Á okkar litla landi hafa menn löngum haft mikinn áhuga á ættfræði og stært sig af að vera komnir af konungum, skáldum og hugrökkum landnámsmönnum sem létu sér fátt fyrir brjósti brenna og sigldu hingað með storminn í fangið. Nýlega var hleypt af stokkunum glæsilegum, íslenskum ættfræðivef á netinu undir heitinu Íslendingabók. Að honum standa Íslensk erfðagreining og tölvufyrirtæki Friðriks Skúlasonar en gagnagrunnurinn samanstendur af tiltækum heimildum um íslenska ættfræði, s.s. manntölum, kirkjubókum og niðjatölum sem neftóbakskarlar hripuðu forðum á blað við flöktandi grútartýru. Vefurinn er smekklegur, einfaldur og auðvelt að rata um hann og frá því hann var opnaður hefur gríðarlegur fjöldi fólks lagt leið sína þangað til staðfestingar á göfugum uppruna sínum. Á vinnustöðum, í kaffiboðum og á opinberum vetvangi er hin vefræna Íslendingabók aðalumræðuefnið og þeir sem ekki hafa enn sótt um aðgang að henni eru sem tröll í heiðríkju og tæplega samkvæmishæfir.
Vefurinn hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum. Langar blaðagreinar og glæst viðtöl snúast um það einsdæmi sem ættfræði Íslendinga er og Kári sjálfur mætti í sjónvarpið með ættfærslur þekktra stórmenna í farteskinu. Ættfræðiáhugamenn hafa skrifað í blöðin og ekki fundist þeim nægur sómi sýndur sem lögðu til heimildir í gagnagrunninn; að rannsóknir þeirra séu nýttar án endurgjalds eða nokkurs þakklætis. Þá hefur öðrum fundist að þessar upplýsingar ættu ekki að vera aðgengilegar á veraldarvefnum og nefnt persónuvernd og einkalíf í því sambandi. Ekki verða þeir glaðir sem skoða framætt sína og komast að því að þeir eiga ættir að rekja til kotunga og þræla, dæmdra snærisþjófa og niðursetninga frá Neðri-Traðarkotshjáleigu og vilja helst halda þeim myrku rúnum utan við upplýstan tölvuskjáinn. Þá hafa nokkrir tjáð sig um villur í grunninum enda hvatki missagt í fræðum þessum; alnöfn ruglast saman, ættleiðingar flækja málin og tengingar verða þar af leiðandi rangar. Gróa gamla hefur verið störfum hlaðin, sögusagnir eru á kreiki um land allt, t.d. um eiginkonuna sem sá það fært til bókar að maður hennar átti barn út í bæ; og að óþekkt hálfsystkin hafi skotið upp kolli í annars sómakærum fjölskyldum, þeim ýmist til hrellingar eða ómældrar gleði. En á vefnum gefst notendum kostur á að senda athugasemdir og þannig fást ókeypis leiðréttingar og nákvæmur yfirlestur kunnugra manna. Vefurinn verður því stöðugt uppfærður með engum tilkostnaði og hugtökin gagnvirkni og þjóðnýting fá nýja vídd.
En … „hvað binzt við nafn?“ Það var nokkuð áfall fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar þegar erlendur vísindamaður lýsti því yfir í fjölmiðlum að erfðafræðigrunnur Íslendingabókar væri ekki sérlega hentugur fyrir tilgátur og rannsóknir. Uppruni Íslendinga væri af ýmsum toga, forfeðurnir bæði norskir og írskir auk þess sem margar þjóðir hefðu siglt hingað út forðum daga til verslunar og viðskipta og sáð fræi í frjóan svörð þegar ballið var búið, eins og skáldið kvað. Dómur vísindamannsins var sá að þjóðir sem byggju í Wales eða Baskahéruðunum væru „hreinni“ og því heppilegri til vísindalegrar kortlagningar á t.d. arfgengi sjúkdóma. En til hvers eru þessar upplýsingar þá nýtilegar? Ef til vill dagar islendingabok.is uppi sem dægradvöl fyrir ættfræðinörda eða börn og unglinga sem sýna vefnum mikinn áhuga og leita glaðbeitt að sönnunum fyrir skyldleika við Birgittu Haukdal, íþróttahetjur og kannski forsetann; rokdýr tölvuleikur – en með ríkisábyrgð.
Steinunn Inga Óttarsdóttir
Lesbók Morgunblaðsins, 13. mars 2003
*Rómeó og Júlía, þýðing Helga Hálfdanarsonar.