Heilög þrenning hefur orðið  

 

Um áramót er ríkjandi sú tilhneiging að líta um öxl, rifja upp gleði og sorgir, sigra og ósigra og meta gengiskúrfu ársins sem er að líða. Allir fjölmiðlar eru uppfullir af þessari áráttu; yfirliti helstu frétta, sögu stjórnmálanna, stöðunni í efnahagsmálunum, svæsnustu fréttamyndunum, bestu myndböndunum, íþróttaannálum, tölu látinna í umferðarslysum o.s.frv. Áramótauppgjörinu fylgja jafnan hátíðleg ávörp helstu forystumanna til þjóðar sinnar. Að þessu sinni settust þrír jakkafataklæddir karlar í þægilegan stól við stórt eikarskrifborð með íslenskt landslag, fána eða bóndabæ í baksýn og fluttu landsmönnum boðskap sinn við áramót.

 

Fyrstur á skjáinn var Davíð Oddsson, forsætisráðherra. Ávarp hans var á afleitum útsendingartíma, þjóðin sat prúðbúin undir gnægtaborðum og kjamsaði á veisluréttum, vín glóði í glösum og jólaljósin skörtuðu sínu fegursta. Sumir skrúfuðu niður í sjónvarpinu og gutu augunum aðeins endrum og sinnum á ráðherrann þar sem hann hreyfði varirnar og horfði alvarlegum augum á landsmenn. Einhverjir heyrðu þó þegar hann varpaði fram þeirri spurningu hvort nýliðið ár væri „hörmungarár“ og svaraði því sjálfur til að svo væri ekki þar sem margar hörmunganna væru mestmegnis „heimatilbúnar hrellingar“ og af því mætti draga drjúgan lærdóm, hver sem hann nú var. Næstur á mælendaskrá var Markús Örn Antonsson, útvarpsstjóri, sem tónaði fyrir tómum stofum því þjóðin öll var úti í garði að sprengja upp tertur, flugelda og blys – fyrir um þrjúhundruð milljónir króna. Því miður fór framhjá flestum að „ávarp“ hans var býsna  poppað. Hann lagði sig allan fram til að brydda upp á nýjungum og þáttur hans höfðaði bæði til heyrnar og sjónar. Síðastur þremenninganna var forseti lýðveldisins og hefði ræða hans inntaksins vegna kannski átt að vera á undan hinum tveimur.  Í ávarpi sínu boðaði Ólafur Ragnar þegnunum sparnað; ekki bara í ríkisrekstri heldur einnig á heimilunum. Ræða hans fór verulega fyrir brjóstið á mörgum timburmanninum sem á nýársdag staulaðist fram úr bólinu eftir flugeldasýningu næturinnar, þrúgaður af vísaskuldum og viðvarandi láglaunastefnu, til að heyra hvað nýlega skattskyldur og trúlofaður forsetinn hefði fram að færa þessar tuttugu mínútur sem hann ávarpar þjóð sína á ári hverju.

 

Ávörp forystumanna þjóðarinnar voru afar keimlík; búningur þeirra uppskrúfaður, myndmálið hefðbundið og rammíslenskt, efnið yfirborðslegt, landsfeðratónninn allsráðandi en ábyggilega vel viðeigandi á slíkum stundum. Áramótaávörpin skipa virðingarsess hefðar og hátíðleika í huga þjóðarinnar sem sótti í þau bæði huggun, sátt og von. Hér gefst kærkomið tækifæri til að segja eitthvað merkilegt, eitthvað nýtt, eitthvað satt. En ræðumennirnir láta það jafnan sér úr greipum ganga og falla í klisjugildrurnar hverja af annarri. Það er löngu ljóst hvað má tala um í ávarpi sem þessu og hvað ekki. Hvernig væri að einstæð móðir, gamall maður, nýbúi, sjúklingur, barn, búandkarl, listamaður eða venjulegur launþegi á Dagsbrúnartaxta fengið orðið við næstu áramót? Er ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að nýr tónn verði sleginn í áramótaræðunum? Og kannski nennir þá einhver að hlusta.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgublaðsins, 12. janúar 2002

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s