Popp og klám

Tónlistarþættir eins og Skonrok(k) og Poppkorn sem voru gerðir fyrir sjónvarp á hinum ofurhallærislega níunda áratug nutu mikilla vinsælda. Þar sýndu poppáhugamenn valin tónlistarmyndbönd og átrúnaðargoðin stigu fram á stofugólf í allri sinni dýrð. Oft var efni lagsins sett í leikrænan búning sem dýpkaði túlkun þess verulega. Ekki er ólíklegt að drjúgur hluti vinsælda Wham og Duran Duran hafi einmitt verið hinum epísku og íburðarmiklu myndböndum að þakka.

Þróunin í gerð tónlistarmyndbanda var afar hröð og nú hefur myndbandið a.m.k. svipað listrænt gildi og lagið sjálft. Á sjónvarpsrásinni Popptíví ganga tónlistarmyndböndin nú tímunum saman ungu kynslóðinni til ómældrar gleði. Þar eru „heitustu“ myndböndin valin fyrir áhorfendur/ –heyrendur og leikin æ ofan í æ. Vitaskuld er hér aðeins um lítið brot af framleiðslunni að ræða og valið háð smekk og gróðahyggju einhverra markaðsspekúlanta á bak við tjöldin. Myndböndin í Popptíví eru mikið augnayndi og sum hver hrein listaverk þar sem heilmikið er lagt í sviðsmynd og umgjörð alla. En heimsmynd tónlistarmyndbanda er stöðluð og klisjukennd; ætla mætti að það væri bara til ungt og fallegt fólk í heiminum – eða a.m.k. aðeins ungar og fallegar konur. Sjónarhorn myndavélanna beinist mjög að kvenlíkamanum og það er langur vegur frá hinu djarfa myndbandi Duran Duran, Girls on Film, til nútímans. Fyrirferð kynferðislegra skilaboða hefur stóraukist og athyglinni er linnulítið beint að líkamshlutum eins og andliti, brjóstum, maga og rassi sem eru klipptir inn í nærmynd. Fegurð og kynþokki eru undirstrikuð með öllum tiltækum ráðum; filterum, lýsingu, líkamsstöðu og svipbrigðum. Einu virðist gilda hvort konur eru flytjendur tónlistarinnar eða leikendur – eða jafnvel leikmunir eins og í kynningarmyndbandi íslenska evróvisjónlagins.

Myndband Jennifer Lopez, Love don’t cost a thing, er nýlegt dæmi um kvenlíkamann í aðalhlutverki. Lopez er ýmist sýnd á göngu vaggandi mjöðmunum eða hálfnakin á sólarströnd með vindinn í hárinu að velta sér upp úr rökum sandinum eða að dansa við fjallmyndarlega vini sína. Flest öll tónlistarmyndbönd nota granna, sólbrúna kvenmannskroppa og fögur, vel snyrt andlit til að markaðssetja lag og flytjanda. Mörkin milli popps og kláms eru orðin ansi óljós. Sítt flaksandi hár, sílikonbrjóst, þröngur og fleginn fatnaður, eggjandi hreyfingar, hálfopinn munnur með þrýstnum og rökum vörum… Hverju er verið að lýsa? Klámmyndaleikkonu? Nei, tónlistarmyndbandi nútímans.

Stöðluð, kynferðisleg kvenímynd tónlistarmyndbandanna gengur aftur í klæðnaði og hegðun ungra stúlkna. Í Séð og heyrt eru myndir af þeim á skemmtistöðum borgarinnar, klæddum eins og þær stundi elstu atvinnugrein í heimi. Þetta er afleiðing þeirrar líkams- og kynlífsdýrkunar sem nú tröllríður öllu (!) og hefur breyst í áþján sem gefur kvennakúgun fyrra alda ekkert eftir. Vert er að staldra við og velta fyrir sér hvert poppklámsiðnaðurinn stefni héðan af. Hvar draga menn mörkin? Verður brátt boðið  upp á tónlistarmyndbönd fyrir fullorðna? Þá munum við Simon le Bon horfa á eitthvað annað.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

 

Lesbók Morgunblaðsins

13. júní 2001

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s