Jólin byrja snemma í ár. Útvarpsstöðin Létt 96,7 reið á vaðið með fyrsta jólalagið í októberlok og síðan hefur þeim heldur farið fjölgandi á öldum ljósvakans. Fjölmiðlarnir eru strax farnir að dansa í kringum gullkálfinn og birta jólaauglýsingar næstum daglega. Úr þeim má lesa illa dulin skilaboð um hvernig fyrirmyndarfjölskyldan á að haga undirbúningi jólanna. Byrjað er á því að mála íbúðina eða fá sér parket, síðan er keypt einhver ný mubla til að fríska upp á stofuna, gjarnan eftir sæmilega þekktan hönnuð. Tilboðin streyma inn: ef þú kaupir sófasett fyrir jólin fylgir sófaborð frítt með; þvottavélar, sjónvörp, hljómflutningstæki og baðinnréttingar eru á einstöku verði þessa dagana. Þetta er líka rétti tíminn til að fá sér nýtt rúm enda bakið orðið ansi bogið eftir allt streðið á árinu. Svo þarf að þjóta í Ikea, jólin byrja jú þar, og kaupa nýstárlegt jólaskraut úr plasti í fallegum og glaðlegum litum. Nauðsynlegt er að glugga í jólagjafahandbækurnar, skoða nýjustu kökublöðin og fara á námskeið í jólaskreytingum og –föndri. En það er ekki nóg að prýða heimilið, konan þarf að komast í kjólinn fyrir jólin. Enginn má vera feitur eða ljótur á jólunum; líkamsræktarstöðvar bjóða hagstæð leikfimitilboð til að grennast og styrkjast áður en átveislan mikla hefst og sparifötin á alla fjölskylduna eru komin í litprentuðum og glansandi Hagkaupsbæklingi. Ljósabekkjakortin, gervineglurnar og andlitsböðin eru víðast með miklum afslætti til áramóta. Og komið nýtt kortatímabil.
Í nýjustu Vikunni birtust viðtöl og myndir af fræga fólkinu sem deilir dýrindis uppskriftum að kökum og kruðeríi með lesendum. Það er munur að geta á hátíð ljóss og friðar boðið upp á kökur að hætti Siggu Beinteins eða Ágústu Johnson; þannig tökum við þátt í jólunum með þotuliðinu. Jónína Bjartmars og Bryndís Hlöðversdóttir eru ofurkonur sem bæði annast þing- og eldhússtörf af miklum sóma og munar ekki um að galdra fram hnallþórur á svipstundu. Það er ekki að skilja að þetta fólk sé stressað, þreytt eða gjaldþrota þegar jólin loksins ganga í garð eins og við hin. Við ættum að taka okkur það til fyrirmyndar og reyna að sjá fyrir okkur hamingjusamar og fullkomnar fjölskyldur þeirra gæða sér á jólanamminu þegar allt er komið í óefni hjá okkur sjálfum.
Staðreyndin er sú að jólin kosta meðaljóninn stórfé en hvort stafa eyðslan og neyslan af auglýsingaflóðinu eða öfugt? Það er umdeilanlegt en ljóst er að sitthvað hefur breyst í jólafjölmiðlun landans á undanförnum áratugum og kynt er undir jólahasarnum mun fyrr en áður var. Rúv heldur samt blessunarlega í hefðirnar og leikur ekki eitt einasta jólalag fyrr en 1. desember, mest íslensk jólalög og sálma. Annað sem enn má treysta er að á ári hverju birtast pistlar í blöðunum í sama vandlætingartón og hér er notaður. Þar er fussað og sveiað yfir nútímanum og horft með söknuði til gömlu áranna þegar epli og kerti voru munaðarvara, hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna, mamma var í eldhúsinu eitthvað að fást við mat en pabbi hætt kominn í kaupstaðarferðinni, á Þorláksmessu í myrkrinu og vonda veðrinu, með væna flís af feitum sauð. Og sönn jólagleði ríkti í hjartanu.
Steinunn Inga Óttarsdóttir
Lesbók Morgunblaðsins, 23. nóvember 2002