2021 Haust – Um stafræna nýlendu, Chetna Gala Sinha og sex mínútur af einveru

Kæru útskriftarnemendur, góðir gestir og stoltir aðstandendur, og frábæra samstarfsfólk

Það er mikill heiður fyrir mig að fá að ávarpa þennan fríða og glæsilega hóp nemenda FVA. Þið hafið nú lokið formlegu námi við skólann þrátt fyrir heimsfaraldur sem hefur haft áhrif á allt í samfélaginu. Þið hafið mörg hver lengst af stundað námið við frekar óvenjulegar aðstæður. Með andlitsgrímu, utan kennslustofu jafnvel og sjaldnast var nokkuð um félagslíf í skólanum sl tvö ár vegna samkomutakmarkana og smithættu. En ykkar tókst að halda þetta út!

Við í FVA munum alltaf hugsa til ykkar sem hópsins sem braust í gegnum kófið – hópsins sem upplifði skólalokun í mars 2020 og bjó upp frá því við mikla óvissu en aðlagaðist  breyttum aðstæðum á ótrúlega skömmum tíma, hópsins sem tókst að gera gott úr hlutunum og ná markmiðum sínum. Vel gert! Og í rauninni er það afar hollur lærdómur og gott veganesti ef horft er á björtu hliðarnar eins og gott er að temja sér: það að læra að mæta andstreymi, sigrast á erfiðleikum, láta ekki bugast og aðlagast aðstæðum. Þó þið hefðuð lært fátt annað en þetta hér í FVA þá væri það bara nokkuð gott!

Það líður að jólum og fátt er notalegra en að baka smákökur, pakka inn góðum gjöfum til vina og vandamanna og hlusta á jólalög í leiðinni. Úrvalið af jólatónlist er endalaust og sérlega handhægt að grípa bara í símann og spila uppáhaldslögin sín í gegnum Spotify. Eins og allir vita eru flest jólalög algjör klisja, en eiga samt stað í hjartanu, tengjast minningum um liðin jól sem gaman er að rifja upp á góðri stund. Ég hlusta til dæmis alltaf á Leita að gjöf handa þér, með Skítamóral þegar jólin nálgast. En þá bregður svo við að inn á aðganginn minn á Spotify fara að hlaðast tilboð um fleiri lög með Skímó og allskonar klénir lagalistar með klisjulegum lögum sem einhver herra algrímur eða ungfrú gervigreind hafa soðið saman og segja ekkert um annars mjög svo háleitan og fágaðan tónlistarsmekk minn! Sama gerist með streymisveitur eins og Netflix, ein væmin jólamynd kallar á aðra. Af hverju er ég að segja ykkur frá þessu? Jú, þetta er nefnilega dæmi um svokallaða “stafræna nýlendu” sem ég vil endilega vekja athygli ykkar á: (það er jú alltaf góður dagur ef maður lærir nýtt orð eða orðasamband) og þetta er lítið dæmi um það hvernig sótt er í sífellu inn á svið mannlegrar tilveru – með okkar samþykki – til þess að hafa áhrif á hegðun okkar, hugmyndir og ákvarðanir. Með þessu er  ég ekki að segja að tæknin sé slæm eða hættuleg, ég er að segja að við eigum að stjórna henni en tæknin á ekki að stjórna okkur. Nú er svo komið að við höfum meiri áhyggjur af athugasemd á samfélagsmiðlum en því sem gerist fyrir utan gluggann okkar, nú er svo komið að við getum varla verið ein með sjálfum okkur í nokkrar mínútur án þess að fitla við eitthvert skjátæki og leiðum ekki hugann að því að það er einhver að græða á því (sjá Sverrir Norland, Stríð og kliður 2021).

Í stafrænu nýlendunni eyðir meðalmanneskja allt að 10 klst á dag við skjáinn og potar ca 2000 sinnum í símann sinn – já á dag. Þar er gögnum um okkur safnað, hvert einasta stafrænt skref er skráð og notað í einhverjum tilgangi, markaðslegum oftast, líka pólitískum. Reynslan sýnir að við gefum þessar upplýsingar fúslega og ókeypis. Nú getum við varla farið út að ganga nema telja skrefin og skrá í Strava, varla farið í leikhús án þess að birta mynd af því á Instagram, varla drukkið úr vatnsglasi nema skrá magnið í þar til gert smáforrit sem hrósar þér eða hvetur til meiri eða minni vatnsdrykkju eftir atvikum. Hvað verður um frjálsan vilja, ímyndunarafl, undrun og ævintýri við þessar aðstæður?

Það var nýlega gerð tilraun þar sem þátttakendur voru látnir sitja í einrúmi við autt borð og án síma, bókar eða nokkurrar afþreyingar. Ein möguleikinn á að hafa eitthvað fyrir stafni var að veita sjálfum sér vægt rafstuð ef manni tæki að leiðast. Það ótrúlega gerðist að eftir aðeins sex mínútur voru margir byrjaðir að prófa að gefa sjálfum sér stuð! Eftir sex mínútur af einveru. Allt frekar en vera eitt með sjálfu sér (Stríð og kliður 2021).

Því bið ég ykkur, kæru útskriftarnemar, að leiða hugann framvegis að þessari stafrænu nýlendu þegar þið seilist í símann ykkar í tíma og ótíma – nú þegar þið þurfið ekki lengur að lesa námsbækurnar alla daga… Nú þegar við sleppum af ykkur hendinni og við hættum að reyna að stýra tíma ykkar, reynið þá að láta ekki sogast inn í hringiðu neyslu, markaðar og afþreyingar í símanum þar sem tíminn rennur milli fingranna eins og sandur – heldur staldrið aðeins við, hugsið á gagnrýninn hátt (rýna til gagns) og spyrjið ykkur sjálf: þoli ég sex mínútur af einveru? hvaða Skímó-spor vil ég skilja eftir á netinu? Vil ég vera vöktuð í gegnum símann minn? Og spyrjið einnig ykkur sjálf: gæti ég notað tímann í annað?  td lesa í bók, sem er sjálfstæð, frelsandi og skapandi athöfn, á eigin hraða með eigin aðferð; 6 mínútur á dag er milljón sinnum betra en ekkert!

Nú eruð þið á tímamótum, að ljúka ykkar námi hér í FVA sem er góð tímasetning til að setja sér markmið fyrir framtíðina. Eitt þeirra gæti einmitt verið að gefa sér tíma til einveru, og reyna að hafa hemil á skjátímanum og að gæta að sporunum sem við skiljum eftir okkur í nýlendunni.  Annað markmiðið gæti verið að reyna alltaf að vera virk og skapandi í athöfnum og taka afstöðu og taka þátt, í stað þess að láta mata okkur og móta okkur – í þágu annarra. Því hverra hagur er það td að borga fyrir vöru eða þjónustu með símanum eða snjallúrinu? Það er fyrst og fremst hagur bankans!

Og talandi um banka. Þriðja markmiðið sem gott er að setja sér til framtíðar gæti verið að reyna að láta gott af sér leiða í þessu lífi. Stundum þarf að breyta svo litlu til að áorka svo miklu. Stundum stendur úrelt hugmyndakerfi í veginum fyrir þróun og framgangi og þá þarf hugvit og hugrekki til að breyta því. Ég heyrði sögu af indverskri konu, Kantabai að nafni, sem vann hörðum höndum sem járnsmiður í milljónaborg á Indlandi. Hún hafði verkfærin sín öll í einum poka sem hún skildi aldrei við sig og verklaunin sín faldi hún innan klæða því hún átti hvergi heima og svaf á götunni. Hún var að spara til að safna fyrir húsaleigu og tókst að spara örlítið á dag (minna en 100 kr ísl). en alltaf var yfirvofandi hætta á að hún yrði rænd þarna í öngþveitinu og neyðinni sem ríktu á götum borgarinnar.

Kantabai fór í bankann og vildi fá að stofna sparnaðarreikning. En afgreiðslukonan sagði að til þess þyrfti hún að hafa kennitölu sem hún hafði ekki frekar en milljón aðrir Indverjar og skv. reglum bankans væri hún með of lágar tekjur til að geta stofnað reikning. Þetta barst til eyrna bankastarfsmanns sem heitir Chetna Gala Sinha og þið getið gúgglað. Sinha hugsaði með sér, hvernig eiga fátækar konur að komast af og bæta kjör sín ef þær hafa ekki aðgang að bankakerfinu?

Sinha ákvað að leggja allt í sölurnar að breyta þessu. Hún gekk á milli stofnana, fyrirtækja og ráðuneyta og kom allstaðar að luktum dyrum. Enginn vildi í fyrstu aðstoða fátækar konur við að koma undir sig fótunum, þær kunnu jú hvorki að lesa né skrifa, hvaða framtíð væri í þeim sem viðskiptavinum? En Sinha svaraði þá einarðlega: það má vel vera að þær kunni ekki að lesa og skrifa, en þær kunna alveg að telja! Og er skemmst frá því að segja að henni tókst árið 1997 að stofna banka, MannDeshi- bankann, fyrsta banka á Indlandi sem hefur það að markmiði að styðja við konur með því að gæta sparifjár þeirra og veita hagstæð lán til að stofna eigið fyrirtæki, þannig að þær geti orðið fjárhagslega sjálfstæðar. Og nýjar reglur voru settar, konurnar þurfa ekki að hafa tilteknar lágmarkstekjur, og þær þurfa ekki að hafa kennitölu eða pin númer, fingrafar er nóg til að eiga viðskipti í bankanum.

Og um leið og konurnar öðlast fjárhagslegt sjálfstæði, vænkast hagur samfélagsins alls, m.a. hagur barna sem eiga td meiri möguleika á að fá að ganga í skóla. Hamlandi reglur og kerfislægar takmarkanir búa til stöðnun og eru mannanna verk, sem alltaf þarf að skoða með gagnrýnu hugarfari og stundum hreinsa burt, og það þarf bara einn, eina manneskju sem vill láta gott af sér leiða til að gera heiminn betri fyrir okkur öll. Ég er ekki að segja með þessari sögu að þið eigið öll að gjöra svo vel að breyta heiminum en – öll getum við gert eitthvað, enginn getur allt.

Kæru útskriftarnemar, takk fyrir samfylgdina í FVA, það eru forréttindi að fá að starfa með ungu fólki og það var gaman að vera með ykkur. Megi ykkur auðnast að setja ykkur markmið um framtíðina.

Megi ykkur auðnast áfram að sigrast á erfiðleikum eins og þið hafið sýnt og sannað að þið getið.

Megi ykkur auðnast að eiga sex mínútur fyrir ykkur sjálf, helst daglega.

Megi ykkur auðnast að horfa á regluverk með gagnrýnu hugarfari og taka ekki öllu sem gefnu.

Megi þið frelsast undan oki stafrænu nýlendunnar sem vill ráðskast með hugsanir ykkar, tíma og peninga.

Megi ykkur auðnast að láta gott af ykkur leiða á einhvern hátt, fyrir ykkur sjálf eða í ykkar nánasta umhverfi.

Þegar ég horfi yfir þennan fríða hóp segi ég: Ég hef fulla trú á að þið getið allt þetta! Njótið dagsins og til hamingju!