Beckham í búðarferð  

Í fréttum er þetta helst … fótboltahetjan David Beckham vermdi varamannabekkinn í úrslitaleik Manchester United og Real Madrid. Breska dagblaðið, Daily Mail, birti mynd af Beckham á forsíðu og  „show business editor“ blaðsins fjallaði nánar um málið í opnugrein. Þar kemur fram að Beckham hafi verið svo vonsvikinn og örvinglaður eftir setu á bekknum að hann æddi í næstu fataverslun og eyddi rúmlega 1,2 milljónum – í  þrjár skyrtur, jakka og tvennar buxur. Á heilsíðumynd sést hann ganga eftir regnvotu stræti með Armanipoka, farsíma og úttroðið seðlaveski í annarri hendinni; í hvítum ermastuttum bol, strigaskóm og rifnum gallabuxum sem hann heldur uppi um sig með hinni. Hárbandið fræga er á sínum stað en hann er niðurlútur og þungbrýnn.

 

Í greininni um búðarferð Beckhams er sagt frá sambandi hans við þjálfara sinn frá unga aldri, Sir Alex Ferguson. Sá skapbráði Skoti á hvert bein í Beckham og er ekki sáttur við húðflúr hans né hárgreiðslu og gríðarlega frægð sem hann telur spilla fyrir fótboltaferlinum. Ferguson er meinilla við konu Beckhams, Victoriu fyrrum Kryddpíu, og er það víst gagnkvæmt. Allt frá því Victoria heimtaði að þau hjónin færu í brúðkaupsferð 1999 hefur hann haft horn í síðu hennar enda var Beckham frá æfingum á meðan. Í nýlegri ævisögu Fergusons segir hann að Victoria hafi gífurleg áhrif á mann sinn og hafi gjörbreytt honum. Velgengni hans utan fótboltavallarins er reyndar sögð algerlega henni að þakka. Beckham ber hæst á stjörnuhimninum nú um stundir, söluverðmæti hans sem fótboltamanns eru rúmir 6 milljarðar króna og árstekjur hans eru rúmlega einn milljarður.

 

Ekki líður sá dagur í breskum fjölmiðlum öðruvísi en þau Beckhamhjón séu fréttamatur; myndir af þeim og viðtöl eru ávísun á metsölu. Breska slúðurblaðið OK keypti einkarétt á brúðkaupsmyndunum fyrir eina 120 milljónir og í síðasta blaði var viðtal þar sem Victoria ber af sér meintar lýtaaðgerðir;  þau koma fram í spjallþáttum, m.a. hjá hinum virta Michael Parkinsson og hjá Ali G; sérstakur stimpill með fangamarki þeirra hjóna er settur á valdar vörur (VD); sérhönnuð fatalína fyrir stráka sem kennd er við DB7 er seld hjá Marks og Spencer og eftir heimsmeistarakeppnina sáu Japanir ástæðu til að reisa Beckham bronsstyttu í Búddhalíki. Í fjölmiðlum er dregin upp mynd af Beckhamhjónunum sem friðsemdar- og fjölskyldufólki sem unir sér helst í sinni gríðarstóru og íburðarmiklu „Beckinghamhöll“. Hann er ljúfur og feiminn heimilisfaðir sem hefur gaman af að búa til mat og hefur látið flúra nöfn sona sinna, Brooklyn og Romeo, á bakið en nafn eiginkonunnar er ritað á framhandlegg hans. Hún er hins vegar sögð athyglisjúk, metnaðargjörn og þjáð af lystarstoli. En frægðin hefur skuggahliðar; tvær tilraunir hafa verið gerðar til að ræna Victoriu og drengjunum og nú lifir hún í stöðugum ótta og fer aldrei út í búð nema í brynvörðum bíl.

 

Bretar láta þau skötuhjú fylla skarðið sem Díana prinessa skildi eftir sig í gulu pressunni enda Beckham aðdáunar- og eftirbreytniverður; fallegur, kynþokkafullur, heilbrigður og bestur í fótbolta (hvorki Georg Best né Eric Cantona voru æskilegar fyrirmyndir). Beckhamhjónin þrífast á umtalinu sem fylgir frægðinni. Þau maka krókinn, selja sig hæstbjóðanda og eru orðin heimsfræg og vellauðug en auglýsingatekjur Beckhams eru svimandi háar. Þau hjón eru lýsandi dæmi um hjáguðadýrkun samtímans. Í veröld auglýsinga, vörumerkja, sjónvarpsviðtala og slúðurblaða er ótrúlegum fjárhæðum velt og menn fljótir að sjá í hverju gróðavonin liggur. Markaðsetning Beckhams í Japan tókst snilldarlega og æðið breiðist út um heim allan. Beckham er frétt utan vallar sem innan, á bekknum og í búðarferð. Og fjölmiðlarnir sjá til þess að almenningur sé „alltaf í boltanum“ svo fjárfesting auðhringanna í ímynd Beckhams skili sér örugglega í vasa Armani, Adidas og Vodafone.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Lesbók Morgunblaðsins, 10. maí 2003

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s