SKJÁREINN hefur nú riðið á vaðið með fyrstu fræðsluþættina um kynlíf í sögu íslensks sjónvarps. Hinir umtöluðu tantra-þættir hafa verið sýndir á besta sýningartíma stöðvarinnar á sunnudagskvöldum í nokkrar vikur.
SKJÁREINN hefur nú riðið á vaðið með fyrstu fræðsluþættina um kynlíf í sögu íslensks sjónvarps. Hinir umtöluðu tantra-þættir hafa verið sýndir á besta sýningartíma stöðvarinnar á sunnudagskvöldum í nokkrar vikur. Í hverjum þætti koma nokkur pör fram og lýsa reynslu sinni af samlífinu og ýmsum æfingum sem þeim er sett fyrir að prófa í hjónarúminu og fjalla síðan um kynlíf sitt fyrir og eftir kynnin af tantra. Inn á milli koma myndskeið sem ýmist sýna nakið fólk leika munngælur og vel heppnaðar samfarir þar sem gagnkvæm virðing og nautn er í fyrirrúmi eða Guðjón Bergmann tala um mikilvægi tantra með skíðlogandi arineld í baksýn.Það lítur út fyrir að menn skipist í andstæðar fylkingar eftir því hvað þeim finnst um þetta sjónvarpsefni: sumir hafa horft með áfergju á hvern þáttinn á fætur öðrum og jafnvel endursýningarnar líka (aðallega konur?) og aðrir hafa ekki afborið að horfa á heilan þátt (aðallega karlar?). Áhorfendurnir skiptast svo í mismunandi hópa eftir afstöðu: sumir hneykslast og fárast yfir allri tantra-vitleysunni en aðrir líta á þessa jógaspeki um gagnkvæmt orkustreymi og tilfinningaflæði sem ágætt innlegg í annars frekar fábreytta kynlífsumræðu samfélagsins. Flestum ber þó saman um að þættirnir hafi verið hálfvandræðalegir, jafnvel neyðarlegir á stundum. Bæði fyrir pörin sem hispurslítið afhjúpuðu leyndustu tilfinningar sínar og ástríðufulla ástarleiki frammi fyrir alþjóð og fyrir áhorfendur sem höfðu hálfpartinn á tilfinningunni að þeir lægju á gægjum og væru að hnýsast í einkamál annarra. Fólki er yfirleitt ekki tamt að tala um kynlífsiðkun sína í smáatriðum eins opinskátt og tantra-pörin gerðu – enda gripu þau til rósamáls og kynfærin hétu nú língam og jóní. Þar með var búið að pakka þeim inn í plast líkt og tímaritinu Bleiku og bláu og skinhelgin allsráðandi. Á vorum tímum viljum við vera yfirmáta frjálsleg og umburðarlynd, t.d. varðandi skyndikynni, nektardansstaði og vændi, en um leið erum við að berjast við að halda í gömlu gildin um ást sem leiðir til hjónabands og gullbrúðkaups í fyllingu tímans. Boðskapur tantra-þáttanna er íhaldssamur að mörgu leyti: fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og til þess að hún rísi undir þeim kröfum sem gerðar eru til hennar verður samruni hjónanna að vera „tantrandi“ traustur. Það er til hagsbóta fyrir alla.
Nú hafa tantra-þættirnir lokið göngu sinni og pörin væntanlega farin að iðka sitt göfuga, djúpa og heildstæða kynlíf bak við luktar dyr. Ekki er annað að sjá en framtak hinnar nýju sjónvarpsstöðvar mælist þokkalega fyrir, hneykslisraddir eru a.m.k. hjáróma. Áhorfendum SkjásEins hefur fjölgað snarlega út á listina að elska almennilega og stór hluti þjóðarinnar hefur fengið nóg um að tala á kaffihúsunum, í vinnunni og – vonandi – undir sænginni.
STEINUNN I. ÓTTARSDÓTTIR
Lesbók Morgunblaðsins, 2. júní 2001