna á sautjándu öld á sjó og landi ómetanleg heimild. Gildi hennar sem sjálfsævisögu er einnig heilmikið en þar er Jón meðal brautryðjenda og sem ferðasaga er hún glæsilegur fulltrúi ferðabókmennta síns tíma enda var hún þýdd á ensku og birt í ferðasagnasafni Hakluyt Society árið 1923. Reisubókin markar tímamót bæði í íslenskri bókmennta- og menningar­sögu. Hún flutti með sér reynslu nýrra tíma, nýtt tungutak og söguefni. Hún byggir ekki á fastmótuðum reglum um frásagnarhefð og framsetningu efnis og lýsinga eins og t.d. róm­ansan og rímurnar sem voru samtíða henni. Hún rís gegn hefðinni. Bygging hennar er með óskipulegum hætti, atburðir eru ekki ávallt raktir í tímaröð heldur er mikið spunnið af fingrum fram. Bókin er því einstætt afrek hvað varðar efni og form[140] ekki síst þegar litið er til þess að höfundurinn var ekki úr röðum menntamanna. Fram til þessa voru bókmenntirnar í höndum hinna lærðu kirkjunnar manna og því sætir tíðindum þegar almúgamaður og óbreyttur soldáti tekur til við að skrifa ævisögu sína „með ósélegri skrift og óorðentlegri diktan“ eins og Jón segir sjálfur í formála. Samtíminn er viðfangsefni Jóns en ekki epísk fornöld þar sem glæstar hetjur riðu um héruð. Hann sjálfur er bæði sögumaður og aðal­persóna í eigin hetjusögu. Einstaklingurinn sjálfur, lífshlaup hans og örlög eru skyndilega orðið einstakt, merkilegt og verðugt viðfangsefni bókmenntanna. Hér er að finna frækorn nýrrar bókmenntategundar þar sem sjálfsævisaga og ferðabókmenntir fléttast saman í órofa heild.

9.4 Ofstopamaðurinn Ásgeir Sigurðsson

Annar ferðasagnaritari frá sautjándu öld, minna kunnur en Jón Indíafari, er Ásgeir „snikkari“ Sigurðsson (fæddur um 1650, dáinn eftir 1712) frá Efri-Rauðsdal á Barðaströnd. Hann fór til Kaupmannahafnar átján vetra gamall, lærði smíðahandverk í tæp fjögur ár og flakkaði um Evrópu á árunum 1673–7. Hann ritaði ferðasögu sína sennilega undir lok sautjándu aldar og er hún varðveitt í afskrift í stóru ferðasagnaskræðunni úr Steingrímsfirði, JS.29.fol. Ferða­sagan, sem er mjög stutt en býsna efnisrík, var prentuð í Blöndu (1932–5).[141] Sagan hefst þann 25. ágúst 1668 þegar Ásgeir lét í haf frá Patreksfirði. Ekkert lætur hann uppi um til­drög og ástæður ferðalagsins. Kannski hefur Ásgeir líkt og Jón Indíafari óskað sér betra hlutskiptis í lífinu og ætlað að freista gæfunnar erlendis en á hans dögum var mikið hörm­ungarástand hér á landi, hallæri og hungur voru viðloðandi og fjöldi fólks flosnaði upp frá heimilum sínum. Ásgeir langaði til að læra snikkarahandverk en ekki er ljóst hvort sú löngun kviknaði heima eða í Höfn. Af sögu hans má sjá að hann er eirðarlaus og vill ekki vera lengi á sama stað, hann fýsir alltaf „að reisa víðara“ jafnvel þótt vel fari um hann (sbr. 15). Ásgeiri leið ekki vel í hinni löngu sjóferð til Kaupmannahafnar „á því mikla og dimma hafi“ (5) og var bæði sjóveikur og hræddur: „…þá fengum vér Noreg í sigti, og svo mikinn norðvestan vind, að eg þenkti, allt mundi ganga í stykki. Eg var þá mjög hljóður, vildi þá heldur hafa verið á Íslandi en þar“ (6). Þegar Ásgeir kom til Hafnar varð honum við líkt og öðrum Íslendingum fyrr og síðar. Honum þótti allt undarlegt sem hann sá, landið sjálft, húsin og fólkið. Hann hóf fljótlega smíðanámið en það var með hörðum skilmálum. Þurfti hann að greiða 20 dali í námskostnað, var þrælað út og bæði laminn og sveltur. Eftir tilskildan tíma lauk Ásgeir námi, sór sig í „stallbræðralag“ við danskan pilt og lagði upp í langferð vorið 1673. Ætlun þeirra félaga var að flakka suður um lönd, dvelja nokkra hríð á hverjum stað og vinna sér inn farareyri til næsta áfangastaðar. Þetta var ferð án fyrirheits. Þeir fóru til Póllands, Hollands og Þýskalands og lentu í ýmsum ævintýrum. Ásgeir hélt svo ferðinni áfram einn síns liðs og komst til Austurríkis, Ungverjalands, Sviss og síðan aftur til Þýska­lands þar sem hann staðnæmdist í Hamborg 1675/6. Ásgeir sigldi heim aftur með Hamborg­arskipi og þann 20. júní 1677 stóð hann í fjörunni í Berufirði eftir níu ára útivist. Þó hafði hann lýst því yfir að hann ætlaði aldrei að snúa aftur. Hann kvæntist 1680 Helgu Árnadóttur, sem var langafabarn Einars Sigurðssonar í Heydölum, bjó lengi að Ósi í Steingrímsfirði og þótti merkismaður.

Ferðasaga Ásgeirs er lipurlega skrifuð en heldur stuttaraleg, sérstaklega seinni hlutinn. Á flakkinu hlýtur margt nýstárlegt að hafa borið fyrir augu Ásgeirs en hann er ekkert að tíunda það. Hann segir þó frá sög sem sagaði sjálf „svo þykkt og þunnt, sem maður vildi“ (11) enda er orðið sögunarvél ekki til í orðaforða hans. Hann skrifar að margt fáséð hafi borið fyrir augu hans „í einu brullaupi“ en nefnir ekki hvað það var. Það er eins og skrifin þvælist fyrir honum, hann „nennir“ t.d. ekki að skrifa um alla póstana í námssamningi sínum, með­ferðina á sér eða hvað við bar annað í Höfn (sbr. 8 og 9) og hann veit ekki „hvað skal […] skrifa um harm og grát, sem var á þessu skipi að heyra í þeim stóra stormi“ (13). Í lok sög­unnar segir að auki að frásögnin sé í stysta máta og margt undanfellt (sbr. 21). Ásgeir virðist ekki búa yfir sama þreki og Jón Indíafari hvað skriftirnar varðar. Orðum, bleki og pappír er beitt af ýtrustu sparsemi. Besta tímabilinu í allri utanferðinni, heilu ári hjá Graamann og dætrum hans þremur, eru gerð skil í fjórum línum. Þrátt fyrir þetta eru ótal atriði í snubb­óttum textanum sem varpa ljósi á persónuleika þessa manns. Ásgeir er ekki þolinmóður píslarvottur eins og sr. Ólafur Egilsson heldur virkur gerandi, ofstopafullur ævintýramaður og slagsmálahundur og hann dregur ekki fjöður yfir það í textanum. Honum líkaði meðferð­in hjá fyrsta lærimeistaranum illa og hafði ákveðið að hefna sín þegar náminu lyki .Guð tók reyndar af honum ómakið því lærimeistarinn lagðist veikur og dó. Í eftirfarandi setningu opnast fleygur inn í skapgerð Ásgeirs: „… stór raun var mér að því, að eg mátti ekki slá, þegar eg var sleginn“ (8). Greinilegt er að hann hefur ekki verið sú manngerð sem bauð fram hina kinnina. Þegar hann er laus við afarkosti námssamningsins lætur hann engan vaða yfir sig. Í Póllandi lét Ásgeir vinnuveitanda sinn heldur ekki eiga neitt hjá sér: „…féll slétt á með okkur, því að eg flaugst á við hann, þá eg skyldi hafa haft mína peninga, og fékk þá svo með harðri hendi“ (11). Í Halle í Saxlandi slóst hann þrisvar við húsbónda sinn (sbr. 15). En í Dresden lenti hann í mesta slagnum. Það var eitt kvöld að hann var að koma úr vínkjall­ara með fjórum öðrum snikkarasveinum. Gengu þeir þá fram á sex gullsmíðasveina og „komu í klamarí“ við þá. Einn gullsmíðasveinninn, stór og mikill rumur, dró upp hníf og lagði til snikkaranna. Ásgeir lýsir því hvernig maðurinn hjó til þeirra en segir ekki frá því beinlínis að þeir hafi varið sig: „Allir fengu nokkurn áverka af honum, en svo lauk að hann lá dauður eptir“ (17)! Ljóst er að í þessum bardaga var beitt hryllilegu ofbeldi:

Síðan var sá dauði sóttur og skoðaður. Voru þá á honum 49 áverkar, hvar með að voru 3, sem þeir ályktuðu að væru dauðlegir áverkar. Sá fyrsti var, að hann var rekinn í gegn, annar, hann var heilaklofinn, þriðji, það var höggin af honum önnur kinnin, og hékk svo ofan á öxl.[142]

Í kjölfarið sátu Ásgeir og félagar í járnum um þriggja vikna skeið við illt viðurværi og megn­an daun af eigin saur. Varð Ásgeir svo máttfarinn að tveir hermenn urðu að halda honum uppi við yfirheyrslurnar og hann ritar að þetta hafi verið mestu harmkvæli á sinni æfi (sbr. 18). En enginn þeirra upplýsti hver hefði veitt manninum banasárið og svo fór að þeim var öllum sleppt. Ásgeir lenti enn tvisvar í fangelsi fyrir að hann vildi ekki fórna frelsi sínu og gegna herþjónustu.

Ásgeir virðist þroskast nokkuð á ferðum sínum. Hann sem var bæði sjóveikur og óttasleginn á fyrstu sjóferðinni sýnir mikla dirfsku í hættulegri ferð niður ána Rín. Í ánni var súsandi, brúsandi pyttur sem hafði svelgt í sig mörg skip með manni og mús. „Skipherrann bauð þá oss að fara á land, sem ekki vildum hætta á að fara yfir um þennan pytt, hvað og nokkrir gerðu. En eg hafi forvitni til að sjá þetta“ (18) ritar hann og fer hvergi smeykur með skipinu yfir hringiðuna. Ýmsar raunir styrkja hann, s.s. svitastorkin veikindi, einmanaleiki og til­vistarkreppa sem hann sigrast á. Ásgeir virðist sæmilega trúaður maður, a.m.k. er hann feg­inn að komast til sakramentis eftir tveggja ára ferðalag. Guðstrú Ásgeirs einkennist af því að guð hlutist til um málefni mannanna.[143] Hann biður guð að láta lærimeistara sinn deyja og er bænheyrður. Í veikindum fær hann hinsvegar ekki að deyja sjálfur því drottinn taldi það ekki tímabært. Í upphafi ferðasögunnar er stuttur formáli samkvæmt venju. Þar er lesendum tileinkuð sagan, þ.e. þeim sem vilja fræðast og flakka sjálfir. Ásgeir bendir þar á að drottinn hafi alltaf verið með í för og bjargað sér úr háskasemdum. Margir ferðasagnahöfundar rita slíkan formála og ramma frásögnina inn með eftirmála í sama dúr en Ásgeir getur guðs ekki í lok sögu sinnar. Þá er eins skrifin séu að bera hann ofurliði, hann þrýtur örendið. Í raun segir hann öllu meira frá sársaukafullu lífi líkama síns en frá guði og talar um högg og slög, hungur og þorsta, svitaköst og kölduflog. Sárum á fæti hans eftir hnífsstungur gullsmiðsins er t.d. vandlega lýst (sbr. 17). Líklega hefur hann komist í kynni við kvenfólk, t.d. í Slesíu og á Saxlandi, þar sem „þess skapning og andlitsfegurð er yfirmáta dæileg“ (12) en hórurnar í Breslau brúka óguðlegan lifnað segir hann. Það að auvirðilegur, lostasamur og sveittur líkami skuli eiga erindi inn í söguna minnir á efnistök Árna frá Geitastekk en í líkaminn er miðja frásagnar hans eins og ég mun koma að síðar. Þeir Ásgeir eiga það líka sameiginlegt (auk þess að vera báðir komnir af Magnúsi prúða) að líta Tyrki öðrum augum en vanalegt var hér á landi. Árni hatar þá ekki eins og svo margir samtímamenn hans gerðu og Ásgeir segir Tyrki hafa reynst sér vel „og betur en sumir kristnir“ (20).

Þeir frásagnarþættir sem eru fyllstir í ferðasögu Ásgeirs eru hin illa meðferð hjá lærimeist­aranum, Dresden-slagurinn, sjóferðin til Kaupmannahafnar og sjóferðin frá Danzig til Amsterdam. Í þeirri ferð sváfu Ásgeir og stallbróðir hans ásamt öðrum „reisandi persónum“ í kornlest skipsins Skipið lenti í vondu veðri, stýrið brotnaði „og þá rak skipið sem annað kefli undan vindi“ (13). Stýrimaðurinn brá þá á það ráð að kafa undir skipið í frumstæðum kafarabúningi og gera við stýrið: „En vor stýrimaður lét binda skinn um höfuðið á sér, og svo að hálsinum, svo að sjórinn kæmist ekki að skilningarvitunum. Síðan batt hann kaðli mjóum um sig miðjan […] og hljóp svo fyrir borð og bauð að draga sig upp, þá hann kall­aði“ (13). Erfitt er að ímynda sér hvernig maðurinn gat séð til þess sem hann var að gera en honum tókst ætlunarverk sitt og bjargaði lífi allra um borð. Ásgeir varð að vonum feginn og vill reyndar eigna guði hluta af heiðrinum fyrir björgunarstarfið: „Komumst vér svo úr þessu lífsfári, fyrir guðs og þessa manns tilhlutan“ (13).

Ferðasaga Ásgeirs markar kannski ekki tímamót líkt og reisubók Jóns Indíafara en hún er á skjön við ríkjandi bókmenntahefð þeirra tíma. Hún fæst við dauðlegan einstakling og sam­tíma hans meðan hefðin snerist um fræknar hetjur fornaldar. Sjálflæg og persónuleg sýn Ásgeirs er ráðandi í frásögninni. Eitt smáatriði úr ferðasögunni skerpir útlínur Ásgeirs öðrum fremur í mínum huga. Hann mætir eitt sinn 100 manna hópi sem hafði verið rændur, afklæddur og rekinn út úr heimaborg sinni. Þá skrifar hann: „Það var ein undarleg sýn, að sjá svo marga manneskju nakta“ (19). Tilfinning Ásgeirs gagnvart þessu undarlega um­komulausa fólki leiðir hann út úr þoku fjarlægrar fortíðar og gæðir hann lífi á ný.

10. Þrjár ferðasögur frá átjándu öld

Frá átjándu öld eru varðveittar nokkrar frumsamdar íslenskar ferðasögur sem greina frá utan­ferðum einstaklinga.[144] Þeirra þekktastar eru reisubók Eiríks Björnssonar víðförla (skrifuð 1768, ópr.), Stokkhólmsrella Hannesar Finnssonar biskups (samin 1772, pr. 1934) og Ferðasaga Árna Magnússonar frá Geitastekk samin um 1795 (pr. 1945). Vegna þess hvað ferðasögur þeirra Eiríks Björnssonar og Árna Magnússonar eiga margt sameiginlegt – þótt um leið séu ómælisdjúp sem skilja þær að – hef ég kosið að fjalla um þær saman enda verður lestur þeirra við það mun frjórri. Ferðasögum þeirra svipar reyndar að nokkru leyti til sagna af öðrum frægari ferðalöngum, þeim Gúllíver og Ódysseifi.

10.1 „Eins manns sjóferðaskrif.“ Reisubók Eiríks Björnssonar víðförla

Sigfús Blöndal hefur ritað grein um reisubók Eiríks Björnssonar og skrifað upp brot úr sögu hans.[145] Sigfús skrifaði brotin upp eftir pappírshandriti sem varðveitt er á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn, NkglS.385.4°. Sigfús nefnir að á Landsbókasafni sé að finna annað handrit af sögunni, Lbs.677.4° sem er lítil sögubók er inniheldur m.a. þrjár ferðasögur. Þorsteinn Þorsteinsson á Heiði í Sléttuhlíð (1792–1863) skrifaði handritið síðla árs 1827.[146] Í ferðasögu Eiríks er fyrst formáli, síðan koma nokkrar gamansamar vísur eftir óþekktan höfund sem hafa verið „teiknaðar upp á Výðferlis sögu þessa“ (sbr. P28).[147] Í lok ferðasögunnar eru vísur sem sennilega eru eftir Eirík og kveður þar við annan tón en í hinum fyrri því þær eru lofgjörð til Drottins og hans guðlegu forsjónar. Eiríkur var skáldmæltur en hið eina sem hefur lifað af skáldskap hans er þýðing hans – eða stæling – á „Gubben Noach“ eftir Bellman.[148] Eiríkur Björnsson fæddist 1. nóvember 1733 á Hjaltabakka í Húnavatns­sýslu og ólst upp hjá fósturforeldrum á Smyrlabergi á Ásum. Árið 1756 þegar Eiríkur var 23 ára fór hann til Kaupmannahafnar með skipi Øelandts kaupmanns. Tilgangur ferðarinnar var að læra smíðahandverk og eins og hann orðar það sjálfur: „…siá mig um hiá framandi þióð­um og kinna mier siðu þeirra og upp helldis aðburði…“ (P26–7). Í Kaupmannahöfn lagði Eiríkur stund á nám í hanskagerð og járnsmíði. Í hanskagerðarnáminu þurfti hann að líða „sullt og kullda nógann“ (sbr. P31) líkt og Ásgeir Sigurðsson fyrrum. Eirík og meistarann greindi á um hvað námstíminn skyldi vera langur og hann venti því sínu kvæði í kross og fór að læra járnsmíði. Þar lenti Eiríkur einnig í útistöðum og enduðu þær með málaferlum og sigri hans. Eiríkur fór enn í læri til nýs meistara og lynti ágætlega við hann. Á námstímanum gerð­ist atvik sem snart hann djúpt. Hann var eitt sinn fenginn til að opna læstar dyr en „einn feitur officeri“ hugði að þjónn sinn væri dauður fyrir innan. Meðan Eiríkur var að bisa við þetta skaut þjónninn af byssu úr herberginu og fór ein kúlan í gegnum treyju Eiríks. Tveir unglingar særðust og ein kona lést í skothríðinni. Þjónninn var leiddur fyrir rétt og dæmdur til dauða en hann átti þó að fermast fyrst: „var hann þá Dæmdr til að missa sitt höfuð hvað og skeði eptir tvö ár þá hann hafdi verið til conformation því hann var ey elldri enn 17 ára…“ (P32). Eiríkur segir að menn hafi talið sennilegt að þjónninn hafi ætlað að skjóta húsbónda sinn en getur ekki um ástæður þess. Hann bætir við:

Þá hann var nú á Ráðstofunni yfir heirðr. máttum við tveir sem vorum vitni í þessari sök filgia með hönum þangað sem konann lá er hann hafdi skotið hafdi þá skotið geingið giegnum hennar handlegg. so hún var alldeilis ógræðandi og Doctorinn mátti neiðast tilað skiera hann af um öxlina lá þá þessi handleggur á borðinu og konan í sæng sinni, hafdi eg þá výst orðsök að prýsa herrans giæðsku sem vyerndaði mitt lýf og limu frá fiordiörfuninni.[149]

Hér togast á í Eiríki samúð með þjóninum unga og konunni sem lést eftir hálfs mánaðar harmkvæli. Hann hristir þetta af sér með því að minna sjálfan sig á hversu heppinn hann var að Guð sem öllu ræður skyldi ekki ætla honum þennan aldurtila. Í Kínaferð Eiríks síðar segir frá öðru minna afbroti og þungu viðurlagi en þá var drengur hýddur í þrjá daga fyrir að hnupla peningum og lést hann af sárum sínum. Eiríkur munstraði sig á kaupskipið Dronning Juliane Marie þann 4. mars 1763 og lagði af stað til Kína. Árni frá Geitastekk hafði farið með sama skipi til Kína þremur árum fyrr en það er ekki hægt að sjá af reisubókinni að Eiríki hafi verið kunnugt um það. Eiríki líkaði vel um borð, starfsandinn var góður og bænahald og messur reglulegar. Í Kína stundaði Eiríkur smíðaiðn sína í bambuskofa. Eiríkur víkur um hríð úr aðalpersónusæti frásagnarinnar fyrir lýsingum á trúarbrögðum Kínverja, lagaboðum og hörðum refsingum, postulínsgerð og stöðu kvenna. Í janúar 1764 lagði skipið af stað til Kaupmannahafnar hlaðið tei, postulíni, kryddi og silki. Heimferðin gekk mjög vel eins og Eiríkur lýsir: „…lifðum so for nægðir að eg hefi ey um mýna daga lifað for nægri eða betr. Því vier höfðum gott veður og auðsveipann vind, mátulegann varma, Daglega for frýskning kvörn Dag við vort borð, nóg vatn í skipinu þann besta bir listuga Músic um Daga so hier vantaði eckert sem nockr sió maðr kunni sier að óska“ (P47). Eiríkur dvaldi stutt í landi og í nóvember sama ár og hann kom úr Kínaferðinni fékk hann annað tækifæri til að svala útþrá sinni. Honum bauðst pláss á skipi sem hét Grevinde Moltke og sigldi til Bengal. Þessi ferð tókst ekki eins vel. Áhöfnin var hrjáð af vatns- og matarskorti og telur Eiríkur mótlætið stafa af lélegum móral um borð: „Sýðan höfðum vier sýfellda mót vinda var og ey helldr annars von því á því skipi var slýkt sundr lindi, að sá hinn eini var búinn til að mirða hinn annan, og sá sem best kunni að Agera sem annar djöfull hann stóð sig best“ (P50). Loks komust þeir til Bengal og Eiríkur setti upp smiðju sína sem fyrr. Hann lýsir allnákvæmlega trúar­brögðum Bengalbúa sem voru skurðgoðadýrkendur. Trúarbragðafræðslan er í Sókra­tesar­formi, Eiríkur spyr en bengalskur gullsmiður svarar. Þá segir Eiríkur frá því í löngu máli hvernig Bengalir jörðuðu ekki hina dánu heldur hentu líkunum í vatn eitt. Einn þjóðflokkur­inn brenndi líkin og eftirlifandi ekkju með og þykir Eiríki það að vonum grimmdarlegt:

nú er það í þeirra lögum að þar má einginn eckia vera helldur skal hún lifandi brennast með sýnum Dauða manni slýka Exeecution gat eg varla sieð hún var með basti fast bundinn við sinn Dauða mann og sýðan báðum kastað út í eitt stórt bál brunnu þaug þar upp þetta var um middags skeið…[150]

Nokkrir félagar hans reyndu að fá líf einnar ekkjunnar keypt „því þeim þótti gaman að siá hvað feiginn hún yrði þá hún slippi frá því að brenna“ (sbr. P54) en hún vildi ekki þiggja þar sem ætt hennar hefði lifað við skömm upp frá því. Árið 1767 sneri Grevinde Moltke aftur til Danmerkur en á heimleiðinni veiktust margir og dóu úr skyrbjúg. Var Eiríkur sjálfur hætt kominn en guð gaf honum aftur líf og heilsu (sbr. P59). Í frásögninni af heimferðinni kemur vel í ljós trú Eiríks á guðlega forsjón. Hann segir frá því að einn matrósinn varð fúll yfir vatnsskömmtuninni og sór þess eið að skipið kæmist aldrei til Kaupmannahafnar. Þá svaraði Eiríkur og talar í beinni ræðu svo minnisstætt er honum þetta atvik: „þú tekr výst feil skip vort sendir guð luckulega heim til kaupinnhafnar enn eg efa að þú komir sjálfur þangað þá trú hefi eg“ (P58). Hrakspá Eiríks rættist að sjálfsögðu, matrósinn féll úr mastrinu, slóst utan í borðstokkinn og lét þar líf sitt. Loks komst skipið heim eftir rúmlega tveggja ára ferða­lag. Árið 1768 fór Eiríkur stutta ferð til Íslands að hitta föður sinn en sneri strax aftur þar sem faðir hans var þá nýdáinn. Um þær mundir sem hann kom aftur úr Íslandsreisunni seg­ist hann vera orðinn þreyttur á ferðalögum og „hiet því í mýnum þaunkum að sæka hvýlld og Rósemi í landinu“ (sbr. P62). Hann kvæntist danskri konu árið 1769 og var grafari í Kaup­mannahöfn til dauðadags 1791. Benedikt Jónsson Gröndal segir í óprentuðu handriti[151] frá því að Eiríkur hafi dáið í fátækt seint á hans tíð í Kaupmannahöfn og ánafnað Lærdómslista­félaginu eigur sínar. Þykir Gröndal lítið til gjafarinnar koma og enn minna til ferðasögu Eiríks „hvörja eg þó ei hefi séð og mun öllum að skaðlitlu fyrir laungu síðan vera undir lok liðin“.

10.2 „Blandt úlfa og löver.“ Ferðasaga Árna Magnússonar frá Geitastekk

Ferðasaga Árna Magnússonar frá Geitastekk var gefin út árið 1945 að tilstuðlan Björns K. Þórólfssonar sem ritaði formála og samdi skýringar.[152] Ferðasaga Árna er prentuð eftir Lbs.1583.4° sem er eiginhandarrit Árna með formála og eftirmála síra Björns Hjálmarssonar í Tröllatungu (1769–1853). Árni er einn víðförlasti Íslendingur síns tíma, einn af örfáum sem fór utan til að sjá með eigin augum undur annarra landa. Árni er talinn fæddur sama ár og Eggert Ólafsson eða árið 1726. Hann fór til Kaupmannahafnar árið 1753 en ekki virðist borgin hafa heillað hann að ráði því hann fór fljótlega þaðan til Grænlands í vinnu. Þar líkaði honum vel og fannst Grænland að mörgu leyti betra en Ísland (sbr. 47). Eftir þriggja ára dvöl sneri hann til Danmerkur aftur og á árunum 1757–9 var hann á skipum sem sigldu til Pétursborgar, Köningsberg og Bordeaux. Síðan fór hann til Kína með „Dronning Juliana Maria“. Undirbúningur ferðarinnar hófst haustið 1759 en skipið lét í haf snemma árs 1760. Ferðin var erfið framan af og menn voru sveltir og barðir eða eins og Árni segir: „Við vorum allir orðnir í gegnum frosnir, votir og svangir, því ei varð matur kokkaður sökum illviðra, og fengum lítið að sofa, en högg í mengd á votan, frosinn og svangan kropp“ (77). Margir létust á leiðinni og sjálfur veiktist Árni en hresstist brátt og þakkaði guði fyrir að sleppa lif­andi. Árni lýsir Kína eins og jarðneskri paradís „með óteljandi ávöxtum og hrísgrjónum“ (97) og feitum og þrifalegum búpeningi. Á heimleið frá Kína gerðu menn sér glaðan dag um borð sem endaði með því að einn matrósinn var myrtur. Var sá glæpur hroðalegur en refsing hins seka þó enn hroðalegri: „Þar eftir urðu bæði bökin saman lögð á þeim dauða og lifandi og bundin saman með blýlóð bundin við fæturnar og í sjávardjúp sökktir“ (100). Þegar Árni kom úr Kínaferðinni árið 1761 snerist allt honum í óhag. Hann varð að þræla í skipasmíða­stöð danska flotans og lenti í fangelsi fyrir að hafa lánað nafnið sitt á vafasama pappíra (sbr. 122). Þegar hann losnaði úr prísundinni gekk hann í her Katrínar miklu og sigldi suður til Tyrklands á rússnesku herskipi árið 1770. Hernaðurinn fólst að mestu í ránum, íkveikjum, drápum og nauðgunum:

Komum vér upp á ey nokkra, er Tyrkjar í bjuggu. Þegar þeir sáu oss, hlupu þeir allir út í skóginn, utan tvær konur voru heima. Sú eina var ólétt, en önnur ei. Henni lágu þeir [Rússar] hjá. En þá óléttu uppskáru þeir og tóku fóstrið út af hennar lífi – og það gegnum stungið. Hrærðust bæði lærin og handleggirnir á því, er þeim þótti gaman upp á að sjá.[153]

Fyrir þetta viðurstyggilega tiltæki fengu Rússarnir makleg málagjöld að tilstuðlan Árna og félaga. Árni var um margt óvenjulegur maður með ákveðnar skoðanir og ríka réttlætiskennd. Hann vílar ekki fyrir sér að láta til sín heyra um það sem honum þykir gagnrýnivert. Sjálfur Danakonungur fær makið um bakið hjá Árna og danskir prestar og kaupmenn á Grænlandi sömuleiðis. Hann segir blákalt í ferðasögunni að með eldinum í Kaupmannahöfn 1728 hafi Guð verið að refsa konungi fyrir óstjórn og spillingu.[154]

Árni reynir jafnan að staðfæra og lýsa ókunnuglegum fyrirbærum þannig að menn geti séð þau fyrir sér og ímyndað sér lögun þeirra eða stærð. Í eftirfarandi lýsingu gengur hann út frá því að viðtakendur geti dregið skynsamlega ályktun um útlit og bragð hins framandi ávaxtar sem lýst er með samanburði við kunnugleg fyrirbærum eins og ull og egg:

Kukkuser vaxa á vissum trjám. Þeirra skalli eður skurmur er harðari en eik og ullu vaxinn. Inn í skurminum er vatn sætt sem hunang, og þegar það er út drukkið, er til baka hvítur kjarni sem úr eggi væri, sætur sem sykur. Þegar nú skallinn er út tæmdur, tekur hann frá hálfum potti til þriggja pela. Þennan skalla selja þeir í Norðurhálfu heimsins, sem verður besleginn með silfurböndum, handraði og loki og hafður fyrir ölkrúsir á stórum stöðum.[155]

Þegar Árni lýsir íbúum Portopray notar hann sama viðmið og Jón Indíafari þegar hann líkti hári Kaffa við lambsull. Árni segir: „Þeir voru svartir sem sót með svart hár, líkast þeim svörtu unglambaskinnum hjá oss, er voru krulluð með lítið hár“ (81). Árni lenti í svipuðum hremmingum um borð og Jón Indíafari því hann slasaðist illa. Þegar heilsan bilaði varð hann að búa við þröngan kost í Danmörku (sbr. 147). Þegar hann hafði náð sér fór hann til Ís­lands og dvaldi einn vetur en líkaði illa og sneri aftur árið 1775. Þá átti fyrir honum að liggja að stunda barnakennslu á Jótlandi í 17 ár, mest hjá fátæku fólki sem hann hafði mikla samúð með (sbr. 165). Þá flæktist hann um Noreg og Svíþjóð í tvö ár en kom til Íslands árið 1797 eftir 21 árs fjarveru. Hann dvaldist hér á landi um fjögurra ára skeið og skrifaði þá ferðasögu sína. Árni sigldi síðan aftur til Danmerkur 1801 og lést þar í hárri elli.

10.3 Af íslenskum Gúllíver og Ódysseifi

Þegar Árni Magnússon Dalabóndi fór af landi brott 1753 voru þrjú ár liðin frá því þeir félag­ar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gengu á Heklu – auga helvítis – og fengu átölur hjá Skálholtsbiskupi fyrir frumkvæði sitt. Árið áður en Eiríkur Björnsson tók sér far með dönsku kaupfari eða 1755 hófst Kötlugos þar sem eldi og brennisteini rigndi yfir stóra landshluta. Á meðan fólkið hrundi niður úr hor og harðrétti vegna eldanna lónaði landsins forni fjandi fyrir ströndum landsins langt fram á sumar. Árið 1756 skrifaði Þorsteinn Péturs­son á Staðarbakka bréf til Hólabiskups þar sem hann lýsir áhyggjum sínum vegna hrossa­kjötsáts í heimasveit Eiríks, Húnavatnssýslu, þar sem fólk svalt heilu hungri. Þetta var sam­tími langferðamannanna Eiríks og Árna, öld upplýsingarinnar.

Sögur Eiríks og Árna eru um margt svipaðar þótt ómælisdjúp skilji þær að að mörgu leyti. Þeir fara báðir til Kína á sama skipi og með sama skipstjóra og það er aðallega í þeim ferðum sem mestu líkindin eru í efnistökum. Báðir lýsa hitanum á leiðinni, Eiríkur svona: „Þá maðr er undir sólunni er einginn skuggi af neinu því sem stendr Riett upp um miðdæginn er hún riett beint yfir svo þá maðr setr einn Gaffal í eitt borð þá fellr skugginn beint niðr á millum oddanna hiti er þar so sterkr að einginn maðr er í standi að þola að ganga berfættr á þilfarinu“ (P37). Að auki getur Eiríkur þess að skipið hafi þurft að kæla með sjó á tveggja tíma fresti svo bikið rynni ekki allt niður (sbr. P38). Árni hefur sömu sögu að segja: „Nú er orðið so heitt af sólunni, að það má slá sjóvatn upp á þilfarið hvert annað glas (annan hvern hálftíma). Annars bræðist bæði bik og tjara af skipinu. Berfættur kann hann ei að ganga á þilfarinu, því þá brennur hans iljaskinn af hitanum…“. (79).[156] Þeim ber saman um mikinn þorsta sem kvaldi þá á leiðinni og þeir segja báðir frá leik einum sem siðvenja var að fara í þegar siglt var yfir Miðjarðarhafsbaug. Báðir segja þeir Kínverja þjófótta og báðir segja frá grimmi­legum refsingum við afbrotum. Báðir segja frá minnisstæðu atviki sem tengist hita og vatns­skorti um borð, Eiríkur frá formælingum eins skipsfélaga síns sem síðar fékk makleg mála­gjöld, Árni frá því að hjartað greri við síðu eins félaga hans vegna hita og þorsta (sbr. 79). Báðir sjá fræga staði úr Biblíunni, Árni sér akurinn þar sem Kain dó (sbr. 128) en Eiríkur Borðfjall en „nockrir vilia seigia að á því hafi vor herra mettað þaú 5000 mans, er Heilög Ritning um gietur“ (P50).[157] Árni segir á hinn bóginn frá illu atlæti, hungri, bölvi og bar­smíðum um borð sem Eiríkur minnist ekki á. Árni fjallar ávallt um kvenfólk og greiðasemi þeirra í hverri höfn, en Eiríkur kemst aldrei í návígi við konur.

Þeir voru auðvitað ekki margir á upplýsingaröld sem hleyptu heimdraganum og fóru út í hinn stóra heim að leita sér fjár og frama. Talið er að þrír Íslendingar hafi farið til Kaup­mannahafnar á ári eða alls um 300 alla öldina.[158] Langflestir sátu heima og urðu að láta sér nægja frásagnir ferðalanganna af furðum framandi landa. Jafnan var talið að ferðasöguritarar skrifuðu til þess eins að uppfræða þá sem heima sátu en skrifuðu ekki sjálfum sér eða öðrum til ánægju. Þetta er vitaskuld mesti misskilningur því ástæður ferðasagnaritunar eru jafn­margar og ferðasögurnar eru margar. Í formála reisubókar sinnar rekur Eiríkur þríþætta ástæðu þess að hann skrifar ferðasögu sína: 1) að þakka guði, 2) að segja vinum sínum frá svo þeir geti þakkað guði líka og 3) að fræða vini sína um framandi þjóðir (sbr. P27). Hann varar sérstaklega við því að menn lesi sögu hans eins og landafræði því „þetta er ey annað enn eins mans sióferða skrif“ (P27). Hann vill heldur ekki að hún sé lesin sem gamansaga heldur vill helst að einhver lærdómur verði dreginn af henni (sbr. P28). Tilefni þess að Eiríkur hugsar sér til hreyfings upphaflega er að hann þarf að fara til náms í handverki sínu. Þar kemst hann að því hvað veröldin er stór, forvitni hans vaknar og rekur hann lengra út í heim. Segja má að Eiríkur sé dæmi um það sem kallast „the curious traveler“.[159] Hann for­vitinn, eirðarlaus og þyrstir í ferðalög. Hann lætur engan bilbug á sér finna heldur notar hvert tækifæri sem honum býðst til að komast á vit hins óþekkta. Hann er ákveðinn í því að leggja út í heiminn og leita hamingjunnar, það er draumur hans þegar í æsku líkt og Gúllí­vers forðum. Öðru máli gegnir um Árna og ástæður hans fyrir brottför af Íslandi. Hann er hinn íslenski Ódysseifur „dæmdur til að hrekjast“. Það sem m.a. skapar sögu Árna sérstöðu er leyndin sem hvílir yfir ástæðu hans fyrir því að yfirgefa ættjörðina en þar er eyða í sög­unni. Árni segir: „Eg hafði og nokkuð að bera í samvizku minni, þegar eg hugsaði til Íslands og hvör orsök var til reisu minnar“ (29). Björn K. Þórólfsson nefnir þetta í formála sínum að ferðasögu Árna:

Ekki er ljóst, hvað valdið hefur brottför hans af landinu. Hér gekk ógurlegt hallæri, sem eflaust hefur flæmt marga úr landi, en svo mun ekki hafa verið um Árna. Sjálfur gefur hann í skyn, að hann hafi flúið land vegna viðkvæmnimáls nokkurs eða samvizkusakar, er hann vildi engum segja og auðvitað enn síður færa í letur.[160]

Vera má að Árni hafi flúið land vegna kvennamála eða ástarsorgar en vitað er að hann átti barn utan hjónabands sem lést aðeins hálfs mánaðar gamalt og hann talar mikið um sorg sem hann deyfir t.d. með víni (sbr. 178). Árni hefur verið þó nokkuð upp á kvenhöndina og verður tíðrætt um kvenfólk í sögu sinni og hann segir blátt áfram að erfitt sé að lifa eftir sjötta og sjöunda borðorðinu, þ.e. hvorki að drýgja hór né stela (28). Hann talar oft um þjófa og e.t.v. er bitur reynsla falin að baki eftirfarandi orðum hans: „Þeir stóru þjófar ganga frí, en þá smáu taka þeir“ (25). Það verður þó að telja ósennilegt að Árni hafi gerst brotlegur við landslög og sé á flótta undan armi laganna. Ástæður þess eru þrjár; hann hafði vegabréf eða „pass“ í lagi, fékk far á skipi sem Skúli fógeti hafði umsjón með og loks hætti hann sér hingað til lands aftur síðar. En kannske hefur hann átt í einhverjum útistöðum við yfirvöld því þegar hann sneri aftur eftir rúmlega tveggja áratuga fjarveru þá segir hann að sýslu­maðurinn Magnús Ketilsson (1732–1803) hafi verið sér í öllu mótfallinn (sbr. 148) og áður hefur hann getið þess sérstaklega þegar Magnús varð sýslumaður í Dalasýslu árið 1754 (sbr. 26).[161] Þá má vera að Árni hafi einungis viljað leita sér fjár og frama eins og bróðir hans sem þá var kominn til Danmerkur og hafði skrifað eftir honum (sbr. 22). En Árni er í raun­inni bundinn í báða skó og átti fyrir börnum og búi að sjá þegar hann tekur upp á því að fara til útlanda. Það er því kannski ekki ólgandi ævintýraþrá sem fær hann til að slíta öll bönd sem binda hann við fjölskyldu og ættjörð heldur er það bitur sorg eða sektar­kennd sem rekur hann áfram. Það er ekki að sjá að hann iðrist þess að hafa farið. En á gamals aldri snýr Árni aftur heim til Íslands og þá finnur hann hjá sér þörf fyrir að tengjast fólki sínu á einhvern hátt. Hann skrifar þá ferðasögu sína á árunum 1799–1801, „fyrir ætt­fólk sitt í Dala­sýslu“.[162]

Ferðasögur Eiríks og Árna flokkast báðar sem huglæga og persónulega frásögn. Þó er eins og höfundar beggja leggi sig fram um að skrifa hlutlægan texta. Þetta kemur vel fram í um­fjöllun þeirra félaga um frumbyggja eða „heiðingja“. Eiríkur reynir að lýsa trúarbrögðum þeirra á hlutlausan hátt án kristlegrar vandlætingar og tekst það yfirleitt ágætlega. Honum er þó nóg boðið þegar hann sér sjakala narta í gamla konu sem samkvæmt þarlendri siðvenju var varpað í vatn þegar hún safnaðist til feðra sinna. Þá ber huglægnin hlutleysið ofurliði og furður veraldar eru skýrðar út frá kristilegu sjónarhorni:

Þetta plass var fullt af beinum Dauðra manna sem Jackhálsarnir höfðu borið og Dreigið uppfrá ströndinni og etið upp, er það og výst þá þeir finna soddan eirn Bengaler upp rekinn að þá er gleði á ferðum milli þeirra so sá er hinn besti sem mest hlióðar býður það þá eygi leingi þá svo margir eru safnaðir saman að þeir kroppa beininn so hreint af Í tvo eða þriá týma að einginn skal hafa orðsök að seigia að þeir fari Ílla að mat sýnum. nú höfdu þeir fundið eyna gamla konu sem var Rekinn upp og lá á eiri eirnri við fiöru mál höndina höfðu þeir þá feingið höfuðið og þann eina handlegg af henni og nockuð af þeirri einu sýðu. Þá vier nú sáum þetta höfðum vier ærna orðsök að undrast yfir Drotttins óransakannligu Ráði og velgiörningum móti oss. sem þó erum mörgum heiðingum verri erum þó betur upp lýstir enn þeir og vitum vilia vors herra enn giörum hann þó eigi er hans giæðska þó so stór og ómetandi að hann giefur vorum Dauðu beinum kvýlld nær heiðingana eða Tyrkanna eru af villu Dýrum Dreigin aptur og fram um mörkina.[163]

Eiríkur þakkar sínum sæla fyrir að vera laus við þessar trakteringar. Hann telur heiðingjana vera fávísa og að þess vegna séu þeir löglega afsakaðir að gjöra ekki vilja guðs. Kristnir menn hafa hinsvegar enga slíka afsökun þar sem þeir eru upplýstir og vita vilja guðs en gjöra hann ekki. Árni hefur allt aðra afstöðu til kristinna manna og ókristinna. Hann lýsir því yfir að heiðingjarnir verði fyrst spilltir þegar búið er að kristna þá (sbr. 33) og segir t.d. frá átrúnaði Grænlendinga á getspakan spámann með nokkurri aðdáun (sjá bls. 40 og 42–4). Hann setur sig ekki á háan hest gagnvart Grænlendingum en hefur samúð með þeim og þyk­ir Danir reynast þeim illa. Hann telur bæði kost og löst á frumbyggjum Grænlands og segir að þeir séu glaðsinna og nýtnir, hreinlátir og duglegir og leiknir við veiðar en sumar stúlk­urnar séu heimskar og að stundum éti þeir af sér lýsnar og sleiki börn sín í framan (sbr. 45). Hann skammast sín ekki fyrir að vilja lifa frillulífi með grænlenskum konum. Það er þó varasamt því þær geta ekki þagað yfir því „af heimsku og málæði“ (sbr. 45) en ef upp kemst lenda menn annaðhvort í fangelsi eða hjónabandi. Árni er á hinn bóginn lítt hrifinn af Ind­verjum og Kínverjum sem hann segir þjófótta enda reyndi hann það á sjálfum sér. Árni tekur raunveruleikann ávallt fram yfir kristilegar útleggingar á lífinu. Annað sem sýnir vel hvernig persónuleg túlkun tekur völdin af hlutlægri skoðun fyrirbæranna er afstaða þeirra Eiríks og Árna til Tyrkja. Þegar Eiríkur sér Tyrki í fyrsta sinn lýsir hann þeim svo:

Í þessum svifum komu þar framm hiá tveir menn sem höfdu andlit lýkast Hunds trýni þótt önnur þeirra sköpun væri mikið lík manneskium eg spurði hvar fyrir eynir þessir væru, mier var sagt þeir væru kallaðir Hunda tirkar og biggi í tartarinu bak við Chyna og væru menneskur vyrtist mier þeir bera nafn með rentu, þar þeir eru half svartir að lit og loðnir yfir allt þá þeir eru nær skoðaðir og hafa þar til Illmann lega á sýnd.[164]

Orðið „Hund-Tyrki“ holdgerist hér fyrir augum Eiríks, svo mikið er hatrið og fyrirlitningin á þessari þjóð. Árni ber aftur á móti engan kala til Tyrkja þótt hann fari í hernað gegn þeim á vegum Katrínar miklu. Hann þoldi ekki hinar hræðilegu misþyrmingar á hinum tyrknesku konum sem áður er getið um og hann getur ekki varist því að bera virðingu fyrir tyrkneskum feðgum sem féllu í sjóorrustu eftir frækilega framgöngu:

Faðirinn var so stór og sterkur sem risi. Hans handleggir voru so þykkvir sem fullkomins manns lær, og eftir því var heili kroppurinn. Hann hafði tvö sverð, eitt í hverri hendi, og slóst með báðum. En einn Greker, er var af þeim Albaneser, sem eru hið grimmasta fólk, hann kom á bak þessu tyrkneska stóra manni og lagði hann á milli herðanna, og kom oddurinn út fyrir neðan bringspalirnar. Og þegar sá stóri, gamli maður fékk sitt banasár, kastaði hann báðum sverðunum upp í loftið, so það söng í þeim, og féll á hrygginn, meðan blóðið út rann af kroppnum. Þannig deyði hann með hreysti og hugprýði. Sonurinn var fram á skipinu. Og þegar sonurinn sá, að faðirinn var nú dauður, varð hann sorgfullur og varði sig ekkert, heldur gekk viljugur til síns dauða, og Rússar hjuggu hans höfuð af, en færðu hann fyrst úr klæð­unum.[165]

Síðan segir Árni frá því að þegar líkum feðganna var varpað í sjóinn voru höfuð og fætur í sjónum en „mittið líkamans flaut so lengi sem sáum“ (sbr. 142). Hjá Árna fá þessir fræknu feðgar lofsamleg eftirmæli. Árni dæmir Tyrki eftir því hvernig þeir reynast en er ekki fullur hleypidóma eins og Eiríkur.

Ferðasögurnar tvær eru afar ólíkar að byggingu. Eiríkur heldur sig við hefðbundið ferða­söguform, líf hans rennur eftir beinum vegi og engir krákustígar eru leyfðir.[166] Lífsbraut Árna er mun krókóttari, þar liggur leiðin inn í skuggalegar hliðargötur. Sem dæmi um það mætti nefna ævintýri Árna hjá „hóruvert“ (sbr. 103–5), yfirlýsingar um hárleysi grænlenskra kvenna „á þeim leynilega stað“ (sbr. 45), innskot ýmiskonar og „historíur“ þar sem Árni læt­ur móðan mása og dregur ekkert undan. Að þessu leyti gefur saga Árna mun raunsannari mynd af lífsins götu en saga Eiríks sem tekur stóran sveig framhjá dimmum húsasundum og forarpollum. Saga Eiríks er skrifuð á árunum 1768–74 og fylgir honum frá fæðingu til fertugasta og fyrsta aldursárs höfundar þegar sagan er skráð. Frásögnin er þaulskipulögð frá hendi Eiríks þegar hún er sett á blað. Í formála er sagt frá ætt og uppruna, giftingu og barn­eignum og þar er einnig vikið að tilgangi skrifanna. Síðan hefst hin eiginlega ferðasaga með Danmerkurferð, frásögn af námi þar og ýmsu sem á daga hans dreif og síðan koma ferðalög­in þrjú í réttri tímaröð. Sagan endar svo á því að Eiríkur sest í helgan stein, reynslunni ríkari og saddur ferðalaga. Saga Árna hefst hinsvegar fyrirvaralaust á siglingu hans frá Íslandi til Danmerkur og frásögn af vinnu á Grænlandi. Því næst segir frá siglingum hans og hinni frægu Kínaferð, þrældómi í danskri skipasmíðastöð og hernaði gegn Tyrkjum, stuttri Ís­landsför, kennslustarfi hans á Jótlandi og flakki um Noreg og Svíþjóð. Í lokin fellur saga Árna niður jafnfyrirvaralaust og hún hófst. Hann er þá kominn til Íslands, þó ekki alla leið heim í Dali. Hann virðist lítið hafa lært á ferðum sínum og eirðarleysið er hið sama og áður.

Þeir Eiríkur og Árni eru báðir leitandi á ferðum sínum. Eiríkur leitar sér fjár og frama og svalar ferðaþrá sinni og forvitni um leið en Árni leitar að hamingju og reynir að afla sér þekkingar á sjálfum sér og umheiminum. Útþrá og ævintýramennska einkenna leit Eiríks meðan óþreyja og eirðarleysi setja svip sinn á leit Árna. Augljóst er að Eiríkur hefur skrifað hjá sér eða jafnvel haldið dagbók meðan á ferðunum stóð og stuðst við þau minnisblöð þegar ferðasagan var rituð. Hann hefur nákvæmar dagsetningar á reiðum höndum, tínir alltaf til hversu mörgum fallbyssuskotum er hleypt af, hversu margar vatnstunnur voru til og fjölda daga sem fara í rek og bið. Eiríkur er ungur þegar hann skráir sögu sína og atburðir standa honum því enn lifandi fyrir hugskotssjónum. Svo virðist sem Árni skrifi ferðasögu sína að mestu leyti eftir stopulu minni, sbr. orð hans hér og hvar í sögunni; „mig minnir“ (17), „Ég gleymdi að fortelja“ (130) og sagan endar á setningunni „Nafn hans man eg ei“ (184). Árni er hniginn mjög á efri ár þegar hann skrifar sögu sína. Sumsstaðar eru þó dagsetningum, vegalengdum og veðurfari nákvæmar lýst en svo að það geti einungis verið eftir minni, s.s. í fyrstu ferðinni frá Íslandi. Í Kínaferðinni var Árni látinn halda skipsdagbók sem e.t.v. hefur orðið til þess að þessi atriði festust honum í minni. Stíll þeirra Eiríks og Árna er yfirleitt einfaldur og látlaus. Eiríkur vill vera lærður og slettir bæði dönsku og latínu allvíða en lætur oftlega skýringar fylgja með, t.d. í þessum dúr: „…var þá þann Dag og nótt og Dæginn eptir frábær gleði Í kaupinn hafn með Musiqve / saung og hlióðfærum / og Illuminationum / upp­lýsingar verkum / og þess háttar fleiru…“ (P61). Hjá honum bregður fyrir einu og einu stíl­bragði, t.d. þessari líkingu: „var þar þá hinn mesti kulldi með frost og snió svo bæði kaðlar og segl stóðu á stýf sem Járn“ (P47) og þorsti er persónugerður sem „sá gamli plagari“ (sbr. P48). Í sögunni er fátt um samtöl, hinar sókratísku samræður ferðalangs og innfæddra manna (Indverja og Kínverja) geta tæplega talist eðlileg samtöl. Í tungumáli Eiríks er guð sú merkingarmiðja sem miðað er við, maðurinn Eiríkur heldur sér til baka og í heild er stíllinn ópersónulegur. Árni beitir stílbrögðum eilítið. Líkingar eru nokkuð algengar í sögu hans, s.s. „…er mér gáfu hafursköku svo stóra sem kjaraldsbotn“ (19) og „Kvinnurnar grétu sem hundar setja upp spángýlur…“ (39). Þá notar hann mikið beina ræðu í samtölum og gerir sér fyllilega grein fyrir því þegar hann er að skjóta óþarfa upplýsingum eða útúrdúrum inn í sögu sína. Stíll hans er afar persónulegur og miðja tungumáls hans er líkaminn, svangur, straffaður, sjúkur, „sundur parteraður“ (77) og lostafullur.

Viðhorf þeirra Eiríks og Árna til trúarinnar er ólíkt og birtist það allvel í sögum þeirra. Eirík­ur er hallur undir lútherska rétttrúnaðinn og lítur á son Guðs sem frelsara með endurlausnar­verkið í forgrunni. Hann trúir á forsjónina sem framhald sköpunarverksins og saga hans er römmuð inn af trúarlegri orðræðu. Í formála fær Eiríkur ekki nógsamlega þakkað Guði fyrir vernd, náð, varðveislu og „forsiónar giæðsku“ (sbr. P27) í gegnum allt sitt líf. Hann hefur óbilandi trú á forsjóninni og er þess fullviss að líf og dauði sé algerlega í hendi Guðs, sbr.: „hefr Guð gefið ockr tvö börn sem nú eru bæði komin í himneska sælu“ (P27).[167] Í veikind­um sínum vonar hann að Guð leysi hann frá mæðu þessa heims og þegar honum batnar segir hann: „gaf mier svo guð aptr lýf og heilsu, lofað sie nafn hans Eylíflega“ (P59). Þá sést for­sjónarhyggja Eiríks vel þegar forspá hans um að matrósinn afundni kæmist ekki til Kaup­mannahafnar rættist með hörmulegum hætti. Lokaorð reisubókarinnar eru lofgjörð til Drott­ins: „vil eg svo að liktum enda minn lýtinn Journal og seigia Lofað veri nafn Drottins þess sem giörði himinn og Jörð“ (P63). Í vísunum sem koma á eftir sögulokum og eru að öllum líkindum eftir Eirík sjálfan er syndafallsstemming mikil, sorg og angur er sent frá Drottni til mannanna sem strita fyrir „blóð hans sonar“ (sbr. vísu nr. 2, P63). Lífið er ein þrautaganga og á einskis manns valdi að breyta því en stundum rofar til og manni hlotnast náð Guðs um skeið. Trúarafstaða Eiríks birtist vel í ljóðum sem hann hefur skeytt aftan við sögu sína en tvær síðustu hljóða svo:

5) þar skal utann allann stans                                                               6) Hönum Eylíf æra sie

um dásemdir Drottins tala                                                                     allt hvað hrærist allt hvað nefnist

um hans magt og visku vala                                                                allt hvað þeinkist hier til stefnist

um Ráð og Regiering hans                                                                  allt hvað liggur enn Í hlie

Í full komnum for stands blóma                                                         prýsi herrans hátign merka

fagurt lof hans vegs og dóma                                                             hönum veri lofgiörð sterka

výdt út breiða Í Dýrðar Dans.                                                             hönum Eylíf æra sie.[168]

Í ferðasögu Árna kemur Guð sárasjaldan við sögu svo erfitt er að átta sig á afstöðu hans til trúarinnar. Þó virðist hann trúa á vinsamlegan og persónulegan (réttrúnaðar-)guð. Árni hefur eitthvað á samviskunni en hann þarf ekki að standa skil á því við neinn nema guð: „Eg sló sorgina burt með drykk, þó aldrei eg kunni það gjöra fyrir einum hlut, guð vissi hann“ (30). Svo virðist sem hann hafi lent í trúarkreppu á Grænlandi og orðið fyrir aðkasti (sbr. 30) og hann gagnrýnir presta og trúboð harðlega. Embættismenn kirkjunnar eru að hans mati full­trúar græðgi og spillingar (sbr. 33 og 165–6). En hann hefur trú á alltumlykjandi ást og visku Guðs síns: „Guð veit bezt alla hluti“ (28) segir hann og ennfremur; „Eg þakkaði mín­um guði, að eg slapp…[…]. Eg var einmana og forsvarslaus, en guð vissi, hvað eg hafði í þönkum, þegar upp fór með þessum skálkum. En guði séu þakkir, sem hjálpaði mér, so eg komst slysalaust til Kaupinhafnar“ (95). Árni gerir sér grein fyrir að valdi Guðs eru takmörk sett. Á einum stað þakkar hann bróður sínum lífgjöf (sbr. 123) en ekki Guði og hann gerir sér engar gyllivonir um forsjón guðs í elli, sjúkdómum og dauða eins og ráða má af eftirfar­andi orðum: „…að eg var ei viss um, hvar vera skyldi, þegar yrði gamall. […] – en ef guð sendi mér sjúkdóm, til hvers skyldi eg þá flýja? Enginn hefði sér tekið af mér“ (170). Árni nefndi þetta áhyggjuefni sitt við bændurna á Jótlandi en hafði lítið upp úr krafsinu: „Þeir sögðu mér, eg tryði illa guði, að hann ei vildi mig forsorga“ (171). En hér eins og svo oft áður tekur Árni reynsluna fram yfir kenninguna, hann hefur séð hvernig farið er með fólk sem ekki á í nein hús að venda:

Því það er siður í Jullandi, þegar einum framandi manni verður illt, – lát vera þeir hýsi hann so lengi hans peningar til hrökkva. Þegar þeir eru úti, er hann burt keyrður til næsta bóndaþorps. Þegar þar kemur, er strax hestar og vagn í stand að keyra með þennan framandi sjúka mann. Þetta kann ganga heila nóttina, eður so lengi sem sá fátæki lifir.[169]

Í ferðasögum þeirra Árna og Eiríks er maðurinn sjálfur söguefni í hlutkenndri nútíð sem er kortlögð vegna þess að hún er talin eiga erindi við samtímann. Sá sem hefur fyrir því að segja frá sjálfum sér veit að nútíðin er frábrugðin fortíðinni og verður ekki endurtekin í fram­tíðinni. Hann verður meðvitaðri um mismun fremur en líkindi, veit af hverfulleika heimsins og óvissu og telur vissara að festa mynd sína í sessi svo hún glatist ekki heldur öðlist eiflíft líf. Í þessu tilliti er stór munur á ferðasögunum tveimur þótt báðar séu þær sjálfsævisögu­legar að nokkru leyti. Eiríkur kynnir sjálfan sig og fortíð sína í formála reisubókar sinnar. Hann lítur reyndar svo á að hann sjálfur og fortíð hans skeri sig úr og sé markverð og þess vegna verður „framdrif æfi hans í fjarlægum löndum frá hans fósturjörðu“ (sbr. P26) tilefni skrif­anna. Sjálfsvera hans tekur á sig mynd og skilur eftir sig spor í samtímanum. Hann gerir grein fyrir sérstöðu sinni á þessa leið: „..eg kann með fullri vissu um fleira að vitna enn það sem fyrir hann [lesandann] siálfann hefr borið“ (P27–8). En Eiríkur er á varðbergi við skrift­irnar. Hann skrifar ekki um bresti sína, mistök eða ístöðuleysi. Maðurinn Eiríkur sem birtist í reisubókinni er ekki endilega maðurinn eins og hann er eða var heldur maðurinn eins og hann langar til að vera. Eiríkur er umluktur helgisagnahefð fortíðarinnar líkt og séra Ólaf­ur Egilsson, guð er það sem allt snýst um. Sögu hans mætti skilgreina sem „apology“ eða varnarræðu þar sem lífið og lögmál samfélags og siðferðis eru samhljóma; sagan birtir þann heil­leika sjálfsins sem Eiríkur trúir á. Árni skrifar hinsvegar til þess að raða saman brota­kenndu lífi sínu og fá heildarmynd af fortíð sinni og reynir að finna samhengi í gegnum sögu sína. Hann leitar friðar og sátta við sjálfan sig og umheiminn. Árni er raunsær og reynir ekki að fegra fortíðina, helgisagnahefðin og píslarvættið eru víðs fjarri. Hann er einmana, hrædd­ur, forvitinn, kvensamur, drykkfelldur og með óhreint mjöl í pokahorni. Saga hans er í ætt við játningar (confessions) þar sem sjálfstúlkunin er sönn, raunveruleg og tilvistarleg. Helstu andstæður í sögum þeirra Eiríks og Árna má sjá á eftirfarandi töflu:

Um ævisögur hefur verið sagt að þær staðfesti ákveðin þrep í lífi einstaklingsins, tengi þau og skýri beint eða óbeint og skapi ákveðið samræmi í sambandi sjálfsins og umheimsins – eða öllu heldur ákveðið ósamræmi.[170] Í gegnum sögu sína reynir Árni að fá heildarsamhengi í líf sitt en útkoman er ósamræmi og sundurleitni. Í sögu Eiríks er samræmið milli umheims­ins og sjálfsins fólgið í hinu kristilega sjónarhorni og trúnni á guðlega forsjón. Hjá honum ríkir fullkomið samræmi milli atburða sögunnar og trúarlegrar úrvinnslu.

10.4 Jarðarber með rjóma. Stokkhólmsrella Hannesar Finnssonar

Á síðari hluta átjándu aldar skrifaði Hannes Finnsson (1739–1796) síðasti biskup í Skálholti ritgerð eða ferðasögu sem hann kallaði Stokkhólmsrellu. Þar segir frá för Hannesar til Sví­þjóðar sumarið 1772. Hannes var valinn aðstoðarmaður dansks lögfræðings, Peters Kofods Ancher (1710–1788), sem átti að rannsaka forn dönsk lagahandrit sem geymd voru í forn­skjalasafninu í Stokkhólmi. Alls voru þeir félagar þar í um tvo mánuði við uppskriftir hand­rita og fræðistörf. Um miðja sautjándu öld voru allmargir Íslendingar í Svíþjóð við fræði­störf um lengri eða skemmri tíma, s.s. Jón Rúgmann, Guðmundur Ólafsson og Þorvaldur Brockmann[171] og sumir ílentust þar til æviloka. Á þeim tíma var mikill áhugi á bókmennta­legum fjársjóði fornaldar en hluti hans lá í handritum í bókhlöðu Svíakonungs. Öld síðar var miðstöð hinna fornu fræða komin til Kaupmannahafnar þar sem Árni Magnússon handrita­safnari lagði grundvöllinn að varðveislu menningararfsins og þaðan var Hannes sendur. Svo virðist sem undarlega fáir Íslendingar hafi ferðast um Svíþjóð: „Enginn hefur ferðast til Nor­egs eða Svíþjóðar, og eru það þó lönd í Evrópu, þar sem unnt er að sjá og nema flest, sem Íslandi er mest þörf á og léttast væri að framkvæma og færa sér í nyt“, rita þeir Páll Vídalín og Jón Eiríksson í bók sinni Deo, Regi, Patriae frá sautjándu og átjándu öld.[172] Jón Sig­urðs­son forseti (1811–1879) var á ferð í Svíþjóð um 1840 í svipuðum erindagjörðum og Hann­es. Hann skrifaði ekki ferðasögu sína og er Stokkhólmsrella Hannesar því eina frásögn Ís­lend­ings um ferðir í Svíþjóð sem til er allt fram á vora daga. Hannes hefur sennilega þekkt nokkuð til ferðasagna, a.m.k. til ferðasögu Rabeners[173] sem hann nefnir tvisvar í Stokk­hólmsrellu (sbr. 20 og 29) og níð-Íslandslýsingar Andersens borgarstjóra (sbr. 55). Þá er hugsanlegt að Hannes hafi heyrt getið um eða lesið ferðasögu grasafræðingsins Carls von Linné til Lapplands árið 1732.[174] Til gamans má geta þess að sama ár og Hannes fór í Sví­þjóðarför sína og ritaði fyrstu ferðasögu Íslendings frá þeim slóðum fór sænskur maður til Íslands og skrifaði fyrstu sænsku ferðasöguna um Ísland. Þessi maður hét Uno von Troil (1746–1803) og varð síðar erkibiskup í Uppsölum. Hann kom hingað til lands með ferða­langnum og Íslandsvininum Joseph Banks og þeir heimsóttu m.a. Finn Jónsson biskup í Ská­lholti föður Hannesar. Ferðasaga von Troils, „Bref rörande en resa til Island“ var gefin út árið 1777.[175] Ritgerð Hannesar er til í eiginhandarriti, Lbs.258.4˚. Hún var prentuð í Andvara árið 1934 og gefin út á sænsku ári síðar.[176] Þar í landi þykir hún með merkari heimildum um aldarfar og búskaparlag Svía á átjándu öld.

Ferðasaga Hannesar snýst um Svíþjóðarferðina eingöngu og er afar hefðbundin. Hún hefst formálalaust á því að farið er að heiman og henni lýkur um leið og heim er komið. Sennilega hefur Hannes skrifað minnisgreinar á ferð sinni eða haldið dagbók sem ritgerðin er byggð á. Hún ber keim af dagbókarfærslum – Hannes var ötull dagbókarritari – og er víða rituð í nútíð, sbr. „sé ég hér“ (17) og „Eg sé nú kerling vera að plægja með einn uxa“ (23).[177] Vegalengdir eru oftast tíundaðar af nákvæmni, svo og verð á mat og gistingu. Hannes lýsir Svíum og sænskum siðum allvel, m.a. er sagt frá frá klæðnaði, mataræði, landbúnaði og akuryrkju, messuhaldi, húsakosti og skólahaldi. Þá segir frá byltingunni í Stokkhólmi í ágúst 1772 þegar Gustav III. Svíakonungur tók sér einveldi en Hannes var þar sjónarvottur. Hannes segist einnig hafa verið vitni að því þegar lífvörðurinn í Kaupmannahöfn gerði upp­reisn gegn Struensee í janúar sama ár og er orðinn mæddur á öllum þessum ófriði: „Ó, hvað hræðileg sjón að sjá einn meðborgara, einn bróður í friðartíð, sem svo kallast, að berast á stríðsvopnum!“ (45). Svíþjóðarferð Hannesar hefur haft heilmikil áhrif á hann og verið hon­um lærdómsrík. Hann var t.d. svo heppinn að rekast á brot úr Heiðarvígasögu í grúski sínu á bókasafninu en hana höfðu menn talið glataða með öllu. Skinnbók sú sem innihélt Heiðar­vígasögu var lánuð til Kaupmannahafnar og varð þar eldinum mikla 1728 að bráð. Hafði sagan aðeins varðveist í endursögn Jóns Grunnvíkings sem frægt er orðið. Til allrar hamingju hafði þetta brot óvart orðið eftir í Svíþjóð. Hannes skrifaði þetta „kálfsskinnsfrag­ment“ upp með mikilli vandvirkni og „reyndi bæði augu og þolinmæði“ við það starf (sbr. 43). Einnig sá Hannes sér til mikillar gleði biblíu sem sjálfur Lúther hafði áritað. Ekki hefur Hannes verið hrifinn af öllu sem hann las. Einn daginn voru „Lesin skrif Jóns lærða og allt það rusl og galdrasögur…“(sbr. 42) segir hann. Í Stokkhólmi átti hann þess kost að skoða ýmsar sænskar vísindastofnanir og komast í samband við ýmsa merka lærdómsmenn. Það hefur áreiðanlega haft mikil áhrif á hann að hitta Carl von Linné í eigin persónu, sennilega einn Íslendinga.[178] Linné var einn merkasti vísindamaður aldarinnar og ruddi náttúrufræði nýjar brautir, einkum í grasafræði. Hann bjó til nýtt flokkunarkerfi en samkvæmt því hafði hver jurt og hvert dýr í hringrás vélar náttúrunnar sinn stað og tilgang sem ákveðinn var af guði. Linné greindi ættkvíslir og tegundaheiti í ríki náttúrunnar á skipulegan hátt. Þar gerði hann ráð fyrir stöðugum formgerðum og taldi að allt væri eins og guð hafði skilið við það. Þróun formgerðanna var ekki á dagskrá. Sjá má greinileg áhrif flokkunarkerfis Linnés í Ferðabók Eggerts og Bjarna en þeir kynntust kenningum hans í Kaupmannahöfn. Linné sýndi Hannesi m.a. steina- og skordýrasafn sitt og „annað unicum in mundo“ og spjallaði við hann um heima og geima. Svo mikill var grasaáhugi Linnés að sængurkames hans var „yfirtrekt með illumineruðum koparstykkjum af urtum og blómstrum“ (sbr. 57–8). Lýsing Hannesar á Linné gefur ekki aðlaðandi mynd af manninum: „Hans eldur brennur enn nú glatt og tindrar út af augunum; lágur maður, beinastór og ekki hinn ásjálegasti. Í tali er hann kald­ur, indifferent en þó þekkilegur, en nokkuð þybbnislegur, enfin: Eins og hollenzkur“ (58).

Hannes Finnsson var fornfræðingur og upplýsingarmaður af lífi og sál. Hann vildi byggja framtíð föðurlands síns á hagnýtri upplýsingu þjóðarinnar en síður á endurreisn fornra hefða eins og Eggert Ólafsson barðist fyrir. Hannes veitir hinum ýmsu nýjungum sem fyrir augu hans ber á ferðum hans mikla athygli og er ávallt að hugsa um hvernig nýta mætti á Íslandi ýmsa þekkingu sem Svíar bjuggu yfir, t.d. á jarð- og akuryrkju, girðingavinnu, þaksmíð og þvottum svo dæmi séu tekin. Hann virðist sífellt reyna að koma auga á það sem verða mætti föðurlandinu til gagns og viðreisnar á einhvern hátt líkt og séra Tómas Sæmundsson gerði síðar í ferðabók sinni. Eftirfarandi lýsing á meðferð korns er afar fróðleg, nákvæm og nyt­söm og svo sannarlega í anda upplýsingarinnar. Þessari lýsingu, eins og fleirum í ferðasög­unni t.d. þeirri sem lýsir því hvernig garðar og girðingar Svíanna eru, er beinlínis ætlað að vera einföld og fræðandi og því er hún laus við latínuslettur sem víða má finna í texta Hann­esar. Auk þess eru líkingarnar sem hann notar oft bæði alþýðlegar og skemmti­legar:

Korni er hér svoleiðis hreykt, annaðhvort sett 4 eða 3 bindini upp á endann, svo að topparnir hallist saman, og þar ofan á hvolft einum, svo að stúfurinn á þeim stendur upp, en öxin horfa niður, utan yfir alla hina, er sér út eins og hunangsflugnakörf. Ellegar menn gera aflanga lön af horninu, setja það upp á stúfinn og halla öxunum, sem upp standa, saman, eins og þá húsris er, eða þegar börn smíða hús úr spilum[179]

Þegar hann lýsir landslagi þá líkir hann því oftast við það íslenska: „Sú nafnfræga á, Lågå, rennur í gegn um mestan part af Smálandi og alla Skáney, en ekki sýnist mér hún vera stærri en minni Rangá og hvergi meiri en í kné.–“, „Hjá Traheryde eru hölkn, hraun og hrjóstur, sem ekki gefa Leggjabrjót á Botnsheiði neitt eftir…“(20) og „Svarti mosinn ofan á er eins og á Lyngdalsheiði“ (21). Athygli vekur að fegurð hlutanna virðist höfða mikið til hans. Hann notar orðið „fallegt“ um margt af því sem fyrir augu hans ber en það er ekki algengt í ferða­sögum átjándu aldar. Stíllinn á Stokkhólmsrellu er víðast hreinn og beinn og án útúrdúra en sumsstaðar er málfarið útlenskuskotið. Mest ber á latínu- og dönskuslettum, sérstaklega þar sem efnið snýst um lærdóm, menntun eða stjórnmál. Brotið hér á eftir er kannski svæsnasta dæmið en svona klausur eru algengar í ritum frá þessum tímabili þar sem fjallað er um há­skólann Höfn því latína var opinbert skólamál: „Í Lund eru þrjú examina áður en magister­graden fæst. Fyrst í theologien, síðan examen styli, sem eiginlega er en chria. Þar situr decanus yfir þeim og styttir sér tímann með kopp kaffis eða vínglasi, og jafnótt sem hver er búinn af candidatis, fer hann þar að fullnægja síns góms lyst“ (40–41).

Í textanum eru óneitanlega nokkrir ævifleygar sem sýna vel manneskjulegar hliðar á þessum mikla andlega leiðtoga íslensku þjóðarinnar sem Hannes var á sínum tíma. Ferðasagan segir frá 33ja ára gömlum manni sem er mjög þroskaður og yfirvegaður. Hann segir ekki mikið um sjálfan sig beinlínis en fróðlegt er að skoða í textanum það sem þar kemur fram um hann beint og óbeint. Í stuttu máli er Hannes ferðasögunnar árrisull, fámáll, tortrygginn á ferða­lögum og stundum hræddur, iðinn, áhugasamur um siði og venjur innfæddra, bindindis­maður, bókasafnari, fagurkeri og finnst vegsauki að konungurinn skuli blimskakka á hann augunum en hneisa að seldir séu kvenmannshanskar í portinu við hið virðulega fornskjala­safn. Sjaldan er vikið að mat og drykk og virðist Hannes áhugalaus um þau efni enda þurfti hann ekki að hafa áhyggjur af því hvar eða hvort hann fengi að borða eins og t.d. Árni frá Geitastekk. Í litlu innskoti ræðir hann hvernig Svíar raða saman réttum við málsverð (35) og einum stað segir hann: „Jarðarber með rjóma er þar eitt sælgæti“. Samkvæmt hefð þakkar hann Guði í lok ferðasögunnar fyrir að hafa leitt sig í gegnum margar hættur. En hvenær finnst honum hann vera í hættu staddur og hvað vekur honum ótta? Hann er skiljan­lega ugg­andi vegna stjórnmálaumrótsins í Stokkhólmi þar sem fjöldi manns var fangelsaður fyrir litlar eða engar sakir. Því verður honum „hálfbilt við“ þegar hermenn konungs banka upp á hjá honum með alvæpni um miðja nótt (sbr. 47). Í annað sinn hrekkur hann við þegar byssukúla strýkst við hann (sbr. 62) en hvarvetna ginu fallbyssukjaftar staðarliðsins við. Hann hræðist kæruleysi íbúa Miölby við meðferð elds, en sá bær hafði brunnið árið áður (sbr. 63). Þá má nærri geta hvort hann hefur ekki verið hræddur á næturferð einni í niða­myrkri, rigningu og þrumuveðri þegar ekillinn var 8 ára drengur og hestarnir drógust áfram með herkjum. Um þá reisu segir hann: „Þar var oft ekki margar þverhandir milli lífs og hraparlegs dauða“ (62). Hannes slær stundum á létta strengi og lýsir spaugilegum hliðum á mannlífinu. Hann segir t.d. frá „hlátursefni“ (sbr. 25) þegar vagninn hans vék fyrir póst­vagninum sem svo reyndist vera strákur með litla kerru og einum hesti fyrir. Hann segir að svo mikið sé af sólhlífum og regnhlífum á riddarahústorginu að það líkist gorkúluhaug (sbr. 30) og að sænska orðið „grenn“ sem þýðir stræti hafi hann alltaf haldið að væri dregið af „granni“, „en svo þröng eru þessi stræti og svo óásjáleg, að ég hlýt að kalla þau greni“ (28). Þá segist hann eiga „ætternisvana“ til að brosa (sbr. 54). Undarlegt atvik átti sér stað á Skán­ey þar sem hann gisti hjá einum inspector:

Hann hafði tekið staf minn og var að skoða hann; eg kom að í því sama og af hendingu leit hart til hans, kann ske af og því, að eg á reisum er tortrygginn. Það vildi þá svo til, að honum rétt í sama mund blæddu nasir, sem hann ekki mundi, að sig hefði hent, og eftir á varð eg áheyrsla, að hann sagði frá þessum viðburði með miklum dylgjum. Eg þenkti, hvað ef hann hefði vitað, hvaða landsmaður eg var.[180]

Hér vekur nokkra furðu hvernig þessu atviki er lýst. Það að þessi léttvægi atburður skuli rata á blað bendir til þess að hér sé á ferð eitthvað meira en virðist við fyrstu sýn – fleygur í mynd biskupssonarins unga.[181] Varla er hugsanlegt að augnaráð Hannesar hafi verið svo „hart“ að inspectorinn hafi fengið blóðnasir þar af. Sennilega er hér sérkennileg kímnigáfa Hannesar á ferð. Athyglisvert er að fram kemur að þjóðerni Hannesar hefði einhverju getað breytt, a.m.k. í eftirmálunum. Íslendingar voru lengi bendlaðir við galdra eða tilraunir til að hafa áhrif á náttúruna og mannlífið með sambandi við yfirnáttúruleg öfl auk þess sem talið var að inngang helvítis væri að finna á Íslandi. Svo mikið galdra- og forneskjuorð fór af Ís­lendingum að ástæða var fyrir almenning að styggja þá ekki. Þetta virðist kitla hégómagirnd Hannesar ofurlítið.

Hannes valdi sjálfur heiti Stokkhólmsrellu. Hefðbundin nútímamerking orðsins „rella“ er nauð, nudd, suð eða nagg (í börnum) en orðið getur einnig þýtt romsa eða endurtekning. Í báðum tilvikum tengist merkingin einhverju einhæfu, langdregnu og leiðinlegu. Í orðabók segir að „rella“ sé skylt rúllu eða rollu, bókrollu, og merki lítil bók. Hvað Hannesi hefur gengið til með nafngiftinni, er ekki gott að segja. Ef til vill er hér á ferð lítillætið eða minni­máttarkenndin sem lengi hefur loðað við höfunda ferðasagna og getið var um hér að framan. Vel má vera að þetta sé annað dæmi um kímnigáfu Hannesar. Kannski hafði hann þessar merk­ingar allar í huga og valdi sinni litlu ferðasögu margrætt nafn til gamans svo bók­mennta­fræðingar seinni tíma hefðu eitthvað að iðja. Hvað sem þessu líður gefur Stokk­hólmsrella ágæta mynd af unga manninum Hannesi. Ferðasaga hans er hefðbundin og skipuleg og gætir áhrifa upplýsingarinnar þar nokkuð. Sjóndeildarhringur upplýsingarmanna var víðari en hjá fyrirrennurum þeirra og áhugi þeirra beindist mjög að þjóðum utan Evrópu. Í ferða­sögum upplýsingarinnar verður viðleitni til að fræða lesendur um nytsamlega hluti æ greini­legri eftir því sem tímar líða fram og nær hámarki í ferðabók Tómasar Sæmundssonar.

11. Þrjár ferðasögur frá fyrsta fjórðungi nítjándu aldar

Á Landsbókasafni er varðveittur fjöldi bréfa og dagbóka eftir Íslendinga frá fyrri tíð. Sumar þeirra eru ritaðar á ferðum höfundar bæði innanlands og utan. Hér er um að ræða sérstakt form ferðabókmennta, einskonar grátt svæði sem ekki verður sinnt á þessum vettvangi þótt ferðadagbók Magnúsar Stephensen sé reyndar hér til umfjöllunar. Tvö dæmi vil ég þó nefna um lítt þekktar ferðadagbækur sem skrifaðar eru fyrir 1835. Til er lítið dagbókarkver Finns Jónssonar biskups (1704–1789) sem inniheldur ferðasögu hans frá Íslandi til Glychsteð árið 1725 en hann var á leið til náms í háskólanum í Kaupmannahöfn. Kverið (Lbs.135.8vo) er 12 blaðsíður og er stungið inn í minnisbók Hannesar sonar Finns. Þar segir Finnur stuttlega frá ferðalagi sínu og ýmsu sem hann hafði fyrir stafni, s.s. heimsóknum í kirkjur og bóka­söfn; „d. 21. kom eg Jnn i Glychsteds Bokhlóðu þar var ej ad fä utan þykkar bækur“.[182] Þá er til ferðadagbók á dönsku eftir Þorkel Fjeldsteð amtmann í Finnmörku (1740–1796), afa Hoppe-bræðra sem báðir urðu stiftamtmenn á Íslandi.[183] Ferðasaga hans ber heitir „Journal over een af Amtmand Thorkild Fieldsted udi Aaret 1777 giorte Reyse fra Altergaard i West-Finmarken til Wardöehuus, alt over Lapmarkens Øde Fielde“ og er varðveitt í Lbs.125.4˚ . Um Þorkel segir í Íslenskum æviskrám (V., 1952:147): „Var vel gefinn maður, gat brugðið fyrir sig að yrkja á íslenzku, en taldi sjálfan sig útlendan orðinn…“.

Á nítjándu öld fóru margir íslenskir stúdentar til framhaldsnáms við Kaupmannahafnarhá­skóla. Nokkrir þeirra skrifuðu bréf heim til vina og vandamanna á Íslandi, sögðu ferðasögu sína og lýstu fyrstu kynnum við stórborgina. Flestum varð við eins og Jóni Indíafara sem greinir frá því í Reisubók sinni að hávaðinn og fólksmergðin hafi gert hann ringlaðan. Fyrir­bærið „borg“ var vitaskuld ekki til hér á landi. Skarkali þéttbýlisins lét annarlega í eyrum Ís­lendinga, iðandi mannlífið og glæsilegar byggingarnar voru þeim framandi sjón. Einsemd og ótti helltust yfir þá, þeir voru orðnir útlendingar í annarlegu umhverfi: „Þeir koma algjörlega framandi til Kaupmannahafnar. Enginn ber kennsl á þá, og allir eru þeim ókunnir“.[184] Það eru aldeilis viðbrigði fyrir íslenska sveitarstráka að fara af friðsælu bæjarhlaðinu heima hjá sér inn á hellulögð stræti þar sem fólk var á þönum. Finnur Jónsson biskup ritar t.d. um Hamborg 1725: „Mátti þar sjá margan mann sem og margt annað raritet (í voru landi)“.[185] Hinn skammlífi Baldvin Einarsson (1801–1833) segir ferðasögu sína í fáum en innilegum orðum í ástarbréfi til unnustu sinnar á Íslandi, Kristrúnar Jónsdóttur. Eflaust hefur mörgum sveitapiltinum liðið eins og honum í áfangastað: „…en daginn eftir kl. 51/2 stóð eg sem villt­ur sauður í borginni“.[186] Á nýja staðnum kemur Baldvini helst á óvart hvað trjágróður er mikill og húsin („kofarnir“) há og mörg: „Maður sér ekkert nema málaðan steinvegg á tvær hendur með ótal gluggum, og þar fyrir ofan uppí heiðan himininn. Göturnar liggja í allar áttir, og um fáar rata eg enn“.[187] Annar ungur námsmaður sem ekki varð heldur langra líf­daga auðið, skrifaði vini sínum (Páli Pálssyni stúdent) árið 1828 og sagði stuttlega frá fimm vikna sjóferð til Hafnar við lélegan kost og slæman aðbúnað. Hjá þessum pilti, Högna Ein­arssyni, þenjast öll skilningarvitin andspænis furðum borgarmenningarinnar. Hávaðinn glymur í eyrum hans og borgarþefurinn er honum framandi. Ringulreiðina upplifir hann á svipaðan hátt og Baldvin:

Hingað kom eg 10. þ.m., og var þá sem eg kæmi í einhverja aðra veröld, þó ei Paradís, því þar veit eg ei er svo gróf skítalykt eins og mér fannst hér fyrst. Eg sá hvorki sól né himin, en komst naumast áfram fyrir fólki og vögnum, sem ætluðu hreint að æra mig í eyrunum, og þar til voru einhverjar gamlar konur, sem hrópuðu ámátlega: „Perer, Æbler, Blommer“ etc.: kort, eg vissi ekki af mér hvar eða hvert eg var kominn.[188]

Séra Tómas Sæmundsson segir borgarlífið einnig vera hávaðasamt. Fyrir augu hans og eyru ber „… sífelldan mannusla með alls kyns hætti, vagna og hesta arg og hávaða, svo varla heyrist mannsins mál“.[189] Eru mörg dæmi þess að erlendar stórborgir séu eins og önnur veröld í augum íslenskra ferðalanga langt fram eftir öldum. Á fyrstu áratugum nítjándu aldar (1800–1834) voru skrifaðar þrjár ferðasögur, þar af ein í dagbókarformi, um utanferðir Íslendinga. Hafa þær allar nú verið prentaðar. Höfundar þeirra eru þeir Magnús Stephensen sem fór til Kaupmannahafnar, Sigurður Breiðfjörð sem réðist í vinnu til Grænlands og séra Tómas Sæmundsson sem spókaði sig í Evrópu að loknu guðfræðiprófi.

11.1 Magnús Stephensen í nærmynd

Virtasti, valdamesti og umdeildasti maður átjándu aldar, sem jafnframt var bæði öfundaður og hataður, var dr. Magnús Ólafsson Stephensen, konferenzráð (1762–1833). Hann var helsti forvígismaður upplýsingarinnar hér á landi, sigldur og fjölmenntaður, bráðgáfaður, stórhuga og kappsamur mjög. Hann ferðaðist oft milli Íslands og Kaupmannahafnar í opin­berum erindagjörðum og var aðeins tæplega tvítugur þegar hann var sendur hingað fyrst á vegum konungs til að rannsaka Móðuharðindin. Um þá ferð skrifaði hann bókina Kort beskrivelse over den nye Vulcans Ildsprundning i Vestre Skaptefields Syssel i Island i AAret 1783 sem Sveinn Pálsson gagnrýndi harðlega. Í einni utanför sinni frá Íslandi til Kaup­mannahafnar hélt hann ferðadagbók sem hann kallaði Ferðarollu, kannski að hætti -rellu Hannesar en þeir voru góðir vinir. Ferðasagan hefst 7. september 1825 þegar Magnús stígur á skipsfjöl og henni lýkur 6. apríl 1826 þegar hann sendir bókina konu sinni, Guðrúnu Vig­fúsdóttur Scheving (d. 1832), með fyrstu vorskipum til Íslands. Magnús hélt svo áfram dag­bókarskrifum í rúman hálfan annan mánuð. Ferðarolla Magnúsar var fyrst prentuð í Sunnan­fara (1900–1902) en þá verulega stytt. Hún var einnig birt á dönsku í Personalhistorisk Tid­skrift 1924. Þar er hún stytt en einnig aukin með dagbókarfærslum Magnúsar eftir að rollan var send en þau skrif eru nú talin glötuð. Árið 1962 gaf Jón Guðnason Ferðarollu út eftir eiginhandarriti í eigu dóttursonar Magnúsar. Þar er íslensk þýðing dagbókarkaflanna og eft­irmáli um erindi (eða öllu heldur erindisleysu) Magnúsar til Kaupmannahafnar, auk skáld­legrar ritgerðar dr. Þorkels Jóhannssonar um hann.

Magnús var lögfróðastur Íslendinga um sína daga og bar íslenska löggjöf og réttarfar mjög fyrir brjósti. Tilgangur hans með Kaupmannahafnarförinni var að vinna að útgáfu nýrrar og endurskoðaðrar Jónsbókar á dönsku með skýringum hans sjálfs. Áður hafði hann fengið hálfgildings vilyrði hjá dönskum stjórnvöldum fyrir fjárstyrk til verksins. Hann hélt því von­góður til Kaupmannahafnar og vann ötullega við handrit sitt að bókinni frá morgni til kvölds í marga mánuði. Hann skilaði svo lagaverki sínu til kansellísins á afmælisdegi sínum, 27. desember 1825, og beið síðan óþolinmóður eftir umsögn þess eins og lesa má um í Ferða­rollu. Það dróst að skýr svör fengjust og Magnús hélt heim til Íslands vorið 1826, þó ekki úrkula vonar um að draumur hans rættist þar sem hann safnaði um 500 áskrifendum að bók­inni. Svo fór að Jónsbók í útgáfu Magnúsar var aldrei gefin út og munu þau málalok hafa valdið honum sárum vonbrigðum.

Í Ferðarollu lýsir Magnús aðstæðum í briggskipi Bjarna Sívertsens, Þingeyri, á mjög raun­sæjan hátt. Hann getur ávallt um veðurfar auk þess sem hann segir frá sjóveiki, stormum og stórsjóum, blautum kojum, kulda, illu fæði og óttalegum nóttum. Hann er afar nákvæmur í frásögn sinni, sbr. þetta: „Þann 8. og 9. september fann ég lítið eitt til sjósóttar og gubbaði einu sinni hvern þann dag, alls frísklega, síðan aldrei. Samferðamenn gubbuðu flestir geysi­lega, einkum stiftamtmaður Hoppe og bústýra hans sífellt“.[190] Magnús var aldrei iðjulaus um borð heldur vann við Jónsbókina eða þýddi úr frönsku, stundum upphátt yfir á dönsku og þótti mönnum það hin besta skemmtun eftir því sem hann segir. Honum verður tíðrætt um mat[191] og lýsingar hans á fæðinu um borð stinga skemmtilega í stúf við lýsingar á veisluréttum þeim með sultum og sósum sem hann bragðaði seinna í hinum fjölmörgu boð­um yfirstéttarinnar í Kaupmannahöfn. Um borð var aðeins gróft skonrok og fúlt vatn, vont smjör, seigt saltkjöt, ertur og „seigt, gamalt, brimsalt“ flesk, vatnsgrjónagrautur, sjóbleyttur saltfiskur og „slæmur soðinn“ harður fiskur. Eitt vínglas var samt drukkið á hverjum degi. Magnús borðaði minnst af þessu framan af, aðeins nýtt sauðakjöt meðan það entist og svo hafði hann tvíbökur og smjör með sér að heiman sem hann deildi með stiftamtmanninum sjó­veika. Þegar harðnaði á dalnum og skipið náði ekki landi vegna strauma og mótvinda lagði hann skonrokið sér til munns og bleytti það í vatni. Magnús segir enda þegar hann er kom­inn til Svíþjóðar eftir mikla hrakninga um saltan sjó að þessi ferð hans hafi verið sú örðug­asta og ógeðfelldasta hingað til. Hún varð líka síðasta utanför hans.

Meirihluti Ferðarollunnar fjallar um dvölina í Kaupmannahöfn. Vel má heyra á Magnúsi hversu mun fallegra og skemmtilegra honum finnst erlendis en heima á Íslandi. Í sjálfsævi­sögu hans kemur skýrt fram að ef faðir hans hefði ekki látið hann fastna sér konu áður en hann fór utan nítján ára gamall hefði hann sennilega ílengst í Danmörku. Magnús hafði ríka hæfileika, löngun og skaplyndi til náms í heimspeki og tungumálum en erfðavenjur fjöl­skyldunnar, metnaður hans og von um auð og völd urðu ofan á í baráttunni um sál hans og hann lauk embættisprófi í lögfræði. Magnús iðraðist þess sárlega alla ævi að hafa sleppt gullnu tækifæri og framavon við rentukammerið í Höfn og í sjálfsævisögunni kennir hann forráðum föður síns um að líf hans varð ekki eins gæfuríkt og til stóð.[192] Á landleiðinni til Hafnar situr hann í vagni ásamt félögum sínum og horfir út um gluggann á leið sinni „í gegnum paradísar samloðandi aldingarða, og prýðilegustu lönd, framhjá slotum, herragörð­um, lystislotum, og í gegnum dásamlegustu eikar, beiki- og alls háttar skóga“ (sbr. 58). Allsstaðar sér hann græn tún og ræktaða akra, fólk við vinnu og „fjaður og annað fé“ gengur sjálfala úti í októberblíðunni. En á Íslandi á sama tíma eru skepnurnar innilokaðar og „merk­ur hvítvisnaðar, líklega freðnar fullar af snjó eða haustforarflóðum. Hvílíkur sorglegur mis­munur sjónar!“ segir Magnús (58). Á öðrum stað segir hann frá því að klaki sé þarna alls staðar farinn úr jörðu (í mars), trén farin að springa út og: „Matjurtir og kál í görðum farnar að vaxa, ólíkt dauðanum á Íslandi“ (sbr. 149). Samkvæmislífið var líka ólíkt fjörugra í Kaupmannahöfn en á Fróni, Magnús hafði varla undan að sitja veislur með Danakonungi, Friðriki sjötta og bróðursyni hans og arftaka, Kristjáni áttunda, og öðru kónga- og fyrirfólki í Höfn. Magnús var heimsborgari í hugsun og hegðun, eins og kemur glöggt fram í Ferða­rollu og hann kunni vel að meta góðan mat, gott vín og vitrænar samræður. Hann tók vel eftir öllu sem fram fór í veislunum og veitti ljósakrónum, málverkum, borðbúnaði og þjóna­fjölda athygli. Ávallt kom hann akandi í leiguvagni, uppábúinn í „úníformi“ með korða og hatt. Hér er enginn bóndadurgur eða lúpulegur skriffinnur á ferð:

Skrýddist síðan dýrðlegar en nokkru sinni fyrr í uniform nýju með mjallhvít undirklæði, silkisokka hvíta, hrafnsvarta, spegilglansandi skó, gylltar skó- og knéspennur, nýjan gylltan korða með nýrri gull port d´epée í við hliðina og gullkrampa hattinn. Keyrði svo með þénara aftan á sem ætíð upp að kóngshöll kl. 61/2 eftirmiðdag.[193]

Magnús stundaði menningarlífið í Höfn með atorku og ánægju. Auk þess að vera viðstaddur fermingu Kristjáns prins var hann í matarboðum hjá prófessorum og etatsráðum, sótti messur í Þrenningarkirkjunni, sat á bókasöfnum og var viðstaddur hina frægu M.A.-vörn Þorleifs Repps þar sem Magnús segir hann hafa verið fákunnandi en sumir segja að hann hafi fengið hláturskrampa vegna taugaálags. Hann sat einnig á fundum fræðafélagsins Athæneum og lét mála af sér portrett það sem allir þekkja hann nú af.[194] Hann fór í leikhús, bæði á „comoedíu“ (95) og á Trylleflöjten: „söngstykki dýrðlegt í 4 öktum með óviðjafnan­legri músík og allsháttar hljóðfærasöngi undir eftir meistarans Mozarts söngspili“ (sbr. 122). Eftir hástemmda lýsingu á óperunni hugsar Magnús heim til fjölskyldu sinnar og óskar þess að ættfólk hans væri hjá honum til að njóta dýrðarinnar. Varla hefur hann sleppt þeirri hugsun þegar það hvarflar að honum hvað svona uppfærsla kosti: „En kostnaður upp á það með allt í þeim mörgu dýrðlegu búningum og öllu öðru hleypur víst til margra 1000 rbda, en mörg rbd. koma líka fyrir það inn aftur“ skrifar hinn hagsýni Magnús (sbr. 122). Ljóst er að hann hafði nóg fé handa á milli og gefur jafnvel fátækum aura þegar þeir leita ásjár. Ástríða hans til að kaupa fallega hluti og smádót stingur í stúf við eðli hins hagsýna og skynsama embættismanns – hún er ævifleygur. Hann skrifar í rolluna hverju hann eyðir í Kaupmanna­höfn og í hvað. Hann keypti sér t.d. skyrtur, vasaklúta, nærbuxur, græna skinnhanska, „kyndug eldfæri“, plástur, stásshúsgögn, stofuklukku, eldfæri, 6 lítil vínglös og 12 slípuð vínglös,[195] sápu og reglustiku. Hann eyddi hátt á fjórða hundrað ríkisbankadölum í föt og glingur meðan á dvöl hans stóð fyrir utan húsaleigu og fæði sem var 50 dalir á mánuði. Ef til vill eyddi hann um efni fram því í bréfi frá samtímamanni Magnúsar segir frá því að Magnús hafi krafist 4000 ríkisbankadala launa fyrir starf sitt að Jónsbókarútgáfunni og sótt um 2000 dala ferðastyrk til kóngsins og 400 dala kauphækkun vegna fjölskyldustærðar og lítilla tekna af jörðum sínum.[196] Magnús segir í sjálfsævisögu sinni að honum hafi aldrei haldist á peningum um ævina; „hann eignaðist og útgaf þá jafnótt með því kaldasta blóði; fargaði þeim framar en flestu öðru; hafði alls engar mætur á þeim til annars en með þeim að fá úr eigin eður annarra þörfum bætt í bráð, eður útrétt og eignazt eitthvað til hagsmuna eður ánægju sér eður öðrum.“[197] Magnús hefur, að eigin sögn, verið frábitinn auðsöfnun og nirfilshætti, en viljað eiga peninga til þess að eyða í það sem hann langaði í hverju sinni.

Í ferðasögu Magnúsar kemst lesandinn mun nær honum en í sjálfsævisögu hans. Í sjálfsævi­sögunni réttlætir hann líf sitt og býr því formgerð píslarvættis sem hann sjálfur vill að verði hans bautasteinn. Ungi maðurinn efnilegi sem sjálfsævisagan greinir frá er heilsu­tæpur, föl­ur og fjarlægur, markaður af mótlæti og mistökum eigin lífs. Fjarlægðina frá sjálfi höfundar­ins má t.d. sjá af þriðju persónu frásagnarhætti sögunnar en ferðadagbókin er vita­skuld í fyrstu persónu.[198] Hún er samtímaleg, nálæg og einkaleg þótt sumstaðar örli á hefð­bundinni píslar­vættisformgerð. Á einkalegum vettvangi eins og ferðadagbókin er komast ýmsar raunir á blað sem annars fengju hvergi að sjást. Áhyggjur Magnúsar af því hvernig útgáfu Jóns­bókarinnar muni reiða af auk langvarandi svefnleysis og vinnuálags brjótast fram í líkamlegri vanlíðan. Í Ferðarollu kemur víða fram að hann hefur átt mjög erfitt með svefn og hafði „höfuðþyngsli og seyðing um allan kropp“ (sbr. 80), var oft kvefaður og leið illa. Auk þess þjáðist hann af hægðateppu (sbr. 84–5) sem vertinna hans reyndar læknaði hann af og frost­bólgu á höndunum. Er ekki að efa að þvílíkum fyrirmanni sem Magnús var hafi þótt fyrir því að hendur hans voru útsteyptar í kaunum og hrúðri enda setti hann upp hanska þegar menn sáu til hans. Það fór mjög í taugarnar á honum að hann gat hvorki sinnt sínum aðkallandi verkefnum né hitt fólk vegna þessa. Hann segist vera mjög „óþolinmóður orðinn af þessari kröm. Hennar vegna nú lengi arresteraður inni, frá bægt útferð og fundi stór­menna, á hverju mér þó nú mjög ríður, þar svo áliðið er orðið“ (sbr. 135). Í lok mars er hann órólegur og þreyttur en verður að fresta heimför fyrir kurteisis sakir því hann er boðinn í fermingu prinsins. Í bréfi Magnúsar til Finns Magnússonar sem hann ritar þegar heim er komið og dagsett er 10. ágúst 1826 segir að hann hafi komist slysalaust heim þrátt fyrir storma og kulda. Kuldalegar voru kveðjurnar í Kaupmannahöfn[199] og jafnköld var aðkoman til Ís­lands, segir Magnús (sbr. 68). Þar hafði veturinn landsmenn í kuldaklóm sínum, skepn­urnar voru að horfalla, mjólkur- og kornskortur yfirvofandi og aflabrestur um land allt. Enda seg­ist Magnús vera „Alstaðar sáraumur“. Um þetta leyti er farið að halla undan fæti fyrir lands­föðurnum Magnúsi Stephensen. Áhrif hans erlendis fóru þverrandi og brátt varð hann að þoka úr æðstu stjórnar- og foringjastöðum innanlands. Íslendingar kunnu honum litlar þakk­­ir fyrir ævistarf hans í þeirra þágu í menningar- og atvinnumálum. Sjálfur sá hann með eigin augum að hugsjón sú sem hann barðist fyrir um upplýsingu alþýðunnar og einingu þjóðanna undir upplýstri umhyggjusamri einvaldsstjórn var blóðroðin draumsýn, skýjaborg sem bylt­ingarmenn og afturhaldseggir rifu til grunna. Undir lokin var Magnús snauður af samherjum en auðugur af óvildarmönnum og það er fyrst á síðustu árum sem menn hafa getað litið hann mildum augum og metið hann að verðleikum. Í opinberum umsvifum kemur hann yfirleitt askvaðandi; einsýnn, stirður og kuldalegur, stjórnsamur og valdafíkinn. En íFerðarollunni birtist heimsborgarinn, pjattrófan, menningarvitinn og maðurinn Magnús Stephensen.

11.2 Sigurður Breiðfjörð, beykirinn beiski

Rímnaskáldið góða Sigurður Eiríksson Breiðfjörð (1798–1846) dvaldist á vesturströnd Grænlands á árunum 1831–1834. Hann var ráðinn sem beykir til konungsverslunarinnar þar og átti að auki að kenna Grænlendingum hákarlaveiðar á lagvað. Mun þessi ráðstöfun hafa verið neyðarúrræði Sigurðar en hann var félaus orðinn í Kaupmannahöfn, flæktur í ýmislegt misjafnt og skuldum vafinn. Í samtímabréfi frá Höfn eru helstu fréttirnar slarksögur af Sig­urði Breiðfjörð og nýjasta uppátæki hans: „Nú hefur hann ásett að fara til Grænlands sem beykir, og samgleðjast menn Íslandi, að það verði þá um stund og tíma frítt frá svoddan landplágu“.[200] Sigurður ritaði ferðasögu sína og í ljóði einu kallar hann hana „rollu“ líkt og Magnús Stephensen.[201]

Bók Sigurðar, Frá Grænlandi, var fyrst prentuð í Kaupmannahöfn árið 1836. Sigurður skrifaði handritið að mestu á Grænlandi og hafði það heim með sér til Stykkishólms þar sem hann jók við það og hreinskrifaði. Brynjólfur Benedictsen verslunarstjóri í Flatey fór svo með handritið til Kaupmannahafnar þar sem hann og Konráð Gíslason fóru yfir það, breyttu ýmsu, felldu úr og gáfu það síðan út á kostnað Brynjólfs. Árið 1912 kom bókin út aftur með sömu ummerkjum. Það var svo ekki fyrr en 1961 að Eiríkur Hreinn Finnbogason tók sig til og gaf bók Breiðfjörðs út eins og höfundurinn sjálfur gekk frá henni í handriti (Lbs.392.4˚). Að vísu vantar nokkur blöð í handritið og sumsstaðar eru eyður en í útgáfu Eiríks Hreins er fyllt upp í skörðin með texta fyrstu útgáfunnar.[202] Ferðasaga Breiðfjörðs hefst á formála til lesarans. Þar segist Sigurður byggja sögu sína einkum á „sjálfs míns reynslu og athuga­semdum, meðan ég dvaldi þar í landinu…“.[203] Fram kemur að hann hefur reynt að skrifa hlutlæga fræðslubók og forðast að rita nokkuð um sjálfan sig:

Þó hef eg sem minnst getið þeirra hluta, sem mig sjálfan áhræra, […] enda ætlaði eg mér ekki að semja neina dagbók um forlög mín þar í landinu. Hitt var áform mitt – þar eg veit Íslendinga ekki eiga á sínu máli neinar frásögur um seinni forlög þessa lands, er þeir forðum byggðu – að bæta nokkuð úr þeim skorti.[204]

Sigurður áréttar svo seinna að ritið sé ekki dagbók (sbr. 59). Þótt Sigurður ætli ekkert að láta uppi um sína hagi gleymir hann sér stundum. Til dæmis brýst nokkur beiskja upp á yfir­borðið í ævifleyg þar sem Sigurður segir frá því þegar gekk illa að innheimta laun hjá dönsk­um yfirvöldum fyrir kennslustundirnar í hákarlaveiðunum. Hann segir:

Hvör þraut það sé að sjá ríkisins peningum og dra-krossum [svo] með öllum þess konar stór­merkjum og teiknum útausið til ýmsra óskilmerkilegra manna og fyrirtækja, fyrir þann sem vogað hefur lífi, lamað heilbrigði sína og með öllum vilja og kröftum þjónað að almennilegri hagsæld, en vera þó fyrirlitinn og aldeilis til síðu settur, vil eg ekki hér taka til greina, því það tekur fyrir þann, sem reynir, meira en táronum mínum.[205]

Er von að hinum veðurbarða beyki og hákarlaveiðimanni sárni þessar aðfarir en hann fékk aldrei greitt fyrir störf sín í þágu Dana undir Grænlandsjöklum. Ferðasaga Sigurðar hefst á brottför hans frá Kaupmannahöfn 2. apríl 1831. Hann kom til Sykurtopps á Grænlandi tveimur mánuðum síðar. Upphaf ferðasögunnar er skáldlegt: „Eftir 8 vikna útivist hófu Grænlandstindar sig upp úr nætur- og þokuskýjum þann 17. maí 1831, árla morguns, og vorum vér þá enn 8 sjómílur danskar undan landi. Hvör tindur var þá enn í alhvítum vetrar­stakki og drógu til sín kaldan anda norðan úr hafi“ (35). Þótt ferðasagan sé lipurlega skrifuð biðst Sigurður innilega afsökunar í formála sínum – eins og vanalegt var – á „ófimni […] að rita sundurlausan stíl“ (sbr. 31) en hann hafði ekki áður sent frá sér laust mál. Ferðasagan er bæði skemmtileg og fróðleg og umhverfis- og þjóðlýsingar nákvæmar og vandaðar. Sigurður ferðaðist víða um Grænland meðan hann bjó þar. Í honum hefur blundað rann­sóknarþrá ef marka má ástríðu hans til að skoða fornminjar á Grænlandi og hann lagði á sig langar og erfiðar bátsferðir til þess að fara höndum um gamlar rústir og tóftabrot þar sem hann taldi að forfeður vorir hefðu búið. Fimm greinar (kaflar) bókarinnar fjalla um þessar fornminjar. Sigurður styðst mjög við bók síra Egils Þórhallasonar í þessum efnum. Sú bók heitir Efterretninger om Rudera eller Levninger av de gamle Nordmænds og Islænders Bygninger paa Grönlands Vester-Side og kom út í Kaupmannahöfn árið 1776. Auk þess segist hann fara eftir óþekktri dagbók Arons nokkurs Arctanders. Skekkjur í riti séra Egils sem koma fram í staðaheitum eru allar hjá Sigurði enda má segja að hann beinlínis þýði rit séra Egils á köflum.[206] Það er því ekki alveg víst að hann hafi sjálfur komið á alla þá sögu­staði sem frá er greint í bókinni.

Fyrsta reisa Sigurðar var til þorpsins Nappasök til að sækja tunnur. Þar var aðkoma heldur ógeðsleg, íbúar allir í síldar- og selaveri og höfðu skilið illa við: „…úði hér allt plássið af maðki og öllum óþrifum, fúnuðum fatnaði eða selainnyflum með allri annarri óþekkt. Þó var verst, sem næst húsamyndum Grænlendinga og þau sjálf innan sökkvandi maðkaveita“ (42). Furðar Sigurður sig svo á að Grænlendingar skuli geta lagt sér hráa og úldna selshreifa upp úr forinni til munns. Sjálfur flýr hann fullur viðbjóðs upp í efri byggðir og sest þar í grænan hvannteig og fékk þar „lifandi krásir“ og „sjaldmeti eftir óskum“, hvað sem það nú er. Þessi ferð gekk betur en sú næsta en þá fór Sigurður á stórri ferju til Ikamiut ásamt fjórum mönnum til þess að gera tilraunir með hákarlaveiðar. Þeir hrepptu vont veður og gat kom á síðu ferjunnar. Sigurður dó ekki ráðalaus heldur dró nagla úr ferðakistum sínum, negldi selshúð fyrir gatið og þétti meðfram með öllu tiltæku. Ráðsnilld hans minnir óneitanlega á hugvit Róbinsons Krúsó á eyðieyjunni forðum daga þar sem annaðhvort var að duga eða drepast. Í annarri ferð var Sigurður m.a.s. fastur á eyðieyju eins og Krúsó (sbr. 62) en bjarg­aðist eftir tíu daga volk fyrir hyggjuvit og hörku. Einu sinni fór Sigurður á skipi til að veiða hreindýr og heyja handa geitum danska kaupmannsins. Fimm grænlenskar konur voru með í för og voru þær látnar róa skinnbáti sínum á undan og draga skipið með körlunum á. Þetta þótti Sigurði reyndar athugavert en hafðist ekkert að. Hér segir Sigurður frá vandamáli sem fylgir því að ferðast með grænlensku kvenfólki:

Sá vandi er á, þegar menn hafa á skipi grænlenska kvenmenn, að lenda verður nær sem einhvör þeirra þarf að gegna náttúrlegum kröfum, og er það því tafameira sem fleiri eru í ferðinni, því þarfir þeirra ber sjaldan saman. Ekki tala þær um nauðsyn sína, en leggja upp árina, setjast fram í stafn og hengja höfuðið, og verða menn þá að lenda, hvar sem fyrst verður.[207]

Það sem Sigurður lætur hér ósagt er að ekki þarf að lenda þegar karlar gera þarfir sínar. Er þetta eitt af örfáum dæmum í íslenskum ferðasögum þar sem greint er frá þvagláti eða hægðalosun sjófarenda. Sigurður segir fleira af samskiptum kynjanna, t.d. í þessari lýsingu á svefnaðstöðu í vetrarhíbýlum Grænlendinga:

Ekki hlífast þeir við að liggja saman með kvenmönnum, en allt er í einni flatsæng; eitt hrein­skinn er breitt undir og annað ofan á. Maður og kona skilja sem oftast á milli sín og annarra með milligjörð nokkurri eða borði; þó þegar þau vilja hafa mök sín, hverfa bæði niður undir pallinn, þar sem skuggi er á, því margar ljóskolur loga öllum nóttum í húsinu, og er það þó óþrifalegur og blautur staður til slíkra athafna.[208]

Sigurður hafði mikil og náin samskipti við Grænlendinga – svo náin að hann vissi fljótlega að ekki var alltaf að marka hinn rauða hárborða grænlenskra kvenna sem átti að tákna sak­leysi þeirra og meydóm. Hann segir að konurnar séu lúsugar og málgefnar og karlarnir meinlausir, spakir og huglausir í viðskiptum við útlendinga. Annars liggur honum yfirleitt gott orð til Grænlendinga. Forn trúarbrögð þeirra vekja eftirtekt hans og forvitni og hann lýsir þeim fordómalaust þótt hann telji þá kristnu „hafa nú öðlazt sælli trú“ (sbr. 112). Þótt honum renni fátækt Grænlendinga til rifja þá hvarflar það aldrei að honum að einokunar­verslun danskra kaupmanna eigi þar nokkra sök á. Árni Magnússon frá Geitastekk, sem var á Grænlandi tæpri öld áður, hafði hinsvegar samúð með Grænlendingum og þótti Danir reynast þeim illa í hvívetna.[209] Átjánda grein eða kafli (sbr. 108–9) þar sem segir að græn­lenskar stúlkur séu glysgjarnar og taki í nefið er ekki í eiginhandarriti Sigurðar. Þjóðsagna- og fornsagnakennd lýsingin á Grænlendingum sem m.a. eru sagðir vera „hvatastir á fæti og vel náttúruhagir til allra smíða“ (107) er ekki heldur í handriti hans. Ef til vill hafa þeir félag­ar Konráð Gíslason og Brynjólfur Benedictsen tekið þessa lýsingu upp úr einhverju gömlu landafræðiriti til að krydda útgáfu sína með.[210] Í Litlum viðbæti sem ekki er í handriti Sig­urðar eru Íslendingar hvattir til að taka Grænlendinga sér til eftirbreytni hvað varðar refa­gildruhönnun, svefnpokanotkun og vetrarklæðnað.

Sigurður lifði góðu lífi á Grænlandi líkt og Árni frá Geitastekk fyrr. Hann umgekkst Græn­lendinga mikið og lærði m.a.s. hrafl í grænlensku (sbr. 59). Af ferðasögunni má ráða að nóg hafi verið um vín og villtar meyjar, a.m.k. í Holsteinsborg þar sem sex flöskur af gömlu rommi urðu „bráðkvaddar“ og þjónustustúlkan Anna heillaði Sigurð svo að hann orti til hennar samnefnt kvæði. Kvæðið er reyndar dálítið furðulegt og hrokafullt en hefst svona:

Aldrei held eg, Anna mín,                                              Ó, að rynni í s l e n z k t blóð

að okkur vígi prestur;                                                      í æðum þínum, meyja;

en bæði ertu fögur, fín,                                                   hjá þér skyldi’ eg, heillin góð,

og fljóða kostur bestur.                                                   hvílast, lifa, deyja.[211]

Samkvæmt kvæðinu er það þjóðerni Önnu sem kemur í veg fyrir að hann geti verið samvist­um við hana lengur eða gifst henni. Í kvæðinu eru ættir hennar raktar í hálfkæringi til Svía í föðurætt en þursa í móðurætt. Kannski er stéttarstaða hennar ljónið í veginum en Sigurður klykkir út með hendingunum: „það má líka þykja skylt, þjónusta og kona“. Seinna bar Sigurður að hún hefði verið sú kona sem hann væri fúsastur til að unna ástum á Græn­landi.[212] Sigurður orti mörg fleiri kvæði á Grænlandi, m.a. hinar frægu Númarímur „er lýsa svo fagurt og merkjanlega eiginleikum hins ágæta skálds, hugmyndaflugi, alvarlegri speki og jafnhliða því viðkvæmri blíðu og innilegri ættjarðarást“.[213] Hvergi víkur Sigurður að skáldskapariðkun sinni í ferðabókinni, svo staðráðinn er hann í að halda sjálfum sér til hlés og áðurnefndri hlutlægnikröfu til streitu.

Í ferðabók Sigurðar segir frá hundi hans er Pandór hét. Var hann danskur að kyni, vitur og vel taminn og hafði fylgt Sigurði gegnum þykkt og þunnt frá Vestmannaeyjum til Kaup­mannahafnar og loks til Grænlands. Í sjöttu grein bókarinnar segir Sigurður frá hákarlaveið­um á vetrarísum þar sem hann var í mikilli lífshættu og var hundurinn að venju með í för. Ís­spöngin brast skyndilega undan þeim og komst Sigurður við illan leik til lands en hundurinn dróst undir ísinn og drukknaði. „Margir núlifandi menn á Íslandi þekktu mig og hund þenn­an forðum; og það óska eg sé afsökun fyrir því, að eg hefi hér getið afdrifa hans, sem ekki annars mætti heyra til hér að minnast“ ritar Sigurður (58). Lýsing hans á þessu atviki, sem strangt til tekið heyrir ekki efni bókarinnar til, birtir ævifleyg einmana manns sem minnist síns mállausa „langvinar“ sem hann saknaði sáran. „Viðkvæm skrif Sigurðar um volk þeirra félaga og afdrif Pandórs bera hug hans og hjartalagi gott vitni“ skrifar Þorsteinn frá Hamri þegar hann tínir saman sögubrot um Sigurð og hundinn.[214] Sigurður var orðlagður drykkju­maður og um hann og hund þennan gengu ýmsar sögur, s.s. að Sigurður hafi í upphafi skipt á fyrri konu sinni og þessum hundi, að hundurinn hefði stolið mat fyrir hann í Reykjavík (eftir Grænlandsdvölina) og loks að Sigurður hefði launað honum tryggðina með því að selja hann fyrir brennivín.[215] En frásögn Sigurðar í ferðabókinni afsannar allar kjaftasögurnar. Þorsteini starfsbróður Sigurðar þykir hér ómaklega vegið að skáldinu:

Ekki svo að skilja að hugstola drykkjumaður geti ekki álpazt til að selja hundinn sinn fyrir stundargrið óminnisins, en hér er það tóntegundin sem úr sker ásamt vitleysunni. Það er drjúgur kostamunur á hlýjum vitnisburði vina skáldsins og rætnum athugasemdum um ræfildóm, sem að vanda bregða hulu yfir heimatún sín.[216]

Sú hugsun hvarflar að manni að kannski hefði verið best fyrir þennan gáfaða og skáldmælta ógæfumann að vera um kyrrt á Grænlandi. Heima á Íslandi beið hans aðeins fyrirlitning landa hans sem létu hann drepast úr sulti og vosbúð á skemmulofti í Reykjavík. Eiríkur Hreinn bendir í ritgerð sinni um Sigurð á að skapanornirnar hafi verið honum hliðhollar aðeins einu sinni. Það var þegar þær leiddu hann til Grænlands.[217]

11.3 Föðurlandsvinurinn séra Tómas Sæmundsson

Fjölnismaðurinn frægi séra Tómas Sæmundsson (1807–1841) rak smiðshöggið á glæsilegan námsferil sinn við Kaupmannahafnarháskóla með ferðalagi suður um Evrópu á árunum 1832–4. Hann ritaði ferðasögu sína en hún er að vísu ekki til nema í ófullgerðu uppkasti. Tómas er talinn vera fæddur þann 7. júní 1807. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum, Sæ­mundi Ögmundarsyni og Guðrúnu Jónsdóttur, í Eyvindarholti undir Eyjafjöllum. Þau hjónin voru ágætlega efnað bændafólk á íslenska vísu og ólu soninn upp í guðsótta og góðum sið­um. Sveinn Pálsson læknir og ferðabókarhöfundur hefur sagt frá því að þegar hann gisti eitt sinn í Eyvindarholti heyrði hann um kvöldið eitthvað hljóðskraf sem reyndist vera Tómas litli að lesa bænirnar sínar.[218] Tómas varð snemma „lestrar hestur og bókaþöngull“[219] og um fjórtán ára aldurinn var hann settur til náms í Odda á Rangárvöllum hjá Steingrími Jóns­syni, síðar biskupi.[220] Þaðan lá leiðin í Bessastaðaskóla og Tómas lauk stúdentsprófi árið 1827 með góðum vitnisburði. Sama ár sigldi hann til Kaupmannahafnar og innritaðist í há­skólann þar. Í bréfi sem Tómas ritaði föður sínum 30. ágúst 1827 er að finna frásögn af brottförinni af Íslandi. Tilfinningar hans þá voru blendnar, ástin til landsins sem hann var að yfirgefa og tilhlökkunin yfir að sjá önnur lönd toguðust á:

Það er annað léttara en [að] gera öðrum ljósa [þá] þanka og þær tilfinningar, sem taka fangna sálu þess manns, er í fyrsta sinn á æfinni veit sig staddan úti á reginhafi, ekkert sjáandi utan hafið í öllu veldi sínu og víðáttu og himininn hvelfdan yfir því. Þankarnir voru svo margir og hver annari ólíkar tilfinningarnar. Þó man ég eina helzt og hún [var] þessi: Nú ertú kominn burt úr hinum mjúku móðurhöndum fósturjarðarinnar – og jafnsnart sagði hjarta mitt mér, að hvað svo sem fyrir mér lægi að sjá af fegurð landa og staða, þá yrði hún [mér] þó ætíð í allri sinni fátækt dýrðlegasti bletturinn á jarðríki.[221]

Sjóferðin var erfið, tók rúmar þrjár vikur og lá Tómas mest „á spýjustokknum“ á leiðinni. Í áðurnefndu bréfi kemur vel fram hvernig landið og stórborgin orka á hann þegar hann sér það í fyrsta sinn. Það sem honum sýndist af sjónum vera „brunahraun, kolsvartir hólar og þverhnýpt niður af“ reynist vera skóglendi þegar betur er að gáð.[222] Og þegar í land er kom­ið veit Tómas ekki hvort hann fer um göturnar í leiðslu eða draumi „þar [eð] ég aldrei hefði getað rúmað í höfði mér slíkan skarkala, org og ósköp, sem hér í einu umkringdu mig á allar síður“.[223] Gnýrinn í borginni lætur að vonum annarlega í eyrum hans þegar hann kemur úr friðsæld sveitarinnar. Tómas lét borgarglauminn ekki glepja sig frá námi og skyldustörfum í Kaupmannahöfn. Hann tók bæði „fyrsta lærdómspróf (artium) og eins hið annað (philo­sophicum) með lofi“, las síðan guðfræði af miklu kappi og lauk glæsilegu embættisprófi árið 1832.[224] Sama ár imprar hann á furðulegri hugdettu í bréfi til föður síns (23. apríl 1832) og biður hann að ábyrgjast lán til að kosta framkvæmd hennar. Hugmynd Tómasar var sú að leggja í langferð um helstu lönd Evrópu sér til menntunar, skemmtunar og fróðleiks. Tómas taldi að bóklegt nám hans vantaði jarðtengingu og að hann skorti enn reynslu og þekkingu til að geta orðið að því gagni í lífinu sem hann vildi: „Guðfræðin og heimspekin, sem ég hingað til hefi lifað á, halda manni fyrir ofan alt það jarðneska og í því þær draga mann upp á við, gleymir maður því, sem fyrir neðan er. Manna-, þjóða- og veraldarþekkingin, sem er svo aldeilis nauðsynleg, til að geta verkað gagnlega í svo mörgum embættisstöðum í lífinu, er það, sem mig sér í lagi enn þá vantar…“ skrifar hann.[225] Orðlögð einurð Tómasar, fróð­leiksfýsn hans, ævintýraþrá og áköf löngun til að verða föðurlandi sínu til nytsemdar eru sennilega helstu ástæður að baki ákvörðun hans. Honum tókst að útvega nægilegt fé til fararinnar á einhvern hátt og svo fór að Tómas lagði af stað í einskonar „Grand-Tour“ eða menningarreisu um Evrópu að hætti ungra sjentilmanna þann 7. júní 1832.[226] Hann hafði þegar hér var komið sögu dvalið í útlöndum í fimm ár og var því ekki alveg bláeygður. Nú var tilhlökkunin vegna ferðarinnar eingöngu gleðiblandin. Hann hafði búið sig vel úr garði, var með passann í lagi, átti útttektarnótur hjá helstu stórkaupmönnum í heimsborgum Evrópu og var með hæfilega mikinn farangur með sér. Hans beið nú spennandi skemmtiferð um fjölmörg lönd, hann ásetti sér að „auðga sinnið sem mest með nytsömum, fögrum og háum minningum, er gæti héðan í frá gjört mér lífið notadrjúgt og ánægjusamt,…“ eins og hann orðar það.[227] Leið hans lá um allar helstu stórborgirnar, s.s. Berlín, Prag, Vín, Flórens, Róm, Konstantínópel og París.

Tómas vann að ritun ferðasögu sinnar til dauðadags og er uppkastið varðveitt í eiginhandar­riti á Landsbókasafni.[228] Tómas skrifaði stærstan hluta ferðasögu sinnar veturinn eftir að hann kom heim til Íslands (1834–5). Sennilega skrifaði hann eftir minnisgreinum eða dag­bókarfærslum sem hann hefur párað á ferðum sínum. Tómas lauk aldrei við bókina vegna heilsuleysis. Hann dó úr berklum aðeins 34 ára gamall og vannst því skammur tími til að ylja sér við minningarnar úr langreisunni. Ferðabókin er því aðeins til í ófullgerðu uppkasti Tóm­asar og var prentuð þannig árið 1947. Mikið vantar á að þar sé sagt frá ferðinni allri. Hér og þar í bókinni eru innskotsgreinar Tómasar um efni sem hann átti eftir að bæta inn í og kynna sér betur og „etc.“ eða punktalína við staði og fyrirbæri sem hann átti eftir segja ýtarlegar frá (t.d. 179, 192). Fylla má í nokkrar eyður með bréfum sem Tómas skrifaði föður sínum og fleirum úr þeim borgum sem hann fór um. Í stærstum hluta bókarinnar eða á rúmlega 250 blaðsíðum segir frá upphafi ferðarinnar, dvölinni í Berlín sumarið 1832 og frá hinum við­felldnu Þjóðverjum og þýskri hámenningu. Þá segir af ferðinni til Prag og München. Á landamærum Bæheims og Bæjaralands sat Tómas 5 daga í sóttkví vegna kólerufaraldurs sem geisaði um Evrópu og þar fellur ferðasagan niður um hríð. Um framhald ferðarinnar má lesa í bréfi Tómasar til föður síns.[229] Kemur þar fram að hann dvaldist í tvo mánuði í Vín og hélt þaðan áleiðis til Rómar. Hann tekur svo upp þráðinn í ferðabókinni þegar hann er í þann mund að fara frá Róm, svo sáralitlar heimildir er að finna um fjögurra mánaða dvöl hans þar en vitað er að honum leið þar vel. Á einum stað kallar hann Róm unnustu sína aða amorosa (sbr. 257) og á öðrum stað skrifar hann: „Áður en eg vissi af eður vildi var mig borið að þeim tímanum er eg skyldi yfirgefa hina indælu Rómaborg, hvar eg hafði átt næstum 4ra hina ánægjuligustu mánuði og sælustu daga ævinnar“ (253). Tómas hafði frétt af fyrirætlaðri skemmtisiglingu um Miðjarðarhaf með gufuskipi sem lá við bryggju í Napólí. Þangað ætlaði hann að fara þótt hann ætti reyndar ekki fyrir farinu en hann treysti á að gæfan yrði sér hlið­holl. Hann var vanur að taka slíka áhættu; „Ætti maður aldrei að tefla á tvær hættur, kemst maður heldur ekkert“ átti hann til að segja.[230] Það varð úr að Tómas komst einhvernveginn með þessu skipi en þar endar ferðasagan með kaflanum „Ályktan bókarinnar“ sem hefur átt að vera lokapunktur hennar. Í bréfum Tómasar kemur fram að hann sigldi um Miðjarðarhaf­ið tæpa fjóra mánuði, hélt síðan landleiðina frá Ítalíu til Frakklands – til Parísar þar sem hann átti óvænt stefnumót við sjúkdómsvofu. Þar veiktist hann af berklunum og eftir átta vikna erfiða legu komst hann til Lundúna og Hamborgar og þaðan til Kaupmannahafnar í maí 1834. Ferðalag hans hafði tekið tæp tvö ár og hann sneri aftur fullur eldmóðs og reynslunni ríkari en það galt hann dýru verði. Upp frá þessu var Tómas Sæmundsson merktur dauð­anum, ævistarfið og ferðabókarskrifin voru örvæntingarfullt feigðarkapphlaup. Í bréfi til Jónasar Hallgrímssonar dags. 6. september 1835 segist Tómas vera orðinn „hálfmelankólsk­ur“ því hann hafi engan tíma til að sinna ritstörfum vegna búskaparstarfa og prestverka og ferðabókin sitji alltaf á hakanum.[231] Í bréfi til Konráðs Gíslasonar frá 29. júlí 1840 er Tómas enn að hugsa um Ferðabókina og gerir sér fyllilega ljóst að tíminn er að renna út: „Þegar ég er búinn að koma frá mér því sem mest kallar að núna, Harmóníu og ferðabók­inni, – því hvorttveggja skal koma, ef ég ekki dey því fyr – “.[232]

Á dögum Tómasar voru ferðasögur og ferðabækur orðnar vel kunnar um heim allan. Sjálfur hafði Tómas mikinn áhuga á þessari bókmenntagrein. Hann hafði lesið margar ferðabækur og í ritstjórn Fjölnis barðist hann ákaft fyrir því að láta birta útdrætti úr reisubókum.[233] Hann skrifaði einnig ferðabréf, „Úr bréfi frá Íslandi, dagsettu 30ta jan. 1835“ sem birt var í Fjölni. Þar lýsir Tómas m.a. daglegum störfum sjómanna á herskipi, s.s. matarúthlutun og borðhaldi, þvotti og hreinlæti, auk dægrastyttingar þeirra og dauðabeygs.[234] Ferðabréfið olli nokkrum úlfaþyt þar sem Tómas var mjög harðorður í garð landa sinna, einkum í síðari hluta bréfsins þar sem Tómas segir frá ferð sinni innanlands. Þar deilir hann allharkalega á stjórn­skipan landsins, lélegt siðferði manna, leti og skussahátt. Um leið hvetur hann til úrbóta, t.d. í verslunar- og menntamálum og vekur athygli manna á kostum þilskipaútgerðar. Seinna tók Hafliði nokkur Eyjólfsson úr Svefneyjum í sama streng. Hann fór á sjávarútvegssýningu í Björgvin sumarið 1865 og ritaði um þá ferð „Lítið ferðasogu ágrip“. Hann lýsir þar vand­lega t.d. veiðarfærum og fiskverkun með það að leiðarljósi að nýta þekkinguna heima á Íslandi. Þegar hann horfði á skipaskurð í Gautaborg varð honum innanbrjósts svipað og Tómasi:

Alldrei getur maður betur og glöggvar fundið og sieð, hvað aumir og vesælir vjer erum í saman­burði við aðrar þjóðir, en að standa við og horfa á, þessi miklu manna verk og hugsa heim, að ekki sie stúnginn fram moldar bakki, til að leiða vatn af foræðis mýrum, því síður minnstu við­burðir að bæta hafnir og lendíngar.[235]

Í formála Tómasar að Ferðabókinni kemur fram að hún á að verða að miklu gagni. Hún er „ætluð til nota“ (sbr. 2) og á að vekja „lyst og anda til að uppfræðast“ (sbr. 3). Efni bókar­innar og tilgangur hennar er hvorttveggja úthugsað hjá Tómasi. Ferðabókin á að gefa heild­stæðar lýsingar á löndum og borgum, mannlífi þeirra og menningu og hann leggur sérstaka áherslu á það sem „Íslendingum kynni að vera eftirtakavert með tilliti til sinnar stöðu, og mætti einhvörju hér þar eftir til lags koma“ (sbr. 3). Tómas er meðvitaður um lesendahóp sinn því fram kemur að bókin er sérstaklega ætluð upplýstum almúgamönnum og ósigldum prestum. Formið er einnig úthugsað til að þjóna tilgangi sínum. Það verður að vera heil­steypt og skipulegt, dagbókarformið hentar Tómasi ekki:

Mér var, sem hvörjum skilst, býsna miklu hægast, og hefði víst tekið fjórum sinnum skemmri tíma, að fara að flestra annarra dæmum, sem reisur sínar færa til bóka, að hripa rétt upp sem í dagbókarformi það helzta sem þeir muna til og kemur í hug frá hvörjum stað og við hvört atvik, hvað innan um annað; eg þóttist skilja að þeim lesurum mínum, sem bókin eiginliga var ætluð, mundi fyrir því næstum eins ókunnugt hvörsu veröldin eiginliga er. Það yrði allt fyrir þeim í ruglingi, þeir þekktu ekki hvað þeir vissu eður hvað mikið þá vantaði, og þeim yrði örðugt að fylla inn í skörðin, svo þar af yrði nokkuð heilt.[236]

Texti Ferðabókarinnar er í lærdómsstíl samtímans, þungur, formfastur og lotulangur.[237] Hann einkennist mjög af þeirri viðleitni að koma íslenskri hugsun um framandi fyrirbæri í orð, svo menn geti gert sér þar af „nokkra ímyndun“ (sbr. 279). Í löngu máli lýsir Tómas t.d. leikhúsi og notar til þess orð eins og orrakista (hljómsveitargryfja), áhorfarar, jörðjafna (salur með hallandi gólfi), sjónarpallur (svið), sjónarslagur (leikrit), konungsbás (stúka), sjónardans (ballet) og leikstef (þáttur) (sbr. 68–72). Tómas virðist reikna með beinum tengslum eða samsvörunum milli tungumálsins og þess sem lýst er líkt og Eggert og Bjarni gerðu í Ferðabók sinni. Tungumálið er að mati Tómasar tært og gegnsætt, það er meðal eða tæki til andlegrar vakningar og uppfræðingar. Hann efast ekki um að hægt sé að koma orð­um yfir hluti en áttar sig þó fyllilega á að mörgu er erfitt að lýsa, að lögun sumra hluta verður „torveldliga fyrir sjónir leidd“ (sbr. 55) og sumt „verður ei með orðum útskýrt“ (sbr. 216). Hér lýsir hann blindraletri sem þá var algjörlega óþekkt fyrirbæri hérlendis:

Má hér og ekki, sem nærri má geta, mynda stafina með litum en stafmótum sem lögð eru að annarri síðu blaðsins með mörgum örðum eða broddum. Ganga örður þessar inn í pappírinn, sem er mjög stinnur, svo að hinum megin koma út jafnmargar örður fyrir hvörjum staf, og þar eð þeir eru æði stórir má með fingurgómunum og æfingu vel þreifa þá og allan orða aðskilnað.[238]

Lýsingar eru yfirleitt langar og ýtarlegar og reyna margar verulega á þanþol tungumálsins. Stundum er hlutum líkt við kunnugleg fyrirbæri svo draga megi upp skýrari mynd af þeim eins og algengt er í ferðasögum. Þá grípur Tómas til hugtaka sem tilheyra íslenskum veru­leika. Þaksteinum í Svínamunde líkir hann við ýsuhreistur (15), lóni einu við graflæk (21), aldurshringjum í trjám við sömu hringi í hornum á sauðfé (24), vínberjum við stór krækiber (209) o.s.frv. Við sem erum á leið inn í geimöldina myndum sennilega lýsa innviðum fljúg­andi furðuhlutar á svipaðan hátt og Tómas lýsir sundlaug:

Fyrsti salurinn sem inn kom var forstofa með bekkjum umhverfis, var þar uppslegið á hliðveggjum margs konar skjölum til aðvörunar og undirvísunar laugamönnum; líka mátti þar sjá prísa sérhvörrar laugar sem til var í húsinu. Í næstu stofu var almennileg laug fyrir karlmenn; var hún múruð úr steinum niður í gólfið og svo sem kannske manni í mitti að dýpt upp á barma; í börmunum voru kranar og eftir því sem þeim var snúið mátti hleypa vatni úr og í laugina, og var sumt heitt, sumt kalt einsog bezt þækti fara. Umhverfis hana allt um kring voru smá hús með tali á hvörjum dyrum. Voru þau ætluð til að klæða sig í og afklæða. Komu í laugina margir í einu…[239]

Svipaða tilfinningu fyrir framandleika má sjá þegar sagt er frá skólagöngu barna í borgum: „Í skólanum eru börnin einasta nokkurn tíma á hvörjum virkum degi og hafa þar ekkert nema kennslu, en fara jafnan hvört heim til sinna á nætur og bera bækur sínar með sér fram og aftur“ (74). Lýsingartækni Tómasar einkennist bæði af skapandi hugsun og skarpri athyglis­gáfu, hann er í senn heimsmaður og heimalningur. Hvernig á til dæmis að lýsa erlendri borg úr lofti öðruvísi en með líkingum úr íslenskri náttúru?

Húsþökin fyrir neðan mann, sem oftast eru úr brenndum leir, með öllum sínum ójöfnum eru sem brunahraun sem reykháfarnir er fylla loftið með sífelldum reyk og svælu gjöra enn líkara eldgjósandi fjöllum, og á milli þessa grillir maður niður á göturnar sem í djúpa gjá og sér þaðan fólk og hesta á hreyfingu sem kvikindi og ber þaðan upp til manns argið og skarkalann. Gefur það nokkurn þanka um hvörnig við munum líta út frá hærri himinstöðum.[240]

Tómasi tekst ekki alltaf vel upp í lýsingunum en hafa ber hugfast að texti hans er aðeins ófullgert uppkast. Hér liggur klaufaleg, líkamleg hugsun að baki líkingamálinu: „Höfuð­borgin er þannig landsins magi, sem að sönnu er sér úti um þess bestu ávexti og leggur þá sér til munns, en sendir aftur þeim er veitti áburð til ræktunar nýjum, góðan eða vondan, sem maturinn var til“ (49). Í setningunni næst á eftir er höfuðborginni líkt við „landsins höfuð, er til framkvæmda sinna þarfnast limanna aðstoðar“ og fer óneitanlega betur á þeirri líkingu.

Ætlun Tómasar var sú að Evrópuferðin yrði lokaþáttur háskólanámsins, fullnaðarundir­búningur fyrir það umbótastarf sem hann hafði ásett sér að vinna heima á Íslandi. Hans heit­asta ósk er að geta „bent löndum mínum til réttari þekkingar á veröldinni, gjört þá móttæki­ligri fyrir annarri bókligri þekking, og hvatt til einhvörs gagnligs fyrirtækis…“ (6). Það kemur víða fram í Ferðabókinni að hún er fyrst og fremst skrifuð til uppfræðingar. Henni er ætlað það stóra hlutverk að vekja Íslendinga til vitundar um möguleika þeirra til andlegra og félagslegra framfara í anda upplýsingarinnar. Aðferð Tómasar við að upplýsa landa sína felst í lýsingunni (representation) sem var lykilhugtak þessara tíma. Hann lýsir vandlega ýmsum þeim fyrirbærum sem varða þjóðarheill og velferð samfélagsins og nýst gætu á Íslandi en voru þá landsmönnum svo til ókunn. Sem dæmi um slíkt eru „stiftanir“ ýmsar eins og bók­hlaða, náttúrugripasafn, dýraspítali, „barnsburðarhús“ og „vitstolahús“ eða „óðrahús“. Á Ís­landi var velferðarkerfi óþekkt og barnaskóli og sjúkrahús voru ekki byggð í Reykjavík fyrr en rúmum tveimur áratugum eftir dauða Tómasar. Bjartsýni, kappsemi og óbilandi framfara­trú einkenna Ferðabókina. Það er í raun áform Tómasar að innleiða nýjungar í kyrrstætt íslenskt samfélag með lýsinguna eina að vopni.

Ferðabókin ber með sér skýr einkenni upplýsingarinnar sem var að renna sitt skeið á enda um þessar mundir. Söguskoðun Tómasar einkennist af dæmigerðu upplýsingarviðhorfi til framfara, hefðbundinni guðstrú og trúarlegri löghyggju líkt og sjá má hjá Magnúsi Steph­ensen.[241] Upplýsingarmönnum var tamt að vega og meta þjóðir út frá mælikvarða siðmenn­ingar og framfara. Þjóðir heims voru ýmist siðaðar, villtar eða mitt á milli, ýmist á framfara­braut, staðnaðar eða á niðurleið. Siðaðar voru þær þjóðir sem bjuggu við skipulega stjórn­sýslu og lagasetningar, villtar þjóðir lifðu eins og dýr. Í Almennri landaskipunarfræði, sem áður er vitnað til, er þessum mælikvarða beitt auk þess sem þjóðunum er skipað í stigveldi eftir því hversu langt þær hafa náð á braut upplýsingar:

Ef áqvarða skyldi á hvørri upplýsingar trøppu ein þióð standi, nægir ecki að líta til þess einungis, hvað margar lærdóms og vísinda stiptanir eru í ríkinu, heldur á iafnframt að að giætast hvørt nytsøm þecking sé svo almenn hiá þióðinni, og hvørt sérhvørt stand hafi af henni svomikið, sem þess ástand og sýslanir heimta. Þetta ásamt þeckianligri, af hiátrú og fordómum friálsri skinsemi, er sá sanni mæliqvarði fyrir þjóðanna upplýsing.[242]

Tómas tekur þessa orðræðu upp. Upplýsingartrappan heitir hjá honum „menntunartrappa“ og það eru aðeins ein eða tvær þjóðir sem þar tróna efst „en hinar standa allar neðar“ (sbr. 287). Og með mælikvarða upplýsingarinnar er Berlín sú borg sem náð hefur hvað mestum þroska að mati Tómasar.[243] Þennan mælikvarða leggur hann líka á trúarbrögð þjóðanna og álítur að önnur trúarbrögð en hans eigin séu „ófullkomin“ (sbr. 255). Upplýs­ingarmenn upphófu skynsemina og tengdu hana við sjálfræði, frelsi, náttúru og guðdóm. Þeir trúðu á skynsemina og skoðuðu heiminn allan í ljósi hennar. Menn sáu fyrir sér að sag­an væri kom­in að endimörkum og maðurinn ætti skammt ófarið að hátindi þroskaferils síns. Þeir töldu að vestræn hugsun hefði þróast frá örófi alda úr hjátrú og villu til þekkingar og sannleika. Heimurinn allur var á framfarabraut. Þeir reiknuðu með því að hugtök héldu merkingu sinni ávallt óbreyttri og að hugmyndir þroskuðust líkt og lífverur náttúrunnar. Tómas lítur svo á að heimurinn standi aldrei í stað heldur sé ávallt í framför „frá myrkri til réttari og skýrari þekkingar“ (sbr. 134). Hann álítur að reynsla mannkyns og greind hafi aukist eftir því sem aldir liðu (sbr. 55) og segir að „guðabílæti“ forfeðranna séu gróf og klunnaleg vegna þess að þau voru gerð „meðan snilldin enn var í barnæsku“ (sbr. 59). Hann lítur á liðnar aldir sem hlekki í langri keðju: „En engin öld stendur út af fyrir sig, hún er jafn­an áföst við þær um­liðnu, hefir tekið í arf þeirra þekkingu og fært sér hana í nyt samkvæmt sínu eigin eðli“ (sbr. 114, sjá einnig 287). Í umfjöllun Tómasar um þýskar bókmenntir í Ferðabókinni eru hug­myndir hans um þróun og samhengi hlutanna afar greinilegar. Hann rekur sögulega þróun skáldskaparins frá ytri búningi reglna og lögmála til aukins frelsis and­ans og ímyndunarinnar (sbr. 118). Og tíminn sem hann sjálfur lifir á hefur yfirburði yfir allar umliðnar aldir (sbr. 121).[244] Þróunarhugmyndir Tómasar tengjast gagnvirku orsakalög­máli sem einkenndi hugs­unarhátt upplýsingarmanna. Það birtist t.d. í kenningum hans um tengsl loftslags og félags­legra aðstæðna fólks: „Er því ei að neita að þjóðirnar gjörast því drykkfelldari sem löndin þeirra verða kaldari; er og allur drykkjuskapur hráleika merki, á því og helzt heima hjá hinum lægri stéttunum meðan þar af eldir eftir nokkuð, og minnkar því að sama skapi sem þjóð­un­um fer fram í mannfelldri siðum (human dannelse)“ (186). Svipaða hugmynd má sjá í þeirri skoðun að fríðleikur kvenfólks fari eftir fegurð náttúrunnar, konur eru fríðari í Dresden en í Berlín því þar er landslagið fallegra (sbr. 219). Í Töplitz sannfærist Tómas um að tilfinninga­hiti suðlægra þjóða sé meiri en norðlægra en að þar sé skilningurinn minni (sbr. 227).[245] Tómas stillir sveit og borg upp sem andstæðum. Staða, skyldur og sýslanir konunnar eru mismunandi eftir búsetu, kinnrjóð og bosmamikil bóndakona er t.d. ekki eins nett eða lipur í snúningum eins og föl og fíngerð borgarkona. Tómas segir beinlínis að konur sem vinna erfiðisvinnu geti ekki verið fallegar: „Eftir því sem menntun vex er því í öllum löndum leitazt við að létta á konunum sem mestur striti, og þær látnar vera fremur til fegurðar og ánægju og hægrar framgöngu en til aðdrátta og slitlegra starfa, þar eð torveldliga verður hvörutveggja við komið“ (81). Þá er greinileg hneigð til flokkunar og kerfisbindingar í lýsingum í Ferða­bók Tómasar. Mönnum sem leita bjargræðis í dýraríkinu er skipt í tvo flokka og hvorum flokki í undirhópa (sbr. 308–12), listamenn eru flokkaðir eftir því hvort þeir eru „náttúru­málarar“ eða „sagnamálarar“ (sbr. 60) og skáldum má „með nokkrum rétti skipta í 2 greinar“ (115). Tilgangurinn með þessu er vafalítið sá að einfalda hlutina og stilla þeim upp sem and­stæðum svo auðveldara sé að skilja þá. Í ýmsum samanburði við Ísland eru hliðstæður not­aðar til skilningsauka og reynslan erlendis heimfærð upp á Ísland. Þegar Tómas skoðaði „gipsmót gjört eftir Svizaralandi“ óskaði hann þess að á Bessastöðum væri slíkt mót af Ís­landi (45), þegar hann skoðaði náttúrugripasafn í Berlín þótti honum leiðinlegt að hér væri ekki eitt einasta safn til (52) og sálmabók Þjóðverja var nýlega endurskoðuð en sálmabók Ís­lendinga löngu úrelt (176). Tómas sér jafnvel hliðstæður í ítölsku og íslensku landslagi því hann segir fjallasýn frá Róm vera svipaða og í Rangárvallasýslu (264).

Ferðabók Tómasar er sambland af ferðabók og ferðasögu. Hún er einkennilega hlutlæg og ópersónuleg af ferðasögu að vera en um leið er óvenju mikið af útúrdúrum miðað við Ferða­bók. Af efnistökum að dæma má ætla að hefði Tómasi unnist tími til að ljúka bókinni hefði hún orðið a.m.k. 1000 blaðsíður að lengd því honum lá afar mikið á hjarta og hafði mörg áform á prjónunum. Umræða um bókmenntir og trúarbrögð, menntamál, stofnanir og stjórn­arfar að ógleymdri heimspekinni er afar fyrirferðarmikil í ferðabókinni og ljóst er að Tómas hefur haft fastmótaðar skoðanir og mikla þekkingu á þessum efnum. Hann hefur einnig haft brennandi áhuga á skáldskaparfræði og var einn af frumherjum fagurfræði hér á landi.[246] Hér verður ekki farið nánar út í þá sálma enda beinist áhugi minn fyrst og fremst að ferða­langnum Tómasi sem skoðar sig um í heiminum af miklum áhuga og saklausri ánægju. Aldrei var hann iðjulaus, hver dagur var þaulskipulagður. Í Berlín t.d. hlustaði hann á fyrir­lestra í háskólanum eða skoðaði söfn fram að hádegi og fór að því búnu í leikhús, heim­sóknir eða í gönguferðir. Þess á milli las hann blöð og bækur og fór í kirkju. Á göngu­ferðum sínum dundaði hann sér við að mæla göturnar og kasta tölu á húsin, t.d. var lysti­vegur einn 1600 skref og við stræti nokkurt voru 251 hús (sbr. 39–40). Afþreyingin miðaði jafnan að því að skoða fyrst það sem ókeypis var og sjá svo til með afganginn. Yfirleitt var Tómas einn á ferð og virðist hafa kunnað þeim reisumáta afar vel. Í Prag var „barón Eich­städt“ með í för og var ætlunin að þeir skoðuðu borgina saman. Þeir félagar höfðu bundið fastmælum að fara aðeins þangað sem aðgangur væri ókeypis. Þrátt fyrir það lét baróninn leiðsögumanninn sýna þeim Maríumynd eftir Rafael sem selt var inn á og rukkaði Tómas svo um hans hlut. Þetta gramdist Tómasi mjög. Baróninn stóð ekki við orð sín og tók að auki fram fyrir hendurnar á Tómasi sem var vanur að haga ferðum sínum að eigin geðþótta. Um þetta þráttuðu þeir góða stund en sefuðust svo þótt Tómas ætti erfitt með að fyrirgefa baróninum og skildu „meinlausliga“ daginn eftir (sbr. 245). Í samskiptum þeirra birtist per­sónuleiki Tómasar í leiftursýn. Hann er sjálfum sér nógur, einbeittur og ráðríkur, orð­held­inn, hagsýnn án þess að vera nískur því hann getur haft gaman af prettum en þolir ekki frekju.[247] Hann er samt alls ekki sérlundaður einfari. Á ferðum sínum eignaðist hann marga vini og kunningja. Eitt það besta sem hann getur hugsað sér er að ganga um með vini sínum í lystigarði á fögru sumarkvöldi (sbr. 53). Og á langferðum reynir hann ávallt að kynnast samferðamönnum sínum og stytta sér stundir við að spjalla við þá. Hann segist vera leiður þegar hann sér fátt fólk á ferli og ekkert óvænt gerist en gleðst þegar hann hefur skoðað Berlín og kynnst vingjarnlegum borgarbúum (sbr. 36). Tómas var víðförlastur Íslendinga á sinni tíð og hann hefur verið vel meðvitaður um sérstöðu sína. Hann kallar sjálfan sig „hinn eina Íslending, sem vogaði sér út í veröldina.“[248] Hann veit að þeir sem eru „ístöðulitlir“ og kvíða því svo að yfirgefa öryggi heimahaganna að þeir halda sig á sömu þúf­unni alla ævi fara mikils á mis. Það lætur því vel í eyrum hans, kitlar jafnvel hégómagirndina aðeins, þegar samferðakonur dáist að hugrekki hans og finnst hann öfundsverður (sbr. 205). En ferðalögin breyta litlu um hleypidóma hans. Kaþólskir eru að hans mati fáfróðari en lútherstrúarmenn og Gyðingar eru skítugir, frekir og nískir. Tómas leit reyndar Tyrki öðrum augum en forverar hans eins og frægt er orðið en um leið merkti hann Grikki með sama stimpli og Tyrkir höfðu fyrr.

Tómas virðist yfirleitt hafa haldið sig sæmilega á meðan ferðaféð entist. Hann bjó í snyrti­legum herbergjum, borðaði góðan mat, svolgraði bjór og fékk jafnvel rakara til sín að morgni. Hann er einlægur og grunlaus á ferðalögum andstætt Hannesi Finnssyni sem ávallt var tortrygginn á reisum. Tómas taldi það „forsjálligast meðal ókunnra þjóða að dylja allan efa um trúnað þeirra sem maður á við að skipta og tala við þá einlæglega og sem kunningja meðan þeir ekki hafa gefið til annars neina átyllu“ (243). Annars lætur Tómas afar fátt uppi um líðan sína í Ferðabókinni og frásögnin er lítt fleyguð af persónulegum smámunum. Hlut­lægar og nytsamar lýsingar eru allsráðandi, tilfinningar höfundarins eru víðsfjarri þrátt fyrir yfirlýsingar í formála um að „köld orðavegun“ eigi ekki heima í slíkum bókum (sbr. 4). Markmið hans hefur ef til verið að skrifa huglæga ferðasögu en nytsemin, uppfræðingin og föðurlandástin eru svo fyrirferðarmikil að lítið svigrúm er fyrir frásagnir af persónulegum högum Tómasar. Skynsemin ber tilfinningarnar ofurliði.

Um miðja nítjándu öld eru ferðabækur mjög að ryðja sér til rúms bæði meðal Íslendinga og annarra þjóða. Nægir að nefna sem dæmi Ferðabók landfræðingsins Þorvalds Thoroddsens um Ísland á árunum 1883–99 (pr. fyrst 1913–14) og ferðadagbók Magnúsar Grímssonar þjóðsagnasafnara um vísindaferðir hans innanlands frá sumrinu 1848 (pr. 1988). Einnig má nefna lítt þekktar en skemmtilegar Ferðaminningar Sveinbjörns Egilssonar úr Hafnarfirði (f. 1863) en hann sigldi um öll heimsins höf og segir frá ævi sinni og ferðalögum á tæplega 400 blaðsíðum (pr. 1922), að ógleymdri frægri ferðasögu Eiríks á Brúnum til Kaupmannahafnar 1876. Um aldamótin 1900 þótti háðfuglinum Benedikt Gröndal nóg komið af svo góðu. Hann skopaðist að þessu bókmenntaformi með ferðasögu frá túngarðinum heima hjá sér til vinar síns sem bjó skammt frá. Hann skrifar:

Ég vaknaði einn morgun og – ég veit ekki hvernig það var – mig langaði allt í einu til að fara að gera eins og allir hinir, til að ferðast. En ég hafði enga peninga, fimm krónur átti ég í budd­unni og fjörutíu aura að auki, en það var of lítið til að ferðast til Þýskalands eða Noregs, og þótti mér það leiðinlegt, því þar hefði ég getað fengið að sjá svo margt merkilegt, smérgerð og ostagerð og margt þess konar.[249]

Þegar hér er komið sögu hefur ferðasagnaformið fest sig í sessi. Ferðasögur eru ekki lengur bókmenntaleg nýjung heldur angi af meiði hefðarinnar og skotspónn íroníu og paródíu. Í ferðasögu Gröndals er háðsglósu beint til Tómasar og allra þeirra ferðasagnahöfunda sem lögðu ofurkapp á að lýsa fróðlegum og merkilegum hlutum erlendis sem orðið gætu landi og þjóð til nytsemdar og upplýsingar. Tilgangsleysi ferðasögu Gröndals er algjört og felst ekki síst í því að þegar hann loksins er kominn á leiðarenda eftir langa mæðu er Halldór vinur hans ekki heima.

Á vegamótum

Sagt er að Íslendingar hafi verið einangruð þjóð. Langt norður í hafi kúrðu menn í fásinninu á hrjóstrugu landi umluktu úfnum útsæ. Þrátt fyrir að landið lægi afskekkt og samgöngur væru stopular voru þeir þó til sem afrekuðu að forframast erlendis og dvelja meðal annarra þjóða. Á ferðum sínum öðlust menn dýrmæta reynslu, þekkingu og menntun. Menn sáu sig um í heiminum, kynntust framandi þjóðum og sjálfum sér um leið. Fjölmargir ferðalangar frá fyrri tíð hafa horfið á vit gleymskunnar en þeim sem skrifuðu ferðasögu sína tókst að reisa sjálfum sér minnisvarða sem heldur nafni þeirra á lofti um ókomin ár. Margt svipað því sem á dagana dreif hjá t.d. Árna frá Geitastekk og Eiríki víðförla hafa aðrir farmenn orðið að reyna á sjóferðum sínum þótt ekki hafi það verið fært í letur. Magnús nokkur Stephensen, sonarsonur Stefáns amtmanns á Hvítárvöllum, sigldi t.d. um heimshöfin í tæpan aldarfjórð­ung og hafði frá mörgu að segja. Jón biskup Helgason kynntist honum í Kaupmannahöfn og segir: „Einnig Magnús kunni frá mörgu æfintýri að segja frá ferðum sínum, því að bæði hafði hann í ýmsar raunir ratað og var hins vegar maður skýr og athugull. En hann var enginn pennans maður og því hafði hann engar „minnisgreinar“ eftir sig látið, er hann fyrri part árs 1893 kvaddi þennan heim. En svo hefur verið um allan þorrann íslenzkra farmanna, sem útí heiminn fóru, og mun verða ekki síður hér eftir.“[250]

Milli syndaselsins Nikulásar Bergssonar og upplýsingarmannsins Tómasar Sæmundssonar er sjö alda löng saga ferðasagnaritunar. Fyrstu ferðabókmenntir Íslendinga einkennast af hlutlægni þar sem lýst er leiðum til helgra staða og taldar upp ýmsar staðreyndir sem komið gætu öðrum ferðalöngum að gagni. Leiðarvísir Nikulásar frá tólftu öld er með þessum hætti en erfitt er að fullyrða um efni ferðabókar Gizurar Hallssonar eða Björns Jórsalafara því bækur þeirra hafa glatast. Heimur Evrópumanna stækkkaði ört á fimmtándu og sextándu öld í kjölfar landafundanna miklu þegar verslunarsambönd við fjarlæga heimshluta komust á. Brátt tók að örla á vaknandi vitund um sérstöðu hvers og eins; einskonar sjálfsvitund var að koma til skjalanna. Sjálfsævisagnaritun hefst hérlendis á sautjándu öld en þá rita klerkarnir Ólafur Egilsson og Jón Magnússon píslar- og raunasögur sínar; annar segir af ánauð og her­leiðingu til Barbarísins, hinn af illum öflum sem hertóku sál hans og líkama. Reisubók séra Ólafs sem skrifuð var eftir Tyrkjaránið 1627 er fyrsta íslenska ferðasagan sem varðveist hef­ur í heilu lagi. Sérstæð reynsla úr samtímanum er færð í búning kristilegrar hefðar þegar Ólafur samsamar sig biblíusöguhetjunni Job en báðir lentu í miklum mannraunum. Með skrifum sínum tekst séra Ólafi að finna lífi sínu merkingu og sættast við Guð. Jón Ólafsson Indíafari reynir annað frásagnarform í ævi- og ferðasögu sinni frá 1661. Þar ægir saman margskonar efni sem Jón kemur til skila á skemmtilegan og lifandi hátt en ævintýraþrá og lífsgleði ein­kenna frásögn hans. Reisubók Jóns markar tímamót í íslenskum bókmenntum m.a. vegna þess að þar ratar samtíminn á blað en samkvæmt ríkjandi hefð var epísk fornöld viðfangsefni bókmenntanna eins og sjá má í rómönsum og rímum frá þessu tímabili. Jón var úr hópi al­múgafólks og það var Ásgeir Sigurðsson einnig en hann skrifaði ferðasögu sína undir lok sautjándu aldar. Úr huglægum texta Ásgeirs má lesa ýmislegt um þennan sérstæða manna sem er býsna berorður um skapgerðarbresti sína. Á átjándu öld hófst ritun fræðilegra ferða­bóka um Ísland og gætir þar áhrifa upplýsingarinnar. Höfundarnir eiga í togstreitu milli hug­lægni og hlutlægni og eru tvístígandi milli þjóðlegs menningararfs síns og hinna nýju vísinda þegar kemur að því að skýra dularfull fyrirbæri eða skipuleggja þekkingarforðann. Þrjár merkar utanferðasögur voru ritaðar á öldinni. Árni Magnússon frá Geitastekk ritaði ferða­­sögu sína um aldamótin 1800 en hann fór um heiminn þveran og endilangan. Árni var eng­inn venjulegur maður, víðförlastur Íslendinga allt fram á þessa öld og fyrstur þeirra til Kína. Ferðasaga Árna er huglæg, sjálfhverf og einkaleg. Hún er í ætt við endurminningar en á þessu tímaskeiði tók áhugi á persónusögu að láta á sér kræla eins og sjá má í fjölmörgum ævi­þáttum sem varðveist hafa í handritum frá sautjándu og átjándu öld og um líkt leyti blómstraði sjálfsævisagnaritun á meginlandi Evrópu. Árni segir sögu sína undanbragðalítið og er ekki að berja í brestina. Saga hans hefst á ferðalagi frá Íslandi 1753 og fellur síðan nið­ur fyrirvaralaust þegar hann kemur til landsins í þeim tilgangi að setjast í helgan stein en vitað er að hann sneri aftur til Danmerkur þar sem talið er að hann hafi borið beinin. Frásögn Árna er víða talmálskennd og tætingsleg og í bókarlok er ekki að sjá að stormana í sál hans hafi lægt á langri ævi. Hann er íslenskur Ódysseifur, á eilífu ferðalagi þar sem hver þolraun­in rekur aðra. Eiríkur Björnsson víðförli, samtímamaður Árna, kom til Kína aðeins þremur árum á eftir honum. Ferðasaga hans sem samin er 1768 er skipulega byggð frá upphafi til enda. Guðleg forsjón svífur yfir vötnum og er uppspretta merkingar í huga Eiríks. Ævin­týraþrá og forvitni um framandi lönd eins og Indland og Kína rekur hann af stað í upphafi. Honum svipar að því leyti til Gúllívers sem hafði ferðaástríðuna í blóðinu frá unga aldri og kom til hvers furðulandsins á fætur öðru. Hannes Finnsson var hinsvegar laus við alla ævin­týramennsku. Hann fór til Stokkhólms 1772 í virðulegum erindagjörðum og lýsir því í ferðasögu sinni af mikilli festu. Nokkrar örsnöggar svipmyndir út texta hans sýna óvenju þroskaðan mann sem tekur hlutina alvarlega. Vinur Hannesar og mágur, Magnús Stephen­sen konferenzráð, hélt ferðadagbók þegar hann fór til Kaupmannahafnar til að starfa við út­gáfu nýrrar Jónsbókar. Í Ferðarollu Magnúsar kynnist maður persónulegri hlið á hon­um sem lítið hefur farið fyrir hingað til. Þar birtist kotroskinn, miðaldra herramaður sem nýtur þess að kaupa smáglingur, sitja í fínum veislum, borða góðan mat og dreypa á eðalvíni og spjalla við helstu fyrirmenn samfélagsins. Maður fær nokkra samúð með honum því aug­ljóst er af dagbókinni að hann er fremri löndum sínum á flestum sviðum þótt ekki kynnu þeir að meta hann að verðleikum. Vissa Magnúsar um eigin yfirburði sem menn létu sér fátt um finnast hleypti upp hinum landsfræga beisklega hroka hans og einstrengingshætti sem enn loðir við nafn hans. Skáldið ástsæla Sigurður Breiðfjörð var bæði beiskur og breyskur. Í ferðabók hans sem segir frá Grænlandsdvöl á fjórða áratug nítjándu aldar má greina nokkra biturð en lífið hafði leikið hann grátt. Breyskleiki hans var áfengissýki og þegar hann hafði drukkið út allt sitt fé og meira til í Kaupmannahöfn var honum nauðugur einn kostur að fara til Græn­lands sem beykir. Sigurður lýsir siðum innfæddra með mismiklum hleypidómum en forðast að rita nokkuð um sjálfan sig. Séra Tómas Sæmundsson fylgir dæmi hans í ferðabók sinni um helstu Evrópulönd frá 1835. Þar eru áhrif upplýsingarinnar greinileg samhliða eld­heitri föðurlandsást.

Ef litið er á sögulegt samhengi íslenskra ferðasagna til 1835  má rekja upphafið til hlutlægra  leiðarvísa eða ferðahandbóka. Brátt komu mis-safaríkar sjálfsævisögulegar ferðasögur sem skrifaðar voru til fróðleiks og skemmtunar sem ýmist fylgdu bóklegri hefð samtímans eða voru algerlega á skjön við hana. Loks komu hlutlægar ferðasögur sem ætlaðar eru fyrst og fremst til að upplýsa íslenskan almenning og hvetja hann til dáða og vekja áhuga á viðreisn föðurlandsins. Á eftirfarandi töflu má sjá í grófum dráttum hvernig íslenskar ferðabók­menntir skiptast eftir hlutlægni og huglægni í frásagnarhætti og hvernig greina má „hefð og nýsköpun“ í efnistökum. Hér er vitaskuld um mikla einföldun að ræða:

Vinstra megin í töflu þessari ráða hlutlægni og hefð mestu og þar halda höfundarnir persónu­leika sínum að mestu utan við. Framsetning efnis er í anda bóklegrar hefðar samtímans og lýsingar á landslagi og þjóðháttum í öndvegi. Hægra megin í töflunni eru ferðasögur þar sem ekki er fylgt eða jafnvel hlaupist undan formkröfum hefðarinnar. Þar er vitund um sjálf og samtíma farin að láta á sér kræla og meira segir af einkalegum högum höfundar og tilfinn­ingalegum upplifunum hans á því sem fyrir augu ber. Síðastur í röð þeirra ferðasagnahöf­unda sem hér er fjallað um er séra Tómas Sæmundsson en hann stendur á vegamótum sjálfs og samfélags, tilfinninga og skynsemi í ferðabók sinni. Hann velur þá leið að skrifa um reynslu sína af öðrum þjóðum með hag föðurlands síns fyrir augum og lætur sem minnst uppi um sjálfan sig. Hér lokast hringurinn því Tómas er að þessu leyti sporgöngumaður brautryðjandans Nikulásar ábóta sem skrifaði Leiðarvísi sinn til upplýsingar fyrir íslenska pílagríma.

Telja má víst að innlend sagnahefð hafi haft áhrif á og stuðlað að ferðasagnaritun hér á landi. Utanfarir eru algengt minni t.d. í Íslendingasögum og -þáttum, konungasögum, biskupa­sög­um og fornaldarsögum. Einnig má ætla að ferðasagnaritun í Evrópu hafi haft sín áhrif. Að minnsta kosti kannaðist Hannes Finnsson við ferðasögur Rabeners, Andersons og Linnés, Sveinn Pálsson þekkti ferðasögu von Troils og Tómas Sæmundsson hafði lesið fjölda er­lendra ferðasagna. Að auki þekktu Íslendingar nokkuð til ferðabóka útlendinga um Ísland og voru síst ánægðir með þá mynd sem þar var dregin upp af þeim. Heimsmynd manna á fyrri öldum mótaðist m.a. af alfræðiritum og ferðasögum sem voru gluggi til um­heimsins á tímum þegar útsýni yfir veröldina var afar takmarkað. Í þeim ritum eru ýmsar ýkjusögur sagðar um önnur lönd þar sem hrollvekja og fantasía eiga leik í frásögnum af fáránlegum mannskepnum og furðudýrum. Svipaðan hroll gætu ferðasagnahöfundar hafa skapað t.d. með lýsingum á grimmilegum viðurlögum við glæpum, undarlegum trúarbrögðum og framandi menningu ókunnra þjóða sem koma fyrir í svo til öllum ferða­sögum. Eftirfarandi frásögn er úr handriti um landafræði og fleira sem skrifarinn góði Þor­steinn Þorsteinsson á Heiði í Sléttuhlíð krot­aði upp um miðja nítjándu öld:

Indíaland hefur nafn af því það er endimörk austurálfunnar. Þetta sama land liggur með úthafinu allt til heims enda. Það háa fjall Chankas er austanvert á því Indíalandi, hefur í sér margar þjóðir og fjölbyggða stórstaði. Þar fæðast menn með margra handa sköpun svo sumir hafa hunds höfuð, eru þeir í sumum stöðum taldir með skynlausum skepnum. Þar fæðast og jötnar sem hafa ei nema eitt auga og það er á miðju enni og eta ekki utan dýrakjöt. Þar byggir og sú þjóð sem er svo stór að þeir eru 12 fóta háir og búa á fjallbyggðinni. Sumir eru ei meir en álnar háir þar eru sumir sem geta börn 5 vetra og lifa ei lengur en 8 vetur…[251]

Í Almennri Landaskipunarfræði hafa Indverjar öllu mennskara yfirbragð en í uppskrift Þor­steins. Fordómar eru þó enn við lýði en Indverjar eru þar sagðir vera fáfróðir, hjátrúarfullir, fast­heldnir við forna villu og tregir til umbóta, óviðkvæmir og ástríðulausir, seinvirkir, frið­samir, sparneytnir og afar hreinlátir.[252] Svo virðist sem frásagnir Jóns Indíafara, Eiríks víð­förla og Árna frá Geitastekk, sem allir komu til Indíalanda og lýstu dvöl sinni þar í ferða­sög­um sínum, hafi ekki hrakið tröllasögur á borð við þessar. Að minnsta kosti lifðu þær góðu lífi við hlið hinna raunsönnu ferðasagna. Sumir ferðalangarnir höfðu fordóma í farteski sínu sem þeir hvorki vildu né gátu lagt niður. Eiríkur víðförli hafði hlotið ákveðnar hug­myndir um Tyrki í arf og þegar hann sá til þeirra álengdar á ferðum sínum finnst hann hik­laust að þeir hafi verið loðnir og haft hundshöfuð. Erfitt er að segja til um hvort raunsannar ferðasög­ur hafi breytt þeim skoðunum sem menn höfðu þegar myndað sér á veröldinni. Sú landa­fræði sem birtist í skálduðum ævintýraferðasögum, rómönsum, fornsögum og ýkju­kenndum fræðiritum um heimskringluna virðist hafa verið furðu lífseig.

Ferðasögur hafa ekki alltaf þótt merkilegar og menn hafa löngum talið að þær ættu lítið erindi í bókmenntalega umræðu. Allmargar liggja og rykfalla í bókhlöðum, engum til gagns eða gleði. Ferðabækur sem voru bendlaðar við vísindaleg vinnubrögð og hlutlægni voru yfirleitt prentaðar fljótlega eftir að þær eru skrifaðar – nema ferðabók Sveins Pálssonar – en aldir líða frá því menn hripuðu ferðasögu sína á blað og þar til hún kemst á prent. Áhugi minn hefur fyrst og fremst beinst að skrifum úr fórum ferðalanga þar sem samtímaleg reynsla og sjálf eiga sér birtingarhátt – þar sem sjálfsmynd manna er í mótun. Sjálfsmynd einstaklinga og þjóða er merkilegt og flókið fyrirbæri sem verður til í samskiptum við fólk og aðrar þjóðir. Þörf Íslendinga fyrir staðfestingu á sjálfsmynd er hvergi augljósari en í spurningunni „Há dú jú læk Æsland?“ sem erlendir ferðamenn á Íslandi verða gjarnan að svara.[253] Í ferðasögum birtist vel afstaða manna til sjálfs sín og þjóðar sinnar, sögu og menningar í gegnum  viðhorf þeirra til annarra þjóða og til að gera sér grein fyrir auðkennum eigin þjóðar er því vænlegt að bera hana saman við aðrar þjóðir. Hinir vegmóðu Íslendingar sem það gerðu komust að því að margt væri skrýtið í veröldinni. Sumir sáu með eigin augum að fátæktin var víðar en á Íslandi, nokkrum sýndist allt betra sem útlenskt var og öðr­um blöskraði hversu langt Íslend­ingar áttu í land hvað viðreisn og framfarir föðurlandsins varðaði. Í utanferðasögunum kem­ur vel fram hversu sterk tengsl menn hafa við Ísland þótt þeir unni því mismikið. Þrátt fyrir margvísleg kynni af siðmenntuðum heimsborgum og sól­ríkum pálmaströndum sneru utan­landsfararnir allir aftur til íslenskra þokustranda að undan­skildum Árna frá Geitastekk og Eiríki víðförla. Hinstu spor þeirra tveggja hurfu inn í danska dalalæðu. En ekki er hægt annað en að dást að öllum þeim íslensku ferðalöngum fyrri alda sem lögðu ótrauðir út í óvissuna í saklausri ánægju með einungis „handfylli af vaxi og kaðalhönk“ til að verjast söng sírenanna líkt og Ódysseifur forðum.

Heimildir

Adams, Percy G. 1983. Travel Literature and the Evoulution of the Novel. Lexington, The University Press of Kentucky.

Adams, Precy G. 1988.Travel Literature Through the Ages. An Anthology. New York og London, Garland Publishing, inc.

Alfræði íslensk I. 1908–1918. Kaupmannahöfn, Samfund til udgivelse af gammel nordisk Literatur.

Almenn landaskipunarfræði. 1821–1827. Kaupmannahöfn, Hið íslenzka Bókmenta­félag.

Annálar 1400–1800. Annales Islandici posteriorum sæculorum. I. bindi. 1922–27. (Nýi annáll, Vallaannáll). Reykjavík, Hið íslenzka Bókmentafélag.

Annálar 1400–1800. Annales Islandici posteriorum sæculorum. II. bindi. 1927–32. (Fitja­annáll). Reykjavík, Hið íslenska Bókmentafélag.

Annálar 1400–1800. Annales Islandici posteriorum sæculorum. III. bindi. 1933–38. (Eyrar­annáll). Reykjavík, Hið íslenzka Bókmentafélag.

Arne Magnussons Private Brevveksling. 1920. København, Kommissionen for det Arna­magnæanske Legat, Gyldendalske Boghandel, Nordisk forlag.

Aschehoug og Gyldendals store norske leksikon. 1988. „Reiseskildring.“ 11. bindi. Oslo, Kunnskapsforlaget.

Árbækur Espólíns. 1825. IV. deild. Íslands Árbækur í sögu-formi af J. Espolin, syslumanni í Skagafiardar Syslu. Kaupmannahöfn, á kostnað ens Is­lendska Bókmentafélags.

Árni Magnússon frá Geitastekk. 1945. Ferðasaga Árna Magnússonar frá Geitastekk 1753–1797, samin af honum sjálfum. Reykjavík, Bókaútgáfan Heimdallur.

Árni Sigurjónsson. 1995. Bókmenntakenningar síðari alda. Reykjavík, Heimskringla, Há­skólaforlag Máls og menningar.

Ásgeir Sigurðsson. 1932–5. Ferðasaga Ásgeirs Sigurðssonar snikkara frá 17. öld. Blanda. Fróð­leikur gamall og nýr. V. bindi, bls.5–21. Reykjavík, Sögufélag.

Bakhtin, M. M. 1981. The Dialogic Imagination. Austin, University of Texas Press.

Barthes, Roland. 1976. Sade. Fourier. Loyola. Translated by Richard Miller. New York, Hill and Wang.

Barthes, Roland. 1984. Camera Lucida. Reflections on Photography. Translated by Richard Howard. London, Fontana Paperbacks .

Batten, Charles L. 1978. Pleasurable Instruction. Form and Convention in Eighteenth-Cent­ury Travel Literature. Berkeley, University of California Press.

Benedikt Gröndal. 1982. Ferðasaga heimanað til Halldórs Þórðarsonar. Ritgerðir og bréf. Rit, II. bindi, bls. 240–58. Hafnarfirði, Skuggsjá og Bókabúð Olivers Steins.

Bergljót Kristjánsdóttir o.fl. 1988. „Inngangur“ að Skýringar og fræði. Sturlunga saga, III. bindi. Reykjavík, Svart á hvítu.

Biblían. Heilög ritning. 1981. Reykjavík, Hið íslenska biblíufélag.

Björn Þorsteinsson, Guðrún Ása Grímsdóttir. 1989. Norska öldin. Saga Íslands IV. bindi. Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, Sögufélag.

Björn Karel Þórólfsson. 1945. „Formáli“. Ferðasaga Árna Magnússonar frá Geitastekk 1753–1797, samin af honum sjálfum, bls. 5–16. Reykjavík, Bókaútgáfan Heimdallur.

Bogi Th. Melsteð. 1907–1915. Ferðir, siglingar og samgöngur milli Íslands og annara landa á dögum þjóðveldisins. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta af fornu og nyju, IV. bindi, bls. 585–907. Kaupmannahöfn og Reykjavík, Hið Ís­lenzka Bókmentafélag.

Bréf Tómasar Sæmundssonar. Gefin út á hundrað ára afmæli hans 7. júní 1907. Jón Helga­son bjó til prentunar. Reykjavík, Sigurður Kristjánsson.

Byskupa sögur I.1953. Reykjavík, Íslendingasagnaútgáfan, Haukadalsútgáfan.

Böðvar Guðmundsson. 1993. Nýir siðir og nýir lærdómar – bókmenntir 1550–1750.Íslensk bókmenntasaga, II. bindi, bls. 379–521. Reykjavík, Mál og menning.

The Cambridge Bibliography of English Litterature. 1940. Vol. II, 1660–1800. Cambrigde, Cambridge University Press.

Compton-Richett, Arthur.1931. „Earlier Renascence, The Call of the Sea….“ A History of English Literature. London, T.C. & E.C. Jack ltd.

Diplomatarium Islandicum, sjá Íslenzkt fornbréfasafn.

Dobrée, Bonamy. 1959. „Letters, Memoirs, Travel.“ English Literature in the early eigh­teenth century. 1700–1740. Oxford, Oxford University Press.

Edwards, Philip. 1988. Last Voyages. Cavendish, Hudson, Ralegh. The Origin­al Narra­tives. Oxford, Clarendon Press.

Einar Arnórsson. 1954. Suðurgöngur Íslendinga í fornöld. Saga. Tímarit Sögufélags II, bls. 1–45.

Eiríkur Björnsson [víðförli]. Sjá Óprentaðar heimildir.

Eiríkur Hreinn Finnbogason. 1961. Sigurður Breiðfjörð og Grænlandssaga hans. Frá Græn­landi, eftir Sigurð Breiðfjörð, bls. 7–27. Reykjavík, Bókfellsútgáfan.

Elín Bára Magnúsdóttir. 1994. Af sálarháska Jóns Indíafara. Skáldskaparmál 3, bls. 153–168. Reykjavík, Stafaholt hf.

Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. I–II. 1974. Steindór Steindórs­son íslenzkaði. Reykjavík, Örn og Örlygur.

Ferðabók Sveins Pálssonar, dagbækur og ritgerðir 1791–1797. 1983. Fært í íslenzkan bún­ing af þeim Jóni Eyþórssyni o.fl. Reykjavík, Snælandsútgáfan.

Flosi Björnsson. 1975. „Varða Sveins Pálssonar í Kvískerjafjöllum.“ Árbók Fornleifa­félagsins 1974, bls. 143–6. Reykjavík, Ísafoldarprentsmiðja.

Foucault, Michel. 1994. The Order of Things. An Archeology of the Human Sci­ences. [Þýðanda ekki getið (Les mots et les choses)]. New York, Random House.

Frye, Northop. 1957. Third Essay. Archetypal Criticism: Theory of Myths. Anatomy and Criticism, bls. 131–239. New Jersey, Princeton University Press.

Friedman, Norman. 1975. Form and Meaning in Fiction. Athens, University of Georgia Press.

Glöggt er gests augað. 1946. Úrval ferðasagna um Ísland. Sigurður Grímsson annaðist útgáfuna. Reykjavík, Menningar- og fræðslusamband alþýðu.

Great Travel Stories of All Nations. 1932. London, Georg G. Harrap & co. ltd.

Guðrún Guðlaugsdóttir. 1996. Í fótspor fornra syndasela. Viðtal við Magnús Jónsson. Morgunblaðið (B), 18. ágúst.

Guðrún Ása Grímsdóttir. 1989. Sjá Björn Þorsteinsson.

Guðrún Ása Grímsdóttir. 1995. Úr Tyrkjaveldi og bréfabókum. Gripla IX, bls. bls. 7–44. Reykjavík, Stofnun Árna Magnússonar.

Guðrún M. Ólsen. 1994. Frúin frá Vín og Íslendingar á miðri 19. öld. Ímynd Íslands, bls. 19–33. Reykjavík, Stofnun Sigurðar Nordals.

Hafnarstúdentar skrifa heim. 1963. Íslenzk sendibréf. IV. Reykjavík, Bókfellsútgáfan.

Halldór Laxness. 1968. Kristnihald undir jökli. Reykjavík, Helgafell.

Hannes Finnsson. 1934. Stokkhólmsrella. Andvari 59. árg., bls. 16–67. Reykjavík, Hið íslenzka þjóðvinafélag.

Hannes Þorsteinsson. 1902. „Formáli og athugasemdir“ við Ritgerð Jóns lærða um ættir o.fl. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju,  III. bindi, bls. 703–28. Kaupmannahöfn, Hið íslenska bókmenntafélag.

Hannes Þorsteinsson. 1921–3. [Inngangur]. Ferðasaga úr Borgarfirði vestur að Ísafjarðar­djúpi  sumarið 1709,ásamt lýsingu á Vatnsfjarðarstað og kirkju, eptir Jón Eyjólfsson í Ási í  Melasveit. Blanda. Fróðleikur gamall og nýr, II. bindi, bls. 225–6. Reykjavík, Sögufélag.

Haraldur Sigurðsson. 1961. „Inngangur.“ Bréf frá Íslandi, eftir Uno von Troil. Reykja­vík, Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

Haraldur Sigurðsson. 1990. Náttúruvísindi og landafræði. Upplýsingin á Íslandi. Tíu rit­gerðir. Bls. 269–292. Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag.

Hazard, Paul. 1954. The European Thought in the Eighteenth Century. London, Hollis & Carter.

Helgi Grímsson. 1944–8. Sagan af því, hversu Þórisdalur var fundinn. Blanda. Fróð­leikur gamall og nýr. VIII. bindi, bls. 333–355. Reykjavík, Sögufélag.

Holtsmark, Anne. 1962. „Itinerarier.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middel­alder. 7. bindi. Reykjavík, Bókaverzlun Ísafoldar.

Horrebow, Niels. 1966. Frásagnir um Ísland. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenzkaði. Reykjavík, Bókfellsútgáfan h.f.

Hume, Kathryn. 1984. Fantasy and Mimesis. Responses to Reality in Western Literature. New York, Methuen.          

Ingi Sigurðsson. 1982. „Inngangur“. Upplýsing og saga. Sýnisbók sagnaritunar Íslendinga á upplýsingaröld, bls. 7–50. Reykjavík, Rannsóknastofnun í bók­menntafræði og Menn­ingarsjóður.

Íslenzkar æviskrár frá landnámstíð til ársloka 1940. 1948. I. bindi. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag.

Íslenzkar æviskrár frá landnámstíð til ársloka 1940. 1952. V. bindi. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag.

Íslenzkt fornbréfasafn. Diplomatarium Islandicum. 1896. III. bindi, 1269–1415. Kaup­mannahöfn, Hið íslenzka bókmenntafélag.

Íslenzkt fornbréfasafn. Diplomatarium Islandicum. 1911. X. bindi, 1169–1537. Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag.

Íslenzkt fornbréfasafn. Diplomatarium Islandicum. 1915. XI. bindi, 1310–1544. Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag.

Íslenskur söguatlas 2. 1992. Frá 18. öld til fullveldis. Reykjavík, Iðunn.

Janus Jónsson. 1914. Björn bóndi Jórsalafari. Fimm alda dánarminning. Andvari, 39. árg. bls. 143–159. Reykjavík, Hið íslenzka þjóðvinafélag.

Jakob Benediktsson. 1968. „Formáli.“ Brevis Commentarius de Islandia 1593, eftir Arn­grím Jónsson,  bls. V–XXXII. Íslenzk rit í frumgerð. II. bindi. Reykjavík, Endurprent s/f.

Jón Guðmundsson [lærði]. 1902. Um ættir og slekti sem og annað fleira nokkra manna á Íslandi, uppteiknað eptir Jóni sáluga Guðmundssyni 1688. Safn til sögu Íslands og ís­lenzkra bókmenta að fornu og nýju. III. bindi. Kaupmannahöfn, Hið íslenzka Bók­mentafélag.

Jón Eiríksson, sjá Páll Vídalín.

Jón Eyjólfsson. 1921–3. Ferðasaga úr Borgarfirði vestur að Ísafjarðardjúpi sumarið 1709, ásamt lýsingu á Vatnsfjarðarstað og kirkju. Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. II. bindi, bls. 226–239. Reykjavík, Sögufélag.

Jón Eyþórsson. 1983. „Um höfundinn“. Ferðabók Sveins Pálssonar I, bls. XV–XXXII. Reykjavík, Örn og Örlygur.

Jón Helgason. 1936. Hannes Finnsson. Biskup í Skálholti. Reykjavík, Ísafoldarprent­smiðja.

Jón Helgason. 1941. Tómas Sæmundsson, æfiferill hans og æfistarf. Reykjavík, Ísafoldar­prentsmiðja.

Jón Helgason. 1931. Íslendingar í Danmörku fyr og síðar. Reykjavík, Íslandsdeild dansk-íslenzka félagsins.

Jón Ólafsson [Indíafari]. 1992. Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara, samin af honum sjálf­um (1661). Reykjavík, Mál og menning.

Jón Þorkelsson. 1895. „Formálsorð nokkur“. Saga Jóns Espólíns hins fróða, sýslu­manns í Hegranesþingi. Rituð af sjálfum honum í dönsku máli, en Gísli Konráðs­son færði hana á íslenzkt mál, jók hana og hélt henni fram, bls. III–XLII. Kaupmanna­höfn, Sig­urður Kristjánsson.

Jón Þorkelsson. 1906–9. „Formáli.“ Tyrkjaránið á Íslandi 1627, bls. I–XLVI. Reykja­vík, Sögufélagið.

Kålund. 1913. En islandsk vejviser for pilgrimme fra 12. århundrede. Alfræði íslensk. I. bindi. Kaupmannahöfn, Samfund til udgivelse af gammel nordisk Literatur.

Kafka, Franz. 1993. Þögn sírenanna. Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson þýddu úr frummálinu. Bjartur og frú Emilía, tímarit um bókmenntir og leiklist, nr. 10, bls. 10-11.

Kólumbus, Kristófer. 1992. Leiðarbækur úr fyrstu siglingunni til Indíalanda 1492–1493. Sigurður Hjartarson þýddi, ritaði formála og samdi skýringar. Reykja­vík, Uglan.

Kristján Sveinsson 1994. Viðhorf Íslendinga til Grænlands og Grænlendinga á 18., 19. og 20. öld. Saga, tímarit Sögufélags, XXXII, bls. 159–210. Reykjavík, Sögufélag.

Kundera, Milan. 1993. Vegir í þoku. Friðrik Rafnsson þýddi úr frönsku. Bjartur og frú Emilía, tímarit um bókmenntir og leiklist, nr. 10, bls. 102–127.

Lára Magnúsardóttir. 1993. Heimsmynd almúgafólks á 18. öld. Óprentuð ritgerð til B.A. prófs í sagnfræði. Í vörslu Háskólabókasafns.

Loftur Guttormsson. 1983. Bernska, ungdómur og uppeldi á einveldisöld. Reykja­vík, Sagn­fræðistofnun Háskóla Íslands.

Magnús Stephensen. 1822–3. Utvaldar Smá-Søgur, Almenníngi til Fróðleiks og Skemtunar. Viðey, höfundur gaf út.

Magnús Stephensen. 1947. Magnús Stephensen, skráð af honum sjálfum. Merkir Íslending­ar. Ævisögur og minningargreinar. II.bindi, 66–137. Reykjavík, Bókfells­útgáfan.

Magnús Stephensen. 1962. Ferðarolla Magnúsar Stephensen. Reykjavík, Bókfells­útgáfan.

Matthías Viðar Sæmundsson. 1990. „Íslands er þjóð, öll sökkt í blóð.“ Tyrkjarán og Spán­verjavíg. Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags,164. árg. bls. 327–361.

Matthías Viðar Sæmundsson. 1991. Höndin og fleygurinn. Um ljósmyndun og ljósmyndir. Myndir á sandi. Greinar um bókmenntir og menningarástand, bls. 60–76. Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.

Matthías Viðar Sæmundsson. 1992. Var þá þytur í loftinu. Frá rúnaristum til dauðsmanns­beina. Galdrar á Íslandi, bls. 15–191. Reykjavík, Almenna bókafélagið.

Matthías Viðar Sæmundsson. 1996. Bókmenntir um sjálfið. Sjálfsævisögur og ferðafrá­sagnir. Hluti af handriti að kafla um upplýsingaröld í Bókmenntasögu III, bls. 85–114.

Matthías Þórðarson. 1944. Vínlandsferðirnar. Nokkrar athugasemdir og skýringar. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta að fornu og nýju, VI. bindi. Reykja­vík, Hið ísl­enzka bókmenntafélag.

Mulvey, Christopher. 1983. „Preface“. Anglo-American Landscapes. A Study in Nine­teenth-Century Anglo-American Travel Literature. Cambridge, Cam­bridge University Press.

Nikulás Bergsson. 1988. Leiðarvísir og borgaskipan. Sturlunga saga. III. bindi. Skýr­ingar og fræði. bls. 49–65. Reyykjavík, Svart á hvítu.

Oddur Sigurðsson. 1951. Vita Odds Sigurðssonar (ex autographo [eftir eiginhandarriti] af honum sjálfum samansett og skrifuð in decembri anno 1727). Merkir Íslendingar. Ævisögur og minningagreinar. V. bindi, bls. 1–35. Reykjavík, Bókfellsútgáfan.

Olavius, Ólafur. 1964–5. Ferðabók I–II. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenzkaði. Reykjavík, Bókfellsútgáfan h.f.

Orlandi, G. 1995. „Reisebeschreibungen.“ Lexikon des Mittelalters, VII. bindi. Mün­chen, Lexma Verlag.

Ottars og Ulfstens korte Reiseberetninger. 1815. Med dansk Oversættelse, kritiske Anmærkninger og andre Oplysninger, af R. Rask. Af det skand­inaviske Litteratursel­skabs Skrifter, 11. árg.

Ólafur Davíðsson. 1931. Eiríkur víðförli. Fjórar sögur, bls. 3–32. Reykjavík, Ísafoldar­prentsmiðja.

Ólafur Egilsson. 1969. Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Sverrir Kristjánsson sá um útgáf­una. Reykjavík, Almenna bókafélagið.

Ólafur Halldórsson. 1978. Grænland í miðaldaritum. Reykjavík, Sögufélag.

Pascal, Roy. 1960. Design and Truth in Autobiography. Massachusettes, Cambridge Uni­versity Press.

Páll Eggert Ólason. 1922. Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi. II. bindi, Ög­mundur Pálsson, Gizurr Einarsson og samherjar hans. Reykjavík, Bóka­verzlun Guð­mundar Gamalíelssonar.

Páll Eggert Ólason. 1924. Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi. III. bindi,  Guðbrandur Þorláksson og öld hans. Reykjavík, Bókaverzlun Ársæls Árnasonar.

Páll Eggert Ólason. 1926. Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi. IV. bindi,  Rithöf­undar. Reykjavík, Bókaverzlun Ársæls Árnasonar.

Páll Eggert Ólason og Þorkell Jóhannesson. 1954. Saga Íslendinga. VI. bindi. 1701–1770. Reykjavík, Menntamálaráð og Þjóðvinafélag.

Páll Vídalín, Jón Eiríksson. 1985. Um viðreisn Íslands. Deo, Regi, Patriæ. Steindór Stein­dórsson frá Hlöðum íslenskaði. Reykjavík, Örn og Örlygur.

Peyre, Henri. 1978. Reflections on the Literature of Travel. Travel, Quest and Pilgrim­age As a Literary Theme, s. 7–23. Michigan, Society of Spanish and Spanish-American Studies.

Reisubók séra Ólafs Egilssonar. 1969. Sverrir Kristjánsson sá um útgáfuna. Reykja­vík, Almenna bókafélagið.

Sigfús Blöndal. 1914. Um Víðferlis-sögu Eiríks Björnssonar. Afmælisrit til dr. phil. Kr. Kålund, bls. 48–65. Kaupmannahöfn, Hið íslenska fræðafjelag.

Sighvatur Grímsson [Borgfirðingur]. 1912. Sigurður Breiðfjörð. Fyrirlestur fluttur á skír­dag  1912 í alþýðufræðslu stúdentafélagsins í Reykjavík. Ljóðasmámunir og frá Græn­landi. Reykjavík, Sigurður Erlendsson.

Sigurður [Eiríksson] Breiðfjörð. 1912. Ljóðasmámunir og frá Grænlandi. Reykjavík, Sigurður Erlendsson.

Sigurður [Eiríksson] Breiðfjörð. 1961. Frá Grænlandi. Reykjavík, Bókfellsútgáfan.

Sigurður Gylfi Magnússon. 1995. „Ég er 479 dögum ýngri en Nilli“. Dagbækur og daglegt líf Halldórs Jónssonar frá Miðdalsgröf. Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmenntafél­ags.169. árg. bls. 309–347.

Sigurður Þórarinsson. 1983. Bellmaniana. Árni Sigurjónsson sá um útgáfuna. Reykjavík, Ísafoldarprentsmiðja.

Skrá um handritasöfn Landsbókasafns. 1935–1937. III. bindi. Samið hefir Páll Eggert Óla­son. Reykjavík, Ríkisprentsmiðjan Gutenberg.

Stefán Einarsson. 1961. Íslensk bókmenntasaga 874–1960. Reykjavík, Snæbjörn Jónsson og co. ltd.

Steindór Steindórsson [frá Hlöðum]. 1964. „Formáli þýðanda.“ Ferðabók I eftir Ólaf Olav­ius, bls. vii–xvi. Reykjavík, Bókfellsútgáfan h.f.

Steindór Steindórsson [frá Hlöðum].1974. „Formáli“. Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, bls. XIII–XXXII. Reykjavík, Örn og Örlygur.

Steingrímur Thorsteinsson. 1947. Tómas Sæmundsson. Merkir Íslendingar. Ævi­sögur og minningagreinar. I. bindi, bls. 149–62. Reykjavík, Bókfellsútgáfan.

Sturlunga saga I. 1954. Reykjavík, Íslendingasagnaútgáfan, Haukadalsútgáfan.

Sutherland, James. 1969. „The Literature of Travel.“ The Oxford History of English Litera­ture. Oxford, Oxford University Press.

Svanhildur Gunnarsdóttir. 1995. Sagan af þeim engelska og nafnfræga Berthold. (1756). Uppruni  og umhverfi þýddrar skáldsögu. Óprentuð ritgerð til M.A. prófs í íslenskum bók­­menntum. Í vörslu Háskólabókasafns.

Sverrir Kristjánsson. 1966. Ástmögur Iðunnar. Í veraldarvolki. Íslenzkir örlaga­þættir, bls. 13–148. Reykjavík, Forni.

Sverrir Tómasson. 1988. Formálar íslenskra sagnaritara á miðöldum. Rannsókn bókmennta­hefðar. Reykjavík, Stofnun Árna Magnússonar.

Torfi H. Tulinius. 1993. Kynjasögur úr fortíð og framandi löndum. Íslensk bókmennta­saga II, bls. 167–245. Reykjavík, Mál og menning.

Tómas Sæmundsson. 1835. Úr bréfi frá Íslandi, dagsettu 30ta jan. 1835. Fjölnir. Ársrit handa Íslendingum. Fyrsta ár. Samið, kostað og gefið út af Brynjúlfi Péturssyni o.fl.

Tómas Sæmundsson. 1947. Ferðabók Tómasar Sæmundssonar. Jakob Benediktsson bjó undir prentun. Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag.

Tyrkjaránið á Íslandi 1627. 1906–9. Dr. Jón Þorkelsson annaðist útgáfuna. Reykjavík, Sögufélagið.

Uggla, Arvid Hj. 1935. „Innledning“. Stockholmsrella, av Hannes Finnsson, bls. 5–12. Stockholm, Lars Hökerbergs Förlag.

Vásquez-Bigi. 1978. Lunarians and Lunatics from Aphra Behn to Goldoni-Haydn:  Don Quixotes and Harlequins of Extraterrestrial Travel. Travel, Quest and Pilgrimage As a Literary Theme, bls. 139–152.Michigan, Society of Spanish and Spanish-American Studies.

Vilhjálmur Þ. Gíslason. 1923. Íslensk endurreisn. Tímamótin í menningu 18. og 19. aldar­innar. Reykjavík, Þorsteinn Gíslason.

Völundur Óskarsson. 1992. „Inngangur.“ Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara, samin af honum sjálfum (1661), bls. xii–xxxi. Reykjavík, Mál og menning.

Þorkell Jóhannesson. 1954. Sjá Páll Eggert Ólason.

Þorsteinn Helgason 1995. Hverjir voru Tyrkjaránsmenn? Saga, tímarit Sögufélags XXXIII, bls. 111–134.

Þorsteinn [Jónsson] frá Hamri. 1987. Sigurður Breiðfjörð og hundurinn Pandór. Ætternis­stapi og átján vermenn. Þættir. Bls. 63–70. Reykjavík, Tákn.

Þorsteinn Vilhjálmsson. 1990. Raunvísindi á miðöldum. Íslensk þjóðmenning, VII. bindi, bls. 2–50. Reykjavík, Bókaútgáfan Þjóðsaga.

Þorsteinn Þorsteinsson. 1935. Magnús Ketilsson sýslumaður. Reykjavík, Fjelagsprent­smiðjan.

Þorvaldur Thoroddsen. 1892–6. Landfræðissaga Íslands. Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun þess og rannsóknir, fyrr og síðar. I. bindi. Kaup­mannahöfn, Hið ís­lenzka bókmenntafjelag.

Þorvaldur Thoroddsen. 1898. Landfræðissaga Íslands. Hugmyndir manna um Ísland, nátt­úruskoðun þess og rannsóknir, fyrr og síðar. II. bindi. Kaup­mannahöfn, Hið íslenzka bókmenntafjelag.

Þórbergur Þórðarson. 1982. Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar. I. bindi. Reykjavík, Mál og menning.

Þórir Óskarsson, Þorleifur Hauksson. 1994. Íslensk stílfræði. Reykjavík, Mál og menn­ing.

Þórunn Valdimarsdóttir 1992. Snorri á Húsafelli. Saga frá 18. öld. Reykjavík, Uglan.

Þröstur Helgason. 1995. Tilurð höfundarins. Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmennta­fél­ags. 169. árg. bls. 279–308.

Óprentaðar heimildir sem vitnað er til

Lbs.667.4˚

Lbs.668.4˚

Lbs.713.4˚

Lbs.752.4˚

Lbs.1754.4˚

JS.29.fol.

Mynd á forsíðu er hluti af titilsíðu hinnar dönsku útgáfu Páls Eggerts Ólasonar á Ferðasögu Árna Magnússonar frá Geitastekk í Memoirer og breve nr. 28 frá 1970. 

Viðauki

A. Ýmislegt ferðasagnaefni sem gaman væri að skoða betur

Lbs.95.8vo  skr. 1790-95, ehdr.

„Ferðabók Steingríms biskups 1790-92 og 1794-95, er hann var á visitazíuferðum, með Hannesi biskupi (autogr.)“. Ferðadagbók Steingríms Jónssonar biskups (1769-1845).

Lbs.125.4to  31 bl. (á dönsku) skr. ca. 1780. „Journal over een af Amtmand Thorkild Field­sted udi Aaret 1777 giorte Reyse fra Altengaard i West-Finnmarken til Wardoehus, alt over Lapmarkens Øde Fielde…“  eftir Þorkel Fjeld­steð, stiftamtmann í Þrándheimi (1740-1796).

Lbs.135.8vo  bls. 61-67.

„Reisan frá Islande til Glychsted 1725“, þ.e. dagbók Finns biskups Jónssonar (1704-1789), ehdr.

Lbs.752.4to  26 bl. skr.1865.

„Lítið ferðasogu ágrip og frá Syningunni í Björgvin Sumarið 1865.“ Eftir Hafliða Eyjólfsson í Svefneyjum.

Lbs.1473.8vo  M.a. ferðasaga eftir Árna H. Hannesson um Snæfellsnes, Dali og Borgar­fjörð sumarið 1900.

Lbs.1734.8vo  Ferðasaga Jóns Hjaltalín landlæknis. „Reise fra Kjöbenhavn til Kiel, Ham­burg, Berlin og omkring liggende sted­er“,  frá því um 1840 (á dönsku).

Lbs.1836.8vo Skrifað 1913. M.a. ferðasaga eftir Friðrik Daníelsson á Skáldstöðum.

Lbs.2035.8vo  Skr. 1870-80.  Ferðasögubrot Eiríks Magnússonar o.fl.

Lbs.2038.4to  Skr. ca. 1900. M.a. um útsiglingarreisu Páls lögmanns Vídalín.

ÍB.576.8vo  M.a. ferðasaga Jóns Borgfirðings frá því um 1860.

B. Þýddar ferðasögur og landafræði

Lbs. 153.4to (Ferðasaga Bollings, „Umm Grænland…“, o.fl.) frá seinni hluta 18. aldar.

Lbs. 280.4to Um ferðalög og ferðalanga í Biblíunni, frá ca. 1750.

Lbs. 667.4to frá 1827. Uppskriftir af reisubókum Ólafs Egilssonar og Eiríks víðförla, og stutt þýdd ferðasaga með löngu nafni: „Epter dæme upp aa Guðs forsion fyrir Mönnunum Eðr þess FRANSKA SJOO LIEUTENANTS PETURS WJAUDS frá sögn um sióferðir hans til nockurra smá Eya i Norður AMERICA. Samanskrifuð af honum sialfum i frönsku eptir heim komu hans aptur til BORDEAUX. En nú á Íslendsku úr dönsku út lögð af sáluga siera Guð­munde Sigurðssyne.“ Með hendi Þorsteins Þorsteinssonar (1792-1863).

Lbs. 668.4to 460 bls. í skinnbandi og á kili stendur „Ferða-Søgur“. Bókin er  skrifuð og ár­sett 1853 af Þorsteini Þorsteinssyni. Þessi bók inniheldur m.a. afrit ferðasögu Bollings (bls. 1-60), landafræðikafla sem heitir „Um Aust Indien og þær Þjódir og Dijr sem þar fædast til gamans“ (60-128) og reisubók Jóns Indíafara (129-460).

Lbs. 669.4to Um ferðalög og ferðalanga í Biblíunni, sbr. Lbs.280.4to,  skrifað 1842-3 af Þorsteini Þorsteinssyni. (Sama efni er í Lbs.1570.4to og JS.79.4to)

Lbs.713.4to.  M.a. „Ferðasaga Iørens Priim“. Skrifað 1855-60.

Lbs.1119.4to frá 1852-3. M.a. eftirrit reisubóka Ólafs Egilssonar og Ásgeirs Sigurðssonar og siglingaþáttar „Jens Munkesonar“, auk ágrips úr ferðabók Björns Jórsalafara.

Lbs.1315.8vo  „Þriggia ara Reisa frä Moscovien til China…framkvæmd og uppteiknuð af Herra E. Isbrand Ides…Dönskum ad kine, ur þydversku utlögd af I.B.S“ (þ.e. þýtt af sr. Jóni Bjarnasyni á Rafnseyri), skr. ca. 1770.

Lbs.1685.8vo  M.a. „Reysu Saga Macomet Abdullu“, skrifað ca. 1800.

Lbs.1874.4to  M.a. „Ein Historia Hörnenn [sic] sa Eingelske madur Joris Pines er komenn til þess so kallada Pinesiska Eylands og med hvörium hætte hann hafe þad bigt“, þýtt úr dönsku, skrifað 1767.

ÍB.96.8vo  M.a. um Grænland og ferðalag Dana þangað 1606 og „Af ferð Lucasar frá Amst­erdam til Palestina“, skr. ca. 1730.

ÍB.345.8to M.a. ævintýri skipstjórans Bontekú sem sigldi til Jövu eins og Bolling. Ferða­saga Bontekús var svo prentuð í Utvøldum smá-Søgum Magnúsar Stephensen 1822-3.

ÍB.360.8vo  „Emanuel Crespel Recolets eins mikilsháttar geistligs Skipbrots- og Rauna-Saga epter þjódverskre utgáfu af 1751“. M.h. sr. Stefáns Þorsteinssonar á Völlum, ca. 1830.

ÍB.688.8vo  (Bolling og „Æfenntijr af Haareki Olafssyne medan hann var j Tirkerijenu“) skr. ca. 1750.

JS.29.fol. 453 bl. skrifað 1782-90, að nokkru m.h. sr. Hjálmars Þorsteinssonar í Trölla­tungu. „Nockrar Reisu Søgur med fleiru frodlegu Til Dægrastyttingar. Safnad i Eitt og Inn­bundið 1808“. M.a. þýddar reisusögur Bollings, Barchewits og Jens Munk, reisubækur sr. Ólafs Egilssonar, Ásgeirs Sigurðssonar og Jóns Ólafssonar.

JS.43.4to 195 bl. skrifað 1660-80. „Ein Ágiæt Nitsøm frödleg lysteleg skemmterijk og Art­ug Book…“ m.a. „Þattur af Columbo vmm Hannz landa Vplietun“, „Americi Vesputii Þaat­ur“, „Compendium Cosmographicum“ og „Um Tyrkiaryed“ (útlagt úr dönsku).

JS.89.8vo  M.a. „Friettabrief Til Valerius frá Eingelskum kaupmanni um þad sem vidbar á Hans Reisu til Indien“, skr. 1858-9.

Tilvísanir


[1] Sbr. Kundera. 1993:127.

[2] Tómas Sæmundsson. 1947:57.

[3] ens. travel literature, fr. récit de voyages, da. rejseskildringer, þý. Reisebeschreibungen.

[4] Hér nægir að nefna t.d. ferðina sem meginuppistöðu í byggingu rómansa, vegferð lífsins frá vöggu til graf­ar og hringferðina frá sólarupprás til sólarlags. Sjá t.d. Frye. 1957: 158–160 (um goðsögulegt náttúruferli og hringrás árstíðanna) og Bakhtin. 1981:120, 244–5 (um krónótópu vegarins, myndhverfingu vegarins o.fl.)

[5] Sbr. Adams. 1983:38–45.

[6] Tómas Sæmundsson. 1947:4. Til marks um það hversu hugtökin duga skammt þá er mér tamt að nota „ferðasögur“ sem einskonar yfirheiti um -sögur og -bækur í stað ferðalýsinga, -frásagna, -bókmennta o.s.frv.

[7] Sbr. Batten. 1978:82–85, 110. Batten hefur þessa skilgreiningu úr vinsælli ferðabók eftir Mrs. Piozzi frá 1789.

[8] Edwards. 1988:7–8.

[9] Sbr. Batten.1978:13–14, 25, 36, 39.

[10] Völundur Óskarsson. 1992:xxvi.

[11] Sbr. Batten 1978:24–5. Hann segir: „But the travel account directed at the general reader, the one in search of something more than assistance in preparing his own travels, always aimed at blending pleasure with in­struction in order to achieve an artistically pleasing experience“ (25, leturbr. mín). Adams (1983:109) drepur einnig á þessa kröfu lesenda; „the need to mix dulce with utile“ (hugtökin utile-dulci eru ættuð frá Hórasi). Hér birtist vel hneigð upplýsingarmanna til að flétta saman fróðleik og skemmtun en í ferðasögum fléttast þetta tvennt saman á skemmtilegan hátt.

[12] Bréf Tómasar Sæmundssonar. 1907:151. Eiríkur víðförli segir í formála reisubókar sinnar að menn geti lesið hana „sér til nokkurrar nytsamligrar íhugunar og eftirþanka svo vel sem skemmtunar og gagnsamlegs fróðleiks“ (Lbs.667.4˚, nút.stafs. mín, sjá í heimildaskrá: Óprentaðar heimildir).

[13] Tómas Sæmundsson. 1947:5 nm.

[14] Sbr. Halldór Laxness. 1968:198.

[15] Sbr. Bakhtin. 1981:20.

[16] Mulvey. 1983:22.

[17] Sbr. Lbs.667.4˚ P27 (= bls. 27), sjá Óprentaðar heimildir. Afsakanir af þessu tagi eru oft formúlukenndar og erfitt að meta hvort hugur fylgi máli. Þær eru algengar í formálum miðaldatexta og eiga rót að rekja til mælskufræði. Retórískar handbækur mæltu svo fyrir að ræðumaður skyldi í upphafi ræðu sinnar afsaka mál sitt og vinna árheyrandann á sitt band með lítillæti og hæversku. Auk þess stuðlaði hugsjón kirkjunnar um kristilega auð­mýkt (humilitas) að enn frekari notkun tilgerðarlegs lítillætis í ræðu og riti. Sjá Sverri Tómas­son. 1988:151.

[18] Sbr. Hume. 1984 og Friedman. 1975.

[19] Sbr. Adams 1983:153–7. Sjá einnig um leit í rómönsum hjá Torfa Tulinius. 1993:229–33

[20] Sbr. Barthes. 1976:8. „The pleasure of the Text also includes the amicable return of the author. Of course, the author who returns is not the one identified by our institutions (history and courses in literature, philo­sophy, church discourse); he is not even the biographical hero. The author who leaves the text and comes into our life has no unity; he is a mere plural of “charms,“ the site of a few tenuous details, yet the source of vivid novelistic glimmerings, a discontinuous chant of amiabilities, in which we nevertheless read death more cer­tainly than in the epic of a fate; he is not a (civil, moral) person, he is a body.“

[21] Barthes. 1984:3. Sjá einnig grein Matthíasar Viðars Sæmundssonar (1991) þar sem hugmyndir Barthes eru tengdar við ljósmynd af Kristjáni Fjallaskáldi.

[22] Barthes óskaði þess sjálfur að einhver vildi finna ævifleyga í lífi hans. Hann segir í formála að bókinni Sade, Fourier, Loyola: „Were I a writer, and dead, how I would love it if my life, through pains of some friendly and detached biographer, were to reduce itself to a few details, a few preferences, a few inflections, let us say: to “biographemes“ whose distinction and mobility might go beyond any fate and come to touch, like Epicurean atoms, some future body, destined to the same dispersion; a marked life, in sum, …“. Barthes. 1976:9.

[23] Sbr. Adams. 1983:45–6.

[24] Sbr. Peyre. 1978:8

[25] Sbr. Böðvar Guðmundsson. 1993:506. Á tímabilinum 1580–1700 voru furðuferðasögur um „the extraord­inary voyage“ líka mjög eftirsóttar en á þær má líta sem vettvang heimspekilegra og pólitískra skrifa, eins­konar hlekk í langri keðju milli ríkis Platós og útópíudrauma Thomasar More.

[26] T.d.: „Þær línur sem hér fylgja eru eigin orð Aðmírálsins…“ Kólumbus. 1992:30. Nýlega voru leiðar­bækur Kólumbusar gefnar út á íslensku í þýðingu Sigurðar Hjartarsonar sagnfræðings, sjá: Kólumbus 1992.

[27] „The sense of curiosity and the craving for adventure, indegenious to man and so long restricted to the tor­tuous wordspinning and Crusading zeal of the Middle Ages, received a tremendous stimulus that soon found expression in maritime discovery and commercial enterprise. The adventurous seaman was to open up not merely new countries but a new literature“. Compton-Richett. 1931:117.

[28] Árni Magnússon frá Geitastekk. 1945:27. Sjá einnig um lækningu við skyrbjúg, Jón Ólafsson. 1992:112.

[29] Lbs.668.4˚ bls. 2. Úr „Reisubók Friðriks Bollins […]“ (pr. í Kh.1677) í þýðingu sr. Einars Ólafssonar á Stað, (nútímastafs. mín). Sjá Óprentaðar heimildir.

[30] Sbr. Adams.1988:87.

[31] Sbr. Adams. 1988:124. Sjá um rit Raleghs, skips-sjúrnal, bréf og apólógíu: Edwards. 1988:3,177–252.

[32] Sbr. Adams. 1988:190.

[33] Reisubók Jóns Indíafara var einmitt birt í safni Hakluyts og áður hafði rit Arngríms lærða um Ísland verið prentað þar í enskri þýðingu.

[34] Sbr. Edwards. 1988:8. Árni frá Geitastekk sá t.d. um þessa hlið mála í sjóferðinni til Kína.

[35] Sbr. Sutherland. 1969:292–3.

[36] Sjá t.d. Vázquez-Bigi 1978:139: „To the Renaissance and Baroque reception of discovery and travel that could still be brought into harmony with the enduring conceptions of peregrinatio and traveling for human­istic development, there followed both an intension and extension of public interest in voyages and the search of unknown regions. The spirit of seventeenth and eighteenth century enlightenment manifested itself in a marked increase in the desire for knowledge of distant lands. Narratives of travel, in which a new mythopoeia alternated with the scientific recording of facts and events, became the most charachteristic and popular liter­ture of the age.“

[37] Sbr. Íslenskan söguatlas 2. 1992:29.

[38] Sama gildir um Norðurlöndin, sbr. t.d. Aschehoug og Gyldendals store norske leksikon. 1988:410. Í Eng­landi einu saman skipta útgáfur á ferðasögum og ferðasagnasöfnum hundruðum á tímabilinu 1660–1800, sbr. The Cambridge Bibliography of English Literature II. 1940:139–142, 739–751.

[39] Bréf þessi voru mestmegnis fjas og slúður og flestir forðuðust að láta nokkuð uppi um sjálfan sig, segir Paul Hazard (1954:232). Þetta er ekki algild regla. Bréf voru tveggja manna „tal“ eða einkamál sem aðrir áttu ekki að hnýsast í. Þar var hægt að slaka á taumunum bæði hvað varðaði form og efni. Bréfin fjölluðu um alla heima og geima því þar mátti óreiðan ríkja. Í einkabréfum birtist efi manna og óvissa um lífið og tilver­una og þar ræddu menn jafnvel tabú-fyrirbæri.

[40] Sbr. Adams. 1988:242–3 og Sutherland:1969:294.

[41] Sbr. Adams. 1988:281–5. Og Dobrée (1959:375) segir sérstöðu Rogers sem ferðasagnaritara felast í þess­ari glöggu og afhjúpandi mynd af sjómannslífinu; „ the artless revelation of human relationships“.

[42] Sbr. Adams. 1988:353.

[43] Um Idu Pfeiffer og lýsingar hennar á Íslandi og Íslendingum hefur Guðrún M. Ólsen skrifað merka grein, sjá Guðrún M. Ólsen. 1994:19–33. Brot úr Íslandsferðasögu Pfeiffer hefur verið þýtt og birt í sérstakri útgáfu ferðasagna útlendinga um Ísland, Glöggt er gests augað. 1946. (sjá heimildaskrá).

[44] Áhrif útkomu bókarinnar um hinn ráðagóða Robinson Crusoe (1719) eftir Daniel Defoe eru óumdeilanleg fyrir uppkomu og þróun skáldsögunnar. Endalausar eftirlíkingar af sögu Róbinsons urðu til og urðu bæði afar vinsælar og útbreiddar. Þótt undarlegt megi virðast náðu áhrifin alla leið til Íslands. Árið 1756 var prentuð á Hólum íslensk eftirlíking af Róbinson Krúsó í þýðingu séra Þorsteins Ketilssonar (1688–1754). Sagan ber heitið Þess Engelska Bertholds faabreitileger Robinsons Edur Lijfs Og Æfe Søgur og er einskonar ferðareyf­ari. Hún er talin vera einn af fyrirboðum skáldsögunnar hér á landi; „fantasía, byggð á klassísku útópíuminni um ferðir til furðu- eða ævintýralands“ sbr. Svanhildur Gunnarsdóttir. 1995:31) Öld síðar ratar „Ferðasaga Iørens Priim“ á blað hér á landi, þýdd skálduð ferðasaga í anda róbinsonsagna um skipreika Englending sem skolar á land á eyðieyju. Hann er heppnari en Róbinson því þrjár konur bjargast líka og að tveimur áratugum liðnum hafa 48 börn fæðst á eynni: „Frá því er næst að segja að þá er eg hafði verið saman við kvennfólkið á þessari eyu rúman árstýma heimsókti mig so mikil list og gyrnd til þessara að hún hafnaði mér svefni á nótt­um. þartil eg lét það í ljósi fyrir þeim Engelsku þjónustustúlkum hverjar án mótmæla strax urðu mínum vilja samþykkar…“ (Lbs.713.4˚, 104, sjá Óprentaðar heimildir). Krafan um sannleika setur mark sitt á þessa ferðasögu eins og svo margar aðrar þótt efni hennar sé allt með ólíkindum. Atburðirnir eru tímasettir á trú­verðugan hátt (sagan hefst sumarið 1592) og eftirmálinn er samkvæmt heimildum Þjóðverja sem komu á eyna 22 árum seinna. En þótt reynt sé að halda sannleiksblæ á sögunni með ýmsu móti er augljóst að skáld­skapurinn eða ímyndunin hefur tekið öll völd.

[45] Eyjaleiðin fólst í því að nota sér sýnileg merki um land eins og unnt var hverju sinni. Menn lögðu á minnið og lýstu hver fyrir öðrum hvernig landsýn var af hverjum stað og sigldu eftir þeim kennileitum, sjá Þorsteinn Vilhjálmsson. 1990:8–9. Um sjóferð Norðmannsins Óttars, sjá t.d. Ottars og Ulfstens korte Reise­beretninger (1815) í útgáfu R. Rask. Sannleikskrafan sígilda kemur vel í ljós þar sem segir m.a. um þessar tvær fornu ferðafrásagnir að þær séu frá fyrstu hendi, sannar og skýrar: „Begge de sidstnævnte Beretninger ere af Ojevidner, og röbe megen Sandhedskjærlighed, samt klare Begreber om Landenes og Folkenes Beskaffen­hed“ (13).

[46] Um utanferðir Íslendinga, siglingar og samgöngur á þjóðveldisöld skv. fornritunum, sjá ritgerð Boga Th. Melsteð. 1907–15:585–907. Sjá einnig Björn Þorsteinsson, Guðrún Ása Grímsdóttir. 1989: 160–80 og 205–16 (kaflar um kaupsiglingu og ferðalög) og Matthías Þórðarson. 1944:1–59 (um Vínlandsferðir Íslendinga).

[47] Byskupasögur I. 1953:40.

[48] Byskupasögur I. 1953:448.

[49] Sbr. Bogi Th. Melsteð. 1907–15:799.

[50] Sturlunga saga I. 1954:95–6.

[51] Sbr. Bergljót Kristjánsdóttir o.fl. 1988:lxxxviii. Í útgáfu Svarts á hvítu á Sturlungu er Leiðarvísir Niku­lásar prentaður með nútímastafsetningu, hér á eftir er vísað til bls.tals þeirrar útgáfu, sjá Nikulás Bergsson. 1988. í heimildaskrá. Áður hafði Kristian Kålund gefið Leiðarvísi út í Alfræði íslenzkri I sem er stafrétt út­gáfa á stærstum hluta skinnhandritsins AM 194 8vo. Kålund þýddi Leiðarvísi á dönsku og skrifaði fræðilegan eftirmála, sjá Kålund. 1913.

[52] Einar Arnórsson hefur skrifað grein um suðurgöngur Íslendinga í fornöld og segir þar að Leiðarvísir sé „eignaður“ Nikulási; hann sé „auðvitað […] tekinn upp úr útlendum ferðaleiðarvísum, sem nóg var til af,…“ Einar Arnórsson. 1954:9; þ.e. að Nikulás hafi þýtt leiðarvísi sem hann aflaði sér á leiðinni (39). Flestir telja þó að meginuppistaða ritsins sé persónuleg frásögn og skv. upplifun Nikulásar, sjá t.d. Kålund. 1913:88 og Holtsmark. 1962:518.

[53] Sbr. Orlandi. 1995:675–6, sem segir lýsingar á pílagrímsferðum standa mitt á milli ævisögu og ferðalýs­inga. Hann skiptir þeim í fjóra flokka og nefnir dæmi um hvern fyrir sig.

[54] Sbr. Holtsmark. 1962:518. Frásögnin Leiðir er prentuð í Alfræði íslenskri I. 1908:44–45.

[55] Sbr. Bergljót Kristjánsdóttir o.fl. 1988:xc.

[56] Þorsteinn Vilhjámsson. 1990:38.

[57] Guðrún Guðlaugsdóttir. 1996:6–7B.

[58] Björn Þorsteinsson, Guðrún Ása Grímsdóttir. 1989:208.

[59] Annálar 1400–1800, I. 1922–7:14.

[60] Jón Guðmundsson [lærði]. 1902:712.

[61] Vitnað eftir Ólafi Halldórssyni 1978:245.

[62] Janus Jónsson 1914:156–7. Janus telur að Grænlandsannáll sé verk Björns á Skarðsá en Ólafur Halldórs­son leiðir að því sterk rök í bók sinni Grænland í miðaldaritum að Jón lærði hafi í upphafi samið ritið en Björn síðar aukið við það og gert fáeinar breytingar. Nokkur ágrip úr reisubók Björns eru prentuð í Dipl. Isl. (Íslenzku fornbréfasafni) 3.b. 1896:435–439.

[63] Grænlandsannáll er prentaður í bók Ólafs Halldórssonar Grænland í miðaldaritum (sjá Ólafur Halldórsson. 1978:

1–73). Hér er vísað til blaðsíðutals bókar Ólafs innan sviga. Endursögn Jóns lærða varðar einkum dvöl Björns á Grænlandi. Reyndar er óvíst um þetta efni og endursögnin hefur e.t.v. skolast eitthvað til. Jón lærði hefur ruglað saman þeim Birni Jórsalafara og Birni ríka en báðir hröktust til Grænlands með líkum hætti, sbr. Hannes Þorsteinsson. 1902:711– 12. Ólafur Halldórsson segir að frásögnin eigi þrátt fyrir allt við Björn Jórsalafara, hinn eina og sanna (sjá Ólaf Halldórsson. 1978:251).

[64] Vitnað eftir Ólafi Halldórssyni. 1978:45.

[65] Vitnað eftir Ólafi Halldórssyni. 1978:244.

[66] Ólafur Halldórsson. 1978:251.

[67] Vitnað eftir Janusi Jónssyni. 1914:143–4. Finnur Jónsson skrifaði sjálfur ferðasögu 1725, sjá síðar.

[68] Sbr. Jakob Benediktsson. 1968:VI.

[69] Um Íslandslýsingar, sjá t.d. Böðvar Guðmundsson. 1993:490–5.

[70] Foucault fjallaði um hugsunarsögu Vesturlanda út frá aðferðum „fornminjafræði“ í bók sinni Le Mots et les choses (1966, hér er stuðst við enska þýðingu, The Order of Things, sjá Foucault. 1994:34–5, 57–8, 76, 78–9 og 134–8. Hann heldur því fram að til sé einskonar vídd eða kerfi sem stjórni því ómeðvitað hvernig fólk hugsar á tilteknum tíma og þessa vídd kallar hann „epistéme“ eða hugsunarkerfi. Hugsunarkerfið ein­kennist af hæfni mannsins til að nema raunveruleikann á hverjum tíma og tengist því heimsmynd (cosmo­logy) manna náið. Í hugsunarkerfi endurreisnarinnar (–>1650) var hugtakið „líkindi“ (resemblances) lykill skynjunarinnar. Heiminum var lýst út frá líkingum og endurtekningum. Sífellt var leitast við að skipa hlut­um saman og afhjúpa og túlka tengsl þeirra. Allt hugarfar manna dró dám af tengslalögmáli líkindanna, maðurinn gat haft áhrif á náttúruna og öfugt því eðli manns og náttúru var það sama. Dæmi: Útlistanir Jóns lærða á ýmsum lífsteinum og lyfjagrösum í lækningafræði hans. Þar kemur vel fram að Jón lítur á náttúruna sem samvirka og lífræna heild þar sem hvað verkar á annað með ósýnilegum hætti.

[71] Á upplýsingarskeiði sem Foucault kallar klassískt skeið (1650–1800) var „lýsing“ (representation) lykil­hug­tak. Heimurinn og hugsunin voru þá álitin spegla hvort annað vandræðalaust í gegnum tungumálið sem menn töldu að væri algerlega gagnsætt, orð og hlutur samsvöruðu hvort öðru fullkomlega. Heimurinn var settur upp í töflur og flokkaður eftir ákveðnum reglum. Hlutverk mannsins á klassíska skeiðinu var því fólg­ið í að skýra heiminn, sundurgreina og lýsa en maðurinn sjálfur skipti engu máli. Mýmörg dæmi um ein­kenni klassíkur er til dæmis að finna í Ferðabók Eggerts og Bjarna sem þó er ekki alveg laus úr viðjum hugsunarkerfis endurreisnarinnar, sjá síðar.

[72] Sbr. Páll Eggert Ólason. 1926:121. Þorvaldur Thoroddsen gerir vandlega grein fyrir lýsingum útlendinga á Íslandi og Íslendingum á miðöldum í Landfræðissögu sinni. Hann tekur í sama streng og Páll Eggert varð­andi bók Blefkens og segir hana vera „samsull af lygasögum“ og sérlega ómerkilega, sbr. Þorvald Thorodd­sen. 1892–6:179.

[73] Sjá Skrá um handritasöfn Landsbókasafns. 1935–7. III. bindi, bls. 434–9. Hér er er ekki rúm til að telja það allt upp en vísað á t.d. Landfræðissögu Þorvalds Thoroddsen (sjá Þorvald Thoroddsen. 1892–6. í heim­ildaskrá). Þó er vert að geta sérstaklega eins afkastamikils frumkvöðuls í þýðingum fræðirita. Séra Einar Ólafsson (1677–1721) á Stað í Aðalvík á Vestfjörðum var mikill hagleiks- og listamaður. Hann þýddi m.a. ritið Theatrum viventum úr hollensku aðeins fáum árum eftir að sú bók kom út í Amsterdam 1672 og kallaði það Sjónarspil lifandi skepna, manna, dýra, fugla og fiska. Þar er sagt frá helstu flokkum dýra og manna, klæðaburði og lífsháttum íbúa allra heimsálfanna og fleiru sem varðar þjóðfræði, náttúrufræði og landafræði heimskringlunnar. Þýðing Einars var víða lesin og hefur að öllum líkindum haft mikil áhrif á heimsmynd Ís­lendinga. Eitt handrita Sjónarspilsins sem varðveist hefur, er um 300 blaðsíður quarto að lengd og prýtt á annað hundrað listagóðum myndum sem e.t.v. eru eftir séra Einar sjálfan. Auk Sjónarspilsins þýddi séra Einar hluta af Theatrum orbis terrarum, landafræði hins þýskættaða Orteliusar, landfræðings Spánarkonungs (d. 1598) en þar var Íslandskortkort Guðbrands Þorlákssonar fyrst prentað. Þórunn Valdimarsdóttir sagnfræð­ingur og skáld rekur efni Sjónarspilsins og landafræði Orteliusar í bók sinni um Snorra á Húsafelli, sjá Þór­unn Valdimardóttir. 1992:298–306, sjá einnig Völund Óskarsson. 1992:xx–xxi. Um Theatrum Orbis terrar­um sjá ennfremur Þorvald Thoroddsen. 1892–6:156–9 og Harald Sigurðsson. 1961:13.

[74] Lbs.668.4to, bls. 62, nút.stafs.mín (sjá Óprentaðar heimildir). Brotið er úr ferðasögu Friðriks Bollings. Þar eru skemmtilegar lýsingar á kengúrum, flóðhestum, nashyrningum (einhyrningum), elefantsdýrum, strútsfuglum, drekum og fluggömmum (sjá Lbs.668.4˚, bls. 22–5).

[75] Sbr. Torfi H. Tulinius. 1993:241. Torfi segir ennfremur: „Ekki er ólíklegt að ein ástæðan fyrir langvar­andi vinsældum riddarasagna sé einmitt þessi eilífu ferðalög sögupersónanna sem gerðu viðtakendum sagn­anna kleift að ferðast með í huganum“ (1993:242). Þetta er einnig vafalítið ein ástæðan fyrir vinsældum ferðasagna.

[76] Í Skrá um handritasöfn Landsbókasafns. 1935–7. III. bindi: 434–5 er heilmargt spennandi efni undir fletti­orðunum „Ferðabækr, ferðasögur, reisur og reisubækr“. Í Viðauka hér aftast er listi þar sem talin eru upp nokkur handrit varðandi ferðasögur og landafræði sem ég hef gluggað í en ekki er rúm til að fjalla um hér.

[77] Ferðasaga Munks er til í a.m.k. tveimur öðrum handritum; JS.83.4˚ og Lbs. 1119.4˚.

[78] JS.29.fol. bls. 300, sjá Óprentaðar heimildir.

[79] Helgi Grímsson. 1944–8:343.

[80] Ekki er vitað til þess að nokkur hafi fetað í fótspor þeirra fyrr en 170 árum seinna. Þá „fann“ Björn Gunn­laugsson (1788–1876) Þórisdal „aftur“ sumarið 1834, mældi hann og kortlagði.

[81] Sjá í Skrá um Handritasöfn Landsbókasafns. 1935–7. Ferðasagan var prentuð í Blöndu VIII, sjá Helga Grímsson.1944–8.

[82] Sbr. Hannes Þorsteinsson. 1921–3:225.

[83] Ferðasagan er prentuð í Blöndu II, sjá Jón Eyjólfsson. 1921–3.

[84] Þorvaldur Thoroddsen. 1898:346.

[85] Sbr. Horrebow. 1966:23–8. Þorvaldur rekur þennan þráð vandlega í Landfræðissögu sinni, sjá Þorvald Thoroddsen 1898:345–59. Hér verður ekki fjallað um ferðabækur útlendinga um Ísland s.s. Stanleys, Banks og Hollanders enda efni í aðra ritgerð.

[86] Horrebow. 1966:26.

[87] Horrebow. 1966:23.

[88] Sbr. Steindór Steindórsson. 1974:XIII.

[89] Sbr. Ferðabók Eggerts og Bjarna I–II. 1974:161, í kaflanum er vitnað til blaðsíðutals Ferðabókarinnar innan sviga.

[90] Sbr. Harald Sigurðsson. 1990:276–7.

[91] Ferðabók Eggerts og Bjarna II. 1974:137.

[92] Þórunn Valdimarsdóttir. 1992:328.

[93] Landsnefndin (fyrri) var skipuð 1770 og átti að rannsaka atvinnuvegi Íslendinga og þjóðarhag og gera til­lögur til úrbóta. Árangur nefndarinnar skilaði sér m.a. í endurbótum á löggjöf varðandi atvinnuvegi, styrkjum og verðlaunaveitingum til þeirra sem stuðluðu að endurbótum og nýjungum í fiskveiðum eða landbúnaði. Síðar var skipuð önnur landsnefnd (Landsnefndin síðari) sem gera átti tillögur um aðstoð við Íslendinga í Móðuharðindunum og umviðreisn landsins. Jón Eiríksson fylgdist náið með starfi nefndarinnar og segja má að flestar hugmyndir um framfarir á Íslandi og tilraunir stjórnvalda til að koma á nýskipan í atvinnuvegum landsins séu á einn eða annan hátt runnar undan rifjum Jóns, sjá Íslenskan söguatlas 2. 1992:36–7.

[94] Íslensk þýðing bókarinnar er frá 1964–5, sjá Olavius. 1964–5. í heimildaskrá. Vitnað er til blaðsíðutals þessarar útgáfu innan sviga.

[95] Olavius. 1964–5:262–3.

[96] Steindór Steindórsson. 1964–5:xv.

[97] Vísuna er að finna í Sögu Espólíns hins fróða… (sjá Jón Þorkelsson. 1895:XV).

[98] Hér er vitnað til Ferðabókar Sveins Pálssonar I–II. 1983. Sjá heimildaskrá.

[99] Ferðabók Sveins Pálssonar. 1983:9

[100] Í Kvískerjafjöll hefur Flosi Björnsson komið og séð fangamarkið. Hann skrifaði grein um för sína sem ber heitið „Varða Sveins Pálssonar í Kvískerjafjöllum“ í Árbók Fornleifafélagsins, sjá Flosi Björnsson. 1975.

[101] Í bók Magnúsar er nokkuð um skekkjur og ónákvæmni en beiskja Sveins er svo greinileg að menn hafa haft orð á henni: „Bók Magnúsar hefur löngum hlotið þunga dóma og ég hygg framar verðskuldaðan. Per­sónulegur, en mannlega skiljanlegur kali Sveins í Magnúsar garð kemur þar mjög til álita“ segir Haraldur Sigurðsson í grein sinni um náttúruvísindi og landafræði á tímum upplýsingar (1990:281–2).

[102] Ferðabók Sveins Pálssonar II. 1983:575–6.

[103] Sjá Jón Eyþórsson. 1983:XXXI.

[104] Sbr. Pál Eggert Ólason. 1926:308.

[105] Sjá Pál Eggert Ólason. 1922:358 og 1924:258. Og í Árbókum Espólíns stendur: „XVII vikr var Gissr biskup í Kaupmannahöfn, oc hafdi bord hiá Herra Christjáni Þorkéllssyni, þadann fór hann til Randstocks, oc kom þar þridja sunnudag í Adventu, þadann til Hamborgar oc var þar til hins VIta dags Aprílis mánadar um vorid eptir, voru med hönum Snorri prestr Hiálmsson, Gísli prestr Jónsson, oc Eggert son Hannesar hyrd­stióra.“ (Árbækur Espólíns. 1825:10–11).

[106] Íslenzkar æviskrár. 1948:320. Um ferðasögu Eggerts er allt á huldu og ekki einu sinni víst að hún sé eftir hann. Guðmundur Þorleifsson ríki á Geirrauðareyri (Narfeyri, 1658/9–1720) átti árið 1705 bók sem inni­hélt ferðasöguna og var eiginhandarrit. Hann segir í bréfi til Árna Magnússonar handritasafnara að höfundur hennar sé annaðhvort umræddur Eggert eða sonur hans Jón „sem til Hamborgar sigldi og þar stað­næmdist, a syns födurs peningumm“ (sbr. Arne Magnussons Private Brevveksling. 1920:620). Jón þessi hafði drepið mann.

[107] Arne Magnussons Private Brevveksling. 1920:449, 445. Leturbr. mínar.

[108] Arne Magnussons Private Brevveksling. 1920:449.

[109] Ýmsar minnisgreinar Gizurar varðandi tvær utanferðir hans eru prentaðar í Dipl. Isl. (Íslenzku fornbréfa­safni) X. bindi, 1911:516–18 og Dipl. Isl. XI. 1915:147–55, 188–92 og 194–9. Páll Eggert Ólason hefur endursagt ferðasögu Gizurar í samfelldu máli eftir slitróttum minnisgreinunum í bók sinni Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi II ( sjá Páll Eggert Ólason. 1922:359–68). Minnisgreinarnar er varla hægt að kalla ferðasögu en þó eru þar nokkur stef sem hljóma kunnuglega (sjá t.d. Dipl. Isl. XI. 1915:147,154 og 190) og segja býsna margt um athafnir manna og uppihald í útlöndum á þessum tímum. Í minnisgreinunum kemur fram að hann hefur ekki ætlað að líða skort á hinni löngu sjóferð til Kaupmannahafnar: „Jtem lagt j skipid j naut og iiij saudir. Jtem v. tunnur biors. tunna tuibakad braud. […] hafdi ec þetta med mier til skips. iijc fiska. iiij wadmals packa. XL salltfiska oc litla titlinga j tunnu“ (Dipl. Isl. XI. 1915:147). Í Höfn var Gizurr í boðum og hélt sjálfur veislur og var oft glatt á hjalla. Hefur hann óspart veitt vinum sínum öl frá Rostock, „rinskt win“ og „brennuwin“ og drukkið sjálfur með þeim ef marka má minnisgreinarnar: „Jtem hafa þeir komid til mín .ij. ganga sera sug(urdur) et cetera. j hvort sinn hentad fyrir viij huita Rost(ockar)ol. drac ec þui nærri miced aul i þetta malid“ (Dipl. Isl. XI. 1915:153). Gizurr hefur verið skartmaður og haft gaman af því að kaupa sér ýmsa smáhluti í sölubúðum erlendis líkt og Magnús Stephensen síðar (sjá kafla um ferðadagbók hans). Hann keypti t.d. „lifrautt“ efni í hosur og skyrtu, „flugiels hufu“ og „pudurhorn“. Einnig festi hann kaup á pappír, fóðurdúk, eggjakökupönnu, innsiglisvaxi, pung og belti, skóhorni, kertum, pipar, skinnhúfu, spilum og allmörgum bókum. Hann keypti sér m.a.s. „Sppeigil“ en slíkur gripur var ekki í eigu margra Íslendinga á þessum tímum. Gizurr fékk sér líka stígvél og lét sauma sér föt auk þess sem hann keypti heilt „orgelskrifli“.

[110] Sbr. Oddur Sigurðsson. 1951:1–4.

[111] Matthías Viðar Sæmundsson. 1992:50.

[112] Í raun voru fæstir af þessum þrælasölum Tyrkir, sjá Þorstein Helgason. 1995:111–134.

[113] Jón Þorkelsson. 1906–9:II. Um íslensku útgáfuna segir Jón á öðrum stað að þeir „…brjáluðu henni og bættu inn í alveg eptir eigin hugþótta“ (Tyrkjaránið á Íslandi 1627. 1906–9:204).

[114] Lýsingarnar á ódæðisverkum ræningjanna urðu sífellt ýktari, hrottalegri og líkamlegri. Gott dæmi um ýkjuhneigðina er skýrsla Kláusar Eyjólfssonar (1584–1674) bróðursonar séra Ólafs. Skýrslan er til í fjórum gerðum og verður æ mergjaði eftir því sem á líður. Sjá Matthías Viðar Sæmundsson. 1990:351.

[115] Sjá Guðrúnu Ásu Grímsdóttur. 1995:28–9. Guðrún Ása bendir á að ef til vill hafi íslensk alþýða ekki alltaf fylgt yfirvöldum að málum í Tyrkjahatri. „Frásagnir þeirra herteknu sem komu aftur úr hinni þrifleg Alsírborg og þekktu sætabrauð hennar og steikur, gjafmildi Tyrkja og gamansamar samræður þeirra, gætu hafa kynt undir drauma íslenskrar alþýðu um ævintýri í Afríku“ (1995:42). Lærðir menn óttuðust t.d. að bág­stöddum þætti kannski ekki verra að vera hertekinn af Tyrkjum „vppa von og æfinntyr“ en að sligast undan ánauðinni í eigin föðurlandi, sjá Guðrún Ása Grímsdóttir. 1995:29–30. Matthías Viðar Sæmundsson (1990:355–61) telur að Tyrkjaránið hafi orðið að vopni í höndum veraldlegra og andlegra yfirvalda hér á landi, tæki til að halda múgnum í skefjum. Boðskapur kirkjunnar varð raunverulegur fyrir augum fólks því mönn­um var innrætt að Tyrkjaránið væri tákn um reiði guðs. Hörmungarnar sameinuðu líka sundurleita hjörð, kristinn söfnuður varð að standa saman gegn sameiginlegum andstæðingi. „Tyrkjaránið varð á örskömmum tíma að sögu um bann og helgibrot, eðli góðs og ills, goðsögn er renndi ásamt öðru stoðum undir nýtt hugarfar; lífið hafði sannað kenninguna, helvíti brann nú á mönnum frá degi til dags. Kristin menning hafði um langst skeið átt erfitt uppdráttar hér á landi af því að hana skorti sjálfsmynd, merkingarsköpun er hæfði aðstæðum; mörk lögmáls og lögleysu höfðu verið óljós og breytileg enda féll boðskapur kirkjunnar ekki að óreiðureynslu fólks. Nú skópust skilyrði til að umbreyta samfélaginu í kristinn söfnuð; menningin hafði eignast andstæðing“ (Matthías Viðar Sæmundsson. 1990: 356–7).

[116] Almenn Landaskipunarfræði II. 1821–7:324.

[117] Guðrún Ása Grímsdóttir hefur skoðar mynd Tyrkjans í nokkrum íslenskum handritum. Víða má sjá óvild og fordóma í skrifum manna um þetta efni en hún hefur þó fundið textabrot sem einkennist af hlutlægni og er að mestu laust við fordóma (AM.124.8vo, prentað með greininni). Sjá Guðrúnu Ásu Grímsdóttur. 1995:30–32 og 36–42.

[118] Hér er vitnað til útgáfu Sverris Kristjánssonar á reisubók séra Ólafs, sjá Ólafur Egilsson. 1969. í heim­ildaskrá.

[119] Ólafur Egilsson. 1969:73–4.

[120] Sjá Barthes. 1976:65.

[121] Biblían. 1981:519–556.

[122] Biblían. 1981:527.

[123] Biblían. 1981:522.

[124] Matthías Viðar Sæmundsson. 1996:90–1. Hann túlkar reisubók séra Ólafs út frá sjálfsafhjúpunarháttum sem Michel Foucault telur að menn hafi viðhaft á fyrstu öldum kristninnar og setji mark sitt á sjálfsiðkun fólks fram á þennan dag (exomologesis og exagoresis).

[125] Tyrkjaránið á Íslandi 1627. 1906–9:4.

[126] Sjá Tyrkjaránssögu Björns á Skarðsá í heimildasafninu Tyrkjaránið á Íslandi 1627. 1906–9.

[127] Tyrkjaránið á Íslandi 1627. 1906–9:232–3.

[128] Tyrkjaránið á Íslandi 1627. 1906–9:225.

[129] Tyrkjaránið á Íslandi 1627. 1906–9:230.

[130] „Kap. 30–34 í fimta hluta sögunnar er tekinn eptir riti Einars Loptssonar, sem nú finst heldur hvergi“ segir dr. Jón Þorkelsson í bókinni Tyrkjaránið á Íslandi 1627. 1906–9:208. Í kaflanum um Einar Loptsson er vitnað til þessa rits innan sviga.

[131] Ferðabók Eggerts og Bjarna. 1974:270.

[132] Stefán Einarsson nefnir einnig þennan „einfaldleika“. Hann segir m.a. um reisubókina tveimur öldum á eftir Eggerti og Bjarna: „… en hún er rituð af slíku fjöri og svo dásamlegri einfeldni, að þegar hún seint og um síðir var gefin út […], þá hreif hún alla sem lásu…“ (Stefán Einarsson. 1961:242, leturbr. mín).

[133] Sjá um eðli, uppruna og þróun „ritklifa“ af þessu tagi, Sverri Tómasson. 1988.

[134] Héðan af er vísað til blaðsíðutals útgáfu Völundar, sjá Jón Ólafsson. 1992. í heimildaskrá.

[135] Elín Bára Magnúsdóttir hefur fjallað ýtarlega um sjálfsævisögulegan hluta reisubókarinnar og beitt þar frásagnarlíkani Sonne og Grambye til greiningar á sálarháska Jóns Indíafara, sjá Elín Bára Magnúsdóttir. 1994. Hér er áherslan á öðrum hluta, sjálfri Indíaferðinni.

[136] Jón hafði ofan fyrir sér á efri árum með barnakennslu í „bóklegum menntum og góðum siðum […] með kristilegum aga og umvöndun“ (sbr. Jón Ólafsson. 1992:320) eins og Árni frá Geitastekk síðar.

[137] Jón Ólafsson. 1992:270.

[138] Sbr. Þóri Óskarsson og Þorleif Hauksson. 1994:397–8.

[139] Jón Ólafsson. 1992:146.

[140] Fleiri Íslendingar fóru í Indíareisur, ef marka má annála, en enginn þeirra ritaði sögu sína svo vitað sé. Vallaannáll segir frá Þorleifi Teitssyni frá Mýrum í Borgarfirði sem var á dönsku Indíafari og hrakti hingað til lands 14. maí 1700 (sbr. Annála 1400–1800, I. 1922–7:437–8). Eyrarannáll segir frá Salómoni Bárðarsyni sem „fór [1692] síðan í Ostindien og hefur ei tilspurzt“ (sbr. Annála 1400–1800, III. 1933–8:367). Og Fitja­annáll segir frá manni sem hugðist fara til Indía!. Það var Jón Torfason úr Flatey sem fór til Kaupmannahafn­ar en „sló sér til drykkjuskapar og kvennfólks, giptist þar og dó í armóð“. Í annálnum segir að hann hafi ætl­að að fara sem ritari á Austur-Indíafari en andast í höfninni þegar það var albúið til ferðar (sbr. Annála 1400–1800, II. 1927–32:368). Þá segir sagan að Skúli Magnússon hafi vegna blankheita í Kaupmannahöfn forðum ætlað að ráða sig á Indíafar. Kennari hans, Gram prófessor, réð honum frá því (sbr. Pál Eggert Ólason og Þorkel Jóhannesson. 1953:436).

[141] Ásgeir Sigurðsson. 1932–5:5–21. Hér eftir er vitnað til blaðstíðutals þessarar útgáfu innan sviga. Ferða­saga Ásgeirs er einnig varðveitt í Lbs.1119.4˚ (frá 1852–3) en það handrit inniheldur að auki afskrift af reisu­bók sr. Ólafs, siglingaþátt Jens Munk og ágrip úr ferðabók Björns Jórsalafara.

[142] Ásgeir Sigurðsson. 1932–5:17.

[143] Hafa ber hugfast að skírskotanir til afskipta Guðs af málefnum manna geta verið stílbragð og þurfa ekki endilega að gegna mikilvægu í orsakaskýringum (löghyggju) höfundar í heild sinni. Það getur verið jafnerfitt að meta þetta í heimildunum eins og afsakanir og uppgerðarlítillæti í formála og lokaorðum.

[144] Um tvær lítt þekktar „ferðasögur“ frá átjándu öld eftir Finn Jónsson og Þorkel Fjeldsteð, sjá síðar.

[145] Sjá Sigfús Blöndal. 1914:48–65. Í grein sinni getur Sigfús ekki þriðja handritsins ÍB.222.8° en í skrám Landsbókasafns segir að líkur bendi til að það sé eiginhandarrit. Ólafur Davíðsson hefur skoðað það handrit og prentað útdrátt úr því, sjá Ólafur Davíðsson. 1931:3–32.

[146] Þorsteinn var vinnumaður og bóndi. Hann skrifaði upp fjölmargar ferðasögur og þætti um landafræði í frístundum sínum. Hann skrifaði t.d. upp 515 bls. þýska bók frá sextándu öld um reisur í Biblíunni í ís­lenskri þýðingu Odds Einarssonar biskups, Itinerarium Sacrum… af meistara Henrich Bunting… (Lbs. 669.4˚). Þessi bók „inniheldur reisur h[eilagra] forfeðra, dómara, kónga, spámanna og þaug lönd, borgir, staði. fljót, vatnsföll, fjöll og dali sem í h[eilagri] skrift er umtalað…“. Hún er til í tveimur öðrum hand­rit­um. Auk þess skrifaði Þorsteinn upp Reisubók Jóns Indíafara. Hönd Þorsteins er mjög vel læsileg og vinnu­brögð hans virð­ast mér vera til fyrirmyndar þótt í Íslenskum æviskrám segi: „Þorsteinn á Heiði og í Málmey (d.1863) hefir skrifað upp ógrynni handrita, sem varðveitt eru í Lbs., en allt er mjög óvandað frá hendi hans (HÞ)“ (sjá Ís­lenskar æviskrár. 1952:205).

[147] Hér eftir er vitnað til reisubókar Eiríks í handritinu Lbs.667.4˚, P(=bls.) 26–63 (sjá Óprentaðar heim­ildir). Ferðasaga Eiríks er enn óprentuð þegar þetta er ritað.

[148] Carl M. Bellman (1740–1795) orti m.a. gamansöm ljóð um persónur og atburði í Gamla testamentinu. Talið er víst að Eiríkur Björnsson víðförli sé höfundur þýðingarinnar á 2. og 3. erindi 35. söngs Fredmans um Gamla Nóa. Þýðingin birtist á prenti í Kaupmannahöfn árið 1787 undir heitinu: „Gamansamr Quedlingr um vorn gamla forfödr Nóa“. Sigurður Þórarinsson segir Eirík „vissulega hafa fangað nokkuð af þokka kvæð­isins og hefur hann enst erindunum tveim til langlífis, sem vel er.“ Sjá Sigurð Þórarinsson. 1983:16. Kvæð­ið var það fyrsta af ljóðum Bellmans sem snúið var á íslensku. Seinna fetuðu t.d. Jónas Hallgrímsson, Kristján Jónsson fjallaskáld og Hannes Hafstein í fótspor Eiríks sem Bellmans-þýðanda.

[149] Lbs.667.4˚, P33. Sjá Ópr. heimildir.

[150] Lbs.667.4˚, P54. Sjá Ópr. heimildir.

[151] Lbs.1754.4˚, bls. 5. Sjá Ópr. heimildir.

[152] Hér er vitnað til þeirrar útgáfu innan sviga, sjá Árni Magnússon frá Geitastekk. 1945. í heimildaskrá.

[153] Árni Magnússon frá Geitastekk. 1945:143.

[154] Árni Magnússon frá Geitastekk. 1945:26. Sjá einnig Láru Magnúsardóttur. 1993:21–23.

[155] Árni Magnússon frá Geitastekk. 1945:83.

[156] Í kaflanum um samanburð ferðasagna Eiríks og Árna er vitnað til reisubókar Eiríks með P og blaðsíðu­tali innan sviga en til ferðasögu Árna aðeins með blaðsíðutali innan sviga. Í ferðasögu Friðriks Bollings sem áður er getið (Lbs.668.4˚) er skini sólarinnar lýst á svipaðan hátt og þeir Eiríkur og Árni gera: „um middeigið settum vier eirn knÿf á þilfarið riett á Oddinn, so skaptið stod Riett upp og villdum svo reÿna hvört hann giæfi nockurn skúgga af sier enn þ gátum vier ecki sied, …“ (Lbs.668.4˚, bls. 13, sjá Ópr. heimildir).

[157] „Borðfjall“ hefur verið vinsæll ferðamannastaður. Í áðurnefndri ferðasögu Bollings (í Lbs.668.4˚, sjá Ópr. heimildir) segir svo um þetta fjall: „Taffel Bergið er moti ovedrattu þakið med skÿum það er skiemtilegt ad skoda þá klart vedur er á kvöldinn og þegar kvölld stjarnann kiemr upp þa er mitt á þessu bergi eÿns og þar standi liós a bordi hvar af þ hefr sitt nafn þvi hún skeÿn þar mikid fagurt“ (Lbs. 668.4˚, bls. 16–17, sjá Ópr. heimildir).

[158] Sbr. Vilhjálm Þ. Gíslason. 1923:76.

[159] Sbr. Adams. 1983:68. Adams tínir til fjóra flokka ferðalanga: 1.  Hinn forvitni og ferðaþyrsti sem skráir minnisatriði hjá sér á ferðum sínum (the curious traveler). 2. „The involved traveler“ sem lætur sér títt um þá sem komast til annarra staða en hann sjálfur, skráir sögu sína seint eða aldrei. 3) Ævintýramaðurinn, ferða­fíklar eins og Casanova og Marco Polo sem ekki rita minnisgreinar og skrifa sögu sína löngu seinna eða fá annan til þess (the adventurer par excellence). 4. Þykjustuferðamaðurinn sem segir skáldaða ferðasögu (the fire­side traveler). Sjá Adams. 1983:68-73.

[160] Björn Karel Þórólfsson. 1945:7.

[161] Í heimildum hef ég ekki rekist á neitt sem bendlar Magnús Ketilsson við Árna. Magnús nefnir t.d. ekki í dagbókum sínum – sem hann hélt óslitið í 23 ár og varðveittar eru í Lbs.573.4˚ – að Árni frá Geitastekk hafi komið til landsins 1799–1801. Ætla mætti að það hefði Magnús kannski gert ef þeir Árni hefðu eldað grátt silfur saman frá fornu fari. Magnús þótti „eftirlits- og refsingasamur um afbrot öll. Mun hafa þótt kenna breytingar er hann tók við sýslunni, því að fyrirrennari hans, Sigurður Íslandströll, þótti vægur sem yfirvald, bæði í innheimtu og eins við afbrotamenn“ (Þorsteinn Þorsteinsson. 1935:145). Þorsteinn segir ennfremur að Magnús hafi verið „talinn góður dómari og röggsamt yfirvald, en sneiddi hjá óþarfa málum og sætti önnur, þegar slíkt horfði best við“ (1935:146–7). Um viðskipti þeirra Magnúsar og Árna ritar Þorsteinn: „Eftir því sem Árni Magnússon frá Geitastekk segir í æfisögu sinni, prentaðri í Kaupmannahöfn 1918, þótti honum Magnús sjer erfiður viðskiptis í skiftamálum hans, en vel má vera, að það hafi ekki síður verið Árna sjálfum að kenna, sem þá var orðinn óreglumaður og vissi varla hvað hann vildi“ (1935:147 neðanmáls). Þorsteinn getur ekki heimilda sinna fyrir þessu.

[162] Sbr. Björn Karel Þórólfsson. 1945:14.

[163] Lbs.667.4˚, P57. Sjá Ópr. heimildir.

[164] Lbs.667.4˚, P44. Sjá Ópr. heimildir.

[165] Árni Magnússon frá Geitastekk. 1945:141.

[166] Bókmenntafræðingurinn Todorov kallar slíka frásögn „horizontal plotting“. Krókótt lífssaga Árna væri þá það sem kallast „vertical plotting“. Sjá um þetta, Adams. 1983:183.

[167] Þessi trúarlega túlkun á eðli og tilgangi jarðlífsins hefur sennilega mildað sorgina. Barnsmissi var hægt að túlka sem hirtingu Guðs og þar með órækan vott um elsku hans. Sjá Loft Guttormsson. 1983:187–9.

[168] Lbs.667.4˚, P63. Sjá Ópr. heimildir.

[169] Árni Magnússon frá Geitastekk. 1945:170–1.

[170] Sbr. Pascal. 1960:9.

[171] Jón Rúgmann (1636–1679) var fyrsti íslenski starfsmaðurinn við fornfræðadeildina í Svíaríki (stofnuð 1667). Hann vann að þýðingum og skýringum fornrita og þýddi Konungasögur Snorra á sænsku. Guðmundur Ólafsson (1652–1695) kom til Svíþjóðar 1681. Hann tíndi m.a. saman íslenskt málsháttasafn (pr. 1930). Þorvaldur Grímsson Brockmann (d.1767) var síðasti Íslendingurinn sem ráðinn var af Svíum til handritarann­sókna.

[172] Páll Vídalín, Jón Eiríksson. 1985:61.

[173] Átt er við þýska satíruhöfundurinn G.W. Rabener (1714–1788) en ferðasögur hans voru mjög vinsælar á þessum tíma.

[174] Ferðasögu Linnés las ég á ensku í bókinni Great Travel Stories of All Nations. 1932 (sjá heimildaskrá). Ferðasagan er í dagbókarformi og segir frá hrakningum Linnés í Lapplandi þar sem hann var næstum dauður úr hungri og kulda. Í sömu bók er útdráttur Þorvalds Thoroddsens úr ferðabók hans um Ísland á árunum 1881–98 (sjá 1932:923–31, „The Map-Maker“) og stytt ensk útgáfa á ferðasögu Danans Jens Muncks en hún er til í nokkrum afskriftum hér á landi (sjá 1932:990–1000 „The North-west Passage to the Indies“) .

[175] Sbr. Uggla. 1935:10. Bók von Troils hlaut geysimikla útbreiðslu. Hún kom út á íslensku 1961. Leið­angur von Troils markaði tímamót. Hann var fyrsti rannsóknarleiðangurinn frá erlendu ríki sem leitaði til Ís­lands og „fyrsti skemmtiferðahópurinn“ sem varpaði akkerum við íslenska strönd (sbr. Harald Sigurðsson. 1961:9). Í Ferða­bók sinni hrekur Sveinn Pálsson sumt af því sem von Troil hélt fram um land og þjóð, sjá t.d. bls. 71, 97, 198 og 212–13.

[176] Hún kom út 1935. Arvid Hj. Uggla annaðist útgáfuna og samdi skýringar. Í bókinni er æviágrip Hann­esar eftir Jón Helgason á sænsku.

[177] Hér á eftir er vísað til blaðsíðutals Stokkhólmsrellu í Andvara 1934, sjá Hannes Finnsson. 1934. í heim­ildaskrá.

[178] Sbr. Jón Helgason 1936:62.

[179] Hannes Finnsson. 1934:52. Leturbr. mínar.

[180] Hannes Finnsson. 1934:65.

[181] Bakhtin hefur kannað þróun sjálfsvitundarinnar í aðferðum sjálfsævisagna fornaldar og bendir á að í „stó­ískri sjálfsævisögu“ aukist fyrirferð atburða sem tengjast viðkomandi persónulega en hafa ekkert gildi fyrir aðra, sjá Bakhtin. 1981:145. Þessi atburður er þess eðlis.

[182] Lbs. 135.8vo. bls. 122, sjá Ópr. heimildir. Finnur lýsir mjög vandlega hátterni og búningum leikara í „comodiu“ sem hann sá í Hamborg (123–7) og einnig segir hann frá sólmyrkva eða „…storkostlig[ri] for­myrkvun ä tunglinu öllu…“ (Lbs.135.8vo, bls. 131).

[183] Annar þeirra, Peder Fjeldsted Hoppe, kemur við sögu í Ferðarollu Magnúsar Stephensen. Þeir voru sam­ferða yfir hafið til Kaupmannahafnar árið 1825 og var Hoppe afar sjóveikur, sjá Magnús Stephensen. 1962:40.

[184] Páll Vídalín, Jón Eiríksson. 1985:61.

[185] Lbs. 135.8vo. bls. 123. Sjá Ópr. heimildir.

[186] Hafnarstúdentar skrifa heim. 1963:44.

[187] Hafnarstúdentar skrifa heim. 1963:44.

[188] Hafnarstúdentar skrifa heim. 1963:47.

[189] Tómas Sæmundsson. 1947:291.

[190] Magnús Stephensen 1962:54, hér er vísað til blaðsíðutals þessarar útgáfu

[191] Hér er ævifleygur. Hvar sem hann er í veislu tíundar hann hvað var á borðum og hvort rausnarlega var veitt eður ei. Ef hann er í óvæntri heimsókn eða fær sjálfur gesti er yfirleitt boðið upp á madeira sem er uppáhaldsvínið hans – Tómas Sæmundsson kallar madeira „Viðeýjarvín“ í Fjölni 1835 – og bakarísköku með. Sjá t.d. matseðla Magnúsar: 61, 67, 74, 88, 90, 94–5, 102–3, 105, 113, 114–15 og 128. Kannski tengist þessi matarástríða hans ástinni á konunni sem hann e.t.v. er að skrifa fyrir því eftir að hann hefur sent rolluna til Guðrúnar er ekki minnst á mat meir. Magnús gaf út fyrstu íslensku matreiðslubókina, „Einfaldt Matreiðslu Vasa Qver, fyrir heldri manna Húsfreyjur“ árið 1800. Kverið er sagt eftir Mörtu Maríu Stephensen en er jafnan eignað Magnúsi.

[192] Sjá Magnús Stepensen. 1947:87–8 og 136–7.

[193] Magnús Stepensen. 1962:117–18.

[194] Á myndinni er hann uppábúinn, sposkur á svip með vinalegar broshrukkur í kringum augun – maðurinn sem hann vildi vera. Þegar maður horfir í hin máluðu augu hans lýstur því niður í hugann, líkt og hjá Barthes forðum, að þessi augu horfðu á konunginn.

[195] Gizurr Einarsson biskup var líka veikur fyrir glingri í sölubúðum stórborga (sjá nmgr. 109) og keypti sér lítil vínglös þegar hann var í Höfn tæpum þrjúhundruð árum fyrr.

[196] Þetta kemur fram í bréfi Þorsteins Helgasonar, dags. 14. apríl 1825 (sjá Hafnarstúdentar skrifa heim. 1963:24). Þorsteinn ber engan hlýhug til Magnúsar af bréfinu að dæma. Hann uppnefnir Magnús „ábótann“ og hæðist að honum.

[197] Magnús Stephensen. 1947:131.

[198] Sigurður Gylfi Magnússon hefur fjallað um íslenskar dagbækur og hann segir m.a.: „Í raun fæst dag­bókarhöfundur oft við eitt flóknasta form tilverunnar sem er samspil manna og umhverfis. Dagbókin gefur okkur tækifæri til að skyggnast inn i hugarheim einstaklingsins og kynnast því hvernig hann hugsaði um samhengi lífs síns.“ Sigurður Gylfi Magnússon. 1995:311. Sigurður bebdir ennfremur á að dagbók geti veitt ótrúlega nákvæma sýn á veruleika og hugmyndaheim þess einstaklings sem bókina ritar því höfundurinn þurfi ekki að setja sig í stellingar til að tjá sig ef hann er að skrifa aðeins fyrir sjálfan sig. Þetta á vel við Ferðarollu Magnúsar sem annars ritaði stirðan og hátíðlegan texta.

[199] Um það leyti sem Magnús var að búast til brottfarar birtust harðorðar greinar í dönskum blöðum um stjórn hans á Landsuppfræðingarfélaginu. Þorsteinn Helgason rekur þetta nokkuð í áðurnefndu bréfi (sjá Hafnarstúdentar skrifa heim. 1962:29–30).

[200] Hafnarstúdentar skrifa heim. 1963:51. Bréf frá Torfa Eggerz, dags. 21. marz 1831.

[201] Sjá Sigurð Breiðfjörð. 1912:56–7 („ … því eg er að rita rollu mína“). Þessi tilvitnun er úr ljóðinu Til Ö(gmundar) Sívertsen. Ögmundur þessi (1799–1845) tengist nokkrum höfundum ferðasagna og honum skýt­ur upp hér og þar. Hann var drykkjubróðir Breiðfjörðs, kunningi Magnúsar Stephensen og sat í afmælisveislu hans þegar Magnús var Kaupmannahöfn (sjá Ferðarollu og bréf Þorsteins Helgasonar (sbr. Hafnarstúdentar skrifa heim. 1962:23) þar sem segir að Ögmundur hafi verið þar af brennivínslöngun einni saman. Hann var frændi Tómasar Sæmundssonar og tók á móti honum þegar hann kom fyrst til Hafnar 1827.

[202] Sbr. Eirík Hrein Finnbogason 1961:23.

[203] Í kaflanum er vitnað til útgáfu Eiríks Hreins Finnbogasonar, sjá Sigurð Breiðfjörð. 1961. í heimildaskrá.

[204] Sigurður Breiðfjörð. 1961:29.

[205] Sigurður Breiðfjörð. 1961:56.

[206] Sjá nánar um þetta hjá Eiríki Hreini Finnbogasyni 1961:20–22.

[207] Sigurður Breiðfjörð. 1961:50.

[208] Sigurður Breiðfjörð. 1961:65–6.

[209] Árni gagnrýnir danska kaupmenn og presta harðlega, sjá Árna Magnússon frá Geitastekk. 1945:33 og 47 og Láru Magnúsardóttur. 1993:21–3. Kristján Sveinsson sagnfræðingur ritar grein í Sögu 1994 um viðhorf Íslendinga til Grænlands á átjándu, nítjándu og tuttugustu öld, þ.á.m. um viðhorf íslenskra ferðalanga til Grænlendinga, sjá Kristján Sveinsson. 1994. Kristján fjallar stuttlega um bók Breiðfjörðs en merkilegt má telja að hann getur ekki Árna frá Geitastekk þar sem Grænlandskafli ferðasögu hans er bæði fróðlegur og merkilegur.

[210] Lýsingin á Grænlendingum sem útgefendurnir bættu við forðum hljóðar svo: „Þeir eru hreifilátir og þykjast umfram aðrar þjóðir og kalla sig eina menn (innuit), en aðra aðskotadýr (kablúnakka). Öllum Græn­lendingum, sem ekki eru kynblendingar, má þannig lýsa: Þeir eru lágir vexti, hrafnsvartir á hár, stinnhærðir og slétthærðir; þeir eru skegglausir og varaþykkir, úteygðir og mórauðir á yfirlit, vöðvamiklir og beinamjóir, manna hvatastir á fæti og vel náttúruhagir til allra smíða. Af konum er allt hið sama að segja; þó eru þær hárprúðari; margar þeirra eru þar á ofan smáhentar og fótlitlar“ (Sigurður Breiðfjörð. 1961:107). Þetta minnir mjög á lýsingar á Eskimóum í Almennri landaskipunarfræði, alþýðlegu fræðsluriti um lönd og lýði sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út á árunum 1821–7. Þar segir að Eskimóar séu litlir, flatleitir, varaþykkir og slikjuhærðir, áhyggjulausir, glaðværir og viðræðugóðir. Svipað er uppi á teningnum í öðrum kennslubókum og alþýðlegum fræðsluritum, sjá t.d. Kristján Sveinsson 1994:172–4.

[211] Sigurður Breiðfjörð. 1912:45.

[212] Sbr. Sverri Kristjánsson. 1966:69.

[213] Sighvatur Grímsson [Borgfirðingur]. 1912:14.

[214] Sbr. Þorstein [Jónsson] frá Hamri. 1987:69.

[215] Sbr. Þorstein [Jónsson] frá Hamri. 1987:70.

[216] Þorsteinn [Jónsson] frá Hamri. 1987:70.

[217] Sbr. Eirík Hrein Finnbogason. 1961:20.

[218] Sbr. Bréf Tómasar Sæmundssonar. 1907:293 (bréf til Jónasar Hallgrímssonar frá Jóni Halldórssyni, pró­fasti á Breiðabólstað).

[219] Sbr. Jón Helgason. 1941:60.

[220] Steingrímur biskup skrifaði vísitasíubók um ferðir sínar með Hannesi Finnssyni um prófastsdæmi á Íslandi í lok 18. aldar (Lbs.95.8vo). Þessi bók er ein þeirra sem tilheyra hinu gráu svæði ferðabókmennt­anna.

[221] Bréf Tómasar Sæmundssonar. 1907:2.

[222] Bréf Tómasar Sæmundssonar. 1907:4.

[223] Bréf Tómasar Sæmundssonar. 1907.5.

[224] Sbr. Steingrím Thorsteinsson. 1947:152.

[225] Bréf Tómasar Sæmundssonar. 1907:98.

[226] Ég tel að það mæli gegn því að Tómas sé fæddur þennan dag að ekki kemur fram í Ferðabókinni að ferð­in hefjist á þessum merku tímamótum, 25 ára afmælisdeginum.

[227] Sbr. Tómas Sæmundsson. 1947:8. Eftirleiðis er vitnað til Ferðabókar Tómasar með blaðsíðutali innan sviga.

[228] Meginmál er í Lbs.1443.4˚ (468 bls) og brot úr fyrirhuguðum inngangi ásamt uppskrift Hallgríms Mel­steð bókavarðar er í Lbs.2839.4˚. Þá er í JS.543.4˚ varðveittur stuttur útdráttur úr ferðabókinni eftir óþekktan höfund.

[229] Bréf Tómasar Sæmundssonar. 1907:117–23.

[230] Bréf Tómasar Sæmundssonar. 1907:93 (Úr bréfi til Jónasar Hallgrímssonar).

[231] Sbr. Bréf Tómasar Sæmundssonar. 1907:164.

[232] Bréf Tómasar Sæmundssonar. 1907:272.

[233] Sjá Bréf Tómasar Sæmundssonar. 1907:130–1, 151, 163, 170, 222, 224 og 268. Þar kemur einnig fram að hann hafði „eldritin“ undir höndum og „ránið á Vestmannaeyjum og ýmsar æfisögur“ og hugðist koma þessum verkum á prent (sbr. 1907:238). Í bréfi til Jónasar (4. apríl 1838) stingur Tómas upp á því að út­leggja hina frægu skáldferðasögu Róbinsons Krúsó á íslensku því hann veit að þá bók vill almenningur lesa (sbr.1907:240).

[234] Sjá Tómas Sæmundsson. 1835:48–94. Skip þetta var sent til Íslands til að ná í Friðrik Danaprins (síðar Friðrik sjöundi) en hann hafði dvalið hér á landi sumarlangt. Tómas virðist hafa haft nokkurn áhuga á sjó­mannastéttinni: „Mér er mikil skemtun í, að hugsa til þessarar ferðar, ekki af eíns afþví èg var laus við allt það andstreými og leíðindi, sem milli-ferðir vorar olla flestum þeím, sem eru óvanir sjóferðum, og átti í þess stað ánægjanlegustu daga, so èg vissi valla af að eg væri á sjó, heldur og sèrílagi þessvegna, að mér veíttist þar tækifæri til að sjá sjóferðirnar í sínum blóma, og kynna mér lífernis-háttu þeírra manna, sem mèr hefir ætíð mikið þótt tilkoma, og èg annars aldreí mundi sjeð hafa“ (Tómas Sæmundsson. 1835:53) Hann segir ýmislegt frá aðbúnaði sjómanna, m.a. því að sjór rann inn á þilfarið svo ekki var vært í nokkru rúmi – Ás­geir Sigurðsson og Magnús Stephensen segja frá þessu sama í ferðasögum sínum – og um lífshættuna sem fylgir sjómannsstarfinu ritar hann: „…og so var hásetum lítið um að fara uppí reíðann, að eg heýrði þá opt heita á guð í hljóði, er þess mundi viðþurfa. Fór þó hvur er búinn var, og tíndist eínginn“ (1835:51).

[235] Lbs. 752.4˚, 25v. Sjá Ópr. heimildir.

[236] Tómas Sæmundsson. 1947:3.

[237] Tómas var nákominn bóklegri hefð átjándu aldar, sjá Þóri Óskarsson og Þorleif Hauksson. 1994:482 o.áfr. Konráð Gíslason og Jónas Hallgrímsson ritskoðuðu texta Tómasar áður en hann birtist í Fjölni og breyttu honum, ekki alltaf til batnaðar að mati Tómasar. Ferðabókin og bréfin bera hinsvegar vitni um texta Tómasar sem ekki hefur farið í gegnum hreinsunareld þeirra kumpána.

[238] Tómas Sæmundsson. 1947:149–50.

[239] Tómas Sæmundsson. 1947:227.

[240] Tómas Sæmundsson. 1947:291. Leturbr. mínar.

[241] Sbr. Inga Sigurðsson. 1982:47.

[242] Almenn landaskipunarfræði. 1821–7:199. Bókin var í tveimur þykkum bindum (seinna bindið kom út 1827) og var oft kölluð „Oddsens Landaskipunarfræði“, kennd við einn höfundinn sr. Gunnlaug Oddsson (1786–1835). Tómas var henni kunnugur og nefnir hana í Ferðabókinni sem dæmi um handbók fyrir almenn­ing (sbr. Tómas Sæmundsson. 1947:92)

[243] Sbr. Bréf Tómasar Sæmundssonar. 1907:114.

[244] Sjá nánar um þetta, Þröst Helgason. 1995:298–301.

[245] Augljóst er að Tómas er ekki hrifinn af landlægri kaþólsku þar syðra en annars er ekki mikið um guð­fræði og guðstrú í Ferðabók hans miðað við að höfundurinn er ungur prestur. Kannski hefur hugur hans hneigst meira til bókmennta og heimspeki en guðfræðin orðið ofan á þar sem hún tryggði honum embætti í framtíðinni.

[246] Um skáldskaparfræði Tómasar sjá Árna Sigurjónsson. 1995:373–384. Á bls. 377 er t.d. tafla yfir bók­menntalega söguskoðun Tómasar.

[247] Í Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar er Tómasi lýst sem einkar glöðum manni, gamansömum en þó alvörugefnum og geðríkum með afbrigðum en skjótum til sátta, sjá Þórberg Þórðarson. 1982:13.

[248] Bréf Tómasar Sæmundssonar. 1907:127.

[249] Benedikt Gröndal. 1982:248.

[250] Jón Helgason. 1931:202.

[251] Lbs.668.4˚, P59. Nútímastafs. mín.

[252] Sbr. Almenn Landaskipunarfræði. 1821–7:111–14. Lýsingar í bókinni eru dæmigerðar fyrir vinnubrögð í anda klassísks hugsunarkerfis. Þjóðir heims eru flokkaðar eftir tilteknum breytum varðandi útlit og innræti og metnar eftir því á hvaða stigi siðmenningar þær standa. Allar lýsingar einkennast mjög af þjóðrembu og kyn­þáttafordómum.

[253] Sjá Guðrúnu M. Ólsen. 1994:19.